Sigurður Guðjónsson

Hljóðróf

Salur 1

14. september – 22. desember 2024

Hljóðróf

Rökkvað rými tekur á móti áhorfandanum og inn í því er samsettur strúktúr baðaður ljósi og hljóði sem er alltumlykjandi. Okkur er boðið upp á umbreytingu, upplifun af heild sem er á sífelldri hreyfingu en þó stöðug og sjálfri sér samkvæm. Verkið virkjar rými sýningarsalarins, gengur í samband við það og úr verður skynræn heild sem kallar fram meðvitund um líkamleika áhorfenda. Með því að ganga um rýmið og búa sér þannig til ný og ný sjónarhorn verða ekki aðeins til augnablik heldur líðandi sem kallar fram hugrenningar um tíma og takt. Þessi óræði hlutur sem liggur fyrir fótum okkar er bæði aðgengilegur og blekkjandi, augljós og falinn. Lögmál ljóss, efnis og skynjunar eru dregin fram í dagsljósið en um leið falla þau inn í og hverfa í upplifun af yfirborði og mynd.

Samband skynjunar okkar, yfirborðs hlutanna og massa þeirra og veru er í stöðugri endurskoðun ekki aðeins sem heimspekilegt viðfangsefni heldur sem viðfang reynslu og þekkingar sem hluti af daglegri upplifun. Við fáumst við spurningar um hvað það er sem er sýnilegt, eða skynjanlegt, sem hluta af því hvernig við tökum þátt í heiminum, hvernig við bregðumst við umhverfi okkar og hvaða gildi við gefum ólíkum þáttum í þeirri mynd sem við gerum okkur af heiminum. Sigurður Guðjónsson hefur í mörgum verka sinna búið til aðstæður þar sem áhorfandinn fær tækifæri til að nálgast þessar spurningar á nýjan hátt, fær að draga í efa hvernig veruleikinn birtist okkur og veruleika þess sem við skynjum. Heimar sem áður voru okkur huldir eru gerðir sýnilegir, og þau lögmál sem ráða birtingarmynd hlutanna eru dregin í efa, eða sett fram á nýjan hátt, sem krefst nýrrar túlkunar. Í Hljóðróf er varpað fram spurningum um yfirborð og mynd, um hlut, efni, hreyfingu og skynjun. Þetta er gert með því að bjóða áhorfandanum inn í fagurfræðilega upplifun sem virkjar ólík skilningarvit og sjónarhorn.

Myndin er aðeins ljós þegar hún fellur á yfirborðið, fyrst þá verður hún skynjanleg sem mynd og yfirborðið er aðeins sjáanlegt ef ljós fellur á það. Í Hljóðrófi gengur yfirborðið inn í myndina og myndin inn í yfirborðið. Þetta er ekki einföld sjónblekking heldur renna mynd og yfirborð saman og með því er dreginn fram óstöðugleiki túlkunar okkar á veruleikanum. Við erum minnt á hversu viðkvæmt og brothætt aðgengi okkar að heiminum er en jafnframt á hversu flókið og margþætt samband okkar er við heiminn.

I.

