14. september 2024
15:00
Sýningaopnanir
Salur 1 – Hljóðróf – Sigurður Guðjónsson
Salur 2 – Millibil – Þórdís Jóhannesdóttir
Salur 3 – samsýning: Lífrænar Hringrásir.
Anna Líndal (IS), Elísabet Jökulsdóttir & Matthías Rúnar Sigurðsson, (IS), Freyja Þórsdóttir (IS), Heather Barnett (UK), Herwig Turk (AT), Ilana Halperin (UK), Jennifer Helia DeFelice (US/CZ), Magnea Magnúsdóttir (IS) Patrick Bergeron (CA), Pétur Thomsen (IS), Skade Henriksen (NO), Þorgerður Ólafsdóttir (IS).
Salur 4 – Volvox
Thomasine Giesecke með Jean-Marc Chomaz, Bruno Palpant og hljóðheimur eftir Tom Georgel. (FR/SE)
Salur 4 – Hamskipti – Við rætur eldfjalla, vídeó eftir Pascale Chau-Huu, Thomasine Giesecke og Tom Georgel.
VídeóHorn – Algrímslygi | Sýningarstjóri Nikos Podias
(image: Heather Barnett (UK))
15. september 2024
9:00
Listamannaspjall og ljóðlestur
Jennifer Helia DeFelice, Heather Barnett tala um verk sín og Freyja Þórsdóttir les ljóð.
Boðið verður upp á morgunverð, egg soðin í hveragarðinum, rúgbrauð bakað í garðinum og kaffi í boði Listasafns Árnesinga.
Viðburður í samstarfi við Hveragarðinn í Hveragerði.
Listgjörningur með Elísabetu Jökulsdóttur
15. september 2024
kl. 11:00
Elísabet mun vera með listgjörning við verk sitt Þetta líður hjá, við Varmá.
Listaverkið er 12 tonna steinn úr grágrýti, fenginn úr Núpafjalli. Elísabet lét flytja steininn að bakka árinnar en myndhöggvarinn Matthías Rúnar Sigurðsson hjó sæti í hann. „Þetta er stóll sem stendur við Varmá og þú getur sest í hann ef þér líður illa, þá líður það hjá eins og áin“. segir Elísabet.
„Verkið fjallar um vináttusamband okkar og náttúrunnar. Og hvað náttúran vill segja okkur á viðkvæmum stundum. Og að okkur er óhætt að lifa með tilfinningum okkar”.
Verkið er tileinkað unglingum.
Elísabet lauk stúdentsprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík árið 1987. Að því loknu stundaði hún nám í kvikmyndahandritsgerð í höfundasmiðju Leikfélags Reykjavíkur og lauk BA-prófi í sviðslistum frá Listaháskóla Íslands árið 2008.
Elísabet hefur verið blaðamaður, baráttukona fyrir umhverfisvernd og forsetaframbjóðandi, og er þá fátt eitt talið. Hún er margverðlaunaður rithöfundur sem skrifar ljóð, smásögur, örsögur, skáldsögur og leikrit, og hefur verið tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.
Samtal
15. september 2024
frá 13 – 18
Sunnudagur, 15. september frá 13 – 18 í Listasafni Árnesinga og nágrenni safnsins.
Samtal um Lífrænar Hringrásir er eins dags viðburður sem sameinar alþjóðlega fræðimenn, listamenn og vísindamenn sem deila áhuga sínum á náttúrunni og leitast við að varpa ljósi á gildi umhverfismiðaðra starfshátta með því að dýpka þekkingu okkar og skilning á náttúrunni.
Gestafyrirlesarar kynna sitt framtak sem þátttakendur í þverfaglegu samtali og rannsókn sem miðar að því að umbylta því hvernig við skynjum og komum fram við landslagið sem við búum við. Þannig miðla þeir djúpum skilningi á náttúrunni með rætur í nákvæmri rannsóknarvinnu sem og beinni reynslu.
Samtalið fer fram í samhengi við sýninguna Lífrænar hringrásir og býður upp á einstakan vettvang fyrir óhefðbundnar og framsæknar vangaveltur og nálganir innan vistfræði og lista, greina sem skarast á. Fyrirlesarar munu kynna fyrir hver öðrum og almenningi yfirstandandi rannsóknir sínar og verkefni. Með því að deila sinni sýn, afhjúpa þeir nýja möguleika til að upplifa og tengjast hinum náttúrulega heimi og því lífi sem innan hans þrífst.
Í ljósi þess að áhrif loftslagsbreytinga verða sífellt áþreifanlegri, verður áhersla viðburðarins m.a. á mikilvægi langtímaverkefna og framlaga einstaklinga og fræðasamfélaga sem stuðla að þróun í átt að heildrænni umhverfisvitund. Kynningar fyrirlesara hverfast um náttúrulegar hringrásir, aðferðir reiknirita (algóryþma), aðferðir sjálfs-leiðréttingar og möguleika þess að hlúa að nýjum vistfræðilegum bandalögum með því að þjálfa upp aukna vitund og næmni.
Gestafyrirlesarar og þáttakendur:
Heather Barnett, Patrick Bergeron, Jennifer Helia DeFelice, Magnea Magnúsdóttir, Elísabet Jökulsdóttir, Þorgerður Ólafsdóttir, Ole Sandberg, Anna Líndal, Herwig Turk, Volvox – Bruno Palpant, Pawel Wasowicz.
Skipulag: Jennifer Helia Defelice og henni til aðstoðar er Freyja Þórsdóttir.
28. september 2024
15:00
Ronald Hue
Lifandi tónlist með sænska tónlistarmanninum og tónskáldinu Ronald Hue.
Ronald Heu ólst upp í suðurhluta Svíþjóðar. Á unglingsárum sínum lék hann í ýmsum pönk- og óhefðbundnum hljómsveitum. Eftir menntaskóla lærði hann klassískan gítar við Royal Welsh College of Music and Drama í Cardiff þar sem hann útskrifaðist árið 2002. Með annan fótinn í pönkinu og DIY nálgun þess og hinn í klassískri tónlist, byrjaði hann að semja og árið 2016 kláraði hann sitt fyrsta kvikmyndatónlistarverk.
Árið 2018 samdi hann tónlistina fyrir margverðlaunaða jórdönsku heimildarmyndina Tiny Souls eftir Dina Naser, sem síðan hún var frumsýnd árið 2019 hefur verið sýnd um allan heim.
Viðburðurinn er styrktur af Safnaráði og Barnamenningarsjóði.
Ronald Hue þakkar Norræna Menningarsjóðnum fyrir stuðninginn.
Kambaganga 5. október klukkan 11:00
19. október klukkan 14:00
Listamannaspjall
Þrátt fyrir að Þórdís Jóhannesdóttir hafi lengi notað ljósmyndina sem sinn miðil telst hún seint til hefðbundinna ljósmyndara. Ljósmyndir eru grunnurinn sem hún svo brýtur upp á, teygir og togar bæði í yfirfærðri og bókstaflegri merkingu orðanna. Þórdís sækir myndefni sitt í hversdagsleikann; efnistökin eru form og litafletir sem hún fangar á ferðum sínum, ýmist í myndlist annarra, arkitektúr eða úti í náttúrunni. Myndirnar notar hún svo sem grunn til frekari útfærslu þrívíðra verka. Undirlag myndanna eru krossviður eða álplötur sem hafa verið brotnar þannig að þær myndi form sem kallast á við eða endurspegla efnistökin sem birtast í ljósmyndinni. Úr verða fletir sem taka á sig ljós og skugga sýningarrýmisins á mismunandi hátt; verk sem teygja sig útí rýmið og leika á mörkum þess tví- og þrívíða. Þórdís Jóhannesdóttir (f. 1979) nam myndlist við Listaháskóla Íslands; hún lauk B.A. námi árið 2007 og M.A.námi árið 2015. Þórdís hefur sýnt víða hérlendis, bæði sín verk og í samstarfi við Ingunni Fjólu Ingþórsdóttur undir heitinu Hugsteypan. Af nýlegum sýningum mætti nefna Far í Hafnarborg og Afrit í Gerðarsafni, sem báðar voru hluti af Ljósmyndahátið Íslands 2020.
2. nóvember 2024 klukkan 14:00
Listamannaspjall
Hljóðróf nýr fjölskynjunar skúlptúr eftir Sigurð Guðjónsson í Listasafni Árnesinga. Mun Jóhannes Dagsson spjalla við Sigurð um þetta nýja verk.
Hljóðróf (2024) er heild sem er í sífelldri umbreytingu, kvik af hreyfingu en þó stöðug og sjálfri sér samkvæm. Verkið virkjar rými sýningarsalarins, gengur í samband við það og úr verður skynræn heild. Með því að ganga um rýmið og búa sér þannig til ný og ný sjónarhorn verða til, ekki aðeins augnablik, heldur líðandi sem kallar fram hugrenningar um tíma og takt. Þessi óræði hlutur sem liggur fyrir fótum okkar er bæði aðgengilegur og blekkjandi, augljós og falinn. Í verkinu er varpað fram spurningum um yfirborð og mynd, um hlut, efni, hreyfingu og skynjun. Þetta er gert með því að bjóða áhorfandanum inn í fagurfræðilega upplifun sem virkjar ólík skilningarvit og sjónarhorn.
Sigurður Guðjónsson hefur í mörgum verka sinna leitt áhorfandann inn í heima sem eru ósýnilegir nema í gegnum sjónarhorn tiltekinnar tækni. Hér má nefna verk eins og Perpetual Motion (2022) þar sem áhorfandinn ferðast í gegnum heim málmagna seguls og ljóss sem er aðgengilegur í gegnum aðdráttarlinsu myndavélarinnar eða verk eins og Fluorescent (2021) þar sem efnahvörf eða atburðarás flúorperu eru viðfang verksins en verkið er um leið hugleiðing um ljós og hluti, efni og yfirborð. Þessir hliðarheimar (eða undirheimar) taka á sig merkingu og innihald í gegnum upplifun okkar af verkunum og um leið draga þau fram spurningar um eðli þess að skynja, eðli þess að horfa. Hljóðróf er nýr heimur af þessu tagi. Hljóð og ljós myndarinnar ganga hér í samband við efni hlutheimsins og efniskennd verksins er bæði raunveruleg og byggir á framsetningu eða jafnvel blekkingu.
Sigurður Guðjónsson var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum 2022. Hann hlaut Íslensku myndlistarverðlaunin 2018 fyrir sýninguna Innljós á vegum Listasafns ASÍ.
Mynd fengin að láni hér:
https://sequences.is/artist/sigurdur-gudjonsson/