Loftnet
Hrafnkell Sigurðsson
Salur 1
2. mars – 25. ágúst 2024
Halldór Björn Runólfsson
Hér má heimsækja sýninguna í sýndarveruleika.
————————
Um rísómískt eðli Loftneta eftir Hrafnkel Sigurðsson
Craniv A. Boyd
„Verðandi er rísóm (flökkurót), ekki flokkandi eða ættartré. Verðandi er sannarlega ekki eftirlíking, eða samsömun með einhverju, né er það afturför-framför, né er það að koma á samsvarandi tengslum, né er það að framkalla skyldleika eða framleiða í gegnum skyldleika. Verðandi er sögn með sitt eigið innra samræmi, sem verður ekki smættuð í, né leiðir yfir í að „virðast“, „vera“, „jafngilda“ eða „framleiða“. […] Rísóm hefur hvorki upphaf né endi, það er alltaf í miðjunni, á milli hluta, innskot, millispil. Tréð er skyldleiki en rísómið er sameining, einstök sameining. Tréð kallar fram sögnina „að vera“ en efni rísómsins er samtengingin, „og … og … og …“ Þessi tenging er nógu sterk til að uppræta sögnina „að vera“.“
– Gilles Deleuze og Félix Guattari, A Thousand Plateaus: Capitalism and Schizophrenia, 1987.
Rísómið er lykilhugtak, þróað af Gilles Deleuze og Félix Guattari í öðrum þætti Capitalism and Scizophrenia, tilraunafræðiriti þeirra þar sem kleyfgreiningu er beitt til að lýsa skipulagslögmálum samfélagsins, sálfræði, bókmenntum, tónlist og sjónlistum. Sem formgerðarmódel sem kvíslast út og tengir ósamstæða þætti finnst mér það viðeigandi hugtak til að nálgast Loftnet, nýjustu verkaröð Hrafnkels Sigurðssonar, og reyna að skilja hvernig þau eru og munu haldast stöðugt í sínu „verðandi“ millibilsástandi. Ég vil reyndar halda því fram að þau séu rísómatísk að því leyti að þau eru ofin úr efni samtengingarinnar, sköpuð úr ferlinu „og … og … og …,“ og sporna við öllum tilraunum til eftirlíkinga eða samsömunar með einhverju öðru.
Hrafnkell býr ekki né vinnur í tómarúmi og mikið af listrænu framlagi hans endurspeglar, brýtur og eykur við hversdagslega hluti (íslensk skip, skipverja, ruslapoka, plast). Hann beitir ljósmyndun og stafrænum aðferðum til að gera ljá hinu kunnuglega kynlegan blæ: Í Afhjúpun svífur kúluplast um ofan í vatni, en í Upplausn eru myndir úr Webb-sjónaukanum stækkaðar, dílsettar og sýndar á upplýstum auglýsingaskiltum á stór-Reykjavíkursvæðinu. Þannig verður málning á skipssíðu að ljósmyndaverki sem vekur hugrenningatengsl við látlausan mínimalisma Bernds og Hillu Becher eða litaflatamálverk Marks Rothko. Hversdagslegt kúluplastið og ferlið við að sökkva því í vatn, dýfa sér svo í vatnið til að ljósmynda svífandi plastið, tengir áhorfandann við kunnuglegt efni á framandi slóðum. Í vatninu virðist iðnaðarefnið nánast lífrænt, eins og hamur af gríðarstóru skriðdýri. Ljós frá stjörnum og stjörnuþokum í óhugsandi mikilli fjarlægð er fangað og fínstillt og skerpt þar til það er orðið jafnvel enn dularfyllri og torskildari mynd. Afrakstur þessara hárnákvæmu listrænu, ef ekki hreint út sagt vísindalegu, tilrauna er svo settur aftur út í samfélagið á auglýsingaskiltum: listin sem ljós án texta og án útskýringa. Í augum Hrafnkels eru þessi umbreytingarferli, þessi verðandi, hluti af því sem tengir alla vinnu hans saman. Kynlegt eðli verka hans, ásamt þeim áþreifanlegu hlutum sem gera birtingu þess kleifa, hvetja áhorfandann til að draga í efa eðli þess sem hann sér.