Hvað er það sem við skynjum, er það hluturinn sjálfur eða er skynjun okkar aðeins mynd sem hugur okkar setur saman (og getur því afbakað) og, ef svo er, hvernig tengist sú mynd heiminum eins og hann er? Þannig mætti með nokkurri einföldun setja fram eina af grunnspurningum heimspekinnar um skynjun okkar og veru í heiminum. Þrátt fyrir að hugmyndin um heiminn eins og hann er sé að mestu horfin úr orðræðu heimspekinnar, dregur það ekki úr vægi spurningarinnar. Hvernig stendur á því að við höfum oftast rétt fyrir okkur í mati á fjarlægð og stærð þeirra fyrirbæra sem birtast okkur í skynsviði okkar, að því er virðist án nokkurrar umhugsunar? Við treystum skilningarvitum okkar fyrir því að veita okkur upplýsingar um heiminn. Við treystum þeim svo vel að þegar þau bregðast okkur eða afvegaleiða er okkur brugðið og ósjálfrátt leiðréttum við myndina sem dregin er upp. Samband okkar við hlutina í kringum okkur er okkur svo mikilvægt að við verðum að geta treyst því, svo að segja skilyrðislaust. Það þarf því kannski ekki að koma á óvart að sambandinu hafi oft verið lýst sem nokkurs konar vélrænu ferli eða ferli þar sem orsakalögmál ræður ferðinni. Myndavélin og ljósmyndin eru oft þær myndlíkingar sem notaðar eru. Skynfæri okkar einfaldlega skrá það sem er fyrir framan þau – það sem ber fyrir skilningarvit okkar orsakar þá skynjun sem við höfum af umhverfi okkar. Hugurinn vinnur svo með þessi skilaboð og við búum okkur til upplifanir úr þeim. Þrátt fyrir að ná ágætlega utan um upplifun okkar af því hvernig skynfærin vinna þarf ekki mikið til að gera líkinguna óstöðuga; strá virðist brotna í vatnsborði.

Ein leið til að bregðast við vanda sem þessum er að útskýra samband hlutar og skynjunar á annan hátt en með orsök og afleiðingu eða vélrænum ferlum. Þegar George Berkeley setti fram hugmyndir sínar um skynjun sem tungumál eða táknmál guðs, var það þetta samband heims og skynjunar sem hann vildi varpa nýju ljósi á, og færa út úr vélrænni heimsmynd nýaldar. Hugmynd Berkeley var sú að þessu sambandi væri betur lýst á sambærilegan hátt og sambandi orðs og þess hlutar sem það vísar til. Við lærum að sjá (eða skynja) með því að læra tungumál sjónarinnar. Táknin sem við höfum fyrir hvern hlut í heiminum eru tilfallandi eða allavega ekki orsakabundin hlutnum en þau eru, rétt eins og orð og hugtök tungumálsins, gerð stöðug og áreiðanleg í gegnum notkun og þekkingu okkar á tungumálinu og þær reglur sem skilgreina virkni orða innan þess. Náttúran, umhverfið í kringum okkur, talar tungumál skynjunar sem við lærum með því að beita skynfærunum en sambandi skynjunar og hlutarins sem er skynjaður er best líkt við merkingarsamband orðs og viðfangs.[1] Allt hefur þannig merkingu í skynjun okkar en er jafnfram merkingarlaust um leið og það er svipt samhengi tungumálsins/skynjunarinnar sem það tilheyrir.

Í verki Sigurðar Guðjónssonar eru frumspekileg viðfangsefni sem þessi dregin upp á yfirborðið og í stað þess að vera viðfangsefni hugtakalegrar hugsunar eru þau viðfangsefni líkamlegrar skynjunar. Við fáum tækifæri til að sjá frumspeki skynjunarinnar. Myndin fellur á yfirborð og yfirborð hlutarins rennur saman við myndina í síkvikri upplifun. Við upplifum verkið ekki aðeins sem yfirborð heldur einnig sem síbreytilegt samband hljóðs, yfirborðs og myndar. Hér er nærtækt að huga að síbreytilegu yfirborði vatns sem er alltaf hið sama en aldrei það sama.

Hvað er það sem okkur er gert sýnilegt hér? Er sjálfsögð spurning þegar við fáumst við innihald myndar. Með því að spyrja á þennan hátt gerum við ráð fyrir því að myndin sé stöðug, að hún sé nokkurs konar hlutur sem heldur eiginleikum sínum í gegnum tíma og ólík samhengi. Hljóðróf krefur okkur um annars konar spurningar. Með því að leysa upp mörk myndar og efnis, myndar og hljóðs, veitir verkið okkur innsýn inn í annars konar heim þar sem síbreytilegt yfirboðið er stöðugt og hluturinn er aðeins til í krafti hljóðsins sem umlykur hann.

