Himnugöt

Freyja Eilíf

Salur 2

13. september – 23. desember 2025

Á ferð um heimana

Jón Proppé

Break on through to the other side

Break on through to the other side

Break on through to the other side, yeah

– Jim Morrison

Freyja Eilíf hefur komið víða við síðan hún útskrifaðist úr Listaháskólanum. Hún hefur látið frá sér teiknibækur og skúlptúra af ýmsu tagi, oft með ágengum pólitískum skilaboðum, en síðustu árin hefur hún í æ meira mæli stundað rannsóknir á því sem nú er oft lauslega kallað hið „andlega“ svið. Það er hins vegar ekkert lauslegt við rannsóknir Freyju. Hún hefur farið til Norður-Ameríku til að hitta vísdómsfólk meðal frumbyggja og hefur lagt sig eftir að skoða sjamanisma meðal ýmissa þjóða. Smám saman hefur hún veitt þessum rannsóknum inn í listsköpun sína og þessi sýning í Listasafni Árnesinga er skref á þeirri vegferð.

Það er erfitt að brydda upp á slíku í nútímanum sem einkennist helst af þröngsýnni rök- og vísindahyggju sem á uppruna sinn á Vesturlöndum og hafnar alfarið hefðbundinni þekkingu annarra þjóða og stimplar sjamanisma og náttúrutrú sem hindurvitni og barnaskap. Þetta viðhorf á sér ekki nema nokkurra alda sögu og það er engin tilviljun að uppgangur þess helst í hendur við útrás evrópsku nýlenduþjóðanna. Það er auðveldara að brjóta erlendar þjóðir undir sig og arðræna ef maður hefur sannfært sjálfan sig um að þær samanstandi af bernskum fávitum og hættulegum djöfladýrkendum. Samt höfum við öruggar vísbendingar af heimildum og fornminjum um að sjamanismi og náttúrutrú hafi tíðkast um allan heim í að minnsta kosti 40.000 ár og fólk þreifst samt ágætlega. Aftur á móti er okkur alltaf að verða ljósara hver afraksturinn er af útrás Vesturlandabúa með sína nýju heimssýn og hugmyndafræði um upplýsingu og verðmætasköpun: Það er uppflosnun og örbirgð til handa fólki og taumlaus rányrkja gagnvart náttúrunni og gæðum hennar, svo nú er orðið mjög tvísýnt um að mannkynið lifi af alla þessa upplýsingu og verðmætasköpun.

Meðal langflestra þjóða heims kom upp sú hugmynd í fyrndinni að veröldin skiptist í þrjá heima: Hinn jarðneska heim þar sem mennirnir búa, himnana þar fyrir ofan sem eru heimili guðanna og undirheima þar sem er ríki hinna dauðu. Þessir heimar tengjast um einhvers konar ás; í norrænni goðafræði er þessi ás askur Yggdrasils. Heimarnir eru þó ekki alveg aðskildir, heldur eru göt á milli. Þannig geta guðirnir fylgst með því sem gerist í mannheimum og jafnvel brugðið sér þangað ef þörf er á, eins og Óðinn gerði stundum og fór þá um í dulargervi. Það er líka gegnum slík göt sem hinir dauðu komast niður í dauðaríkið.

