
Milli hluta og gagna / Only Data
Jeannette Castioni
Anddyri
7. febrúar – 23. ágúst 2026
„List er leikur milli alls fólks á öllum tímum.“
Marcel Duchamp1
Í innsetningu sinni í Listasafni Árnesinga kynnir Jeannette Castioni Only Data: myndband sem er samtímalistaverk. Only Data nýtir þrívíðan gagnalesara til að greina fuglasöng og umbreyta hljóðinu í litskrúðugar sjónrænar hreyfimyndir. Söngur fuglsins, „Anselm“, er jafnframt settur fram með millititlum þar sem hljóðin eru hljóðrituð og lögð hvert ofan á annað. Titlarnir birtast og hverfa með skjótum hætti og í svimandi aragrúa af litum. Stundum birtast litlir gluggar innan ramma myndbandsins sem sýna menn safna kvistum og greinum; fuglafræðilegar frásagnir á þýsku, bæði vísindalegar og skáldaðar, renna yfir skjáinn, og áhorfandinn veltir því fyrir sér hvort mennirnir í myndbandinu séu að byggja sér hreiður.
Only Data var fyrst sýnt á sýningu í Schloss Plüschow (september 2025).2 Efni og inntak myndbandsins spratt af langtímasamstarfi Castioni við hælisleitendur sem búa í Þýskalandi, en hún hefur hitt þau á námskeiðum og í listamannabústöðum. Þátttakendur í myndbandinu eru að sækja um hæli í Þýskalandi og búa í jaðarrými: tímabundnum búsetuúrræðum sem ýmis ríki hafa hannað og skilgreint í þessum tilgangi. Castioni stýrði vinnustofum í samstarfi við þessi tímabundnu úrræði á árunum 2023 til 2024 og þróaði dagskrá í kringum hugtök náttúru og landslags. Í þessari vinnu tók hún eftir því að fuglar voru síendurtekin myndlíking eða leiðarstef fyrir uppflosnun, áttun og það að tilheyra. Tákn fuglsins gat sýnt áfall án þess að nefna það berum orðum. Með hennar eigin orðum: „Með því að greina fuglaköll og umbreyta þeim í sjónræn töluleg gögn veltir innsetningin fyrir sér hvernig einstaklingar sem lenda í ótryggum aðstæðum verða oft einungis punktar í gögnum, sviptir huglægum bakgrunni. Markmið mitt er að draga fram spennuna milli upplifunar fólks og flokkunarkerfa skrifræðisins, og kanna hvernig fólk sem lifir í stöðugu millibilsástandi geti endurheimt sýnileika og sjálfræði í umhverfi sem gjarnan smættar það í kóða eða gagnaupplýsingar.”3 Only Data inniheldur stuttar og sundurslitnar samklippur sem breytast hratt en virðist kyrrast eða hægja á sér undir lok myndbandsins. Upptökur af mönnum sem ganga í gróðri, eða af gróðri einum saman, þar sem litunum hefur verið snúið við, ljá náttúrunni óhugnanlegan eða framúrstefnulegan blæ firringar eða uppflosnunar.4
Castioni beitir þannig tengslamiðaðri aðferð samsköpunar (með hælisleitendum í vinnustofunum) og vinnur með fólki sem oft er horft fram hjá af „samfélaginu“. Tengslamiðuð aðferð vísar til listsköpunarhefðar sem kom fram á tíunda áratugnum og var sett fram af Nicolas Bourriaud í bók hans Relational Aesthetics. Þar eru verk listamanna víðs vegar að úr heiminum rakin,5 þó einkum þeirra sem störfuðu í Evrópu og Ameríku og sköpuðu ör-útópíur frekar en afmarkaða hluti: nokkuð sem Bourriaud sagði að „hvetji til mannlegra samskipta sem eru ólík þeim ‘samskiptasvæðum’ sem okkur eru uppálögð.”6 Á sama hátt dáist Castioni einnig að popplistinni fyrir að hefja hversdagslega hluti til vegs og virðingar og fyrir að afnema mörkin á milli há- og lágmenningar. Upphafning hins hversdagslega er einnig hluti af stærra samtali innan listarinnar, að hluta til hafið og knúið áfram af Marcel Duchamp og uppfinningu „tilbúinna“-hluta.7 Hugmyndafræði Duchamps og tilkoma „hins tilbúna“ sprengdi skilgreiningar listar og uppruna efniviðar hennar. Þetta var fyrirboði þeirra breytinga á tengslum í list sem Bourriaud greindi á tíunda áratugnum. Þarna liggur fjarlægur uppruni samtímalegra áherslna Castioni, sem beinir athyglinni að upplifun farandfólks sem tekst á við kerfi skrifræðislegrar flokkunar.
Um þessar mundir er Castioni heimspekilega samstíga Jacques Rancière og hugmyndum hans um endurdreifingu „skynjanlegra“ hugmynda um stjórnmál og list sem eru, að mati Rancières, tvær leiðir til að skynja og skipuleggja heiminn sem við búum í. Hið „skynjanlega“ er háð breytingum og rofi þar sem það er millihuglægt. List getur raskað föstum hugmyndum eða staðalmyndum sem áhorfendur bera með sér.
