Heimurinn sem brot úr heild

28. september – 15. desember 2019

Sýningarstjóri: Jóhannes Dagsson

Textinn sem hér fer á eftir fylgir úr hlaði samsýningu Önnu Jóa og Gústavs Geirs Bollasonar, Heimurinn sem brot úr heild í Listasafni Árnesinga. Í textanum dreg ég fram þau hugtök og hugmyndir sem liggja að baki vinnu minnar að sýningunni og varpa ljósi á viðfangsefni hennar. Verkin á sýningunni eru ekki um þessi hugtök og hugmyndir, þau standa sjálf sem ákveðnar merkingarheildir og þurfa ekki skýringar við. Með því að setja þau fram saman í samhengi sýningarrýmisins verður hinsvegar til tækifæri til túlkunar og merkingar sem eftirfarandi skrif fást við að skýra og draga upp mynd af. Textinn skiptist í þrjá hluta sem hver og einn fæst við ákveðinn þátt í þeim hugmyndum sem ligga að baki vali verkanna og því hvernig sýningin er saman sett. Þættirnir eru; teikning/tími, hlutur og heimur.

I.Teikning/tími

Teikning sem aðferð við að gera sér mynd af heiminum byggist öðrum þræði á takmörkunum og því að setja niður mörk. Teikning er ekki aðeins sjónarhorn eða aðferð, heldur afmörkun. Afmörkun er til þess fallin að draga fram eiginleika og fyrirbæri sem annars reynist erfitt að festa hendur á. Það að teikna er könnun á ákveðnum eiginleikum, könnun sem fer fram innan þeirra aðstæðna sem verkfærið og flöturinn bjóða upp á. Það er skynjun okkar og innihald hennar sem við mótum og breytum með aðferð teikningarinnar. Að gera sér mynd af heiminum er bæði myndhverfing og bein frásögn, bæði huglæg og hlutlæg atlaga að skilningi eða upplifun eða andartaki skynjunar. Þessi háttur teikningarinnar er afmarkaður af hendi þess sem teiknar (í bæði eiginlegri og óeiginlegri merkingu) og þessi eiginleiki teikningarinnar verður til þess að túlkun okkar á teikningu markast að einhverju leyti af hugmyndum okkar um ætlan þess sem teiknar, af hugmyndum okkar um huglæga eiginleika (skoðanir, langanir, þrár, óra og svo framvegis) þess sem dregur línuna. Þetta á jafnt við þó að teikningin taki á sig merkimiða eins og kort eða skýringarmynd, hugtök sem þessi eiga sér stoð í hugmyndum um tilgang og markmið. Teikning sem fullkomlega hlutlæg lýsing á fyrirmynd er þannig ekki möguleg eða í það minnsta ekki áhugaverð túlkun.

Í gegnum teikningu fæst annarskonar aðgengi að heiminum, hreyfing handarinnar og einbeiting huga og auga mynda saman aðferð til að fást við skynjun okkar og skilning á heiminum. Það má hugsa sér teikningu sem mynstur eða takt og tíminn verður þannig þáttur í hugtakinu teikning. Teikning sem mynstur í tíma, teiknuð upp, í tíma. Eins og taktur, eða eins og rákir á yfirborði.

Tíminn er ekki einnar náttúru, hann er líðandi, andartak, mennskur og óendanlegur, liggur í jarðlögum og birtist í hlutum sem eru samferða okkur um efnisheiminn. Octavio Paz hefur fært rök fyrir því að þegar kemur að heimsmynd sé þáttur tímans sérstaklega mikilvægur. Við sjáum heiminn ekki sem röð af andartökum sem einfaldlega koma hvert á eftir öðru, heldur skiljum við heiminn sem fyrirbæri sem hefur tilgang, sem fyrirbæri sem færist frá einu andartaki til annars af ástæðu. Þetta á ekki einvörðungu við um athafnir manna, (sem trúlega eru þó augljósasta dæmið) heldur um það hvernig við meðtökum heiminn taka á sig nýjar og nýjar birtingarmyndir, í andartökum, eða öldum. Tíminn er þannig ráðandi þáttur í því hvernig við eignum efninu merkingu. Fyrir Paz er skýrustu birtingarmynd þessa að finna í ljóðinu, þar hafa ólíkar hugmyndir um tímann birst hvað skýrast samkvæmt greiningu hans. Teikningin sem aðgengi að heiminum þar sem þessi skilningur á tengslum tíma og tilgangs verður sjáanlegur, skynjanlegur, er jafn mikilvægur miðill að mínum dómi. Ekki í samkeppni við ljóðformið, heldur sem önnur og jafnvel skyld leið til að velta fyrir sér þessum venslum.

