Ljósmyndir: Simone de Greef

RÓSKA

Áhrif og andagift

5. júní – 31. október 2021

Listakonan og aðgerðasinninn Róska var engum lík. Listin kraumaði innra með henni og undiraldan í listsköpun hennar var persónuleg, framúrstefnuleg og súrrealísk. Hún hét fullu nafni Ragnhildur Óskarsdóttir og var fædd í Reykjavík árið 1940. Róska hikaði hvergi í sköpunarferlinu og var óhrædd við að tjá sig um allt milli himins og jarðar. Hún lét verkin tala og tókst á við nýja og framúrstefnulega miðla á seinni hluta síðustu aldar. Persónulegt og súrrealískt myndmál hennar blandaðist andstöðu gegn abstraktlistinni og borgaralegum hugmyndum þess tíma. Konan var Rósku alla tíð hugleikin sem viðfangsefni og hún endurspeglaði eigin hugarheim og hugarheim kvenna í mörgum af verkum sínum. Hún var kona meðal karla í karllægu samfélagi myndlistar á sjöunda og áttunda áratugnum og hafði óbilandi trú á að konur væri jafnvígar körlum og þyrftu ekki að lúta karllægum lögmálum borgarastéttar þess tíma. Teikningar hennar bera vott um ofurnæman frásagnarstíl og einlægni, og baráttuplaköt, málverk, ljósmyndir, skúlptúrar, skissur og gjörningar sýna að hún lét sig allt varða, hvort er kom að pólitík eða persónulegum málefnum. Fyrir Rósku var lífið og listin samtvinnaður þráður.

Sýning á verkum eftir Rósku verður opnuð í Listasafni Árnesinga þann 5. júní næstkomandi. Þar gefur að líta valin verk frá ferli Rósku sem endurspegla sköpunarflæði, hæfileika og framúrstefnu Rósku, sem og persónulega, ögrandi og einlæga nálgun í lífi og listsköpun. Til stendur að sýna fjölbreyttan og einstakan myndheim Rósku og hvað einkenndi hana sem listamann, aktívista og manneskju, og varpa frekari ljósi á hversu mikilvæg listsköpun Rósku var og er í listsögulegu samhengi og hvaða áhrif hún hafði og hefur enn á einstaklinga, samfélag og samtíma.

Verk Rósku verða sýnd í samtali við verk eftir íslenska samtímalistamenn sem þykja ríma við einstaka næmni og nálgun Rósku og búa yfir álíka orku og eldmóð, framúrstefnu eða einlægni. Samtímalistamennirnir eiga það sameiginlegt að hafa í teikningu sinni eða nálgun fengist við hugarheim kvenna í ólíkum miðlum, miðlum sem Róska var óhrædd við að tileinka sér þó þeir hefðu verið framúrstefnulegir upp úr miðri síðustu öld.

Róska (1940-1996)

Ragnhildur Óskarsdóttir, Róska fæddist í Reykjavík árið 1940. Hún stundaði nám í Menntaskólanum í Reykjavík einn vetur en innritaðist í Myndlista- og handíðaskólann árið 1960 þar sem hún var við nám til 1962 og kynntist framúrstefnulegum hugmyndum og listamönnum. Hún flutti til Prag og stundaði listnám þar veturinn 1962-1963, bjó á listamannanýlendu París í eitt ár en flutti árið 1965 til Rómar á Ítalíu og stundaði nám í Accademia di Belle Arti di Roma til ársins 1967. Eftir námið var Róska virk í „avant garde“ myndlistarsenunni, hún gekk til liðs við SÚM hópinn, sýndi verk sín víða og tók virkan þátt í baráttu ungra aðgerðasinna í Reykjavík og í Róm.

Árið 1973 hóf Róska nám í kvikmyndagerð við Centro Experimentale Dell Arte Cinematografica og snéri sér að gerð kvikmynda og leikstjórn árið 1976 þegar hún lauk námi. Hún bjó í Róm til ársins 1990, flutti til Íslands í byrjun tíunda áratugsins, sinnti myndlist og sýndi ný verk. Róska hélt fjölda einkasýninga og tók þátt í samsýningum m.a. með SÚM hópnum á Íslandi, í Skandinavíu og í Evrópu. Ásamt því að sinna listsköpun og aktívisma kenndi Róska grafík, vann í ítölsku sjónvarpi og skrifaði greinar í blöð og tímarit á Íslandi og erlendis. Róska lést aðeins 56 ára að aldri á heimili sínu í miðbæ Reykjavíkur tíu dögum eftir að hafa framið gjörninginn Rok – Súrrealisminn lifir í Nýlistasafninu árið 1996.

Eftir Rósku liggja ótal verk unnin í ólíka miðla; bersögul málverk og pappírsverk, fagurlega hönnuð og útfærð baráttuplaköt, framúrstefnuleg silkiþrykk, ljósmyndaverk, gjörningar, skúlptúrar og einlægar skissubækur og teikningar sem endurspegla hugarheim konu sem neitaði að gangast við hefðbundnum hugmyndum um list og samfélag í karllægum heimi myndlistar á seinni hluta síðustu aldar. Árið 2000 var haldin yfirlitssýning á verkum Rósku í Nýlistasafni Íslands, sýningarstjóri var Hjálmar Sveinsson. Verk eftir Rósku má finna í safneign Nýlistasafnsins, Listasafns Íslands, Listasafni Reykjavíkur, Stedelijk listasafninu í Amsterdam, Nýlistasafninu í Madrid, í Bari og Reggio Emilia á Ítalíu og víðar.

Sýningarstjóri: Ástríður Magnúsdóttir

Ástríður Magnúsdóttir (f. 1972) lauk BA prófi í listasögu og listfræði frá Háskóla Íslands árið 2013 með kynjafræði sem aukafag og BA prófi í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2008. Áhugasvið hennar innan listasögu og listfræði eru samtímalistir og menning, ljósmyndasaga, femínísk listfræði og staða kvenna innan myndlistarheimsins. Ástríður hefur á síðustu árum sinnt kennslu, skrifum, meistaranámi í listfræði, sýningarstjórn og eigin rannsóknum, ásamt því að sitja í nefndum tengdum listum og menningu, þ.á.m. í ráðgefandi faghóp um styrkveitingar menningar, íþrótta og tómstundaráðs sem fulltrúi Bandalags Íslenskra listamanna og tvisvar í úhlutunarnefnd Starfslauna myndlistarmanna. Ástríður sinnir um þessar mundir kennslu við Listnámsbraut Myndlistaskólans í Reykjavík og í Ljósmyndaskólanum ásamt því að vinna að eigin rannsóknum og sýningarverkefnum.

Sýningin er styrkt af:

Safnaráði

Uppbyggingarsjóði Suðurlands

Undirbúningsstyrkur fékkst frá:

Myndlistarsjóði

Þakkir fyrir gott samstarf og lán á verkum fá:

Listasafn Íslands

Listasafn Reykjavíkur

Nýlistasafnið

Við viljum þakka þeim sem lána verk Rósku sem eru í einkaeigu.

Einnig viljum við þakka fjölskyldu Rósku.

 

 
 

Róska (1940-1996)

Síðasta hálmstráið / The Last Straw, 1969

Olía á striga / Oil on canvas

Listasafn Íslands / National Gallery of Iceland LÍ 4792

Ljósmynd/Photograph: ©Listasafn Íslands/Sigurður Gunnarsson

Hér er hægt að hlaða niður sýningarskránni sem pdf: