Myndin af þingvöllum

15. maí – 21. ágúst 2011

Einar Garibaldi Eiríksson

Nóg ætla eg sé komið af einúngis óljósum myndlausum skriflegum lýsingum um Þingvöll.

Sigurður Guðmundsson, málari.

Óhætt er að fullyrða að myndin af Þingvöllum hafi í senn mótað fagurfræðileg viðhorf og menningarlega sjálfsvitund þjóðarinnar, sem virðist hafa fundið staðfestingu náttúrusýnar sinnar í henni. Þingvallamyndin hefur haft afger­andi áhrif á framþróun íslenskrar myndlistar, á sama tíma og hún hefur fært okkur aukinn skiln­ing og meðvitund um verðmætt samband okkar við náttúruna. Á tímum þar sem tengslin við menningararfleifð okkar fer þverrandi er vert að staldra aðeins við þessa mynd og athuga með hvaða hætti hún varðar aðgengi okkar að því flókna menningarlega samspili er liggur henni til grundvallar.

Samband manns og náttúru birtist óvíða jafn skýrt og í myndlistinni; landslagsmyndahefðin bryddar sífellt upp á nýjum sjónarhornum er vitna um staðfasta leit okkar að skilningi á stöðu okkar í heiminum. Hver kynslóð og hvert tímabil skilur eftir sig órækan vitnisburð um heimsmynd sína, þar sem mögulegt er að rekja sig í gegnum hugmyndir um afstöðu okkar til náttúrunnar á hverjum tíma. Í grófum dráttum má segja að upphafleg skynjun okkar hafi mótast af náinni snertingu við landið og náttúruöflin en að fram­ farir í vísindum og tækni hafi að einhverju leyti rofið þetta samband.

Innan listfræðanna er landslag fyrst og fremst sú mynd sem við gerum okkur af náttúrunni; sem slíkt er hugtakið nýtt, þó að sjálfa orðnotk­unina megi rekja aftur til miðalda þar sem merk­ing þess vísaði jafnan til legu lands eða lands­skipunar. Allt frá því í fornöld, á tímum frum­kristni og í gegnum miðaldir, eigum við einstök dæmi um framsetningu náttúrunnar í myndlist, en það eru einangruð dæmi sem ekki var fylgt eftir og það er ekki fyrr en undir lok endurreisn­artímabilsins að hugtakið „landslag“ öðlast sínar fagurfræðilegu vísanir. Ein þeirra er sú að landslagið sé sá staður eða vettvangur þar sem áhorfandi og náttúra mætast, því án náttúru eða áhorfanda verður ekkert landslag.¹ Sögustað­urinn Þingvellir hefði enga merkingu án slíks stefnumóts. Myndin af Þingvöllum er þó ekki einungis afrakstur slíks áhorfs, heldur er hún miklu fremur samansafn þeirra heildaráhrifa og upplifana er við verðum fyrir á staðnum, bæði með augum okkar, líkama og ímyndun.

Sýningin Myndin af Þingvöllum er tilraun til að takast á við þetta flókna samspil upplifana en það segir okkur heilmikla sögu um afstöðu okkar til staðarins, náttúru hans, sögu og merkingar. Henni er ætlað að vera samansafn hugleiðinga um hið margbrotna samband áhorfs, ímyndunar og framsetningar þar sem sjónin og myndin eru í aðalhlutverki. Hug­ myndin að sýningunni er einföld; að safna, bera saman og tengja þær fjölmörgu og ólíku myndir sem gerðar hafa verið af Þingvöllum í gegnum tíðina. Hún fjallar þannig ekki eingöngu um sjónræna framsetningu Þingvalla í myndlist, heldur einnig þær fjölmörgu og fjölbreyttu birtingarmyndir sem Þingvellir hafa notið, jafnt í hönnun, kortagerð, ljósmyndun, ferðabókum og fjölmiðlun samtímans.

