Mismunandi endurómun

13. apríl – 2. júní 2019

Myndlist þrífst í félagslegu samhengi og það á bæði við um félagslegt samstarf listamanna en ekki síður það samtal sem myndlist á við áhorfendur. Vorið 2015 bauð Nicola Dimitrov þeim Ekkehard Neumann, Friedhelm Falke og Sigrúnu Ólafsdóttur að sýna með sér í rúmgóðu rými gamallar verksmiðju í Heusweiler í Saarlandi þar sem hann er með vinnustofu. Þessi litla óformlega sýning varð kveikjan að sameiginlegu verkefni sem átti eftir að vinda upp á sig. Meðal verkanna fundu listamennirnir áhugaverðan samhljóm sem þeir vildu efla og leyfa fleirum að njóta. Fyrsti áfangi í því var að bjóða listamönnunum Annette Wesseling og Elly Valk-Verheijen að bætast í hópinn. Leiðir þessara listamanna höfðu skarast áður, þau þekktu vel verk og vinnubrögð hvert annars sem lagði traustan grunn að samstarfi.

Til varð sterkur hópur sex myndlistarmanna sem allir búa og starfa í Þýskalandi, en koma þó frá þremur löndum; Þýskalandi, Hollandi og Íslandi. Þeir luku listnámi í Þýskalandi en Elly hóf það í Hollandi og Sigrún á Íslandi. Sameiginlega mótuðu þau sýningarhugmynd þar sem lykilstefið var að ná fram gagnvirkum endurómi verkanna á milli og láta þau kallast á við ólíka sýningarstaði á víðum vettvangi. Heiti verkefnisins varð Different Echoes eða Mismunandi endurómun í íslenskri þýðingu og höfundarnir leituðu eftir samstarfi við bæði söfn og gallerí í Evrópu. Sameiginlegur sýningarferill undir þessu nafni hófst í Gallerí Meno Forma í Litháen 2016, hélt áfram til nokkura safna og gallería í Þýskalandi og héðan frá Íslandi fara verkin til Króatíu. Ekki er alltaf um sömu verk að ræða og því ekki um eiginlega farandsýningu að ræða, heldur eru verkin á hverja sýningu valin með tilliti til misstórra sýningarstaða og í samráði við sýningarstjóra þeirra. Það er því blæbrigðamunur milli sýninganna en þess ávallt gætt að verkin endurkasti áhugaverðum bylgjum, ólíkri endurómun, milli sín innbyrðis og þess staðar sem er umgjörð hverrar sýningar.

Rýnt í verkin

Með því að setja þessa sýningu upp í Listasafni Árnesinga gefst ánægjulegt tækifæri til þess að kynna myndlistarmanninn Sigrúnu Ólafsdóttur á sínum fyrri heimavelli, sem er Selfoss, og í samhengi verka kollega frá hennar núverand starfssvæði í Þýskalandi. Sigrún hefur verið búsett í Saarbrücken frá því hún lauk framhaldsnámi í myndlist við Listaháskólann þar og náð góðum árangri sem meðal annars vinningstillögur um list í opinberu rými bera með sér. Verkum Sigrúnar er gjarnan lýst sem þrívíðum teikningum í rými og sjálf segist hún vera að fást við einskonar jafnvægi milli stillu og ólgu, kyrrðar og hreyfingar þar sem hún fangar augnablikið sem á hverri stundu getur raskast. Hún leitast eftir því að hvert verk endurspegli jafnvægi en líka spennu sem felst í tilfinningu fyrir því að það geti hrunið eða farið af stað og vill þannig endurspegla tíðaranda óvissu og breytinga. Efniviður hennar í verkunum á þessari sýningu er formbeygt tré, oft þakið svörtu gúmmíi og þyngdaraflið leikur hlutverk í þeim líka. Í anddyrinu blasa við verk eftir Sigrúnu úr seríum sem bera annars vegar heitið Snúningur og hins vegar Útþensla. Verkin standa þar út frá veggnum og ásamt skuggum mynda þau stílhreina kalligrafíu sem bærist lítillega líkt og í ljúfri sveiflu. Inni í stóra salnum, sal eitt, má sjá Lúsífer, kallast á við verk allra hinna listamannanna. Lúsífer, sem er yfir tveggja metra hár skúlptúr er líkt og fyrrnefndu verkin unninn úr formbeygðu tré og gúmmíi. Skúlptúrinn er einhvers konar vera með hala, bæði karllæg og kvenlæg í senn, sem felur í sér mýkt, reisn og óræðar kenndir. Í innsta salnum, sal þrjú, eru líka tvö verk eftir Sigrúnu, annars vegar verk úr seríunni Forleikur, og hins vegar Ritúal. Forleikur eru nokkur verk, óróar sem hanga úr lofti og einnig unnir úr formbeygðum viði og gúmmíi. Hnoðrar sem geta hvort heldur verið að herðast í fastan hnút eða leysast upp í áframhaldandi sveiflu. Heiti verksins er margrætt eins og mörg verka Sigrúnar sem geta tengst erótískum hugsunum eða tónlist og hæglátum hreyfingum. Ritúal er líka órói, úr formbeygðum viði, sem hangir úr lofti og bærist lítillega. Þessi rólega hreyfing og titill verksins vekur andlegar hugrenningar, en form þess getur líka minnt á mikado-leikinn sem krefst þolinmæði og þrautseigju að spila, jafnvægi og einbeitingu hugans til að hindra að allt kollvarpist.

Líkt og hjá Sigrúnu má sjá andstæð hugtök takast á í málverkum Friedhelm Falke, en ekki þau sömu. Hjá honum eru það andstæð hugtök eins og ögun og flæði, skerpa og mýkt, hlutlægt og óhlutlægt, gegnsæi og mettun sem koma upp í hugann. Sjálfur hefur hann sagt að tilfallandi athuganir og marklausar augngotur á daglegt líf séu stundum kveikjan að myndum sínum. Hann hafi áhuga á því að fanga þau hverfulu, ómeðvituðu augnablik í málverk. Hann hefur ýmsa miðla málunar á valdi sínu og á sýningunni má sjá verk eftir hann sem unnin eru með akríl og vínil á bómull eða pappír, temperu/olíu-resín á tré og einnig vinnur hann vegginnsetningu með límböndum.

Í stóra salnum eru málverkapör eftir Friedhelm og er Samhengi/ þeirra sameiginlega heiti en aftan við skástrikið bætist síðan við ávöxtur og/eða grænmeti; Samhengi/Perur, Samhengi/Laukur og sítróna, Samhengi/Sítróna. Þarna teflir hann saman smáu verki sem málað er með temperu og olíu-resín á tré og mun stærra verki sem málað er með akríl og vínyl á bómullarstriga, þar sem hið fyrrnefnda er uppstilling en hið síðarnefnda óhlutbundið málverk, en litavalið sameinar pörin. Friedhelm hefur sagt að vinnan við Samhengis-seríuna hafi gefið sér nýja sýn og önnur tækifæri í þróun málaralistarinnar. Samanburðurinn varpi ljósi á óvænt tengsl því að á sama tíma og hið óhlutbundna og hlutbundna verður raunverulegra eru líkindin einnig dregin fram. Í sal þrjú má síðan sjá heildstæða vegginnsetningu eftir hann þar sem blæbrigði lita leika lausum hala í litríkum límböndum sem tengja saman fjölbreytt lítil alkríl og vínyl pappírsverk.

Áður en Nikola Dimitrov snéri sér að málaralist hafði hann numið tónlist og starfað sem slíkur um tíma og það endurspeglast sterkt í verkum hans. Í málverkunum má sjá síendurtekna hrynjandi, tilbrigði við stef þar sem blæbrigði lita eru sem missterkur ómur ákveðins hljóms. Hann undirstrikar þetta svo enn frekar þegar hann gefur verkunum heiti. Nikola blandar liti sína sjálfur frá grunni út frá litarefnum og málar ýmist á striga eða pappír. Í nýjustu verkum sínum sem bera yfirheitið Multivision eða Fjölbirting hefur hann útvíkkað starfsaðferðir sínar og aðlagað nýrri tækni. Með snjallsíma tekur hann myndir af umhverfi sínu sem hann bútar niður með stafrænni tækni, velur úr og byggir upp abstrakt myndbúta sem prentaðir eru ýmist á álplötur með plexigleri eða pappírslíki og er hver eining 43 x 30 cm. Þeim er síðan raðað saman í stærri heild, sem getur verið misstór í hvert sinn.

Verkið HljóðRými II frá árinu 2013 er stórt málverk á stiga eftir Nikola, taktfast verk í bláum og jarðlituðum tónum, sem byggt er upp af níu láréttum línum fylltum misbreiðum lóðréttum línum. Litatónar og línur skapa ákveðna tvívíða hreyfingu á fletinum, rólegt ið. Á sýningunni er líka pappírsverk úr seríunni þar sem forgrunnur og bakgrunnur skapa dýpt í verkið með því að málað er með tveimur litum og er annar málaður ofan á hinn með óreglulegri en taktvissri víxlverkun og sumstaðar skín bakgrunnur pappírsins í gegn. Nýjasta myndasyrpan, Fjölbirting, sem hann hóf vinnu við 2018 er samsett úr prentuðum einingum í nokkrum útgáfum sem gefa möguleika á ýmsum samsetningum. Þó að tæknin sé önnur er uppbyggingin sú sama og

í HljóðRýmis seríunni, en við bætast fleiri tilraunir með form og liti. Úr þessari seríu vinnur hann tvær innsetningar í sýninguna, annars vegar verkið Jafnvægi á vegg við kaffistofuna og hins vegar eitt verk í sal þrjú úr verkum sem bera heitið Í vinnslu A og B. Þessi verk eru flóknari í uppbyggingu en taktföst hrynjandin er á sínum stað og gefa auganu tilfinningu fyrir hreyfingu, dýpt og hljóðfalli.

Í tveimur málverkaseríum Annette Wesseling eru það tilraunir og val listamannsins andspænis duttlungum náttúrunnar sem takast á, því það er ekki bara hún sem ber ábyrgð á útkomunni heldur líka umhverfisþættir og tíminn. Í seríunni sem hún nefnir UV-Graphic, eða UV- Grafík vinnur hún með litaðan bómullardúk, sem hún brýtur saman eða krumpar fyrir myndbygginguna áður en hún lætur sólarljósið skína á verkið, stundum

í marga mánuði, uns dúkurinn hefur upplitast að hluta og mismunandi mynstur, tilbrigði við frumlit dúksins, koma í ljós. Hann er síðan strekktur á blindramma og þannig verður málverkið jafnframt skjalfesting umhverfisáhrifa og tíma. Tvö verk úr þessari seríu má sjá á sýningunni ásamt UV-Grafík 86 frá árinu 2014 þar sem regndropar og blek bætast við myndina. Umhverfisþættir og tími hafa líka áhrif í annarri seríu sem sjá má og ber nafnið Meteo-Graphic eða Veðráttu- grafík. Úr þeirri seríu eru verk úr handunnum pappír þöktum mjóum bleklínum sem útsettar voru fyrir snjókornum sem fengu að bráðna á pappírnum, en aðeins á afmörkuðum hlutum hvers verks.

Holo-Graphic eða Þrívíddar-Grafík er heiti enn annarrar seríu sem Annette hefur unnið að. Á sýningunni eru tvö verk þeirrar seríu frá árinu 2016, máluð með lituðu bleki á þrívíddarfólíu, sem er líkt og samfellt þrívítt símynstur þar sem umhverfið endurspeglast líka margfalt. Hreyfing er inntak þeirra verka því þau taka breytingum eftir því hvernig áhorfandinn ber sig að framan við verkið og þar með breytist birtan sem á það fellur og endurspeglunin. Verk þar sem augun spila á yfirborðið og ertir augun gagnvirkt.

Ekkehard Neumann vinnur skúlptúra, líkt og Sigrún en hans efniviður er járn eða stál og formfesta geometríunnar sterk. Í verkum hans takast á hugtökin léttleiki og þyngd, opin og lokuð rými eða samtal verkanna við umlykjandi rými. Á sýningunni mynda skúlptúrar hans tvær innsetningar sem hvor um sig er samsett úr mörgum einingum sem kallast á við rýmið. Verk hans eru nafnlaus en önnur innsetningin samanstendur af samansoðnum járnfleygum sem mynda disklaga járnskífur með hallandi yfirborð í mismunandi áttir, eins konar brot, og eru ýmist í gráum, rauðum eða svörtum lit. Skífurnar eru mismunandi að stærð og dreift um gólf einkum í sal tvö en líka út fyrir salinn. Þrátt fyrir sterka efniskennd og þyngd þá minna form þeirra á brotnar blaðarkir og má jafnvel ætla að brotin hafi komið svífandi á sinn stað líkt og pappírs- skutlur þrátt fyrir ólíka efniseiginleika og þyngd járns og pappírs. Ekkehard hefur líka unnið sams konar verk sem útlistaverk í stærri skala.

Í stóra salnum, sal eitt, er hinni innsetningunni komið fyrir frá horni og út á veggi. Hún er líka nafnlaus en samsett úr mörgum litlum einingum, geómetrískum formum sem ýmist eru rauð eða grá. Þau geta minnt á eins konar letur, vegvísa á víðavangi eða þá brot af uppdráttum húsa, rýma eða stíga. Margvísleg hugrenningatengsl gefa tilefni til þess að skálda í eyðurnar.

Elly Valk-Verheijen vinnur líka með ljós og umhverfi líkt og Annette og Nikola, en á annan hátt. Kjarninn í hennar listrænu vinnu segir hún að sé rannsókn á ljósi, stefnu og endurkasti geislans, tíma og rými.

Fyrir verkin sem bera yfirheitið RAUÐ er hönd mín, tekur hún ljósmyndir með snjallsíma og tengist titillinn m.a. því að farsími er kallaður handsími, eða Handy, í Þýskalandi. Með símanum tekur hún ljósmyndir á hreyfingu í rými við ákveðin dagsbirtuskilyrði, þar sem hver stöðubreyting er birtubreyting og við það breytist einnig liturinn. Þannig eru myndirnar trapop 31.07.15 og trapop 26.2.18 teknar af tröppum í hringstiga á leiðinni upp og svarar hver lína í verkinu einu þrepi. Annað verkið tilheyrir tíma þegar sólin var hátt á lofti en í hitt þegar hún var lágt á lofti. Titillinn, sem vísar í það að ganga upp tröppur, inniheldur líka þá tvíræðni að vera sjónræn gildra með tilvísun í op-list, þar sem trap getur þýtt gildra og op verið stytting úr optical. Önnur verk á sýningunni úr þessari seríu eru MAGENTA hreyfing, Hreyfing 20150420 og r2. Eftir að hafa unnið stafrænt með ljósmyndirnar eru þær prentaðar á plexíglersbúta og í hverju verki heldur álplata plexíglersbútunum saman samkvæmt ákvörðun listamannsins.

Á öllum sýningum hópsins hefur Elly líka unnið staðbundna veggmynd. Í Listasafni Árnesinga nefnist hún Salur 2, því þar er hún staðsett. Inntak þessara verka er að draga fram litbrigði hvíta litar sýningarsalanna, því meðan ljósmyndarar og prentarar reyna allt hvað þeir geta til að gera hvíta veggi eins hlutlausa og hægt er við vinnslu ljósmynda þá færir Elly sér þau vandamál í nyt, sem glíman við hlutleysi hvíta litarins felur í sér. Þetta ferli hefst á því að tekin er stafræn ljósmynd af þeim stað sem veggverkið á að vera á, án þess að nota filtera, flass eða leiðréttingastillingar. Á stafrænan hátt dregur hún fram öfgakenndar myndeiningar eða pixla ljósmyndarinnar og sækir þannig upplýsingar úr hinu „hvíta“ yfirborði en þau form og þeir litir sem hún dregur fram mynduðust út frá birtu rýmisins þegar ljósmyndin var tekin. Til verður geómetrísk myndgreining hreinna forma með sterk tengsl við arkitektúr staðarins, rýmisins og salarins. Fyrir veggmyndina í Listasafni Árnesinga fékk Elly senda ljósmynd sem tekin var af veggnum meðan á annarri sýningu stóð. Ljósmyndin var lág í upplausn og því urðu litapixlarnir eða myndeiningarnar stórar og listamaðurinn valdi því að velja ekki bút úr myndinni heldur nota hana í heild á allan vegginn. Auði bletturinn á veggmyndinni afmarkast af ummáli málverks sem þar var.

Fjölbreytileikinn

Stærð og umfang verkanna er mjög mismunandi, efniviðurinn margvíslegur og viðfangsefnið ólíkt, en sýningin snýst um það að ná jafnvægi milli þessara andstæðna. Verk listamannanna sýna að myndlist er rannsóknarvinna sem byggist á forvitni, tilraunum, framkvæmd og endurtekningu. Flest eru óhlutbundin og mörg bera yfirbragð konkret listar eða geometríunnar en hugmyndalegur grunnur þeirra er annar. Sjá má hlutlæg form hjá Friedhelm Falke og í verkum Elly Valk-Verheijen og Nikola Dimitrov umbreyta þau ljósmynd af lífrænum formum svo sem hendi eða landslagi í geómetríska litasinfóníu. Það sem verkin eiga helst sameiginlegt er fjölbreytileiki sem áhugavert er að að stilla saman þannig að gestum er boðið upp á marglaga enduróm og samræður.

Fjölbreytileikinn felst líka í hugmyndalegri útfærslu verkanna sem eru unnin með blandaðri tækni, ýmist ný eða eldri, skúlptúrar, málverk, textíll, grafík og innsetningar af ýmsum toga. Heyra má og sjá samhljóm og enduróm sem spannar víðan skala lífræns flæðis andspænis agaðri formfestu, mýkt gegnt hörku, kyrrð mót ágengni, léttleika andspænis þyngd svo eitthvað sé tilgreint. Saman kallast verkin á og ná að magna hvert annað svo áhorfendur hafa margt að skynja og geta fundið ríkulega endurgjöf og samtal, gefið, tengt og þegið ef þeir leggja sig eftir því.

Sýningarstjóri: Inga Jónsdóttir

Um listamennina:

Annette Wesseling

Annette Wesseling er fædd árið 1966 í Münster en býr nú og rekur vinnustofu í Köln í Þýskalandi. Hún útskrifaðist úr Listaakademíunni í Münster 1993 og var síðasta árið meistaranemi hjá Ulrich Erben. Hún hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir list sína og hefur tekið þátt í fjölda sýninga, bæði einka- og samsýningum í Þýskalandi og víðar í Evrópu og verk eftir hana eru í safneignum safna og annarra opinberra staða sem og í einkaeigu.

www.annettewesseling.com

Ekkehard Neumann

Ekkehard Neumann er fædur árið 1951 í Oldenburg en býr nú og rekur vinnustofu í Münster í Þýskalandi. Hann nam fyrst listfræði við háskólann í Göttingen áður en hann snéri sér að myndlistarnámi við Listaakademíuna í Düsseldorf með áherslu á skúlptúr og lauk líka kennsluréttindanámi. Síðasta árið, 1977-78, var hann meistaranemi hjá Paul Isenrath. Hann kenndi myndlist um tíma, fyrst við menntaskóla en síðan við Münster- háskólann. Ekkehard hefur verið sýningarstjóri fjölda sýninga bæði innanlands sem erlendis. Hann hefur verið formaður Vesturþýsku listamannasamtakanna frá árinu 1996. Hann hefur átt verk á fjölmörgum sýningum, bæði einka- og samsýningum, og hefur tekið þátt í ýmsum skúlptúrverkefnum og unnið til verðlauna og viðurkenninga. Verk eftir hann má víða sjá á opinberum vettvangi og einnig er þau að finna í safneignum opinberra safna og í einkasöfnum.

www.ekkehardneumann.de

Elly Valk-Veheijen

Elly Valk-Verheijen er fædd árið 1951 í Bergen í Hollandi en býr nú og rekur vinnustofu í Dortmund í Þýskalandi. Hún lauk námi frá Vrije-listaakademíunni í Den Haag í Hollandi 1972 og nam síðan við tækni- háskólann í Dortmund á árunum 1984-89. Hún er með vinnustofu í Künstlerhaus Dortmund og formaður þar í þessu listamannarekna rými fyrir samtímalist og tilraunir í myndlist. Elly er varaformaður Vesturþýsku listamannasamtakanna. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga, bæði einka- og samsýningum víða um Evrópu.

www.kh-do.de

Friedhelm Falke

Friedhelm Falke er fæddur árið 1958 í Verden/Aller í Þýskalandi en býr nú og rekur vinnustofu í Köln. Hann nam myndlist við Listaháskólann í Braunschweig. Hann hefur unnið til verðlauna og viðurkenninga og tekið þátt í fjölmörgum sýningum, bæði einka- og samsýningum, aðallega í Þýskalandi en einnig víðar í Evrópu. Verk eftir hann er að finna í fjölmörgum einkasöfnum og opinberum safneignum og hann hefur líka gert nokkrar veggmyndir á opinberum vettvangi.

www.friedhelmfalke.de

Nikola Dimitrov

Nikola Dimitrov er fæddur árið 1961 í Mettlach/Saar en býr og rekur vinnustofu bæði í Heusweiler við Saarbrücken og í Köln. Hann nam við Tónlistarskóla Saarlands, lauk tónlistarkennaraprófi 1984 og hóf ferilinn sem einleikari á píanó árið 1988 en hefur frá árinu 2000 aðallega starfað sem listmálari og fæst við að spanna bilið milli tónlistar og myndlistar. Nikola hefur verið mög virkur á því sviði, skipulagt viðburði og tekið þátt í fjölmörgum sýningum víða, hvort heldur einka- eða samsýningum, einkum í Þýskalandi.

www.nikoladimitrov.de

Sigrún Ólafsdóttir

Sigrún Ólafsdóttir er fædd árið 1963 í Reykjavík en ólst upp á Selfossi á Íslandi. Hún býr nú og rekur vinnustofu í Saarbrücken í Þýskalandi. Sigrún lauk námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1989 og framhaldsnámi frá Saar-listaháskólanum í Saarbücken og var meistaranemi Wolfgang Nestlers á lokaárinu 1994. Sigrún hefur hlotið viðurkenningar fyrir verk sín, m.a. verðlaun í samkeppnum um list í opinberu rými, þar sem verk hennar hafa vakið athygli og verið útfærð. Hún hefur tekið þátt í sýningum hér á Íslandi en einkum í Þýskalandi og víðar í Evrópu, bæði einka- og samsýningum. Hún á verk í safneign Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur og Gerðarsafni hér á landi en líka víða í Þýskalandi, bæði í opinberum safneignum sem einkasöfnum.

www.sigrun-olafsdottir.de