Ljósmyndir: Vigfús Birgisson 

Erla S. Haraldsdóttir

Draumur móður minnar

2. mars – 25 ágúst 2024

Hér er hægt að heimsækja sýninguna áfram í 3D. 

https://my.matterport.com/show/?m=3duRTyQrKJr

Draumur móður minnar: Nýleg verk Erlu S. Haraldsdóttur

Hinn ósjálfráði texti er þegar ofinn tærum þráðum, þar sem munur á merkingu og krafti rennur saman – texti sem hvergi er til, samanstendur af geymdum textum sem eru sömuleiðis afritanir. Frumgeymdir textar.

—Jacques Derrida, Writing and Difference (1967)

Í Writing and Difference útskýrir franski heimspekingurinn og kenningasmiðurinn Jacques Derrida hugtök sín um ummerki og viðauka (e. traces og supplement). Hann fjallar um hinn „ósjálfráða texta“ sem fyrirmynd þar sem merking og kraftur koma saman en þó vantar upp á litrófið – fullir skjalaskápar af „frumgeymdum textum.“

Draumur móður minnar, sjálfsævisögulegt og sjálfsþjóðfræðilegt listverkefni Erlu Haraldsdóttur snýst um draum sem langalangömmu hennar dreymdi þegar hún var unglingur. Verkið samanstendur af bók með dagbókarfærslu þar sem langamma listakonunnar skráði draum móður sinnar og af röð stórra málverka og minni skissa sem sýna senur úr draum formóður hennar frá árinu 1863 eða þar um bil.

Draumurinn birtir kynni af „huldufólki,“ en það eru álfar kallaðir í íslenskri þjóðtrú. Bókin inniheldur ljósprentun af dagbókarfærslunum, ljósmynd af langalangömmu og langömmu listakonunnar, og þýðingar á draumnum yfir á fjölda tungumála sem Erla hefur komist í kynni við á undanförnum árum, þ.e.a.s ensku, sænsku, íslensku, þýsku og isiNdebele (bantú-mál í Suður-Afríku). Ríkjandi og minnihlutatungumál gefa kost á ólíkri túlkun og afritun – „frumgeymdir textar“ Derrida – og þessi texti undirmeðvitundarinnar helst sömuleiðis stöðugur í gegnum listrænt ferlið við að þýða hann með litarefni á striga, eða pappír, eða vegg. Texti og textíll renna saman, um leið og kastljósið beinist að málefnum fjölskyldunnar, vinnu kvenna, og því sem C. G. Jung hefði kallað erkitýpudraum kynslóðadulvitundarinnar. Fjölskyldumálin, einkamál, leita því út í hið opinbera og táknræna. En það er þó ekki allt, því að Draumur móður minnar á sér öndverða hlið, Drauminn minn, sem samanstendur af auðum síðum þar sem lesendum býðst að skrásetja sína eigin ómeðvituðu drauma.

Draumur móður minnar fjallar um fæðingu: eiginmaður huldukonunnar leitar hjálpar ungrar stúlku (dreymandans) fyrir hönd konu sinnar sem er í miðri erfiðri fæðingu. Stúlkan samþykkir að hjálpa og í staðinn er henni lofað að hún fái fallegan íslenskan búning að gjöf. Huldukonan setur þó skilyrði: stúlkan má aldrei segja neinum í mannheimum frá þessum atburði. Í einfeldni sinni svíkur hún loforðið og þá heimsækir huldukonan hana öskureið og tekur þjóðbúninginn til baka. Þetta verður dreymandi stúlkunni svo mikið áfall að hún neitar að láta ferma sig, sem var mikilvæg manndómsvígsla fyrir íslenska unglinga. Hvernig endar draumurinn? Á tvennan hátt: eftir að huldukonan sættist við dreymandann segir hún henni leyniorð til að nota á erfiðum tímum. Á dánarbeði sínu segir dreymandinn dóttur sinni frá draumnum en segir ekki frá leyniorði huldukonunnar.

Fyrir þessa sýningu er fjarlægt og ævintýralegt, ósjálfrátt efni þessara drauma grannskoðað í gegnum ýmsa miðla. Í hverju setti er tekist á við einn þátt draumsins, eða sem tengist draumnum. Sýningin býður upp á Kynnin (2023), stóra töflumynd af huldukonunni fyrir og eftir að langalangamman reitti hana til reiði. Verkið inniheldur líka veggmynd sem er á milli beggja hluta málverksins. Stúlka með annað augað lokað (2024) er endurtúlkun á Minningu (1870), symbólísku málverki eftir bandaríska listmálarann Elihu Vedder (1836-1923). Þrískipt málverkið er umkringt veggmynd sem máluð er beint á vegg safnsins. Íslenska afritið af Draumi móður minnar birtist í nýrri röð sjö verka á pappír sem minna á myndskreytt handrit. Myndbandið Draumráðning (2024) var unnið fyrir Erlu, klippari var Jano Tatongco. Lisa Marchiano og Deborah Stewart, greinendur úr hlaðvarpinu „This Jungian Life“ túlka draum langalangömmu Erlu um huldufólkið. Stórt málverk, Textaverk með fígúrum og skrautmunum (2021) skrásetur drauminn sem stækkaða, myndlýsta blaðsíðu úr handriti. Innsetningin Gylltar steinvölur samanstendur af gylltum kvartssteinum frá Melville Koppies-friðlandinu í Jóhannesarborg, Suður-Afríku. Þeir hanga í spotta og vísa í augnablikið þegar dreymandinn sér skyndilega fegurð híbýla huldufólksins. Mósaíkmyndin Sköpunarsagan: Fyrsti dagurinn sýnir vatn og byggir á málverki úr fyrri myndaröð með sama titil. 30 x 30 sm málverkin er titillinn á röð fimm málverka af landslagi, sem tilvísun í íslenska náttúru, fálka og mynd af barnabarnabarnabarni upprunalega dreymandans. Hér notar listakonan málverkið sem ferli til að skilja drauminn, eða nálgast skilning á honum. Loks sýnir Erla í fyrsta sinn röð átján teikninga sem bera titilinn Kynni í dögun / Teikningar með grafíti og gulli, sem, líkt og minni málverkin fimm, eru ferlisrannsókn á myndmáli og tengingum sem komu upp í huga listakonunnar þegar hún velti draumnum fyrir sér. Þessar myndir eru ekki myndlýsing draumsins, frekar tengt ferli sem miðar að því að skapa myndir og fara í kringum minni draumsins á ögrandi og leiðandi hátt.

Dr. Craniv Boyd.

Sjá meira / more info