Myndina af Þingvöllum má bera saman við tungumálið sem við höfum erft og tölum. Í henni býr óendanlegur fjársjóður sem lifir innra með okkur og hefur áhrif á allar okkar hugmyndir löngu áður en við gerum okkur grein fyrir þeim. Við notum þessa mynd, umbreytum henni og beitum fyrir okkur líkt og tungumáli. Komandi kynslóðir munu einnig spegla sjálfar sig í henni, þær munu greina hugmyndir okkar og taka til þeirra nýjar og óvæntar afstöður, þar sem merk­ing hennar er hvorki föst né óhagganleg um alla framtíð. Í merkri ritgerð Sigurðar Guðmundsson­ ar málara um Alþingisstaðinn forna við Öxará sem gefin var út í Kaupmannahöfn árið 1878, skrifar Sigurður af skörpu innsæi og skilningi um þessa duldu virkni myndmálsins:

Það mun því vera óhætt að fullyrða, að flestir Íslendingar skapi sér Þingvöll í huganum, þó þeir hafi aldrei Þingvöll séð, um leið og þeir fylgja með huganum sporum vorra frægu forfeðra á Þingvelli, er þeir störfuðu þar í þíngdeilum og lagasetníngum. Mannsins hugsunarafli er þannig háttað, að menn vilja ætíð hugsa sér þá staði fegursta, þar sem miklir og merkilegir viðburðir hafa orðið, og getur því ímyndunaraflið opt illa svikið marga, er þeir með líkamlegum augum sjá þesskonar staði, er þeir áður hafa hugsað mikið um; þó mun mega fullyrða, að fáir eða engir hafa svo mikið eða skapandi hugsunarafl, að þeir geti hugsað sér Þingvöll fjölbreyttari, fegri og stórkostlegri, en hann í sjálfu sér er.²

Í eftirmála sömu bókar kvartar Sigurður undan ofurvaldi tungumálsins í umræðunni um Þing­völl.³ Þau orð eiga enn við, þó að myndirnar af Alþingisstaðnum forna séu nú orðnar mun fleiri en í hans tíð. Í ljósi orða hans væri vissulega for­ vitnilegt að heyra álit hans á þeim ótölulega fjölda myndverka sem nú eru til frá Þingvöllum, jafnt af náttúru þeirra og umhverfi, sem og þeim margslungnu vísunum er þær bera til menningar okkar, sögu, trúar og þjóðernis. Sigurður mun vart hafa getað ímyndað sér hvílíkrar hylli og upphefðar þessar myndgerðir ættu eftir að njóta meðal þjóðarinnar og kannski enn síður að fyrir þeim ætti eftir að liggja að verða hæddar, spott­aðar og jafnvel lítilsvirtar. Í huga hans var myndin af Þingvöllum sjálfur lykillinn að sjálfskilningi þjóðarinnar og stöðu hennar í heiminum:

Munu menn varla geta hugsað sér svo ómenntaðan og einfaldan Íslending, að hann hafi ekki að einhverju heyrt getið Þingvallar, annaðhvort vegna þeirra merku söguviðburða, er þar urðu í fornöld, og þeir hafa lesið eða heyrt í vorum frægu fornsögum, eður vegna ýmsra viðburða og hryðjuverka, er þar urðu á seinni öldum, eður vegna þeirra furðuverka náttúrunnar, sem þar er að sjá.4

Nú á dögum má heimfæra orð Sigurðar upp á myndræna framsetningu staðarins í íslenskri myndlist, því vart mun vera hægt að hugsa sér svo ómenntaðan og einfaldan Íslending að hann hafi ekki augum borið eitthvert þeirra fjölmörgu lykilverka íslenskrar listasögu er tengjast Þing­ völlum. Öll þekkjum við Fjallamjólk Kjarvals og Sumarnætur Þórarins, auk fjölda annarra verka mismunandi listamanna frá ólíkum tímum. Eng­inn staður á landinu hefur verið jafn vinsæl fyrir­ mynd íslenskra listamanna og hefur myndgerð þeirra skilað helstu listasöfnum landsins hundr­uðum verka, ásamt þúsundum þeirra er finna má víðsvegar um landið.

