
Opnun á sýningunni Hornsteinn
Afmælissýning Listasafns Árnesinga.
11. febrúar 2023 kl. 15:00
Verið velkomin á opnun sýningarinnar Hornsteinn þar sem margar af perlum safneignar verða til sýnis, sumar í fyrsta sinn þar sem að safninu berst reglulega gjafir.
Safnið býr yfir einstöku samansafni um það bil 550 listaverka, allt frá merkustu meisturum íslenskrar myndlistar til atgervisgróskunnar í sveitunum í kring. Það var stofnað árið 1963 og er þar með fyrsta listasafnið á Íslandi sem tók til starfa utan höfuðborgarinnar. Því verður með réttu haldið fram að Bjarnveig Bjarnadóttir og synir hennar Loftur og Bjarni Magnús hafi lagt hornsteininn að Listasafni Árnesinga með rausnarlegri gjöf listaverka úr sinni eigu til Árnessýslu árið 1963.
Sýningin er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurlands.

Opnun á sýningunni Kosmos Kaos
Ragnheiður Jónsdóttir
2. september 2023 kl. 15:00
Ragnheiður verður 90 ára í júlí 2023 og til að halda upp á það verður opnuð einkasýning í Listasafni Árnesinga í sölum 1-2 og 3. Sýningarstjóri er Daría Sól.
Ragnheiður hélt sína fyrstu einkasýningu árið 1968 og hefur frá þeim tíma unnið óslitið að myndlist til dagsins í dag. Þráðurinn í verkum Ragnheiðar er sjálfblekkingin – blindnin – græðgin – einsemdin – andvaraleysið – umhverfið – heimurinn okkar. Ragnheiður segir að myndlist sé í hennar huga samtal listamannsins og áhorfandans. Að tilganginum sé náð þegar að henni tekst að rumska við áhorfandanum.
Ragnheiður Jónsdóttir er Árnesingur í báðar ættir. Móðir hennar Sigurbjörg var dóttir Ingvars Hannessonar bónda að Skipum Stokkseyrarhreppi og fyrri eiginkonu hans Vilborgar Jónsdóttur frá Sandlækjarkoti Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Ingvar bóndi á Skipum og okkar frábæri listamaður Ásgrímur Jónsson listmálari voru systrasynir. Mæður þeirra voru systurnar Sigurbjörg og Guðlaug frá Vantsholti í Flóa. Faðir Ragnheiðar var Benedikt sonur Guðjóns Jónssonar bónda frá Seli og eiginkonu hans Kristjönu Jónsdóttur frá Grímsfjósum Stokkseyri. Þau bjuggu að Leiðólfsstöðum Stokkseyrarhreppi
Sýningarstjóri er Daría Sól.

Opnun á sýningunni Íran / Ísland
Jakob Veigar Sigurðsson
2. september 2023 kl. 15:00
Jakob Veigar Sigurðsson er myndlistarmaður búsettur í Vín en er frá Hveragerði. Það er sönn ánægja að sýna verk hans í hans heimabæ. Sýningin snýst um samband hans við Íran en hann hefur dvalið þar ótal sinnum og hefur það haft mikil áhrif á sköpunarkraft hans.
Sýningin er unnin í samstarfi við Shanay Artemis Hubmann og fleiri aðila búsetta í Íran.