8. febrúar 2025
Sýningaropnun klukkan 15:00
Meðal guða og manna: íslenskir listamenn í Varanasi.
Einar Falur Ingólfsson
Eygló Harðadóttir
Guðjón Ketilsson
Margrét Blöndal
Sigurður Árni Sigurðsson
Sólveig Aðalsteinsdóttir
Sýningarstjóri: Pari Stave
Salir 1-2-3
Tími og rými að starfa í eru tveir grundvallarþættir skapandi vinnu. Fyrir listamenn sem beita sjónrænum miðlum er vinnustofan griðastaður, persónulegur vettvangur fyrir djúpa íhugun og ástundun. Þessi sýning er afrakstur verkefnis sem hverfist um spurninguna: Hvað gerist þegar listamenn starfa um hríð í vinnustofu víðs fjarri öryggi hins vanabundna hversdagslífs?
Á sýningunni Meðal guða og manna gefst innsýn í reynslu sex mótaðra og margreyndra íslenskra listamanna en verkin sem eru sýnd urðu til í tengslum við dvöl þeirra nýverið í gestavinnustofum Kriti Gallery og Anandvan Residency í Varanasi á Indlandi. Samtengdar vinnustofurnar eru á afgirtu svæði, umluktar gróskumiklum garði; þar eru rúmgóðar vinnustofur með svefnaðstöðu fyrir listamennina og sameiginlegt eldhús og borðstofa – sannkallaður griðastaður í sögufrægri borg með einhverja lengstu samfelldu búsetu manna. Vinnustofurnar eru í senn staður að starfa á og grunnbúðir fyrir leiðangra inn í marglaga heima Varanasi (sem einnig er þekkt sem Banaras), andlega miðstöð sem meðal hindúa er þekkt sem „bústaður guðanna“, með ótölulegum fjölda hofa og altara sem helguð eru ákafri tilbeiðslu. Varanasi er borg öfga og fjölskrúðgs mannlífs en jafnframt alvörugefinnar sorgar við líkbrennslurnar á tröppunum við hið helga Gangesfljót.
Ljósmyndarinn og rithöfundurinn Einar Falur Ingólfsson ferðaðist árið 1999 fyrstur listamannanna sex til Varanasi. Indverski ljósmyndarinn Dayanita Singh, kunningi hans, kynnti hann síðar fyrir hjónunum Navneet Raman og Petra Manefeld (sem eru höfðinglegir gestgjafarnir í Kriti Gallery og Anandvan Residency sem til var stofnað árið 2007), og Ajay Pandey, fræðimanninum fróða sem leiðir ásamt Raman listamennina sem starfa í vinnustofunum um borgina og veita þeir ríkulega innsýn í sögu hennar og menningu. Eftir að hafa dvalið og starfað nokkrum sinnum í vinnustofunum fékk Einar Falur þá hugmynd að fá nokkra reynda listamenn landa sína með sér til Varanasi, forvitinn að sjá hvernig verk kynnu að vera afrakstur dvalar þeirra í borginni helgu.
Vandfundin eru ólíkari lönd og menningarheimar en Ísland og Indland. Annarsvegar er Ísland, staðsett norður undir heimskautsbaug, fámennt, einangrað landfræði- og sögulega, og þjóðin sem byggir eyna er tiltölulega einsleit menningarlega. Indland, hinsvegar, er við mörk hitabeltisins, afar þéttbýlt, fornt, og byggir menningarlega á fjölda laga margbrotinnar sögu á vegamótum menningarlega ólíkra heima.
Íslensku listamennirnir sem héldu til Varanasi fetuðu í fótspor fjölmargra annarra listamanna sem hafa farið þangað í leit að áhrifum og upplifunum. Samt var tilgangurinn ekki að myndskreyta eða túlka það sem þau rákust á; þess í stað var ætlunin að leyfa því áreiti á skynfærin, sem óneitanlega á sér stað í ferð til Indlands, flæða um taugakerfið og heilann, og sjá hvaða áhrif það myndi hafa á sköpunarverk þeirra.
Sólveig Aðalsteinsdóttir
Þegar Sólveig hélt í fyrsta skipti til Indlands árið 2023, þá hafði hún þegar unnið að teikningum þar sem hún kannaði tjáningarríka möguleika einfaldra „kalligrafískra“ lína. Drjúgan hluta þess tíma þegar hún dvaldi í Kriti, kannaði Sólveig rangala hinnar fornu borgar og fylgdist af athygli með flæði hversdagslífsins; einnig skoðaði hún línulegt flæði hins mikla helga Gangesfljóts og bylgjulaga útlínur hinna helgu Gangatiri kúa, sem hún skissaði líka meðan á dvölinni stóð. Þegar Sólveig síðan snéri heim til Reykjavíkur kaus hún gróftrefjaðan hamp-pappír og India-blek til að skapa stóra teikningu sína í átta hlutum. Hún sótti námskeið í kínverskri kalligrafíu og þjálfaði sig í þeirri tækni, þar sem þykkum pensli er beitt við að móta breiðar, flæðandi línur. Saman mynda teikningarnar einskonar línu sjóndeildarhrings sem teygist milli arkanna. Seinna fór hún svo að hugleiða hvernig uppruni Gangesfljóts í jöklum Himalayafjalla kallaðist, á vissan hátt, á við íslensku jökulárnar. Í áhuga hennar á kúnum, sem eru sínálægar á Indlandi, var síðan önnur tenging; milli helginnar sem er á kúnum í trú hindúanna og svo kýrinnar Auðhumlu í norrænni goðafræði, en hún er nærandi uppspretta sköpunarverksins sem greint er frá í Snorra-Eddu. Auðhumla er heiti teikningaraðar Sólveigar. Skúlptúrarnir sem hún kallar Betula (Birki) eru í einskonar kontrapunkti við tvívíðar láréttar línuteikningarnar. Þeir eru mótaðir úr útskornum birkigreinum, festir á viðarsökkla, og viðkvæmnisleg form greinanna rísa lóðrétt upp eins og grannar reykjarsúlur.
Margrét H. Blöndal
Margrét ferðaðist í fyrsta skipti til Indlands í október 2024. Varanasi framkallaði fyrir henni hugmyndir um erkitýpur, ævafornar ímyndir, manngerðir eða aðstæður sem birtast okkur endurtekið á ólíkum stöðum og tímum. Í Varanasi fann hún fyrir eigin fortíð sem speglaðist í því sem hún sá í kringum sig. „Þetta var djúpsálarlegt ferðalag, ég ferðaðist í senn um hið innra og ytra. Óumræðanlega magnað og fagurt en hvorki auðvelt né auðmeltanlegt. Litróf lífsins afhjúpast fyrir augum þér berskjaldað, tært, hrátt og ómengað – sjálfu sér samkvæmt og um það virðist ríkja einhvers konar sátt.“ Málverkin á sýningunni voru unnin þennan mánuð sem Margrét dvaldi í vinnustofunni. Þegar hún málaði nýtti hún sér ljósmyndir sem hún hafði tekið sem kveikjur til að endurtengjast upplifuninni. „Verkin eru gerð meðan marglaga kenndir og umhverfisáhrif sóttu að, ýmist stakar eða ótal í einu; ákefð, hiti, viðkvæmni, helgi, áreiti, raki, fegurð, þröng, næring og bílflauturnar sem aldrei þögnuðu.“
Margrét tók með sér vatnsuppleysanlega olíuliti en átti í vandræðum með að tengjast þeim á sama tíma og hreyfanleika hennar voru skorður settar í framandi aðstæðum. Hún stífnaði því öll en fékk verkjastillandi ayurveda olíu til að bera á sig. Hún prófaði að blanda olíunni við litina og bera þá á pappírinn þar sem hún vann á gólfinu og þá … „vissi ég jafn vel og hægt er að vita að þarna var komið lykilefnið sem ekki eingöngu liðkaði mig heldur veitti mér einnig aðgang að litunum sem ég var að nota í fyrsta skipti.“
Eygló Harðardóttir
Eygló dvaldi fyrst í vinnustofu Kriti Gallery árið 2020 og hefur á undanförnum árum skapað og sýnt myndverk sem urðu til undir áhrifum af þeirri dvöl. Sem listamaður sækist hún eftir djúpstæðum tengingum við efnin sem hún notar og hefur lagt stund bæði á pappírsgerð og alkemíu litagerðar. Þegar hún hélt aftur í vinnustofudvöl við Kriti haustið 2024 þá tók hún með sér úrval hreinna litarefna – lapis lazuli, malakít, spanskgrænu, rauðan lit úr möðruplöntu, túrkís og indigó. Litina hafi Eygló fengið í indversku borginni Jaipur þar sem hún heimsótti líka vinnustofu þekkts listamans, S. Shakir Ali, sem veitti innsýn í hefðir við gerð indverskra smámynda (e. miniature paintings). „Verkin sem ég vann að hafa beina tilvísum í þessa ævafornu hefð hvað efnivið varðar. Ég notaði hefðbundna smámynda-pensla til að ná fram fínleika teikningarinnar með pensilstrokunum og málaði með sögulegum litarefnum, unnum meðal annars úr plöntum og hálfeðalsteinum.“
Málverkaröðin sem Eygló nefnir Raga – Tilbrigði í lit /Colours of Raga , varð til undir áhrifum af tónleikum með klassískri raga-tónlist sem voru haldnir kvöld eitt í höllinni við hlið vinnustofanna í Kriti en þar sátu tónlistarmenn og gestir þétt saman. Meðan á tónleikunum stóð dró Eygló upp fínlegar blýantsteikningar með ósjálfráðum hætti, en slíkar teikningar eru gerðar án þess að hafa augun á pappírnum. Orðið raga þýðir að lita eða litblær, og vísar til spunaþattarins í klassískri indverskri tónlist, sem er byggð á melódískum formum. Reynslan af teikningunni sem viðbragð við tónlistinni skapaði hringlaga formin sem eru grunnþáttur í bæði málverkum Eyglóar og skúlptúrnum Áhrif/Impact, en hann er mótaður úr þunnum koparplötum sem línur hafa verið hamraðar í.
Einar Falur Ingólfsson
Langtímum saman á ferli sínum sem ljósmyndari hefur Einar Falur unnið með hugmyndir um tíma, hvort sem um er að ræða stök verkefni þar sem hann hefur fetað í fótspor ljósmyndara og myndlistarmanna fyrri tíma til að sjá og skilja hvernig landslagið sem þeir fönguðu hefur breyst, eða þegar hann nýlega skrásetti veðrið daglega í heilt ár. „Í Varanasi byrjaði ég að hugsa um hvernig djúp og heillandi lög uppsafnaðra tíma mátti sjá svo víða, hvort sem um var að ræða byggingar sem hafa gegnum aldirnar verið byggðar hver ofan á aðra, í flagnandi málningu á húsveggjum eða í menningu hins daglega lífs.“ Í áranna rás hefur Einar Falur nú varið mörgum mánuðum í Varanasi og skráð um leið meðal annars flæði tímans í tveimur myndröðum. Annars vegar eru það „tímalínur“ sem settar eru saman af litljósmyndum sem teknar eru á stórformats myndavél og sýna sama sjónarhornið ár eftir ár og þá uppsafnaðar breytingar sem birtast í áferðum og litum staðanna og bygginga. Önnur sería eru vídeóverk kvikmynduð á völdum stöðum og sýnd í síendurtekinni hringrás eins og lifandi ljósmyndir af mannlífinu. „Í verkum mínum er ég líka sífellt í sjónrænu samtali við listmenn og ljósmyndara sem hafa starfað á Indlandi á undan mér og á margskonar hátt haft áhrif á það hvernig ég sé og horfi. Og verkin eru líka alltaf dagbók lífs míns, eins manns í flæði þeirra milljóna sem eiga leið þarna um.“
Guðjón Ketilsson
Heimsókn haustið 2023 í hinn forna garð í Sarnath, þar sem merkar rústir og minjar hafa verið grafnar upp, hafði mikil áhrif á Guðjón. Sarnath er í útjaðri Varanasi-borgar og er einn mesti helgistaður búddista en þar kenndi Gautama Búdda í fyrsta skipti samkvæmt Lalitastara sutra-ritunum. Garðurinn er meðal annars frægur fyrir margar útskornar áheita-stúpur. „Í þessum sívalningslaga steinformum, sem öll eru einstök og engin tvö eins, og eru á sinn hátt abstrakt myndir af Búdda, sá ég fyrir mér tengingar við viss eldri verka minna.