Tilvist Thoreau

16. nóvember 2019 – 26. apríl 2020

Ásthildur B. Jónsdóttir

Við stöndum frammi fyrir neyðarástandi í loftslags­málum sem er til komið vegna óábyrgra athafna, ofneyslu, misréttis og misskiptingar gæða milli þeirra sem á jörðinni búa. Við vitum að staðan er slæm og að loftslagsbreytingar af mannavöldum aukast á degi hverjum. Niðurstöður fjölmargra rannsókna sýna okkur hversu viðkæmt viskerfið er og hve alvarlegt ástandið getur orðið. Unga kynslóðin grátbiður stjórnvöld og almenning um að axla ábyrgð og minnir okkur á að mannkynið hefur aðeins þessa einu jörð.

Þó svo að nú séu liðin 202 ár síðan umhverfis­sinninn, náttúrufræðingurinn, rithöfundurinn og heimspekingurinn Henry David Thoreau fæddist, hafa hugmyndir hans um samband manns og náttúru sjaldan átt jafnvel við og nú. Hann benti á mikilvægi þess að fólk gætti hófsemdar í athöfn­ um þannig að jafnvægið milli framleiðslugetu náttúrunnar og þess sem gengið er á, raskaðist ekki. Hann sá fyrir þær afleiðingar sem óheft og óábyrg nýting auðlinda veldur og hefur haft mikil áhrif á hugmyndir fólks um náttúruvernd.

Á sýningunni Tilvist og Thoreau í Listasafni Árnesinga takast þrjár kynslóðir listamanna á við hugmyndafræði Thoreaus sem kynnt er í bókinni Walden eða Lífið í skóginum. Bókin byggist á hans eigin reynslu þegar hann yfirgaf siðmenningu borgarsamfélagsins og flutti einn inn í skóginn við bakka Walden­tjarnarinnar í Massachusetts­ríki í Bandaríkjunum.

Meginþema bókarinnar er mjög skýrt og felst í því að séu óskir þínar og væntingar til lífsins einfaldar getur lífið verið auðvelt, notalegt og farsælt. Neyslukapphlaup, sem byggist á því að við sækjumst sífellt eftir einhverju sem við höfum ekki raunverulega þörf fyrir, er oft grunnurinn að vandamálum fólks.

Thoreau var hugfanginn af breytiferlum náttúr­unnar. Hann bjó við tjörnina og velti fyrir sér hinum mörgu umbreytingum vatnsins. Hann leitaði að lífsgátunni, einn úti í náttúrunni, þar sem hann dvaldi í tvö ár, tvo mánuði og tvo daga. Hann hafði þennan afmarkaða heim út af fyrir sig og fékk þar tóm til að íhuga tilgang lífsins. Hann naut þess að upplifa hið ljúfasta, blíðasta, saklausasta og mest uppörvandi sem náttúruleg fyrirbæri hafa upp á að bjóða. Í skóginum lærði hann að njóta samvista við árstíðirnar og skilja margbreytileika vatnsins. Með því að læra að skilja sjálfan sig í skóginum upp­ lifði hann að engir staðir í heiminum yrðu honum nokkurn tímann framandi. Thoreau flutti út í skóg því hann vildi læra það sem lífið hefði að kenna honum. Það er mann­leg náttúra að vilja læra að skilja sjálfan sig. Þessi áhersla á sjálfsþekkingu er ekki uppgötvun hans því Sókrates lagði áherslu á að einstaklingar þekktu sjálfa sig og á framhlið musteris Apollos í Delphi voru þessi kjörorð áletruð ÞEKKTU SJÁLFAN ÞIG. Þessi heimspekilegi boðskapur er bráðnauðsynleg­ur í eðli sínu því hann gefur til kynna að maðurinn verður að lifa samkvæmt sjálfum sér og til þess verður hann að þróa með sér siðferðisgildi. Bókin Walden eða Lífið í skóginum varpar ljósi á hug­leiðingar Thoreaus um hvers vegna það er mikil­ vægt að þekkja náttúruna af eigin raun til þess að hafa forsendur til að vernda hana.

Tilraun Thoreau er ekki bara nátengd þessum gömlu hugmyndum sem eiga rætur að rekja til grísku heimspekinganna heldur einnig til þess sem í dag kallast núvitund. Ian Morris segir að núvitund snúist um að skapa sér svigrúm til að stíga tilbaka og kanna hver við erum utan við hraða og umstang daglegs lífs. Í skrifum sínum útlistar hann að núvit­und geti ýmist verið einföld eða erfið í framkvæmd. Iðkandinn getur á einfaldan hátt beint athyglinni að líðandi stund og gefið því gaum sem er að gerast í kringum hann líkt og Thoreau gerði úti í skógi. Þar tileinkaði hann sér einnig erfiðari hluta núvitundar sem felst í því að halda athygli bundinni við einn stað í stað þess að láta hugann reika. Hann náði að fylgjast með því hvernig vatnið breyttist eftir árstíðum og lærði að upplifa hrynjandi náttúrunn­ar – Thoreau sagðist hafa tengst skynfærum sínum þegar hann gekk um Walden­skóginn. Hann sagði jafnframt að þá hefði hann ekkert erindi út í skóg­ inn væri hann að hugsa um eitthvað annað en það sem þar fyrirfindist.

Sýningin Tilvist og Thoreau er tilraun Ingu Jóns­dóttur sýningarstjóra til að setja verk þriggja lista­kvenna, sem tilheyra þremur ólíkum kynslóðum, í merkingarbæra heild. Niðurstaðan er innsetning sem spilar á skilningarvitin og fær áhorfendur til að velta fyrir sér stóra samhenginu þar sem líkamlegir, táknrænir og andlegir heimar mætast. Tilraunir listakvennanna skapa áhugaverða heild, þó að þær hafi ekki þurft að flytja út í skóg eins og Thoreau til að finna tengsl sín við náttúruna. Verkin hafa öll skýra tenginu við umhverfið hvort heldur sem það er að finna í fléttuðum þúfum Hildar Hákonardóttur, hanagali Elínar Gunnlaugs­dóttur eða verkfærum og samtengingum Evu Bjarnadóttur.

Skilaboðin í verkum Hildar byggjast á myndlík­ingum og hún, líkt og Thoreau, leyfir sér að nota tilfinningar sem rök í umfjöllun sinni um náttúruleg fyrirbæri. Hún hefur nýtt þá gömlu handverkshefð að flétta mottur, sem var algeng aðferð á tíma Thoreau til að nýta tau­ og garnafganga. Mottan stendur fyrir manngerða nytjavöru sem í eðli sínu er óþörf þegar þú býrð út í skógi. Að Thoreau skyldi velja dyramottuna sem tákn fyrir óþarfa felur í sér ákveðna þversögn enda játar hann sjálfur að skoðanir hans séu stundum mótsagnakenndar.

Að sögn Hildar er „mottan í sjálfu sér merkilegt fyrirbæri. Hún hefur það hlutverk í híbýlum okk­ar að afmarka það rými sem er inni og veröldina utanhúss og oft eru á hana rituð skilaboð eins og velkomin, til að tákna gestrisni, þarna liggja mörk tveggja heima. Mottan markar þannig skil líkt og lækur sem rennur í gegnum landslag“. Í innsetn­inguna hefur Hildur mótað tilvitnun úr bókinni Walden eða Lífið í skóginum. Textinn er formaður úr grönnum fléttum með tengiskrift. Hluti verksins er form sem gerð eru úr samansaumuðum fléttum í jarðlitum sem tyllt er við vegginn niðri við gólf. Þau geta því bæði staðið fyrir hefðbundnar mottur eða þúfur í landslagi.

