Reiturinn á milli

Agata Mickiewicz & Styrmir Örn Guðmundsson

Salur 2

7. febrúar – 23. ágúst 2026

Styrmir Örn Guðmundsson og Agata Mickiewicz: Reiturinn á milli

Einkenni jaðarstöðu eða jaðarpersóna („fólks á þröskuldinum“) eru óhjákvæmilega margræð, þar sem þetta ástand og þessir einstaklingar sleppa eða smjúga í gegnum þau flokkunarkerfi sem venjulega staðsetja stöður og hlutverk í menningarlegu rými. Jaðarfyrirbæri eru hvorki hér né þar; þau eru á milli og á mörkum í ‏þeirri stöðu sem lög, venjur, hefðir og helgisiðir kveða á um. Þess vegna birtast óljós og óákveðin einkenni þeirra með ríkulegum táknum í mörgum samfélögum sem iðka félagsleg og menningarleg umskipti. Þannig er jaðarstöðu oft líkt við dauða, við að vera í móðurkviði, ósýnileika, myrkur, tvíkynhneigð, óbyggðir og sól- eða tunglmyrkva.

– Victor Turner, The Ritual Process1

Orka, gleði og sköpun eru í brennidepli í verkum listafólksins Styrmis og Agötu. Í sýningunni Reiturinn á milli skapa þau verk sem tengjast hvert öðru og mismunandi leiðum til að vera í „reitnum“; í þessu tilfelli landslaginu. Þau takast á við veru sína í rýminu með ólíkum hætti: Styrmir sýnir myndband af sjálfum sér á línuskautum í íslensku landslagi, líkamlega og hreyfanlega nálgun, en Agata setur upp skúlptúrinnsetningu úr ull og rauðu gleri sem umbreytir rýminu og býður gestum að setjast niður, hugleiða og hverfa inn á við.

Báðir listamennirnir leggja fram eigin sýn á landslag sem er innblásin af reitunum á milli fjalla á Íslandi. Agata sýnir þrískipta málverkið The Field in Between, allegórískt olíumálverk sem vísar bæði til þrívíddar heimsins og þriggja tíma – fortíðar, nútíðar og framtíðar – sem við upplifum sálrænt. Á striganum birtast tvær goðsagnakenndar verur sem tákna forgengileika efnis, og í miðju svífur rauður kristall sem táknar frumorku og rúmfræði hennar. Styrmir sýnir fantasíulandslag innblásið af fjöllum Reykjadals; litapalletta hans er djörf og tjáningarrík, með vísanir í götulist, veggjakrot og fauvisma.

Agata á rætur í textíllist og hefur áhuga á jarðsegulorku, svo sem Schumann-tíðninni (hnattræna rafsegultíðni sem er mynduð og örvuð af eldingum).2

Hún sækir innblástur í eðlisfræði og kristalgrindur, hvernig atóm raða sér í mynstur. Gler og textíll eru því tilvalin efni í verk hennar, þar sem þau bjóða upp á mikla möguleika á hörku og margvíslegum mynstrum. Hún sækir einnig í íslenskar þjóðsögur og notar náttúruleg efni á borð við ull, gler og kristalla án þess að breyta orku þeirra. Hún segir sjálf: „Ég elska andstæðuna á milli mýktar textílsins og hörku kristals eða glers. Ég elska líka málunarferlið. Ég skapa mynd með því að setja mig í dulvitundarástand og slökkva á gagnrýnni hugsun.“3

IInnsæi er lykilatriði í ferli hennar og einnig í ferli Styrmis.

Styrmir sækir fjölbreyttan innblástur í hellamyndir, veggmyndir, teiknimyndasögur, expressjónistann Jóhannes Kjarval, ljóðræna konseptlistamanninn Hrein Friðfinnsson, popplistamenn á borð við David Hockney (1937-), litháíska táknlistamanninn og tónskáldið Čiurlionis og listamenn tengda tengslafagurfræði, svo sem Walid Raad (1967-), Atlas-hópinn og Francis Alÿs (1959-). Verk hans bera með sér óbein tengsl við þessa fjölbreyttu áhrifavalda. Til dæmis má nefna þátttökuverk Styrmis, opinbert verk sem hann vann á Granda í Reykjavík, þar sem kyrrstæð veggmynd af stjörnumerkjum er sameinuð félagslegum þáttum klifurgreipa sem festar eru á vegginn. Áhorfendur geta klifrað á veggmynd af stjörnumerkjum sem máluð er á hlið byggingar og verða þannig þátttakendur í listaverki sem byggir á tengslahugmyndum samtímalistar (relational aesthetics), þar sem verkið er virkjað á hreyfanlegan hátt með því að nota það sem klifurvegg. Líkamleg athöfnin verður þannig mögulegur farvegur fyrir þátttakendur til að upplifa og ljúka verki listamannsins.