Í teikningum Önnu Jóa eru margskonar tímar. Fínleg brotin bera með sér sinn tíma sem þó er óræður og erfitt að afmarka. Þau vísa til þess tíma þegar þau voru hluti af heild en ekki brot, áttu sér ekki sjálfstæða tilveru, heldur voru samfella í nytjahlut. Sjórinn hefur svo átt sinn þátt í að slípa og laga þau til, gera brotið að því sem það er. Brotin bera jafnframt með sér ólíka staði. Teikningarnar innibera vísanir í fundarstaði brotanna og upprunastaði postulínsins. Náttúruleg ferli skarast hér við hið manngerða, tilviljun í hringrás náttúrunnar.

Brotið ber líka með sér athöfnina að finna. Það ber með sér leik sem flestir kannast við, að ganga fjörur í leit að einhverju spennandi sem sjórin hefur skolað á land. Þetta er leikur leikinn af barnslegri gleði, eða af áhuga (og jafnvel einbeitingu) fullorðinna. Fundin brot eru sem málverk, sem merkingarberar, en náttúruleg efni þeirra leita aftur til upprunans. Með því að skoða náttúruna finnast brotin og formin á yfirborði þeirra, en smám saman tekur náttúran þau yfir aftur. Það að finna eitthvað helgast af því að fella það undir hugmynd um hlut, en hér rekast á tíminn, varanleiki og hverful merking. Tíminn er þannig marglaga, brotið stendur fyrir heild sem það var hluti af, fyrir tíma náttúrunnar, slípað og mjúkt eftir ferðalagið í sjónum, og tíma leiksins, mannsins, nú-sins. Teikningin er aðferð til að greina þessa margföldu tíma sem liggja í brotinu. Mynstur, endurtekning, taktur, allt kunnuglegar aðferðir til að fást við tímann, fást við andartökin og það hvernig best er að raða þeim upp þannig að þau myndi skiljanlega heild. Í teikningunni birtist einnig hennar eigin tími. Í gegnum nærveru handar listamannsins komum við auga á tíma sem er ekki tími brotsins sem slíks, heldur tími sem vísar til framtíðarinnar, til nýrrar túlkunar á því hvað brotið er, hvað það getur merkt, hvað það er sem gerir það áhugavert. Skrásetningin er ekki hlutlæg heldur afmörkuð við að kanna ákveðna eiginleika brotanna. Teikningarnar standa sjálfstæðar hver fyrir sig en þær eru jafnframt brot af stærra safni, stærri heild. Greiningin á brotunum hleður utan á sig, verður flóknari og flóknari og einfaldari og einfaldari. Safnið, það að safna saman og raða upp í nýjar heildir verður hluti af aðferðinni, hluti af greiningunni. Ákveðinn litur, ákveðið form, ákveðið mynstur verður tilefni til nýrra aðgreininga, nýrrar afmörkunar, nýrrar merkingar.

Við rekumst einnig á tíma brotsins og umbreytinga í verkum Gústavs Geirs, þó er þetta annar tími, önnur brot. Brotin sem Gústav setur saman og sundrar hefur ekki borið upp á fjörur heldur eru þau hluti af stærra broti, broti úr iðnvæðingu auðlinda hafsins. Þessi brot eru staðbundnari, þau tilheyra öll sömu staðbundnu heild. Einhverntímann á árunum 1936 til 1937 skrifar ungur Albert Camus á ferð um Tipasa í Alsír: „Í þessum samruna rústa og vors eru rústirnar aftur orðnar að steinum, þær hafa misst fágað yfirbragðið sem maðurinn hefur léð þeim og horfið aftur til náttúrunnar.“ Í þessu broti úr texta Camus koma fram aðgreiningar, milli náttúru og þess manngerða, milli rústa og þess sem ennþá er í notkun, fágunar og þess grófa. Þau brot og þær rústir sem Gústav fæst við í verkum sínum falla ekki undir þessar aðgreiningar. Það eru ekki skýr skil á milli þess manngerða og þess sem náttúran hefur meðhöndlað, fágað yfirbragð er ekki andstæða þess grófa í verkum Gústavs, það er ekki hægt að hverfa aftur til náttúrunnar af því að náttúran er ekki til lengur sem andstæða við hið manngerða, hún er ekki lengur heild sem hægt er vísa til. Þetta niðurbrot á aðgreiningu kallar á nýja skipan, nýja flokkun veruleikans niður í skiljanlega hluta, viðráðanleg brot. Tíminn leikur hér meginhlutverk. Tímalínurnar sem víxleggjast í verkunum eru ekki aðeins tími náttúrunnar, (eða vorsins eins og Camus segir svo skáldlega) og tími mannsins hinsvegar, heldur einnig tími tilgangs og tilgangsleysis, tími þar sem hlutir hafa hlutverk og þar sem þeir hafa misst það. Núið sem teikningin skrásetur er andartak úr ferli, sem liggur frá fortíð inn í framtíð, ferli sem á sér ekki endilega tilgang en heldur áfram hvort heldur sem er. Tími sem ferli frá fortíð til framtíðar verður aðeins skilið sem hliðsjón af þeim hraða sem það fer fram á. Jarðsögulegur tími liggur úr fortíð inn í framtíð en ferlin sem honum er ætlað að kortleggja eiga sér stað svo hægt að aðeins einstaka sinnum eru þau okkur skynjanleg viðföng. Í kapítalísku samfélagi samtímans erum við umkringd tímaferlum þar sem tími er metinn í krónum og aurum, ferlum þar sem krafan um hraða og skilvirkni er alltumlykjandi. Þessi hröðun á ekki aðeins við um efnisveru okkar, heldur í sífellt meira mæli við heim hugsunar, skynjunar og tilfinninga. Framtíðin, eða tiltrú okkar á hana sem markmið hverfur í þessum sífellt aukna hraða, við sjáum hana ekki fyrir sífellt hraðari endurtekningum, sífellt meiri kröfum um athygli, einbeitingu, ánægju og hamingju. Teikningsem aðferð er ekki í eðli sínu andsvar við þessu (enda vandséð að hún sé nokkuð, í eðli sínu) en það er hægt að beita henni til þess að teikna upp annan hraða, aðra upplifun á tíma. Upplifun sem er ekki bundin afköstum eða aðgreiningu þess nýja frá því því sem er liðið; upplifun þar sem andartakið sem teikningin skrásetur er hluti af tímalínu sem ræðst af ígrundun og upplifun sem hefur aðeins það takmark að greina andartakið og leyfa því svo að taka sinn stað aftur í röðinni.

II.Hlutur

Smíðisgripir eru hlutir og hluti erum við vön að umgangast sem nokkuð skýrt skilgreindar efnismyndir. Þeir eru vissulega dularfullir í veru sinni en þeir eru það yfirleitt aðeins í óhlutbundnu samhengi heimspekinnar, listarinnar eða trúarinnar, í daglegu lífi hlýða þeir og hegða sér vel. Við getum yfirleitt treyst skilningarvitunum þegar hlutir eru annarsvegar hvað sem öðru líður. Við sjáum (vitum/skynjum) að „þessu er ætlað að vera drykkjarmál“, og við sjáum að „þetta er verkfæri til að raka saman með“ og svo framvegis. Verkfærið og heimur verksins er okkur kannski ekki endilega augljós í smáatriðum en við berum yfirleitt skynbragð á hvar hann endar og hvar hann byrjar. Brot eða rústir eru aðstæður þar sem smíðisgripurinn gefur eftir og umbreyting tekur við af nokkuð stöðugu ástandi hlutarins. Þetta á ekki aðeins við um efnislega eiginleika smíðisgripsins, heldur ekki síður um hvar við staðsetjum merkingu hans, hvaða merkingu við leggjum í hann. Eitt af því sem tekur breytingum í þessu ferli frá grip til brots er hlutverk ætlunar eða ásetnings í því hvernig við eignum hlutnum merkingu og hlutverk. Greinarmunur smíðisgrips og náttúrulegra fyrirbæra hefur oft verið rökstuddur með því að vísa í ætlan. Ef ætlan þess sem býr til hlutinn ræður gerð hans og tilgangi, þá er hann smíðisgripur, annars er hann náttúrulegt fyrirbæri. Þennan greinarmun má einnig setja fram þannig; að svo lengi sem hlutur hefur tilgang og markmið er hann smíðisgripur, ef tilgangur hans og markmið hverfur eða týnist er hann það ekki lengur, heldur brot eða rústir eða einfaldlega efni. Þessi aðgreining sem byggist að miklu leyti á ætlan er í samtímanum orðin brotakennd og viðkvæm og bíður þess að vera leyst af hólmi. Áhrif athafna mannsins hafa breitt úr sér og eru orðin hnattræn. Þau ná til fyrirbæra svo sem veðurfars og fyrir vikið er aðgreining þess manngerða og hins náttúrulega í uppnámi. Við eru knúin til þess að endurhugsa hugmyndir okkar um hluti og tilurð þeirra, um það hvernig merking hluta verður til og um það hvernig hún birtist okkur.