Ein meginforsenda landslagsmyndarinnar er yfir­ sýn og í því sambandi hefur oft verið vísað til hinnar frægu göngu Petrarca á Vindafjall, sem mikilsverðra skrefa í áttina að uppgötvun lands­lagsins. Saga hans lýsir því hvernig miðaldamað­urinn slítur sig frá guðfræðilegri útlistingu tilveru sinnar og hefur sig upp á annað svið fyrir tilstilli göngunnar á tindinn.5 Fjallstindurinn lyftir hon­um yfir sjónarsviðið og við það öðlast hann allt að því guðdómlega sýn á landslagið fyrir neðan. Sú mynd er Petrarca dregur upp er ákaflega mikilvæg fyrir okkur, þar sem hún lýsir manni sem upplifir frelsi sitt sem einstaklings í heimin­um. Hann finnur mátt sinn og megin, óháður hefðum hans og siðum. Ganga hans varðar þannig leiðina til nútímans, er einskonar núll­ punktur, þaðan sem ekki verður aftur snúið.

Þessi ágæta goðsaga tengir að vissu leyti saman þá Petrarca og Grím geitskör, sem sendur var um Ísland í leit að heppilegum stað fyrir Alþingi. En í Íslendingabók Ara fróða segir frá þessu ferðalagi Gríms; er hann fór í senn til kynningar hugmyndinni, sem leitar að kjörstað fyrir allsherjarþingið.6 Áhorf Gríms yfir vellina er ekki svo ýkja frábrugðið því sem Petrarca lýsir, nokkrum öldum síðar, ofan af Vindafjalli. Hátt sjónarhorn þeirra yfir náttúruna skipar þeim í æðra sæti, þeir sjá landið með augum guðanna, yfirstíga hræðsluna við náttúruna og forvitni þeirra á samsetningu veraldarinnar er vakin. Nú hefja þeir sína eigin könnun á uppbyggingu hennar og fjarlægjast þannig guði sína.7

Fjallgöngur þeirra Gríms og Petrarca eru tákn­ rænar fyrir þann einbeitta vilja sem felst í löng­uninni til að þekkja og stjórna. Val Gríms á heppilegum fundarstað hins tilvonandi þings, er fyrst og fremst byggt á raunsæi; það lýtur að notkun landsins, eignarhaldi þess og sambandi við aðra landshluta. Það var lega landsins sem skipti mestu, en það er einmitt hinn forni skiln­ingur orðsins landslags. Í vali hans er ekkert sem bendir til að valið hafi haft eitthvað með náttúru­ fegurð að gera, nema í þeim skilningi sem forn­ menn lögðu í fegurðina, er byggðist á fullkom­ lega raunsæju mati á gæðum landsins.

Ef við gefum okkur að slíkt stefnumót manns og náttúru sé það sem fæðir af sér landslagsmyndina, liggur beinast við að kalla útsýni Gríms geitskör fyrstu íslensku landslagsmyndina. Þessi hugmynd styrkist enn frekar, þegar Grímur og fylgdarlið hans, hefjast handa við að móta þessa mynd; fyrst með því að steypa ánni niður vellina og marka þinginu stað, og síðan með því að nefna ána, fossinn og vellina. Myndin af Þingvöllum er því nokkuð eldri en mann kann að gruna í fyrstu. En hversu gömul sem hún er, þá er alveg víst að hún er ekki einhöm og tekur sífelldum breytingum í meðförum nýrra kynslóða. Hún hefur leitt okkur í gegnum aldir alda og kemur til með að gera það áfram: „Því að landslagsmyndin er í raun holdgervingur þeirrar sjónrænu þekkingar er við höfum mótað í samneyti okkar við landið.“8

Hjá Íslendingum hefur mynd náttúrunnar ætíð verið bundin í kveðskap. Fram á 19. öld er vart hægt að tala um að hér kenni þeirrar myndlistar er við köllum landslag.9 Allar aðstæður og þjóð­ félagshættir buðu ekki upp á slíkt: „Viðhorfið var að fullu og öllu frumstæðrar bændaþjóðar í harðbýlu landi, sem gerir engan greinarmun á náttúrufegurð og gróðursæld.“10 Með upplýs­ingunni kemst þó hægfara hreyfing á stað og í þann mund sem íslenskir menntamenn kynnast borgaralegum viðhorfum á erlendri grund fara erlendir ferðamenn að venja komur sínar til Íslands. Stór hluti þeirra gesta er hingað leituðu komu í nafni vísinda eða bókmenntaáhuga; hér leituðu þeir að bakgrunni fornbókmenntanna og þeirrar framandi og óvægu náttúru sem landið hýsir.11 Að vissu leyti má tengja þessar komur evrópskra hástétta til Íslands, við ferðir þeirra til sögustaða fornaldar við Miðjarðarhafið. Slíkar menntunarferðir voru kallaðar Grand Tour eða Hringferðin og vísa veginn til nútímaútgáfu sinn­ ar í Gullna hringnum einnar af helstu tekjulindum íslensks ferðamannaiðnaðar í samtímanum.

Það er nafngift slíkra ferða sem fært hefur okkur hugtakið „túrismi“ en mikilvægasta gjöf hinna erlendu gesta til okkar eru myndirnar sem þeir gerðu á ferðum sínum.12 Með í för voru oft á tíðum lærðir listamenn og teiknarar, hvers hlut­ verk var að gera lýsingar af þeim sögulegu eða náttúrulegu fyrirbrigðum er urðu á vegi þeirra. Í lýsingum þeirra skjóta gjarnan upp kollinum áhorfendur náttúrunnar sjálfrar, svokallað Rückenfigur en hlutverk þeirra er m.a. að gefa tilfinningu fyrir skala, ekki síður en að freista þess að draga áhorfendur inn í sjálfa framsetningu myndarinnar.13 Slíkar sviðsetningar voru ekki ástundaðar á tvívíðum fleti myndverkanna einum saman, til dæmis var Sigurður Guðmundsson málari vel þekktur fyrir sín „historísku tableaux“ þar sem hann sviðsetti þekkt myndefni úr forn­sögunum. Þessar lifandi myndir eða leiksýningar voru honum engin dægradvöl, heldur lá köllun Sigurðar í að mennta þjóðina, efla þjóðernisand­ann og auka henni skilning á sögunni.14 Í huga hans varð landslagið því aldrei sjálfstætt mynd­ efni og einungis eftirtektarvert sem möguleiki til sviðsetningar bókmenntalegra eða sögulegra atburða. Þessi tableaux Sigurðar beina sjónum okkar að því að þótt hér hafi verið stunduð myndlist um aldir var það ekki fyrr en á ofan­ verðri 19. öld að við eignumst okkar fyrstu lands­ lagsmyndir í hefðbundnum skilningi þess orðs og enn fremur að upphaf slíkrar myndgerðar átti sér ekki síst stað á vettvangi ljósmyndarinnar.15

Sú táknlega staðreynd að fyrstu íslensku lands­ lagsmyndirnar skyldu vera leikmyndir Sigurðar Guðmundssonar málara við Útilegumenn Matt­híasar Jochumssonar, endurspeglar með skemmtilegum hætti mótunarsögu landslagsins innan vestrænnar myndlistar.16 En rætur lands­ lagsmyndarinnar má rekja til birtingarmynda náttúrunnar í bakgrunni goðsögulegra og trúar­lega myndefna, þannig að líta má á að upphaf­ legt hlutverk hennar sé að vera leikmynd fremur en sjálfstætt myndefni. Enda er það ekki fyrr en löngu síðar að landslagið stekkur fram á senuna og stendur þar fullmótað, án stuðnings eða vís­ ana til utanaðkomandi sögu eða leikara til að ljá því gildi.

