Halldór Einarsson
Í ljósi samtímans
17. ágúst – 21. október 2018
Ásdís Ólafsdóttir
Hin dásamlega náttúra, dulspekin og lýðræðið
Nú, árið 2018, þegar við fögnum aldarafmæli fullveldis Íslands, gefst tækifæri til að staldra við, rýna í menningararfinn og setja hann í samhengi við samtíðina. Árið 1918 var Halldór Einarsson lærlingur í tréskurði í Reykjavík. Fjórum árum síðar sigldi hann til Vesturheims og kom ekki aftur til Íslands fyrr en 1965, þá alkominn. Um það leyti voru fjórir listamenn börn eða að fæðast. Tilgangur þessarar sýningar er að skoða nánar feril og verk Halldórs, en þau eru hluti af gjöf hans til Árnessýslu. Með því að setja verkin í samhengi við verk samtíma listamannanna Guðjóns Ketilssonar, Rósu Sigrúnar Jónsdóttur, Birgis Snæbjörns Birgissonar og Önnu Hallin vonumst við til að gestir – og lesendur þessarar skrár – megi sjá þau í nýju ljósi. Óvæntar tengingar myndast í ýmsar áttir, frá húsgögnum til bóka, handverki til náttúru, lækninga til stjórnmála, valdi til kvenna. Verk Halldórs vekja til umhugsunar og eiga sitt erindi, þó eftir ýmsum krókaleiðum sé, til samtímans.
I
Halldór Einarsson
Úr Flóanum til Vesturheims
Þegar safn Halldórs Einarssonar var vígt á Selfossi 14. júní 1974 tileinkaði hann það minningu foreldra sinna, Einars Einarssonar og Þórunnar Halldórsdóttur frá Brandshúsum. Þessi hlédrægi handverksmaður, sem sigldi til Vesturheims og bjó þar stóran hluta ævi sinnar, lokaði þannig hringnum sem tengdi hann órjúfanlegum böndum við heimabyggð sína í Flóanum.
Halldór ólst upp í sjö systkina hópi í Brandshúsum við Gaulverjabæ. Hann fékk ungur áhuga á tréskurði og falaðist eftir að komast í læri til Stefáns Eiríkssonar (1862-1924) sem var fyrsti faglærði tréskerinn hér á landi og frumherji í íslenskri listkennslu. En það var eftirsókn eftir hinum fáu lærlingsstöðum og hann þurfti að bíða í fimm ár, eða til 1916, til að komast að. Næstu fjögur árin dvaldi Halldór í Reykjavík og lauk prófi í tréskurði og teikningu árið 1920. Eftir það vann hann að hluta hjá Þorsteini Sigurðssyni og skar m.a. út stigahandriðið í verslun Egils Jacobsen.
Elsti bróðir Halldórs, Gestur, hafði sest að í Manitoba í Kanada og stundaði þar búskap. Hann hvatti bróður sinn til að koma til sín og bauðst til að borga fyrir hann fargjaldið. Haustið 1922 flutti Halldór til Vesturheims og dvaldi í upphafi hjá Gesti. Síðan flutti hann til Winnipeg og stundaði fyrst ýmis störf en sumarið 1924 fékk hann vinnu „við sitt handverk”.
Eftir að hafa greitt skuld sína við Gest ákvað Halldór að reyna fyrir sér í Ameríku og flutti til Chicago. Atvinna var stopul til að byrja með en smám saman fann hann störf við tréskurð á nokkrum af húsgagnaverkstæðum borgarinnar. Vestur-Íslendingurinn „Chester” Hjörtur Þórðarson (1867-1945) átti eftir að verða áhrifavaldur í lífi Halldórs. Hann var rafmagnsfræðingur og uppfinningamaður og hafði stofnað blómlega spennaverksmiðju í Chicago. Árið 1928 fékk hann Halldór til að skera út fyrir sig húsgögn í stóru bókasafni sem hann hafði í verksmiðjuhúsinu. Trésmiðurinn Sveinbjörn Árnason smíðaði húsgögnin eftir hönnun Hjartar og Halldór skar þau út eftir eigin teikningum og í samvinnu við Hjört. Fyrirmyndirnar voru flestar teknar úr norrænni goðafræði eða íslenskum atvinnuháttum til forna og skreytingar gerðar með ormafléttum, blöðum og rúnum. Halldór vann í rúm tvö ár við að skreyta þrjá stóra stóla, 24 minni, tvö löng lestrarborð, veglegt skrifborð Hjartar og fleiri hluti.