“ Að mörgu leyti á svipaðan hátt og Guðjón hefur áður kannað arkitektúrísk og mannleg form, byrjaði hann í Kriti á röð blýantsteikninga á grófan pappír, þar sem hann leikur með hugmyndir um form stúpanna, án þess þó að líkja eftir einhverjum þeirra. Þegar hann hafði svo snúið heim til Íslands, þá leiddu þessar teikningar af sívalingslaga formum yfir í einstaka röð viðarskúlptúra sem Guðjón mótaði í rennibekk. Þeir eru alls 25 talsins, bornir á þá mismunandi saffran-litir og standa á stöplum. Saffran litirnir „birtust mér í raun hver sem ég fór um í Varanasi. Við að horfa til baka sé ég fyrir mér endalausar útgáfur af litnum. Þegar Indverjar tala um litinn saffran, þá lýsa þeir ekki endilega einum tilteknum lit af nákvæmni, heldur nær „saffran“ yfir ýmiskonar tóna og litbrigði, frá föl-rauðleit-gulum yfir í appelsínugult.“
Á sýningunni eru einnig tvö stór verk sett saman úr fjölda litríkra ljósmynda sem listamaðurinn tók á götum Varanasi. Þessi myndverk eru kompósisjónir unnar undir áhrifum af hinum formföstu og litríku indversku smámyndum (e. miniatures).
Sigurður Árni Sigurðsson
Í málverkum sínum kannar Sigurður Árni hvernig skugginn er notaður við að skapa tilfinningu fyrir fjarvídd og þrívídd á yfirborði strigans. Að vissu leyti er hann að ögra hugmyndinni um það hvað sé málverk, brýtur það niður í grunnþætti þar sem bakgrunnur eða striginn er sjálfur hluti af myndbyggingu litarins sem er í forgrunni. Á meðan hann dvaldi á Indlandi haustið 2023 beindust sjónir Sigurðar Árna iðulega að fólkinu sem mátti sjá út um allt á landinu, sem og samstillingum úr bæði daufum og ýktum litum. „Konurnar sem skáru grasið á akrinum voru klæddar fagurlega ofnu rauðu og himinbláu silki, í hróplegri andstöðu við fölt grasið. Garðyrkjumennirnir í almenningsgarðinum voru fagurlega prúðbúnir í appelsínugula jakka, eins og útsprungin sumarblóm, en betlarinn við dyrnar sást ekki svo vel því hann féll að leirlitaðri jörðinni.Það eru andstæður í öllu og um leið einhver einkennilegur ómöguleiki sem slær að manni. Stöðugt er maður minntur á þessar andstæður; ríkidæmi og örbirgð, gróðursæld og auðn, mikilfenglegheit andans í handverki og hönnun gegn aumustu hvötum og fátækustu mynd mannlegrar stöðu, líf og dauði.“
Hinar gríðarmiklu andstæður sem blasa svo víða við á Indlandi fengu Sigurð Árna til að nálgast strigann með nýjum hætti, skilja í fyrsta skipti jaðrana eftir ósnerta (án málaðs grunns), til að skapa einskonar ramma innan marka jaðars verksins. Við það er sem málaðir ferhyrndir fletirnir með götum á, virðist fljóta á berum ósnertum striganum. „Það sem er nýtt og áhugavert fyrir mig í þessum verkum er nekt hugmyndarinnar þegar striginn myndar ramma hringinn í kringum flöt málverksins. Það er búin til ákveðin vídd og rými myndað sem afhjúpar og brýtur niður á sama tíma. Eitthvað verður til en það sem býr það til eyðir því á sama tíma. Byggir upp og brýtur niður.“
8. febrúar 2025
Sýningaropnun klukkan 15:00
Bær
Markus Baenziger (US)
Barbara Ellmann (US)
Katia Klose (DE)
Jóna Þorvaldsdóttir (IS)
Debbie Westergaard Tuepah (CA)
Mike Vos (US)
Sýningarstjóri Daría Sól Andrews
Salur 4
Á sýningunni BÆR, gefur að líta verk alþjóðlegra listamanna sem komu saman árið 2022 í vinnustaðardvöl á Listasetrinu Bæ á Höfðaströnd í Skagafirði. Listamennirnir eru þau Barbara Ellmann, Jóna Þorvaldsdóttir, Mike Vos, Katia Klose, Debbie Westergaard Tuepah og Markus Baenziger. Sýningin BÆR, í Listasafni Árnesinga, er eins konar áframhaldandi könnun á þessari upprunalegu vinnustaðardvöl þeirra frá árinu 2022, þar sem varanleg tengsl og ný áhrif mynduðust í verkum hvers og eins listamanns.
Listamennirnir dvöldu saman í tvær vikur á Bæ þar sem ákveðin heild myndaðist á milli þessara ólíku einstaklinga og verka þeirra sem eru eins konar söguþráður og tenging við listasetrið og umhverfi þess á Höfðaströnd. Afraksturinn eru mjög ólík en á sama tíma sam tvinnuð listaverk um einstaka upplifun hvers listamanns af náttúru, menningu og stað.
Ári seinna héldu þau veglega sýningu á Bæ með hluta af þeim verkum sem urðu til á meðan á dvöl þeirra stóð á Bær. Listasýningin BÆR, sem nú verður sett upp í Listasafni Árnesinga, sýnir blöndu af þeim verkum sem voru á fyrri sýningu ásamt nýjum verkum sem listamennirnir hafa þróað með sér út frá dvöl þeirra á Bæ árið 2022. Nýju verkin á þessari sýningu urðu til út frá upplifun þeirra og áhrifum sem þau urðu fyrir á staðnum á meðan á vinnustaðardvöl þeirra stóð.
Hvað tengir saman sex ólíka listamenn, af ólíkum uppruna, sem koma saman í vinnustaðardvöl í sveit í Skagafirði? Það er augljóst að íslenska náttúran hafði mikil áhrif á þau. Hvernig getur þessi reynsla endurómað í listferli þeirra þegar þau snúa aftur í sinn hversdagsleika sinn?
Listamennirnir vinna með fjölbreytta miðla, allt frá ljósmyndun, skúlptúr, innsetningum og málverkum. Í verkum þeirra er sterk tenging við náttúru Íslands, hvort sem um er að ræða ljósmyndirun af íslensku landslagi og formum eða innsetningar og skúlptúra unninum úr náttúrulegu íslensku efni. Hvaða sameiginlega grunn getum við séð í verkum þessara sex listamanna þrátt fyrir ólík efnisstök?
Mike Vos myndar til dæmis borgarlandslag og yfirgefnar byggingar og leggur þær saman yfir senur af náttúrufegurð.
Í innsetningsverkinu hennar Debbie Westergaard Tuepah vinnur hún m.a. með umhverfisvænt plast frá Hveragerði, þar sem Listasafn Árnesinga er til húsa, og fundin og manngerð hvalbein. Jóna Þorvaldsdóttir vísar til íslensku hjátrúarinnar í tilraunakenndri analog ljósmyndun með áherslu á einstök náttúruleg smáatriði úr landslaginu á Höfðaströnd. Verk Katia Klose rannsakar þang frá svæðinu í lifandi og súrrealískri ljósmyndaseríu. Markus Baezinger safnar fundnu efni frá Höfðaströnd, bæði náttúrulegu og manngerðu, og skapar úr þeim forvitnileg skúlptúrverk. Í töfrandi málverkum Barböru Ellmann og abstrakt- saumuðu myndverkum hennar finnum við sterkt fyrir hreyfingu íslensku náttúrunnar.
Markus Baenziger er listamaður frá Sviss sem býr og starfar í Brooklyn, New York. Hann hefur haldið sýningar víða um Bandaríkin og alþjóðlega. Hann hefur hlotið verðlaun John Simon Guggenheim minningarsjóðsins og verk hans sýnd á einkasýningum í Edward Thorp-galleríinu í New York, List-galleríinu í Swarthmore-skóla, Cantor Fitzgerald-galleríinu í Haverford-skóla, Tanya Bonakdar-galleríinu í New York, og fjölda samsýninga, þar á meðal í Rose-listasafninu, Walker-listamiðstöðinni, Walton-listamiðstöðinni og Listagalleríi Yale-háskóla. Verk hans hafa hlotið mikla umfjöllun og þau má finna í safni Walker-listamiðstöðvarinnar í Minnesota og fjölda einkasafna.
