
27. mars 2025 langur fimmtudagur
Frestast – við auglýsum aðra dagsetningu sem fyrst.
Draumakvöld með Elísabetu Lorange
19:30
Elísabet Lorange er annar helmingur Draumsögu. Hún er kennari og listmeðferðarfræðingur að mennt og hefur unnið sem sjálfstætt starfandi listmeðferðarfræðingur sl. 12 ár. Hún hefur komið að meðferðarvinnu með hópum og einstaklingum á öllum aldri. Undanfarin ár hefur hún sérhæft sig í vinnu með fullorðnum og fósturfjölskyldum. Elísabet hefur í tugi ára unnið með sína eigin drauma sem og drauma þeirra sem það vilja og þurfa í listmeðferðinni.
Elísabet ætlar að gefa gestum innsýn inn í vinnuna hennar með drauma og í kjölfarið verður smiðja haldin.
Takmörkuð pláss og skráning er nauðsynleg: fraedsla@listasafnarnesinga.is

3. apríl 2025 langur fimmtudagur
Vatnslitanámskeið með Svandísi Egilsdóttur
frá 16:00
Svandís Egilsdóttir hefur unnið með vatnsliti í verkum sínum í yfir tvo áratugi.
Svandís er menntaður myndlistarkennari og starfaði lengi sem slíkur samhliða eigin listsköpun. Svandís vinnur að skólamálum í Reykjavík ásamt því að vinna á eigin vinnustofu að málverkinu
Svandís beitir skapandi og blandaðri tækni í verkum sínum en í þessari smiðju ætlar hún að kenna leiðir til að koma sköpunarferlinu í gang og vinna í flæði með liti og línu.
Það er fátt skemmtilegra en að gefa sér stund til fara út í náttúruna og fanga vorið með vatnslitum og í teikningu.
Nauðsynlegt er að koma klædd eftir veðri og hafa meðferðis eigin vatnsliti, penna og pappír.
(hægt verður að kaupa ferðavatnsliti og vatnslitapappír ef þess þarf í safnbúðinni okkar)
Skráning: fraedsla@listasafnarnesinga.is
Smiðjan er styrkt af Hveragerðisbæ og er ókeypis fyrir þátttakendur

3. apríl 2025 langur fimmtudagur
AYURVEDA OG BREYTINGASKEIÐIÐ
frá 19:30
Ayurveda-fræðin líta á Breytingaskeiðið sem eðlilegt ferli í æviskeiði konunnar. Þetta er æviskeið sem býður upp á nýja lífssýn og nýja nálgun á lífið. En, það þarf að sleppa tökunum á því gamla til að geta notið þess nýja. Sumar konur upplifa mikil óþægindi á þessu æviskeiði en aðrar finna lítið fyrir því. Allt fer þetta eftir stöðu dósjanna þriggja: Vata, Pitta og Kapha og hvort ójafnvægi sé í gangi þegar við göngum inn um dyr breytingaskeiðsins.
Það er margt sem hægt er að gera með aðstoð ayurveda til að milda einkennin ef ójafnvægi er í dósjunum þremur og bæta lífsgæðin. Verkfærin eru mörg í verkfæratösku ayurveda-fræðanna.
Í fyrirlestrinum verða grundvallaratriði ayurveda útskýrð eins og dósjurnar þrjár, frumkraftarnir fimm, agni meltingareldurinn og síðan verður kafað ofan í breytingaskeiðið með gleraugum ayurveda.
Leiðbeinandi er: Heiða Björk, Ayurveda sérfræðingur (AP)
Heiða Björk starfar við heilsu- og lífsstílsráðgjöf byggða á ayurveda lífsvísindunum og næringarþerapíu. Hún vinnur einnig að heildrænni heilun með aðferð LNT orkumeðferðar.
Ókeypis viðburður er skráning er nauðsynleg – aðeins á þetta e-mail:
fraedsla@listasafnarnesinga.is
Vinsamlegast ekki senda skilaboð þeim verður ekki svarað varðandi þennan viðburð aðeins e-mail.

10. apríl 2025
Langur fimmtudagur
Japanskt kvöld klukkan 17:00
Origami frá 17:00 og tónlistarviðburður með Japönsku listakonunni Saya Nonomura en hún heimsækir safnið þar sem hún dvelur í Varmahlíð í Hveragerði. .
Komið og njótið japanskra strauma í safninu.
Ókeypis viðburður í samstarfi við Hveragerðisbæ.
野々村さや
1952年5月1日生まれ。
広島県尾道市出身。
京都精華芸大美術科絵画卒業。
1979年から1982年、パリ、Carré Silvia Montfort 国立サーカスマイム学校マイム科卒業。
1982年、マイムカンパニーPOKKOWA PA! をJean Claude Pommier と共に、結成、主宰。インターナショナルカンパニーとして活動。
その他、フランスにて行われる文化イベントの際に、カリグラフィー、オリガミのワークショップを指導。
Saya Nonomura
Born May 1st 1952, in Onomichi City, Hiroshima Prefecture, Japan.
Graduated from Kyoto Seika University of Arts, Fine Arts Department, Painting Section, in Kyoto, Japan.
From 1979 to 1982, studied at and graduated from Le Carré Silvia Montfort National School of Circus and Mime, in Paris, France.
In 1982, founded the Mime Theatre company, Compagnie POKKOWA PA ! with Jean-Claude Pommier, in Angers City, France.
Since then, the company performs their Mime Theatre creations worldwide.
Also animates Calligraphy and Origami workshops during cultural events in France.

