HVER / GERÐI

Sigrún Harðardóttir

19. maí – 6. ágúst 2018

Listamenn eru oft fyrirboðar tæknilegra framfara á óvæntan hátt. Í árdaga internetsins var hugmyndinni dræmlega tekið af tæknisamfélaginu þar sem hún þótti afturhaldssöm en nú er netið án efa sá nýmiðill sem almenningur hefur helst gefið sig að.

Smásagan Garður gangstíga sem greinast, eftir argentínska rithöfundinn Jorge Luis Borges, felur í sér margþættan söguþráð úr völundarhúsi, skáldsaga sem hægt er að lesa á fjölmarga vegu, líkt og stiklutexti (hypertext) á vefnum með krækjum fram og til baka. „Garður gangstíga sem greinast er stórfengleg ráðgáta eða dæmisaga og viðfangsefnið er tíminn” skrifaði höfundurinn árið 1941, mörgum áratugum áður en almenningur kynntist tölvum. Þessi smásaga sameinar skáldsögu og kenningar um alheiminn að allt sé mögulegt og gerist samhliða í ótal raunheimum.

Hönnun og hugbúnaðarþróun nýmiðla krefst gríðarlegrar hæfni og tækniþekkingar auk þrotlausrar tilraunastarfsemi. Að því sögðu væri þessi þróun ekki svo langt á veg komin ef ekki væri fyrir hugsjónafólk sem sá hvert stefndi og sáði fræjum þeirra framtíðartækifæra sem lista- og vísindamenn njóta góðs af. Tengslin milli lista og vísinda sem verkferla eru löngu þekkt, sérlega í þeirri meginreglu uppgötvana á báðum sviðum að allt sem kemur í ljós býður upp á nýja þekkingu.

Þetta er lýsandi inngangur að verkum Sigrúnar Harðardóttur, sem unnið hefur jöfnum höndum sem listakona og vísindamaður, listmálari og tæknisérfræðingur, tónlistarmaður og vídeólistamaður. Ferill hennar hófst með áhuga á grafík og listmálun en þróaðist síðar út á svið gagnvirkrar tækni og vídeólistar. Það endurspeglar þá tilraunastarfsemi og heim opinna frásagna sem einkenna stærri sögu kvikmyndarinnar og leiða okkur að þeirri tæknivæðingu sem við njótum nú til dags.

Á sýningunni HVER/GERÐI leiðir Sigrún saman gagnvirkni og skyntækni og býður áhorfandanum sjálfum að skapa og upplifa fjölmarga möguleika á samspili áhrifa frá litum, hjóði og hreyfingum. Mitt í þessu gagnvirka umhverfi eru málverk Sigrúnar sem gera áhorfandanum kleift að njóta margbreytilegrar fagurfræði sem til verður í umbreytingunni milli hefðbundinna og tæknivæddra mynda þegar flest skynfæri eru virkjuð.

Á þeim 25 árum sem Sigrún bjó á erlendri grundu sótti hún innblástur í minningar um íslenskt landslag. Til að mynda var dýpt bláa litarins sem fjarlægðin skapar ein helsta uppspretta ljóss og lita í málverkum Sigrúnar.

Líkt og hin leyndardómsfulla stiklutextasaga Jorge Luis Borges um tímann og völundarhúsið kalla aðgerðir áhorfenda á náttúruöflin í þessari gagnvirku sýningu Sigrúnar og skapa þannig mismunandi upplifun fyrir hvern og einn.

Hugmyndir um hið háleita

Sigrún Harðardóttir hóf yfirgripsmikinn listamannsferil sinn í grafíkdeild Myndlista- og handíðaskólans sem seinna varð Listaháskóli Íslands. Nýjustu málverk Sigrúnar bera grafískum bakgrunninum glöggt vitni en í þeim notar hún ýmsa hluti með mismunandi efnisáferð til að tromma málningunni á strigann. Þróunin í tilraunum Sigrúnar frá prenttækni og grafík í upphafi ferils út í vinnu með hreyfimyndatækni segir ekki eingöngu persónulega sögu listamannsins sem færir sig út í stafræna tækni heldur sögu þeirrar menningarlegu þróunar sem almennt hefur átt sér stað. Sköpunarkrafturinn í verkum Sigrúnar á sér alltaf sína helstu uppsprettu í íslenskri náttúrufegurð en auk þess sækir hún nokkurn innblástur til íslenskra listamanna frá fyrri tíð, sem hafa fengist við sama viðfangsefni.

Fagurfræðilega hugtakið „Hið háleita“ (e. sublime), fegurð sem er göfug og ægileg í senn, á einkar vel við þessa sýningu og hin margvíslegu verk sem þar er að finna. Á sautjándu og átjándu öld átti hið háleita aðallega við náttúrufegurð og það var ekki fyrr en á tuttugustu öld sem hugtakið fór að taka til tæknimálefna, þegar athyglin og óttinn fór að beinast að verksmiðjum, vopnum og þeim kraftmiklu og endalausu möguleikum sem fylgdu tölvutækninni.

Verk Sigrúnar á sýningunni HVER / GERÐI eru sótt í myndir af íslenskri náttúru og kallast á við hugmyndir rómantíska tímabilsins. Vatnslitamyndir Ásgríms Jónssonar, sem Sigrún hefur þekkt frá blautu barnsbeini, og gagnsæið í verkum hans eru Sigrúnu augljós innblástur, bæði sem videólistamanni og listmálara. Ásgrímur Jónsson (1876-1958) var leiðandi afl í íslenskri myndlist í upphafi 20. aldarinnar. Hann leitaði eftir því að endurspegla íslenska náttúrufegurð í málverkum sínum og hlaut góðar móttökur almennings sem kunni að meta listmálara sem sá landslagið með augum rómantíska skáldsins.

Á meðan Ásgrímur leitaðist við að fanga fegurðina í íslensku landslagi á striga vildi nemandi hans, Jóhannes Kjarval (1885-1972), taka túlkunina lengra. Kjarval notaði náttúruna sem stökkpall í ævintýraveröld, heim þar sem hefðbundin hluföll lands, sjávar og himins taka stakkaskiptum þannig að hið fjarlæga færist nær. Þessar sjónrænu tilraunir Kjarvals veittu Sigrúnu einnig innblástur frá ungum aldri.

Verk Sigrúnar á sýningunni endurspegla endurtekin þemu sem hún hefur unnið með á löngum ferli þar sem hún kemur sífellt með nýja sýn á viðfangsefnið. Hverinn Strokkur er aðalviðfangsefni margra verkanna en fjölbreytileiki hans sést glöggt á því hvernig Sigrún nálgast hljóðfallseiginleikana í Hrynjandi hvera (2004), krafmiklu sýnina í Öndvegissúlum (1995) og náttúrulegan breytileika hversins í Gaia Breathing (Andardráttur móður jarðar) (20011/2017). Gaia Breathing (Andardráttur móður jarðar), útbreiddasta vídeóverk Sigrúnar, hefur verið sýnt á söfnum og vídeólistahátíðum úti um allan heim á vegum franska dreifingaraðilans Femme Link og íslensku vídeóhátíðarinnar 700 Hreindýraland.

Líkt og í hveramyndböndunum fanga hveramálverk Sigrúnar hreyfinguna og kraftinn í þessu ótrúlega náttúrufyrirbæri á óhindraðan hátt hvort heldur innan strigans eða utan hans. Garðmálverkin byrjuðu sem samspil flygils og striga í gjörningi Sigrúnar í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsinu árið 2013. Gjörningurinn táknaði upphaf endurtekningarinnar sem tjáningarmáta listamannsins með áframhaldandi tilraunavinnu við áferð, liti og gagnsæi. Hreyfingin sem notuð er í sköpun þessara verka fangar sömu senuna síendurtekið til að endurskapa lifandi margbreytileika ljóssins og ótal áhrif þess.

Öndvegissúlur

Sigrún á það sameiginlegt með fjölmörgum rómantískum skáldum og listmálurum að leita innblásturs í fornum sögum. Sigrún veitir öndvegissúlum Ingólfs Arnarsonar efnislegt líf á þessari sýningu en allir Íslendingar þekkja söguna um súlurnar sem landnámsmaðurinn Ingólfur kastaði í hafið til að vísa veginn að bæjarstæði sínu árið 874. Súlur Sigrúnar, sem eru upprunalega úr innsetningunni Öndvegissúlur frá árinu 1995, kallast einnig á við tvíeggjað eðli íslenskrar náttúru sem er ægifögur en ótrygg og stórhættuleg í senn.

Súlurnar víkja að goðsögnum þessum en kalla um leið á beint og óhindrað samband við náttúruna. Súlurnar eru myndlíking fyrir tvískiptinguna sem á sér einnig stað í náttúrunni. Myndum af eldgosum og hveravirkni er varpað á öndvegissúlurnar sem táknmyndum um goðsagnakenndar ímyndir eigenda þeirra sem bæði andlegra leiðtoga og baráttuglaðra víkinga. Allsnægtir og gróðursæld eiga sér stað samhliða eyðileggingu og háska sem til dæmis má finna í Hveragerði. Hverirnir voru undirstaða efnahagslegrar velmegunar í bæjarfélaginu en eru einnig tengdir kraftmiklu eyðileggingarafli eldvirkninnar.

Hverirnir og garðarnir tákna í þessu samhengi sjálfbært samband manns við náttúruna, hæga og sígandi uppbyggingu gagnkvæmra samskipta sem eru innprentuð í goðsagnir okkar og menningarsögu.

Áhuga Sigrúnar á jarðhitasvæðum má rekja til sunnudagsbíltúra í æsku. Sigrún fór þó ekki að vinna með hverinn sem þema fyrr en hún fékk úthlutað vinnustofu listamanna í Hveragerði sumarið 1996 og varð það henni innblástur til þess að vinna markvisst með hveri bæði í málverki og vídeói. Í vinnustofu listamanna við Hafnarborg 1997 hélt Sigrún áfram að vinna með hveri og verk hennar voru sett upp í einkasýningunni hver/hvar í Hafnarborg sama ár. Yfirborðsvirkni jarðhitasvæða hafa verið viðfangsefni margra verka hennar síðan. Sýningin á verkum Sigrúnar í Hafnarborg árið 1997 var hljóð- og myndræn innsetning sem fjallaði um yfirborðsvirkni jarðhitasvæða sem smám saman fer fækkandi. Öll jarðhitasvæði á Reykjavíkursvæðinu voru beisluð árið 1930 og ekkert þeirra er lengur ósnortið.

Hljóð og myndheimur skilningarvitanna

Rómantísku listamennirnir tóku tilbeiðslu náttúrunnar og táknmynda hennar nokkru lengra en við mætti búast af íhugulum áhorfendum. Þýski listmálarinn Caspar David Friedrich (1774-1840) dró oft upp mynd af manninum með bakið í forgrunninn til að gera áhorfandanum betur kleift að setja sig í spor viðfangsins; láta skapgerð einstaklingsins endurspeglast í landslaginu og viðmóti þess.

Huglæg tilfinningin fyrir því sem lifandi var í landslaginu réðist af náttúrulegum breytingum og veðraskiptum sem Sigrún túlkar með taktföstum tengslum við hreyfingar hvera og myndlíkingar af þeim í mismunandi litbrigðum. Friedrich freistaði þess að túlka náttúruna í gegnum sitt eigið nána samband við hana og hvetja áhorfandann þannig til þátttöku í upplifuninni. Á sýningu Sigrúnar er manneskjunni með bakið í forgrunni skipt út fyrir skemmtilega gagnvirkni milli gesta og margvíslegra skynjara sem gera áhorfandanum kleift að skapa sína upplifun.

Árið 1986 sýndi Sigrún verkið Dawn, sex mínútna langa innsetningu með þremur skjáum, þremur spilurum og samstillitæki á júlíkvöldi í Öskjuhlíðinni í Reykjavík. Myndefni frá atburðinum sýna hundruð gagntekinna áhorfenda undir miðnætursólinni og skjáir Sigrúnar sýna myndbrot sem flökta milli raunveruleika og afstraktsjónar.

Dawn kynnti Sigrúnu tryggilega til leiks sem frumkvöðul nýmiðla á Íslandi. RÚV sýndi svo verkið í sjónvarpinu í janúar 1987. Verkið sýndi umbreytingu raunsærra mynda yfir í afstrakt og áframhaldandi gagnvirka þróun þar sem hin sjónræna svörun gengur í gegnum sífellt fleiri niðurbrot forma með innblástur frá listamannstvíeykinu Steinu og Woody Vasulka. Nafn verksins, Dawn, endurspeglar þá skörun meðvitundar og undirmeðvitundar sem á sér stað, sérstaklega síðustu klukkustundirnar áður en einstaklingurinn vaknar. Eintak af verkinu var keypt af Rijksakademie van beeldende kunsten árið 1986 og Listasafni Reykjavíkur árið 2013 þar sem það var síðast sýnt árið 2017.