Þessar efasemdir eru leikur brottnáms á milli listamannsins og áhorfenda hans, eins og mannfræðingurinn Alfred Gell setti fram í bókinni Art and Agency, sem gefin var út að honum látnum. Gell heldur því fram að áhorfendur listaverka reyni ekki aðeins að geta sér þess til hvað listaverkið sé heldur einnig hvernig það er búið til. Listaverk, skaparar þeirra og áhorfendur eru því tengd saman í runu sem hann lýsir sem álagatækni. Í Loftnet þurfa áhorfendur að beita fráleiðslurökfræði til að komast að því hvað ljósmyndirnar tákni en ferlið sem liggur að baki tilurð þeirra er á huldu. Þetta sprettur að hluta til vegna „álagatækninnar“ (myndavélar, tölvur, gervigreind) sem Hrafnkell beitir til að skapa sína eigin útgáfu af álögum.
Myndaröðin samanstendur af stórum ljósmyndum af frosnu, vindblásnu vatni sem hefur safnast á stálloftnet sem listamaðurinn útbjó og kom fyrir á Skálafelli. Sumar myndirnar eru rammaðar inn á bak við gler, aðrar hengdar beint á vegginn og enn aðrar girtar af með brotalínu úr annaðhvort skærappelsínugulu eða svörtu límbandi. Ein myndin er krumpuð og svífur í stuttri fjarlægð frá veggnum. Auk þessa er ein litljósmynd sem gefur vísbendingu um hvernig verkin urðu til. Á henni sést blár himinn, frosið hvítt vatn og glittir í stálbút. Í neðra vinstra horni vottar fyrir fjöllóttu landslagi, hægra megin við stálið sem þakið er snjó má sjá slóð, eða það sem listamaðurinn kallar „stafrænt bergmál,“ búna til með hjálp gervigreindarforrits. Hinar myndirnar eru svarthvítar eða í gráum tónum. Frosið vatnið gæti verið skýjamyndanir, stjörnuþoka, kóralrif, hellar eða smásæ fyrirbæri (eins og í fyrra verki sem bar titilinn Concrete Conception). Loftnetin virðast hvorki hafa byrjun né endi, þau eru eins og rísómið, á milli, í miðjunni, og frosnu augnablikin sem fönguð voru á filmu gætu verið á hreyfingu eða að minnsta kosti táknað hluti í flæði.
Stóru Loftnetin eru römmuð inn með brotalínum úr límbandi. Í sumum tilfellum eru notaðir yfir tólf límbandsbútar, annars staðar ekki nema fjórir. Áberandi línurnar gefa í skyn spennu, kannski framkalla þær sams konar ýta-toga rýmisáhrif og Hans Hofmann vakti með abstrakt málverkum sínum. Stærð ljósmyndanna er umtalsverð, þær eru óvægnar og bókstaflega umlykja áhorfendur í mikilfengleik sínum. Áhrifin eru aukin enn frekar með gervigreindinni sem notuð er til að skerpa á upprunalega myndefninu. Þetta er náttúran, en „stækkuð“ – fagurfræði tuttugustu og fyrstu aldarinnar með rætur í hugmyndum Kants um hið háleita. Minni verkin í röðinni vísa meira til snertiskynsins – reyndar virðist hvert einstakt mótíf verða fígúratífara og sveigjanlegra eftir því sem myndin er minni. Sum spretta fram úr stemningsheimi en önnur úr algjöru myrkri, sem myndar algjör andstæðu við áferð frosna vatnsins.
Rísómið sem Loftnet er samanstendur af þáttum og verklagi sem Hrafnkell velur og sameinar í verðandi-ferlinu. Að útsetja handgerða járnhluti fyrir óblíðum náttúruöflum íslenska vetrarins, skrásetja þessi tæki sem skilin eru eftir til að safna frosti, vinna úr myndunum sem verða til, beita gervigreind til að skapa „stafrænt bergmál“ – þetta eru helstu skrefin í samlægu ferli sem listamaðurinn heldur áfram í safnrýminu með því að ákveða stærð og staðsetningu verkanna. Heildaráhrifin vekja til lífsins álagatækni þar sem áhorfendur ráða í verkin, eru umluktir þeim og taka þátt í umbreytingarferlinu og verðandinni sem listamaðurinn setur af stað með því að vera það sem hann kallar „skapandi og hluti af sköpuninni.“