17. apríl 2025 14:00
Listamannaspjall með Jónu Þorvaldsdóttur
Á Skírdag, þann 17. apríl nk. frá kl 14-16, ætlar listljósmyndarinn Jóna Þorvaldsdóttir, sem á verk á sýningunni BÆR, að vera á staðnum og veita gestum innsýn inn í tilurð verkanna á sýningunni. Auk Jónu eru það ljósmyndararnir Katia Klose og Mike Vos, listmálarinn Barbara Ellmann, og skúlptúristarnir Debbie Westergaard Tuepah og Markus Baenziger sem eiga verk á þessari fjölbreyttu sýningu þar sem hópurinn fagnar tengslum sín á milli og listsköpuninni eftir samveru þeirra saman á Listasetri Bæjar á Höfðaströnd.
Hægt er að lesa meira um listamennina á vefsíðu safnsins:
www.listasafnarnesinga.is

24. apríl 2025 kl. 19:30
List getur heilað / ART CAN HEAL
List getur heilað á Listasafni Árnesinga 24. Apríl / kl. 19:30
Art Can Heal / List getur heilað – Líf og störf Sigríðar Björnsdóttur – spjall við höfundinn Ágústu Oddsdóttur og kynning á listmeðferðarfræði með listmeðferðarfræðingunum Elísabetu Lorange og Dr. Unni Óttarsdóttur á Listasafni Árnesinga.
Ágústa Oddsdóttur höfundur bókarinnar Art Can Heal ræðir um ævi og störf Sigríðar Björnsdóttur listþerapista og listakonu en segir einnig frá eigin reynslu þegar hún sjálf sótti meðferð hjá Sigríði.
Sigríður er mikill frumkvöðull á sviði listaþerapíu á Íslandi og eftirsóttur fyrirlesari víða um heim. Sigríður hófst við að móta og þróa sjálfstætt svið innan myndlistarinnar aðallega á barna spítölum bæði hér á landi og erlendis upp úr sjötta áratugnum.
Í framhaldi munu listmeðferðarfræðingarnir Elísabet Lorange og Dr. Unnur Óttarsdóttir kynna störf listmeðferðarfræðinga á Íslandi í dag og þróun fagsins sem felur m.a. í sér rannsóknir dr. Unnar á námslistmeðferð, teikningu og minni sem hafa fengið athygli innan lands og utan og eru því að hafa áhrif á heimsvísu.
Listmeðferð er athyglisvert meðferðarúrræði fyrir fólk á öllum aldri sem fer ört vaxandi og enn fleiri sækja í sem glíma við tilfinningarlegan vanda. Allir eru velkomnir á þetta spjall hvort sem þeir eru listamenn, kennarar, meðferðaraðilar eða bara áhugasamir um fagið og hagsbætur meðferðarinnar.
Viðburðurinn er ókeypis.

