Kaþarsis
Kristinn Már Pálmason
Salur 3
2. mars – 25. ágúst 2024
Hér má skoða sýninguna í 3D
https://my.matterport.com/show/?m=3duRTyQrKJr
Málverk Kristins Más Pálmasonar eru stór að stærðum og sprúðlandi af lífi, nánast á hreyfingu og draga okkur til sín líkt og hvirfilbylur, svo mikið er að gerast á myndfletinum. Okkur birtast þar ýmis rúmfræðileg form, birtingarmyndir ýmiss tákna og vísanir í táknfræði fyrri tíma og samtímans, hlutbundin og óhlutbundin teikning, sums staðar handskrift og annars staðar náttúruleg form.
Hann notar spray-tækni, pennateikningu og málningu í bland og skapar þannig óræðan heim margvíslegra hluta og forma, sem líkt og svífa í kringum hvorn annan innan myndflatarins. Í málverki Kristins er mikil tónlist, snarpar og grípandi sveiflur hækkandi og lækkandi styrkleika, óreiðukenndur taktur og ólgandi orkusvið sem líkt og víbrar og fær sjáöldur okkar til að hreyfast. Undir niðri hljóma dimmar drunur. Í þessum sjónrænt margslungnu málverkum er óreiðan ekki afl sem þarf að temja heldur órjúfanlegur hluti af myndrænu tónverki. Heimur verka Kristins er í senn skipulagður og brotakenndur, nokkurskonar sjónræn kakófónía, og á sér svæði í yfirtónum vitundarinnar, líku því svæði er draumalífið birtir okkur.
Kristinn Már Pálmason (f. 1967) býr og starfar í Reykjavík. Verk hans hafa verið sýnd víða erlendis og í helstu listasöfnum og listrýmum á Íslandi. Hann hefur tekið þátt í fjölda listtengdra verkefna og verið meðstofnandi að sýningarýmum í Reykjavík, svo sem Anima (2006-2008) og Kling & Bang (frá 2003). Kristinn Már útskrifaðist með MA gráðu frá The Slade School of Fine Art, University College London (1998) og útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands (1994).
Kristinn Már vill þakka Launasjóði listamanna og Myndlistarsjóði fyrir stuðninginn.