Heimkynni
Sigrid Valtingojer
8. apríl – 5. júní 2017
Aðalheiður Valgeirsdóttir
Heimkynni
„… það er auðvitað tilviljun hvert maður fer þegar maður er ungur og ævintýragjarn en það er engin tilviljun hvar maður dvelur“.¹ (Sigrid Valtingojer)
Manninum er eiginleg þörf fyrir heimkynni, að eiga sér stað í heiminum. Sigrid Valtingojer (1935–2013) fæddist í Tékklandi og þekkti það af eigin raun að þurfa að yfirgefa heimkynni sín og leita nýrra. Í lok stríðs árið 1945 var fjölskylda hennar svipt eignum sínum og hrakin á vergang frá Súdetahéruðum Tékklands ásamt milljónum annarra Súdeta-Þjóðverja.² Fjölskyldan flutti til Thüringen í Þýskalandi og síðan til Jena sem tilheyrði Austur-Þýskalandi. Þaðan flúði fjölskyldan til Aschaffenburg við Main og settist þar að árið 1947.
Í grein sinni „Hugleiðingar við Öskju“ segir Páll Skúlason: „Að vera jarðarbúi er að finna líf sitt bundið jörðinni, ef ekki beinlínis sprottið af henni, finna að hún er forsenda lífsins, ég er ég, þú ert þú og við erum við af því að við veljum okkur stað, erum, getum ekki verið við sjálf nema andspænis Öskju (eða öðru sambærilegu tákni jarðar) og getum horfið þangað sífellt aftur, ef ekki í raunveruleikanum þá í huganum.“³
Ef til vill er það hending hvort við erum hér eða þar, en hvort sem það var fyrir tilviljun eða örlög, þá flutti Sigrid til Íslands frá Berlín árið 1961 í miðju kalda stríðinu, sama ár og hafist var handa við að reisa Berlínarmúrinn. Ísland varð heimaland Sigridar upp frá því, hér festi hún rætur og héðan skoðaði hún heiminn.
Sigrid hafði lokið námi í fatahönnun og auglýsingateiknun í Frankfurt og Vín áður en hún flutti til Íslands. Hún vann við auglýsingateiknun í Reykjavík um árabil áður en hún hóf nám í grafíkdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1975 sem hún lauk árið 1979. Uppruni Sigridar mitt í deiglu evrópskrar hámenningar, þýskur agi og menningararfur, skapaði henni að vissu leyti sérstöðu meðal íslenskra grafíklistamanna og kom það fram í lífsviðhorfum hennar, afstöðu til listarinnar og sköpunarinnar almennt.⁴ Menntun hennar og störf við hönnun hefur vafalítið einnig veitt henni forskot þegar haldið var út á braut grafíklistarinnar en það kemur fram í vönduðum vinnubrögðum og næmu form- og litaskyni.
Rist í málm og tré
Grafíklistin er langfyrirferðarmest í listsköpun Sigridar Valtingojer og hún var í hópi þeirra listamanna sem hvað mest létu að sér kveða á blómatíma grafíklistarinnar á Íslandi á 8. og 9. áratug 20. aldar. Hún reyndi stöðugt á þanþol miðilsins með samfelldum rannsóknum og þróunarvinnu sem skilaði sér í afar fjölbreyttum myndverkum, bæði hvað varðaði efnistök og tækni. Hún leitaði sífellt nýrra leiða í myndsköpun sinni, nýtti sér möguleika grafíktækninnar til hins ýtrasta og þá óvæntu stefnu sem efnið sjálft getur tekið í vinnuferlinu. Hún líkti vinnunni við málmplötuna við ævintýralega leit að gulli þar sem allt getur gerst.⁵ Mismunandi viðfangsefni kalla á mismunandi miðla og Sigrid fann sínar leiðir að markinu hvort sem það var með ætingu og akvatintu, tréristu, einþrykki eða „frottage“, allt eftir því sem best hæfði hverju sinni. Sigrid hreifst af handverkinu sem fylgir grafíklistinni, hvernig myndirnar þróast hægt á plötunum en það krefst þolinmæði og nákvæmni í vinnubrögðum, og það gat tekið hana mánuð að fullgera málmplöturnar áður en þrykkt var á pappírinn. Þannig var hvert stig vandlega hugsað og gerðar fjölmargar prufur áður en viðunandi útkoma fékkst. Hún kom sér upp fullkomnu grafíkverkstæði í Reykjavík, ferðaðist víða bæði á Íslandi og til annarra landa og leitaði innblásturs fyrir listsköpun sína. Sigrid sýndi verk sín bæði hér á landi og erlendis. Hún tók þátt í fjölmörgum alþjóðlegum sýningum og vann til verðlauna og viðurkenninga meðal annars á Ítalíu og í Japan. Verk hennar eru í eigu safna á Íslandi og víða um heim.
