ÁKALL
24. janúar – 23. apríl 2015
Ásthildur Björg Jónsdóttir
Öll viljum við lifa góðu lífi en erum þó ekki endilega sammála um hvað sé gott líf. Fjölskyldan, vinir, góð heilsa, fjölbreytt menning, traust, sjálfstæði, efnahagslegt öryggi, heilbrigt og fallegt umhverfi, samkennd og kærleikur eru þættir í okkar lífi sem saman móta lífsgæðin. Til að skapa forsendur fyrir góðu lífi þarf að hlúa að fjölmörgum þáttum og ekki síður samspili þeirra. Flestir gera sér grein fyrir að eyði maður um efni fram kemur að skuldadögum. Með skammtíma sjónarmið í huga, tímabundnum auknum lífsgæðum, skapar maður í raun versnandi lífsgæði nú og í framtíðinni. Að lifa lífinu á þann hátt að maður viðhaldi góðu lífi án þess að skerða lífsgæði annarra er lykillinn að sjálfbærni.
Listaverkin á sýningunni tengjast öll orðræðunni um sjálfbærni og þeim siðferðilegu málefnum er tengjast þeirri vinnu sem stuðlar að þróun í átt að frekari sjálf bærni. Sjálfbærni felur í sér umhverfislega, hagræna og félagslega þætti sem skarast. Breytingar innan hvers þáttar hafa alltaf áhrif í öðrum. Þróun getur bara verið sjálfbær ef hún virðir efnahags, samfélags og umhverfisþætti. Það er mikilvægt að hafa í huga þann arð sem sameiginlegar auðlindir gefa af sér. Auðlindirnar þarf að vernda og nýta á skynsamlegan hátt. Í sjálfbæru samfélagi rýra bætt kjör okkar ekki kjör annarra eða draga úr möguleikum þeirra til að bæta kjör sín. Til þess að stuðla að slíku samfélagi verðum við að vinna að því að ekki sé gengið á náttúruauðlindir. Leggja þarf áherslu á að koma á framfæri þekkingu sem hjálpar fólki að nota náttúruna skynsamlega. Mikilvægt er að kynnast hringrásum náttúrunnar því líf á jörðinni er háð náttúruauðlindum hennar. Áskorun mannsins felst m.a. í því að hagþróun taki tillit til fé lagslegra og umhverfislegra þátta. Náttúruauðurinn er verðmætur og því er mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir mikilvægi þess að viðhalda honum og þjónustu þar sem samfélagi og hagkerfi er beitt. Erfitt er að ræða einungis um umhverfismál því það þarf ávallt að taka mið af samfélaginu.
Oftast eru skýr tengsl á milli menningar og sjálfbærni en menning getur haft rík áhrif á hegðun, neyslumynstur og framleiðsluhætti. Þekking er nauðsynleg forsenda fyrir sjálfbæru samfélagi og ætti að marka gildismat okkar og ákvörðunatöku. Flestum er eðlislægt að leita sér þekkingar og hefja sig þannig upp yfir aðstæður í umhverfinu.
Með aukinni þekkingu á heiminum lærum við hvernig allt í náttúrunni tengist. Þekkingin gerir einstaklingum kleift að uppgötva eigin hluteild í náttúrunni og sam- félaginu sem er forsenda þess að viðkomandi geti tengt á milli atburðarása og séð viðburði í samhengi. Verkin á sýningunni Ákall benda okkur á ýmsa þætti sem vert er að skoða í samhengi við sjálfbærni og geta hjálpað til við að velta fyrir okkur samhengi manns og náttúru. Samhengi og þekking eru forsenda þess að geta tekið þátt í að vinna gegn uggvænlegum afleiðingum af ósjálfbærri hegðun mannsins sem hefur neikvæðar afleiðingar fyrir komandi kynslóðir. Forsendur breytinga eru þátttaka allra, samvinna og virðing fyrir stað og stund.
Í sjálfbæru samfélagi manna er samkennd, jafnrétti og umburðarlyndi haft að leiðarljósi því félagslegur jöfnuður er grunnur af sjálfbæru samfélagi. Jöfnuður á sér margar ólíkar myndir sem allar eiga það sammerkt að krefjast samkenndar og umburðarlyndis. Við val á listaverkunum var haft að leiðarljósi að veita áhorfendum tækifæri til að hugsa um þær félagslegu aðstæður sem verkin voru sköpuð í og hver væru sjónarhorn listamannanna. Þannig vekur inntak verkanna spurningar hjá áhorfendum sem er kveikja túlkunar og veitir þeim forsendur til að taka listaverkin alvarlega.
Illviðráðanleg vandamál
Mörg illviðráðanleg vandamál samfélagsins tengjast menningarlegum og félagslegum þáttum sem er erfitt eða ómögulegt að leysa sökum eðlis þeirra. Þau eru ófyrirsjáanleg og áhrif geta verið mörg og viðhorf fólks til þeirra eru misjöfn, fjölbreyttir einstaklingar með ólík sjónarhorn tengjast vandamálunum, lausnirnar geta verið margar og áhrif þeirra byggjast á ólíku gildismati.
Listaverkin á sýningunni tengjast illviðráðanlegum vandamálum samfélagsins. Með því að velta umfjöllunarefni þeirra fyrir okkur vakna hugrenningar um sjálfsvitund okkar í tengslum við staði sem við þekkjum og þau áhrif sem við höfum á þá. Sýningin Ákall veitir sýningargestum tækifæri til íhugunar og skapar forsendur fyrir ágreining. Þannig grafa verkin undan fullyrðingum sem almennt eru taldar algildar án þess beinlínis að benda á röksemdir til að draga þær í efa. Með þessu móti verður Listasafn Árnesinga vettvangur til að: hreyfa við fólki, skapa svigrúm til að fjalla um þá spennu sem ríkir í heiminum og sýna verk sem tengjast reynslu sýningargesta.
Markmið sýningarinnar er að veita safngestum tæki færi til að kynnast málefnum sjálfbærni út frá listræn um nálgunum og varpa fram spurningum um þau mikilvægu málefni sem allir verða að láta sig varða.
Hvernig getum við lært af listaverkum?