Hjörtur keypti stóran hluta eyjarinnar Klettey (Rock Island) í Michigan-vatni og lét reisa þar ýmis mannvirki. Halldór dvaldi á eyjunni og skar út taflmenn og áletranir sem Hjörtur kom fyrir í svokölluðum Víkingasal. Hann lét ennfremur flytja þangað hið merka bókasafn sitt og húsgögnin sem Halldór hafði skorið út. Íslenski tréskerinn hafði síðan vetursetu á eyjunni, stundaði skógarhögg og gætti stórs gróðurhúss. Á þessum tíma geisaði kreppan í Bandaríkjunum og húsgagnaiðnaðurinn beið mikinn hnekki. Atvinna var af skornum skammti og komu störf Halldórs fyrir Hjört honum eflaust vel. En umsvif Hjartar Þórðarsonar minnkuðu einnig mikið og missti hann nær allt sitt. Í bréfum frá bróður Halldórs má lesa að sá síðarnefndi hafi hugsað sterklega til heimferðar í byrjun fjórða áratugarins, en af því varð þó ekki. Hann fékk fasta vinnu við tréskurð í húsgagnaverksmiðju og ákvað að dvelja áfram í Chicago. Saga segir að Halldór hafi blandast óbeint inn í veldi mafíunnar á þessum árum og hafi skorið út byssuskefti Al Capone.
Síðla árs 1941 gekk Halldór að eiga Josefine Jablonski sem var af pólskum uppruna. Meðan á styrjöldinni stóð vann hann áfram við útskurð húsgagna á sama verkstæðinu. Þau hjónin bjuggu í Chicago þar til Josefine dó í byrjun sjötta áratugarins. Þá flutti Halldór í kofa sem hann hafði smíðað á landi sem hann keypti um 40 km frá borginni.
Einbúinn og náttúran
Í viðtali á efri árum minntist Halldór tímabilsins í skóginum með söknuði. „Ég hugsaði ekkert um að fara til Íslands, bjó aðeins sem einbúi úti í þessum skógi, í kofa þar á þessum litla bletti. Þarna bjó ég í full tuttugu ár, einsamall með hinni dásamlegu náttúru.” Halldór hafði fengið áhuga á grasafræði þegar hann dvaldi á Klettey og hafði lesið sér til í bókasafni Hjartar, að hans áeggjan. Í skóginum sínum gekk hann skrefi lengra, hann var ekki aðeins í sambandi við plöntur heldur líka dýr. „Þarna kynntist ég miklu ákjósanlegri lífverum en mannfólkinu, blómum og trjám, fuglum og smádýrum af þessu einfalda lífi. Ég gat talað við þessi dýr – fuglana líka – og þau skildu mig.” Halldór sótti áfram vinnu daglega til Chicago, en þegar lítið var að gera skar hann út heima við. „Ég gat haft bekkinn fyrir utan kofann. Það var ekkert betra.”
Hluti af verkum Halldórs er einmitt af dýrum: tvær gerðir Sauðnauta (íslenskt og grænlenskt), vísundar í Varnarstöðu, Geirfugl, Mörgæs, hundurinn Tryggur, Hestaat… Þessar dýramyndir eru yfirleitt skornar út í tré eða höggnar í stein á massífan hátt, líkt og í Ými og Auðhumlu þar sem jötunn og kýr renna saman.
Fjöregg lífsins er stórt egglaga form skorið út í tré. Yfirborðinu er skipt í tígullaga reiti sem sýna hinar ýmsu myndir lífsins á jörðinni. Neðst eru jurtir, síðan koma tré, þar næst fiðrildi, svo mannkynið í sinni fjölbreyttu mynd: indíáni, blökkumaður, Asíubúi, inúíti og hvíti maðurinn í mynd Bernhards Shaw. Höskuldi hestamanni á Hrafnsstöðum og fleiri merkum mönnum bregður einnig fyrir, en efst eru fuglar himinsins. Halldór var lengi að vinna þetta verk og sagði mest í það borið af öllu sem hann hefði gert. Það lýsir vel heimsmynd Halldórs, alheimskennd hans og djúpri virðingu fyrir öllu lífi.
Það var í kofanum sem Halldór hóf að skera út mannshöfuð og fígúrur. Árið 1961 pantaði Boris nokkur, mjólkurpóstur í Chicago, mynd af sér hjá Halldóri. Hann gerði af honum standmynd úr harðviði og setti upp það hátt verð að mjólkurpósturinn vildi ekki greiða það og Halldór hélt myndinni. Hann sagði sjálfur að þetta hefði verið kveikjan að því að hann fór að halda til haga því sem hann skar út, bæta við og byggja upp safnið sem hann flutti til Íslands.