Vídeóverk af hreyfingum skógarins sýnir okkur að hún líkt og Thoreau gefur sér tíma til að eiga samtal við náttúruna þar sem hún vinnur með augnablikið á hæglátan hátt, áherslan er á samspil náttúrulegra forma laufblaðanna og andvarans sem leikur um þau. Með því að verja tíma í náttúrunni upplifum við hvernig laufblöðin bærast hægt og rólega. Skógurinn er kvikur, hefur sína eigin tíðni eins og hann vilji hvísla einhverju að okkur. Sams­konar líf er að finna í blekskissu Hildar á léttan hrís­ pappír sem gerð var fyrir bókina. Visnandi plöntur og pensilskrif sem minna á lítinn fræbunka í hægra horni verksins gefa fyrirheit um mögulegt fram­ haldslíf. Hildur þekkir árstíðirnar líkt og Thoreau og fangar hauststemninguna þar sem smáar plöntur íslenskrar náttúru minna okkur á mikilvægi þess að njóta hverfulleika umhverfisins sem svo margir láta fram hjá sér fara í nútímasamfélagi.

Það getur verið erfitt að taka eftir hægfara breyting­ um í náttúrunni eða tungumáli annarra lífvera sem eru ekki beintengdar mannlegum mælikvarða. Eins og til dæmis hægum verkunum eiturefna eða þeim tíma sem það tekur efni að rotna. Lífræn handverkfæri sem Eva mótar úr lúpínumauki vísa í handverkshefðina og tímahugtakið, en einnig í það að lúpínan hefur dreift sér og fest rætur á Íslandi. Hún er ágeng planta og kemur sér fyrir þar sem henni hentar eins og mannskepnan gjarnan gerir.

Í náttúrunni má oft finna vísbendingar sem minna okkur á umferð fólks um hana og í netheimum er líka að finna far eftir notendur í formi tjákna (e. emoji). Þann nútímaminnisvarða fólks s.s. broskarl eða fýlukarl hefur Eva einnig mótað úr lúpínu­ mauki og raðað upp í blómvönd sem er að finna í vasa í anddyrinu. Í bókinni The Invention of Nature: Alexander von Humboldt‘s New World eftir Andrea Wulf, er vísað í hugleiðingar Thoreaus þar sem hann veltir fyrir sér hvort skrif hans verði nokkurn tímann betri en þær hugleiðingar sem hann skráir hjá sér í dagbókina. Hann líkir eigin orðum við blóm og spyr sig hvort þau njóti sín betur í blómavasa (bókinni) eða þar sem þau vaxa úti í hinum óræða heimi (dagbókin). Verkfærin og tjáknin eru tól og tæki sem maðurinn notar til að skilgreina heiminn út frá mælingum og tæknileg­ um upplýsingum. Í daglegu lífi sumra eru tjáknin mikilvægur mælikvarði á þær færslur sem við­ komandi setur inn á samtímamiðla. Tjáknin verða illgresi líkt og lúpínan í mannheimum. Samfélags­ leg viðmið koma svo fram í fjölda þeirra tjákna sem hver færsla fær og verður einskonar mat á viðbrögðum fólks við hverju innslagi. Innlegg Evu er því gagnrýni á þessa áráttu að vera stöðugt að mæla. Sambærilegar vangaveltur er að finna hjá Thoreau sem metur hið ljóðræna og efast að mörgu leyti um eigin mælingar og spyr sig hvort það sé réttlætanlegt að mæla allt. Í bókinni sýnir hann viðleitni í að sameina ljóðræna og vísindalega nálgun.