Er Íslendingar hefja loks að gera myndir af nátt­úrunni uppgötva þeir fljótt að landslagsmyndin býr yfir afar sterku myndmáli sem mögulegt er að nota sem merkingarbært innlegg til hinna að­ skildustu mála. Áhugi hinnar ungu borgarastétt­ ar vaknar og fljótlega verður myndin af Þingvöll­ um að algengum söluvarningi þeirra á milli. Allt frá Þjóðhátíðinni árið 1874 til Alþingishátíðarinn­ar árið 1930 fer framleiðsla slíkra mynda vaxandi og nær hámarki í aðdraganda lýðveldisstofnunar árið 1944, en frá þessu tímabili eigum við ara­grúa merkilegra verka, jafnt í myndlist, sem minjagripi, póstkort og auglýsingar. Þingvalla­ myndin hafði reyndar gengið kaupum og sölum allt frá því að fyrstu ferðalangarnir fóru að leggja leið sína til Íslands, en aukinn áhugi íslenskrar borgarastéttar var sem olía á eld í framleiðslu Þingvallamynda og tóku þær nú að prýða heimili landsmanna, annaðhvort sem frumverk eða eftir­ prentanir.

Það er ekki síst fyrir tilstilli hinnar ört vaxandi þjóðernishyggju er fylgdi undirbúningi þessara mikilvægu tímamóta og hátíðahaldanna í kring­ um þau, að aukinn áhugi myndast fyrir Þingvöll­ um sem sérstakri og þjóðlegri táknmynd. Merkur áfangi í þeirri smíð er þegar ákveðið er að gera Þingvelli að þjóðgarði í undirbúningi Alþingis­ hátíðarinnar og á nýjan leik þegar samþykkt var að taka þá inn á minjaskrá Sameinuðu þjóðanna, en við það öðlast myndin af Þingvöllum alþjóða viðurkenningu á tímum ímyndarsköpunar lands og þjóðar í hnattrænu samhengi.

Innan þessarar hefðar tekur nálgunin við nátt­úruna óvænta stefnu í verkum Jóhannesar S. Kjarval. Landslagsmyndir hans skera sig úr að því leyti að þær einblína ekki aðeins á ákveðna landfræðilega legu eða staðsetningu Þingvalla, heldur mótast þær af þeirri ómælanlegu þekk­ingu er streymir í gegnum líkamann á hverri stundu. Sýn Kjarvals er upprunaleg og grund­ vallast af beinni líkamlegri snertingu hans við náttúruna: „Hann umbreytir heiminum í mynd, með því að færa honum líkama sinn.“17 Þekking listamannsins byggist þannig á kosmískum skiln­ingi hans á tíma, rúmi og sögu Þingvalla.

Verk Kjarvals birta okkur ekki aðeins einstaka hluti þessarar náttúru; þau eru sjálf jörðin, eldur­ inn, loftið og vatnið.18 Í einni sjónhendingu fljúgum við óravíddir málverksins, erum stödd alls staðar og hvergi, í fullkominni samsvörun okkar við myndefnið. Með þeim sýnir hann okk­ur svo ekki verður um villst að: „sérhver kenning um náttúruna sem er einhvers virði kemst fljót­ lega í gegnum yfirborð hlutanna. Hún kemst að hinni upprunalegu heild náttúrunnar, meðtekinni í hinu kosmíska samhengi sínu, þar sem sérhvert fyrirbæri, planta, dýr eða maður, er virkur þátt­ takandi í mótun visku alheimsins.“19

Eftir að Ísland nær fullu sjálfstæði er líkt og fjari undan áhuga listamanna fyrir hinni upphöfnu landslagsmynd þjóðernisbaráttunnar; einsleitnin víkur nú fyrir fjölbreyttari viðhorfum og myndin af Þingvöllum hættir að vera sá samnefnari allra Íslendinga er hún var. Nú svarar hún ekki lengur kalli tímans og tefur aðeins fyrir framgangi sög­unnar með sífelldri vísan sinni til fortíðarinnar. Smámsaman umbreytist Þingvallamyndin í inni­ haldslausa goðsögn sem íbúar landsins hætta að tengja sig við, fram koma kynslóðir Íslend­inga sem geta hvorki né vilja samsama sig því sem sýnt er innan ramma hennar.

