Andans konur
Nína Tryggvadóttir og Gerður Helgadóttir
28. sept. – 15. des. 2013
Ásdís Ólafsdóttir
Skálholtskirkja rís hvít og næstum því óefniskennd á völlunum við bakka Hvítár. Þar hefur verið kirkjustaður frá því á 11. öld og alls tólf kirkjur reistar og endurreistar. Miðaldakirkja Klængs biskups Þorsteinssonar á 12. öld var mun stærri en núverandi bygging, hátimbruð og ríkulega búin, með stærstu timburkirkjum í Evrópu. ¹Litla trékirkjan sem var reist 1851 lét hins vegar lítið yfir sér og var turnlaus í byrjun.² Skálholtsstaður ber þannig vitni sögu þjóðarinnar, gullöld, eymd og endurreisn. Þar sem á öldum fyrr var helsta menningarsetur landsins er nú lýðháskóli og kirkja sem hýsa tónleika, námskeið, sýningar og kyrrðardaga. Skálholt er eins konar andlegt athvarf í hæfilegri fjarlægð frá skarkala heimsins.
Haustið 1957 var efnt til samkeppni um steinda glugga í nýja kirkju teiknaða af Herði Bjarnasyni húsameistara ríkisins. Dönsku stórkaupmennirnir og listunnendurnir Edward Storr og Svend Louis Foght höfðu ákveðið að gefa alla glugga í kirkjuna og skyldu þeir unnir af íslenskum listamanni. Í dómnefnd sátu Kristján Eldjárn þá þjóðminjavörður, Sigurður Guðmundsson arkitekt, Björn Th. Björnsson listfræðingur, Svend Møller forseti dönsku Listaakademíunnar og Håkon Stephensen arkitekt og ritstjóri Politiken.³ Vorið 1958 var ákveðið að veita Gerði Helgadóttur fyrstu verðlaun í samkeppninni, Nínu Tryggvadóttur önnur verðlaun og Sigurður Sigurðsson hafnaði í þriðja sæti. Í fystu var rætt um að skipta gluggunum milli listamannanna, en síðan var frá því horfið og ákveðið að fela Gerði að vinna alla 25 gluggana í anddyri, langskip, þverskip og kór. Þýska glerlistaverkstæðið Oidtmann gerði tilboð í gerð glugganna að ráði Nínu Tryggvadóttur sem hafði þegar unnið með þeim steint gler. Gluggarnir voru settir í kirkjuna sumarið 1959 en opinber vígsla hennar fór ekki fram fyrr en 21. júlí 1963.
Hrynjandi himingeimsins
Þannig lýsir Gerður sköpunarferlinu við undirbúning samkeppninnar í bréfi til föður síns.⁴ Á þessum tíma vann hún að höggmyndum úr fíngerðum járnteinum sem mynduðu oft flókið mynstur lína byggt á samhverfum margstrendingum. Hún lærði gluggagerð á glerverkstæði Jean Barillet í París 1954 og fyrstu verkefnin á þessu sviði voru fyrir kapellu Elliheimilisins Grundar og Hallgrímskirkju í Saurbæ 1955-57. Þeir gluggar voru hlutbundnir að nokkru, á grunni næstum hornréttra geómetrískra flata. Í gluggum Skálholtskirkju notar listakonan oft sterka miðlæga myndbyggingu úr skálínum er minna sterklega á skúlptúra hennar frá sama tíma. Tækni hennar var fremur sérstök því hún málaði sjálf fínlegar línur á glerið milli blýgrindarinnar og skyggði hluta flatanna til að ná fram því flókna neti og birtuáhrifum sem hún sóttist eftir. Á verkstæði Oidtmann-bræðra tíðkaðist að mála með svörtum lit yfir glerfletina en þurrka eða nudda málninguna að mestu leyti af þegar hún var orðin þurr og útkoman var gráleit slikja með dempaðri litum.⁵ Máluðu línur Gerðar minna á örfína þræði sem hún skeytti inn í höggmyndirnar sem hún sýndi í París í janúar 1958 og styðja enn frekar tengsl glugganna við skúlptúrverk hennar.⁶
Líkt og höggmyndir Gerðar eru steindir gluggar Skálholtskirkju að mestu leyti abstrakt. Þeir hafa þó allir ákveðna merkingu og byggjast á djúpt hugsuðu kerfi kirkjutákna og talna. Við undirbúning verkefnisins las Gerður Biskupasögur, Íslendingabók, Kristnisögu og að sjálfsögðu Biblíuna sem hún var vel kunnug, bæði í íslenskri og erlendum þýðingum. Hún studdist ennfremur við bók René Gilles, Le Symbolisme dans l’art religieux og Commentaire de l’Évangile eftir Lanza del Vasto.⁷ Listakonan lagði mikið upp úr táknrænni merkingu talna og afleiddra forma þeirra, eins og þríhyrnings, ferhyrnings og upp til tólfhyrnings. „Allar tölur eiga sitt raunverulega form. Talan ríkir alls staðar í náttúrunni, í symetríu laufblaða blóma, í stíganda hljómlistar, skáldskapar og litasamsetningar, jafnvel í byggingu frumeinda á lægstu stigum“ skrifaði hún.⁸
Í leiðbeiningum sem fylgdu samkeppnisgögnunum var upptalning atriða er vörðuðu sögu Skálholts, m.a. biskupa staðarins. Gerður valdi að helga fimm biskupum gluggana á suðurhlið langskips kirkjunnar, þeim Gissuri hvíta, Gissuri Ísleifssyni, Klæng Þorsteinssyni, Páli Jónssyni og Þorláki helga Þórhallssyni, sem var verndardýrlingur staðarins. Hans gluggi er næstur þverskipi og kór og er Þorláki einnig tileinkaður glugginn á vesturgafli yfir anddyri kirkjunnar. Gluggarnir á norðurhlið bera tákn sem undirstrika einkenni þeirra biskupa sem á móti liggja á suðurhlið og byggja á ákveðnum ritningarstöðum. Í litlu gluggunum efst á skipsveggjunum eru einkum píslartákn Krists, s.s. naglarnir og hamarinn, hrísvendirnir, tangirnar, þyrnikórónan og njarðarvötturinn, en einnig fiskurinn, leiðarstjarnan, dúkur Veróniku, kaleikurinn og stiginn.
Norðurstúka í þverskipi, sem til forna var helguð Maríu mey, er tileinkuð Kristi og suðurstúkan Páli postula, en dómirkjan var honum vígð. Fjórir gluggar hvoru megin í kór tákngera mannlegan veikleika sunnan megin en sköpunarmátt Guðs norðan megin. Gerður sagðist hafa „valið sitt hvoru[m] megin í kórnum, helgasta stað kirkjunnar, sköpunina og sundrungina. Í mannshjartanu er bæði hið góða og hið vonda, andstæðurnar, sem eilíft brjótast um í mannverunni.“⁹ Í anddyri og skrúðhúsi eru litlir gluggar með geómetrískum rósamyndum.
Sem dæmi um táknmálið má taka fjórða gluggann á suðurhlið sem helgaður er Páli biskupi Jónssyni. Eftir að hafa vitnað í biskupasögur þar sem sagt er frá kurteisi, lærdómi, versagerð, bóklist og sönghæfileikum biskups, skrifar Gerður: „Sexhyrninginn hefi ég valið í þennan glugga, þar sem hann er tákn hins fullkomna jafnvægis og harmóníu. Margfaldast ljósbrotið í sexhyrningnum, sem svarar til starfsemi Páls biskups er hann prýddi kirkjuna í hvívetna.“¹⁰ Í bréfi til föður síns þar sem hún lýsir Páli sem „listamanni á öllum sviðum“ segir hún að sexhyrningur eigi einnig við fullkomið harmónískt jafnvægi í tónlist og sé „sömuleiðis tákn fegurðar, fullkomleika og hr[y]njand[i] himingeimsins.“¹¹
Þrátt fyrir að í samkeppnisgögnum stæði að þáttakendum „sé gefið algjört sjálfsvald hvað snertir stíl mynda og efni“ var hart lagt að Gerði að hafa gluggana fígúratífa. Það var einkum Hörður Bjarnason húsameistari sem hélt þeirri kröfu til streitu, en að lokum tókst gefendunum ásamt dönsku dómnefndarmeðlimunum að sannfæra hann um ágæti óhlutbundinna teikninga Gerðar. Hún barðist fyrir þessu í heilt ár, frá maí 1958 fram í apríl 1959, þegar Hörður samþykkti loks hugmyndir hennar eftir að hafa fengið nákvæmar skýringar á efni glugganna og táknmáli. Á þessum tíma þróuðust uppdrættirnir og í aprílbyrjun 1959 gerbreytti hún þeim til endanlegs horfs.¹² Gerður lagði gífurlega vinnu í alla þætti glugganna og í skýringum sínum til Harðar skrifaði hún: „Verkefni þetta hefur verið mjög erfitt viðfangs, bæði hvað viðvíkur staðsetningu hvers atriðis, sambandi þeirra og heildarsvip litasamsetningarinnar.“¹³
