Ljósmyndir (c) Simone De Greef og Kristín Scheving

Hornsteinn

60 ára afmælissýning Listasafns Árnesinga.

11. febrúar – 20. ágúst 2023

Safnið býr yfir einstöku samansafni af um það bil 550 listaverka, allt frá merkustu meisturum íslenskrar myndlistar til atgervisgróskunnar í sveitunum í kring. Það var stofnað árið 1963 og er þar með fyrsta listasafnið á Íslandi sem tók til starfa utan höfuðborgarinnar. Því verður með réttu haldið fram að Bjarnveig Bjarnadóttir og synir hennar Loftur og Bjarni Markús hafi lagt hornsteininn að Listasafni Árnesinga með rausnarlegri gjöf listaverka úr sinni eigu til Árnessýslu árið 1963. Gjöf þeirra var 41 listaverk og héldu mæðginin áfram að gefa safninu verk fram til ársins 1986 og taldi safnið þá 75 listaverk. Það inniheldur verk merkustu meistara íslenskrar málaralistar á fyrri helmingi tuttugustu aldar: 19 málverk eftir Ásgrím Jónsson og verk eftir Kjarval, Gunnlaug Scheving, Jón Stefánsson og Þorvald Skúlason meðal annarra. Smekkur Bjarnveigar er eftirtektarverður sem og skynbragð hennar á nýja strauma eins og birtist í síðari gjöfum hennar. Hún lagði sig eftir verkum abstraktlistamanna (eftir Hörð Ágústsson og Kjartan Guðjónsson) en lagði líka mikið upp úr að gefa verk íslenskra kvenna, á borð við Björgu Þorsteinsdóttur, Þorbjörgu Höskuldsdóttur og Ragnheiði Jónsdóttur.

Bjarnveig Bjarnadóttir (1905-1993) var ættuð af Suðurlandi, móðir hennar var frá bænum Skipum nálægt Stokkseyri og faðir hennar var Skaftfellingur. Móðir hennar og Ásgrímur Jónsson voru systrabörn og hún var þar að auki skyld Einari Jónssyni myndhöggvara í móðurætt. Heimili hennar var þakið listaverkum að því marki sem veggjarými leyfði og var það ekki algengt á þeim árum að einstæðar mæður verðu öllu sparifé sínu í listaverk. Í ræðu sem hún hélt við Lista- og byggðasafn Árnessýslu árið 1974 sagði Bjarnveig: ,,Þessi málverk eru gefin af heilum hug og með ósk um að gjöfin verði til menningarauka fyrir sýsluna og lyftistöng fyrir komandi kynslóðir.“

Safninu var skipt upp árið 1992. Byggðasafn Árnesinga flutti í Húsið á Eyrarbakka en Listasafn Árnesinga starfaði á Selfossi fram til ársins 2001. Þá festi það kaup á húsnæði Listaskálans* í Hveragerði og hefur verið þar til húsa allar götur síðan.

Tvö hundruð verk úr tré og litlar styttur ýmist úr marmara eða beini eftir Halldór Einarsson (1893-1977) eru stór hluti safnsins eða um þriðjungur þess. Hann fæddist á bænum Brandhúsum í Gaulverjabæjarhreppi. Tuttugu og níu ára gamall hélt hann vestur um haf og bjó í Bandaríkjunum í fjörutíu og þrjú ár. Hann fluttist aftur heim árið 1965 og fjórum árum síðar ánafnaði hann Listasafni Árnesinga öll verk sín ásamt tíu þúsund Bandaríkjadölum.

Halldór starfaði við tréskurð í Chicago og bjó lengst af á afviknum stað úti í skógi þar sem hann ræktaði með sér áhuga á dýra- og gróðurlífi. „Ég gat talað við þessi dýr – og fuglana líka – og þau skildu mig“, sagði hann síðar í viðtali. Við sýnum verk hans sem afhjúpa fyrir okkur djúpan skilning hans á náttúrunni og andanum.

Verður settur fókus á þessa frumkvöðla sem urðu til þessa að Listasafn Árnesinga varð að veruleika.

Þar að auki mun safnið sýna ný verk sem voru gefin sl ár, af myndlistarmönnum og td. Íslandsbanka, 2 verk eftir Ásgrím Jónsson en einnig eftir Þorbjörgu Höskuldsdóttur, Jóhannes Kjarval, Gunnlaug Scheving, Jón Þorleifsson og Jón Engilberts.

