27. september klukkan 14:00
Grasagrafík fyrir almenning
Viktor Pétur mun halda opna smiðju í Listasafni Árnesinga fyrir fjölskyldur þann 27. september klukkan 14:00.
Aðeins um verkefnið:
Pressaðar jurtir í íslenskri myndlist eru ekki nýjar af nálinni en margir kannast við hina hefðbundnu grasagrafík, en plöntuáhugafólk hefur í gegnum tíðina þurrkað valdar plöntur eða grös með því að pressa þær á pappír og ramma inn. Viktor hefur alltaf verið heillaður af þeirri list og á eitt slíkt verk sem hann fékk gefins frá ömmu sinni. „Ég er með eina mynd sem amma gerði fyrir 50 árum síðan með pressuðum jurtum hangandi upp á vegg hjá mér og upphaflega hugmyndin var að leika þá list eftir með því að pressa njóla. Það gekk ekki vel, jurtin klesstist og sauð í eigin hita svo að í staðinn fyrir að þorna þá prentaðist gullitað njólablað á pappírinn. Það hafði mikil áhrif á mig þegar ég sá einmitt litinn á jurtunum dreginn fram á pappírnum,“ segir Viktor. „Mynd ömmu hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér, tengingin við náttúruna og tengingin við mæður mínar heillar mig líka. Þetta kveikir mörg ljós hjá mér og það má segja að mistökin hafi orðið að þriggja ára sumarstarfi.“
Vegna Covid-19 ráðstafanna þarf að skrá sig í smiðjuna.
Sendið póst á listasafn@listasafnarnesinga.is
Verkefnið er styrkt af:

