ER OKKAR VÆNST?

Borghildur Óskarsdóttir og Sigríður Melrós Ólafsdóttir

4. mars – 16. maí 2008

Hjálmar Sveinsson

Leynilegt stefnumót í landslagi

Af Kambabrún blasir við flatlendi rammað inn af frægum fjöllum með hvítar hettur og drungalegu Atlantshafi sem lemur ströndina nótt og dag. Útsýnið er magnað þótt þarna séu ekki grösugir dalir með stórbýli og hvanngræn tún, heldur mestan part móar og mýrar og beitarhólf fyrir hross. Við ströndina grillir í Eyrarbakka og Stokkseyri en Þorlákshöfn er þarna einhvers staðar líka og beint framundan er Hveragerði. Skyldi einhver eiga stefnumót við okkur í þessu flata landslagi? Er okkar vænst?

Þetta er gömul og ný þjóðleið, sennilega sú fjölfarnasta á landinu ef frá er talinn vegurinn sem liggur að Keflavíkurflugvelli og beinustu leið burt af landinu. Margir keyra hér viðstöðulaust í gegn, það er varla að fólki finnist taka því lengur að stoppa í Eden. Í maí 1918 fóru hjónin Bjarni Bernharðsson og Ragnhildur Höskuldsdóttir með börnin sín fimm þessa leið í fjögurra hjóla tjaldvagni með tveimur hestum fyrir. Heimili þeirra í Hafnarfirði hafði verið leyst upp og þar sem Bjarni átti svokallaða sveitfesti í Gaulverjabæjarhreppi bar þeim að fara þangað. Sveitfesti mannsins en ekki konunnar réð. Fjölskyldan kom að Sléttabóli í Flóa og daginn eftir dreif að fólk til að sækja börnin. Óskar (6 ára) fór að Efri-Gegnishólum, Bjarni (2ja ára) að Austur-Meðalholti og Róbert (7 mánaða) að Hellum. Ragnar (5 ára) var fyrst um sinn á Sléttabóli, en fór síðan að Skógsnesi og Fljótshólum, en Arndís (3ja ára) var hjá foreldrum sínum á Eyrarbakka. Eftir að austur kom eignuðust Bjarni og Ragnhildur tvo drengi: Ólaf sem lést fjórtán ára og Bjarna sem lést þriggja ára. Þau reyndu að fá börnin til sín aftur en sjálf höfðu þau orðið fyrir því að æskuheimili þeirra voru leyst upp. Enn þá er búið á þessum bæjum nema Sléttabóli.

Ári eftir flutning fjölskyldunnar var byggt sjúkrahús fyrir Suðurland rétt við Eyrarbakka. Húsið teiknaði Guðjón Samúelsson í íslenskum stíl með bröttum rauðmáluðum burstaþökum. Því var breytt í vinnuhæli árið 1929 og jarðirnar Litla- og Stóra-Hraun lagðar til þess. Síðan þá hefur „vinnuhælið“ jafnan verið kennt við Litla-Hraun. Viðbyggingar hafa risið austan og vestan við húsið en nýjasta viðbyggingin er með bláum turni og var vígð í október 1995. Í dag getur Litla-Hraun hýst 87 fanga, en alls munu vera 134 fangar á landinu. Í fjölmiðlum má lesa að fangelsin séu nú svo yfirfull að fangar þurfi að deila klefum hver með öðrum. Stefnt er að því að byggja nýtt fangelsi í nágrenni Reykjavíkur. Ef marka má áætlun sem yfirvöld hafa lagt fram og sjá má á netinu eiga framkvæmdir þegar að vera hafnar. Yfirgnæfandi meirihluti fanga er karlmenn á milli tvítugs og þrítugs. Af fréttum að dæma hafa mjög margir þeirra verið settir inn vegna afbrota sem tengjast kaupum og sölu á eiturlyfjum.

Við fyrstu sýn er fátt sem tengir verk Borghildar Óskarsdóttur og Sigríðar Melrósar Ólafsdóttur, þær eru hvor af sinni kynslóðinni og hafa unnið í ólík efni út frá ólíkum forsendum án þess að vita mikið hvor af annarri.

Borghildur er fædd 1942 og hefur starfað lengi sem skúlptúristi. Ragna Sigurðardóttir, rithöfundur og gagnrýnandi, hefur sagt að í verkum hennar speglist nútíð og fortíð, nálægð og fjarlægð, hið agnarsmáa og hið risatóra. Borghildur hefur undanfarin ár unnið með sína eigin ættarsögu. Fyrir sex árum sýndi hún verkið „Mynstur í móðurætt“ í Listasafni Reykjavíkur. Þar raðaði hún upp miklum fjölda af andlistsmyndum úr móðurætt sinni í stórt hringlaga form á bláan grunn. Svo kom að föðurættinni. Borghildur tók viðtöl við systkinin sem var dreift á bæina í Flóanum í maí 1918 og skoðaði söguþætti og endurminningar. Systkinin eru nú öll látin, síðastur lést elsti bróðirinn Óskar Bernhard Bjarnason 95 ára gamall í október 2007. Hann var faðir Borghildar og mundi vel eftir ferðinni austur í hestakerrunni.

Margslungið verk Borghildar í Listasafni Árnesinga er framhald sýningar sem hún hélt í Listasafni ASÍ í apríl 2007 og hún kallaði „Opnur – sögur frá liðnum tíma í ljósi mynda“. Hún hefur útbúið nokkurs konar bókverk, spjöld með ljósmyndum og textum sem hún leggur á gólfið þannig að spjöldin minna á landslag eða húsaburstir. Ljósmyndirnar eru af húsum, landslagi og rústum í Flóanum og víðar á Suðurlandi. Á textahlið spjaldanna eru frásagnir og minningar Óskars og systkina hans og ættingja. Borghildur tengir sjálfa sig við þessa sögu með því að sýna dagbókarskrif sín frá undirbúningstíma sýningarinnar. Hún skráir sína hversdagslegu tilveru um leið og hún rannsakar rætur fjölskyldu sinnar í landslaginu. Tengslin við landslagið eru undirstrikuð með því að láta dagbókarblöðin mynda einskonar landslagslínu á vegg. Hún hefur einnig mótað fjöldann allan af leirskálum með höndunum og staflað þeim upp. En það er engu líkara en að þær hafi vaxið svona, að þær séu lífrænar. Út úr þeim má lesa einhverskonar tímamæli eins og við lesum árhringi trjáa.

Sigríður, fædd 1965, er málari og grafíker. Hún hefur einkum gert hópmyndir af fólki úr nálægu umhverfi síðustu misserin. Grunninn að þessum myndum hefur hún lagt með ljósmyndum sem hún hefur tekið og leyst myndefnið upp í litfleti með tölvu. Síðan hefur hún endurgert myndirnar á striga í formi málverks. Fyrir vikið hafa þær fengið tvívítt yfirbragð sem minnir svolítið á popplist. Sigríði finnst að þessar myndir hafi í vissum skilningi verið sjálfsmyndir því hún getur speglað sjálfa sig í þeim, samsamað sig fólkinu. Nýjasta myndserían er ólík hinum að því leyti að þar er heimurinn framandi. Þetta eru myndir af föngum á Litla-Hrauni. Upphaf seríunnar má rekja aftur til málverkasýningar Gullpenslanna svokölluðu í Gerðarsafni í Kópavogi í janúar og fram í febrúar 2007. Sú sýning var nefnd eftir litnum indígó. Í viðtali í Blaðinu 17. janúar sagði Sigríður: „Þegar ákveðið var að þema sýningarinnar yrði indígó, dekksti litur litrófsins, keypti ég allar túpur af indígó sem ég fann og spurði sjálfa mig hvað ég ætti að gera. Ég fann enga tengingu en smám saman fór að gerjast hugmyndin um fangann og innilokun hans.” Skömmu síðar talaði Sigríður við fangelsisstjórann á Litla-Hrauni sem kom henni í samband við félag fanga. Fangarnir voru til í að leyfa henni að mála af sér myndir og Sigríður fékk skólastofu í fangelsinu til afnota og mætti þangað tvisvar til að taka ljósmyndir af þeim. Þeir máttu stilla sér upp eins og þeir vildu. Í áðurnefndu blaðaviðtali segir hún að sér hafi líkað vel við fangana og passað sig á að fara ekki að „velta sér upp úr af hverju þeir eru þarna eða hvað þeir hafa á bakinu.” Síðan segir hún: „Eitt af því skemmtilega við að hitta fangana á Litla-Hrauni var að kynnast allt öðrum heimi. Þeir hafa sína goggunarröð og þrep og metnað, sem felst í einhverju allt öðru en hjá myndlistarmanninum“.

Sigríður gerir teikningar eftir ljósmyndunum, yfirfærir þær á linoleumdúk og sker út línurnar. Síðan ber hún prentlit eða prentsvertu á dúkinn og þrykktir á pappír. Á sum pappírsblöðin vinnur hún áfram með túss, blek, temperu eða það sem henni þykir henta. Sumar þeirra eru bláar og minna á nóttina. Á sýningunni í Gerðarsafni kallaði hún myndaseríuna „Guð sér um vini mína, ég sé um óvini mína“. Ástæðan fyrir þessum forvitnilega titli er sú að margir fanganna skarta húðflúri og Sigríður veitti því fljótlega athygli að þeir nutu þess að sýna henni flúrið. Á heimleið fannst henni að heil ritgerð hefði verið rist í bakið á einum fanganum, á frönsku með gotnesku letri. Síðar spurði hún hvað hefði staðið þarna og henni var sagt að það væri eitthvað í þessa áttina: „Guð sér um vini mína, ég sé um óvini mína.“ Sigríður sendi föngunum sýningarskrána frá sýningunni með þessum titli en fékk bréf til baka þar sem stóð að tilvitnunin væri ekki rétt. Hún ætti að vera: „Guð verndi mig fyrir vinum mínum, um óvini mína sé ég sjálfur“. Þessi síðari útgáfa textans er óneitanlega kaldhamraðri en sú fyrri. Á frönsku eru orðin svona: Dieu Protége moi. Des Mes Amis … Mes Ennemis … Je M´en Charge. Einn frægasti bankaræningi og morðingi Frakklands Jacques Mesrine hafði þetta sem mottó í lífi sínu. Heimur fanganna er heimur út af fyrir sig með sín eigin gildi og metnað. Franska lögreglan drap Mesrine í fyrirsátri árið 1979 þar sem hann sat vopnlaus í BMW-bifreið sinni í útjaðri Parísar. Á þessu ári verða frumsýndar tvær leiknar kvikmyndir um Jacques Mesrine.

Það er hin samfélagslega skírskotun sem tengir verk Borghildar og Sigríðar. Í verkum þeirra stígur fram fólk sem samfélagið hefur flutt nauðugt viljugt og komið fyrir á ákveðnu svæði, sem kallað er heimasveit, eða stofnun sem er ýmist kölluð vinnuhæli eða fangelsi. Í báðum tilvikum beitir ríkisvaldið sínu ýtrasta valdi, í báðum tilvikum er fólk svipt frelsi sínu og sjálfræði. Börn eru tekin af foreldrum sínum og komið fyrir hjá ókunnugu fólki, ungir menn eru teknir og lokaðir inni, jafnvel árum saman.

Tæknilega og hagfræðilega séð er munurinn sá að fangarnir eru á framfæri hins opinbera meðan þeir eru í fangelsi og nöfn þeirra síðan höfð á svokallaðri sakaskrá eftir að þeir eru lausir. En sveitarfélagið bauð umsjón barnanna út, það fól bændum í sveitinni að sjá um börnin gegn þóknun. Þess vegna var talað um að „bjóða niður“. Sá bóndinn sem fór fram á lægstar meðlagsgreiðslu frá sveitarfélaginu átti mesta möguleika á að fá barnið.

Ragnar Bjarnason varð eftir á Sléttabóli þegar bræður hans voru sóttir. Hjónin á bænum tóku sig upp ári síðar og fluttu til Stokkseyrar. Ragnar, sem þá var orðinn sex ára, hélt að hann færi með þeim en það kom ekki til greina því Stokkseyrarhreppur var ekki meðlagsskyldur fyrir börn Bjarna og Ragnhildar. Ragnar varð því eftir í Gaulverjabæjarhreppi og fór að Skógsnesi. Þar var hann í þrjú ár eða þar til bóndinn flutti. En hjónin sem tóku við búinu vildu ekki hafa Ragnar og því fór hann til foreldra sinna á Stokkseyri enda höfðu þau viljað fá hann. Tæpu ári seinna dó faðir hans og þá fór Ragnar til frændfólks síns á Fljótshólum þar sem hann var í fimm ár. Hreppurinn hætti reyndar að borga með börnum eftir að þau fermdust. Ragnar var eitt ár til viðbótar á bænum sem vinnumaður.

Hreppaflutningar áttu sér djúpa rót í íslenskri samfélagsgerð. Þeir byggðust lagalega á fátækralöggjöfinni frá 1834 sem aftur var skilgetið afkvæmi manntalsins frá 1703 sem leiddi þá ískyggilegu þjóðfélagslegu stöðu í ljós að „þurfamenn“ á Íslandi voru rúmlega 15% landsmanna. Í fátækralöggjöfinni var kveðið á um framfærsluskyldu sveitarfélaga, sveitfesti og hreppaflutninga. Með þeim ákvæðum var vissulega brugðist við félagslegum vanda en þetta var pólitísk löggjöf og miðaði við hvað væri heppilegt fyrir samfélagsgerðina eins og hún var, en ekki endilega hvað væri heppilegt fyrir einstakar fjölskyldur. Fátækralöggjöfin leysti upp fjölskyldur og svipti fólk ekki aðeins sjálfræði heldur einnig kosningarétti og kjörgengi. Talið er að síðustu hreppaflutningarnir hafa átt sér stað 1927 þegar fjölskylda á Ströndum var flutt milli sveitarfélaga.

Sama mætti segja um fangelsi. Samfélagið bregst við ákveðinni hegðun einstaklinga, sem lög hverju sinni líða ekki, með því að loka menn inni í lengri eða skemmri tíma. Á fjórða áratugnum voru fangelsi á Íslandi full af sprúttsölum, í dag munu þau vera full af dópsölum. Sú málvenja að tala um lögleg og ólög fíkniefni segir auðvitað sína sögu. Við erum að tala um pólitík. Kannski man einhver eftir því átaki stjórnvalda að gera Ísland að fíkniefnalausu landi árið tvö þúsund. Það hefur verið pólitísk ákvörðun að þyngja dóma verulega vegna fíkniefnamisferlis, eins og það er kallað. En sérfræðingar á borð við Helga Gunnlaugsson, prófessor við Háskóla Íslands, hafa bent á að mjög þungir dómar verði til þess að verð á eiturlyfjum á götunni fer upp úr öllu valdi sem hafi í för með sér að ágóði þeirra sem heppnast að smygla einhverju magni af „ólöglegum fíkniefnum“ inn í landið er gríðarlegur. Það er því til mikils að vinna og augljóslega margir tilbúnir að taka áhættuna. Útkoman er vítahringur en um þann vítahring var meðal annars fjallað fyrir nokkrum árum í bandarískri kvikmynd sem heitir Traffic og vakti mikla athygli.

