Ljósmyndir: Simone de Greef
Yfirtaka
Anna Kolfinna Kuran
5. júní – 31 október 2021
Yfirtaka er röð gjörninga eftir Önnu Kolfinnu Kuran, þar sem markmiðið er að fylla ólík rými með kvenorku og líkömum. Kveikju verksins má rekja til vangaveltna um sýnileika kvenna í samfélaginu. Á Íslandi er ekki hægt að fullyrða að konur séu ósýnilegar eða raddlausar. En hvaða konur eru það sem við heyrum í og sjáum? Hverjar eru það sem taka pláss og hafa hljómgrunn? Hugmyndin með Yfirtökunni er að búa til vettvang fyrir konur úr ólíkum samfélagshópum að sameinast í samstöðu og krafti. Verkið kannar mátt mýktarinnar og kyrrðarinnar og orkunnar sem myndast þegar margar konur koma saman.
Fyrir Listasafn Árnesinga hefur Anna Kolfinna skapað þríþætt verk sem byggir á hugmyndafræði Yfirtökunnar: myndbandsverk, gjörning á opnun sýningarinnar og hljóðverk. Í myndbandinu mynda konurnar samstöðu, búa til mynstur og máta sig við arkitektúr listasafnsins. Þetta er staðbundið myndbandsverk þar sem flytjendurnir fást við dularfullar og táknrænar athafnir. Á opnunardegi sýningarinnar þann 5. júní 2021, gerðu konurnar innrás í listasafnið og frömdu gjörning þar sem voru sterkar tilvísanir í athafnir myndbandsins. Þær birtust innan um sýningargesti og leiddu hæga og stigmagnandi athöfn sem skapaði dulúðlega og rafmagnaða stemmningu. Eftir opnunina endurfæddist hluti verksins. Raddhluti gjörningsins á opnunardeginum var tekinn upp og settur aftur inn í rýmið, þar sem hann hljómaði líkt og bergmál gjörningsins, og öðlaðist þannig sjálfstætt líf sem hljóðverk það sem eftir lifir sýningartímabilsins.
Myndbandsverkið, gjörningurinn frá opnunardeginum og hljóðverkið eru þríþætt nálgun á sama viðfangsefnið sem rannsakar mörk tíma og rúms í einum rauðum alheimi.
Anna Kolfinna Kuran (f. 1989) er sjálfstætt starfandi listakona. Hún útskrifaðist með BA- gráðu af samtímadansbraut Listaháskóla Íslands árið 2013 og með meistaragráðu í performance fræðum (e. performance studies) úr New York Háskóla árið 2017. Verk Önnu Kolfinnu taka á sig ólíkar myndir þar sem flæði milli miðla, greina og aðferða er greinilegt, megin áherslan liggur þó í því sjónræna og líkamlega. Gegnumgangandi þemu í verkum hennar eru að rannsaka viðfangsefni sem við koma líkama konunnar og samtíma femínisma. Anna Kolfinna er meðal stofnenda fjöllistahópanna Dætur og Kraftverk sem unnið hafa að ýmsum sýningum sem meðal annars fyrir Reykjavík Dance Festival (2013) og Sequences Art Festival (2015). Undanfarin ár hefur Anna Kolfinna einblínt á langtíma verkefni sem ber titilinn Konulandslag þar sem hún rannsakar tengsl milli kyns og rýmis. Verkefnið er marglaga listræn og fræðileg rannsókn þar sem hún skoðar vægi kvenlíkamans og sýnileika kvenna í mismunandi umhverfum. Markmiðið með verkefninu er að varpa ljósi á og gera heim kvenna, í sinni margslungnu mynd, sýnilegan í formi lifandi verka á sviði, gjörninga, ljósmynda og myndbandsverka. Meðal þessara verka eru röð gjörninga undir yfirskriftinni Yfirtaka þar sem markmiðið er að fylla ólík rými með kvenlíkömum og röddum.
Hér er hægt að hlaða niður sýningarskránni sem pdf: