Óþekkt
Tinnu Ottesen
20. apríl – 5. júní 2017
Innsetningar sem listform eru gjarnan settar upp til þess að breyta upplifun og skynjun áhorfandans af því rými sem þær eru settar upp í. Sem oftar er listamaðurinn að fást við tilvistarlegar spurningar, tungumál myndlistar og erindi hennar við áhorfandann og samtímann. Með því að ganga inn í rýmið verður skoðandinn bæði hluti innsetningarinnar og þátttakandi hvort heldur virkur eða ekki. Almennt eru innsetningar staðbundnar, ýmist eingöngu bundnar við ákveðinn stað og rými, en geta líka verið færanlegar líkt og hér þar sem ákveðin hugmynd og útfærsla tekur mið af því rými sem til staðar er.
Sýningin Óþekkt eftir Tinnu Ottesen er rýmisinnsetning í tveimur þáttum, sem fyllir einn sal listasafnsins og kallar á þátttöku áhorfandans. Í verkinu skiptir rýmið, efnið, tíminn og hegðunin máli og með hegðun er bæði átt við eiginleika efnanna sem unnið er með og ekki síður viðbrögð gestsins sem gengur inn í innsetninguna. Í fyrri hluta innsetningarinnar sem stóð frá 20. apríl til 18. júní var efniviðurinn plast en í síðari hluta sem stendur frá 23. júní er efniviðurinn latex og sú innsetning mun standa svo lengi sem efnið endist en að hámarki til 20. ágúst. Með tvískiptingunni eru áhrif rýmisins, efnisins og tímans aukin.
Báðir þættir innsetningarinnar standa sjálfstæðir en þeir sem ná að fara inn í báðar útgáfurnar fá sterkari tilfinningu fyrir rýminu, tímanum og hegðun efnanna sem notuð eru. Áhrif heimsóknar eða skoðunar eru líka alltaf háð einstaklingnum því viðhorf hans og viðbrögð geta verið ólík annarra og eigin svörun á mismunandi tímum getur jafnvel verið frábrugðin þó svo að gengið sé aftur inn í sömu útgáfu innsetningarinnar því þar skipta tilfinningar hans, væntingar og fyrri reynsla máli. Tinna hefur hólfað sýningarsalinn niður í fjögur afmörkuð rými. Fyrst til að taka á móti gestum er svartmálað afmarkað anddyri þar sem táknmynd innsetningarinnar í formi viðvörunarþríhyrnings er á vegg ásamt aðvörun um að efnið gefi sig á endanum. Gestir eru líka boðnir velkomnir og flestir halda áfram knúnir forvitni. Þá er gengið inn í myrkvaða biðstofu þar sem nokkrir geta beðið eftir því að komast inn í aðalrýmið, innsta kjarna verksins, en þangað á bara einn að fara í einu. Á meðan beðið er, er hægt að virða fyrir sér myndskeið af öðrum innsetningum þar sem Tinna er að vinna með sömu hugmyndir í samsvarandi innsetningum í öðrum rýmum og þar má einnig sjá fyrri þátt Óþekktar þegar sá síðari er tekinn við. Í fyrri innsetningunni er örþunnt iðnaðarplast látið skipta innsta rýminu lárétt í tvennt. Aðeins hliðrað frá miðju salarins hanga lárétt úr lofti þrír járnhringir hver fyrir ofan annan. Þeir eru 300 cm í þvermál, sá neðsti er í 175 cm fjarlægð frá gólfi og ofan við miðju þeirra er ljóstíra. Plasthimna er fest yfir hvern hring og efsta lagið er mest að flatarmáli því himnurnar eiga að snertast og í þá efstu er hellt nokkrum lítrum af vatni. Þar fyrir neðan er plastlagið sem skiptir rýminu í tvennt og það er fest við veggi salarins í mismunandi hæð, tæplega og rúmlega mannhæð. Þegar gengið er inn í myrkvað rýmið bylgjast plastið eftir hreyfingum skoðandans og hann getur líka sett það á enn meiri hreyfingu með handafli. Þar sem plastið er ógegnsætt eru járnhringirnir sem hanga úr loftinu illsjáanlegir, nema rekist sé á þá, en ljósið kemst í gegn og hægt er að finna fyrir vatninu og koma því á hreyfingu. Í síðari innsetningunni er rými innsta kjarnans töluvert öðruvísi og nú móta járnhringirnir úr loftinu
kjarnarýmið á sýnilegri hátt. Aftur eru himnur festar við láréttu járnhringina en nú eru þær úr latexi sem er strekkt á hringina. Lóðrétt utan um hringina er einnig latexdúkur, sem nær niður að gólfi, svo útlitslega minnir formið á risastóra trommu eða austurlenskt tjald. Aftur er nokkrum lítrum af vatni hellt í efstu himnuna og nú er það efnið sem gefur eftir þyngd vatnsins og lögin snertast. Með því að ganga inn í latexformið er hægt að snerta himnuna og koma vatninu á hreyfingu. Áfram skín ljóstíra þar fyrir ofan og þegar vatnið er á hreyfingu flöktir endurskin frá því um loft salarins. Hluti tilvistarspurninga verksins felst bæði í efnis- notkuninni, því efni hegða sér á ólíkan hátt, og í viðbrögðum gestsins. Plast er samheiti yfir margskonar manngerð efni sem eru aðallega unnin úr jarðolíu. Það er ekki skilgreint sem náttúrulegt efni þó svo að það samanstandi af lífrænum efnasamböndum, hráefnið fengið úr plöntu- og dýraleifum í jarðlögum og unnið af „manninum“ sem vissulega er hluti náttúrunnar. Plastefni komu til sögunnar snemma á síðustu öld og eru nánast orðin órjúfanlegur hluti tilverunnar. Þau þóttu undraefni sem uppfylltu háleitar væntingar en með tíð og tíma hefur komið í ljós að eiginleikar þess ógna lífríkinu, einkum hvernig það brotnar niður sem er bæði seint og illa. Latex er þekkt náttúrulegt efni sem hefur verið notað í fornum menningarsamfélögum. Það er meginefni gúmmís og einn helsti eiginleiki þess er teygjanleiki. Gúmmí hefur líka verið þróað sem tilbúið efni en um 30% framleiðslunnar í dag teljast náttúrleg. Ólíkt gerviefnunum þá brotnar latex auðveldlega niður. Annað mikilvægt efni í báðum þáttum innsetningarinnar er vatnið, undirstaða lífsins. Verkið í heild hverfist líka um heimspekihugtakið hið háleita (sublime) sem einnig hefur verið nefnt ægifegurð á íslensku. Það orð lýsir tilfinningu hins háleita vel því það felur í sér bæði aðdáun og ógn. Á rómantíska tímabilinu undir lok 18. aldar var algengt að láta hið háleita vísa í ógnarkraft náttúrunnar andspænis smæð mannsins en í samtímatúlkun hefur það verið látið vísa í ægimátt tæknivæðingar sem maðurinn dáist að og hræðist í senn. Er maðurinn hluti af náttúrunni, eða er hann yfir hana hafinn með því að ætla að stjórna öllu – og er það mögulegt? Vegna atgangs gestanna gaf plastið sig með tímanum svo í það komu rifur og göt af ýmsum stærðum, en þó ekki þar sem vatnið safnaðist saman. Gert var reglulega við plastið með glæru breiðu plastlímbandi, en við það dró úr hreyfigetu plastsins og bylgjuhreyfingarnar urðu þunglamalegri. Sjaldgæft er að sjá viðgerð á svo ódýru efni og þær urðu sem ör á verkinu, en við það varð myndlíking þess við t.d. náttúruna enn sterkari. Með tímanum mun vatnið éta sig í gegnum latexið sem áður tekur á sig form dropalaga spena vegna teygjanleika efnisins, en hvað mun það taka langan tíma? Verkið býður upp á ýmsar myndlíkingar um samband manns og náttúru, sem túlka má á ýmsa vegu. Við innganginn eru gestir varaðir við, því að undirliggjandi er sú ógn að fá vatnið yfir sig ef eða þegar efnið gefur sig. Vonandi vekur verkið heimspekilegar vangaveltur hjá þeim sem þess nýtur, því þegar vel tekst til þá vekja listir fleiri spurningar en svör og það er hvers og eins að leita þeirra og svara. Hefur sá sem gengur inn í Óþekkt stjórn á öllum aðstæðum? Er það efnið sem er óþekkt eða er það sá sem fer inn? Óþekkt fjallar því líka um það hvernig brugðist er við aðstæðum. Er óhætt að ganga inn í verkið og hvaða afleiðingar mun það hafa?
Sýningarstjóri: Inga Jónsdóttir
Tinna Ottesen
stundaði nám í sjónrænum samskiptum við konunglega danska hönnunar og arkitektaskólann og sviðshönnun (production design) við danska kvikmyndaskólann í Kaupmannahöfn á árunum 2002-2009. Meðan á náminu stóð var hún einnig skiptinemi við Listaháskóla Íslands einn vetur og í starfsþjálfun við Zentropa í Danmörku. Tinna fékk inngöngu í a·pass (advanced performance and scenography studies) skólann í Belgíu og lauk þaðan post-master-gráðu 2016.
Allt frá árinu 2009 hefur Tinna unnið með fjölbreyttum hópum skapandi fólks (myndlistarmönnum, leikhúsmönnum, kvikmyndafólki, tónlistarfólki, hönnuðum) að ýmsum verkefnum sem mörg hver hafa unnið til viðurkenninga. Þar má nefna Neo Geo hópinn sem hefur skipulagt og framkvæmt tónleika neðanvatns í Sundhöll Reykjavíkur, hönnunarverkefni um miðbæ Hveragerðis sem fékk sérstaka viðurkenningu, heimildarkvikmyndina The Gentlemen sem vann til áhorfendaverðlauna á RIFF kvikmyndahátíðinni 2009 og Eins og í sögu (Storydelicious) á Hönnunarmars 2013 sem var innsetning og létt máltíð í senn; upplifun sem örvaði öll skilningarvitin og vann til hönnunarverðlauna Grapevine sem verkefni ársins. Tinna hefur unnið að verkefnum hér á landi og víða í Evrópu, nú síðst í Hamborg áður en hún setti verkið Óþekkt upp hér.
tinnaottesen.com