
Landið með fránum augum Ásgríms
Leiðsögn um sýninguna Hornsteinn
1. apríl 2023 kl. 14:00
Laugardaginn 1. apríl kl.14:00 mun Rakel Pétursdóttir, safnafræðingur verða með leiðsögn um afmarkaðan hluta sýningarinnar Hornsteinn í Listasafni Árnesinga, Hveragerði. Fjallað verður sérstaklega um verk Ásgríms Jónssonar á sýningunni í tenglum við verkefnið Ásgrímsleiðin, þar sem boðið verður upp á skipulegar ferðir á slóðir Ásgríms í Árnessýslu. Samstarfsaðilar eru: Byggðasafn Árnessýslu, Húsið á Eyrarbakka og Listasafn Íslands/Safn Ásgríms Jónssonar. Viðkoma verður á eftirfarandi stöðum auk Suðurkots í Rútstaðahverfi, húsatóftir æskuheimilis listamannsins.
Í dag er Rakel sjálfstætt starfandi sérfræðingur en um 35 ár gegndi hún stöðu sérfræðings og deildarstjóra fræðsludeildar og síðar rannsókna og sérsafna við Listasafn Íslands. Rakel mun fjalla um mótunarár og feril Ásgríms Jónssonar og áhrif verka hans í tengslum við þjóðernisvakningu og sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á fyrri hluta tuttugustu aldar.
Sýningin Hornsteinn er styrkt af Safnaráði og Uppbyggingarsjóði Suðurlands.

Ásgrímsleiðin
Leiðsögn um sýninguna Hornsteinn
22. apríl 2023 kl. 14:00
Ásgrímsleiðin er samstarfsverkefni Byggðasafns Árnesinga, Listasafns Árnesinga og Listasafns Íslands. Ásgrímur var fæddur og uppalinn í Flóanum og hafði umhverfi bernskuheimilisins sterk áhrif á hann og listsköpun hans. Ásgrímur var vikapiltur í Húsinu á Eyrarbakka um tíma og þar fékk hann sína fyrstu vatnsliti. Rætur Listasafns Árnesinga má rekja til gjafar Bjarnveigar Bjarnadóttur, frænku Ásgríms, og tveggja sona hennar sem færðu Árnesingum sjötíu listaverk eftir helstu listamenn þess tíma. Nítján þessara verka sem Bjarnveig og synir hennar gáfu, eru eftir Ásgrím Jónsson. Ásgrímur ánafnaði Listasafni Íslands verk sín og heimili, Hús Ásgríms er opið almenningi.
Ásgrímsleiðin er í raun margþætt. Upphaf leiðarinnar getur verið í Hveragerði, á Eyrarbakka eða í Reykjavík. Gestir leiðarinnar geta valið hvar þeir byrja og henni má jafnvel skipta á tvo daga. Leiðin samanstendur af listasýningunni Hornsteini á Listasafni Árnesinga í Hveragerði, sýningunni Drengurinn, fjöllin og Húsið á Byggðasafni Árnesinga á Eyrarbakka, þaðan liggur leiðin meðfram ströndinni í austurátt í Gegnum Stokkseyri og upp Gaulverjabæjarveginn. Ásgrímur hvílir í Gaulverjabæjarkirkjugarði, þar er hægt að stoppa og ganga að leiðinu. Þegar haldið er áfram upp veginn þá sést fjallahringurinn vel sem fóstraði sveininn Ásgrím. Frá veginum er hægt að horfa í átt að bænum (eða bæjarstæðinu) sem er nú löngu horfinn en klettarnir sem Ásgrímur taldi vera álfakirkju sjást greinilega. Hús Ásgríms á Bergstaðastræti 74 er varðveitt af Listasafni Íslands og þar er í dag sýning á heimili hans og verkum. Upplagt er að heimsækja Hús Ásgríms áður en Ásgrímsleiðin er farinn eða í kjölfar þess.
Verkefnið er styrkt af Safnaráði og Uppbyggingarsjóði Suðurlands.

Listasagan okkar
Leiðsögn um sýninguna Hornsteinn
30. apríl 2023 kl. 14:00
Halldór Björn Runólfsson listfræðingur mun leiða gesti í gegnum sýninguna Hornsteinn með listasöguna að leiðarljósi.
Halldór Björn er með Doktorspróf í listfræði frá Parísarháskóla (Université Paris 1 – Panthéon-Sorbonne) og er fyrrverandi safnstjóri Listasafns Íslands.
Sýningin Hornsteinn er styrkt af Safnaráði og Uppbyggingarsjóði Suðurlands.

Bjarnveig Bjarnadóttir
Sögustund með Vilhjálmi Bjarnasyni
14. maí 2023 kl. 14:00
Vilhjálmur Bjarnason fyrrverandi þingmaður og núverandi formaður Safnaráðs mun segja gestum safnsins frá hinni merku frú Bjarnveigu Bjarnadóttur.
Sýningin Hornsteinn er styrkt af Safnaráði og Uppbyggingarsjóði Suðurlands.