Fyrirrennarar Sigrúnar í vídeólist og frumkvöðlar á sínu sviði, Steina (f. 1940 á Íslandi) og Woody Vasulka (f. 1937 í Tékkóslóvakíu), gerðu tilraunir með sjónrænt og hljóðrænt inntak í sköpun verka á borð við Noisefields (1974), en verkið sýnir tvískiptan skarkala hljóðs og myndar, unnin með vídéó-sequenser. Líta má á fyrstu kynslóð vídeólistamanna sem fulltrúa þeirra sem fyrstir leiddu ferla hljóðs og myndar saman í eiginlegan hljóðmyndaheim. Með nýrri tækni var bilið milli tónlistar, kvikmyndar, skúlptúrs og arkitektúrs brúað og tvískipting myndar og hljóðs varð að sjálfstæðri hljóð- og sjónrænni heild.

Sigrún kynntist kvikmyndun, hljóðvinnslu og vídeólist í Rijksakademie van beeldende kunsten í Amsterdam þar sem hún var við nám á árunum 1982 til 1986. Á þessu tímabili var Sigrún þegar byrjuð að vinna með gjörninga og tilraunalist, til að mynda með því að varpa 8mm kvikmynd á dansara. Árið 1985 bauð Rijskakademie Sigrúnu að taka þátt í vinnustofu MonteVideo í Amsterdam. Þar kynntist Sigrún Steinu og Woody Vasulka sem höfðu mikil áhrif á hana sem listamann. Á þessum tíma var Sigrún einnig í hópi margmiðlunarlistamanna sem rákuáhrifamikið gallerí, Time Based Arts, og sat hún í útgáfunefndhópsins. Galleríið varð síðar hluti af MonteVideo og um síðir Netherlands Institute for Media Art sem nú gengur undir nafninu LIMA og annast ennþá dreifingu á tveimur verkum Sigrúnar.

Sigrún starfar á milli tilverusviða hljóðs og myndar á fjölmarga vegu. Á sýningunni í Hveragerði er gagnvirk innsetning, HVER / GERÐI, sem Sigrún skapaði í samstarfi við verkfræðilektor við háskólann í Reykjavík, Joseph Timothy Foley. Sigrún og Joseph störfuðu sem samkennarar við fag sem kallað var Electro Mechanical Interactive Art (gagnvirk rafvélræn list) árið 2011 en það var samstarfsverkefni milli verkfræðideildarinnar við Háskólann í Reykjavík og myndlistardeildarinnar við Listaháskóla Íslands. Gagnvirka innsetningin samanstendur af strengjahljóðfæri, stól og veggstykki sem tengd eru skynjurum sem skapa samvirkni milli snertingar, þrýstings og hreyfingar. Nemar þessir setja í gang hljóð- og myndræna upplifun svo sem fuglasöng, býflugnasuð, blómamyndir og bullandi leirhveri sem víða má sjá í Hveragerði.

Gagnvirka innsetningin Hrynjandi hvera (2004-2016) er áberandi í sýningunni. Í forgrunni verksins er hinn músíkalski margbreytileiki jarðhitasvæða og gagnvirka sambandið við gestinn. Til að stuðla að framvindu verksins þarf áhorfandinn að taka þátt með því að skapa sína eigin upplifun á gagnvirku gólfi með níu þrýstiskynjurum og 38 mögulegum vídeóniðurstöðum. Þannig gerir Hrynjandi hvera áhorfandanum sjálfum kleift að skapa samblöndu af myndefni og tónlist sem setur hann í spor listamannsins.

„Margvíslegir hverirnir eru hljóðfæri verksins,” skrifar listamaðurinn, „og samhljómurinn skapast af hrynjanda og tónhæðum sem verða til á mismunandi stigum goss. Hrynjandi hvera er ljóð til jarðarinnar…” Verkið var fyrst sýnt árið 2004 í Quebec-háskólanum í Montreal, Kanada og síðast í Vasulka-stofu Listasafns Íslands árið 2016 og var þá keypt af safninu.