Hugmyndin um hlutinn sem skýrt afmarkað fyrirbæri í tíma, með skýra staðsetningu og skýrar afmarkanir sem eitthvað sem við getum séð eða náð tökum á í gegnum skynjun okkar á honum á ekki við í aðstæðum þar sem áhrif mannsins eru ekki lengur bundin við smíðisgripi, heldur hafa smitað (mengað) allt umhverfi hans. Þessar nýju aðstæður, mannöldin (e. the anthropocene), kalla á nýjar leiðir til að greina og flokka efnisleg fyrirbæri og ekki síst nýjar leiðir til að hugsa um og endurskipuleggja hvernig við gerum greinarmun á því manngerða og því sem tilheyrir náttúrunni. Í samhengi mannaldarinnar er það ekki síst samband okkar við framtíðina sem er í uppnámi og tekur á sig nýjar myndir. Við höfum áhrif á hana á annan hátt en áður og þetta nýja samband við umhverfi framtíðarinnar krefst þess að við endurskoðum hvaða merkingu við leggjum í hlut og í aðgreiningu þess manngerða og náttúrunnar. Framtíðin verður af mannavöldum þó svo að enginn hafi ætlað þessa útkomu. Framtíðin verður jafnframt af náttúrunnar völdum eins og hún verður. Við verðum að grípa til ákveðinna aðgerða til að reyna að hafa áhrif hvort sem við berum ábyrgð eða ekki. Þetta krefst þess að við sjáum framtíðina aftur fyrir okkur, ekki sem markmið, heldur sem verkefni sem við tökum þátt í að leysa áður en það verður hluti af því sem við getum haft beina skynreynslu af.

Það að sjá eitthvað fyrir sér krefst oft ekki flóknari athafnar en þeirrar að skipta um sjónarhorn, að færa sig til, að færa það sem horft er á inn í nýtt samhengi. Sumt af því sem við gætum komið auga á hér er t.d; vensl hluta og tíma, vensl ásetnings og tíma, vensl forms og ásetnings, vensl andartaksins og tímans, safn sem tilraun til að skrásetja, safn sem persónulegt viðbragð, umbreyting hlutarins. Þessi listi gæti verið endalaus vegna þess að hver og einn áhorfandi á sína eigin útgáfu af honum.

III. Heimur

Hvað er það sem heldur þessari sögu saman, annað en framrásin? Heimur samanstendur ekki aðeins af þeim efnishlutum sem fylla hann, heldur inniheldur hann einnig þau kerfi og þær aðstæður sem gera merkingu mögulega. Nýr heimur getur því innihaldið sömu efnislegu hluti og sá sem hann leysir af hólmi en samt verið nýr. Við getum vaknað inn í sífellt nýjan heim svo lengi sem það eru lífvænlegar aðstæður fyrir hann. Verkin á sýningunni eru ekki forspá um heim og ekki módel af því hvernig heimi verður best lifað, heldur er frekar um að ræða tilgátur eða hugleiðingar um möguleg brot úr mögulegum heimi. Þessi brot eru heimar og hlutar, sjálfum sér samkvæm og sjálfum sér nóg, en þarfnast jafnframt heildar og samhengis til þess að komast af, til að verða merking og athafnir, til að verða ferli og athöfn innan heims.