Skynjun sem tungumál, sem ferli sem aðeins verður innihaldsríkt í gegnum þekkingu okkar og reynslu, er einnig nærtæk líking. Tungumál (fyrir utan það að vísa til veruleika okkar og skýra hann) hefur form og tíma og er fellt í tiltekin mynstur og hætti. Myndin í verkinu er ekki stöðug heldur er hún tímabundið ferli með endurtekningum og uppbyggingu rétt eins og tungumál. Fagurfræði myndarinnar felst þannig í uppbyggingu hennar og tíma en einnig í sambandi hennar við hlutinn, sambandi við yfirborð, og í því verður til tækifæri til upplifunar sem er bæði af því sem við þekkjum og um leið tækifæri til að efast, til að finna fyrir annmörkum á þekkingu okkar, rétt eins og þegar við heyrum sjaldgæft orð, eða jafnvel orð úr ókunnu tungumáli. Þetta er bæði algjörlega hversdagslegt og framandi. Hér er freistandi að leita að sjónarhorni sem má skýra í krafti fyrri reynslu. Loftmynd af heimi á hreyfingu gæti til dæmis náð yfir hluta af þeirri upplifun sem verkið kallar á. Málmplatan sem við sjáum mynd af er gataplata sem felur í sér umskrift á tónum í efni og þessi löngu þagnaði miðill er hér bæði nokkurs konar endurlit undir nýjum formerkjum og nýtt viðfangsefni, ný leið til að eiga reynslu af hversdagslegum hlut.

Við erum orðin vön því (og tökum því jafnvel sem sjálfsögðum hlut) að tungumál sem og mynd sé hægt að smætta niður í stafrænt tvenndarkerfi. Tvenndarkerfi er ekki náttúrulegt tungumál og eins og við þekkjum úr hversdagslegum mistökum gervigreindar þegar hún missir af blæbrigðum myndar eða máls er tungumál og mynd alltaf reynslubundið að einhverjum hluta. Tungumálið sem Berkeley hafði í huga í líkingu sinni um skynjun var náttúrulegt tungumál sem hefur slípast og skýrst við að nuddast utan í heiminn í stöðugri notkun okkar og hefur jafnframt tekið á sig óskýrleika sem hæfir upplifun okkar af honum.

II.

Skynjun okkar á heiminum er eitt af því sem við reiðum okkur á til að skilja og skilgreina hvað það er sem sannarlega tilheyrir honum og myndin er ein af þeim aðferðum sem við höfum til að gera okkur það sýnilegt. Með tilkomu tækja eins og smásjár og sjónauka og með uppgötvun fyrirbæra eins og röntgengeisla og annarra ósýnilegra afla sem skera veruleika okkar hefur það verið viðfangsefni, ekki aðeins vísinda heldur ekki síður listarinnar, að skilgreina uppá nýtt hvað það er sem við meinum þegar við vísum til hluta sem skynjanlegra og hvaða aðferðir eru gagnlegar til að koma skynjanleika heimsins á framfæri. Árið 1913 lýsir Kandinsky því hvernig staðfesting nýrrar myndar eðlisfræðinnar af heiminum þar sem allt efni er tóm og atóm sé jafngildi þess að heimurinn missi sköpulag sitt, „allt varð sem óákvarðað, óstöðugt og óefniskennt. Ég hefði ekki orðið hissa ef steinn hefði leyst upp fyrir augum mér og orðið ósýnilegur.“[2] Skynfæri okkar eru ekki lengur fær um að færa okkur milliliðalaust heim sanninn um hvað það er sem þó er sannanlega fyrir framan þau. Eins og Sven Lutticken hefur rakið í greinum sínum „Shattered Matter, Transformed Forms: Notes on Nuclear Aesthetics“ (I og II) hefur efni og sýnileiki þess verið bæði pólitískt og vísindalegt viðfangsefni alla nýöld. Hinn skynjanlegi heimur hefur reynst óstöðugur og þess eðlis að ef horft er nógu lengi leysist hann upp í óskynjanleg öfl og lögmál. Áorkun einnar efniseindar á aðra og þau öfl sem halda saman atóminu er aðeins hægt að gera sýnileg í gegnum framsetningu, sem mynd, ekki af hlutunum eins og þeir eru heldur eins og þeir eru helst skiljanlegir okkur. Þessi samsláttur á þekkingu eða túlkun annars vegar og fyrirmynd hins vegar er vitanlega ekkert nýtt í myndlist en í samhengi tuttugustu aldar tekur hann á sig aukið mikilvægi eins og Kandinsky dregur skýrt fram í vangaveltum/spurningum sínum um hvernig hið sýnilega sé skylt heimunum sem birtast okkur í gegnum sífellt ný og ný sjónarhorn tækninnar. Og kannski verður jafnvel enn meira aðkallandi að spyrja sig að því hvernig framsetningarmáti hæfir þessum nýja heimi sem er alltaf samband þess sýnilega og þess sem okkur er falið.