Ísland í hillingum
Allan þann tíma sem Halldór dvaldi í Vesturheimi skrifaðist hann á við fjölskyldu sína og vini á ættjörðinni. Þau fluttu honum fregnir af tíðarfari, búskap, sjósókn, heilsu, giftingum, fæðingum og dauðsföllum ættingja og sveitunga. Halldór átti í fallegu sambandi við móður sína sem byrjaði bréf sín á „ástkæri” og „elsku góði dreingurinn minn”. Hann sendi gjafir og peninga heim, en fór ekki fyrr en alkominn 1965, eftir 43 ára sleitulausa búsetu erlendis. Norræn goðafræði og Íslendingasögur voru honum hugleikin, eins og birtist vel í útskurði hans fyrir Hjört Þórðarson kringum 1930. Margar af seinni standmyndum Halldórs voru innblásnar af íslenskum fyrirmyndum, líkt og Íslenska konan og nokkuð stór mynd af sitjandi bónda.
Í lok sjötta áratugarins réðst Halldór í talsvert þrekvirki þegar hann skar út alla 52 Alþingismenn lýðveldisárið 1944. Hann studdist við bókina Lýðveldishátíðin 1944 þar sem birtar voru myndir af þingmönnunum. Verkefnið tók hann nokkur ár og lauk hann að mestu við það 1962. Myndir þingmannanna eru nokkuð sérstakar, þær eru skornar í tré og höfuðin eru stór miðað við búkinn. Þeir sitja í sæti, með hendur á hnjám eða í kjöltu og sumir eru á lágum stöpli. Halldór, sem var hagyrtur, samdi vísu um alla þingmennina sem er ýmist grafin á stöpul eða á bak standmyndarinnar.
Halldór hafði einnig skorið út mynd af Guðbrandi Þorlákssyni biskupi, Sigurði Guðmundssyni málara og fleiri. Eftir heimkomuna 1965 gerði hann myndir af þjóðkunnum mönnum eins og Matthíasi Þórðarsyni þjóðminjaverði og Jóni Péturssyni dómara.
Íslandssöguspjöldin vann Halldór fremur snemma. Þau samanstanda af tólf lágmyndum sem áttu upphaflega að mynda fótstall fyrir fjallkonumynd skorna út í tré. Halldór studdist við Ágrip af sögu Íslands eftir Þorkel Bjarnason sem kom út 1880 og skipti sögunni niður í tólf tímabil: Frumtíðin – papar, Landnámsöldin, Söguöldin eða Gullöldin, Friðaröldin, Ritöldin með Ara Fróða, Sturlungaöldin, Klerkaveldisöldin með Staða-Árna, Siðabótaöldin, Einokunaröldin með hýðingu Hólmfasts, Endurreisnaröldin með Magnúsi Stephensen, Sjálfstæðisöldin með séra Friðrik Friðrikssyni og loks Skuld eða Framtíðin, sem er hinn ókomni tími. Þessar lágmyndir, sem eru afar vel unnar, birta túlkun Vestur-Íslendingsins á sögu ættjarðarinnar. Stíllinn, einkum á myndunum sem snúa fram, er í ætt við symbolisma eða táknfræði seinni hluta 19. og upphafs 20. aldar. Halldór skar út talsvert af öðrum lágmyndum og sækja sumar þeirra – Hænir skýjaguðinn, Óðinn vindguðinn, Loki eldguðinn og Í Hveralundi, Loki og Signý – efni sitt í forníslenska goðafræði.
Nöfn verkanna eru stundum grafin á verkin sjálf, ýmist á íslensku eða ensku. Halldór var kallaður Dóri af fjölskyldu og vinum, en í Bandaríkjunum varð það að Dory. Flest verkanna eru merkt því nafni, einnig eftir heimkomuna á efri árum.
Andlega hetjan
Halldór ólst upp á guðræknu heimili og flutti sína lútersku barnatrú með sér til Vesturheims. Á árunum 1923-1926 stóð hann í bréfadeilum við Gest bróður sinn um trúmál, en hinn síðarnefndi var kallaður „fríhyggumaður” og hafði ýmsar efasemdir um kristna trú. Halldór og Josefine giftu sig 1941 í rómversk-kaþólskri kirkju í Chicago, eflaust vegna trúar Josefine. En eftir að Halldór missti konu sína um 1954 og hóf einsetubúskap kastaði hann trúnni og varð víst enn meiri efasemdamaður en Gestur.
Upp úr 1960 skar Halldór út talsvert af lágmyndum þar sem hann tók fyrir andleg og siðfræðileg viðfangsefni. Þær eru gerðar í syrpum sem deila sömu útlínum og þemum. Ein þeirra er Vonin, Trúin og Kærleikurinn, önnur Fortíðin, Nútíðin og Framtíðin, enn önnur Sannleikurinn og Réttlætið, einnig Ofsatrúin og Hræsnin, Erfikenningin og Þekkingin, svo og Jörðin og Lífskrafturinn. Andlega hetjan frá 1962 sýnir litla manneskju með stórt höfuð sem sporöskjulagaðir hringir ganga út frá, líkt og árur eða aðrar víddir. Þessar lágmyndir eru nosturslega gerðar en boða um leið einfaldan og skýran boðskap um rétt, rangt og lögmál lífsins.
Á efri árum má tengja list Halldórs við guðspeki, dulspeki og táknfræði. Guðspeki (Theosophy) var vinsæl í Bandaríkjunum og í Chicago var mikilvægt setur þeirra fræða. Má ætla að Halldór hafi verið í tengslum við boðbera hennar að einhverju marki. Halldór var einnig aðdáandi myndhöggvarans Einars Jónssonar (1874-1954), en styttur eftir hann voru reistar í Fíladelfíu og Winnipeg 1920-1921. Einar notaði mikið táknfræði og eru verk hans lituð djúpri, andlegri alheimsvitund.
Í verkinu Höfuðskepnurnar eftir Halldór situr eins konar vængjuð Sphynx-fígúra á kúlu, en á hliðum hennar má sjá jin-jang-merkið, egypska ankh eða lífstáknið og tvo þríhyrninga, einn uppmjókkandi með eldi, sem tákn fyrir hið karllæga, og hinn öfugan með vatni fyrir hið kvenlega. Halldór reisti yfir 6 metra háan tréskúlptúr við heimili sitt í skóginum, en í hann eru skorin svipuð tákn. Þegar safni Halldórs var komið fyrir á Selfossi 1974 teiknaði hann sjálfur gólfið sem var lagt hvítum dúk. Í hann var greypt svört, spírallaga braut með kínverskum, egypskum og norrænum táknum. Eins og fyrr segir var safnið tileinkað foreldrum hans og þessi tákn lýsa lífsleið þeirra. Það er vissulega fallegt að í lok lífs síns skuli bændasonurinn úr Flóanum votta foreldrum sínum virðingu sína og ást með tilvísunum í alþjóðlega og alheimslega dulspeki.
Margvísleg efni
Halldór er þekktastur fyrir tréskurð sinn, það var iðnin sem hann lærði og starfaði við allt sitt líf. Hann skar aðallega út í eik, sem réðst af tiltæku efni í miðvesturhluta Bandaríkjanna þar sem hann bjó. Hann sagðist sjálfur hafa notað „alls konar rusl, sem var hendi næst” og leitaði fanga í skóginum sem hann bjó í. Í nokkur verk notaði hann kirsuberjavið sem hann hafði töluvert fyrir að útvega. Hann nýtti stundum greinar eins og í Tré lífsins frá 1963 eða Hreysikettinum sem er gerður úr grein af íslensku tré sem honum var fært á Hrafnistu.
Halldór hjó einnig í stein og marmara, einkum eftir að hann flutti til Bandaríkjanna. Eitt af elstu verkunum er Vorið, marmaramynd sem sýnir togstreitu veru sem vill fljúga en er ennþá föst í ís að hluta. Halldór var fremur gagnrýninn á eigin verk, en um þessa mynd sagði hann að hún væri „ein af þeim fáu myndum, sem er nokkuð”. Hann gerði einnig lágmyndir í marmara, eins og Örlagaþræðir, The Old Age og brjóstmyndir af foreldrum sínum. Aðrar steintegundir notaði Halldór til að skapa fugla og önnur dýr.
Til er mikið af smámyndum eftir Halldór sem eru skornar í tré, stein og horn. Merkastar af þeim eru taflmennirnir sem hann skar í hjartarhorn. Riddararnir, biskuparnir og hrókarnir fengu allir sín heiti og sérkenni. Sumar þessara smámynda eru einfaldlega steinn á litlum tréstöpli, í öðrum ræðst fígúran af formi efnisins. Halldór virðist hafa verið stöðugt að, hvort sem var til að gera flóknar dulspekilegar syrpur, skoplegar myndir eða einföld, nánast óhlutbundin form, og hann hafði óneitanlega góða tilfinningu fyrir efniviðnum.
Lífssýn
Halldór Einarsson flutti til Íslands árið 1965 og dvaldi á Hrafnistu til æviloka. Þar hafði hann vinnuaðstöðu og bætti talsvert við safn sitt. Fljótlega eftir heimkomuna hélt hann litla sýningu á verkum sínum í kjallaranum á húsi bróðursonar síns í Kópavogi. Spurður um listiðkun sína svaraði Halldór því að þetta væri fremur tómstundaverk og afþreying. Slæm reynsla af listsýningu í Chicago varð til þess að hann ákvað snemma: „Ég skal aldrei fara út í það að ávinna mér heiður og nafn með því að vera listamaður. Ég ætla að skera áfram út rósir og króka sem iðnaðarmaður.”