Listsköpun er ekki merkingarlaus heldur má segja að listaverk þjóni tilgangi ósýnilegs glugga sem túlkar heiminn. Í samfélagi sem leitar eftir sjálfbærri þróun er mikilvægt að virða ólík form þekkingar. Þau verk sem valin eru á sýninguna ýta undir gagnrýna hugsun og hvetja áhorfendur til þess að taka afstöðu til þeirra málefna sem verið er að vinna með hverju sinni og krefja þá jafnvel til þátttöku. Þesslags listaverk henta vel til að fá áhorfendur til að skilja þau vandamál sem þeir standa frammi fyrir er varða sjálfbærni. Sambandið á milli verkanna á sýningunni og umfjöllun um ein stök verk snerta vistfræði, umhverfismál, jafnrétti og heimspeki á fjölbreyttan hátt, og tengjast sjálfbærri þróun. Verkin taka á spurningum um hver við erum, hvernig við forgangsröðum, heiminn sem umlykur okkur, hvernig við hegðum okkur, hvaða áhrif sú hegðun getur haft á umhverfi okkar og samfélag.
Samband manna við náttúruna
Sum verkanna vekja áhorfendur til umhugsunar um samband manns og náttúru. Hvernig nýtum við auðlindir okkar? Hvaða áhrif getur iðjuleysi haft í för með sér, svo sem leti, sinnuleysi eða slóðaskapur? Siðferðislegar spurningar tengjast félagslegum þáttum og ákvörðunum sem oft eru teknar án víðtæks samráðs. Stolt hefur margar birtingarmyndir hjá einstaklingum og í þjóðfélaginu sem heild og hefur oft neikvæð áhrif. Það er mikilvægt að allar ákvarðanir séu byggðar á þekkingu og það metið hvaða áhrif aðgerðir hafa á stað, stund og komandi framtíð. Þá er nauðsynlegt að leggja eigin metnað til hliðar og taka þann tíma sem þarf til að skilja aðstæður áður en næstu skref eru tekin. Leggja ætti áherslu á réttindi allra og ábyrga nýtingu auðlinda. Þeir sem viðhafa slík vinnubrögð vinna í anda auðmýktar, hógværðar og gagnsæis með samkennd, jafnrétti og umburðarlyndi að leiðarljósi. Félagslegur jöfnuður er grunnur að sjálfbæru samfélagi. Afleiðingar lítið ígrundaðra ákvarðana eru oft ill viðráðanlegar og því erfitt að meta hvaða lausnir eru bestar.
Flestir sem ferðast um Ísland hrífast af fegurð, mikilfengleika og fjölbreytileika landslagsins ef þeir gefa sér tíma. En í nútímasamfélagi er margt sem glepur hugann og við gefum okkur oft ekki tíma til að njóta þess sem fyrir augu okkar ber.
Verk Eggerts Péturssonar bendir okkur á fegurðina í hinu smáa. Við þurfum oft ekki að ferðast langa leið til að upplifa mikilfengleik náttúrunnar. „Málverk er málverk, ekki blóm. Þó að málverkin mín sýni ákveðnar blómategundir og ég reyni að vera trúr öllum grasafræðilegum smáatriðum eru þetta ekki blómin sjálf. Mér finnst líka nafn loka á margvíslega tilfinningalega upplifun, það beinir verkinu í ákveðinn farveg þegar ég er að reyna að halda öllu opnu. Það er nóg að fólk þekki blómin í verkum mínum, ég þarf ekki að segja því hvað þau heita og enn síður í hvaða stellingar á að setja sig til að horfa á þau.“ (Eggert Pétursson, 2007)
Listamaðurinn Rúrí er gjarnan pólitísk í verkum sínum. Í mörgum verka hennar er henni umhugað um tengsl mannsins við umhverfi sitt og áhrif mannlegra athafna á jörðina. „Mannkynið virðist sífellt vilja sigra náttúruna, en það er ekki til neinn sigur gagnvart jörðinni; það eina sem við getum sigrað erum við sjálf með því að finna eitthvert gullið jafnvægi með umhverfi okkar. Það er eini sigurinn sem er raunhæfur“ (Rúrí 2012). Verkið Foss I-IX, vekur hugrenningar um mikilvægi vatns.
Verk Ólafar Nordal Íslenskt dýrasafn – Skoffín (2005) er byggt á þjóðsögu um óvættinn skoffín sem sam kvæmt þjóðtrú er skepna eða afskræmi sem er kyn blöndun hunds /kattar og refs. Afkvæmi óskyldra dýra, bastarður sem fólk óttast vegna þess að það er ókunnuglegt. Í nútímasamfélagi er sambærilegan ótta að finna hjá fólki gagnvart siðum og venjum þjóðarbrota sem við ekki þekkjum. Slíkur ótti kallast rasismi. „Skoffín eru hræðileg dýr sem geta drepið með augnaráðinu einu saman, það er ekkert sætt eða krúttlegt við það.“ (Ólöf Nordal, 2015). Goðsögnin varð síðan að ‘veruleika’ þegar skoffín fæddist á Flateyjardal á Norðurlandi um miðja síðustu öld. Náttúrufræðistofnun ákvað að skera úr um sannleiksgildi skepnunnar með því að rannsaka dýrið sem enn er varðveitt. Beitt var aðferð erfðafræðinnar rétt eins og ef réttarlæknisfræðin væri að skoða meintan glæp eða faðernismál. Við rannsókn á vefjasýnum úr dýrinu frá Flateyjardal var leitað að erfðaefni hunds eða refs. Niðurstaðan var sú að dýrið reyndist vera hundur. Í öllum tilfellum þar sem lifandi skoffín hafa komið til álita á þeim svæðum heims sem refi er að finna hefur það sýnt sig að þar sé aðeins á ferðinni náttúrulegur breytileiki í hundinum. Með verkinu varpar Ólöf ljósi á málefni líðandi stundar, frávik dýra og manna. Verkið vísar bæði fram og aftur í tíma þar sem það hefur í gegnum aldirnar verið uppspretta þjóðsagna Íslands. Fyrr á öldum var fólk hrætt við vansköpuð dýr, taldi þau af hinu illa. Í verkinu vísar Ólöf líka til samskipta manns og náttúru og áherslna mannsins á að reyna að ná tökum á náttúrunni. Í gegnum tíðina hefur Ólöf rannsakað fjölbreytt tilfelli frávika sem eiga sér stað við eðlilegar aðstæður. Með athugunum sínum leggur hún áherslu á margbreytileika náttúrunnar sem er viðkvæm fyrir inngripi mannsins. Einnig er áhugavert að velta fyrir sér hvor við viljum frekar trúa sögunni sem lifði á Flateyjardal eða erfðafræðinni sem er búin að afsanna ímyndunaraflið, goðsögulegan hlut sem heldur samt áfram að vera til þó að hann sé bara til í huga okkar.