Á sýningunni Heimkynni má sjá hluta þeirra fjölbreyttu grafíkverka sem Sigrid Valtingojer vann á árunum 1993–2010.
Landslag – náttúra
Sigrid myndaði strax tengsl við Ísland og náttúru þess, hún heillaðist af landslaginu sem var henni óþrjótandi brunnur innblásturs og sterkasti áhrifavaldurinn. „Þegar ég kom til Íslands fannst mér stundum eins og að náttúran hefði verið einmitt svona þegar sköpun heimsins átti sér stað. Í öðr- um löndum eru skógar, og þeir eru ekki eins og einstaklingar, meðan hvert einasta fjall á Íslandi er persóna,“⁶ er haft eftir Sigrid.
Í landslaginu fann hún sköpunarkraft í hinni „upprunalegu, ótömdu og nöktu náttúru“ þar sem frumformin birtast í fjöllum og öðrum náttúrufyrirbærum „opin til lesturs“ eins og hún kemst að orði í viðtali í tilefni af sýningu sem haldin var í Listasafni Árnesinga árið 1999.⁷ „Við erum öll hluti af náttúrunni og allt sem við teljum okkur vera að skapa hefur verið til, er til og verður til í einhverri mynd. Hver einstaklingur skynjar svo heiminn á sinn hátt. Þessi skynjun kemur fram í verkum listamannsins því þau lýsa honum best og afstöðu hans til heimsins,“⁸ segir hún enn fremur.
Íslensk náttúra og náttúrutengt myndmál tók því fljótlega yfirhöndina í listsköpun Sigridar en í upphafi ferlis síns sem grafíklistamaður vann hún einkum verk sem einkenndust af frásagnakenndu raunsæi þar sem brá fyrir súrrealísku ívafi. Hún las landið og sterk náttúruformin, birtan, og hin ósnortna náttúra veittu henni innblástur til að takast á við og fanga kjarna sköpunar og skynjunar í fegurð landsins á persónulegan hátt. Verkin eru þó ekki eiginlegar landslagsmyndir þar sem hún leitaðist ekki við að gera ákveðnum stað skil, ákveðnu fjalli eða svæði, heldur nýtti hún sér form, liti og áferð landsins til þess að tjá tilfinningar og huglæg tengsl við náttúruna sem myndbirtist í verkum hennar.
Hugtakið landslag er haft um heildarútlit lands eða landsvæðis, form náttúru á tilteknum stað samkvæmt Íslenskri orðabók.⁹ Þannig er fjall og landslag ekki einn og sami hluturinn. Fjallið er hluti af landslagi frá sjónarhóli mannsins en landslagið opinberast vegna tengsla sem skapast milli manns og náttúru. Því mætti segja að án mannsins væri ekkert landslag og ekkert landslag án náttúru.¹⁰ Sigrid kom auga á formin í landslaginu og „persónuleika fjallanna“ eins og hún sagði sjálf vegna þeirra tengsla sem hún myndaði við náttúru landsins og gerði þau að sínum.
Myndröðin Landslag I–XII, sem Sigrid vann á árunum 1986–1989, er eins konar óður til íslensks landslags. Í verkunum fangar hún einstaka náttúrufegurð og kyrrð hálendisins með hárfínni tæknikunnáttu sinni og næmi í meðferð lita. Í hverju verki eru tekin fyrir ákveðin form og litir landslagsins, t.d. eldfjall, jökull og hraunlandslag sem hún gerir skil í afstrakt útfærslu. Hún afmarkar formin svo eftir standa skýrt mótuð fjöll og landslagsform, jarðvegsmótun, gróður og umbrot. Í Landslag VII hefur opnast inn í kviku eldfjalls og í Landslag XI breiðir ljósgrænn mosinn úr sér á dökkfjólubláu bergi og svörtum sandbreiðum sem finna má á hrjóstrugu hálendinu. Sigrid hlaut fyrstu verðlaun á alþjóðlegri grafíksýningu í Biella á Ítalíu árið 1987 fyrir Landslag V. Form fjallsins er einfaldað og dalir og dældir mynda fellingar í hlíðum þess. Verk Sigridar þóttu undirstrika mikla tæknikunnáttu og hæfileika til að virkja ímyndunarafl áhorfandans um leið og þau búa yfir hljóðlátri fegurð.
Mörk hafs og lands eru viðfangsefni verkanna Þar sem landið hefst (1989) og Þar sem landið endar (1989). Eylandið sem rís úr hafi í blámóðu verður tákn upphafs og endis og sköpunarkrafts náttúrunnar sem Sigrid var svo upptekin af og gerir skil í fáguðum ætingum.
Sköpun, auðn og víðátta lands og hafs er einnig viðfangsefni í Atlantis I–III (1990) og andi frumkrafta og frumsköpunar færir áhorfandann nær hinu upprunalega, ótamda og nakta.
Enda þótt landslagið hafi veitt Sigrid ótakmarkaðan innblástur í litum og formum tók hún að þróa aðferð sem hún sagði vera leið til þess að brjótast út úr viðjum landslagsformanna og byrja upp á nýtt. Árið 1993 fór hún að saga eða klippa tré- og koparplöturnar í sundur og dreifa formunum á flötinn til þess að ná fram nýjum og óvæntum samsetningum.¹¹ Þannig breytti hún landslaginu í tjáningu eigin hugmynda þó að enn megi merkja tengsl við náttúruna. Á þessum tíma fer einnig að bera á notkun tákna sem rekja má til japanskrar og kínverskrar ritlistar og egypsks myndleturs. Hvert tákn eða stafur hefur ákveðna merkingu en með því að raða þeim saman við form og fleti verður til persónulegt táknmál. Þannig má finna tvö tákn úr japönsku sem tákna vatn og fjall sem saman merkja landslag.¹² Systkin sem hittast (1992) er gott dæmi um slíkt verk en hún notaði gjarnan sömu formin og táknin í mismunandi samsetningum og kannaði þannig ólíka merkingu þeirra.
Sigrid vinnur á mörkum hins hlutbundna og óhlutbundna í Stef I og Stef II (1993). Formin eru einfölduð og brotin upp en blæbrigðarík litanotkunin hefur náttúrulega tilvísun og gefur tilfinningu fyrir víðáttumiklu fjallalandslagi, hlíðum og skorningum. Þannig missir hún ekki sjónar á landslaginu þó að ýmislegt óvænt geti gerst í vinnuferlinu. Enda þótt Sigrid hafi náð afbragðstökum á ætingu og akvatintu hafði hún þörf fyrir meiri möguleika í litanotkun sem hún fann í tréristunni. Leikur með form og liti varð frjálslegri og samspil grófrar og fínlegrar áferðar blæbrigðaríkara. Í verkunum Handan við sléttuna og Dögun (1997) sést hvernig Sigrid ristir í tréð, bæði gróft og fínt, og leikur með æðar tréplötunnar svo úr verður líflegt og margslungið form- og litasamspil.
Kjarval var fyrstur íslenskra myndlistarmanna til að uppgötva ævintýralegan myndheim hraunsins á fjórða áratug 20. aldar. Með hraun- og mosamyndum sínum breytti hann fegurðarskyni Íslendinga sem höfðu litið á hraunið sem grátt, ljótt og illt yfirferðar og sneytt allri hæfni til að vekja með mönnum fegurðartilfinningu.¹³ Segja má að Sigrid feti í fótspor Kjarvals þegar hún kannar yfirborð hraunbreiðunnar í myndröðinni Hörund jarðar (2003). Hún kynnti sér jarðsögu hraunsins og aldur þess sem hún sagði mikilvægan þátt við gerð verkanna. Hraunið sem hún valdi til myndgerðarinnar var Hellnahraun við Hafnarfjörð sem varð til í jarðeldi árið 950 og Þorlákshafnarhraun sem myndaðist fyrir 9.000 árum. Hún þrykkir beint af hrauninu á þunnan japanskan Kozo-pappír með aldagamalli japanskri aðferð. Áferðin er lifandi og blæbrigðarík og grófir drættir sýna straumfræðilega áferð hraunsins sem eitt sinn skreið yfir landið en líka fíngert „fractal“ mynstur sem kemur endurtekið fram í öllum verkum náttúrunnar.¹⁴
Landslagið var lengi meginviðfangsefni Sigridar eins og komið hefur fram. Það þróast þó frá hreinum náttúrumyndum yfir í einfaldar óhlutbundnar táknmyndir landslagsins og gaf það henni aukið frelsi til tjáningar á eigin hugarheimi. Myndgerð Sigridar sveiflast þannig milli frjálsrar náttúrutúlkunar, afstrakt forma og táknmynda. Með stöðugri athugun á landslaginu tileinkaði hún sér ákveðin form sem urðu að persónulegu táknmáli sem hún notaði til að túlka lífsviðhorf sín og áhrif frá náttúru og umhverfi.
Tákn og táknmál
Tjáning og samskipti eru hluti af frumþörfum mannsins, hvort sem er í orði eða mynd, og skilin á milli orða og mynda eru ekki alltaf augljós.¹⁵ Hlutverk tákna er að tjá eitthvað annað en sjálft sig, eitthvað sem hönd verður ekki fest á.¹⁶ Þannig gera þau okkur kleift að tjá hluti og hugmyndir með hjálp ímyndunaraflsins um leið og þau öðlast merkingu innan þess samhengis sem þau eru sett í. Hefðbundin og náttúruleg tákn hafa menningarbundna skírskotun og samsvörun í mannlífinu. Í myndlist og skáldverkum þekkist líka að höfundurinn skapi sín eigin tákn til þess að tjá og miðla ákveðnum skilaboðum eða hugmyndum. Táknin hafa þó gjarnan vísun í hefð og ákveðna menningarheima.
Eftir því sem Sigrid færðist fjær beinni náttúrutúlkun í list sinni urðu formin meira og meira afstrakt eins og til dæmis í tréristum frá 2002 þar sem Sigrid hefur myndgert hljóð og hljóðbylgjur sem eiga upptök sín í skynjun mannsins andspænis náttúrunni. Hvert verk vísar til ákveðinna hljóma eins og heiti verkanna segir til um, Bergmál, Gjálfur, Kliður, Ómun. Útfærslan er einföld og markviss, eins konar hljóðskúlptúrar sem fá áhorfandann til að leggja við hlustir. Hvirflar, gárur og spíralar tákn- gerast í þessum verkum og táknin mætti tengja við austræn trúarbrögð og táknmyndir í indverskum tantrafræðum.¹⁷
Sigrid var hugsjónamanneskja með brennandi áhuga á umheiminum og mannlífinu almennt. Frelsi mannsins, réttlæti og friður voru málefni sem voru henni í blóð borin. Sigrid hafði lengi fylgst með þróun mála í Ísrael og Palestínu. Árið 2003 fór hún sem sjálfboðaliði til Palestínu á vegum ISM (International Solidarity movement) þar sem hún vann á hernumdu svæðunum um nokkurra vikna skeið. Þar varð hún meðal annars vitni að þeirri frelsisskerðingu sem aðskilnaðarmúr Ísraelsmanna hafði í för með sér.¹⁸ Á sýningunni Ferð án endurkomu í Start Art árið 2003 sýndi Sigrid verk sem hún vann undir áhrifum þessarar ferðar um Landið „helga“ þar sem ríkt hefur viðvarandi stríðsástand. Hún útfærir í ætingum heiti borga í Ísrael og Palestínu með eigin stafagerð sem hún byggði á þeirri tilfinningu sem hún upplifði í þeim borgum sem hún heimsótti. Á bak við borgarheitin bregður fyrir táknum sem ljá ætingunum fagurfræðilegt yfirbragð til viðbótar við þann pólitíska og alvöruþrungna undirtón sem í þeim býr. Titill sýningarinnar vísar til þeirra áhrifa sem ferðin hafði á hana, þaðan kom hún ekki söm.