Listamannaspjall
18. maí 2025 kl. 15:00
Á alþjóðlegum safnadegi 18. maí klukkan 15:00 ætlum við að bjóða upp á listamannaspjall með listafólkinu sem á verk á sýningunni: Meðal guða og manna: Íslenskir listamenn í Varanasi.
Einar Falur Ingólfsson, Eygló Harðardóttir, Guðjón Ketilsson, Margrét H. Blöndal, Sigurður Árni Sigurðsson, Sólveig Aðalsteinsdóttir.
Hægt er að lesa meira um listamennina og sýninguna á heimasíðu safnsins:
https://listasafnarnesinga.is/…/medal-guda-og-manna/
Tími og rými að starfa í eru tveir grundvallarþættir skapandi vinnu. Fyrir listamenn sem beita sjónrænum miðlum er vinnustofan griðastaður, persónulegur vettvangur fyrir djúpa íhugun og ástundun. Þessi sýning er afrakstur verkefnis sem hverfist um spurninguna: Hvað gerist þegar listamenn starfa um hríð í vinnustofu víðs fjarri öryggi hins vanabundna hversdagslífs?
Á sýningunni Meðal guða og manna gefst innsýn í reynslu sex mótaðra og margreyndra íslenskra listamanna en verkin sem eru sýnd urðu til í tengslum við dvöl þeirra nýverið í gestavinnustofum Kriti Gallery og Anandvan Residency í Varanasi á Indlandi. Samtengdar vinnustofurnar eru á afgirtu svæði, umluktar gróskumiklum garði; þar eru rúmgóðar vinnustofur með svefnaðstöðu fyrir listamennina og sameiginlegt eldhús og borðstofa – sannkallaður griðastaður í sögufrægri borg með einhverja lengstu samfelldu búsetu manna. Vinnustofurnar eru í senn staður að starfa á og grunnbúðir fyrir leiðangra inn í marglaga heima Varanasi (sem einnig er þekkt sem Banaras), andlega miðstöð sem meðal hindúa er þekkt sem „bústaður guðanna“, með ótölulegum fjölda hofa og altara sem helguð eru ákafri tilbeiðslu. Varanasi er borg öfga og fjölskrúðgs mannlífs en jafnframt alvörugefinnar sorgar við líkbrennslurnar á tröppunum við hið helga Gangesfljót.
Ljósmyndarinn og rithöfundurinn Einar Falur Ingólfsson ferðaðist árið 1999 fyrstur listamannanna sex til Varanasi. Indverski ljósmyndarinn Dayanita Singh, kunningi hans, kynnti hann síðar fyrir hjónunum Navneet Raman og Petra Manefeld (sem eru höfðinglegir gestgjafarnir í Kriti Gallery og Anandvan Residency sem til var stofnað árið 2007), og Ajay Pandey, fræðimanninum fróða sem leiðir ásamt Raman listamennina sem starfa í vinnustofunum um borgina og veita þeir ríkulega innsýn í sögu hennar og menningu. Eftir að hafa dvalið og starfað nokkrum sinnum í vinnustofunum fékk Einar Falur þá hugmynd að fá nokkra reynda listamenn landa sína með sér til Varanasi, forvitinn að sjá hvernig verk kynnu að vera afrakstur dvalar þeirra í borginni helgu.
Vandfundin eru ólíkari lönd og menningarheimar en Ísland og Indland. Annarsvegar er Ísland, staðsett norður undir heimskautsbaug, fámennt, einangrað landfræði- og sögulega, og þjóðin sem byggir eyna er tiltölulega einsleit menningarlega. Indland, hinsvegar, er við mörk hitabeltisins, afar þéttbýlt, fornt, og byggir menningarlega á fjölda laga margbrotinnar sögu á vegamótum menningarlega ólíkra heima.
Íslensku listamennirnir sem héldu til Varanasi fetuðu í fótspor fjölmargra annarra listamanna sem hafa farið þangað í leit að áhrifum og upplifunum. Samt var tilgangurinn ekki að myndskreyta eða túlka það sem þau rákust á; þess í stað var ætlunin að leyfa því áreiti á skynfærin, sem óneitanlega á sér stað í ferð til Indlands, flæða um taugakerfið og heilann, og sjá hvaða áhrif það myndi hafa á sköpunarverk þeirra.
Ljósmyndirnar tók: Einar Falur Ingólfsson

22. maí 2025 kl. 19:30
Langur fimmtudagur
Kvöldstund með Guðrúnu Evu Mínervudóttur
Komið og njótið með okkur að hlusta á upplestur með Guðrúnu Evu Mínervudóttur.
Guðrún Eva er fædd í Reykjavík árið 1976 en alin upp víðs vegar um landið, meðal annars í Mosfellssveit, á Kirkjubæjarklaustri og í Garði í Gerðahreppi. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1996 en útskrifaðist árið 2007 frá Háskóla Íslands með BA í heimspeki. Guðrún Eva hefur fjórum sinnum verið tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og fékk þau árið 2011 fyrir skáldsöguna Allt með kossi vekur. Hún hefur þrisvar verið tilnefnd til Menningarverðlauna DV og fengið þau tvisvar; árið 2005 fyrir Yosoy og árið 2014 fyrir Englaryk. Einnig hlaut hún Fjöruverðlaunin í byrjun árs 2019 fyrir smásagnasafnið Ástin Texas. Árið 2021 var hún tilnefnd til Norrænu bókmenntaverðlaunanna fyrir skáldsöguna Aðferðir til að lifa af. Hún hefur einnig hlotið viðurkenningu RÚV fyrir ritstörf og Bókmenntaverðlaun bóksala fyrir skáldsöguna Í skugga trjánna. Meðfram sagnaritun er Guðrún Eva í hlutastarfi sem ritlistarkennari við Listaháskóla Íslands.
Útgefnar bækur:
Á meðan hann horfir á þig ertu María mey, smásögur, 1998
Ljúlí ljúlí, skáldsaga, 1999
Fyrirlestur um hamingjuna, skáldsaga, 2000
Albúm, örsögur, 2002
Sagan af sjóreknu píanóunum, skáldsaga, 2002
Yosoy, skáldsaga, 2005
Skaparinn, skáldsaga, 2008
Allt með kossi vekur, skáldsaga, 2011
Englaryk, skáldsaga, 2014
Skegg Raspútíns, skáldsaga, 2016
Ástin Texas, sögur, 2018
Aðferðir til að lifa af, skáldsaga, 2019
Útsýni, skáldsaga, 2022
Í skugga trjánna, skáldsaga, 2024