Gjörningaklúbburinn hefur einnig velt fyrir sér inngripi mannins. Í verkunum Þróun og Háaloft fá áhorfendur tækifæri til að velta fyrir sér að hve miklu leyti maðurinn hefur fjarlægst uppruna sinn. Verk Gjörningaklúbbsins fjalla oft um félags og menningarlega þætti, gjarnan samspil manns og umhverfis, þar sem Gjörningaklúbburinn hefur skoðað hnattvæðingu og poppmenningu. Listamennirnir nota efnivið og að ferðir sem oft eru frekar tengdar konum s.s. hekl, saum og vefnað þar með taldar nælonsokkabuxur. „Um leið og okkur finnast nælonsokkabuxur vera ótrúlega heillandi og merkilegt verkfræðilegt fyrirbæri þá eru þær líka dæmi um það hvernig maðurinn reynir að ‘lagfæra’ eða ‘fegra’ náttúruna t.d. með því að framleiða nælonsokkabuxur sem er ætlað að ýta rassinum upp og maganum inn. Nælonsokkabuxur eru fjölda framleiddar, á þær koma lykkjuföll og þær endast því ekki mjög lengi sem slíkar en við lengjum lífdaga þeirra með verkunum okkar. Við erum líka í sambandi við framleiðanda sem lætur okkur fá afgangs eða gallaðar brækur. Nælonið á uppruna sinn í olíu þannig að þær eru líka okkar olíulitir ef svo mætti segja.“ (Gjörningaklúbburinn, 2015)
Það tekur olíu langan tíma að myndast, sé of mikið tekið af olíu úr jörðu er gengið á náttúruauðlyndina og hún klárast á endanum. Nælon eins og annað plast brotnar mjög seint niður í náttúrunni og úrgangurinn skapar vandamál. Gjörningaklúbburinn byggist á samvinnu og mjög lýðræðislegum vinnubrögðum þar sem ekkert er honum óviðkomandi. Samvinna er forsenda þess að samfélög geti þróast í átt að meiri sjálfbærni.
Áhrif manns á náttúruna og umhverfið
Í verkinu Þú hefur andlit með útsýni eftir Þorgerði Ólafsdóttur er hugleiðingum varpað fram um reynslu og upplifanir af ferðalögum og stöðum. Á undanförnum árum má sjá hvernig valdir staðir á Íslandi hafa verið nýttir til markaðssetningar á ferðamennsku og náttúrunni. Hraði samfélagsins er mikill og oft virðist sem við verðum að komast yfir allt strax. Ferðamenn þeysast um landið til að sjá alla áhugaverðu staðina. Andlitsmyndirnar eru samklipp úr póstkortum sem Þorgerður notar til að túlka viss persónueinkenni vina sinna sem sátu fyrir. Titill verksins kemur úr lagi hljóm sveitarinnar Talking Heads, This Must Be the Place, frá árinu 1983 en í laginu koma fyrir ljóðlínurnar „Out of all those kinds of people, you’ve got a face with a view.“ Verkið getur líka vakið spurningar varðandi auk inn ferðamannaiðnað og þau áhrif sem aukinn ágangur getur haft á náttúruna. „Ofgnótt mynda af náttúrunni gerir það að verkum að maður fer að spinna upp rómantíska fantasíu af ákveðnum stöðum. Stöðum sem eiga heima í vísindaskáldsögum eftir Jules Verne og William Morris. Þessi eyja er uppspuni, en samt viltu trúa hverju kennileiti og lýsingarorði.“ (Þorgerður Ólafsdóttir, 2015)
Í verkunum Leiðarendi og (Ó)fyrirséð eftir Ásdísi Spanó hefur listamaðurinn þróað eigin vinnuaðferðir í átt að sjálfbærri efnisnotkun. Í stað þess að nota hefð bundin þurrkefni og olíu sem er í eðli sínu neikvæð fyrir náttúruna nýtir hún blandaða tækni með fundnum og umhverfisvænni efnum. Á sama tíma veltir hún líka fyrir sér hvaða ófyrirsjáanlegu afleiðingum við stönd um frammi fyrir vegna þeirra áhrifa sem við höfum á náttúruna. „Línuna tengi ég gjarnan við tímann og þann marglaga veruleika sem einkennir borgarmynd hins vestræna heims. Línulaga láréttir fletir þræða sig í gegnum lífræna áferð myndflatarins og sameinast honum líkt og manngert umhverfi verður samofið náttúrunni.“ (Ásdís Spanó, 2015)
Revelation (Afhjúpun) eftir Hrafnkel Sigurðsson sýnir bóluplast liðast um neðansjávar. Verkið hefur tilvísanir í umbúðamenningu því bóluplast er framleitt til að vernda aðra framleidda hluti. Myndirnar tók Hrafnkell í íslensku stöðuvatni á um 10 metra dýpi. „Á einhverjum tímapunkti ímyndaði ég mér að umbúðirnar af verkinu sjálfu hefðu sogast inn í flötinn og væru þar á floti“ (Hrafnkell, 2014). Mikið magn af plasti er á floti eða marandi í hálfu kafi í höfum heimsins. Mest af þessu plasti endar líklega ferðalag sitt í plastflákunum sem hafa myndast á miðjum úthöfum í grennd við hvarfbaugana, þar sem hafstraumar safna smátt og smátt öllu lauslegu inn á sama svæði. Plast getur valdið miklum skaða í náttúrunni. Stærstur hluti plastneyslu fer í urðun með öðrum úrgangi, og á urðunar stað tekur niðurbrot plastsins nokkrar aldir. Þegar plast brotnar niður í smærri einingar kemst það auðveldlega inn í fæðukeðjuna. Ýmis eiturefni sem borist hafa út í náttúruna setjast hins vegar gjarnan á litlar plastagnir og gera þannig enn meiri skaða en þau hefðu annars gert. Þetta verk vekur spurningar um eigin neyslu og orsakasamhengi neyslu.
Verk Rósu Gísladóttur Ótti við óvini framtíðarinnar er yfirsterkari gleði minni yfir samtímanum lýsir ótta lista mannsins við þá mengun sem velferðarþjóðfélagið leiðir af sér. „Velferð okkar í nútímanum er dýru verði keypt því að hún felur í sér umhverfisspjöll sem má líkja við óvini sem liggja í leyni í framtíðinni.“ (Rósa Gísladóttir, 2015) Verkið vekur áleitnar spurningar um neysluvenjur okkar.
Í verkum sínum fæst Rósa gjarnan við tvískinnungs hátt, þar sem hún skoðar bilið á milli þess sem er einhvers virði og þess sem við metum sem rusl. „Kannski erum við haldin ástar– haturssambandi við umbúðir… Allt sem nútíminn tekur að láni hjá framtíðinni er í skuld komandi kynslóða.“ (Rósa 2014?)
Neysla er flókið fyrirbæri og sjaldnast við einhvern einn að sakast. Neyslumynstur þjóðar getur kallað á kröfur um stóriðju sem talin er þjóna ákveðnum hópum. Pétur Thomsen vinnur með það mark sem maðurinn hefur sett á umhverfið sökum krafna samfélagsins um aukinn efnahagsvöxt og kröfu um aukna raf- magnsframleiðslu. Í ljósmyndaseríunni Aðflutt landslag lýsir hann umbreytingu landslagsins við Kárahnjúka. Verkið sýnir á hlutlægan og dramatískan hátt ummerki mannsins. Sárin eftir jarðýturnar eru stór og minna okkur á að leyfa náttúrunni að njóta vafans þar sem hún á sér engar varnir.
Innsetning Bjarka Bragasonar samanstendur af vídeó verkinu Það, pappírsverkinu Á því sem það og skúlptúrnum Í því sem það. Verkið byggist á ís úr Sólheimajökli sem fannst í ruslafötu fyrir utan Háskólabíó eftir vísindaráðstefnu. Ísinn hafði verið notaður til að sýna fram á hvernig hægt er að lesa tímabil og veðursögu í honum. Í verkum sínum skoðar Bjarki gjarnan hvernig gildismat verður til og rannsakar afganga af verðmæt um efnum, rústir og leifar. Ísinn skoðaði Bjarki sem hlut sem er á mörkum þess að vera merkilegt fyrirbæri sem eina stundina er skoðað sem vísindalegt sönnunar gagn sögunnar og tímans, og rusl aðra stundina. Í til raun sinni til að nálgast viðfangsefnið skar Bjarki ísinn í tvennt með heitum hníf. Annan helminginn bræddi hann á pappír með hitabyssu en hinum helmingnum sökkti hann í steypublöndu, sem bræddi ísinn með efnasamskiptum hörðnunar. Verkin á sýningunni horfa á hverfulleika efnisins og veita áhorfandanum forsendur til að velta fyrir sér annarsvegar orsakasamhengi og hinsvegar óljósum sönnunargögnum einhvers atburðar sem hefur átt sér stað og skilið eftir sig mark.
Verkið Vald Vitneskjunnar eftir Önnu Líndal ber í titlin um áleitna spurningu sem fær áhorfandann til að velta fyrir sér því valdi og ábyrgð sem fylgir þekkingunni. „Skilningur getur verið margskonar, t.d. leiddi skilningur manna á atómkjörnum til þess að hægt var að ‘virkja’ kjarnorkuna (1940) og er það dæmi um víxl verkun vísinda og samfélags á tuttugustu öld sem margir vildu að aldrei hefði orðið. Forvitni um um hverfi sitt og þörfin á að fylgjast með því, þekkja það og skilja, gerir okkur hæfari til að lifa af. “ (Anna Líndal, 2015) Þegar fólk lærir og öðlast þekkingu þá til einkar það sér leiðir til skilnings. Þegar fólk lærir að lifa í sátt og samlyndi við aðra og umhverfið þarf það að vera meðvitað um eigin gildi, hafa færni og þekkingu til að búa með öðrum. Þannig hefur eðli þekkingar margslungið hlutverk í samfélaginu. Í verkum sínum bregst Anna við ytra áreiti, rannsakar örsmáar einingar til að kanna stóra samhengið. Spyr spurninga um orsök og afleiðingu, skoðar hvernig söguleg kúgun speglast í samtímanum og hvernig frumkrafturinn sem gerir lífið að lífi sprettur fram í hversdeginum. Í verkinu Má bjóða þér meira? sýnir Anna Líndal áhugaverða myndlíkingu þess hvernig hversdagsleg athöfn sem fer úr böndunum verður þar með að ógn við ríkjandi kerfi. Í þessu verki gefst okkur tækifæri til að velta fyrir okkur samfélagslegri stöðu kvenna og því regluverki sem daglegt líf stjórnast af. Íslensk gestrisni kemur upp í hugann, græðgi og hvernig neysla getur auðveldlega farið úr böndunum.
Sjálfsmynd Íslendinga
Verk Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar, Án titils, er hluti af stóru rannsóknarverkefni þar sem listamennirnir skoða félagslegt og umhverfislegt misrétti og græðgina sem einkennir efnishyggju samtímans. Í verkinu standa listamennirnir tveir fyrir framan fyrsta íslenska álverið. Þeir draga fram siðferðislegt sjónarhorn þar sem áhorfandinn er hvattur til að meta líf og menningu. Gagnrýni á samtímann er einkennandi fyrir flest verka Libiu og Ólafs. Hér nota þau kímni til að benda á mikilvægi félagslegra umbóta og færa þannig áhorfandanum tækifæri til gagnrýninar hugsunar varðandi efnahagslegar og pólitískar áherslur á Íslandi, þar með talinn þann umhverfiskostnað sem hlýst af nýtingu Íslendinga á vatnsafli.
Verkið Íslenskir fuglar eftir Bryndísi Snæbjörnsdóttur og Mark Wilson býður upp á hugleiðingar um eðli flokkunarkerfa. Hvernig sumir eru innlimaðir og boðnir til þátttöku og aðrir eru alltaf sem óboðnir gestir. Þetta á bæði við í samböndum manna og dýra. Verkið vekur gagnrýnar vangaveltur um tregðu mannsins til að breyta. Svo virðist sem nýjungar skapi ótta á sama tíma og hið framandi er spennandi. Verkið hefur sterka skírskotun til þjóðernishyggju og gefur áhorfendum forsendur til að velta fyrir sé spurningum um þróun samfélagsins og auknum áherslum á goðsögnina „hrein þjóð“. Í innsetninguna raða listamennirnir upp uppstoppuð um fuglum úr íslenskri náttúru og við hlið þeirra er veggspjald með framandi fuglum sem upprunalega koma frá heitari svæðum en á undanförnum árum hafa verið flutt inn á íslensk heimili sem gæludýr. Áhugavert er að skoða verkið í ljósi þess hvernig hugmyndir um þjóðir og þjóðernishyggju hafa þróast í fortíð og nútíð, og velta fyrir sér hvað framtíðin eigi eftir að bera í skauti sér. Hinu alþjóðlega er teflt á móti því staðbundna, náttúrunni móti menningunni og því samþykkta á móti hinu forboðna. Hugleiðingar um uppruna gæludýranna fá okkur til að velta fyrir okkur hvenær maður verður Íslendingur. Öll eiga innfluttu gæludýrin sér fasta búsetu á Íslandi, jafnvel í margar kynslóðir, á meðan margir af „íslensku fuglunum“ eru farfuglar sem dvelja hér einungis stuttan tíma á sumrin.
