Hveragerði
Aðsetur listamanna
23. júní 2018
Útskriftarverkefni 3. árs nema í byggingarlist vorið 2018
N63° 59’ 56.297” W21° 11’ 16.853”
Þorpsmyndun hófst í Hveragerði árið 1929, Hveragerðishreppur var stofnaður 1946 og varð bæjarfélag 1987. Í árslok 2016 eru íbúar Hveragerðisbæjar 2.473. Hveragerði byggðist í landi Vorsabæjar í Ölfusi en nafnið var upphafega á hverasvæði því sem er í bænum miðjum, sunnan og vestan kirkjunnar. Hveragerði er fyrst skráð í Fitjaannál laust fyrir 1700 þar sem sagt er frá tilfærslu goshvers í landskjálftum 1597. Af lýsingu Ölfushrepps árið 1703 eftir Hálfdan Jónsson lögréttumann á Reykjum má ætla að hverir hafi þá verið nýttir til baða, suðu og þvotta. Enn kemur Hveragerði við sögu árið 1844 þegar ákveðið var að flytja lögréttir Ölfusinga frá Hvammi í Borgarheiði við Hveragerði. Fyrsta tilraun til þurrabúðarlífs í Hveragerði tengist byggingu ullarverksmiðju við Reykjafoss í Varmá árið 1902. Vatnshjól og reimdrif knúðu vélar hennar og árið 1906 var sett upp lítil vatnsknúin rafstöð til ljósa og gatan að þjóðvegi við Ölfusréttir upplýst ári síðar, fyrsta götulýsing í dreifbýli á Íslandi. Reykjafossverksmiðjan var rekin til 1912 og árið 1915 var hún rifin nema grunnurinn sem enn sést.
Á árunum upp úr síðari heimsstyrjöld og fram á miðjan 7. áratug 20. aldar dvaldi fjöldi þjóðþekktra listamanna í Hveragerði – tónskáld, listmálarar, myndhöggvarar, rithöfundar og skáld. Settust þeir flestir að við þrjár götur vestarlega í þorpinu eins og það var á þeim tíma, við Laufskóga sem var gata tónskáldanna, Frumskóga þar sem skáldin bjuggu og Bláskóga þar sem listamenn fundu sér samastað. Hveragerði var ekki stórt þegar listamenn hófu að flytja í þetta sérkennilega þorp þar sem hverir og heitt vatn sauð við hvert fótmál, aðeins nokkrar moldargötur og þýfðir móar og hraungrýti þar á milli. Listamennirnir voru stór hluti íbúa Hveragerðis og settu því sterkan svip á mannlífið í þorpinu. Má í raun segja að ekkert annað byggðarlag á Íslandi hafi nokkurn tíma komist nær því að geta kallast listamannanýlenda eins og víða var þekkt erlendis.
Listamanna residensía
Lengi hefur tíðkast að listamenn, hönnuðir, fræðimenn og vísindamenn setjist tímabundið að á nýjum stað í þeim tilgangi að íhuga, endurnærast og upplifa samhliða fjölbreyttari hliðar á vinnu sinni; listsköpun, hönnun, rannsóknum eða framleiðslu.
Meginhlutverk slíkrar starfsemi er tvíþætt. Annars vegar að gefa þeim sem dvelur, gestinum, tækifæri til að kynnast nýrri menningu, nýju fólki og nýju umhverfi sem, oftar en ekki, verður til að opna augu hans fyrir nýjum nálgunum, efnum, hugmyndum, lausnum og leiðum í vinnu sinni. Á hinn bóginn eru slíkar heimsóknir ekki síður mikilvægar fyrir gestgjafann, samfélögin sem taka á móti gestunum. Í mörgum tilfellum verða gestkomandi virkir meðlimir í samfélaginu og hafa bein áhrif á það með samtali, samstarfi, viðburðum og inngripum í ólíka þætti samfélagins. Þannig geta gestirnir haft jákvæð áhrif, veitt heimamönnum innblástur og stuðlað að betra og öfugra samfélagi. Aðrir gestir taka minna þátt á beinan hátt í samfélaginu á meðan dvölinni stendur, draga sig í hlé og kjósa að nýta rýmið sem þeir hafa til umráða og umhverfið á annan máta. Engu að síður vinna þeir með reynsluna sem og upplifun af staðnum og geta virkjað hann með nýjum tengingum og verkefnum sem kallast á við staðinn á einn eða annan hátt. Á hvorn veginn sem er verður staðurinn ríkari fyrir vikið.
Listamanna residensíur eru jafn fjölbreyttar og þær eru margar. Þær geta verið hluti af stærri stofnunum, söfnum, skólum, fyrirtækjum, bæjarfélögum eða óháðar sjálfstæðar einingar. Starfsemin getur verið árstíðabundin eða samfelld árið um kring og lengd dvalar er fjölbreytt og ræðst af þeim verkefnunum sem unnið er að hverju sinni. Fjöldi þeirra sem dvelja í residensíu á hverjum tíma getur einnig verið margbreytilegur. Það er engin ein rétt formúla fyrir residensíu en flestar eiga þær þó það sameiginlegt að byggja sérstöðu sína á einkennum þess staðar sem þær eru staðsettar á.
Verkefnið
Nemendur áttu að hanna residensíu sem býður upp á dvalar-, vinnu- og sýningarstað fyrir listamenn. Residensían skyldi staðstett innan bæjarmarka Hveragerðis og starfsemi hennar skyldi að einhverju leyti tengjast við auðlindir, innviði, og sérkenni staðarins. Nemendur ákváðu staðsetningu, vægi og fjölda bygginga og skyldu rökstyðja nálgun sína með vísun í verkefnið og staðinn.
Nemendum var einnig frjálst að velja hvort þeir nýttu sér mannvirki bæjarins, og prjónuðu á einhvern hátt við þau og þá starfsemi sem fyrir er, eða hvort þeir völdu að nálgast residensíuna sem stakstætt/stakstæð mannvirki.
Áhersla var lögð á að nemendur sköpuðu heildræna sýn fyrir verkefnið og sýndu hvernig hið manngerða umhverfi er hugsað í samhengi við hlutverk sitt og samfélagið í Hveragerði – hvernig getur arkitektúr fléttað saman stað og starfsemi og fest í sessi listamannabæinn Hveragerði?