Það er viss mótsögn í þessu viðhorfi og því að hafa haldið til haga sköpun sinni og gefið hana Árnessýslu ásamt peningagjöf. Viðbygging sýningarhúsnæðis á Selfossi og uppsetning hans sjálfs á verkunum markar endapunkt á ferli þessa sérstæða manns sem þrátt fyrir hógværð sína var vissulega listamaður. Með uppsetningu sinni gat hann litið yfir farinn veg og gefið verkunum merkingu og stað innan sinnar lífssýnar, sem einkenndist bæði af sterkum böndum til heimahaganna og opnu viðhorfi gagnvart táknfræði og heimspeki ólíkra menningarheima.
II
Í ljósi samtímans
Hugmynd um líkama
Guðjón Ketilsson er sá íslenskur samtímalistamaður sem notar hvað mest tré sem efni í verk sín. Viðurinn er skorinn, tálgaður, pússaður og málaður af natni og verklagni. Verkin eru hugmyndafræðileg en útfærð í eitt af elstu sköpunarefnum mannkyns.
Verkfæri Guðjóns virðast við fyrstu sýn vera gömul tól handverksmanna, gerð einkum úr tré og málmi. Þau hafa yfirbragð ögn gamaldags áhalda sem fara vel í hendi og sem áralöng notkun hefði gefið fallega áferð. Þegar betur er að gáð reynast þetta vera ónothæf tól án nokkurs praktísks tilgangs. Löguleg en óbrúkleg Verkfæri Guðjóns eru hugmynd um tæki, minning um handverkshefðir liðinna tíma, tákn fyrir samband okkar við umheiminn og forna þörf til að móta hann.
Innsetningin Hár er gerð úr hlutum sem eru skornir í tré og málaðir hvítir. Guðjón hefur lengi unnið með samband okkar við mannslíkamann og hefur tekið fyrir ákveðna þætti sem tengjast honum, líkt og lendaklæði Krists í innsetningunni Brot og í skóverkum sínum. Verkfærin eru líka að vissu leyti framlenging mannshandarinnar. Þó að hnattlaga hlutir innsetningarinnar Hár vísi í höfuðprýði ákveðinna einstaklinga eru þeir einnig óræðir og sumir geta minnt á skeljar eða önnur lífræn form. Málað yfirborðið gerir að verkum að efnið er óljóst og viðurinn villir aðeins á sér heimildir.
Guðjón hefur unnið verk úr gömlum tréhúsgögnum sem hann sýndi fyrst á sýningunni Hlutverk árið 2009. Nafnlaust er gert úr skáp frá fjórða eða fimmta áratugnum. Guðjón hefur skorið op í skáphurðir og plötur svo sést í hvítar bækur sem mynda tvo hálfa pýramída. Þetta formfallega verk er tilvísun í húsgögn foreldra listamannsins, í annan tíma, í tíma Halldórs Einarssonar. Þarna myndast ákveðin tenging við ævistarf Halldórs, því líkt og hann bætti við skreytingum á tilbúin húsgögn hefur Guðjón bætt við bókum og túlkun sinni á skápnum sem skúlptúr. Bækurnar eru tilvísun í bókmenntaarfinn, í lestrarhefð Íslendinga, í fjársjóði þjóðarinnar sem voru vandlega geymdir – og stundum gleymdir – í vönduðum skápum og hirslum.
Heilandi handverk
Verk Rósu Sigrúnar Jónsdóttur liggja á hinum óljósu mörkum handverks og myndlistar. Hún hefur unnið mikið með textíl og hefur færst æ nær hinu fínlega handverki, í hekli, prjóni, útsaumi og teikningum. Hún sækir aðallega form sín og liti í íslenska náttúru, en hún starfar einnig sem fjallaleiðsögumaður. Fyrir henni er náinn skyldleiki með þráðvinnu og náttúrulegum vexti í lífríkinu, hvort tveggja vex hægt fram, þroskast og tekur á sig mynd.
Grös Rósu Sigrúnar sækja fyrirmyndir sínar í yfir tuttugu íslenskar lækningajurtir sem finna má víðs vegar um landið. Listakonan heklar hverja jurt fyrir sig úr hvítu garni og málar hana síðan með akrýllit. Verkið var unnið í samvinnu við hóp handverkskvenna sem miðluðu einnig af reynslu sinni og þekkingu á jurtum meðan á vinnunni stóð. Árið 2017 gerði Rósa Sigrún eins konar tvívíða útgáfu af Grösum. Blómin eru saumuð út í þunnt, uppleysanlegt efni, spreyjuð með vatni svo efnið hverfur en eftir stendur útsaumuð jurtin.