Verk Óskar Vilhjálmsdóttur Bónus má túlka sem ádeilu á misrétti í samfélaginu. Verkið sýnir kaupmann sem á svo mikið að hann getur gefið til þeirra sem eiga of lítið og þar túlkar Ósk raunverulegan atburð úr íslensku samfélagi. Það er málað eftir fréttaljósmynd í anda áróðurs-veggspjalda frá byrjun síðustu aldar. Í verkum sínum skoðar hún gjarnan andstæður m.a. hugtök úr viðskiptalífinu; tengsl gróða og taps, góð vildar og græðgi. Ósk nefnir að þetta séu „ vúlgar“ orð sem menn vilja helst ekki nota. Í staðinn eru tækni orð notuð til að fegra hlutina eins og orðin: hagvöxtur, markaðslögmál, eignarhald og kaupmáttur. „Það er vert að spyrja sig hvers vegna sumt fólk á of mikið á meðan aðrir eiga nánast ekki neitt. Öll þessi tæknilegu orð viðskiptalífsins hafa fegrandi vonir, væntingar og vonbrigði. Þau fjalla ekki um raunveruleg verðmæti heldur væntingar. Hvað eru verðmæti? Hvenær erum við að græða og hvenær erum við að tapa?“ (Ósk Vilhjálmsdóttir, 2015)
Við getum haft áhrif
Sjálfbærni nær yfir mjög breitt svið og því er erfitt að gera sér grein fyrir því hvort verið sé að stíga skref í rétta átt auk þess sem vandamálin eru illviðráðanleg eins og áður var nefnt. Það er mikilvægt að allir velti því fyrir sér hvernig þeir geti látið sig málefnið varða. Í sjálfbæru samfélagi verða íbúarnir að vera virkir; þekkja og vera meðvitaðir um gildi, viðhorf og tilfinningar sínar gagnvart hnattrænum áhrifum okkar og jafnræði allra jarðarbúa.
Í myndaröð sinni Vopn byltingarinnar sýnir Spessi í anda kyrralífsmynda myndir af hversdagslegum heimilisáhöldum, pottum, pönnum, sleifum og kötlum, sem mótmælendur notuðu í búsáhaldabyltingunni, í þeim tilgangi að tjá sig um misrétti borgaranna. Vopnin endurspegla þá einstaklinga sem þeim beittu og því má segja að ljósmyndirnar séu portrettmyndir. Búsáhaldabyltingin var vikuleg, jafnvel dagleg, mótmæli félagslegra aðgerðarsinna sem hófust eftir bankahrunið á Íslandi haustið 2008 og héldu áfram árið 2009. Verkið er því einnig á sama tíma raunveruleg heimild um atburðina og dregur þannig fram óvænta sögulega merkingu hversdagslegra hluta – í samhengi mótmæla sem beindust gegn hégómadýrkun.
Verkið Krossarnir hans Skúla, allt um kring eftir Ásthildi Jónsdóttur sýnir hljóðlátari áhrif einstaklingsins.
Innsetningin sýnir Skúla Gunnlaugsson að störfum en hann hefur smíðað hátt í fimm hundruð ljósakrossa eftir að hann hætti búskap. Krossana hefur hann gefið einstaklingum sem búa allt í kringum Ísland og víða erlendis. Ljósmyndirnar sýna krossana í sínu hvers dagslega umhverfi víðsvegar um landið. Með ljósinu vill hann stuðla að friði sem er grunnforsenda farsældar í heiminum. Friður á sér margar myndir sem fela í sér að vera sanngjarn, sýna umburðarlyndi og gagnkvæma virðingu. Von hans með friðarljósinu er að saman getum við stuðlað að því að finna nýjar og skapandi leiðir til að efla skilning, vináttu og samvinnu gagnvart undrum heimsins sem okkur ber að vernda og taka sameiginlega ábyrgð á, þar sem virðing fyrir náttúru og manneskjum er höfð að leiðarljósi.
Innsetning Hildar Hákonardóttur veitir áhorfandanum tækifæri til íhugunar um sömu málefni. Verkið byggist á náttúrunni og þeirri orku sem henni tilheyrir. Heimurinn er íverustaður stöðugrar gerjunar, ígrundunar, tilviljana, mistaka og úrvinnslu. Með því að beina orku okkar að hinu jákvæða, staldra við og íhuga höfum við forsendur til að sýna þor, getu og vilja til að láta náttúruna njóta vafans. „Fyrir um 2.500 árum bjó á hinni fögru nýlendu Grikkja á Sikiley heimspekingurinn Empedocius. Hann formaði kenninguna um höfuðskepnurnar fjórar þótt talið sé að hugmyndin sé eldri. Þær voru eldur, loft, vatn og jörð og fylgifiskar þeirra þurrt, vott, kalt og heitt. Empedocius sló á létta strengi og setti fram einfalda jöfnu: vatn + loft + jörð + eldur = héri. Trúfræðingar bæta efnisleysunni, andanum við. Ég býð gestum að setjast á trjádrumbana og íhuga hvernig menn komust að þeirri niðurstöðu að um heimurinn væri samsettur úr þessum fjórum eindum auk andans. Eða erum við að ferðast inn í nýja heima þar sem þessi öfl eða vægi þeirra muni breytast? “ (Hildur Hákonardóttir, 2015)
Tengsl nútíðar, þátíðar og framtíðar
Verk Hildar Bjarnadóttur eru gjarnan byggð upp af hefðbundnum vinnuaðferðum kvenna. Í verkinu Endurgjöf eru ljósmyndir af fjórum vettlingum sem Hildur prjónaði handa ömmu sinni úr íslenskri ull sem er handlituð með litum sem Hildur vann úr plöntum sem amma hennar gróðursetti á landskika í Hvalfirði: „Garðurinn er bæði hugmyndaleg og efnisleg upp spretta fyrir þetta verk. Ég vinn liti úr plöntunum sem amma gróðursetti á landskikanum. Plönturnar og litur inn úr þeim eru tenging við ömmu mína þar sem hún gróðursetti þær og hlúði að þeim í tugi ára.“ (Hildur Bjarnadóttir, 2015) Heiti verksins speglar í raun endur gjöf Hildar til ömmu sinnar sem kenndi henni að prjóna og prjónaði fyrir hana vettlinga en þegar amman var hætt að prjóna snérist þetta við og Hildur prjónaði og gaf henni vettlinga. Verkið Án titils vísar því í uppruna Hildar og samband hennar við ömmu sína þar sem ljósmyndirnar sýna þær hjálpa hvor annarri við að prjóna, fyrst ömmuna hjálpa Hildi og svo Hildi að hjálpa ömmu sinni.
Guðrún Tryggvadóttir sýnir í verkinu Aldarklukka tengslin milli kynslóða. Með því að miðla milli kynslóða skapast forsendur fyrir samábyrgt þjóðfélag. Það felst í því að þroska hvern einstakling sem virkan borgara. Með því að endurmeta og halda í heiðri þá þekkingu og þau gildi sem skapa grunnforsendur fyrir tilfinningu okkar gagnvart umhverfi okkar og samferðafólki. „Aldarklukkan er myndræn framsetning tímans og tilraun til að sýna endurnýjun kynslóðanna í beinan kvenlegg. Formið er klukka, hver hringur er ein öld og einstaklingar kvenleggsins staðsettir á fæðingarári sínu svo langt sem heimildir ná eða aftur til ársins 1685. Næst okkur í tíma er dóttir mín fædd 1988, svo ég 1958 þá móðir mín 1938 og svo koll af kolli aftur um aldir. Að jafnaði þrjár kynslóðir á öld.“ (Guðrún Tryggvadóttir, 2015)
Þátttökulist
Þátttöku eða venslalist gengur út frá mannlegum samskiptum og félagslegu samhengi listsköpunar. Þátttökuverkin á sýningunni eiga það sameiginlegt að velta upp spurningunni hver sé höfundur verksins.
Í gjörningi sínum Samferða vinnur Gunndís Ýr Finn bogadóttir með tímann. Þó svo að áhorfandinn ímyndi sér að verkið sé óvirkt þegar hann er ekki á staðnum þá lifir verkið í líkama þátttakandans. Upplifun þátttakandans lifir bæði fyrir og eftir þátttöku hans í verkinu. ,,Líkamar þátttakendanna eru ekki aðeins til í rýminu (rútunni) heldur líka í tíma og í ferðalaginu tengist stund stefnumótsins við stundirnar fyrir og eftir. Þetta gefur möguleika á því að skapa sögu vegna þess að það eru ekki allir hlutar verkins aðgengilegir samstundis, eins og til dæmis í höggmynd.”
Í verkinu skoðar Gunndís hugmyndir þátttakendanna út frá menningarlegu minni, ferðalagi og samtali. Verkið felst í ferðalagi þátttakendanna á milli staða, frá Reykjavík til Hveragerðis. Verkið er upplifun þátttakendanna en með því móti spyrnir hún gegn efnishyggju og veltir á sama tíma upp spurningum um safneignir og hvaða stað efnislaus verk eiga í þeim.
Bókverkið Okkar náttúra – mínar óskir fyrir framtíðina sýnir myndgerðar óskir fyrir komandi kynslóðir sem sunnlensk ungmenni unnu undir stjórn Ásthildar Jónsdóttur. Með því að bjóða fólki að taka þátt í listinni er verið að stuðla að því að listin sé virkur þáttur í lífi þess og leið fyrir hvern og einn til að skoða lífsvið horf sitt. Hlutverk þessa verks á sýningunni í Listasafni Árnesinga er að skapa forsendur fyrir samtal á milli ungmennanna og gesta safnsins um sýninguna í heild sinni. Þessi hugmynd er í anda heimspekingsins Bourriaud sem útskýrir listræna iðkun sem ferli sem feli alltaf í sér tengslamyndun. Bókverkið er listrænn vettvangur til að efla áhuga okkar allra á þeim þáttum sem betur mega fara í samfélagi okkar og stuðla að sjálfbærni. Með bókverkinu er nemendum gefinn möguleiki á að tjá óhindrað skoðanir sínar, þar sem hver og einn tekur afstöðu til mála með því að hlusta, ígrunda, leita raka og meta rök. Sex listamenn sem stunda nám í listkennslufræðum við Listaháskóla Íslands tóku þátt í þremur af vinnusmiðjunum með sunnlensku ungmennunum.
Hvernig getur þú haft áhrif? Hvernig geta listaverk fengið áhorfendur til að skoða málefni sjálfbærni frá nýjum hliðum? Er náttúrunni fórnað í þágu hagvaxtar? Hver er hvati örlætis? Hver eru tengsl þekkingar, staðar og stundar? Hvernig getum við brugðist við breytingum í umhverfi okkar? Eru viðbrögð okkar við vísindalegum uppgötvunum nægilega hröð? Hvaða áhrif hefur lífsmynstur okkar? Hvað finnst okkur eðlilegt að kaupa, endurnýja og farga? Hverju erum við tilbúin að fórna fyrir eigin neyslu? Hversu mikla „gestrisni“ viljum við sýna erlendum iðnjöfrum er þeir falast eftir ódýru rafmagni? Hver ber ábyrgð á sjálfbærni? Hvað er gildi? Hvenær erum við að hagnast og hvenær erum við að tapa? Hvernig getum við skapað samábyrgt þjóðfélag?
Sýningarstjóri:
Ásthildur B. Jónsdóttir (1970) er lektor við listkennsludeild Listaháskóla Íslands. Hún er einnig doktorsnemi við Háskóla Íslands og háskólann í Rovaniemi Finnlandi. Í doktorsverkefni sínu skoðar hún þá möguleika sem samtímalist veitir mennt un til sjálfbærni. Í verkum sínum leggur hún áherslu á hvernig menning og vinna með gildismat styður sjálfbæra þróun og menntun til sjálfbærni á öllum stigum, bæði í formlegu og óformlegu samhengi. Ásthildur hefur MA gráðu frá New York University, The Steinhardt School of Culture, Education, and Human Development og MAgráðu í listkennslufræðum frá Háskóla Íslands.
Listamenn:
Anna Líndal (1957) Anna Líndal útskrifaðist frá Myndlista og handíðaskóla Íslands árið 1985 og lauk framhaldsnámi frá The Slade School of Fine Art í London árið 1990 og MA í Listrannsóknum frá St Lucas, University College of Art & Design, Antwerpen 2012. Auk fjölda innlendra og erlendra sýninga tók Anna Líndal þátt í Kwangju Biennalnum, Man + Space í S Kóreu 2000, sýningarstjóri René Block. Istanbúl tvíæringnum 1997, on life, beauty, translation and other difficulties, sýningarstjóri Rosa Martinez og alþjóðlegri myndlistarsýningu Listahátíðar í Reykjavík 2005 og 2008. 2012 var Anna með einkasýningu í Listasafni ASÍ Kortlagning hverfulleikans og Samhengissafnið / Línur í Harbinger 2014. Anna Líndal var prófessor við myndlistardeild Listaháskóla Íslands frá árinu 2000 -2009.