Í ljósi allra þessara mynda er okkur fyrirmunað annað en að upplifa Þingvelli öðruvísi en sem mynd. Sem slík tilheyrir hún heimi hins liðna, líkt og mjólkurbúð eða saltfiskverkun tilheyrir hún minningunni og getur ekkert sagt okkur um framtíðina. Í henni er ekkert lengur sem getur komið okkur á óvart, sjónarhólarnir eru ævinlega hinir sömu, innantóm náttúra sem gerir ekki ann­ að en að líkja eftir sjálfri sér.20 Nú er þetta stað­ur hinna stóru minninga­ og afmælishátíða, þar sem táknrænt gildi hins liðna felst í sífelldri endurtekningu tilveru okkar í þeirra ljósi. Við bíðum staðfestingar hennar í næstu stórhátíð þar sem saga okkar verður sviðsett á ný; minn­ ingar og ímyndir löngu liðins tíma, allt frá síldar­ söltun, glímu og þjóðdönsum til vísana í goð­ sagnirnar um hreysti okkar, dugnað og sjálf­ sprottna náðargáfu. En þetta eru ekki raunveru­ legar minningar, enda er þeim aðeins ætlað að vísa í sjálfar sig.21

Það er líkt og tengsl okkar við náttúruna og söguna hafi rofnað. Vandi okkar er sá að landslagsmynd okkar mótast sífellt meir af hagkerfinu og hagsmunum stjórnmálanna; svæði eru skipulögð, útsýnispallar eru hannaðir, ferðir eru seldar, þjóðgarðar eru opnaðir og staðir eru færðir á minjaskrá. Og nú eru það lífsstílsblöðin, heimasíðurnar, auglýsingarnar og bæklingarnir sem leiða okkur um landslagið. Náttúran er skipulögð fyrir okkur og við neytum hennar fremur en njótum; nú eru það græðgin og letin sem mála hina nýju landslagasmynd. Náttúran birtist okkur í gegnum bílrúðuna, í skipulagðri göngu eða jeppaferð, þar sem pakkaferðin opnar okkur veröld hinnar fullkomnu blekkingarmyndar.

En frammi fyrir myrkustu augnablikum þessarar tilveru, er líkt og djúpsálfræðilegar hleðslur frumefnanna springi innra með okkur. Dauft endurskin hins miskunnsama mána í skelfilegum hylnum nægir til að vekja vonir sjálfrar Íslands­ sólarinnar. Tengingar og vensl; frjálst flæði sjón­rænna hendinga, þar sem galdur landslagsins opnar augu okkar fyrir stöðu okkar í heiminum. Því auðvitað á myndin af Þingvöllum ekki að gegna því aukahlutverki að vera okkur leiktjöld sögunnar sem við þiggjum um sjálf okkur, heldur á hún að vera aðgangur okkar að henni.

Tilvera Þingvallamyndanna er ekki einangraður eða sjálfstæður heimur: „[…] heldur er hún sá heimur er við lifum í og fáum ekki skilið nema innan frá. Því við erum í heiminum en ekki fyrir framan hann. Þannig sjáum við í rauninni aldrei þennan heim, þar sem við búum í honum og erum hann. Er við leitum hann uppi munum við annaðhvort uppgötva sjálf okkur eða glatast“.23

Myndin af Þingvöllum opnast þannig fyrir okkur líkt og ókannað svæði, möguleikar rannsóknar okkar eru óendanlegir, merking hennar verður seint njörvuð í orð, ályktanir eða heildstæðar kenningar um mikilvægi sitt. Hér er það hvers og eins að virkja ímyndunarafl sitt, því að aðeins þannig öðlast myndin af Þingvöllum lifandi inntak í hugum okkar. Og þá er ráð að fylgja dæmi Sigurðar Guðmundssonar málara; og hlusta á steinana líkt og hann gerði er hann kom ríðandi til Þingvalla í fyrsta sinn:

Þegar eg reið fram með Almannagjár­ hamrinum, ofan Almannagjá, var eins og snögglega væri kallað til mín: «Ef þessir þegðu, mundu steinarnir tala»; það var það fyrsta sem eg hugsaði, enda er nú svo komið, að svo má fullkomlega að orði kveða, að dauðir steinarnir segi manni bezt sögu Þingvallar, og þeir benda mönnum sannarlega á, hvað þar hefir farið fram, og hvernig þar hefir verið háttað, þó mennirnir hafi þagað.24

Þakkir

Sýningin Myndin af Þingvöllum hefði ekki orðið að veruleika nema fyrir samvinnu fjölda aðila. Listasafn Árnesinga vill þakka kærlega þeim fjölmörgu einstaklingum, söfnum, stofnunum og fyrirtækjum sem lagt hafa hönd á plóginn við undirbúning hennar. Sérstakar þakkir fá: Listasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur, Listasafn Háskóla Íslands, Listasafn ASÍ, Þjóðminjasafn Íslands, Ljósmyndasafn Íslands, Ljósmyndasafn Reykjavíkur, Landsbókasafn Íslands ­ Háskólabókasafn, Listasafn Nýja Landsbankans, Hafnarborg ­ Menningarmiðstöð Hafnarfjarðar, Gallerí i8, Landmælingar Íslands, Loftmyndir, Morgunblaðið, Morkinskinna, Stúdíó Stafn, Sunnlenska bókakaffið, Vaka ­Helgafell, Fíton, Köfunarskólinn Kafarinn.is, Þingvellir – Þjóðgarður, British Museum, Historische Museum ­ Frankfurt, Ásta Vilhjálmsdóttir, Freyja Gylfadóttir, Jón Karl Helgason, Magni Magnússon, Reynir Sverrisson, Kolbeinn J. Ketilsson, Þórhallur Vilmundarson.

[1] Michael Jakob, Il Paesaggio, Il Mulino, Bologna, 2009, bls. 30­31.

[2] Sigurður Guðmundsson, Alþingisstaður hinn forni við Öxará, S.L. Möller, Kaupmannahöfn, 1878, bls. 3.

[3] Sama rit, bls. 65.

[4] Sama rit, bls. 3.

[5] Francesco Petrarca, „Gangan á Vindafjall“, í Pulvis Olympicus: Afmælisrit tileinkað Sigurði Péturssyni, ritstj. Jón Ma. Ásgeirsson, Kristinn Ólafsson og Svavar Hrafn Svavarsson, Gunnar Harðarson þýddi, Háskólaútgáfan, Reykjavík, 2009, bls. 41­51.

[6] Matthías Þórðarson, Þingvellir ­ Alþingisstaðurinn forni, Reykjavík, Alþingissögunefnd, 1945, bls. 52.

[7] Alain Roger, Court traité du paysage, Gallimard, Paris, 1997, bls. 83.

[8] Anne Cauquelin, L’invention du paysage, Presses Universitaires de France, Paris, 2000, bls. 127.

[9] Þóra Kristjánsdóttir, Mynd á þili ­ íslenskir myndlistarmenn á 16., 17. og 18. öld, JPV útgáfa ­ Þjóðminjasafn Íslands, Reykjavík, 2005, bls. 119.

[10] Björn Th. Björnsson, Íslensk myndlist á 19. og 20. öld, I. bindi, Helgafell, Reykjavík, 1964, bls. 34.

[11] Frank Ponzi, Ísland á 19. öld: Leiðangrar og listamenn, Almenna bókafélagið, Reykjavík, 1986, bls. 14.

[12] Sumarliði Ísleifsson, Ísland, framandi land, Reykjavík, Mál og menning, 1996, bls. 151.

[13] Joseph Leo Koerner, Caspar David Friedrich and the Sub­ ject of Landscape, Reaktion Books, London, 1990, bls. 162. [14] Björn Th. Björnsson, Íslensk myndlist á 19. og 20. öld, I. bindi, Reykjavík, Helgafell, 1964, bls. 39.

[15] Inga Lára Baldvinsdóttir, Ljósmyndarar á Íslandi: 1845 ­ 1945, JPV útgáfa ­ Þjóðminjasafn Íslands, Reykjavík, 2001, bls. 28­29.

[16] Björn Th. Björnsson, Íslensk myndlist á 19. og 20. öld, I. bindi, bls. 7.

[17] Maurice Merleau­Ponty, L’Occhio e lo spirito, SE Editore, Milano, 1989, bls. 17.

[18] Einar Garibaldi Eiríksson, Síðasta landslagsmyndin, fyrirlestur á málþingi um Kjarval, Listasafn Reykjavíkur ­ Kjarvalsstaðir, Reykjavík, 2006. Sótt 01.05.11 af: http://einar_ garibaldi.lhi.is/sidasta_landslagsmyndin.htm

[19] Michael Jakob, Il Paesaggio, Bologna, Il Mulino, 2009, bls. 41.

[20] Régis Debray, Vita e morte dell’immagine Una storia dello squardo in Occidente, Il Castoro, Milano, 1999, bls 164.

[21] Pierre Nora, Between Memory and History: Les Lieux de Mémoire, í Representation no. 26, Berkeley, 1989, bls. 19.

[22] Jean­Luc Nancy, „The End of the World“, samtal við Jean­ Christophe Royoux í Cosmograms, ritsj.: Melik Ohanian og Jean­Christophe Royoux, Lukas & Sternberg, New York, 2005, bls. 77.

[23] Sigurður Guðmundsson, Alþingisstaður hinn forni við Öxará, bls. 3­4.

 

Sýningarstjóri

Einar Garibaldi Eiríksson (1964) er myndlistar­maður og fyrrum prófessor við Listaháskóla Ís­lands. Hann stundaði nám við Myndlista­- og handíðaskóla Íslands 1980­-1985 og framhalds­nám á Ítalíu við Accademia di Belle Arti di Brera í Mílanó á árunum 1986-­1991. Einar hefur haldið fjölda einkasýninga á verkum sínum, hann hefur tekið þátt í samsýningum bæði hér heima og erlendis, ásamt því að verk hans eru í eigu helstu safna hérlendis. Sem sýningarstjóri hefur Einar vakið athygli fyrir sýningarnar flogið_yfir_heklu > (2001) og K- ­Þátturinn: Málarinn Jóhannes S. Kjarval (2007), en báðar sýningarnar voru settar upp í Listasafni Reykjavíkur.

Höfundar verka

A.E. Thompson

Anna Guðjónsdóttir

August Schiøtt

Ásgrímur Jónsson

Bjarnleifur Bjarnleifsson

Borghildur Óskarsdóttir

Carl L. Pedersen

Daði Guðbjörnsson

Daníel Magnússon

Eggert M. Laxdal

Einar Falur Ingólfsson

Emanuel Larsen

Finnur Jónsson

Frederik T. Kloss

Gísli Jónsson

Gunnlaugur Blöndal

Gylfi Gíslason

Halldór Baldursson

Héðinn Ólafsson

Hreinn Friðfinnsson

Hrólfur Sigurðsson

Hulda Hákon

Húbert Nói Jóhannesson

Jóhannes S. Kjarval

Jón Stefánsson

Júlíana Sveinsdóttir

Kristinn E. Hrafnsson

Kristinn Pétursson

Kristín Jónsdóttir

Lárus Karl Helgason

Magnús Á. Árnason

Magnús Ólafsson

Ólafur K. Magnússon

Ólafur Magnússon

Ólöf Nordal

Ragnar Kjartansson

Rúrí

Sigfús Eymundsson

Sigurður Guðmundsson málari

Sigurður Tómasson

Sigurhans Vignir Einarsson

Stefán Jónsson

Sverrir Haraldsson

Sverrir Vilhelmsson

Vignir Jóhannsson

William G. Collingwood

Þorkell Þorkelsson

Þóra Pjetursdóttir Thoroddsen

Þórarinn B. Þorláksson