Teikning er einnig seinlegt listform sem krefst nákvæmni og þolinmæði. Undanfarin tvö ár hefur listakonan unnið teikningar af lækningajurtum sem hún saumar síðan út í á afar fínlegan hátt. Þannig er hluti svart-hvítra myndanna litaður með útsaumsþræði. Þessar teikningar minna á myndskreytingar jurta-alfræðibóka. Það er eitthvað gamalt og sígilt við þær, en um leið tengjast þær á eðlilegan hátt verkinu Grösum.
„Nýting náttúrunnar, inngrip mannsins, ummyndun, hringrás og endurvinnsla eru leiðandi hugtök í minni vinnu,” segir listakonan. Fyrir henni helst heilunarmáttur handverksins í hendur við lækningamátt náttúrunnar. Rósa Sigrún Jónsdóttir og Halldór Einarsson tengjast í gegnum ást þeirra á hvoru tveggja: handverkinu og náttúrunni.
Ímyndir lýðræðisins
Birgir Snæbjörn Birgisson réðst í svipað verkefni og Halldór þegar hann skar út 52 Alþingismenn sína, nema hvað Birgir notaðist við sinn miðil sem er málverkið. 2015-2016 málaði hann portrett af þeim 63 alþingismönnum sem settust á þing 2013, og eins að auki. Verkið, sem ber nafnið Von, sýnir fulltrúa þjóðarinnar ljóshærða og bláeyga, en persónueinkenni þeirra hafa verið þurrkuð út að hluta. Birgir Snæbjörn er þekktur fyrir syrpur eins og Ljóshærð ungfrú heimur og Ljóshærðar starfsstéttir. Fyrir honum vísar ímynd ljóskunnar til samfélags okkar, þar sem allir eru steyptir í sama mótið og „heimurinn er séður með bláum augum.” Hann notar mjög ljósa olíumálningu á ómálaðan striga og í Von eru aðeins andlit og hár máluð, hálsmál eru teiknuð með blýanti.
Í Alþingismönnum Halldórs er aðaláherslan einnig lögð á höfuðin, sem eru ekki í hlutfalli við búkana, og að vissu leyti eru þeir fremur einsleitir. Halldór skar þá út frá ljósmyndum í bók, tveimur áratugum eftir útgáfuna. Myndir hans voru því ekki samtal við samtímann heldur minnisvarði um ákveðið, mikilvægt augnablik í sögu íslensks lýðræðis. Birgir leggur áherslu á að vera í lifandi samræðu við sína samtíð og Von var fyrst sýnd haustið 2016, nokkrum vikum fyrir alþingiskosningar. Í kjölfarið málaði hann syrpuna Réttlæti, af tíu (ljóshærðum) hæstaréttardómurum. Halldór skar út höfuðmynd af Jóni Péturssyni dómara. Til gamans má benda á að Halldór skar einnig út lágmyndir sem heita Vonin og Réttlætið.
Það er athyglisvert að tefla saman Alþingismönnum Halldórs frá byrjun sjöunda áratugarins og Von Birgis Snæbjörns rúmlega hálfri öld síðar. Báðir vinna með ímynd lýðræðisins fremur en einstaklinga. Báðum lætur vel að vinna í syrpum og hika ekki við að eyða nokkrum árum og ótöldum vinnustundum í að fullgera verk sín. Báðir eru greinilega haldnir þónokkurri þráhyggju. Um leið er djúpstæð efniskennd Halldórs og massífur viðurinn í hrópandi andstæðu við föl og nánast óefniskennd málverk Birgis. Hér birtast táknmyndir um tvo mjög ólíka heima, ólík samfélög og ólík viðhorf til æðstu valdastofnunar landsins, sem í fyrra tilfellinu vakti virðingu og von borgaranna og í því síðara vaxandi vantraust og tortryggni. „Von er það sem við teljum okkur öll eiga en er jafnframt það sem er auðvelt að glata,” segir Birgir Snæbjörn. Það á við um bæði listaverkin.
Valdakonur og klasar
Anna Hallin valdi að gera þrjár nýjar brjóstmyndir sem svar við Alþingismönnum Halldórs. Verkið Valdakonur er virðingarvottur hennar við þrjá brautryðjendur í íslenskum stjórnmálum og þjóðlífi: Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta, Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, og Katrínu Jakobsdóttur, núverandi forsætisráðherra. Þær eru gerðar í marmarasteypu og yfirbragð þeirra og hlutföll minna nokkuð á trémyndir Halldórs. Valdakonur Önnu sýna þá framför og þróun sem hefur orðið frá fyrsta þjóðkjörna alþinginu, sem var einungis skipað körlum, til þessara kvenna sem hafa sinnt æðstu valdastöðum landsins. Í Von eru þingkonur 27 á móti 37 þingmönnum: það sýnir ótvíræða framför en þó ekki jafnræði. Að konur setjist í hæstu valdastóla er ennþá sjaldgæft og með verki sínu dregur Anna athygli að þeim einstaklingum sem því hafa áorkað, en einnig að konunni sem slíkri innan stjórnmála og valdakerfis heimsins.