Bryndís Snæbjörnsdóttir (1955) og Mark Wilson (1954), hafa starfað saman frá árinu 2001. Verk þeirra, einkennast af norrænum áherslum, þar sem þau kanna sögu, menningu og umhverfi í tengslum við einstaklinginn og tilfinninguna gagn vart því að tilheyra eða vilja aðgreina sig. Í mörgum verka sinna skoða þau sambandið milli manna og dýra. Þar sem myndlíkingarnar eru nýttar til að spyrja spurninga um tilvist manna og dýra í nærumhverfinu og úti í villtri náttúrunni. Vinnuaðferðir þeirra byggja á rannsóknum þar sem þau sýna gjarnan ljósmyndir og video sem innsetningar í valin rými.
Eggert Pétursson (1956) nam við Myndlista og handíðaskóla Íslands 1976-79 og við Jan van Eyck Academie 1979-81. Árum saman hafa strigar hans þaktir af smáblómum heill að áhorfendur og ruglað gagnrýnendur í rýminu. Verk Eggerts snúast um ferlið, hvernig hann dregur fram form blómanna úr striganum með litaglöðum penslastrikum, stundum varla sýnilegum undir lagi af hvítri málningu. Eins og hann segir um þessi málverk: Það er auðvelt að týna sér í smáatriðunum án þess að finna heildarsýn. Eggert á að baki fjölmargar sýningar og var tilnefndur til Carnegie-listaverðlaunanna 2004 og 2006 og var meðal vinningshafa í seinna skiptið.
Gjörningaklúbburinn samanstendur af þremur listamönnum: Eirúnu Sigurðardóttur (1971), Jóní Jónsdóttur (1972) og Sigrúnu Hrólfsdóttur (1973). Þær hafa unnið saman allt frá því að þær útskrifuðust úr Myndlista og handíðaskóla Íslands árið 1996 og vakið eftirtekt og viðurkenningu innanlands og erlendis. Í verkum sínum vinna þær með fjölbreytta miðla s.s. gjörninga, vídeó, ljósmyndir og innsetningar. Verkin einkennast af glettni, lúmskri félagslegri gagnrýni og fela oft í sér kvenlegar ímyndir en alltaf á forsendum Gjörningaklúbbsins. Þær Sigrún, Jóní og Eyrún hafa búið og starfað í New York, Berlín, Kaupmannahöfn en eru nú staðsettar í Reykjavík.
Gunndís Ýr Finnbogadóttir (1979) útskrifaðist með meistaragráðu í myndlist frá Piet Zwart Institute, Rotterdam og Plymouth University, 2008 og meistaragráðu í listkennslu frá Listaháskóla Íslands, 2011. Verk hennar einkennast af málefnum sem snerta lífsrými, gestrisni, athafnir og hefðir sem snúast um minni og sjálfsímyndir kvenna. Verk hennar ein kennast hinsvegar hvorki af félagsfræðilegum nálgunum né eru þau knúin af tilfinningum og fortíðarþrá, en eru mínímalísk og ljóðræn. Hún hefur áhuga á höfundarétti og sam vinnu og spyr spurninga er varða einstaklingshyggju og hið einstaka. Mörg verka hennar fela í sér hugmyndir sem spegla samtímann.
Guðrún Tryggvadóttir (1958) nam myndlist í Akademie der Bildenden Künste í München 1979-83, Ecole Nationale Superieure des Beaux Arts í París,1978-79 og Myndlista og handíðaskóla Íslands 1974-78. Hún hefur haldið fjölda sýninga bæði hér heima og erlendis, stofnað og rekið mynd listarskóla, myndskreytt barnabókina Furðudýr í íslenskum þjóðsögum og undanfarin ár hefur hún rekið umhverfisvefinn nattura.is, sem hún stofnaði 2006. Nú vinnur hún að málverk um þar sem hún myndgerir ættartengsl og kynslóðaskipti.
Auður Hildur Hákonardóttir (1938) nam myndvefnað við Myndlista og handíðaskóla Íslands, listaháskólann í Edinborg og lauk vefnaðarkennaraprófi frá Myndlista og handíðaskólanum 1980 eftir að hafa kennt þar á árunum 1969-81. Þar af var hún skólastjóri hans 1975-78 á miklum umbrotatímum í sögu skólans. Hildur starfaði jafnframt að listvefnaði á árunum 1969-90 og voru verk hennar víða til sýnis hér á landi og erlendis. Hún var virk í SÚMhópnum og kvennabar áttunni sem endurspeglaðist í verkum hennar. Hildur hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum tengdum myndlist, verk hennar er að finna í safneign helstu safna og henni var veitt heiðursorða Íslensku sjónlistaverðlaunanna 2010. Hún er einnig þekkt fyrir ræktun og ritstörf.
Hildur Bjarnadóttir (1969) lauk námi frá textíldeild Listahá skóla Íslands 1992, framhaldsnámi 1997 frá Pratt Institut, New York í Bandaríkjunum og stundar nú doktorsnám við listaháskólann í Bergen, Noregi. Hildur hefur verið eftirsótt og virk í sýningarhaldi og hefur tekið þátt í fjölmörgum sam sýningum sem og einkasýningum bæði hér á landi og erlendis. Verk hennar hafa vakið athygli fyrir það hvernig hún rannsakar tilveru listarinnar og mörk handverks og lista á nýstárlegan hátt. Verk Hildar er að finna í helstu söfnum hér á landi og einnig í söfnum annars staðar á Norðurlöndum og í Bandaríkjunum sem og í fjölmörgum einkasöfnum.
Hrafnkell Sigurðsson (1963) nam við Myndlista og handíðaskóla Íslands 1982-86, Jan van Eyck Academie í Maast richt 1988-90 og Goldsmith College í London 2001-02. Verk Hrafnkels, hvort heldur vídeó, ljósmyndir eða höggmyndir, spila með tvenndir eins og náttúru og menningu, hið hlutbundna og óhlutbunda, huga og líkama. Mörg ljósmyndaverka Hranfkels eru seríur sem fjalla um hversdagsleg mál efni og hreyfa við skynjun áhorfandans með persónulegum tengingum. Tærar myndir hans fela í sér hefðir málaralistar og minna áhorfandann á hinn lagskipta raunveruleika bak við myndræna fleti. Sömu eiginleikar eru einnig til athugunar í þrívíddarverkum listamannsins sem og vídeóum, þar sem rýmið milli viðfangsefnisins og umhverfisins er skoðað.
