GEYMAR
Sirra Sigrún Sigurðardóttir
16. maí – 12. júlí 2015
Inga Jónsdóttir safnstjóri
Hvernig hreyfir myndlistin ímyndunarafl áhorfandans? Hvernig getur myndlist veitt okkur aðra sýn á tilveruna, vakið annan skilning og örvað uppgötvun, sem er ekki síður mikilvægt en önnur þekkingaröflun? Hvað hrífur listamanninn til sköpunar? Er það umhverfið og þá hvað í umhverfinu?
Við skoðun á myndlist Sirru Sigrúnar Sigurðardóttur vakna slíkar spurningar. Af yfirvegun veltir hún fyrir sér ólíkum viðfangsefnum sem snerta mannlega tilvist og þróar verk sín út frá því. Hún vinnur m.a. markvisst með tölfræðilegar upplýsingar, myndrænar niðurstöður vísindarannsókna eða kenninga, ummyndar þær og aðlagar lögmálum myndlistar, s.s. lit, formi, rúmi og tíma. Í innsetningum sínum vinnur hún með sjónhverfingar sem hrífa áhorfandann á vit upplifunar og víða má sjá tilvísun í listasöguna, ýmist persónulega eða í víðara samhengi, blandaða kímni og alvöru.
Á sýningunni GEYMAR er gestum boðið að ganga inn í myndheim Sirru og sjá bæði ný og eldri verk, sem flest hafa ekki verið áður sýnd á Íslandi. Í lok árs 2012 útnefndi tímaritið Modern Painters 24 alþjóðlega listamenn sem vert væri að fylgjast með á komandi árum og var Sirra þar á meðal. Það er því ánægjulegt að kynna myndlist hennar í Listasafni Árnesinga og sýna m.a. hvernig hún tengir nærsamfélagið inn í verk sín, en Sirra er fædd og uppalin á Selfossi. Sýningin er hluti af dagskrá 29. Listahátíðar í Reykjavík 2015.
“Uppsprettan getur komið hvaðan sem er…“
Guðni Tómasson listfræðingur
Við Sirra hittumst í Kling & Bang galleríi við Hverfis götu á köldum en sólríkum apríldegi. Birtan flæðir inn í hvítt rýmið sem þó er myrkvað að hluta. Þarna hefur hún verið meðal aðstandenda gallerísins frá upphafi og sett upp sýningar margra listamanna ásamt samverkamönnum sínum. Við hittumst inni á milli sýninga en verk bandaríska listamannsins Carolee Schneemann eru enn uppi þegar fundum okkar ber saman.
Guðni Tómasson:
Við skoðun á verkunum þínum, Sirra, sér maður oft glitta í vísindalegan efnivið sem þú notfærir þér á þinn hátt og jafnvel í vísindalega nálgun sem blandast fagurfræði verkanna. Er það svo að í þér blundi lítill vísindamaður eða hvað gefa slík vinnubrögð af sér?
Sirra Sigrún Sigurðardóttir:
Áhugi minn á vísindum nær að ég held allt aftur í æsku, ekki það að ég hafi alltaf verið að gera tilraunir eða eitthvað slíkt. Uppáhaldsbækurnar mínar voru alfræðibækur með spennandi skýringarmyndum, t.d. frá Almenna bókafélaginu eða jafnvel erlendar alfræðiorðabækur. Textinn skipti mig minna máli en myndirnar sem þar var að finna. Þær vöktu áhuga minn og gripu athygli mína. Ég held að fagurfræði þeirra hafi haft mikil áhrif á mig. Á mörgum sviðum vísinda og fræða er stólað á myndlýsingar til að skilningur náist í gegn. Þetta samband vísindatexta og mynda hef ég síðan seinna meir skoðað nánar. Þessi áhugi á myndrænni framsetningu vísinda nær allavega mjög langt aftur en ég held að það sé langt í frá þannig að í mér blundi óuppgötvaður vísindamaður. Samt er það auðvitað svo að maður er alltaf að læra eitthvað heillandi þegar maður vinnur með þennan efnivið. Mér finnst ég þurfa að lesa mér til og ná vissum grunnskilningi, þó að kveikjan sé yfirleitt bara mynd úr einhverri fræðilegri átt.
G.T.
Við notum auðvitað myndir til að skilja heiminn.
S.S.S.
Já, þetta eru skyld svið, vísindi og myndlist, sem hafa í raun runnið saman í auknum mæli undanfarna áratugi, en voru áður náin t.d. á sviðum heilbrigðis- og geimvísinda. Ég var tiltölulega lengi að læra að lesa þannig að myndir urðu mér mikilvægar þegar kom að skilningi, eins og kannski á við um flest börn. Þannig ferðast maður í hringi, kemur aftur að skýringarmyndum og notar þær sem efnivið. Samt er það þannig að fyrir mig skiptir það litlu máli hvort efniviðurinn kemur úr „réttum“ vísindum, einhvers konar gervivísindum eða einhverjum hugmyndum sem eru úreltar. Uppsprettan getur komið hvaðan sem er. Það er hið sjónræna sem þarf að vera til staðar og grípur athygli mína.
Nokkur verkanna minna eru t.d. skýringarmyndir þar sem búið er að fjarlæga textann og eftir standa hreinar og stundum litríkar myndir sem standa alveg sjálfstæðar fyrir sínu. Fyrsta stóra verkið sem ég gerði af þessu tagi er í grunninn mynd af þróunarsögu alls lífs á jörðinni í 10 þúsund milljón ár (2008) en verkið var einmitt sýnt á sýningunni Að þekkjast þekkinguna í Listasafni Árnesinga árið 2010. Þar fjarlægði ég upplýsingar í formi texta en eftir voru upplýsingar, sem erfiðara var að ráða í en urðu í raun að abstrakt verki. En ára vísindanna varð einhvern veginn eftir um leið og myndin komst í samband við listasöguna, við þessa umbreytingu. Önnur slík verk, fengin að láni úr heimi vísindanna, verða þannig í raun „pjúra“ landslag.
G.T.
Já, einmitt. Í nýjustu verkunum á þessari sýningu, seríu sem þú kallar Stíflu, gerist þetta. Myndirnar fengnar innan úr auganu, ekki satt?
S.S.S.
Jú, þetta eru myndir af stíflum í æðum í augnbotnum og reyndar öðrum krankleikum sem valda blindu. Ég rakst á þessar myndir sem ég sé sem landslag og er hér að tengja saman, á mjög beinan hátt, hversu blind við erum á náttúruna í kringum okkur. Fyrir mér skiptir máli að þetta séu myndir úr augunum því að sjónin er ekki bara það sem maður sér heldur líka hvað maður gerir við þær upplýsingar. Mér finnst við bara vera ansi dofin þegar kemur að því að sjá hvernig við göngum um náttúruna.
G.T.
En svo eru þeir sem horfa á náttúruna í gegnum linsu listarinnar. Myndlistin mótar auðvitað sýn okkar á landið, eða er það kannski eitthvað að breytast?
S.S.S.
Já, þannig er það líka, en kannski er samt eitthvað að kvarnast úr þessu hjá yngri kynslóðum. Maður hefur á tilfinningunni að fyrir kynslóðirnar á undan okkur hafi myndlist skipað stærri sess í mótun hugmynda um land og þjóð en í samtímanum. Fólk þekkti almennt stóru nöfnin í myndlistinni. Landslagsmálararnir bjuggu til táknmyndir og landslagið varð þáttur í hugmyndafræðinni á bak við sjálfstæðisbaráttuna. Það er áhugavert að við snérum okkur inn að miðjunni, að auðninni og upp til fjalla, en ekki út að hafi. Mér var blessunarlega druslað sem krakka út um allt land og landið sjálft síaðist inn, frekar en framsetning málaranna, hún kom seinna. Þannig myndast einhver hræringur af eiginlegri náttúru og miðluðum útgáfum af henni.
G.T.
En hvað varðar vísindin lifum við núna í sprenglærðum vestrænum samfélögum þar sem vísindi eru samt á stundum dregin í efa þrátt fyrir að vera rækilega prófuð og sönnuð, og eiga jafnvel undir högg að sækja?
S.S.S.
Já, það er einmitt svo merkilegt við okkar samtíma hvað það er auðvelt að misfara með upplýsingar og skrumskæla þær, til að þóknast ýmsum öflum. Þannig ætti ég líka að geta breytt því sem ég tek úr heimi vísindanna. Auðvitað geta allir lagað upplýsingar að því sem þjónar hagsmunum hvers og eins, en það sem skiptir máli er hvað býr að baki. Hvort sem við erum að tala um hlýnun jarðar, hagfræði eða eitthvað annað þá skiptir miklu máli hvernig upplýsingarnar eru settar fram í tali og texta, en ekki síður myndrænt. Menn geta auðveldlega hagrætt því hvernig kúrfurnar líta út, hve brött línuritin eru og svo framvegis. Við lifum á tímum þar sem við erum að drukkna í flóði upplýsinga og erfitt getur verið að greina hvað er rétt, eða byggist á traustum grunni og hvað ekki.
G.T.
En er það nokkuð þannig að áður en þú byrjar á nýju verki setjir þú fram tilgátu – ertu svo vísindalega þenkjandi?
S.S.S.
Nei, nei. Það er það áhugaverða við listina að hún krefst ekki niðurstöðu, ólíkt því sem á almennt við í vísindum. Stundum er það samt svo að vísindamenn geta t.d. verið að rannsaka eitthvað árum saman án þess að niðurstaða fáist eða án nokkurs augljóss notagildis rannsóknanna. Samt má segja að listamaðurinn setji fram í vinnu sinni einhvers konar jöfnu sem á eftir að reikna. Það er þá áhorfandans að reikna hana, kannski sanna eða afsanna, eftir sínu höfði. Hver og einn gengur að listaverki með sína þekkingu, sögu, reynslu og tilfinningar. Ég veit aldrei hvað þessi „hinn“ kemur til með að sjá eða leggja saman. Þetta gerir það spennandi að fá vísindalegt myndmál að láni því að á meðan einn sér eitthvað abstrakt getur annar séð upplýsingar jafnvel þó að ég sé búin að þurrka þær út. Það er erfitt að tala um niðurstöðu á því sviði myndlistarinnar sem ég tel mig vinna innan. Þannig getur verk haft allt aðra merkingu eftir 10 eða 50 ár en það hefur í dag, þannig er „tími“ verka mjög óljós, hvar það byrjar og hvar það endar. Ferlið og seigfljótandi erindi verksins verður sjálfstætt. Jafnvel þó að maður vinni að einhverri sýningu sem á að vera tilbúin fyrir einhvern ákveðinn dag þá er ekkert sem segir að hún geti ekki tekið breytingum áfram. Hjá mér flæða eiginlegir hlutir jafnt sem tákn á milli verka. Þetta gerir verkin kannski að dáldið erfiðari söluvarningi, en samtímis skapast stærra samtal.
G.T.
Mér finnst þetta einmitt ekki ólík leit og hjá einhverjum sem setur fram kenningu og verður að láta á hana reyna, jafnvel þó að tilraunin eða rannsóknin taki tíma.
S.S.S.
Mér finnst gríðarlega heillandi, og það skilur listamaðurinn í mér vel, að fólk helgi sig verkefni árum saman án þess að út komi skilgreinanleg niðurstaða. Leiðin eða leitin er það sem heillar. Þannig held ég að það sé margt skylt með vinnuaðferðum vísindamanna og listamanna. Þetta er í báðum tilvikum rannsókn og skoðun á heiminum, lífinu eða samfélaginu og mér finnst t.d. mjög áhugavert að lesa ævisögur vísindamanna, jafnvel enn frekar en listamanna. Þar er oft að finna einhverja óhemjumikla seiglu sem mér finnst mjög heillandi.
G.T.
Eins og í fleiri listaverkum og reyndar í flestöllum listgreinum hér á landi hefur hrunið, ekki hið „svokallaða hrun“, komið fram. Þú hefur t.d. leitað fagurfræðilegs efniviðar (í verkinu Landmarks) úr rannsóknarskýrslunni um hrun bankanna sem Alþingi fékk í hendur 2010 og látið ríma við íslenskt landslag. Hvernig kom þessi úrvinnsla til?
S.S.S.
Já, í raun datt ég bara um þetta. Talandi um þessa íslensku landslagshefð. Ég var úti í New York og var eins og fleiri að skoða þessa risastóru skýrslu, bara greip í þetta í pdf-skjölum. Ég skrollaði í gegnum þetta og las svona brot og búta, þá birtist þessi mynd þarna á skjánum, mynd sem í mínum augum er Herðubreið. Bara ekkert annað en Herðubreið, kunnuglegar línur sem lýsa samt einhverju flóknu og skrýtnu í bönkunum fyrir hrun. Þá fór ég að skoða nánar þessi gröf í skýrslunni og fann þannig meira kunnuglegt „landslag“. Þarna valdi ég nokkrar myndir sem ég gat úr fjarlægð í útlöndum parað saman við ákveðin sjónarhorn í myndminninu og sem ég fann síðan með leit á netinu. Það skýrir hvers vegna ljósmyndirnar eru svona „grófar“, en mér fannst þessi samstæðupörun heillandi. Ég vildi vinna þetta hratt, ekki fara á staðina og taka ljósmyndir sjálf, heldur leita og finna samstæðurnar einn, tveir og bingó!
G.T.
Þetta var skýrslan sem féll að einhverju leyti í skuggann af eldgosi, allt gerðist hratt og var skrítið tímabil. En síðan er annað verk sem maður freistast til að tengja hruninu og eftirskálftum þess og reyndar líka alvarlegum hamförum á Suðurlandi, en það er verkið Skjálfti (2012). Það er tekið upp í skjálftaherminum í Hveragerði, sýnir gesti upplifa kraftinn í skjálftanum 2008 (6,7 á Richter). Þetta er verk sem passar vel að sýna í Hveragerði.
S.S.S.
Já, þessi hermir er mjög áhugaverður. Kemur fólki í raun alltaf jafn mikið á óvart þó að það gangi inn í hann vitandi hvað á eftir að gerast og áhrifin eru mjög mismunandi. Þetta verður eins og einhvers konar dans en þetta er ósjálfráður dans og þó að fólkið sé að einhverju leyti undirbúið kemur fyrsta höggið samt alltaf á óvart. Mig langaði að skoða þetta sjónrænt, að sjá sama kraftinn virka mismunandi á marga samtímis. Hér hefur sama utanaðkomandi aflið áhrif á alla. Sumir flissa, sumir stífna upp og sumir verða skíthræddir í þessum tilbúnu aðstæðum, kannski er það eins utan kassans.
G.T.
Einmitt, dálítið vísindaleg hugsun.
S.S.S.
Er það vísindaleg hugsun? Já, kannski. Sjónræn rannsókn, einhvers konar. Þetta tengi ég síðan hruninu sem varð stuttu eftir þennan stóra jarðskjálfta 2008. Ég er fædd og uppalin á Selfossi og var alltaf í jarðskjálftaæfingum í barnaskóla. Atburður eins og jarðskjálfti er alltaf jafn óvæntur sama hversu vel maður er búinn að undirbúa sig, bara eins og svo margt annað í lífinu. Ég sé ákveðna samsvörun milli seigra hreyfinga í t.d. efnahagslífi og pólitík og síðan skyndilegra áfalla og skjálfta. Spennan byggist upp á löngum tíma og svo þarf hún allt í einu að losna einhvern veginn. Fyrir mér var mikilvægt að reyna að tengja þetta saman.
Annars, ef ég lít yfir verkin á þessari sýningu, finnst mér ég sjá mun á eldri og yngri verkunum. Þau eldri eru oftar unnin beint inn í staðinn þar sem þau voru upphaflega sýnd. Í þeim er oft meira viðbragð við einhverju áreiti en þau yngri eru unnin með meiri yfirlegu. Eldri verkin eru líka meira að fjalla um fagið, myndlistarheiminn og það að vera listamaður. Þetta hef ég síðan fjarlægst finnst mér.
G.T.
Af hverju heldur þú að það gerist?
S.S.S.
Það eru örugglega margar ástæður fyrir því, en það má segja að þarna hafi ég hneigst meira í átt að vissum geira samtímalistar sem fjallar mikið um sinn eigin heim og vísar inn á við í sjálfa listina og listasöguna. Þetta er auðvitað bara póstmódernismi og snúið að lesa verkin nema þú þekkir alveg heilan heim af vísunum. Svona list getur alveg verið góð og gild og mér fannst þetta svolítið töff á þessum tíma, sérstaklega af því að þetta er ekki mjög kvenlegt. Síðan bara slakar maður á þegar maður er búinn að tala svona inn á við í smátíma. Þá áttaði ég mig á því að samtalið verður að vera stærra, erindið verður að vera annað en einhvers konar naflaskoðun, mín eða fagsins.
Það má segja að verkið Hreyfingar, sem er eitt elsta verkið á sýningunni, sé einhvers konar tilraun til að takast á við þetta samtal listarinnar við sjálfa sig og tefla því fram gegn samtali listarinnar við umheiminn. Verkið er samtal á milli innri og ytri krafta og lögmála. Kannski gott dæmi um einhvers konar jöfnu sem hægt er að reikna út á ótal vegu.
Mér fannst í rauninni dálítið fjarstæðukennd hugmynd þegar Inga [Jónsdóttir safnstjóri] vildi fá einhver gömul verk á sýninguna en svo er það bara gaman, því að maður nær að sjá hlutina dálítið sem eins konar klasa af verkum svona úr fjarlægð. Þannig voru verkin mín með „akróbötum“, t.d. Upplyfting með listamanninum sem heldur vínglösum á lofti, gerð á góðærisárunum þegar myndlistarmenn voru stundum í hlutverki einhvers konar skemmtikrafta.
Aðstæðurnar hafa alltaf áhrif á það sem maður gerir. Til dæmis ferðaðist maður meira á árunum fyrir hrun og vann þá frekar sýningar sem gerðar voru á staðnum. Það vinnulag finnst mér gott, að vinna hratt og nota það sem er við höndina. Niðurstaðan varð oft mjög staðbundin verk sem eru þannig séð ekki til lengur, ekki nema sem heimild og nálgast því gjörning á einhvern hátt.
G.T.
En þetta hefur gengið upp að lokum að velja gömul verk til að sýna, þú hefur komið heil undan því?
S.S.S.
Tja, það er ekki alveg komið í ljós, en það tók allavega tíma að venjast þessari hugmynd að draga fram eldri verk og koma sér af stað við að velja. Segjum að þetta hafi verðið áhugavert ferli en það verður svo annarra að meta.
G.T.
Er ekki rétt skilið hjá mér að þú sért líka að fara að velja verk úr safneign Listasafns Árnesinga?
S.S.S.
Jú, sem er líka spennandi og skemmtilegt verkefni. Ég man vel eftir safninu sem krakki þegar það var á Selfossi. Þetta var skemmtilegur kjarni með skólum, sundlaug og söfnum (bókasafni, byggðasafni, dýrasafni og listasafninu). Þarna gat maður skotist á milli og ég gerði það. Þarna þvældist ég um og fór t.d. á myndlistarnámskeið og teiknaði upp eftir Ásgrími eða öðru úr safninu og svo var Hildur Hákonardóttir t.d. þarna með jógatíma. Þannig að þetta var mjög fínt. Jóga og Ásgrímur eiga vel saman.
G.T.
Takk kærlega fyrir spjallið, Sirra, og gangi þér vel.
Sirra Sigrún Sigurðardóttir (1977)
Sirra lauk námi frá Listaháskóla Íslands 2001, nam listfræði við Háskóla Íslands einn vetur og lauk meistaranámi frá School of Visual Arts í New York 2013. Hún er í hópi áhrifamikilla listamanna hér á landi og hefur tekið þátt í fjölda sýninga, bæði hér heima og erlendis, meðal annars í Listasafni Reykjavíkur og Tate Modern í London. Sirra er einn stofnenda og eigenda sýningarstaðarins Kling & Bang í Reykjavík þar sem hún hefur skipulagt fjölda sýninga og listviðburða með þátttöku innlendra og erlendra listamanna. Í desember 2012 var Sirra á meðal 24 alþjóðlegra listamanna sem tímaritið Modern Painters útnefndi sérstaklega sem listamenn sem vert er að fylgjast með á komandi árum.