Jafnvel þó að Thoreau hafi verið nátengdur náttúrunni var hann einskonar aðskotahlutur þar. Samtengingarnar sem Eva dregur út úr bókinni og skrifar með jarðlit á gólfið eru viðkvæmar eins og náttúran. Þær virka eins og brýr á milli tveggja heima líkt og samspilið milli blómanna og blómavasans. Það sama á við um tungumálið, sem á sinn hátt er ólíkindatól og Eva beinir sjónum að hinu smáa. „Samtengingarnar tákna í raun ekki neitt en mynda mikilvægt lím í tungumálið líkt og steinar sem stiklað er á yfir læk, eða saumur í flík.“ Gárurnar í gólfinu kallast á við vídeóverk Hildar og eru áminning um mikilvægi þess að hægja á sér. Segja má að Eva hafi gert sambærilega tilraun og Thoreau þegar hún flutti heim frá Amsterdam í Hollandi fyrir þremur árum og settist að austur í Öræfum. Þar býr hún þröngt líkt og Thoreau gerði til þess að sækja sér dýpri tengingu við náttúruna og við sig sjálfa. Ólíkt honum þá er þessi tilraun hennar ekki hugsuð til skamms tíma, en í báð­um tilfellum skapast forsendur til að endurmeta hlutina.

Hljóðverk Elínar og framsetning er byggð á fundn­um hljóðum og munum. Thoreau hafði dálæti á hanagali og þó hann hafi ekki haldið nein húsdýr í kofanum í skóginum sagði hann að það hefði getað verið gott að vera með þó ekki væri nema einn hana til að njóta söngraddar hans. Í verk­inu sínu spilar Elín á skynfæri sýningargesta þar sem hún lætur draum Thoreaus um „hanaskóg“ rætast og glæðir það góðum húmor. Hápunktur hljóðgjörningsins sem fluttur var við opnun, endar í hanaslag og á sama tíma vekur Elín áhorfendur til umhugsunar um hvað gerist þegar ein tegund tekur yfir, líkt og Eva veltir fyrir sér með lúpínuna.

Á sýningunni er hljóðrás gjörningsins spiluð á tilviljunarkenndan hátt í „surround“ ­hljóðkerfi, ein­ hverskonar minning um gjörninginn. Verk hennar er alltumlykjandi í rýminu og minnir okkur á að hlusta eftir hljóðum náttúrunnar og umhverfisins. Á gamla bekknum, sem kórinn nýtti sem hænsnaprik í gjörningnum, liggja að honum loknum raddskrá verksins og möppur flytjendanna. Með því að stilla öllu upp eins og um kórtónleika eða æfingu sé að ræða er tónleikformið flutt inn í sýningarsalinn og uppstillingin skoðuð í nýju samhengi. Í listsköpun sinni hefur Elín lagt áherslu á athöfnina að skrifa nótur á listrænan hátt. „Með því að skrifa út Draum Thoreaus og láta raddskrána liggja frammi getur sýningargesturinn túlkað verkið og gjörninginn þó svo að hann sé löngu liðinn. Því hvað er raddskrá svo sem annað en handrit eða einskonar landakort um lendur hljóðsins?” Myndræn framsetning Elínar hefur tvöfalt hlutverk, auk þess að vera fallegt þá leggur hún áherslu á abstrakt nálgun. Lestur raddskrárinnar gerir því ekki bara kröfu um hljóð­ læsi, heldur einnig um túlkun og myndlæsi. Því þarf áhorfandinn að skapa sjálfstæða merkingu sem tengist hans fyrri reynslu og þekkingu.

Thoreau var langt á undan sinni samtíð í um­fjöllun um hljóð. Í bók hans er heill kafli tileinkaður hljóði. Hann skrifar um fundið hljóð líkt og Elín gerir í sinni hljóðinnsetningu og lætur þau orð falla að allir hljóðgjafar séu efniviður tónlistar. Til merkis um hve Thoreau var framsýnn þá kemur John Cage, þekktur frumkvöðull tilraunatónlist­ar og framúrstefnu í tónlist, fram með svipaðar hugmyndir einni öld síðar. Ljóðahljóðverk Elínar, Þorpið, í anddyrinu er myndlíking fyrir slúður sem Thoreau upplifði á ferðum sínum í þorpið. Það er líka tilvísun í fréttir og slúður samtímans sem er að finna á öldum ljósvakans og samfélagsmiðlum sem flestir fara daglega inn á og eru þá okkar þorp, okkar slúðurveita. Elín fékk nokkra vini og vandamenn til að taka þátt í verkinu auk fugla í hennar heimabyggð sem ljá því rödd sína. Saman mynda öll þessi orð og hljóð eina allsherjar síbylju eins og slúðrið gerir oftast nær. Verkið kallast líka á við samfélagstilvísun blómavasa Evu, sem veitir sýningargestum tækifæri til að velta fyrir sér eigin viðbrögðum við upplifun þeirra af sýningunni.

Walden eða Lífið í skóginum kom fyrst út árið 1854. Boðskapur bókarinnar hefur borist milli kynslóða sem hafa tileinkað sér efni hennar á eigin forsendum. Bókin kom út í íslenskri þýðingu Hildar Hákonardóttur og Elísabetar Gunnarsdóttur árið 2018. Viðfangsefni bókarinnar eru stór þar sem Thoreau, líkt og listamenn sýningarinnar Tilvist og Thoreau, endurhugsa samband sitt við samfélagið, umhverfið og hlutverk listarinnar innan menningar­ innar. Innsetningin í Listasafni Árnesinga felur í sér á vissan hátt það sem Thoreau ætlaði sér að gera: að sjá, hlusta, vekja fólk til umhugsunar um um­ hverfið sitt. Hann nam umhverfið með augum sem dældu inn í huga hans hugmyndum sem kveiktu á ímyndunaraflinu og skapandi nálgun sem birtist í formi fjölbreytilegra myndlíkinga og frásagna. Inn­setning listakvennanna þriggja einkennist á sama hátt af markvissum myndlíkingum þar sem hver þeirra hefur nýtt sér inntak bókarinnar til að auðga eigið hugmyndaflæði þar sem þær velta fyrir sér tilvist hversdagsins og þeim gildum sem vert er að lifa eftir. Thoreau fyrirleit alla sóun, andi sýningar­innar endurspeglar það, því á ómeðvitaðan hátt unnu listamennirnir út frá þeim gildum. Efniviður þeirra er heimafenginn úr nærumhverfi sérhvers þeirra.

Sýningarstjóri: Inga Jónsdóttir

Inga nam myndlist við Myndlista­ og handíðaskóla Íslands og framhaldsnám við Lista­akademíuna í München í Þýskalandi. Þá hefur hún einnig lokið Diplóma í verkefnastjórnun og frum­kvöðlafræðum frá Endurmenntun Háskóla Íslands. Inga kom Listahátíðinni Á Seyði á Seyðisfirði á laggirnar 1995 og 1996 og hún var líka verkefnis­stjóri Jöklasýningarinnar á Höfn sem opnuð var árið 2000 og stóð í nokkur ár, en þar var mynd­list einnig hluti viðgangsefnisins. Hún var fyrsti sérráðni starfsmaður Svavarssafns á Höfn og var sýningarstjóri alþjóðlegrar myndlistarsýningar á Höfn, CampHornafjörður 2002. Inga varð safnstjóri Listasafns Árnesinga árið 2007 og hefur verið sýn­ingarstjóri fjölmargra sýninga þar.

Auður Hildur Hákonardóttir

Hildur fæddist 1938. Hún lauk námi við Myndlista-­ og handíðaskóla Íslands sem myndvefari árið 1968 og hélt þá til framhaldsnáms við listaháskólann í Edinborg. Árið 1980 bætti hún við sig réttindum sem vefnaðarkennari frá Myndlista-­ og handíða­skólanum eftir að hafa kennt þar á árunum 1969­ – 1981. Þar af var hún skólastjóri hans 1975­ – 1978 á miklum umbrotatímum í sögu skólans. Hildur hefur sinnt listsköpun um langa hríð, verk hennar hafa verið sýnd á einkasýningum og fjölda samsýninga hér á landi og erlendis. Hún hefur einnig mótað og sett upp fjölda listsýninga á verkum annarra listamanna. Listaverk eftir Hildi eru í eigu Listasafns Íslands, Nýlistasafnsins, Listasafns Árnesinga og fleiri opinberra stofnana. Hún var virk í SÚM­hópn­um og kvennabaráttunni sem endurspeglast í verkum hennar. Hildur er líka þekkt fyrir ræktun og ritstörf. Hún þýddi bókina Walden eða lífið í skóginum ásamt Elísabetu Gunnarsdóttur og hefur látið sig umhverfismál varða sem líka endurspeglast í verkum hennar. Hildur hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum og hún var forstöðumaður Byggða-­ og listasafns Árnesinga á Selfossi 1986­ – 1993 og safnstjóri Listasafns Árnesinga 1997­ – 2000. Eftir langa búsetu við bakka Ölfusár er Hildur nú búsett í Reykjavík.

