HUGLÆG RÝMI
Ólafur Sveinn Gíslason
12. janúar – 31. mars 2019
Margrét Elísabet Ólafsdóttir
TÍMI MINNINGA – RÝMI ATHAFNA
Verk Ólafs Gíslasonar vekja spurningar um rými listarinnar og listaverksins og þátt listamanns og annarra í sköpun þessa rýmis. Afstaða Ólafs byggist á þeirri sannfæringu að sköpun listaverks sé ekki eingöngu hlutverk listamannsins og því hefur hann tileinkað sér ákveðið vinnuferli sem felur í sér virka þátttöku annarra. Verk hans verða til á ákveðnum stöðum, mótast af samræðum við einstaklinga eða hópa sem tengjast stöðunum og fjalla um staðina eða rýmið sem þau spretta upp úr. Rýmin eru í senn hlutlæg og huglæg og koma saman í verkunum. Það má orða það þannig að Ólafur taki mót af huglægum rýmum sem hann yfirfærir í hlutlæg rými, hvort sem er inni á heimilum, í sýningarsölum eða úti á torgum. Verk hans gera um leið grein fyrir afmörkuðum rýmum – eða kimum – samfélagsins og þeim einstaklingum og hópum sem athafna sig innan þeirra.
Ólafur hefur notað nokkrar mismunandi aðferðir til að skapa verk í samvinnu við aðra en með tímanum hafa viðtöl öðlast ákveðið vægi í samstarfinu. Hann hefur þannig horfið frá því að vinna verk á staðnum með beinni þátttöku almennings og í staðinn átt í nánu samstarfi við einstaklinga og hópa sem hann ræðir við. Hann hefur sýnt viðtölin í formi texta í verkunum Flatt rótarkerfi (2001) og Að dreyma í Hannover (2002), en einnig sem hljóðverk í Global Marriages (2003) og gemeinschaften (2004). Frá þeim tíma hefur kvikmyndamiðillinn fengið meira vægi þegar kemur að frekari úrvinnslu og framsetningu. Viðtölin eru ekki tekin upp beint og síðan sýnd sem slík heldur eru þau endurskrifuð í handriti sem síðan er flutt og tekið upp með leikurum og viðmælendunum sjálfum. Ólafur hefur sýnt bæði hljóðverk og kvikmyndir sem hluta af innsetningum en þær vísa til aðferðar sem hann notar til að breyta sýningarrýminu, t.d. með smíði sviðs eða milliveggja. Í innsetningunum er einnig að finna annarskonar verk, s.s. teikningar, vatnslitamyndir og líkön. Niðurstaðan er verk byggt á rýmishugsun sem kemur fram í samspili sýningarrýmis, staðsetningar hluta í rýminu, innra rýmis hljóðs og kvikmynda, og rýmis athafna eða frásagnar.
Þátttökurými
Á þrjátíu ára ferli sínum sem myndlistarmaður hefur Ólafur Gíslason farið ýmsar ólíkar leiðir til að skapa aðstæður fyrir samvinnu við einstaklinga og hópa. Elsta verk hans byggt á þátttöku er verkið Myndpöntun frá árinu 1991. Í Medium St. Pauli (1995) vann hann með bareigendum í samnefndu hverfi í Hamborg að því að virkja kráargesti til að teikna myndir og skrifa texta. Í Leirmótun úti á sjó (1997) setti hann upp flotpramma undan ströndinni í Eckernförde, þýskum strandbæ við Eystrasaltið. Á prammanum voru leirklumpar sem strandgestum stóð til boða að móta úr fígúrur sem síðan voru til sýnis í galleríi í bænum. Í þessu verki, líkt og Medium St. Pauli, skapaði listamaðurinn tímabundnar aðstæður fyrir sköpun í fyrirfram afmörkuðu rými, sem í seinna tilfellinu var flotprammi úti á sjó, og í því fyrra korktöflur og teikniáhöld sem komið hafði verið fyrir á níu börum í rauða hverfinu í Hamborg. Fyrrnefnda verkefnið stóð yfir í nokkra mánuði og var hluti afrakstursins að lokum til sýnis fyrir almenning.
Ólíkt þessum tveimur verkefnum, sem stóðu yfir í afmarkaðan tíma, stendur timburkofinn í verkinu Media Thule (1994) ennþá uppi skammt frá bænum Myklebostad í Tjeldsund í Norður-Noregi. Þar geta gestir sest niður með útsýni út á hafið og látið hugann reika með penslum og vatnslitum á pappír en áhugahópur í samfélaginu sér um að halda verkinu gangandi. Í þessum verkum leikur tilviljun skýrt hlutverk þar sem þátttakendur fá óskorað frelsi til athafna innan gefins ramma. Með tímanum hafa vinnuaðferðir Ólafs þróast í átt að nánari samvinnu með þátttakendum þar sem kvikmyndamiðillinn leikur stórt hlutverk í framsetningunni.
Frá viðtali til myndar
Ólafur notaði fyrst vídeó sem hluta af innsetningu í verkinu Gyllti bambusinn (2002), sem byggðist á viðtali við víetnamskan innflytjanda í fyrrverandi Austur- Þýskalandi. Vídeóverkið sýndi ferðalag pálmatrés frá víetnömskum veitingastað í Dresden til sýningarstaðar í sömu borg. Hinn tímatengdi, sjónræni miðill var nýttur til að gera grein fyrir flutningi trésins frá einum stað til annars en er um leið myndlíking fyrir flutning og ferðalag eiganda veitingastarðarins, frá Víetnam til Austur-Þýskalands og að lokum aðlögun hans að nýjum aðstæðum í sameinuðu Þýskalandi. Í framhaldinu tók Ólafur að móta vinnuaðferð þar sem hann notar kvikmyndavélina til að taka upp leikna texta. Theater Real (2004) er lykilverk í þessari þróun en það byggist á viðtölum við sjö verslunareigendur við götuna Wandsbeker Chaussee í hverfinu Eilbek í Hamborg. Viðtölin voru fyrst tekin upp og síðan sviðsett fyrir kvikmyndaupptöku í verslunum. Kvikmyndin var sýnd sem hluti af sviðs-innsetningu sem komið var fyrir í verslunarrými á milli þeirra verslana sem hann vann með. Gestum var boðið að stíga inn á sviðið en baksviðs gátu gestir horft á glugga sem sneri út að götunni. Fyrir ofan gluggann var flötur sem kvikmyndinni var varpað á. Saman mynduðu kvikmyndin og lifandi götumyndin samfellda mynd rýmis- og tímahugsunar sem var annarsvegar götulífið og hins vegar kvikmynd um hugleiðingar verslunareigenda um starfsemina við götuna. Svipaða hugsun og framsetningu er að finna í verkunum Strukturwandel (2005) og Fiskidrama (2006), sem fjalla um sjávarútveg og alþjóðaviðskipti með fiskafurðir en þar teflir Ólafur saman ólíkum athafnarýmum.
Rými myndarinnar
Í verkinu sameiginlega samhliða (2008) er að finna skylda hugsun en annarskonar útfærslu. Verkið gerði Ólafur á meðan hann var hverfislistamaður í Veddel í Hamborg1, en þar búa margir innflytjendur. Undirbúningur verksins stóð yfir í nokkra mánuði í samstarfi við íbúana. Verkið sjálft var sýnt sem innsetning með tveimur kvikmyndum sem varpað var á veggi andspænis hvor annarri. Til að afmarka sýningarrýmið voru hengdir upp stórir efnisfletir úr kvenmanns- og karlmannsskyrtum. Stólum var raðað upp við fletina þannig að hægt væri fylgjast með báðum kvikmyndum samtímis, með því að horfa á þær til skiptis. Fletirnir voru saumaðir af konu frá Albaníu sem fékk greitt fyrir saumaskapinn. Hún var kvikmynduð við vinnu sína en vildi ekki þekkjast í myndinni af trúarlegum ástæðum. Skyrturnar voru einnig notaðar í mörgum senum kvikmyndanna. Undantekning frá kvikmyndasýningum Ólafs í vel útfærðri rýmisskipan er kvikmyndin Fangaverðir (2017). Hún er hugsuð til sýningar í kvikmyndahúsi fremur en safni eða sýningarrými og var frumsýnd í Bíó Paradís.
Erfitt getur reynst að skilgreina kvikmyndina Fangaverði samkvæmt hefðbundnum flokkunum því hún er hvorki hefðbundin heimildarmynd né hefðbundin leikin kvikmynd. Í henni eru engar skáldaðar persónur, heldur raunverulegir fangaverðir sem þó eru hvorki nafngreindir né persónugerðir. Framvinda myndarinnar er hvorki knúin áfram af söguþræði né persónulegri frásögn einstakra viðmælenda. Myndin er leikin af tveimur fangavörðum og tveimur þekktum leikurum sem styðjast við handrit byggt á raunverulegum lýsingum fangavarðanna af starfi sínu. Með því að stefna viðmælendum og leikurum saman í myndinni verður aðgreining heimildar og sviðsetningar óljós. Sviðsmynd kvikmyndarinnar á sinn þátt í að gera þennan greinarmun óskýran því myndin er tekin upp í vinnurými fangavarðanna í gamla Hegningarhúsinu við Skólavörðurstíg. Þar fylgjast áhorfendur með fangavörðunum athafna sig í þröngri vinnuaðstöðunni og hlusta á þá lýsa starfinu, samskiptum sínum við fangana og upplifun sinni af viðhorfum samfélagsins fyrir utan til starfs þeirra og vinnustaðarins. Í eintali fangavarðanna í raunverulegu rými fangelsins, á milli frelsis og innilokunar, skapast huglægt rými sem mótast af lýsingum á athöfnum, upplifunum og sálrænu hugarástandi. Sýning kvikmyndarinnar í kvikmyndahúsi á síðan sinn þátt í að ýta undir tilfinningu fyrir þrengslum og innilokun.