Litróf glugganna einkennist einkum af frumlitunum – bláu, rauðu og gulu – ásamt hvítu og eilitlu grænu, brúnu og bleiku. Guðbjörg Kristjánsdóttir hefur skrifað að af frumskissum megi sjá að Gerður hafi fylgt franski miðaldahefð í litavali, blátt ríkjandi á norðurhlið en rautt á þeirri syðri.¹⁴ Gerður tjáði sig ekki um táknræna merkingu litanna en segir í bréfi um fyrstu uppdrætti sína: „Litirnir í fjóru[m] samstæðu gluggunum voru mjög líkir litunum í einu sólsetrinu heima. Ég hafði aldrei séð himininn og sjóinn svona rauðan eins og þetta kvöld og fjöllin eins dökkblá.“¹⁵ Gerður notaði gjarnan frumlitina í þeim gluggum sem hún vann fyrir íslenskar kirkjur; þar kemur eflaust gömul hefð inn í, en einnig samspil bygginganna við umhverfið og íslensk birtuskilyrði sem hún var mjög næm fyrir.
Helgi Pálsson faðir Gerðar stundaði tónsmíðar í frístundum og ræddi hún mikið tónlist við hann. Á meðan hún vann að gluggum Skálholtskirkju sagðist hún hafa hlustað á „Jóhannesar Passíu eftir Bach, Requiem […] eftir Mozart, Gregoríanska söngva, ýmsar plötur með músík eftir Pergolese, Corelli og Tartini, sömuleiðis söngva frá messum úr Ortodoxkirkjunni í París [… og] gamla söngva frá Jerúsalem“.¹⁶ Hún leitaði einnig að musterissöngvum múhameðstrúarmanna og búddatrúarmanna, en fann enga. „Ég gerði þetta til þess að vita hvort þessir gluggar gætu staðist í musterum eða kirkjum hvaða trúarbragða sem er.“¹⁷ Hér birtist opinn hugur og víðsýni Gerðar gagnvart trúarbrögðum og andlegum efnum. Hún þekkti vel kristni og setti sig inn í sögu hennar, leyndardóma og táknfræði af heilum hug, en bar jafnframt virðingu fyrir öðrum trúarbrögðum sem henni fannst jafn rétthá. Á sama tíma sótti hún tíma í dulspeki, eins og síðar verður vikið að.
Loftkenndur Kristur
Hörður Bjarnason kom fyrst að máli við Nínu Tryggvadóttur um gerð mósaíkmyndar á kórgafl Skálholtskirkju í desember 1961. Frá upphafi var rætt um Kristsmynd og í bréfi snemma árs 1963 segir Sigurbjörn Einarsson biskup að fyrir sér sé myndefnið „Kristur konungur […,] mynd, er túlki í skuggsjá listar nálægð þess ósýnilega konungs, sem kristnin lýtur.“ Hann biður ennfremur listakonuna „um part af [hennar] ríku sál í þann helga stein, sem stendur á dýrustu moldum Íslands.“¹⁸
Mósaíkmyndin var sett upp í júní 1966 og á þessu fjögurra ára tímabili vann Nína sig í gegnum margar skissur og uppdrætti allt til endanlegu myndarinnar sem var tilbúin haustið 1965. Til eru hugmyndaverk sem líklega tengjast þessu verkefni þar sem Kristur á krossinum er mjósleginn, svo minnir á fígúrur Giacomettis, þjáður og lútir höfði.¹⁹ Önnur verk sýna Krist meira eins og konung, jafnvel víkingakonung, í hempu með kórónu og geislar frá honum svörtum strikum, svo minnir á blýbyggingu glermyndar. Hér er Kristsfígúran komin, séð framan frá með útréttar hendur. Í syrpu af vatnslitamyndum er Kristur í eins konar sporöskjulöguðu formi er nær niður að hnjám með sterkt mótaðan ferskiptan geislabaug, að býzönskum hætti. Tvær litríkar olíumyndir eru stúdíur fyrir höfuð Krists sem sést eilítið frá hlið. Síðan vann Nína stórar skissur þar sem Kristur sést allur innan sporöskjulaga forms sem skipt er niður í litaða fleti og ná ferningarnir sumir inn í klæði Jesú. Í teikningum sem listakonan fékk sendar af kirkjunni er sporyskjulagað form teiknað þar sem altaristaflan skyldi koma og hefur það trúlega haft áhrif á uppdrættina.