Listamenn:

Arnar Herbertsson, Arngunnur Ýr Gylfadóttir, Ágúst F. Petersen, Ásgrímur Jónsson, Baltasar Samper, Björg Þorsteinsdóttir, Bragi Ásgeirsson, Brynhildur Þorgeirsdóttir, Einar G. Baldvinsson, Einar Hákonarson, Eiríkur Smith, Elfar Guðni Þórðarson, Erró, Eyjólfur Eyfells, Finnur Jónsson, Gerður Helgadóttir, Guðjón Sigfússon, Guðlaug Hannesdóttir, Guðrún Tryggvadóttir, Gunnlaugur Blöndal, Gunnlaugur Scheving, Halldór Einarsson, Hans Christiansen, Hildur Hákonardóttir, Hörður Ágústsson, Höskuldur Björnsson, Ísleifur Konráðsson, Jóhann Briem, Jóhannes Kjarval, Jón Engilberts, Jón Jónsson, Jón Stefánsson, Jón Þorleifsson, Karl Kvaran, Kjartan Guðjónsson, Kristinn Pétursson, Matthías Sigfússon, Myriam Bat-Yosef, Páll Guðmundsson frá Húsafelli, Ragnheiður Jónsdóttir, Ragnheiður Jónsdóttir Ream, Rúrí, Sara Björnsdóttir, Sigrid Valtingojer, Sigríður Björnsdóttir, Sigríður Melrós Ólafsdóttir, Sigrún Harðardóttir, Sigurður Sigurðsson, Sigurjón Ólafsson, Sirra Sigrún Sigurðardóttir, Snorri Arinbjarnar, Valtýr Pétursson, Veturliði Gunnarsson, Þorbjörg Höskuldsdóttir, Þorvaldur Skúlason, Þórdís Erla Zoëga.

Sýningarstjórar: Kristín Scheving og Zsóka Leposa.

* Myndlistarmaðurinn Einar Hákonarson byggði og rak fyrstu einkareknu menningarmiðstöð á Íslandi sem hann nefndi Listaskálann í Hveragerði.

Hér er hægt að hlusta á leiðsögn Ingu Jónsdóttur frá 13. ágúst 2023.

Hér er hægt að hlusta á fyrirlestur Hildar Hákonardóttur frá 25. júní 2023.

Hér er hægt að hlusta á leiðsögn Rakelar Pétursdóttur, þar sem landið hefst frá 25. júní 2023.

Helgi Gíslason segir frá minningum sínum í Ásgrímssafni, upptaka frá 4. júní 2023.

Hér er hægt að hlusta á leiðsögn um Bjarnveigu Bjarnadóttur, með Vilhjálmi Bjarnasyni. Tekið upp 14. maí 2023

Hér er hægt að hlusta á leiðsögn Halldórs Björns Runólfssonar frá 30. apríl 2023.

Landið með fránum augum Ásgríms Jónssonar. 

Hér er hægt að hlusta á leiðsögn Rakelar Pétursdóttur um verk Ásgríms frá 1. apríl 2023.  

.

Styrktaraðilar: 

Við viljum þakka listamönnum sem hafa komið og aðstoðað við uppsetningu verka sinna.

Einnig RÚV fyrir að leyfa okkur að nota upptöku af ræðu Bjarnveigar Bjarnadóttur sem er í anddyri safnsins.

Þjóðminjasafninu viljum við þakka fyrir að leyfa okkur að nota 2 myndir af Bjarnveigu Bjarnadóttur og einnig upptöku frá ísmús – þar sem Ásgrímur Jónsson talar.

Vilhjálmi Bjarnasyni viljum við þakka fyrir gjöf á ljósmyndum af Bjarnveigu Bjarnadóttur og að hafa komið okkur í samband við fjölskyldu hennar.

Listasafni Íslands viljum við þakka fyrir að leyfa okkur að notast við texta á heimasíðu þeirra – um líf og list Ásgríms Jónssonar.

Upphengiteymi: Pétur Magnússon, Maximillian Riley, Zsóka Leposa og Kristín Scheving.

Innrömmun: Morkinskinna.

Forvarsla og lagfæring á verki: Karen Sigurkarlsdóttir.

Forvörður og ráðgjafi varðandi safneign: Nathalie Jacqueminet.

Þýðing og yfirlestur: Anna Yates og Ingunn Snædal.

Hljóðvinnsla og uppsetning hljóðsturtu: Sölvi Scheving Pálsson.

Hönnun: Maximillian Riley og Kristín Scheving.

Prentun innan og utanhúss: Signa

Fræðsluhorn: Alda Rose Cartwright.

Safnbúð og móttaka: Maria Csizmás.