Kvikmynda-innsetning
Huglæg rými sem Ólafur Gíslason sýnir í Listasafni Árnesinga er unnið í beinu framhaldi af fyrri verkum. Í verkinu koma margir þræðir saman í innsetningu sem tekur yfir sýningarrými safnsins og hluta af anddyrinu. Efniviður verksins og einstakir hlutar þess hafa orðið til á löngu tímabili samveru og samskipta Ólafs við ábúanda á jörð á Suðurlandi þar sem ekki er lengur stundaður hefðbundinn búskapur. Ábúandinn stundar vinnu utan býlis, en heldur nokkrar kindur í einu útihúsanna við bæinn. Hann hefur einnig ræktað upp skóg í landi sínu og stundar tilraunir með kartöflurækt. Verkið byggist að stórum hluta á viðtölum sem Ólafur hefur tekið við ábúandann sem í þessu verki er eini viðmælandinn. Viðtölunum hefur hann skipt upp eftir viðfangsefnum sem tekin eru fyrir í nokkrum styttri kvikmyndum. Líkt og í sameiginlega samhliða eru kvikmyndirnar sýndar tvær saman en hér eru þær samtals sex og sýndar á fjórum stöðum í safninu; tvær stakar hvor í sínu rými og og tvær sem tvinnast saman í öðrum tveimur rýmum. Klipping myndanna tekur mið af staðsetningu þeirra í rýminu og hefur það markmið að beina athygli gesta að hinum vörpuðu kvikmyndum til skiptis.
Í bíósalnum sitja kvikmyndahúsagestir kyrrir í sætum sínum meðan á sýningu stendur. Þessu er öfugt farið þegar kvikmyndirnar eru hluti af innsetningu þar sem einnig er hægt að skoða fleiri hluti. Í innsetningunum er hvorki hægt að treysta á þægileg sæti né sérstaka dagskrá með upphafi og endi. Upphafið er þar sem áhorfandinn kemur inn í myndina og endirinn þar sem áhorfið hófst. Þarna á milli er framvindan en áhorfandinn hefur val um hvort og hversu lengi hann staldrar við. Franski fræðimaðurinn Raymond Bellour hefur kallað slík verk kvikmynda-innsetningar en þær eru fyrir löngu orðnar hluti af samtímalistinni. Innsetningin vísar til umgjarðar sýningar kvikmyndar- innar og mótandi áhrifa sem hún hefur á það hvernig kvikmyndin er upplifuð og meðtekin. Uppsetning kvikmynda-innsetningarinnar í rýminu fylgir því ekki öðrum reglum en þeim sem listamaðurinn ákvarðar hverju sinni.
Tíma-rými
Handrit kvikmyndanna í Huglægu rými byggist á viðtölum við einn einstaklinginn en textinn er leikinn af fimm einstaklingum; einum atvinnuleikara, karlmanni á miðjum aldri, og þremur íbúum úr sveitinni, unglingspilti, ungum manni og konu á besta aldri auk ábúandans. Í hverri mynd sjáum við tvo til þrjá leikara saman í mynd, ábúandann, piltinn og leikarann, piltinn, konuna og ábúandann, ábúandann, unga manninn og leikarann og svo framvegis. Öll eru klædd í áþekkan fatnað, köflótta skyrtu, og stundum með lopapeysu eða jakka yfir sér eða í úlpu. Þau eru í flauels- eða gallabuxum og ganga um í gúmmístígvélum og með höfuðfat. Klæðnaðurinn og umgjörðin hafa yfir sér tímalaust yfirbragð. Í hverri mynd fyrir sig tala persónurnar um ákveðið efni, rifja upp og segja frá, án þess að eiga í beinum samræðum. Það er miklu líkara því sem þær tali við sjálfar sig en hver aðra en þó þannig að það er alltaf áheyrandi að því sem sagt er. Sá sem talar er ein persóna, persóna ábúandans. Þessi aðferð mótar framsetningu texta og myndar í tví- og þrískiptri tímavídd þar sem sami einstaklingur, eða staðgenglar hans, birtast samtímis og veita innsýn í ólíkar hliðar persónuleika hans á mismunandi æviskeiðum. Nærvera ábúandans í myndrammanum, ásamt leiknum útgáfum af honum sjálfum, skapar ákveðið andrúmsloft nándar og innileika, en á sama tíma ákveðna fjarlægð á milli textans og viðmælandans.
Val Ólafs á leikurum í hverri kvikmynd mótast af umræðuefninu og hvort um er að ræða frásögn af lífsháttum, upprifjun atburða eða minningar úr æsku, samskipti við móður og föður, skepnur og mold. Við sögu koma einnig samræður um kvenleg áhugamál eins og blómarækt og prjónaskap, eða frásagnir af smíði, skógrækt, kindum og matargerð. Umræðuefnin hafa margvísleg tengsl við tímann eftir því hvort um er að ræða minningar, lýsingar á áhugamálum eða líf bóndans í dag.
Kvikmyndin er tímatengdur miðill en hann er einnig rýmistengdur og gefur færi á að sýna og móta það sem Bellour vísar til sem tíma-rýmis. Hlutlægt rými myndarinnar birtist sem val á tökustöðum fyrir tiltekin atriði og myndskeið, hvort sem það er úti í skógi, inni í hlöðu, í skemmunni, stiganum, stofunni eða reykhúsinu. Þessi staðir tilheyra bænum eða nágrenni hans og jörðinni í kringum bæinn. Þeir afmarka heimasvæði ábúandans og rými daglegra athafna hans. Rýmin eru notuð sem vettvangur tiltekinna viðfangsefna og ramma þau inn. Umræðuefnið sjálft hefur það hlutverk að draga upp og móta huglæg rými minninga og reynslu, tengda uppsprettu áhugamála, tilurð hluta og bygginga og afstöðu til daglegra athafna. Úr þessum efniðvið verða til myndir af manni og opna þær gátt inn í heilan merkingarheim. Huglæg rými dregur allt í senn upp mynd af sögu einstaklings og sögu samfélags sem jafnframt er saga af tíma, tímabilum og stað.
Sýningarstjóri: Margrét Elísabet Ólafsdóttir
Margrét Elísabet Ólafsdóttir er lektor við Háskólann á Akureyri og sjálfstætt starfandi fræðimaður, gagnrýnandi, sýningar- og verkefnastjóri. Hún nam við Parísarháskólann Sorbonne-Panthéon, lauk þaðan diplómanámi í menningu og boðskiptafræðum árið 1994, sérhæfði sig síðan í fagurfræði og útskrifaðist með framhaldsgráðu árið 1999. Hún lauk doktorsprófi í list- og fagurfræði frá sama skóla árið 2013. Frá árinu 2002 hefur hún fengist við rannsóknir á raf- og stafrænum listum með áherslu á sögu þessara lista á Íslandi.
Ólafur Sveinn Gíslason (1962)
Ólafur lauk námi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1983 og Hochschule für bildende Künste í Hamborg 1988. Að námi loknu bjó Ólafur í Þýskalandi og vann þar að myndlistarverkum sem sýnd voru í galleríum, listasöfnum og í opinberu rými víða í Evrópu og annars staðar, auk þess að sýna reglulega á Íslandi.
Árið 2007 tók Ólafur við stöðu prófessors við myndlistardeild Listaháskóla Íslands og flutti þá aftur heim. Frá árinu 2015 hefur hann verið með vinnustofu að Þúfugörðum í Flóa.
Það sem helst einkennir list Ólafs er hin félagslega vídd þar sem samskipti listamannsins við samfélagið, virkni þátttakenda við sköpun verkanna sjálfra og aðstæður áhorfenda eru mikilvægir þættir. Að þessu leyti tengist myndlist hans því sem hefur verið kallað „relational aesthetics“ eða fagurfræði tengsla, þar sem megináherslan er á tengslin milli aðila við tilteknar aðstæður. Hann fylgir spurningum eftir þar sem persónuleg örlög og almennar samfélagslegar spurningar snertast. Í verkum sínum hefur Ólafur tekist á við viðfangsefni tengd óttafantasíu barna (Aus dem Kinderzimmer, KX Kampnagel, Hamburg 2000), aðstæður innflytjanda (Träumen in Hannover, Sprengel Museum Hannover, 2002), sjálfsmyndir ungs fólks (Identity Check, Listasafn ASÍ 2010) og sérstakar vinnuaðstæður fangavarða (Fangaverðir, frumsýnt í Bíó Paradís í janúar 2017). Kjarni hvers verks er alltaf einstök reynsla og/eða saga þátttakanda sem ber með sér margbrotnar víðari tilvísanir.
Verk eftir Ólaf má finna í safneignum safna og einkaaðila á Íslandi og erlendis.