Rancière hvetur til sköpunar listar sem, fremur en að segja áhorfendum hvað þeir eigi að finna eða hugsa, kallar á þá að spyrja spurninga um það sem þeir sjá og skynja. Að mati femínísku fræðikonunnar Tinu Chanter greinir Rancière á milli pólitískrar og listrænnar röskunar á eftirfarandi hátt: „Þegar list endurdreifir hinu skynjanlega á hátt sem telst pólitískt áhugaverður, en er um leið áfram list í þeim skilningi sem Rancière leggur í hugtakið innan fagurfræðilegs regluverks, forðast hún að segja áhorfendum einfaldlega hvað þeir eigi að hugsa. Hún helst list og verður ekki stjórnmál. Pólitísk list, eins og Rancière skilur hana samkvæmt fagurfræðinni, lætur sér nægja að opna rými þar sem árekstur á milli heima getur framkallað breytingu á frásögnum, breytingu á sýn. Jafnframt er mögulegt að áreksturinn sem afhjúpast í og í gegnum slíka list leiði ekki til neinna pólitískra breytinga. Einmitt þannig á það að vera. Því að um leið og list getur spáð fyrir um áhrif sín á áhorfendur hættir hún að vera list og rennur saman við stjórnmál.”8
Drifkrafturinn í verkum Jeannette Castioni er að skapa skilyrði fyrir slíkar vangaveltur hjá áhorfendum. Hún vill „bjóða áhorfendum að takast á við margræðni og, á köflum, ljóðræna möguleika, og stíga inn í rými þar sem gögn og tölur sem safnað er í þágu vísindalegrar athugunar eru endurnýtt til að endurspegla mannlega reynslu.”9 Rancière bendir einnig á landamæri sem endurtekið viðfangsefni víða í samtímalist. Chanter útskýrir nánar: „Ef, samkvæmt Rancière, ‘sum áhugaverðustu listaverk samtímans fást við málefni yfirráða og landamæra’, á hvern hátt umbreytir þá list tiltekins samtímalistafólks dreifingu hins skynjanlega þannig að kynþáttavæddir, kvenlegir líkamar verða að svæðum sem listamenn skapa í gegnum, á og með?”10 Castioni beinir athygli sinni að körlum sem sækja um hæli og eru settir í tímabundin búsetuúrræði í smábæjum ásamt öðrum körlum víðs vegar að úr heiminum. Hún vinnur með opnar rannsóknir sem gefa ekki fyrirfram ákveðnar niðurstöður af listrænu starfi hennar.
Þegar Castioni var spurð hvaða þrjú „ó-listræn“ orð gætu lýst starfsháttum hennar sem listamanns nefndi hún nærveru, hlustun, þrautseigju og leikgleði (bónusorð!). Mér finnst þessi orð einnig gagnleg til að leiðbeina áhorfendum um hvernig nálgast megi verk hennar. Jeannette Castioni „býður áhorfendum að efast um það sem þeir telja sig þekkja og hvernig sjálfsmynd mótist oft af flokkunarkerfum.” 11 Only Data gefur áhorfendum tækifæri til að endurdreifa hinu „skynjanlega“ og ögra viðhorfum sínum til gagna og lífs innflytjenda á leikrænan hátt.
Texti eftir Dr. Craniv Boyd.
1) Tilvísun í Nicolas Bourriaud, Relational Aesthetics (Dijon: Les Presses du reel, 2002). Bls. 19.
2) Listakonan var í Schloss Plüschow listamannadvöl í Mecklenburg Vörpommern í september 2025. Sjá Facebook-síðu listamannabústaðarins: https://www.facebook.com/plueschow/.
3) Tölvupóstur frá listakonunni, 7. desember 2025.
4) Önnur íslensk listakona snýr einnig við litum í ljósmyndum af gróðri til að ímynda sér grasafræði framtíðarinnar. Sjá nýja útgáfu Katrínar Elvarsdóttur, A Botanical Future, á https://www.bergcontemporary.is/en/artists/katrin-elvarsdottir.
5) Frægasti listamaðurinn sem Bourriaud hélt á lofti var Rirkrit Tiravanija, sem eldaði fyrir safnara og á opnunum sýninga og var róttækt dæmi um „samfélagslega glufu.“ Tiravanija er líklega sá listamaður sem tengist mest hugtakinu „venslafagurfræði.“ Sjá Bourriaud (2002). Hins vegar eru nokkrir aðrir listamenn sem einnig nota tengsl við heimildarmenn til að skapa, einir eða í samvinnu við aðra, listaverk sem fjalla um félagslegan veruleika viðfangsins: Annika Erikson, Staff of the Moderna Museet (2000) – sjá verk hennar á https://annikaeriksson.com/work/staff-at-sao-paulo/ – og Elin Wickström í verki sínu Cool or Lame (2003). Sjá Billy Ehn, „Between Contemporary Art and Cultural Analysis: Alternative Methods for Knowledge Production“, InFormation: Nordic Journal for Art and Research, 1. útgáfa, nr. 1. (2012), bls. 4-18.
6) Bourriaud (2002), bls.16.
7) Að líta á tilbúna hluti sem listaverk opnar á það að fleiri þættir í heiminum geti verið listaverk. Í augum heimspekingsins Boris Groys á hið tilbúna sér heimspekilega fylgihnetti í andheimspeki. Sjá Boris Groys, Introduction to Antiphilosophy (London: Verso, 2012).
8) Tina Chanter, Art, Politics and Rancière: Broken Perceptions (London: Bloomsbury, 2018), bls. 44-45.
9) Tölvupóstur frá listakonunni, 7. desember 2025.
10) Tina Chanter, Art, Politics and Rancière: Broken Perceptions (London: Bloomsbury, 2018), bls. 50.
11) Tölvupóstur frá listakonunni, 7. desember 2025.