Nú er það auðvitað ekki svo að fólk hafi trúað því að veröldin væri eins og þrjár skífur með nagla í gegnum. Það væri barnalegt því þetta er líkingamál. Aðgreining heimanna er ekki landfræðileg – ekki einu sinni stjarnfræðileg – heldur er hún andlegs eðlis. Við skynjum að það hljóti eitthvað að vera „fyrir handan“, eitthvað sem hefur stundum áhrif á veruleika okkar en sem við getum ekki alveg áttað okkur á. Allt veltur á að halda jafnvægi: Það er til dæmis best að hinir dauðu fari rakleitt í dauðaríkið og haldi sig þar en séu ekki að ráfa um mannheima með tilheyrandi draugagangi og veseni. Ef eitthvað fer úrskeiðis þarf að grípa til ráðstafana svo jafnvægi komist aftur á – til dæmis að kveða draugana niður, eins og mörg dæmi eru um í íslenskum þjóðsögum og annálum. Þá þarf að hafa kunnáttumenn í verkið, eins og við á Íslandi höfðum kraftaskáldin sem gátu komið draugum fyrir kattarnef með því einu að kasta fram vísu. Sjúkdómar og pestir valda líka ójafnvægi og þá þarf að lækna, og það þarf að sjá til þess að friður haldist meðal fólks og kveða niður deilur. Náttúruna þarf líka að umgangast af nærgætni og huga að því að jafnvægi haldist. Á þessu veltur hamingja okkar, velsæld og heilbrigði. Þannig hefur líka komið upp hjá öllum þjóðum þörf fyrir fólk sem kann ráð við stóru og smáu, sem varðveitir þekkingu kynslóðanna, getur leyst úr vandamálum, gefið góð ráð og hlúð að andlegri sem líkamlegri velferð samfélagsins. Það þarf að vita lengra en nef sitt nær og sjá það sem öðrum er hulið. Þetta eru sjamanarnir.

Það sem vestrænu útrásarvíkingarnir gátu ómögulega skilið er að aðferðir sjamananna eru fullgild leið til að afla þekkingar og skilnings – það er ekkert varhugavert eða dularfullt á ferðinni. Til að leysa vandamál þarf að íhuga það. Á Vesturlöndum teiknum við upp flæðirit eða búum til mindmap í tölvunni. Sjamaninn kastar beinum eða útskornum dýrum á trommuna sína sem hefur verið skreytt með táknum sem skrá sögu og umhverfi þjóðflokksins. Það má kannski eins líta á flæðiritið sem ritúal, aðferð til að koma skikki á hugsanir og skilja betur þann vanda sem við er að etja, og þá getum við eins skilið aðferðir sjamansins sem vísindalega leit að lausn vandans. Kannski má líkja hvoru tveggja við það þegar við stokkum upp stafina í skrafli í von um að koma auga á orð sem geta nýst okkur.

Hugmyndin um hulda heima og götóttar himnur sem aðskilja þær snýst fyrst og fremst um þekkingu og skilning. Sjamaninn veit að það er ýmislegt sem við þekkjum og skiljum ekki en sem samt skiptir máli ef viðhalda á jafnvægi í heiminum. Til að nálgast þennan skilning þarf sjamaninn að fara út fyrir sjálfan sig og hugsa út fyrir ramma hins hversdagslega veruleika. Stundum felur þetta í sér að fara í trans og það eru til ótal frásagnir af því hvernig sjaman dettur niður eins og dauður og liggur þar, jafnvel klukkustundum saman, meðan hugurinn ferðast um hina ýmsu heima í leit að svörum. Orðið „trans“, sem notað er á flestum Vesturlandamálum, er dregið af latneska orðinu transire sem þýðir að „að fara yfir eða gegnum“. Trans er þannig aðferð til að smjúga gegnum götin á himnunni sem umlykur og takmarkar hugmyndaheim okkar og skilning. Gallinn við vísindalega rökhyggju Vesturlandabúans er aftur á móti að hann telur sig þegar hafa svörin á hendi og því telur hann sig mega raska jafnvægi hlutanna að vild og afleiðingarnar koma honum því oft gjörsamlega á óvart þegar of seint er orðið til að snúa við.

Það er því ekki af einskærri forvitni að Freyja Eilíf hefur helgað sig þessum rannsóknum og leitast við að miðla þeim til okkar hinna. Erindið er brýnt því nú ríður á að sporna við þeim vestrænu ranghugmyndum sem nú eru óðum að draga okkur til dauða. Það er engin tilviljun að leið hennar liggi gegnum listina, því þegar best lætur er það einmitt hlutverk listamannsins að fara út fyrir mörkin, að taka áhættuna af því að hafna því sem sjálfsagt þykir og gefa sig óvissunni á hönd – eins og sjaman í trans – til að færa okkur hinum nýjan skilning og opna okkur nýja heima.