Erla S. Haraldsdóttir

Draumur móður minnar

2. mars – 25 ágúst 2024

Litrík málverkaröð Erlu S. Haraldsdóttur er unnin með olíu á striga en einnig beint á veggi safnrýmisins. Með mynstruðum veggverkunum, sem innblásin eru af mynsturgerð kvenna af Ndbele ættbálknum í Suður-Afríku þar sem Erla býr sjálf; myndar hún marglaga tengingar milli þeirra hlutbundnu verka er endurspegla þætti úr draumum langalangömmu hennar um huldufólk. Draumana skrifaði hún í dagbók ung að aldri. Með dagbókina í sínum fórum, um 160 árum síðar, leitar Erla fanga í draumafrásögnunum og veltir, í formi málverka, fyrir sér gildi þeirra í samtíma okkar og því sem draumarnir eru mögulega að segja okkur um illsýnilegar hliðarveraldir. Verkin á sýningunni eru þriðja útfærsla Erlu af myndröðinni, sem heldur áfram að þróast að sýningu lokinni.

Erla S. Haraldsdóttir notar málverk, teikningar, prentverk og animation sem miðil til þess að vinna með menningarleg tákn og finna þeim stað í áleitnum og narratívum myndum. Hún er menntuð í málaralist og með fjölbreyttan bakgrunn í gjörningalist og vídeóverkum, en einbeitir sér nú að fígúratívum málverkum þar sem eðliseiginleikar málningar og lita skapa og brjóta upp rými, ljós og skugga. Í verkum sínum fléttar hún oft saman brotum úr persónulegum táknmyndum og menningarlegri arfleifð til þess að kanna samspil fjölskyldubanda, minninga og meðvitundar.
Aðferðafræði er þungamiðja í myndlist Erlu; ferlið er látið stýra verkunum sem lúta oft ýmiss konar reglum og takmörkunum eða eru unnin út frá ákveðnum stöðum eða frásögnum, eða jafnvel fyrirmælum sem aðrir hafa sett henni.

Erla nýtir þessar aðferðir oft í kennslustörfum sínum og samstarfi með öðrum listamönnum. Þessari hlið verka hennar er lýst í ritum á borð við Difficulty of Freedom/Freedom of Difficulty (Reykjavík: Listaháskólinn í Umeå og Crymogea, 2014), Make a Painting of Trees Growing in a Forest (Reykjavík: Crymogea, 2015), sem og síðustu bókum hennar, “My Mother’s Dream” (Stokkhólmur, Arvinius Orpheus publishing, 2022), og “Övergångar” (Stokkhólmur, Arvinius Orpheus publishing, 2021) . Patterns of the Family, (‘uns publishing, Berlín / Ísland, 2019) Erla hefur meðal annars sýnt verk sín í Norrtälje Konsthall í Sviþjóð, Listasafni Reykjavíkur, í Dómkirkjunni í Lundi (Svíþjóð), Hallgrímskirkju, Kalmar Konstmuseum
(Svíþjóð), Moderna Museet í Stokkhólmi (Svíþjóð), Listasafni Akureyrar, Kunstverein Langenhagen (Þýskalandi), Bielefelder Kunstverein (Þýskalandi), Künstlerhaus Bethanien (Þýskalandi), Berlinische Galerie (Þýskalandi) og Momentum, norræna tvíæringnum í samtímamyndlist (Noregi).
Verk hennar eru í safneign Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Akureyrar, Listasafns ASÍ, Listasafns Reykjanesbæjar sem og hjá Statens konstråd, Göteborgs Kulturnämnd, og Moderna Museet í Svíþjóð, Erla stundaði nám við Konunglegu akademíuna í Stokkhólmi og San Francisco Arts Institute, og er með MFA gráðu í myndlist frá Valand-akademíunni í Gautaborg árið 1998.

Sjá meira / more info