Með meðvitaðri ákvörðun um að vinna í ólíkum miðlum má líta á Styrmi og Agötu sem jaðarpersónur í skilningi Victors Turner. Verk þeirra fara á milli og út fyrir hefðbundna flokka sem listafólki í hinu menningarlega rými eru úthlutaðir eða það úthlutar sér sjálft. Þetta eðli tilfærslu og óstöðugleika, sem sprettur af samspili margra miðla, getur af sér verk sem eru í senn örlát, táknræn í ríkum mæli og margræð. Það er viðeigandi að Styrmir og Agata, sem „fólk á mörkunum“, velji sýningu sinni í Hveragerði heitið Reiturinn á milli, því það millibilsástand sem þau kanna bæði í hinu líkamlega og sálræna landslagi með aðferðum sem þau nefna „orkuvinnu“ endurspeglast í ákvörðun þeirra um að sýna saman, með gagnvirkri og speglaðri listrænni afstöðu. Styrmir gerir það með því að sýna tjáningarríkt landslag og sjálfan sig sem virkan, líkamlega ígrundaðan geranda innan þess sviðs, en Agata með því að sýna allegórískt landslag sem stendur fyrir orku og tíma og skapa innan innsetningar sinnar rými þar sem fólk getur snúið sér inn á við, ígrundað og dvalið á eigin orkusviði innan tíma og rúms Hveragerðis.

Báðir listamennirnir hafa búið og starfað í Amsterdam, Varsjá, Berlín og Reykjavík og aðhyllast rannsóknarmiðaða vinnu sem brúar miðla. Fyrir Styrmi eru lykilorð verka hans gleði, undrun og opnir gluggar. Fyrstu tvö orðin eru innri hvatning hans til listsköpunar og þriðja orðið lýsir því sem listin gerir fyrir sjálfa sig og samfélagið: þenur það út.4

List er einnig hornsteinn þess sem mannfræðingurinn Victor Turner kallar communitas: rými eða málstað, stundum skammlíft, þar sem fólk kemur saman án stigveldis.5

Agata dregur verk sín saman með eftirfarandi hugtökum: hugsjónahyggja, þróun, yfirskilvitleiki. Þetta eru orð sem hún notar til að ramma inn listræna starfshætti sína og heimspeki. Að vissu leyti eru þetta innhverfari hugtök: hið fyrsta vísar til trúar eða viðmiðs einstaklings; annað orðið vísar til telos, eða innri drifkrafts lífsins; og hið síðasta lýsir ferli og að endingu markmiði þess að yfirstíga, klífa handan – í átt að andlegum víddum – sem eru algildar.

Í Reitinum á milli bjóða Styrmir Örn Guðmundsson og Agata Mickiewicz hvort upp á sína samverkandi sýn á Ísland frá sjónarhorni jaðarpersóna sem vinna með fjölda miðla og margvíslegt efni, gegn einfaldri flokkun. Þau eru sjálf „á milli og á mörkum.6

Þau rannsaka og hvetja áhorfendur til að nálgast verkin og landslagið með gleði, íhugun, þróun og umbreytingu.

Texti eftir dr. Craniv Boyd.

1) Victor Turner, The Ritual Process: Structure and Anti-Structure (Ithaca: Cornell University Press, 1969). Bls. 95. Feitletrun er mín.

2) Hægt er að lesa meira um Schumann-tíðni á https://en.wikipedia.org/wiki/Schumann_resonances.

3) Tölvupóstur frá Agötu Mickiewicz, 17. október 2025.

4) Tölvupóstur frá Styrmi Erni, 17. október 2025.

5) Hægt er að lesa skilgreiningar á communitas og nokkur þvermenningar- og söguleg dæmi um hugtakið í 4. kafla, Communitas: Model and Process, í Turner, 1969.

6) Sjá Turner, 1969, bls. 95.