Libia Castro (1970, Spáni) og Ólafur Ólafsson (f. 1973) hafa unnið saman og haldið sýningar á alþjóðlegum vettvangi síðan 1996. Þau beina sjónum sínum að ýmsum pólitískum, félagsfræðilegum og persónulegum öflum sem móta samtímann. Með því að sýna, kortleggja, grípa inn í og vinna á óformlegan hátt með fólkinu sem þau hitta, skoða þau rými, umhverfi og áhrifavalda á fjölbreyttan hátt. Verk þeirra eru opin í uppbyggingu og oft verður úr létt, ljóðræn, uppreisnargjörn og gagnrýnin list. Þau voru tilnefnd til hinna virtu verðlauna Prix de Rome og hlutu þar þriðju verðlaun. Þau voru þátttakendur á evrópska tvíæringnum Manifesta 7, 2009 og voru fulltrúar íslands á Feneyjatvíæringnum 2011.
Ólöf Nordal (1961) lauk námi frá Myndlista og handíðaskóla Íslands 1985 og meistaragráðu í myndlist frá Cranbrooklista akademíunni í Bloomfield Hills og skúlptúrdeild Yaleháskólans í New Haven í Bandaríkjunum 1993. Hún stundaði einnig nám við Gerrit Rietveltakademíuna í Amsterdam. Ólöf hefur fundið verkum sínum farveg í ýmsum miðlum en mest hefur hún unnið skúlptúra, ljósmyndir og myndbandsinnsetningar, auk verka í almannarými. Á ferli sínum hefur hún á áhrifamikinn hátt tekist á við ýmis viðfangsefni sem tengjast menningu, uppruna og þjóðtrú um leið og hún hefur unnið með staðbundin og hnattræn málefni.
Ósk Vilhjálmsdóttir (1962) nam við Myndlista og handíða skóla Íslands og lauk mastergráðu frá Hochschule der Künste 1994. Hún vinnur jöfnum höndum í fjölbreytta miðla; málverk, ljósmyndir, vídeó og innsetningar. Verk hennar hafa skýra samfélagslega og pólitíska skírskotun og setja spurningarmerki við hefðbundið hlutverk listamannsins í samfélaginu. Mörg verka hennar gagnrýna neysluhyggju samtímans, hnattvæðingu og hagnýtingu umhverfisins og oft virkjar Ósk áhorfandann til þátttöku og athafna með verkum sínum, sem hafa verið sýnd víða hér heima og erlendis og henni hafa hlotnast ýmsar viðurkenningar.
Pétur Thomsen (1973) nam listasögu og fornleifafræði við Université Paul Valéry og ljósmyndun við École Superieure des Métiers Artistiques í Montpellier og École Nationale Supérieur de la Photographie (ENSP) í Arles. Pétur hefur verið tilnefndur til mikilsvirtra verðlauna, hlotið m.a. alþjóðlegu unglistaverðlaun LVMH – Louis Vuitton Moët Hennessy og árið 2005 var Pétur valinn af Elyséesafninu í Sviss til þátt töku í sýningunni ReGeneration, 50 ljósmyndarar framtíðarinnar. Mörg verka Péturs sýna yfirgang mannsins í náttúru Íslands. Hvort sem þau eru skoðuð sem félagsleg gagnrýni eða rómantísk yfirlýsing þá bera verk hans vitni um örar breytingar í landslagi og borgarmyndun.
Rósa Gísladóttir (1957) útskrifaðist frá Myndlista og handíðaskóla Íslands 1981 og Listaakademíunni í München 1986. Hún lauk meistaragráðu í umhverfislist frá Manchester Metropolitanháskólanum í Englandi og meistaragráðu í kennslufræðum við Listaháskóla Íslands 2014. Viðfangsefni hennar eru hversdagslegir hlutir og umhverfismál. Rósa hef ur hlotið ýmsar viðurkenningar og verk hennar verið sýnd víða, m.a. í hinu virta safni Mercati di Traiano í Róm þar sem sett hafa verið upp verk ýmissa heimsþekktra listamanna.
Rúrí (Þuríður Rúrí Fannberg, 1951) nam myndlist við Myndlista og handíðaskóla Íslands 1971-74 og De Vrije Aca demie Psychopolis, í Hague, Hollandi 1976-78 og einnig málmsmíði við Iðnskólann í Reykjavík 1974-75. Verk hennar eru hugmyndafræðilegs eðlis, en eru sett fram með margvíslegri tækni, svo sem skúlptúrar, innsetningar, umhverfisverk, margmiðlunarverk, gjörningar, bókverk, kvikmyndir, vídeó, hljóðverk, tölvuvædd og gagnvirk verk. Listaverk hennar hafa verið sýnd á alþjóðlegum vettvangi, m.a. víða í Evrópu, í Ameríku og Asíu. Hún var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum 2003 þar sem verk hennar vakti mjög mikla athygli og hlaut mikla umfjöllun á alþjóðlegum vettvangi.
Spessi (Sigurþór Hallbjörnsson, 1956) nam ljósmyndun við De Vrije Akademie, Den Haag 1989-90 og Aki Akademie voor Beeldende Kunst, Enschede í Hollandi 1993-94. Hann hefur sýnt ljósmyndir sínar á fjöldamörgum sýningum hér heima og víða erlendis. Auk listrænna ljósmynda sinnir hann einnig auglýsinga og portretljósmyndun og hefur skapað sér sérstöðu og vakið eftirtekt fyrir fersk og frumleg vinnu brögð. Ljósmyndir hans hafa m.a. birst í stórblöðum New York Times og Politiken. Spessi hefur líka sinnt ljósmyndafræðslu í Listaháskóla Íslands og verið gestakennari í Ljósmyndaskólanum.
Þorgerður Ólafsdóttir (1985) útskrifaðist með BA í myndlist frá Listaháskóla Íslands vorið 2009 og lauk mastersnámi í myndlist frá Glasgow School of Art vorið 2013. Í verkum sín um veltir Þorgerður fyrir sér spurningum um ímyndir, staði og hið manngerða í náttúrunni. Hún hefur áhuga á kerfum og táknum sem notuð eru til þess að lýsa og koma skikkan á ytri aðstæður, eins og náttúruna og veðrið, og hvernig má túlka þau yfir á huglægari fleti gegnum minni og skáldskap. Þorgerður hefur sýnt verk sín á Íslandi, annars staðar á Norðurlöndum og í Bretlandi ásamt því að fara fyrir sýningum og útgáfum listamanna hér heima. Þorgerður er framkvæmdastjóri Nýlistasafnsins og formaður stjórnar þess.
Hér er hægt að hlaða niður sýningarskránni sem pdf.: