Frá mótun til muna
17. ágúst – 21 október 2018
Jörð – eldur – vatn – loft
Sigurlína Osuala
Leirkeragerð er elsta handverksaðferð sem við höfum þekkingu á enn þann dag í dag. Á steinöld (7000-3000 f.Kr.) tóku leirílát við af steinílátum. Leirinn var tekinn úr jörðu í nánasta umhverfi, mótaður og brenndur við opinn eld. Það er töfrum líkast að efni sem jörðin gefur af sér og er svo mörgum sjálfgefið og ómerkilegt sé hægt að móta og það verði að föstu formi í snertingu við eld. Aðferðir og tækni við að móta leirinn, glerja og brenna hafa þróast mikið og tekið á sig ýmsa mynd en undirstöðuatriðin hafa ekki breyst. Fjölbreytileiki efnisins og nálgun listamannsins eru óteljandi en hver og einn verður að kynnast hindrunum og takmörkum leirsins og finna möguleikana með því að tengjast leirnum, sýna þolinmæði, þol og virðingu gagnvart efninu. Leirinn er lifandi efni og kemur við allar tilfinningar mannsins, eitthvað sem virðist mjög auðvelt getur verið mjög erfitt og kallar fram svita og tár, þolinmæði og elju en einnig mikla gleði, skemmtun og sigurtilfinningu.
Á sýningunni Frá mótun til muna gefur að líta handmótuð og rennd leirverk, sem eru ýmist rakúbrennd eða brennd með annarri frumstæðri aðferð. Þau eru unnin af þátttakendum á námskeiði sem haldið var haustið 2017 að frumkvæði leirlistamannanna Steinunnar Aldísar Helgadóttur og Hrannar Waltersdóttur í Hveragerði og Ingibjargar Klemenzdóttur. Námskeiðið var haldið á vinnustofu og heimili Ingibjargar í Ölfusi. Þær fengu sænskan leirlistamann og kennara, Anders Fredholm, til landsins til þess að kenna hvernig byggja á viðarkynntan leirbrennsluofn fyrir rakúbrennslur og aðrar frumstæðar leirbrennslur. Auk þeirra þriggja fyrrnefndu tóku sex leirlistarmenn víða af landinu þátt í námskeiðinu, þær Bjarnheiður Jóhannsdóttir, Guðbjörg Björnsdóttir, Hólmfríður Arngrímsdóttir, Katrín Karlsdóttir, Ólöf Sæmundsdóttir og Þórdís Sigfúsdóttir. Verkin voru ýmist unnin á námskeiðinu eða í framhaldi þess.
Rakúbrennslan kom til sögunnar á 16. öld og er upprunalega frá Kyoto í Japan og er ein af þekktustu aðferðum við gerð teskála sem tengjast teathöfnum Japana. Rakúteskálarnar voru vinsælar meðal tesiðameistaranna vegna grófleika og „náttúrulegra“ eiginleika.
Rakú er lágbrennd brennsla þar sem þurr leirhlutur er settur í heitan ofn og brennt er hratt upp í 800-1000°C og hluturinn þá fjarlægður úr ofninum og kældur. Japanir notuðu jarðleir og handmótuðu teskálarnar. Leirinn var grófur og innihélt mikið grogg (brenndur og mulinn leir) til að þola álagið sem verður í brennslunni og kælingunni.
Þekkingin á rakú barst frá Japan til Vesturlanda árið 1911 með breska leirlistamanninum Bernard Leach. Verk og hugmyndafræði Bernard Leach höfðu mikil áhrif á leirlistamenn um allan heim. Með skrifum um brennsluaðferðina, námskeiðum og samkomum sem hann hélt barst þekkingin um rakú um Vesturlönd og tók á sig nýja mynd.
Rakú varð mjög vinsælt í Bandaríkjunum um 1960 og var leirlistamaðurinn Paul Soldner leiðandi í nýjum aðferðum, svokölluðum póstrakú (post raku firing). Í grunninn var rakúaðferðin sú sama og í Japan þ.e.a.s þurr leirhlutur er settur í heitan ofn og brennt er hratt upp að brennslumarki glerungsins og þá fjarlægður úr heitum ofninum og kældur í vatni eða undir beru lofti. Í póstrakú heldur brennsluferlið áfram og er hluturinn færður beint úr ofninum yfir í tunnur sem innihalda sag eða önnur brennanleg efni. Í tunnunni á sér þá stað súrefnisfirrt andrúmsloft (reduction) sem hefur áhrif á áferð og yfirborð leirsins og glerungsins. Rakúofninn er ýmist hitaður með gasi eða viði og getur verið byggður úr hitaþolnum steinum eða úr kaolinfiber og haldið saman með hænsnaneti. Rakúhlutur er ýmist án eða með glerungi sem getur verið glansandi hvítur sprunguglerungur, glansandi ólíukenndur glerungur eða mjög þurr koparglerungur. Þegar hluturinn er settur í sagið myndast reykur sem gerir leirinn svartan og smýgur inn í sprungur á glerungnum.
Á Vesturlöndum, ólíkt og í Japan, varð rennsla helsta aðferðin við mótun leirsins fyrir rakúbrennslur og einnig tóku verkin á sig ýmis form. Paul Soldner notaði oft rennslu sem grunn að mótun verks og tók formið af rennibekknum og notaði aðrar aðferðir til að móta verkið áfram. Ýmsir listamenn fóru að nota leirinn og rakúaðferðina sem miðil í verkum sínum og meðal þeirra var meðal annars Peter Voulkos.
Fyrir um 40 árum varð til, fyrir tilviljun, ný aðferð innan rakúbrennslunnar sem fékk heitið á upprunalega tungumálinu Naked Raku sem veður þýtt beint hér sem nakið rakú. Nafnið er komið til vegna þess að lag af slipp, sem er sleppiefni, og sprunguglerungi sem borið er á hrábrenndann hlutinn fellur af hlutnum undir lokin í brennsluferlinu og eftir stendur bert yfirborð leirsins. Slippið og sprunguglerungurinn koma í veg fyrir að reykurinn komist að yfirborði leirsins nema þar sem sprungur myndast í slippið og ef teiknað hefur verið í það.
Oft vill leirlistamaðurinn vera einn við vinnu sína og ná góðri einbeitingu og fókus við rakúbrennsluna en aðrir hittast og brenna saman og það myndast góð stemning og spenna og þeir læra hver af öðrum. Fjögur grunnfrumefni heimsins, jörð, eldur, vatn og loft koma að brennslunni og mismunandi aðkoma þeirra myndar útkomuna. Leirlistamaðurinn er hluti af brennsluferlinu en ekki stjórnandi. Hann tengist jörðinni, nýtur og bíður fagnandi hins óvænta.
Við endum hér á orðum Pauls Soldners:
„Kjarninn í rakú er að taka vel á móti því óvænta. Hræðsla við að tapa því sem áður var fyrirhugað má ekki verða og það verður að eiga sér stað löngun til þess að vaxa við uppgötvun hins óþekkta. Kjarninn í rakú: gerðu engar kröfur, ekki búast við neinu, ekki fylgja algildri áætlun, finndu öryggi í breytingum, lærðu að sætta þig við aðrar lausnir og að lokum taktu áhættu byggða á eigin innsæi. Raku býður upp á djúpan skilning á þessum eiginleikum í leirmunagerð sem eru andlegir í eðli sínu, leirmunum unnum af þeim sem eru tilbúnir að búa til muni sem hafa merkingu ekki síður en notagildi.“ (Soldner, 1973)
Heimildir:
Cooper, Emmanuel (2000), Ten Thousand Years of Pottery, fjórða útgáfa bls. 79, Philadelphia, University of Pennsylvania Press
Byers, Ian (1990), The complete Potter, Raku, London B.T. Batsford Ltd
Lazo, Eduardo (2012), Naked Raku and Related Bare Clay Techniques, Bandaríkin, The American Ceramic Society
Um listamennina:
Bjarnheiður Jóhannsdóttir
Bjarnheiður lauk stúdentsprófi af listnámsbraut Menntaskólans á Akureyri árið 1989. Hún nam síðan við Myndlista- og handíðaskóla Íslands í tvö ár og lauk meistaragráðu frá Ungverska listiðnaðarháskólanum árið 1994. Bjarnheiður hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum á liðnum árum og haldið tvær einkasýningar í Stöðlakoti, sá síðari 1997. Bjarnheiður rekur keramíkverkstæði að Jörva í Haukadal í Dalabyggð þar sem hún er búsett.
Guðbjörg Björnsdóttir
Guðbjörg lauk námi frá myndmenntadeild Kennaraháskóla Íslands árið 1991 og diploma-námi í leirlist við Myndlistaskólann í Reykjavík árið 2015. Hún fékk Erasmus-styrk til starfsnáms í postulínsverksmiðjunni Wagner & Apel í Þýskalandi sumarið 2017. Guðbjörg hefur haldið tvær einkasýningar í Leifsbúð í Búðardal, 2011 og 2016 og á verk á samsýningu sem nú stendur yfir í Þýskalandi. Guðbjörg starfar sem sérkennari við Lindaskóla og myndlistarkennari við Myndlistaskólann í Reykjavík. Hún er félagi í FÍMK, félagi íslenskra myndlistarkennara. Guðbjörg rekur leirvinnustofu í Íshúsinu í Hafnafirði.
Hólmfríður Vídalín Arngrímsdóttir
Hólmfríður nam við keramíkdeild Listaakademíunnar í Árósum í Danmörku á árunum 2009-2012. Hún hefur tekið þátt í samsýningum í Danmörku og á Íslandi í Reykjavík, á Akureyri og Dalvík. Hún átti verk á sýningunni Keramík í Listasafni Árnesinga, sem sett var upp í tilefni 35 ára afmæli Leirlistafélags Íslands árið 2016 og er félagi í SÍM og leirlistafélaginu. Hólmfríður rekur keramíkverkstæði í Ólafsfirði þar sem hún er búsett og tók einnig um tíma þátt í rekstri gallerísins Kaolin í Reykjavík.
Hrönn Waltersdóttir
Hrönn nam við lista-, hönnunar- og handverksbraut Iðnskólans í Hafnarfirði 2009-11, lauk diplóma-námi í leirlist frá Myndlistaskólanum í Reykjavík árið 2013 og BA-gráðu í samtíða listiðn frá Háskólanum í Cumbria í Bretlandi árið 2014. Ári síðar sótti hún námskeið í master- og gifsmótagerð í Myndlistaskóla Reykjavíkur hjá Jens Pfotenhauer. Hrönn hefur haldið tvær einkasýningar í Hveragarðinum í Hveragerði og tekið þátt í nokkrum samsýningum hér á landi og í Englandi. Hún átti verk á sýningunni Keramík í Listasafni Árnesinga, sem sett var upp í tilefni 35 ára afmæli Leirlistafélags Íslands árið 2016. Hrönn rekur keramíkverkstæði í Hveragerði.
Ingibjörg Klemenzdóttir
Ingibjörg stundaði nám við Myndlistaskóla Reykjavíkur árin 1993-95 og Myndlistaskóla Kópavogs 1994-95. Hún hóf nám í leirlistadeild Myndlista- og handíðaskóla íslands árið 1996, var gestanemandi við Keramík-stúdíóið í Kecskemét í Ungverjalandi 1999 og lauk BA-gráðu frá Listaháskóla Íslands árið 2000. Ingibjörg hefur tekið þátt í samsýningu á Spáni og fjölmörgum samsýningum hér á landi og átti verk á sýningunni Keramík í Listasafni Árnesinga, sem sett var upp í tilefni 35 ára afmæli Leirlistafélags Íslands árið 2016. Hún er meðlimur í SÍM, og Leirlistafélaginu. Ingibjörg rekur keramíkverkstæði að Hellugljúfri í Ölfusi.
Katrín V. Karlsdóttir
Katrín lauk námi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1988 og Listaháskóla Íslands árið 2001, en var líka gestanemandi við Keramík-stúdíóið í Kecskemét í Ungverjalandi árið 1999. Hún hefur tekið þátt í nokkrum samsýningum hér á landi og átti verk á sýningunni Keramík í Listasafni Árnesinga, sem sett var upp í tilefni 35 ára afmæli Leirlistafélags Íslands árið 2016. Katrín er félagi í SÍM og Leirlistafélaginu. Katrín er ein af átta eigendum Kaolin Keramik Gallerí í Reykjavík og rekur líka eigið verkstæði, Kvalka Keramik Studio.
Ólöf Sæmundsdóttir
Ólöf sótti ýmis myndlistarnámskeið í glerlist, teiknun, olíumálun og málmhönnun við Iðnskólann í Hafnarfirði samhliða námi á listnámsbraut Fjölbrautaskólans í Breiðholti þaðan sem hún lauk stúdentsprófi árið 2007. Hún lauk diplómanámi í mótun frá Myndlistaskóla Reykjavíkur árið 2010 og hefur síðan sótt fleiri myndlistarnámskeið í glervinnslu, keramík og módelteiknun. Hún hefur haldið fjórar einkasýningar á árunum 2004-2008 og tekið þátt í nokkrum samsýningum. Ólöf er einn listamannanna sjö sem reka listarýmið Stígur í Reykajvík.
Steinunn Aldís Helgadóttir
Steinunn Aldís lauk námi frá keramíkdeild KV Stokkhólms háskóla og listnámsbraut Levande verkstad við Åstagårdens Folkhögska í Stokkhólmi, þar sem hún bjó um árabil. Hún hefur sýnt verk sín á Svarta katten í Stokkhólmi, Gullkisunni Laugavatni, Grósku í Garðabæ og Handverk og Hönnun í Reykjavík. Steinunn Aldís flutti til Hveragerðis árið 2015 og rekur nú vinnustofu í Listhúsinu Egilsstaðir í Hveragerði ásamt félögum sínum í Handverk og Hugvit undir Hamri.
Þórdís Sigfúsdóttir
Þórdís stundaði nám við keramíkdeild Listaakademíunnar í Árósum í Danmörku 2010-13 og fékk rannsóknarstöðu við keramikdeildina 2013-14. Hún hefur tekið þátt í nokkrum samsýningum bæði hér á landi og í Danmörku. Þórdís átti verk á sýningunni Keramík í Listasafni Árnesinga, sem sett var upp í tilefni 35 ára afmæli Leirlistafélags Íslands árið 2016. Þórdís rekur eigið keramíkverkstæði ásamt litlu galleríi að Dalbrekku 32 í Kópavogi.
Sýningarstjóri: Inga Jónsdóttir