Sigrún fylgir í kjölfar fjölmargra nafntogaðra listamanna sem unnið hafa með myndlist og tækni á gagnvirkan hátt, s.s. Robert Rauschenberg, Jean Tinguely og John Cage. Við opnun sýningarinnar málar Sigrún með sérútbúnum trommukjuðum á striga, sem lagður er ofan á sérsmíðan hljómbotn, í samverkandi gjörningi með tónlistarmanninum Leifi Gunnarssyni sem spilar á kontrabassa. Gjörningur er aftur fluttur 23. júní, þegar samtal á sér stað milli striga Sigrúnar og kontrabassaleiks Alexöndru Kjeld. Málverkin ásamt upptöku af gjörningunum verða hluti sýningarinnar.

Frá hefðbundnu myndefni til þess tæknilega

Verk Sigrúnar sýna að hið háleita má einnig finna í margmiðlunarlist með því að skipta vídeóbrotunum í sagnfræðilegar einingar í anda Stan Brakhage, tilraunakennda bandaríska kvikmyndagerðarmannsins. Hann skoðar áhrif ljóssins þegar það fer í gegnum gler í The Texture of Light (1974) á hátt sem minnir helst á impressjónísku málarana. Þannig má rekja persónulegan feril Sigrúnar frá tónlist og myndlist að vídeóvinnslu og öðrum formum margmiðlunar í gegnum fjölskynjunartækni.

Þýski fræðimaðurinn Friedrich Kittler heldur því fram að tæknilegt innihald sjónmiðla krefjist sjónsviðs sem mannskepnan hefur ekki yfir að ráða. Hann tekur til dæmis tölvugrafík sem samanstendur af tvívíðum hópum pixla sem hver og einn er úr mismunandi þéttleika grunnlitanna. Ef til vill má segja að listmálarar vorra tíma væru einmitt þeir sem ráða yfir mestu þekkingunni í photoshop.

Rauður þráður í verkum Sigrúnar er að raftæknin þjónar sem uppspretta ljóðmælgi og kvikmyndatæknin sem rafrænn málningarbursti. Hreyfimyndatæknin verður eins og fyrirbærafræði sem hægt er að tjá á skjánum um leið og hún getur borist milli annarra miðla. Í verkinu Painted Conversation (Málað samtal) frá 1990 notar Sigrún fimm skjái í fimm málmskúlptúrum sem standa í hring líkt og hópur fólks. Þar er samræðustrúktúrinn sjálfur kannaður með fulltingi afstrakt myndforma og innihald samræðnanna verður lítilvægara en tilfinningatjáning milli þátttakenda. Sálfræði myndmálsins sem samskiptamáta leiðir í ljós að bygging samskipta tengist persónulegu og félagslegu umhverfi. Innsetningin sýnir klukkustundar langar myndbandsspólur sem búnar eru til með tæknibrellum Fairlight Effect-vélarinnar.

Fairlight Effect-vélin kom til sögunnar árið 1984 og þótti sérlega framúrstefnuleg á þeim tíma. Hún gerði notendum kleift að taka upp í rauntíma myndskeið sem máluð voru með vélinni með margvíslegum áhrifum. Fairlight-vélin kynnti til sögunnar mikilvægar tækniframfarir sem skiptu ekki einungis sköpum á ferli Sigrúnar heldur einnig í víðu samhengi hugmynda myndlistar um fagurfræði. Ferill Sigrúnar, sem hófst með áhuga hennar á grafík og listmálun en þróaðist með tímanum í gagnvirka tækni og vídeólist, segir um leið sögu tilrauna og opins frásagnarmáta, sögu kvikmyndalistar í grófum dráttum sem nær til tækniumhverfis samtímans. Áhugi Sigrúnar á íslensku náttúruöflunum hefur fylgt henni allan ferilinn og fetar hún þar í fótspor rómantísku skáldanna, innblásin af náttúrunni og táknmyndum hennar, skrefinu lengra en hlutlaus áhorfandi.