Heimar verða ekki til úr engu og tilurðin er ekki í einu andartaki sköpunar. Heimar verða til smásaman og hráefnið er aðrir heimar, aðrar skynjunar- og merkingarheildir, sem verða hlutar af nýjum heimi og svo koll af kolli, vonandi án endis. Ein af áskorunum samtímans er einmitt að geta ímyndað sér næsta heim án þess að sá heimur innihaldi lok sögunnar. „Hvernig býr maður til heim sem hrynur ekki tveimur dögum seinna?“ Hvað er það sem heimur þarf að hafa til að bera til að vera lífvænlegur? Innan bókmennta eða lista er þetta spurning um aðferðafræði en þetta er líka spurning sem hægt er að reyna að svara um raunverulega heima.

Það er ekki svo einfalt að sýningin sé mynd af heimi eða að verkin á sýningunni hafi verið valin með það í huga að vera kort af heimi. Sambandið milli framsetningar og heims er miklu margþættara og óræðara en svo. Sýningin gefur innsýn í umbreytingarferli eins heims sem verður drög að öðrum. Þar leggjast á eitt greinandi skoðun teikningarinnar, barnslegur leikur, frásagnargáfa og söfnun hluta, upplýsinga, brota.

Við fáum hér aðgengi að heimum, brotakennda leið, brotakenndan aðgang að heimum sem eiga sér uppruna bæði í því liðna og í framtíðinni. Heimar listamannanna eru ólíkir og það eru ólíkar verur sem byggja þá en með því að veita aðgang að þeim innan sama samhengis, verða líka til aðstæður og ástæður til að velta fyrir sér hugtökum eins og heimur, fortíð, framtíð, framsetning, lífvænlegur. Hér eru vísbendingar um heima sem eru persónulegir, heima sem innihalda aðrar athafnir en þær sem við erum vön að lifa, heima sem eru liðnir, heima sem hafa ekki ennþá hafist. Brotin eru skynjanleg og í gegnum skynjun okkar á þeim verður þetta aðgengi, þessi brotakennda leið, til. Þetta eru ekki heimar búnir til úr hugtökum eða óhlutbundnum forskriftum eða formúlum, heldur höfum við hér tækifæri til að reyna á eigin skinni, í gegnum skynjun og veru, drög að heimi.

Aðal frumspekilegra ljóða barokktímans var myndhverfing þar sem hlutir ættaðir úr hversdeginum verða táknmyndir fyrir eiginleika og lögmál sem eru langt fyrir handan það sem við skynjum með hversdagslegum leiðum. Myndhverfingar þar sem grunneiginleikar heimsins endurspeglast í smáum og hversdagslegum hlutum. Frumspekilegar hugleiðingar sem, þrátt fyrir að liggja fyrir utan það sem er skynjanlegt, eiga uppruna sinn í veru okkar í heimi skynjunar. Sýningin og verkin á sýningunni eru ekki myndhverfingar. En þessi hugsun um hversdagslega skynjun sem aðgengi að hugleiðingum um eðli og lögmáls sem ekki eru aðgengileg í gegnum beina skynjun er stef sem hefur fylgt mér í gegnum undirbúningsferli sýningarinnar. Leiðir til að hugsa upp á nýtt um hvað það er sem myndar heild, leiðir til að hugsa upp á nýtt hvað það er sem við setjum saman og hvað við tökum sundur til þess að búa til nýja heima, nýja möguleika, ný mynstur til að skynja. Nýjar leiðir til að rifja upp heildir úr brotum.

Berardi, Franco. 2011. „Time, Acceleration, and Violence“. e-flux journal, 27. Blaðsíðutal vantar.

Camus, Albert. 2014. „Brúðkaup í Tipasa“. Í Rangan og réttan – Brúkaup – Sumar, þrjú ritgerðasöfn. Þýð: Ásdís R. Magnúsdóttir. Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Reykjavík, bls. 84-92.

