Sigga Björg Sigurðardóttir

Hamflettur

Sigga Björg Sigurðardóttir

og Mikael Lind

Salur 2

2. mars – 25. ágúst 2024

Hér er hægt að skoða sýninguna í 3D

https://my.matterport.com/show/?m=3duRTyQrKJr

Hamflettur, vídeóinnsetning Siggu Bjargar Sigurðardóttur myndlistarkonunnar og tónlistarmannsins Mikaels Lind, lýkur upp hljómvíðum myndheimi. Hárfínir þræðir virka sem leiðsögn, samofin formum og táknmyndum, verdur ad síbreytilegu sögusvidi sem virðist ljóslifandi og líkja má við sögusvið sem breytist við það eitt að líta á nýjar hliðar.

Sigga Björg nýtir „stop motion”- tækni til ad fanga ferli myndgerda. Áhorfendur dragast inn með sköpunarflæði listamannanna, línu fyrir línu, þráð fyrir þráð, af einum skjá á annan, tóntíðni á milli, innar og dýpra, lag fyrir lag. Rýna í teiknaðar rákir um leið og þær framkallast, ein af annarri, í samhljómi og á milli þriggja tvívíðra skjáa.

Elektrónísk hljóðmyndun Mikaels er í senn blöndun og magnari umbreytinga í upplifun áhorfandans, sem tekst að byggja hljómfallið gætilega að innri takti í tengingu við sjónhrif. Hvarfpunktar tengjast í eftirfylgd sköpunarverksins sem er fyllt hljóðvíddum. Flæði verkanna er ólíkt milli skjámynda, áhorfandinn upplifir aldrei sömu þríhendu skjámynda og hljómfalla, aldrei sömu aðkomu að verkinu.

Við samtengingu ólíkra listforma hverfist verkið með áhorfandanum, líkt og dáleiddar skyntaugar fylgi hljómfalli sem tengist litríkum formum, leiftrandi línum sem virðast dansa með tónbragnum.

Hamflettur færa áhorfendum boð inn í undirdjúp upplifunar. Líkt og intakið sé ævarandi í innri veröld viðtakandans, sjónlínur handan þess sem augað nemur: Úr verður málstola samhljómur þar sem upphaf og endi er hvergi að finna. Hér fara listamennirnir hinum megin að, varpa flæðinu í heildarverk tóna og teikninga, án eftiráskýringa. Upplifun áhorfandans verður áreynslulaus, órjúfanleg þriðju vídd fléttunnar.

Aðalheiður Sigursveinsdóttir

Sigga Björg Sigurðardóttir (f. 1977) býr og starfar í Reykjavík. Verk hennar hafa verið sýnd víða erlendis og í helstu listasöfnum og listrýmum á Íslandi. Verk hennar eru í safneignum helstu listasafna hér á landi auk safna á Norðurlöndunum, Englandi, Sviss og Þýskalandi. Sigga Björg útskrifaðist með MA gráðu frá Glasgow School of Art (2004) og útskrifaðist með BA gráðu frá Listaháskóla Íslands (2001).

Mikael Lind (f. 1981) býr og starfar í Reykjavík. Hann hefur gefið út fjórar breiðskífur auk fjölda stafrænna útgáfa, bæði sjálfstætt og í samstarfi við aðra. Mikael hefur spilað tónlist sína í fjölda tónleikarýma á Íslandi og víða í Evrópu. Mikael er með Meistaragráðu í stafrænum tónsmíðum (e. digital composition) frá Edinborgarháskóla

https://siggabjorg.net