Í síðustu syrpunni eru útlínur Krists teiknaðar með svörtu og strokið yfir með bláum akríllit sem fyllir nokkurn veginn út í ferhyrnt blaðið. Í fyrstu eru drættirnir sterkir, en síðan verða þeir fíngerðari og fígúran loftkenndari. Andlitið þróast frá því að vera ábúðarmikið til upphafinnar mildi í ætt við austurlensk líkneski. Að síðustu ákvað Nína að koma með jarðliti inn í bakgrunninn, eins og til að gefa honum tengingu við hið jarðneska og sér í lagi íslenska grund. Hún skrifaði í byrjun 1965: „Mér finnst að þessi mynd sem táknar Krist birtast sem einskonar anda í (íslensku) landslagi muni verða fallegust á vegginn. Hugmyndin er að mynd Krists óskýr eða hálf loftkennd birtist í sumarlandslagi og held ég að það verði betra en mjög formföst mynd.“²⁰ Biskup svarar að sér finnist rétt að búa Kristsdrættina „vissri firrð og óáþreifanleik“ og líkar að fella hann inn í umgjörð sem hafi svip af íslensku landslagi. „En líka það verður að vera utan marka hins þreifanlega, svo að huga gruni annað og meira en augu sjá“.²¹ Eins og sést af þessum fallegu bréfaskiptum voru Nína og Sigurbjörn mjög samstíga í þróunarferlinu, hann skildi hvað hún var að fara og hvatti hana til að vera ekki of efniskennda.
Endanlega skissan var teiknuð með akríl á blað sem var um 60 x 45.5 cm.²² Hún var síðan stækkuð á verkstæði Oidtmann bræðra í Linnich í fulla stærð sem er 5.80 x 3.50 m. Til að halda stærðarhlutföllum þurfti því að bæta við myndina að ofan og neðan. Við það varð hún ávalari, en frummyndin er nokkurn veginn ferhyrnd. Á þessum tíma var Nína flutt aftur til New York, en Oidtmann bræður sendu henni myndir af verkinu í vinnslu. Það var sent til Íslands um miðjan maí 1966 og í júníbyrjun gerði Nína ýmsar lagfæringar á andliti, höndum og kyrtli á staðnum. Að sögn Unu Dóru dóttur hennar, sem dvaldi þar með henni í nokkra daga, gerði hún andlitið loftkenndara en hendurnar tjáningarfyllri og sterkari.²³
Getur hafa verið leiddar að því að Erlendur í Unuhúsi hafi verið fyrirmynd Krists í veggmyndinni.²⁴ Ég tel að hugmynd Nínu hafi verið opnari og alheimslegri, eins og sést á því að andlitsdrættir eru að miklu leyti máðir og renna saman við bakgrunninn. Mósaíktæknin líkir eftir pensilstrokum akríllitarins, en um leið er líkt og kórgafl kirkjunnar opnist og hilli í landslag og hina loftkenndu Kristsveru handan við mörk byggingarinnar. Litróf myndarinnar er dempað, í bláum, brúnum, grænum og bleikum tónum og er það í talsvert mikilli andstæðu við sterka frumliti glugganna. Nína leitaðist ekki við að aðlaga sig glerinu sem fyrir var, heldur skapaði sjálfstætt myndverk á eigin forsendum, sína sýn á „hinum upphafna og að sama skapi íslenska skálholtsfrelsara“, svo notuð séu orð Halldórs Laxness.²⁵
Stefnumót
Gerður og Nína voru listakonur sem notuðu marga ólíka miðla til tjáningar: Myndhöggvarinn Gerður vann einnig klippi-, gvass- og mósaíkmyndir auk þess sem hún teiknaði húsgögn, skartgripi og helgigripi og málaði glugga í níu kirkjur á Íslandi og í Þýskalandi. Málarinn Nína gerði klippimyndir, mósaík, hannaði efni, búninga og vann glerverk allt frá árinu 1953, m.a. fyrir Þjóðminjasafnið, Háskólakapellu og kirkjur í Þýskalandi.