Málefni flóttafólks voru Sigrid hugleikin enda kunnug því öryggisleysi sem það býr við. Árið 2010 hélt hún sýningu í Listasafni ASÍ undir yfirskriftinni Þögul spor. Kveikjan að verkunum á sýningunni var örlög þeirra milljóna flóttamanna sem leitað hafa skjóls í Evrópu. Hér er um að ræða pólitísk verk þar sem tekið er á einu mesta vandamáli samtímans á heimsvísu. Í viðtali í tilefni af sýningunni segir Sigrid: „Ég ferðast mikið erlendis og í sumum borgum eru heilu hverfin byggð af innflytjendum sem lifa í von um betra líf en þeir áttu í föðurlandi sínu. Þessi ferðalög hafa auðgað líf mitt og áhrifin sem ég hef orðið fyrir af þeim skila sér núna í verk mín.“¹⁹ Með því að nota letur og tákn úr eigin hugarheimi vísar Sigrid í veruleika flóttafólksins sem þarf að tileinka sér framandi tungumál og menningu um leið og það sest að í nýjum heimkynnum en það getur bæði skapað vandamál og verið uppspretta nýrra tækifæra.
Myndlist Sigridar Valtingojer snertir marga strengi mannlegrar tilveru. Í verkunum myndbirtist sýn hennar á náttúruna, tengslin við jörðina og umheiminn og mikilvægi þess að eiga sér stað í heiminum.
Í fáguðum verkum sínum kom hún til skila margvíslegum grunnþáttum tilvistarinnar á táknrænan hátt og hvernig það er að vera manneskja í heiminum. Hún valdi Ísland sem sinn stað þar sem friðsæld landsins og ósnortin náttúran fjarri heimsins stríði veitti henni skjól. Þangað gat hún horfið bæði „í raunveruleikanum og huganum“.²⁰
Aðspurð hvernig það hefði verið fyrir hana að vera listamaður á Íslandi sagði Sigrid: „Það hefur gefið mér allt. Ef ég hefði ekki komið hingað hefði ég orðið allt öðruvísi listamaður og væri að gera allt annað en ég hef verið að gera. Það að fara út í íslenska náttúru eða bara það að virða hana fyrir sér er í mínum huga ótæmandi brunnur. Maður fer út og kemur aftur heim og hefur hrifist eða fengið hugmynd.“²¹
Sýningarstjóri:
Aðalheiður Valgeirsdóttir (1958) er myndlistarmaður og sjálfstætt starfandi listfræðingur og sýningarstjóri. Hún útskrifaðist frá grafíkdeild Myndlista-og handíðaskóla Íslands árið 1982. Hún lauk MA-gráðu í listfræði frá Háskóla Íslands árið 2014, og BA-gráðu í listfræði með menningarfræði sem aukagrein árið 2011. Í upphafi myndlistarferils síns vann Aðalheiður aðallega grafíkverk en sneri sér síðar að málverki í listsköpun sinni, en hún fæst auk þess við teikningar og vatnsliti. Hún hefur haldið á 3. tug einkasýninga og tekið þátt í fjölda samsýninga hér á landi og erlendis. Undanfarið hefur hún einnig tekið að sér sýningarstjórnun og var ásamt Aldísi Arnardóttur sýningarstjóri sýningarinnar Tímalög – Karl Kvaran og Erla Þórarinsdóttir sem sett var upp í Listasafni Árnesinga á síðasta ári.
Um listamanninn:
Sigrid Valtingojer (1935-2013) fæddist í Teplitz í Tékklandi, en var búsett í Þýskalandi á árunum 1945-1961. Hún stundaði nám í Frankfurt/Main, Institut für modegrafik á 1954-1958. Hún fluttist til Íslands árið 1961 og vann við auglýsingateiknun fyrstu árin. Sigrid lauk námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1979 og kenndi við grafíkdeild skólans á árunum 1986-2001. Hún var gestakennari og gestalistamaður við Kyoto Seika listaháskólann í Kyoto 1990 og stundaði framhaldsnám við Winchester School of Art í Barcelona 2001- 2002. Sigrid hélt fjölda einkasýninga hér á landi og erlendis og verk eftir hana eru í eigu helstu safna á Íslandi og víða um heim. Hún hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín, m.a. Grand Prix 1987 á alþjóðlegri grafíksýningu í Biella á Ítalíu. Umhverfis- og friðarmál voru henni hugleikin. Hún var ötul baráttukona fyrir frjálsri Palestínu og fór þangað sem sjálfboðaliði árð 2003. Hún hélt sýningar fyrir málstaðinn hér á landi og í Þýskalandi.