Elín Gunnlaugsdóttir

Elín fæddist 1965. Hún lauk tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1987 og prófi frá tónfræðideild sama skóla árið 1993. Framhalds­námi í tónsmíðum lauk hún frá Konunglega tónlist­arháskólanum í Den Haag í Hollandi árið 1998.

Á námsárunum tók Elín virkan þátt í UNM­hátíð­ um (Ung Nordisk Musikfest). Veturinn 1995­ – 1996 var hún valin til þátttöku í tónsmíðaverkstæði Sinfóníu­ hljómsveitarinnar í Stavanger og þrisvar hefur hún verið staðartónskáld Sumartónleikanna í Skálholti, 1998, 2004 og 2011. Á verkaskrá Elínar eru einkum kammerverk og söngverk en síðustu ár hefur hún samið nýja tónlist fyrir börn. Má þar nefna söngleik­ inn Björt í sumarhúsi, barnaballettinn Englajól og tónleikhúsið Nú get ég. Elín vinnur gjarnan með mismunandi form og með öðrum listgreinum eins og í barnaverkunum og líka í verkinu Póstkort frá París. Verkið er bókstaflega ritað á póstkort frá París, sem hún sendi hljóðfæraleikara í nokkrum sendingum og var ekki síður sjónrænt en tónvænt, enda hefur það ratað á sýningu fyrir augað og verið gefið út á bók og diski. Frá því að Elín lauk námi hefur hún verið búsett á Selfossi og unnið við tón­smíðar ásamt kennslu og er nú aðjúnkt í tónsmíðum og tónfræði við Listaháskóla Íslands.

Eva Bjarnadóttir

Eva fæddist 1983. Eftir árs nám í textíldeild Mynd­ listaskólans í Reykjavík hélt Eva til Hollands og lauk fjögurra ára myndlistarnámi frá Gerrit Rietveld Academie í Amserdam árið 2016. Á námsárunum tók hún þátt í vinnustofum og samsýningum, m.a. listahátíðinni Urbane Künste Ruhr í Þýskalandi í október 2015. Þar var innlegg Evu 10 daga ganga heiman frá sér í Amsterdam til listasetursins Halfmannshof í Gelsenkirchen, þar sem hluti listahátíðarinnar fór fram. Að lokinni göngu bauð hún gestum hátíðarinnar að eiga við sig samtal í einrúmi þar sem hún sagði frá göngunni og svaraði spurningum. Gjörningurinn gekk m.a. út á það að hver og einn skynjar veruleikann á ólíkan máta og þá hvernig frásögnin og samtalið er háð viðtakandanum.

Eftir útskrift flutti Eva heim og settist að í Öræf­ um þar sem hún hefur lagt undir sig part úr gömlu sláturhúsi sem hún nýtir sem vinnustofu og efnir þar líka til menningarviðburða. Henni voru veitt Menningarverðlaun Hornafjarðar 2018. Sumar­ið 2019 opnaði hún sína fyrstu einkasýningu, Í morgunsárið, í sýningarsal Midpunkt í Kópavogi og sama sumar stóð hún einnig fyrir viðburði á Skeið­arársandi, ÖR­List.

www.evabjarnadottir.com