Sigurður Guðjónsson hefur í mörgum verka sinna leitt áhorfandann inn í heima sem eru ósýnilegir nema í gegnum sjónarhorn tiltekinnar tækni. Hér má nefna verk eins og Perpetual Motion (2022) þar sem áhorfandinn ferðast í gegnum heim málmagna seguls og ljóss sem er aðgengilegur í gegnum aðdráttarlinsu myndavélarinnar eða verk eins og Fluorescent (2021) þar sem efnahvörf eða atburðarás flúorperu eru viðfang verksins en verkið er um leið hugleiðing um ljós og hluti, efni og yfirborð. Þessir hliðarheimar (eða undirheimar) taka á sig merkingu og innihald í gegnum upplifun okkar af verkunum og um leið draga þau fram spurningar um eðli þess að skynja, eðli þess að horfa. Takmarkanir skynjunar okkar eru heldur ekki langt undan og er þá bæði hægt að leiða hugann að annmörkum þekkingar okkar (við berum ekki kennsl á það sem fyrir ber eða berum röng kennsl á það) eða að takmörkum mögulegra framsetninga.

Hljóðróf er nýr heimur af þessu tagi. Hljóð og ljós myndarinnar ganga hér í samband við efni hlutheimsins og efniskennd verksins er bæði raunveruleg og byggir á framsetningu eða jafnvel blekkingu. Hljóð er hér bæði hlutur sem getur færst til í tíma, óbreyttur og atburður sem ekki verður verður endurtekinn; einstakt brot í tíma sem aðeins getur átt sér stað einu sinni og er bundið við efnislegar eigindir og hlustir hvers og eins. Atburður sem getur átt sér stað aftur og aftur og verið settur fram í nýju og nýju samhengi. Hluturinn sem liggur fyrir fótum okkar tekur á sig líf í sama tvíræða rými skynjunar og hugsunar. Taktur eða púls leiðir okkur áfram í sameiginlegri skynjun sjónar og heyrnar.

Jóhannes Dagsson.

Heimildir:

Berkeley, George. Works on Vision. The library of Liberal Arts. The Bobbs-Merrill Company. Indianapolis. 1963.

Lutticken, Sven. „Shattered Matter, Transformed Forms: Notes on Nuclear Aesthetics part 1“. e-flux journal, 94, 2018, bls. 1-11.

Lutticken, Sven. „Shattered Matter, Transformed Forms: Notes on Nuclear Aesthetics part 2“. e-flux journal, 96, 2018, bls. 1-14.

[1] Sjá t.d. Berkeley (1963).

[2] Kandinsky (1913), hér fengið úr Lutticken (2019).

—–

Sigurður Guðjónsson var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum 2022. Hann hlaut Íslensku myndlistarverðlaunin 2018 fyrir sýninguna Innljós, sem samanstóð af vídeóinnsetningum í Sankti Jósefsspítala í Hafnarfirði.

Verk hans hafa verið sýnd á fjölmörgum einka og samsýningum meðal annars í Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur, Scandinavia House, New York, BERG Contemporary, Reykjavík, Frankfurter Kunstverein, Þýskaland, Arario Gallery, Beijing, Liverpool Biennial, England, Tromsø Center for Contemporary Art, Noregur, og Hamburger Bahnhof, Berlin.

Styrktaraðilar:
BERG Contemporary, Safnaráð, Uppbyggingarsjóður Suðurlands, Myndlistarsjóður & Myndstef.