Báðar dvöldust þær mestan hluta ævinnar á erlendri grund þar sem þær voru í fremstu röð listsköpunar síns tíma. En þær sóttu gjarnan til Íslands og var umhugað um að vinna verkefni í heimalandinu, þó þau væru oft illa launuð á tímum strangra gjaldeyrishafta og þyrfti iðulega að bíða árum saman eftir endanlegum svörum og pöntunum. „Mér væri mjög kært að vinna þetta verk“ endurtók Nína tvisvar í bréfi um veggmyndina í Skálholti. ²⁶
Þó þær væru ólíkar að mörgu leyti og ekki af sömu kynslóð – Nína var 15 árum eldri en Gerður – voru þær skapkonur og einarðar í list sinni. Þær dóu báðar um aldur fram, Gerður 47 ára og Nína 55 ára, en létu eftir sig æviverk sem sæma myndi hvaða háaldraða atorkusama listamanni sem væri. Það er einstakt að þessar öflugu listakonur skuli mætast í Skálholtskirkju, hvor um sig á sínum forsendum og með sinn persónuleika. Verk þeirra ljá þessu forna menningarsetri sérstakt andrúmsloft þrungið andlegum viðhorfum og virðingu fyrir stað og viðfangsefni, en um leið var hvergi slegið af kröfum um listrænan metnað og nútímalega sköpun.
Parísarár
Leiðir Nínu og Gerðar láu saman í París á árunum 1952-57. Gerður fluttist þangað frá Flórens 1949 og Nína kom til borgarinnar við Signu eftir að henni var neitað um landvistarleyfi í Bandaríkjunum þar sem hún hafði dvalið frá 1943. Á þessum tímum ákafrar listsköpunar og umræðna mótaðist list þeirra í hópi kollega þar sem abstraktið réð ríkjum. Þær þróuðu báðar geómetrískt myndmál, Gerður í kúbískum höggmyndum og svörtum járnskúlptúrum sem hún vann fyrst íslenskra listamanna, Nína í þéttum málverkum og minni myndum þar sem svört form og línur kallast á við grindur Gerðar og haldast í hendur við vinnu hennar í steindu gleri.
Um 1955 taka form Nínu að losna undan viðjum grindarinnar, þau líkt og fara á flug og boða þá sterku ljóðrænu og expressjónísku aðferð sem átti eftir að einkenna verk hennar. Á sama tíma vann Gerður fínlega samhverfa málmskúlptúra úr járnvírum, en eftir 1958 hóf hún að vinna í brons og þróaði ljóðrænni tjáningarmáta þar sem úfin formin opnast út í rýmið. Hjá báðum varð listin sjálfsprottnari og meira náttúrutengd á sjöunda áratugnum.
Andlegur þroski
Þrátt fyrir að Gerður og Nína hafi unnið talsvert fyrir kirkjur og þekktu vel kristna trú og minni hennar, einkenndist viðhorf þeirra beggja af opnum hug gagnvart öðrum trúarbrögðum. Fullyrða má að andleg leit sé stór þáttur í listsköpun þeirra, en áhrif hennar urðu einkum ljós í seinni verkum.
Frá 1953 og allt til æviloka sótti Gerður tíma hjá Jeanne de Salzmann, svissneskum dansara og fyrrum nemanda georgíska dulspekingsins G.I. Gurdjieff (1877-1949). Kennsla hans miðaði að því að vekja fólk af andlegum svefni, m.a. með því að takast á við ósjálfráð viðbrögð og innrætingu. Hjá Salzmann iðkaði Gerður ýmsar líkamlegar og andlegar æfingar, þ.á.m. svokallaða „heilaga dansa“ sem byggðust á samhæfðum hreyfingum og geómetrískri hrynjandi.²⁷ Gerður æfði einnig júdó undir leiðsögn málarans Yves Klein sem bjó um tíma í sama húsi og hún og smíðaði fyrir hann sverðshjöltu er hann var tekinn inn í Riddarareglu Heilags Sebastíans. Guðmóðir Irinu Brook, dóttur leikstjórans Peter Brook, pantaði hjá henni skírnarkross, en Brook gerði einmitt heimildarmynd um líf Gurdjieffs. Gerður sýndi líka stjörnuspeki mikinn áhuga og bað föður sinn að senda sér bækur um þau efni, Líf í alheimi, Paramahansa Jogananda o.fl. í skiptum fyrir rit eftir Gurdjieff og nemanda hans Ouspensky.²⁸
Um miðjan sjötta áratuginn smíðaði Gerður víraverk sem hafa sterka kosmíska skírskotun eins og nöfn svo sem Festing (1956) bera vott um. Hún notaði gjarnan glermola í þessi verk sem líkt og svífa innan samhverfs rýmis. Bronsverkið Nafli minnir á stjörnukerfi úr fjarlægð og Orgelfúga (1962) teigir bronsarma sína til himins. Gerður lét gamlan draum rætast og fór til Egyptalands árið 1966. Eftir heimkomuna vann hún lágmyndir og skúlptúra í steypu, gjarnan með greiptu gleri og abstrakt útgáfu myndrúna. Forna þemað um „augað alsjáandi“ er gegnumgangandi á þessu tímabili, m.a. í tillögum hennar fyrir altaristöflu í Kópavogskirkju. Á síðustu árunum fékkst listakonan við einföld form í gifs sem byggðu á ný á samhverfingu um innra rými og síhreyfingu, en hún var mikilvægur þáttur í hugleiðslutækni Gurdjieffs.
Meðan Nína dvaldist í London, árið 1958, kynntist hún japanska zen- meistaranum og listfræðingnum Hoseki Hisamatsu sem átti eftir að hafa sín áhrif á hana.²⁹ Í byrjun sjöunda áratugarins fór hún tvisvar með eiginmanni sínum Alcopley til Japans og kynntist þar zen-menningunni af eigin raun. Alcopley málaði myndir sem tengjast sterklega austurlenskri kalligrafíu, en áhrifin eru ekki eins greinileg í verkum Nínu. Það er fremur róin og yfirvegunin sem birtast í verkum síðustu ára hennar sem bera þessu vitni. Upp úr 1963 mýkist stíll hennar einmitt, formin sem áður voru hálfgagnsæ og skafin verða loðin og rökkurkennd, því pensillinn hefur leyst sköfuna af hólmi. Sú sprenging orku og lita sem einkennir verk hennar eftir endurkomuna til New York 1959 víkur fyrir yfirvegun og blíðara andrúmslofti, dekkri og dempaðri litum.
Árið 1967 skrifaði Nína grein sem birtist í tímaritinu Leonardo ári síðar og hét „Painting With Light Through Colored Glass“ eða málað með ljósi í litgler.³⁰ Þar segir hún:
Mér virðist sem full þörf sé á okkar tímum fyrir íverustaði með lýstum glermálverkum sem skapa griðarstað fyrir andlega slökun, íhugun og sjónræna fró. Í hinu daglega lífi hendir oft að við vildum snúa baki við umheiminum um stund í kyrrlátu og friðsælu umhverfi. Slíkum griðastað mætti koma fyrir á söfnum, í anddyri opinberra bygginga og jafnvel á einkaheimilum.³¹
Þó Nína eigi hér við glerverk má vel heimfæra þessa ósk á seinni málverk hennar. Nálægð eins slíks verks í rými nægir til að skapa andrúmsloft andlegrar slökunar og einbeitingar. Líkt og höggmyndir Gerðar bera þau vott um sátt fullþroska listamanns sem veit að hann og list hans er órofa hluti fullkomins kosmísks jafnvægis.