Í Ásgrímssafni
Helgi Gíslason segir frá minningum sínum í Ásgrímssafni.
4. júní 2023 kl. 14:00
Myndlistarmaðurinn Helgi Gíslason rifjar upp minningar sínar þegar að hann var að byrja sinn feril sem myndlistarmaður dvaldi hann mörgum stundum í Ásgrímssafni með Bjarnveigu Bjarnadóttur.
Mynd af Helga fengin héðan: https://listasafnreykjavikur.is/en/events/helgi-gislason-where-boundaries-lie
Sýningin Hornsteinn er styrkt af Safnaráði og Uppbyggingarsjóði Suðurlands.

Þar sem landið hefst
Leiðsögn um sýninguna Hornsteinn
25. júní 2023 kl. 14:00
Sunnudaginn 25. júní kl. 14:00 mun Rakel Pétursdóttir, safnafræðingur verða með leiðsögn um sýninguna Hornsteinn í Listasafni Árnesinga.
Fjallað verður um sýninguna út frá þróun íslenskrar listasögu í ljósi samtals yngri og eldri verka.
Í dag er Rakel sjálfstætt starfandi sérfræðingur en um 35 ár gegndi hún stöðu sérfræðings og deildarstjóra fræðsludeildar og síðar rannsókna og sérsafna við Listasafn Íslands. Rakel mun fjalla um mótunarár og feril Ásgríms Jónssonar og áhrif verka hans í tengslum við þjóðernisvakningu og sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á fyrri hluta tuttugustu aldar.
Sýningin Hornsteinn er styrkt af Safnaráði og Uppbyggingarsjóði Suðurlands.

Hildur Hákonardóttir
Leiðsögn um safneignina og sýninguna Hornsteinn.
25. júní 2023 kl. 15:00
Myndlistarkonan Hildur Hákonardóttir mun leiða gesti í gegnum sýninguna Hornsteinn og ræða sögu safnsins og tíma hennar sem forstöðukonu safnsins.
Mynd af Hildi fengin héðan:
https://skald.is/vidtol/17-eins-og-huldukonur-i-sogu-thjodarinnar-vidtal-vid-huldu-hakonardottur
Sýningin Hornsteinn er styrkt af Safnaráði og Uppbyggingarsjóði Suðurlands.

Opnun á sýningunni Kosmos Kaos
Ragnheiður Jónsdóttir
2. september 2023 kl. 15:00
Ragnheiður verður 90 ára í júlí 2023 og til að halda upp á það verður opnuð einkasýning í Listasafni Árnesinga í sölum 1-2 og 3. Sýningarstjóri er Daría Sól.
Ragnheiður hélt sína fyrstu einkasýningu árið 1968 og hefur frá þeim tíma unnið óslitið að myndlist til dagsins í dag. Þráðurinn í verkum Ragnheiðar er sjálfblekkingin – blindnin – græðgin – einsemdin – andvaraleysið – umhverfið – heimurinn okkar. Ragnheiður segir að myndlist sé í hennar huga samtal listamannsins og áhorfandans. Að tilganginum sé náð þegar að henni tekst að rumska við áhorfandanum.
Ragnheiður Jónsdóttir er Árnesingur í báðar ættir. Móðir hennar Sigurbjörg var dóttir Ingvars Hannessonar bónda að Skipum Stokkseyrarhreppi og fyrri eiginkonu hans Vilborgar Jónsdóttur frá Sandlækjarkoti Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Ingvar bóndi á Skipum og okkar frábæri listamaður Ásgrímur Jónsson listmálari voru systrasynir. Mæður þeirra voru systurnar Sigurbjörg og Guðlaug frá Vantsholti í Flóa. Faðir Ragnheiðar var Benedikt sonur Guðjóns Jónssonar bónda frá Seli og eiginkonu hans Kristjönu Jónsdóttur frá Grímsfjósum Stokkseyri. Þau bjuggu að Leiðólfsstöðum Stokkseyrarhreppi
Sýningarstjóri er Daría Sól.
Sýningin er styrkt af Safnaráði og Uppbyggingarsjóði Suðurlands.

Opnun á sýningunni Íran / Ísland
Jakob Veigar Sigurðsson
2. september 2023 kl. 15:00
Jakob Veigar Sigurðsson er myndlistarmaður búsettur í Vín en er frá Hveragerði. Það er sönn ánægja að sýna verk hans í hans heimabæ. Sýningin snýst um samband hans við Íran en hann hefur dvalið þar ótal sinnum og hefur það haft mikil áhrif á sköpunarkraft hans.
Sýningin er unnin í samstarfi við Shanay Artemis Hubmann og fleiri aðila búsetta í Íran.
Jakob Veigar hefur fengið styrk frá Myndlistarsjóði og Myndstef vegna sýningarinnar.