LEIFTUR

á stund hættunnar

2. maí – 28. júní 2009

Sigrún Sigurðardóttir menningarfræðingur

Eru minningar einkamál hvers og eins? Eða ber okkur ef til vill skylda til að deila minningum okkar, upplifunum og reynslu með samferðafólki okkar og auka þannig skilning á atburðum fortíðarinnar? Höfum við skyldu að gegna gagnvart því liðna? Eða verður skylda okkar við samtímann ekki aðskilin frá skyldu okkar við fortíðina?

Þýski menningarfræðingurinn Walter Benjamin benti á það árið 1940 að hlutverk okkar væri að strjúka sögunni á móti háralaginu, að ýta og pota stöðugt í það sem álitið er viðtekinn sannleikur og lokar þar með fyrir nýja túlkun á hinu liðna, og síðast en ekki síst benti hann á að það væri skylda okkar að bera kennsl á leiftur fortíðar þar sem það birtist okkur á stund hættunnar. Og hættan er ekki atburður sem birtist okkur með látum heldur læðist hún að okkur, þrengir að túlkun okkar og upplifunum. Það gerir hún með því að festa í sessi frosna og óhagganlega mynd af liðinni tíð sem rennur saman við samtíma okkar. Við förum að taka fortíðinni sem gefnum hlut, förum að líta á hana sem óhagganlega staðreynd, og erum ekki lengur móttækileg fyrir því hvernig sérhver liðin stund getur birst okkur óvænt, hreyft við okkur, og opnað okkur nýja sýn á veruleikann sem var og veruleikann sem er.

Í margar aldir hafa karlmenn (og örfáar konur) leitast við að ná tökum á fortíðinni með því að skrifa endurminningar sínar á blað, breyta löngu liðnum upplifunum í orð. Flest hafa þessi orð verið skrifuð inn í fyrirframgefna sögu sem mótuð hefur verið af söguriturunum sjálfum og félögum þeirra, í flestum tilvikum hvítum millistéttarmönnum. Atburðir fortíðar hafa verið notaðir til að skýra og ekki síst réttlæta atburði og ástand samtímans. Stundum hafa komið fram óvæntir textar sem hleypt hafa öllu í tímabundið uppnám. Saga þeirra sem áður áttu sér enga sögu hefur verið skrifuð og atburðir sem áður mátti ekki tala um hafa verið festir á blað. Þannig hafa ,,óæskilegir“ atburðir, sem hafa óvænt barið á dyr viðtekinna endurminninga, verið innleiddir í söguna. Óþægilegir atburðir úr æsku einstaklingsins eru orðnir hluti af sjálfsmynd hans í samtímanum. Hópar fólks sem áður áttu sér ekki opinbera sögu hafa nú verið skrifaðir inn í söguna sem virkir gerendur í mótun samtímans. Saga þeirra hefur verið skrifuð inn í stóru söguna og er þar með orðin hluti af henni. Allar þessar litlu sögur, sem eru orðnar hluti af stóru sögunni, hafa mótað heildarmyndina og oft á tíðum breytt henni – en allar eiga þær það þó sameiginlegt að um leið og þær hafa verið viðurkenndar sem hluti af stóru sögunni hafa þær farið að þjóna ríkjandi ástandi. Þessar litlu sögur eiga það allar á hættu að verða viðteknar og um leið áhrifalausar. Þær hreyfa þá ekki lengur við okkur. Verða óhagganlegar, frosnar myndir af fortíðinni sem færa okkur engan nýjan sannleika.

Listamenn, jafnt og fræðimenn, hafa hvað eftir annað reynt að ýta við þessari frosnu mynd. Sumum hefur orðið eitthvað ágengt en flestir hafa þó á endanum gengið inn í hinn lokaða klúbb valdhafanna og skapað verk sem fellur að viðteknum skoðunum og ríkjandi straumum. Þannig hafa þeir í einhverum skilningi brugðist hlutverki sínu. Eru farnir að fínpússa heildarmyndina eða ef til vill skapa litlar krúsídúllur sem gera myndina áhugaverða en breyta henni ekki. Þegar þetta gerist er hættan sú að aðeins þeir sem með valdið fara beri sigur úr býtum – og allir hinir, allir þeir sem ekki semja sig að viðteknum venjum, gildum og söguskoðun, eiga það á hættu að gleymast, að verða ekki hluti af sögunni, heildarmyndinni, sem sífellt réttlætir ríkjandi ástand með því að draga fram ákeðna atburði fortíðarinnar en henda öðrum á haugana.

Einsaga

Í þeim fræðum sem fást markvisst við að skýra atburði fortíðar og afleiðingar þeirra, sagnfræði, hefur á síðustu áratugum verið að mótast stefna sem kennir sig við einsögu. Einsagan er í eðli sínu alltaf í uppreisn gegn ríkjandi ástandi eða öllu heldur í uppreisn gegn viðtekinni sýn á fortíðina. Samt á hún það alltaf á hættu að verða aðeins krúsídúlla eða útúrdúr í heildarmyndinni. Helsta verkefni einsögufræðinga í dag er því að takast á við hættuna sem felst í því að verða hluti af viðtekinni söguskoðun. Hlutverk einsögunnar er að halda sambandi fortíðar og samtíðar opnu, að skapa rými þar sem nýjar hugmyndir verða til og ný reynsla af fortíðinni birtist óvænt, líkt og leiftur af liðinni tíð.

Hugmyndin á bak við einsöguna einskorðast þó ekki við þá hugsun að skapa aðferð sem gerir sagnfræðingum mögulegt að pota í og bæta við heildarmyndina með því að draga einstaka atburði fortíðar fram á sjónarsviðið. Grunnhugmyndin á bak við einsöguna, sem mótaðist upphaflega í kringum Bologna-háskóla á Ítalíu á 8. og 9. áratug 20. aldar, er að með því að draga fram einstaka atburði og/eða lífsferil einstaklings megi varpa óvæntu og nýju ljósi á heildarmyndina. Formgerð eða strúktúr samfélagsins (og þar með ríkjandi orðræða, sjálfsmynd og söguskoðun) mótar líf einstaklingsins og með því að skoða hvernig einstaklingurinn tekst á við þessa formgerð og mótar líf sitt í samspili við hana má varpa nýju ljósi á raunverulega virkni samfélagsins. Hugmyndin er sú að með því að skoða eitt einstakt tilvik, eitt einstakt fyrirbæri eða eitt einstakt augnablik í lífi einstaklingsins, sé unnt að nálgast sannleikann um þann veruleika sem umlykur þetta augnablik eða eitt tiltekið atvik. Með því að varpa ljósi á þetta afmarkaða augnablik má um leið öðlast aukinn skilning á því samfélagi sem það er sprottið úr. Samfélagið sjálft kristallast þannig í einu einstöku augnabliki sem einstaklingurinn getur náð að fanga á sinn persónulega hátt, með orðum eða myndum.

Minningar

Blaut gangstéttarhella, rólur sem sveiflast kurteislega í vindi á yfirgefnum leikvelli, birta sem fellur á sinn sérstaka hátt á gula málningu á gömlum rókókóstól. Allt eru þetta myndir sem vekja tilfinningu fyrir liðinni tíð, myndir sem kalla fram löngu liðna upplifun sem varðveist hefur innra með okkur, og brýst óvænt fram þegar fortíðin mætir samtímanum í huga okkar.

Minningar eru margslungið fyrirbæri. Þær eru líkt og ummerki um liðna tíð sem sett hafa mark sitt á líkama okkar. Sumar minningar búa í huga okkar og hugmyndum okkar um fortíðina, aðrar búa í skynjuninni og eru þannig hluti af lífi okkar án þess að við gerum okkur grein fyrir því. Þetta eru þær minningar sem við erum ómeðvituð um að við búum yfir. Minningar sem tekið hafa sér bólstað í líkama okkar og brjótast fram þegar minnst varir.

Franski rithöfundurinn Marcel Proust skrifaði í bók sinni Í leit að glötuðum tíma um muninn á meðvituðum og ómeðvituðum minningum. Walter Benjamin tók hugmyndir hans upp á sína arma um hálfri öld síðar þegar hann gerði greinarmun á upplifun í reynslu út frá fyrirbærafræði Husserls. Upplifunin á sér stað þegar við stöndum frammi fyrir veruleikanum, drekkum hann í okkur án þess að færa þann samruna í orð. Upplifunin er því fyrst og fremst líkamleg. Hún sest að í líkama okkar. Býr um sig í hinu ómeðvitaða minni. Ef við leyfum henni að hvíla þar óáreittri varðveitum við ákveðið samband við liðna tíð sem er í vissum skilningi „hreint“ eða í það minnsta ómengað af orðum og hugsunum um fortíðina.

Þegar við aftur á móti leitumst við að færa upplifun okkar í orð, skilgreina hana og koma fyrir í flokkunarkerfi sjálfsmyndar okkar og sögu, þá breytum við upplifun okkar í reynslu. Hin meðvitaða minning sem bjó um sig í líkama okkar er þar með orðin að meðvitaðri minningu sem hefur komið sér fyrir í ákveðinni röð atburða sem endurminningar okkar byggjast á. Þessi meðvitaða minning er hluti af veruleika sem mótast af skoðunum okkar og reynslu ekki síður en af ríkjandi gildismati samfélagsins (orðræðu valdhafanna) og er því í einhverjum skilningi sviðsettur veruleiki.

Meðvitaðar minningar eru því hluti af lífi okkar hér og nú, þær móta sjálfsmynd okkar, viðhorf til fortíðarinnar og þá stefnu sem við tökum inn í framtíðina. Ómeðvitaðar minningar hafa ekki síður áhrif á líf okkar en á allt annan hátt. Þær hafa búið um sig í líkama okkar og hafa þannig áhrif á viðhorf okkar til veruleikans sem við erum hluti af – en ólíkt hinum meðvituðu minningum fara þær hljóðlega. Þá láta þær ekki á sér kræla fyrr en eitthvað í umhverfi okkar eða skynjun verður til þess að vekja þær upp. Stundum er það einhver hlutur, stundum er það snerting, stundum bragð eða lykt, eða ákveðin sjónræn reynsla, sem kallar fram löngu liðna upplifun og kemur okkur í samband við fortíðina. Þannig geta hvítar gardínur sem sveiflast til í golunni kallað fram ákveðna tilfinningu fyrir veruleikanum sem vekur minningar um upplifun sem við vissum ekki að við gætum endurheimt.

Marcel Proust lýsti þessari skörun fortíðar og nútíðar með því að segja í smáatriðum frá þeirri upplifun sem aðalsögupersónan í skáldsögunni Í leit að glötuðum tíma varð fyrir þegar hún beit í mjúka magðalenuköku. Síðan þá hefur þessi upplifun oft verið kennd við magðalenukökur. Uppskriftin er svohljóðandi:

Þá var það einn vetrardag að ég var að koma heim og þegar mamma sá að mér var kalt, bauð hún mér bolla af tei, öndvert við það sem ég var vanur. Ég afþakkaði í fyrstu, en sá mig síðan um hönd, ég veit ekki af hverju. Hún lét senda eftir þessum stuttu og bústnu kökum sem kallast magðalenusmákökur og virðast formaðar í rákóttum hörpudiski. Fljótlega, óafvitað, þrúgaður af drunga dagsins og annar ömurlegur í vændum, bar ég að vörum mér teskeið með bita af magðalenu bleyttri í tei. Á sama augnabliki og munnsopinn með kökumylsnunni snerti góminn tók ég kipp, furðu lostinn yfir feiknunum sem áttu sér stað innra með mér. Undursamleg ánægjutilfinning hafði gagntekið mig, ein sér og án sýnilegrar orsakar. Fyrir hennar tilstilli hafði mótlæti lífsins gufað upp, skakkaföll þess orðið meinlaus, hverfulleikinn hugarburður, mér fannst streyma um mig einhver dýrmætur kraftur eins og fyrir tilverknað ástarinnar: eða öllu heldur, þessi eigind var ekki í mér, ég var hún. Mér fannst ég ekki lengur lítilfjörlegur, tilviljanakenndur, dauðlegur. Hvernig stóð á þessari mögnuðu gleðitilfinningu? Ég skynjaði að hún tengdist bragðinu af teinu og kökunni, en var langtum víðtækari, gat ekki verið sama eðlis. Hvaðan kom hún? Hvað táknaði hún? Hvernig átti ég að ná í skottið á henni? Ég fæ mér annan sopa án þess að vera nokkru nær en í fyrra skiptið, þriðji stendur honum að baki. Tími kominn til að hætta, áhrif drykkjarins virðast fara dvínandi. Það er ljóst að vitneskjunnar sem ég sækist eftir er ekki að leita í drykknum heldur í sjálfum mér. Hann vakti hana, án þess að valda henni og megnar ekki annað en endurtaka án afláts, með stöðugt minni virkni, þennan sama vitnisburð sem ég kann ekki að túlka en vil geta endurheimt í óbreyttri mynd eins og í upphafi og að því búnu leitt í ljós. Ég legg frá mér bollann og einbeiti mér að huganum. Það er hans að komast að hinu sanna. En hvernig?1

Sögumaður bítur í magðalenukökuna og nautnin hellist yfir hann. Tilfinning sem tilheyrir liðinni tíð rennur saman við upplifun sögumans í nútíðinni. Skynjunin greinir ekki milli þess sem var og þess sem er. Tímaheildir skarast. Sögumaður Proust lýsir þessu svo:

„Þá skyndilega braust minningin fram. Þetta var bragðið af magðalenumolanum sem Léonie frænka var vön að gefa mér eftir að hafa dýft honum í te eða jurtaseyði á sunnudagsmorgnum þegar ég heilsaði upp á hana í herberginu hennar í Combray.2

Sögumaður leitast við að koma þessari tilfinningu fyrir í endurminningum sínum en finnur þeim ekki stað. Um leið og hann reynir að setja upplifunina í orð byrjar hún að fjarlægjast hann. Hið ómeðvitaða minni býr í líkamanum en ekki tungumálinu. Það verður því aðeins hluti af upplifun okkar en ekki reynslu. Allar tilraunir okkar til að innleiða þessar upplifanir í endurminningar okkar eru dæmdar til að mistakast. Þær geta aldrei orðið hluti af sögu okkar nema með því að taka á sig form tungumálsins og verða þannig hluti af reynsluheimi okkar. En um leið og við breytum upplifuninni í reynslu tapast eitthvað; eitthvað sem orðin ná ekki yfir.

Ljósmyndir

Í verkum íslenskra samtímaljósmyndara má sjá brot af veruleikanum, sem eru líkleg til þess að vekja þessar liðnu upplifanir sem búið hafa um sig innra með okkur en við megnum ekki að færa í orð. Þeir ljósmyndrar sem eiga verk á sýningunni Leiftur á stund hættunnar eiga það sameiginlegt að vinna með eigin minningar og eigin upplifanir í verkum sínum á sama tíma og þeir leitast við að draga fram ákveðinn sannleika um veruleikann sem við búum í.

Ljósmyndirnar á sýningunni leitast þannig allar við að færa okkur veruleikann á persónulegan en um leið margslunginn hátt. Þær tala ekki til skynseminnar eða vitsmunanna heldur höfða þær fyrst og fremst til skynjunarinnar og tilfinninganna. Með þeim hætti forðast þær að festast í neti tungumálsins og orðræðunnar. Þær spyrja ekki um ríkjandi gildismat eða leita eftir samþykki valdhafanna. Þess í stað leitast þær við að sprengja upp söguna eins og hún hefur verið sögð sem röð atburða er raðað hefur verið upp eftir rökréttu skipulagi þess sem stjórna vill viðhorfi okkar til veruleikans. Þær birtast þannig sem leiftur á stund hættunnar. Þær gera okkur mögulegt að endurheimta liðna tíð sem við hefðum annars farið á mis við. Í þeim skarast tímaheildir og þessi skörun verður til þess að opna fyrir nýja túlkun á fortíðinni. Þess vegna eru þetta díalektískar myndir.

Í þessum skilningi hefur íslensk samtímaljósmyndun losnað úr þeim vef sem ofinn var úr örfínum og oft á tíðum ósýnilegum þráðum póstmódernismans. Póst- módernisminn einkenndist af upplausn sannleikans og alræði sjónarhornsins. Hann hafði margt fram að færa en með ofuráherslu sinni á að við værum öll fangar tungumálsins, og þar með orðræðu valdhafanna, missti hann sjónar á veruleikanum sjálfum. Tilhneiging íslenskra samtímaljósmyndara í dag virðist vera að endurheimta veruleikann með því að höfða fremur til hins ósagða, til upplifunarinnar, tilfinninganna og hins ómeðvitaða, en um leið að leggja áherslu á hið persónulega sjónarhorn sem er ákveðin viðleitni til að losna undan orðræðu og valdakerfi ríkjandi gildismats. Sú tilraun verður þó aldrei neitt annað en viðleitni því að hvert sjónarhorn mótast af því kerfi sem það neyðist til að miða sig við. Í stað þess að gefa sig hugsunarlaust á vald kerfinu má nýta hið persónulega sjónarhorn til að varpa ljósi á sjálft kerfið. Þannig má vinna með ljósmyndina á svipaðan hátt og einsögufræðingar vinna með orðið og tungumálið. Með því að leggja áherslu á hið persónulega, og hið einstaka, má pota í, skera upp eða einfaldlega varpa ljósi á það samfélag og það valdakerfi sem mótar nálgun okkar hverju sinni. Þannig fléttast einsagan og hugmyndin um duldar minningar, sem birtast líkt og leiftur á stund hættunnar, saman í verkum íslenskra samtímaljósmyndara.

Ljósmyndarar og verk þeirra

Á sýningunni Leiftur á stund hættunnar eru verk eftir átta íslenska myndlistarmenn. Sex þeirra hafa lokið námi frá viðurkenndum listaháskólum með ljósmyndun sem sérsvið. Tveir þeirra eru með háskólapróf í myndlist en hafa að stórum hluta unnið með ljósmyndun í list sinni. Þetta eru þeir Ingvar Högni Ragnarsson og Haraldur Jónsson. Haraldur á verk í millirými safnsins, litlu rými sem opnast í báðar áttir og veitir okkur bæði inngöngu í heim minninganna og heim einsögunnar. Í millirýminu erum við tvístígandi. Vitum ekki með vissu í hvora áttina við eigum að fara eða okkur er ætlað að fara. Ljósmyndirnar á veggjunum birta okkur brotakennda frásögn af veruleika sem við þurfum sjálf að skapa heildstæða mynd úr. Er þetta frásögn um okkar eigi líf, um líf listamannsins eða líf einhvers annars? Er þetta frásögn um líf einstaklings sem gæti verið sprottinn úr sama samfélagi og við? Getum við öðlast hlutdeild í lífi hans? Deilum við ef til vill upplifunum með honum, minningum og ákveðinni sýn á veruleikann. Story of Your Life heitir verk Haraldar. Það hefur orðið til á löngum tíma og hefur að geyma fjölda mynda sem allar eiga það sameiginlegt að draga upp brotakennda mynd af því samfélagi sem listamaðurinn hefur ferðast um. Þær birta brotakennda sýn af veruleikanum, augnablik sem vísa út fyrir sig og færa okkur ákveðinn sannleika um þann veruleika sem við deilum með öðrum. Það er í þessu millirými sem við neyðumst til að móta okkur afstöðu, taka ákvörðun og ganga á vit minninganna eða stíga inn í heim einsögunnar.

Í heimi einsögunnar eru verk eftir fjóra listamenn, Pétur Thomsen, Katrínu Elvarsdóttur, Ingvar Högna Ragnarsson og Kristleif Björnsson. Verk Kristleifs sker sig töluvert frá öðrum verkum í sýningarsalnum. Í stað þess að sýna okkur náttúru í samspili við manngert umhverfi eins og verk hinna þriggja birtir það okkur ofur hversdagslega sýn en í nokkuð óvæntu samhengi. Á fjórum myndum má sjá fjögur pör af kvenmannsnærfötum. Hvert og eitt nærfata-par ber það með sér að hafa verið valið að alúð. Hvert og eitt hefur verið lagt varnfærnislega og um leið snyrtilega á ljóst rúmteppi í litlu þakherbergi. Við sjáum ef til vill fyrir okkur unga stúlku sem gistir á hótelherbergi í framandi borg og hefur eytt síðustu aurunum í að kaupa sér dýrindis nærföt sem hún hefur valið af mikilli kostgæfni og nýtur þess að virða fyrir sér þegar hún er komin inn í lítið og mollulegt herbergið.

Listamaðurinn hugsaði þetta þó á annan veg. Verk hans fjallar um tilbúnar minningar manns sem kaupir kvenmannsnærföt handa konu sem hann þráir en getur hvorki né vill nálgast. Konan sem er viðfang ástar þessa ímyndaða manns (sem á sér óljósar fyrirmyndir í veruleikanum) leikur stórt hlutverk í lífi hans en það hlutverk er eingöngu skrifað fyrir veruleika sem hann á út af fyrir sig. Konan sjálf er af holdi og blóði en hlutverkið sem hún leikur í lífi mannsins er bundið við hugarheim hans, og forsenda þess að hún hefur jafn mikið vægi þar og raun ber vitni er að þessir tveir heimar, hugarheimur hans og hin ytri heimur sem þau eru bæði hluti af, snertist aldrei. Ef konan, sem er ástarviðfang mannsins, kæmi inn af götunni og bankaði upp á í raunveruleikanum, myndu þessir tveir heimar skarast með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Hugmyndin, ástarþráin sjálf, byggist á því að halda þessum heimum aðskildum, að halda veruleikanum sjálfum í hæfilegri fjarlægð frá þeim raunveruleika sem býr í hugarheiminum.

Verk Kristleifs heitir This would suit her og það fjallar ekki aðeins um tilbúnar minningar karlmanns í stórborg nútímans heldur einnig um ákveðna tilhneigingu sem býr í menningu samtíma okkar. Ástfanginn karlmaður lifir fullnægjandi lífi án þess að komast nokkurn tímann í snertingu við viðfang ástar sinnar. Hin fullkomna ást verður þannig til í heimi þar sem aðeins er einn leikstjóri, engin lykt, engin snerting og aðeins einn líkami. Þessir tveir þátttakendur í verki Kristleifs, karlinn og konan, vitundin og viðfang hans, endurspegla ákveðna þætti í samfélaginu og falla þannig átakalaust að hugmyndum einsögunnar.

Í heimi einsögunnar rekumst við jafnframt á framandi fjöll, ryðgaðar skíðalyftur, yfirgefin leiksvæði og niðurnítt íbúðarhúsnæði. Verk þeirra Katrínar Elvarsdóttur, Péturs Thomsens og Ingvars Högna Ragnarssonar eiga margt sameiginlegt og vekja svipaðar kenndir. Í þeim sjáum við brot af framandi heimi sem við þráum ef til vill að stíga inn í og kanna betur. Hvers vegna leynist Kristslíkneski í skógarrjóðri hátt uppi í fjöllum Slóvakíu og hvaða fólk er það sem býr í þessu nöturlega rússneska blokkahverfi sem Pétur Thomsen veitir okkur innsýn í?

Ljósmyndir Katrínar, Péturs og Ingvars Högna fjallar allar um Evrópu. Þetta er sú Evrópa sem kallar á okkur en er sjaldan haldið á lofti. Hér eru hvorki stórborgir, fornar bygginar né glæsilegt menningarlíf, en engu að síður fela þessar ljósmyndir allar í sér brot af því sem er kjarni Evrópu. Ég vil að minnsta kosti halda því fram að þær veiti okkur ákveðinn aðgang að þessum kjarna og gildir þá einu hvort myndirnar eru teknar í strandbæ í Hollandi, í litlum bæ í norðvesturhluta Rússlands eða í Tatrafjöllunum í norðurhluta Slóvakíu.

Frá Evrópu og heimi einsögunnar liggur leiðin á ný í gegnum millirými Haraldar Jónssonar, þar sem tveir kaffibollar og kvenmannshendur fanga athyglina eitt augnablik, og inn í heim minninganna. Í þessu rými mæta okkur margskonar minningar. Einar Falur Ingólfsson hefur farið þá leið að máta minningarnar við það sem raunverulega blasir við honum þegar hann sækir heim ólíka staði sem mynduðu umgjörð um æsku hans. Hann snýr aftur til æskustöðvanna með minningar í farteskinu og kannar hvernig tíminn hefur sett mark sitt á þær. Í ljósmyndum hans mætast hinn huglægi heimur minninganna og hinn hlutlægi veruleiki sem ljósmyndin fangar. Ljósmyndir Einars Fals mótast af endurminningum hans en megna um leið að kalla fram tilfinningar og upplifanir sem tilheyra sviði hins ómeðvitaða. Í grunninn fjalla þær um samspilið milli upplifunar og reynslu, milli þess sem býr í minningunni og þess sem er, um hið innra og hið ytra og hvernig þetta tvennt vinnur saman og mótar hvað annað.

Ljósmyndum Einars Fals er að einhverju leyti ætlað að staðfesta ákveðnar minningar og kallast því á vissan hátt á við verk Grétu S. Guðjónsdóttur. Verk Grétu eru úr myndaröð sem hún tók af ömmu sinni, Guðnýju Kristrúnu Níelsdóttur, sem ætíð var kölluð Dúna. Myndirnar tók Gréta á margra ára tímabili og á þeim má fylgjast með eldri konu takast á við athafnir daglegs lífs og hrörnunina sem óhjákvæmilega fylgir ellinni. Á ljósmyndunum sjáum við hvernig líkami Dúnu hrörnar smám saman, hreyfingar hennar verða hægari og hversdagslegar athafnir breytast í hindranir. Að lokum hverfur einnig blikið í augunum og persónuleikinn dofnar. Öll þau ár sem Gréta vann að myndaröðinni var hún meðvituð um að samveran við ömmu Dúnu tæki enda. Ljósmyndirnar eru því markvisst teknar í þeim tilgangi að skapa minningar, að búa til flæði og röð endurminninga, sem varpa ljósi á líf Dúnu og athafnir hennar en hafa um leið víðari skírskotun og fjalla um það hlutskipti sem við deilum flestöll, að lifa í návist ellinnar, hrörnunarinnar og dauðans.

Frá endurminningum Grétu færum við okkur inn í heim óljósari minninga og að verkum Charlottu Hauksdóttur. Charlotta bregður upp brotakenndri sýn á veruleikann og þrátt fyrir að viðfangsefni hennar séu oft á tíðum hversdagsleg og í þeim skilningi ópersónuleg fela þau í sér sterka nærveru og áþreifanleika. Charlotta deilir með okkur liðnum stundum í gömlu húsi. Við skynjum og deilum með henni þeirri upplifun sem felst í því að vakna til nýs dags í mjúku rúmi og horfa milli svefns og vöku á rykkorn dansa í sólinni við gulleitan stólfót. Verk Charlottu Hauksdóttur höfða fyrst og fremst til hins ómeðvitaða minnis. Þau kalla fram ákveðna tilfinningu og upplifun fyrir veruleikanum og þrátt fyrir að við deilum þessum minningum ekki með Charlottu deilum við með henni ákveðinni tilfinningu fyrir veruleikanum og það er þessi tilfinning sem ljósmyndir hennar ná að fanga og kalla fram.

Í heimi minninganna sýnir Katrín Elvarsdóttir verk sem höfða fyrst og fremst til hins ómeðvitaða. Þær fela í sér upplifuð augnablik. Augnablik sem standa utan við tungumálið en vakna af værum blundi fyrir einstæða tilviljun og heltaka áhorfandann stundarkorn. Ljósmyndir Katrínar tala ekki til skynseminnar. Þær höfða fyrst og fremst til hins ómeðvitaða minnis sem er dulið í skynfærunum. Líkt og verk Charlottu færa ljósmyndir Katrínar okkur minningabrot, sem tilheyra ekki okkur sjálfum, en öðlast nýtt líf þegar þau vekja tilfinningar sem við höfðum varðveitt innra með okkur. Tilfinningar sem við erum hugsanlega ófær um að tengja við ákveðna atburði en vekja engu að síður hugrenningatengsl sem gefa augnablikinu nýja merkingu.

Í heimi minninganna blasa við okkur verk sem ögra hinum línulega tíma. Þegar við virðum fyrir okkur hvít blóm á skógarbotni, blúndugardínur sem bærast í vindinum og rólur sem sveiflast mjúklega í vindinum er eins og tíminn fari á flot. Löngu liðnir atburðir, upplifun sem við varðveitum innra með okkur, minna fyrirvaralaust á sig. Minningin heltekur okkur. Við finnum fyrir henni með öllum skynfærunum, rifjum upp lyktina, áferðina og óljósa sýn sem birtist okkur eitt afmarkað augnablik.

Þrátt fyrir kyrrðina sem verk Katrínar fela í sér býr jafnframt í þeim einhver háski. Ef til vill stöndum við í verkum hennar frammi fyrir því augnabliki sem býr yfir hvað mestri fegurð og varir aðeins stundarkorn áður en áfallið dynur yfir, áður en veruleikinn sjálfur brýst í gegn, og ólíkar tímaheildir renna saman. Fortíðin birtist þannig líkt og leiftur á stund hættunnar og raskar ró okkar.

Í þessum texta hefur verið vísað ómeðvitað og meðvitað í aðra texta eftir sjálfa mig og aðra.

Meðal þeirra texta sem vísað er til með meðvituðum en óljósum hætti eru:

  • –  Benjamin, Walter: The Arcades Project. Howard Eiland og Kevin McLaughlin þýddu. The Belknap Press of Harvard Uni- versity Press, 1999.
  • –  Benjamin, Walter: ,,Um söguhugtakið (Greinar um sögu- speki)“. Guðsteinn Bjarnason þýddi. Hugur, 17. árg. 2005.
  • –  Carlo Ginzburg: „Einsaga: Eitt og annað sem ég veit um hana.“ Sigrún Sigurðardóttir og Björn Þorsteinsson þýddu. Molar og mygla. Um einsögu og glataðan tíma. Ólafur Rastrick og Valdimar Tr. Hafstein ritstýrðu. Atvik 5. Reykjavík- urakademían – Bjartur, 2000.
  • –  Einsagan – óíkar leiðir. Átta ritgerðir og eitt myndlistarverk. Erla Hulda Halldórsdóttir og Sigurður Gylfi Magnússon rit- stýrðu. Háskólaútgáfan, 1998.
  • –  Proust, Marcel: Í leit að glötuðum tíma. Leiðin til Swann I og II. Pétur Gunnarsson þýddi. Bjartur, 1997 og 1998.
  • –  Sigrún Sigurðardóttir: Afturgöngur og afskipti af sannleik- anum. Þjóðminjasafn Íslands, 2009.
  • –  Sigrún Sigurðardóttir og Hjálmar Sveinsson: Endurkast/Reflection. Íslensk samtímaljósmyndun/ Icelandic Contempor- ary Photography. Þjóðminjasafn Íslands, 2008.
  • –  Sigrún Sigurðardóttir: „Magðalenukökur. Um fortíð og fram- tíð í sagnfræði samtímans.“ Frá endurskoðun til upplausnar. Hilma Gunnarsdóttir, Jón Þór Pétursson og Sigurður Gylfi Magnússon ritstýrðu. Miðstöð einsögurannsókna og Reykja- víkurakademían, Reykjavík, 2006.
  • –  Sigrún Sigurðardóttir: „Engill sögunnar. Um díalektískar myndir, óvæntar minningar og fortíðina í sjálfri mér.“ Fyr- irlestur, fluttur á aðalfundi Sagnfræðingafélags Íslands 18.

mars 2006.

  • –  Sigrún Sigurðardóttir: „Tilbrigði við fortíð. Um einsögu og hið póstmóderníska ástand.“ Tímarit Máls og menningar 60. árg., 1999.
  • –  Sigurður Gylfi Magnússon: Sjálfssögur. Minni, minningar og saga. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 11. Háskóla útgáfan, 2005.
  • –  Sigurður Gylfi Magnússon: ,,The Singularization of History.  Social History and Microhistory within the Postmodern State of Knowledge.“ Journal of Social History, vol. 36, 2003.
  • Tilvísanir
  • 1  Marcel Proust, Í leit að glötuðum tíma. Leiðin til Swann I, Pétur Gunnarsson þýddi. Bjartur, 1997 bls. 59-60.
  • 2  Marcel Proust, Í leit að glötuðum tíma. Leiðin til Swann I, Pétur Gunnarsson þýddi. Bjartur, 1997, bls. 61.

Um Listamennina:

Charlotta Hauksdóttir er fædd í Reykjavík en býr og starfar í San Francisco. Hún lauk BA námi frá Istituto Europeo di Design, í Róm á Ítalíu árið 1997 og mastersnámi í listrænni ljósmyndun árið 2004 frá San Francisco Art Institute. Hún hefur unnið að ýmsum verkefnum og tekið þátt í bæði einkasýningum og samsýningum í Róm, Kaliforníu, Toronto, Colorado og Reykjavík. Myndir úr einkasýningu hennar í Árbæjarsafni Reykavíkur eru nú partur af þeirra myndasafni. Hennar myndir er einnig að finna í opinberri og einkaeigu á Ítalíu, Íslandi, Þýskalandi og í Bandaríkjunum og hafa verið birtar í fjölmörgum tímaritum.

www.charlottamh.net

Einar Falur Ingólfsson er fæddur 1966 í Keflavík en býr og starfar í Reykjavík. Hann lauk MFA gráðu í ljósmyndun frá School of Visual Arts, New York árið 1994 og hefur unnið á Morgunblaðinu frá árinu 1981 sem ljósmyndari, fréttaritari, menningarblaðamaður og bókmenntarýnir auk þess sem hann gegndi starfi myndstjóra þess um tólf ára skeið. Einar Falur hefur verið stundakennari við Listaháskóla Íslands frá árinu 1997 og hefur kennt á ýmsum ljósmyndanámskeiðum, haldið einkasýningar, tekið þátt í fjölda samsýninga bæði hérlend- is og erlendis og það hafa birst eftir hann ljósmyndir í ýmsum tímaritum víða um heim. Auk þessa hefur Einar Falur fengist við sýningarstjórn og komið að útgáfu bóka nú síðast var hann einn af höfundum bókarinnar Undrabörn sem gefin var út í tilefni af samnefndri ljósmyndasýningu Mary Ellen Mark í Þjóðminjasafni Íslands og hlaut tilnefningu til Hinna íslensku bókmenntaverðlauna árið 2007.

www.efi.is

Gréta S. Guðjónsdóttir er fædd 1968 og býr og starfar í Reykjavík. Hún lauk BA gráðu í listrænni ljósmyndun frá AKI, Akademie voor beeldende kunst, Hollandi, 1996. Hún lauk einnig námi í kennslu og uppeldisfræði í KHÍ og hefur frá árinu 1997 kennt ljósmyndun á listasviði Fjölbrautarskólans Breiðholti. Gréta hefur starfað sjálfstætt sem ljósmyndari hér á landi síðan 1996 og verkefnin verið mörg og fjölbreytileg. Hún tók þátt í samsýningum í Enschede 1996 og Amsterdam 1997. Hér á landi hefur hún tekið þátt í samsýningum Blaðaljósmyndarafélags Íslands og Ljósmyndarafélags Íslands. Gréta var með einkasýningu í gallerí Start Art í September 2008 og í Eymundson, Austurstræti 2009. Hún hefur unnið til nokkurra verðlauna á sýningum Ljósmyndarafélags Íslands og í samkeppni á vegum Agfa 2004.

www.greta.is

Haraldur Jónsson er fæddur 1961 í Finnlandi og býr og starfar í Reykjavík. Hann lauk námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1987 og hélt þá til Þýskalands þar sem hann lauk námi sem Meisterschüler frá Listaakademíunni í Düsseldorf í Þýskalandi. 1991-92 nam hann við Institut des Hautes Etudes en Arts Plastiques í París í Frakklandi. Haraldur er í hópi framsæknustu myndlistarmanna sinnar kynslóðar en líkt og fleiri úr þeim hópi hefur hann fært út kvíarnar á liðnum árum og notar ýmsa miðla við sköpunina. Frá árinu 1989 hefur Haraldur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum og haldið einkasýningar hérlendis, í Evrópu, Norður Ameríku og Ástralíu. Verk hans er að finna í helstu opinberum söfnum hérlendis og í Noregi og eru til í ýmsum einkasöfnum víða um heim. Haraldur er einn af fáum Íslendingum sem hafa fengið verðlaunin Snorrann og hann var einnig tilnefndur til Menningarverðlauna DV 2009 fyrir sýningu sína Myrkurlampi sem og fyrir bók sína Fylgjur árið 1998.

www.this.is/comet

Ingvar Högni Ragnarsson er fæddur 1981 og býr og starfar í Reykjavík. Ingvar úrskrifaðist af lista- og margmiðlunarsviði í Borgarholtsskóla 2004, lauk BA námi frá Listaháskóla Íslands 2007 og var við nám í Koninklijke Academie von Beeldende Kunsten í Den Haag í Hollandi 2006 sem Erasmus styrkþegi. Ingvar hefur tekið þátt í ýmsum samsýningum hérlendis og einnig í Þýskalandi og Brasilíu og hefur haldið eina einkasýningu í Reykjavík árið 2006. Hann hefur unnið ýmis ljósmyndaverkefni og nýlega gaf hann út sitt fyrsta bókverk, Þess á milli, í samvinnu við Nýhil.

www.ihragnarsson.com

Katrín Elvarsdóttir er fædd á Ísafirði 1964, en býr og starfar í Reykjavík. Hún lauk BA námi í frönsku frá Háskóla Íslands 1988, lauk námi í ljósmyndun frá Brevard Community College í Bandaríkjunum 1990 og BFA námi frá Art Institute of Boston í Bandaríkjunum, 1993. Hún hefur kennt ljósmyndun bæði í Banda- ríkjunum, Danmörku og frá 2006 við Listaháskóla Íslands. Katrín hefur tekið þátt í samsýningum víða um heim og einkasýningum hérlendis, í Danmörku og í Bandaríkjunum. Hún hefur hlotið ýmsar virtar viðurkenningar s.s. tilnefningu til Heiðursverðlana Myndstefs 2007 og nýverið hlaut hún fyrstu verðlaun á sýningunni Camera Works 2009. Verk eftir hana eru í eigu helstu safna hérlendis. Katrín hefur einnig tekið þátt í ýmsum menningartengdum samstarfsverkefnum.

www.katrinelvarsdottir.com

Kristleifur Björnsson er fæddur í Reykjavík árið 1973. Hann lauk námi frá HGB Myndlistarháskólanum í Leipzig árið 2003 og hefur starfað að list sinni síðan þá í Reykjavík og í Berlín, þar sem hann er búsettur um þessar mundir. Kristleifur hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum á Íslandi, Norðurlöndum og víða í Evrópu. Hann átti m.a. verk á stórri yfirlitssýningu Street and Studio; an Urban History of Photography, í Tate Modern safninu í Lundúnum 2008. Síðustu einkasýningar Kristleifs eru sýningin Hlíðar/Slopes í Skaftfelli á Seyðisfirði sumarið 2008 og sýning í Kaupmannahöfn á þessu ári. Hann hlaut listamannalaun úr launasjóði myndlistarmanna fyrir árið 2008 og heiðursverðlaun HGB Myndlistaháskólans í Leipzig árið 2001.

www.kristleifur.com

Pétur Thomsen er fæddur í Reykjavík 1973, en býr nú og starfar í Grímsnesi, Árnessýslu. Hann nam frönsku, listfræði og fornleifafræði við Háskóla Paul Valéry í Montpellier í Frakklandi 1997-1999. 2001 lauk hann BTS gráðu í ljósmyndun frá Ecole Supérieure des Métiers Artistiques í Montpellier og MFA gráðu 2004 frá École Nationale Supérieur de la Photographie (ENSP) í Arles, Frakklandi. Pétur hefur verið mikilsvirtur í sýningarhaldi hérlendis og erlendis og verk eftir hann í eigu opinberra safna hér á landi, í Frakklandi og Sviss. Hann hefur verið tilnefndur til mikilsvirtra verðlauna og hlotið m.a. alþjóðlegu unglistaverðlaun LVMH – Louis Vuitton Moët Hennessy. Árið 2005 var Pétur valinn af Elysée safninu í Sviss til þátttöku í sýningunni ReGeneration, 50 ljósmyndarar framtíðarinnar.

www.peturthomsen.is