Datson, Lorraine, Galison, Peter. 1992. „The Image of Objectivity“. Representations, No. 40, pp. 81-128.

Dick, Philip K. 1995. „How to Build a Universe That Doesn‘t Fall Apart Two Days Later“ í The Shifting Realities of Philip K. Dick: Selected Philosophical and Literary Writings. Vintage Books, New York, bls. 259-281.

Goodman, Nelson. 1978. Ways of Worldmaking. Hackett Publishing Company. Indianapolis.

Morton, Timothy. 2015. „Hyperobjects, an new way to think about global warming“. High Country News, 19.jan, bls. 8-9.

Morton, Timothy. 2013. „Poisoned Ground: Art and Philosophy in the Time of Hyperobjects.“ Symploke, nr. 21, bls. 37-50.

Paz, Octavio. 1990. „The New Analogy: Poetry and Technology“. Í Convergences, Essays on Art and Literature. Bloomsbury Publishing. London, bls. 119-143.

Warnke, Frank J. 1974. European Metaphysical Poetry. Yale University Press. London.

Rudder Baker, Lynne. 2008. „The Shrinking Difference Between Artifacts and Natural Objects“. Newsletter on Philosophy and Computers, nr. 7 (2), bls. 1-9.

Um listamennina:

Anna Jóa (f. 1969) lauk námi við MHÍ 1993 og meistaranámi við École nationale supérieure des Arts Décoratifs (EnsAD) í París árið 1996. Hún nam síðar listfræði við Háskóla Íslands. Viðfangsefni myndlistarverka hennar lúta að minningum, skynjun, stöðum og tengslum sjálfsmyndar og umhverfis. Hún hefur sýnt olíumálverk, vatnslitamyndir, teikningar, texta- og ljósmyndaverk, auk þrívíðra verka og innsetninga. Anna hefur haldið fjölda einkasýninga á verkum sínum auk þess að taka þátt í samsýningum á Íslandi og erlendis. Hérlendis hafa verk hennar meðal annars verið sýnd í Listasafni Reykjavíkur, Listasafni Íslands, Listasafni ASÍ og í Listasafni Árnesinga, auk þess sem hún hefur sýnt verk sín í Frakklandi, Finnlandi, Rússlandi, Þýskalandi, Danmörku, Svíþjóð, Eistlandi og á Englandi. Verk eftir Önnu eru í eigu opinberra stofnana, fyrirtækja og einkaaðila. Hún rak sýningarrýmið Gallerí Skugga um árabil, hefur verið sýningarstjóri, sinnt ritstörfum og stundakennslu í listfræði við Háskóla Íslands og Listaháskóla Íslands. Hún starfar sem myndlistarmaður, listfræðingur og listgagnrýnandi. Anna býr í Reykjavík en er einnig með dvalarstað á Stokkseyri.

Gústav Geir Bollason (f.1966) stundaði nám við MHÍ 1986-1989, nam teikningu í 1 ár við Magyar Képzömüveszeti Egyetem í Budapest, Ungverjalandi og lauk DNSEP (Diplôme national supérieur d’expression plastique) frá Ecole d’Art de Cergy Frakklandi 1995. Verk Gústavs taka á sig form teikninga, smíða, umsköpunar á fundnum hlutum og kvikmynda. Hann notar jöfnum höndum óhlutbundnar framsetningar, endursköpun eða hliðstæður og hugsar upp ferli þar sem hann stefnir saman aðferðum og viðfangsefnum. Hann vinnur sumpart með hina hefðbundnu flokka fagurlista, þá oftast landslag eða landslagsfrásagnir. Hann kannar staði með sögu, mannvistarleifar eða safnar hlutum, torkennilegum af meðförum náttúrunnar. Í hnignuninni má greina úr hverju þeir eru og í óreiðunni sjá þróun. Verk hans hafa verið sýnd á einkasýningu m.a. yfirgripsmikilli í Listasafninu á Akureyi og í Frakklandi. Hann hefur tekið þátt í samsýningum bæði hér heima og víðar svo sem París, München, New York, San Francisco og Pérursborg. Gustav býr og rekur vinnustofu á Hjalteyri, er einn af stofnendum Verksmiðjunnar á Hjalteyri og rekur hana í dag.