Fyrstu viðbrögð mín við stórkostlegu landslaginu í kringum Bæ voru einfaldlega að fara í gönguferð og drekka það í mig. Þannig rakst ég á alls konar plastbrot, hluta af fiskinetum og annað rusl sem hafði rekið á fjörurnar.
Ég safnaði þessu, auk annars efnis úr náttúrunni og bjó til röð af litlum skúlptúrum. Þeir eru innblásnir af skærlitu reipinu sem ég fann hálfsokkið í jörðina og flækt saman við þangið, eða litlu plastbrotunum innan um steinvölurnar á ströndinni. Fyrir mér endurspegla þessi verk skurðpunkta náttúrunnar og hins manngerða heims. Þau eru samræða á milli fagurs náttúrulegs umhverfis okkar og ágengrar nærveru okkar í náttúrunni, sem stöðugt þarf að taka vð áþreifanlegum merkjum um veru okkar þar.
www.markusbaenziger.com
Barbara Ellmann býr og starfar í New York. Hún hefur í fjörutíu ár sýnt verk á sýningarstöðum á borð við Katonah-listasafnið, Parrish-listasafnið, Montclair-listasafnið og Haslla Art World-safnið. Hún hefur notið listamannadvalar í Yaddo, Hermitage-listamannaathvarfinu, Haslla Art World-safninu og Listasetrinu Bæ. Hún hefur líka unnið opinber verk fyrir MTA (lestarkerfi New York), Summit í New Jersey og bókasafnið í Queens.
Verk mín byggjast á athugunum og hugviti og skrásetja minningar frá stöðum, þau stilla þekkjanlegum myndum upp við hlið hreinna abstraktmynda í sömu margþættu innsetningunni. Þessi röð verka undirstrikar náttúrulegt landslagið, með áherslu á hvernig vatn mótar ekki aðeins landið heldur einnig félagslega, efnahagslega og andlega upplifun okkar. Á Íslandi kynntist ég stað þar sem náttúran er í öndvegi á einhvern hátt sem virðist í senn lifandi og ævaforn, spennandi og skelfilegur kraftur. Tilfinning fyrir jarðfræðilegum tíma er innbyggð í landslagið. Snjórinn sem hefur pressast í ís gæti hafa fallið fyrir þúsund árum en á sama tíma gæti eldgos spýtt kviku upp úr jörðinni og gjörbreytt ásýnd landsins. Mín eigin skynjun á jörðinni hafði fram að því verið að hún væri einhvers konar hlutlaus fasti, en hér virkaði kraftur náttúrunnar eins og umsnúningur á tímanum, fortíð og nútíð runnu saman, stundaglasinu snúið við, og sláandi áminning um gagnkvæm tengsl.
www.barbaraellmann.com
Katia Klose fæddist í austurhluta Berlínar og býr í Leipzig. Hún lærði grafíska hönnun í Weißensee-listaskólanum í Berlín, ljósmyndun í Listaháskólanum í Leipzig og myndvinnslu í Ostkreuzschule í Berlín. Hún hefur notið listamannadvalar á ýmsum stöðum í Frakklandi, Þýskalandi og á Íslandi og fengið styrki í Þýskalandi, Ástralíu og Kanada. Hún hefur sýnt verk sín víða í Þýskalandi, Evrópu og út um heim.
Ljósmyndaverk Kötiu Klose kanna skynræna og ljóðræna þætti raunveruleikans. Náttúruleg form eru endurreist og endurskoðuð undir linsu ljósmyndarans. Með því að skrásetja umhverfið á þennan hátt afhjúpa myndirnar huldar tengingar á milli mannlegrar tilveru og náttúrunnar. Í myndaröðinni Þang finnur hún þang í svartri sandfjörunni við Bæ og raðar því þannig að það virðist óraunverulegt, súrrealískt. Myndirnar í seríunni Umsnúið líta út eins og negatífur í gráum, bláum og rauðbrúnum tónum og virka sem nokkurs konar aftenging við náttúruna. Fjöllin eru líkt og af öðrum heimi, hljóðlaus og töfrum gædd.
www.katiaklose.com
Jóna Þorvaldsdóttir er ljósmyndari í Reykjavík sem vinnur eingöngu með analog ljósmyndun og hefðbundnar aðferðir í myrkraherbergi sínu. Verk Jónu eru undir miklum áhrifum frá íslenskum þjóðsögum þar sem huldar verur eru á sveimi, áfjáðar í að sýna sig og hræra í ímyndunarafli okkar. Þessi áhugi á hinu óséða endurspeglast fallega í mjúkum, draumkenndum myndum Jónu. Með því að helga sig svarthvítri analog ljósmyndun tekst henni að skapa myndir sem vekja upp hughrif tímaleysis og íhugunar.
Myndir Jónu ná oft út fyrir helberan raunveruleikann, hún leitast við að sýna einstök sjónarhorn sem ögra viðteknum hugmyndum. Það krefst mikillar leikni að nota hefðbundnar aðferðir á borð við palladíum, brómolíu og silfurgelatín. Hið helga rými í myrkraherberginu er lykilþáttur sköpunarferlisins, þar sökkvir hún sér í þá vinnu að skapa áþreifanlegar myndir úr filmunum. Þar gerast töfrarnir, þar finna takmarkalaust ímyndunaraflið og slembilukka sína tjáningu.
www.jonaphotoart.is
Debbie Westergaard Tuepah er kanadísk listakona sem vinnur mest með skúlptúr. Hún hefur sýnt um víða veröld og hlotið fjölda verðlauna. Meðal sýningarstaða má nefna Surrey-listagalleríið, Reach-galleríið, Listasafnið í Vancouver og Bellevue Washington skúlptúrtvíæringinn.
Á randi um Bæ gafst mér rými til að velta fyrir mér fallvaltleika heimsins, safna alls kyns mulningi og rannsaka skaðleg áhrif plastefna á lifandi verur. Fundið plastefni sýnir merki um að brotna niður í örplastagnir sem finnast í vatni, setlögum, lofti, regni og ís, auk líkama fólks og annarra dýrategunda. Þegar þessu er skeytt saman við fundna hryggjarliði úr hvölum og önnur dýrabein sjást tengsl plasts og lífs greinilega í verkum mínum. Í Tender Rituals VI voma þrívíddarprentaðir hvalhryggjarliðir yfir dökkum steinvölum, en efnið er ekki ljóst. Bein sem virðast úr plasti eru lífræn og niðurbrjótanleg en steinvölurnar eru í raun og veru endurunnið plast, ætlað til endurvinnslu: hvort tveggja eru vongóð efni frá framsýnum fyrirtækjum. Hvalbeinin og sjúskuð flotholtin í Tender Rituals IV tengja verkið við úrgang frá fiskveiðum, eins og t.d. net, og Tender Rituals VII sýnir gamalt flotholt umlukið dýrabeini. Bæði verkin fela í sér samband plasts og lifandi vera.
www.debbietuepah.com
Steinvölur í Tender Rituals VI fengust góðfúslega hjá Pure North Recycling í Hveragerði.
Mike Vos er ljósmyndari, listamaður og tónlistarmaður frá Portland í Oregon. Hann leitar innblásturs í ýmsum bókmenntastefnum og -þemum, og notar hefðbundnar og tilraunakenndar aðferðir 4×5 ljósmyndatækni, fjölrása myndbanda, vettvangsupptaka og hljóðfæri til að skapa flóknar frásagnir um nauðsyn þess að varðveita ósnert rými. Vos reynir stöðugt á mörk ljósmyndunarinnar, analog-myndbanda og hljóðs, og býr til alltumlykjandi heim sem dregur áhorfandann inn í súrrealíska framsetningu raunverulegra staða. Hann hefur sýnt verk sín og sótt listamannadvöl víða í Bandaríkjunum, í Mexíkó, Kanada og á Íslandi. Árið 2024 fékk hann styrk Sitka-miðstöðvar lista og vistfræði í Oregon og gaf út fyrstu bók sína „Somewhere in Another Place“ hjá Buckman Publishing.
www.mikevos.com
Sýningarstjóri: Daría Sól Andrews.