Gagnvirkar innsetningar Sigrúnar hafa óvænt líkamleg áhrif á áhorfandann þegar aðstæður gera það að verkum að hann skynjar hljóð og liti á annan hátt en undir venjulegum kringumstæðum. Margvíslegar aðferðir hennar skapa marglaga söguþráð, ekki eingöngu á sýningunni HVER / GERÐI en einnig í áratugalangri tilraunasögu hennar sem skapara listar. Rétt eins og í völundarhúsi, þar sem málverk og rafrænar myndir er hægt að lesa á fjölmarga vegu leiðir Sigrún saman myndlist og vísindi og allt sem kemur í ljós býður upp á nýja þekkingu. Túlkun listamanna er hornsteinn íslenskrar menningar á sama hátt og skynjun er ekki óskyld menningarsögu. Verk Sigrúnar afhjúpa hvernig sýn mannsins en ekki bara samband hans við listirnar hefur tekið stakkaskiptum í tímans rás.

Sýningarstjóri: Erin Honeycutt

Erin Honeycutt (f.1989). Erin kemur frá Bandaríkjunum en hefur búið á Íslandi um árabil. Hún er listfræðingur að mennt frá Háskóla Íslands og hefur sérhæft sig í vídeó- og nýmiðlalist. Hún er sjálfstætt starfandi sýningarstjóri og greinahöfundur og hefur unnið greinaskrif fyrir söfn, gallerí og tímarit á Íslandi og erlendis en þá hefur viðfangsefnið einatt verið íslensk myndlist. Erin hefur einnig sinnt rannsóknum við Vasulka-stofu Listasafns Íslands og kennt námskeiðið A Survey of Video and Experimental Film í listfræði við Háskóla Íslands. Hún var sýningarstjóri á völdum íslenskum vídeóverkum á Addis Vídeólistahátíðinni í Eþjópíu í janúar 2018 og var aðstoðarsýningarstjóri sýningarinnar Video Art Program sem sett var upp á Keflavíkurflugvelli í desember 2017, en á þeirri sýningu var einmitt verk eftir Sigrúnu Harðardóttur.

Um listamanninn:

Sigrún Harðardóttir (f. 1954). Sigrún nam myndlist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1978-82 og stundaði framhaldsnám við Ríkislistaakademíuna í Amsterdam, Hollandi, 1982-86 þar sem hún lagði m.a. stund á kvikmyndun, vídeólist og hljóðblöndun. Frá Hollandi hélt Sigrún til Kanada þar sem hún starfaði sem myndlistarmaður og kenndi líka í fimm ár við hönnunardeild Québeck-háskólann í Montreal. Hún innritaðist árið 1999 í fjölmiðlafræðideild sama háskóla og útskrifaðist þaðan árið 2005 með meistaragráðu í margmiðlun með áherslu á gagnvirkar innsetningar. Eftir tæplega tuttugu og fimm ára fjarveru við nám og störf erlendis snéri Sigrún aftur til Íslands. Á starfsferli sínum hefur Sigrún einkum fengist við málverk, ýmsar tilraunir í vídeó- og raftæknilist og undanfarin ár þróað gagnvirkni innan þess miðlis í samvinnu við verkfræðinginn Joseph T. Foley og unnið málverkagjörninga í samvinnu við tónlistarfólk.

Sigrún var meðlimur í Time Based Arts-galleríinu í Hollandi 1984-88 og sat í útgáfunefnd þess. Hún var líka þátttakandi í listamannareknu galleríi í Kanada, Galerie La Centrale í Montreal, á árunum 1990-95. Hún var einn stofnenda LornaLab í Reykjavík, sem var sameiginlegur samstarfs- og umræðugrundvöllur listafólks og vísindamanna um tækni og nýsköpun og hún skipulagði vinnustofur, smiðjur og fyrirlestra á þeirra vegum á árunum 2010-13. Hún tók líka þátt í að skipuleggja raflistahátíðina Raflost og vinnustofur um raflist í Reykjavik á árunum 2009-12.

Sigrún hefur tekið þátt í sýningum, bæði einka- og samsýningum, víða um heim og verk eftir hana eru í eigu bæði einka og opinberra safna, svo sem Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Kópavogs, Lima í Hollandi, Ordigraphe í Montreal Kanada og einkasafns Antonio og Janina Manchini í Toronto Kanada. Þá eru nokkur vídeóverka hennar í dreifingu á sýningar safna og vídéóhátíða.

www.sigrunhardar.is