Til huggunar fyrir þá sem ofbýður fjölgun fanga í íslenskum fangelsum má benda á að hér á landi eru hlutfallslega fæstir fangar í Vestur-Evrópu. Í grein eftir Helga Gunnlaugsson á Vísindavefnum frá árinu 2003 kemur fram að árið 2002 voru 110 fangar á Íslandi. Það jafngilti 38 föngum á hverja hundrað þúsund íbúa. Í Danmörku og í Noregi voru þetta sama ár 59 fangar á hverja hundrað þúsund íbúa og 96 í Þýsklandi. Í Evrópu átti Bretland metið, þar voru 139 fangar. Heimsmetið var og er í Bandaríkjunum. Árið 2002 voru þar 686 einstaklingar í fangelsi miðað við hundrað þúsund íbúa. Til að hafa sama hlutfall hefðu átt að vera hér á landi tæplega 2.000 fangar.

En það er tímanna tákn að í nýlegri úttekt í Fréttblaðinu var fjallað um mikilvægi þess að koma upp meðferðardeildum í fangelsum. Gera þau að einskonar afeitrunarstöðum. Segja má að með því hafi sjúkdómsvæðingin svonefnda hafið innreið sína í fangelsin. Hún felur það í sér að litið er á fangana sem sjúklinga sem ekki eru sjálfráðir gerða sinna. Við nánari skoðun er það rökrétt framhald af stefnu sem lengi hefur verið við lýði. Franski heimspekingurinn Michel Foucault heldur því fram í bók sinni Gæsla og refsing að áður fyrr á öldum hafi refsingar einkum beinst að líkamanum. Þeir sem gerðust brotlegir við lög voru húðstrýktir, brennimerkir, aflimaðir og í sumum tilvikum líflátnir. Vistun í fangelsi í lengri tíma var fágæt. Með upplýsingastefnunni fóru refsingar að beinast að því að móta fangann, rétt eins og hægt er að móta vöxt trés. En það þýddi að athyglin beindist ekki lengur að líkamanum heldur að sálinni. Að mati Foucaults hafði það ekkert með mannúð að gera, heldur kalda þörf fyrir nýta þjóðfélagsþegna sem yllu sem minnstri truflun á gangverki samfélagsins.

Sem fyrr segir eru Borghildur og Sigríður ólíkir listamenn sem vinna út frá ólíkum forsendum. En verk þeirra eru byggð upp af yfirvegun og nákvæmni. Þeim tekst báðum að taka fyrir á listrænum forsendum tilfinningahlaðið myndefni og söguefni án allrar tilfinningasemi. Verk þeirra búa ekki til fórnarlömb fyrir okkur til að horfa á og vorkenna úr öruggri fjarlægð. Fangarnir á myndum Sigríðar horfa á okkur svipbrigðalaust, drættirnir í andliti þeirra eru skornir í dúk. Sjálfir eru þeir flestir með myndir ristar á eigið skinn. Sigríður hefur sagt að það hafi verið merkileg reynsla að skera í dúkinn, ákveða hvaða línur hún ætti að skera og hverjum hún ætti að sleppa. Hún hitti fangana aðeins einu sinni eða tvisvar en eftir að hafa umbreytt ljósmyndum af þeim í dúkristur og síðan í þrykk á pappír, fannst henni hún vera farin að þekkja þá. Kannski þekkti hún sjálfa sig í þeim, kannski þekkjum við okkur í þeim. Kannski hafa þeir verið að bíða eftir okkur, kannski hefur okkar verið vænst.

Svipuð tilfinning gæti vaknað þegar við skoðum verk Borghildar. Í frægum hugleiðingum um söguhugtakið skrifar þýski heimspekingurinn Walter Benjamin að fortíðin beri með sér leynileg teikn sem leiði hana á vit endurlausnar sinnar. „Andar ekki um okkur blær af því sama lofti og lék um þær kynslóðir? Má ekki heyra í þeim röddum sem við ljáum eyra bergmál þeirra radda sem nú eru þagnaðar?“ Benjamin heldur því fram að okkar sé vænst á jörðinni af fyrri kynslóðum, að þær eigi við okkur leynilegt stefnumót. Hann er ekki að tala um yfirnáttúrlega hluti. Hann hefur einkum í huga hina nafnlausu, gleymdu og fátæku fortíð. Borghildur opnar þessa fortíð upp á eigin spýtur og veitir okkur um leið hlutdeild í sínu eigin lífi. Hún sýnir okkur þessa fortíð í ljósi mynda og frásagna og skráir um leið sinn eigin tíma en sá tími er, þegar allt kemur til alls, tími okkar allra.

Og svo sést til Óríons, skærasta stjörnumerkisins, sem táknar fornsögulega hetju sem bar af öllum sakir atgervis og glæsileika. Hann er þarna í öllu sínu veldi, stiginn niður af næturhimninum. Borghildur hefur teiknað hann á vegginn. Gegn honum teflir Sigríður stæltum fanga með húðflúr sem hnyklar vöðva sína ber að ofan, fjarlægur eins og nóttin.

Um sýnendur og sýningastjóra

Borghildur Óskarsdóttir

Borghildur nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1959-60, Listaháskólann í Edinborg, Skotlandi 1961-63 og síðar lauk hún einnig prófi frá kennaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands.

Borghildur er félagi í Sambandi íslenskra Myndlistarmanna og Myndhöggvarafélaginu í Reykjavík og hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir þessi félög. Samhliða vinnu við eigin listsköpun kenndi hún myndlist í 10 ár, aðalega við Myndlistarskólann í Reykjavík. Borghildur hefur einkum fengist við þrívíð verk og efniviður hennar hefur verið af ýmsum toga sem hæfir viðfangsefninu. Síðustu verk hennar tengjast rannsóknum á eigin fjölskyldusögu.

Á löngum ferli hefur hún sýnt víða innanlands og erlendis s.s. í New York, Kanada, Þýskalandi, Póllandi og á norðurlöndunum.

Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðunni: www.this.is/borghildur

Sigríður Melrós Ólafsdóttir

Sigríður nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1985-89 og við Ecole des Beux Arts de Lyon 1990-92. Hún bætti síðan við námi í kennslufræðum í Listaháskóla Íslands 2002. Samhliða myndsköpun hefur Sigríður unnið sem kennari í Myndlistarskóla Reykjavíkur og einnig starfað á söfnum, s.s. Listasafni Reykjavíkur og Listasafni Kópavogs, Gerðarsafni. Hún er félagi í Sambandi íslenskra myndlistarmanna og hefur líka verið þátttakandi í sýningum Gullpenslanna. Hún hefur einskorðað sig við tvívíð verk þar sem málverkin hafa verið í fyrirrúmi en undanfarið hefur hún einnig blandað teikningu og þrykki inn í málverkið. Viðfangsefni hennar eru samfélagsleg, í fyrstu eigin fjölskylda en síðar aðrir þjóðfélagshópar.

Hjálmar Sveinsson

Hjálmar Sveinsson er kunnur útvarpsmaður og hefur meðal annars verið umsjónarmaður þáttanna Krossgötur og Spegillinn á RÚV. Hann er höfundur bókarinnar um Elías Mar, Nýr penni í nýju lýðveldi, og stofnandi Atviks-ritraðarinnar og bókaútgáfunnar Omdúrman. Hjálmar starfar einnig sem stundakennari við Listaháskóla Íslands. Hann er með MA-gráðu í heimspeki og bókmenntafræði frá Freie Universität í Berlín.

Hjálmar hefur verið sýningarstjóri við nokkrar listsýningar og skipulagði meðal annars sýningaröð sem var tileinkuð Rósku, Megasi og Degi Sigurðarsyni í Nýlistasafninu á árunum 2000-2003. Hann var, ásamt Geir Svanssyni, ritstjóri þriggja bóka um þessa listamenn.