Verkið Klasa frá 2016 valdi Anna út frá Tignartindinum eftir Halldór. Verkið, sem hann nefndi einnig Metorðastigann og var unnið í Vesturheimi, sýnir valdabaráttu mannsins í eins konar spíral sem endar á einræðisherra á tindinum. Klasi Önnu fjallar um stöðu fólks í samfélaginu þar sem sumir standa á herðum annarra. Hún leitast einnig við að sýna tilhneigingu mannkyns til að fylkja sér í hópa eða klasa sem lúta innra jafnvægi og lögmálum. Í verki Önnu Skriffinnar (2012) er hópur af einstaklingum sem þrátt fyrir nokkur sérkenni eru mjög líkir í útliti og viðhorfi, þeir eru hluti af eins konar hópsál eða hópathöfn.
Anna er þekkt fyrir postulínsfígúrur sínar sem eru oft margar saman en geta líka staðið einar. Ein sú nýjasta er Selfie, fremur umkomulaus vera standandi á palli með tölvuteikningu, gerðri með bendlum fyrir hreyfimynd. Á tímum samfélagsmiðla og sjálfhverfu sér einstaklingurinn sig og upplifir oft öðruvísi en aðrir. „Fígúran með sitt hafurtask reynir að halda reisn sinni og jafnvægi á barmi þessarar meðvitundar um sjálfið,” segir listakonan um verkið. Anna er líka frábær teiknari, eins og undirbúningsmyndin fyrir Valdakonur sýnir. Í blekteikningum hennar Andlit, sem eru hér sýndar í fyrsta sinn, má sjá ásjónur sem urðu til við kynni hennar af fólki gegnum tíðina. Andlitin og sérlega augun eru fremur óljós, líkt og gleymdar ljósmyndir eða hughrif úr djúpi minninganna.
Anna Hallin er af erlendu bergi brotin en hefur verið búsett á Íslandi um árabil. Án þess að finna nákvæma samsvörun við feril Halldórs, sem bjó flest sín fullorðinsár erlendis, má þó fullyrða að sýn útlendingsins sé oft athyglisverð og gefandi fyrir landið sem fóstrar hann.
Þegar Halldór Einarsson bjó „einsamall með hinni dásamlegu náttúru” í nágrenni Chicago hafði hann félagsskap af dýrum úr skóginum. „Ég talaði við þau á þremur tungumálum, þeirra máli, ensku og íslensku, og þau skildu allt.” Halldór var listamaður af innsæi og líkt og hann talaði mál dýranna tala verk hans til fólks enn í dag. Þetta samtal við samtímann, sem er stundum óvænt eða skrýtið, er mjög oft gefandi og snertir taugar sem liggja djúpt í (þjóðar)sálinni.
Sýningarstjóri: Ásdís Ólafsdóttir
Ásdís Ólafsdóttir er fædd árið 1961. Hún er listfræðingur, búsett í París, en hún lauk doktorsprófi frá Parísarháskóla, Panthéon-Sorbonne, árið 1995. Hún hefur skrifað og flutt fyrirlestra um hönnun, arkitektúr og samtímalist á Íslandi og erlendis og verið sýningarstjóri fjölmargra sýninga. Þetta er þriðja samstarfsverkefni hennar með Listasafni Árnesinga, en hún stýrði sýningunni Andans konur. Gerður Helgadóttir, Nína Tryggvadóttir. París-Skálholt árið 2009 og Horizonic: rými og víðáttur í hljóðlist árið 2012. Ásdís er forstöðukona safnsins Maison Louis Carré eftir Alvar Aalto í nágrenni Parísar og ein af stofnendum og ritstjóri tímaritsins ARTnord.
Listamenn
Anna Hallin
Anna er fædd í Svíðþjóð árið 1965 og hefur verið búsett í Reykjavík síðan 2001. Anna hefur meistaragráðu í leirlist frá Háskólanum í Gautaborg og í myndlist frá Mills College, Oakland, Kaliforníu. Hún hefur á ferli sínum tekið þátt í fjölmörgum samsýningum hérlendis og erlendis og haldið einkasýningar hér á landi, í Svíþjóð, Finnlandi og Þýskalandi, svo nokkuð sé nefnt. Verk eftir hana eru m.a. í eigu Listasafns Reykjavikur, Gerðarsafns, Safnasafnsins, Listasafns Reykjanesbæjar og Listasafns Íslands. Anna hefur um árabil unnið að myndlist í samstarfi við myndlistarkonuna Olgu Bergmann. Samstarf þeirra er ekki síst á sviði myndlistar í opinberu rými og sem dæmi má nefna verðlaunatillögu þeirra að listaverkum fyrir nýja fangelsisbyggingu á Hólmsheiði.
Birgir Snæbjörn Birgisson
Birgir Snæbjörn Birgisson er fæddur árið 1966. Hann útskrifaðist sem stúdent af myndlistarbraut Menntaskólans á Akureyri og stundaði síðan nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1986-89. Hann sótti framhaldsnám við fjöltæknideild École des Arts Décoratifs í Strassborg í Frakklandi 1991-93. Birgir var einnig búsettur um tíma í London þar sem hann starfaði að myndlist en býr nú og starfar í Reykjavík. Hann stofnaði ásamt konu sinni Sigrúnu Sigvaldadóttur Gallerí Skilti 2007 sem sýningarvettvang við heimili þeirra að Dugguvogi 3 í Reykjavík. Birgir hefur verið mjög virkur í sýningarhaldi bæði hér heima og erlendis. Hann hefur lengi unnið með staðalímyndir út frá norrænu og ljóshærðu yfirbragði. Í verkum Birgis er að finna samfélagslega og pólitíska skírskotun.
Guðjón Ketilsson
Guðjón Ketilsson er fæddur árið 1956. Hann útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1978 og fór þá í framhaldsnám við Nova Scotia College of Art and Design í Kanada þaðan sem hann lauk námi 1980. Guðjón vinnur að mestu við gerð teikninga og skúlptúra. Í verkum hans er mannslíkaminn í forgrunni, nærvera hans eða fjarvera. Guðjón hefur haldið yfir þrjátíu einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga á Íslandi og í Evrópu, Bandaríkjunum, Kína og Ástralíu. Verk Guðjóns eru í eigu allta helstu listasafni á Íslandi, svo og nokkurra erlendis. Auk þess að vera boðið að vinna að list sinni á ýmsum alþjóðlegum vinnustofum, hefur hann verið valinn til þátttöku í samkeppnum um gerð listaverka í opinberu rými og má sjá verk hans í opinberu rými í Reykjavík og á Seyðisfirði.
Rósa Sigrún Jónsdóttir
Rósa Sigrún Jónsdóttir er fædd árið 1962. Hún lauk námi frá kennaraháskóla Íslands 1987 og frá Listaháskóla Íslands 2001. Rósa hefur haldið margar einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga bæði heima og erlendis. Hún var formaður Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík í fjögur ár og var ennfremur fulltrúi SÍM í Listskreytingasjóði Ríkisins. Henni hefur verið boðið á gestavinnustofur víða um heim, hún á verk í opinberu rými á íslandi og í Finnlandi og hefur hlotið innlendar og erlendar viðurkenningar, nú síðast Premio Ora Art Price. Frá 2007 hefur hún kennt við Myndlistarskólann í Reykjavík. Rósa Sigrún vinnur aðallega með textíl, allt frá stórum þrívíðum innsetningum í lítil, tvívið verk. Hún starfar ennfremur sem fjallaleiðsögumaður og tengist íslensk náttúra á ýmsan hátt inn í verk hennar.
Halldór Einarsson
Halldór Einarsson frá Brandshúsum í Flóa fæddist árið 1893 og lést í Reykjavík árið 1977. Hann nam teikningu og tréskurð hjá Stefáni Eiríkssyni myndskera í Reykjavík en fluttist til Vesturheims árið 1922 og starfaði lengst af við tréskurð í húsgagnaverksmiðju í Chicago. Ytra lærði hann líka að höggva í marmara og stein og sinnti alla tíð myndskurði í frístundum.
Árið 1969 tilkynnti Halldór Einarsson að hann hefði ákveðið að gefa fæðingarhéraði sínu, Árnessýslu, tréskurðarsafn sitt, höggmyndir og teikningar ásamt peningagjöf, tíu þúsund dollara. Það var hvati þess að byggt var listasafnshús á Selfossi, þar sem tveimur stofngjöfum var komið fyrir í sitt hvorum sýningarsalnum, listaverkasafni Bjarnveigar Bjarnadóttur sem hún gaf á árunum 1963-1989 og safni Halldórs. Húsið var vígt árið 1974 og hýsti Listasafn Árnesinga allt til ársins 2001, er það var flutt til Hveragerðis. Þannig lagði Halldór Einarsson grunn að sögu Listasafns Árnesinga.