Picasso á Íslandi

5. október – 14. desember 2008

Sagt er að þróun nútímalistar hefði varla orðið slík sem hún er án Picassos. Að upphaf hennar liggi í Les Demoiselles d’Avignon. Þetta er skrifað í Picasso-útgáfu Taschen. Þar er auðvitað talað um Cézanne og þau mikilvægu áhrif sem hann hafði á módernismann, impressjónistana, fávistana og fleiri, en verk þeirra hafi verið bundin akademíunni á meðan Picasso hafi skapað formræna nálgun nýrrar listar tuttugustu aldar með þessari fyrrnefndu mynd. Menn geta haft mismunandi hugmyndir um þessa fullyrðingu, enda byrjar enginn hlutur á engu, nema ef til vill „Mikla hvelli”, „Orðinu” eða öðru sambærilegu. Lýsingarnar sem hafðar eru eftir samtímamönnum Picassos, sem sáu málverkið Les Demoiselles d’Avignon blautt 1907 eru samt sem áður svolítið „Mikla hvells” legar. Georges Braque á t.d. að hafa sagt að verkið væri eins og að „eldgleypir hafi drukkið bensín”. Picasso og Braque þróuðu svo saman kúbismann að því er virðist með jákvæðri víxlverkan, en mér virðist þó djarfari uppbrotin liggja meira hjá Picasso, enda um ólíka menn að ræða.

Þegar ég var beðinn um að vera sýningarstjóri sýningar með yfirskriftinni „Picasso á Íslandi”, leist mér ekki illa á það. Ég hef alltaf haft áhuga á listasögu, jafnt íslenskri sem almennri og út frá þessum orðum er þetta áhugavert viðfangsefni. Ég hef ekki áhuga á að draga fram það sem er endilega líkast Picasso sjónrænt og alls ekki stælingar sem ég þekki þó nokkrar, heldur áhugaverð myndverk sem kallast á við þennan meistara tuttugustu aldar, eins og hann er oft kallaður á jákvæðan hátt. Ég gef mér líka þann möguleika að horfa á fagurfræðilega og ljóðræna samsvörun, sem hugsanlega getur verið á skjön við hugmyndir listfræðinga, með það fyrir augum að opna mögulega glugga fyrir annað útsýni. Ég er sammála höfundi texta í þessari fyrrgreindu Picasso bók, að Picasso eigi mun víðari innkomu í sögu vestrænnar myndlistar á tuttugustu öldinni en almennt er fært til bókar með svörtu letri. Í gegn um listaverkasafnarann Sergei Shchukin voru nýjustu verk kúbistanna sýnd í Moskvu strax 1908 og greinilegt að súprematisminn þróast þaðan. Árið 1911 sýnir Piet Mondrian með kúbistunum, en gefur út yfirlýsingu um að Picasso og Braque hafi mistekist að þróa markmið kúbismans um nauðsynlega nákvæmni og skipulag. Marchel Duchamp bætir við kúbismann hreyfingu í verki sínu „Model gengur niður stiga” og svipað má segja um fúturistana á Ítalíu, þeir koma með hreyfingu, pólitík og hraða. Picasso ásamt Braque var líka búinn að setja raunverulegt dót s.s. borðdúk, veggfóður, kaðal eða reipi, orð og setningar í málverk sín og eru þeir upphafsmenn að því að gera Collage-myndverk. Picasso byrjaði að gera þrívíddarverk upp úr Collage-verkunum, s.s. gítara úr pappír og fleira sem þróaðist svo í skúlptúra úr samsettu fundnu dóti. Geometrial Composition er raunsæislegt málverk sem er málað eftir collage-skissu gerðri úr að því er virðist tilviljunarkenndum pappírssnifsum. Því sýnist málverkið vera sama límsamsetningsdruslan og skissan þegar maður fyrst ber það augum, þ.e. málverk af hugmynd um myndverk. Glass of Absinite er upphlaðinn skúlptúr úr m.a. glasi, sykurmola og kökuspaða, frá 1914. Þegar þessi skúlptúr var settur á forsíðu listtímarits á þessum tíma sögðu allir áskrifendur upp áskriftinni, utan einn. Nautshaus úr reiðhjólahnakk og stýri 1942. Apaandlit úr leikfangabíl „Baboon and young” 1951 o.s.frv. Ég dreg þetta fram til að sýna hvernig áfergjuleg rannsókn á möguleikum efnisins hlutgerist í þessum verkum. Það sést líka í málverkunum og teikningunum á hógværari og ósýnilegri hátt frá nútíma séð.

Ekki má gleyma því að Picasso tók allt inn sem hönd á festi þegar myndlistin var annars vegar. Þannig eru áhrifin margbrotin og leiðin ekki alltaf bein, heldur flókin víxlverkun eins og jafnan í myndlist og auðvelt að fabúlera með það í allar áttir.

Upphaflega átti þessi sýning að vera um myndlist á Íslandi milli áranna 1930 til 1950, en þegar ég fór að hugsa frekar um verkefnið langaði mig til þess að hafa hana víðtækari. Ég vildi ekki sleppa einni af mörgum uppáhaldsmyndum mínum í íslenskri listasögu Rúmensk stúlka eftir Jón Stefánsson flóknum áhrifum í myndlist Kjarvals og myndum Finns Jónssonar í kringum 1920. Það má segja að umrædd kúbísk áhrif séu almennust á tímanum 1930-1950, enda í fyrsta skipti að fram kemur nokkuð stór hópur listamanna á Íslandi á sama tíma. Gangurinn í þjóðfélaginu var líka á þenslustigi. Þetta er jafnframt tími þegar áhrifin eru margflókin, vegna þess að myndhugsunin er búin að fara á milli listamanna og tengingar komnar í marga hringi. Tengingar eru komnar í „kúbískan norrænan skóla” sem hefur farið höndum um Parísaráhrifin o.s.frv. Þegar ég tala við eldri listamenn hér og spyr um þennan tíma segja þeir gjarna að þeir hafi nú verið hrifnari af Braque og þetta hafi nú byrjað með Cesanne o.s.frv. Eins og farið undan í flæmingi. Kristján Davíðsson sagði að hann hefði aldrei verið sérstaklega handgenginn Picasso, samt dró hann fram myndir þar sem áhrif hans voru augsýnileg og hafði mér þó ekki orðið hugsað sérstaklega til hans í þessu samhengi. Picasso var sagður vera snillingur, og sú er sannarlega ímynd hans. Allt sem hann snerti varð með alkemískum hætti að gulli. Snillingur er orð sem var viðhaft um meistara áður, en kannski síður notað í dag og það hefur alltaf verið erfitt fyrir Íslendinga að viðurkenna meistarann. Ég held að þar liggi svarið sem menn nota um að þeirra menn séu frekar Braque, Matisse eða Gris umfram Picasso. Mörgum finnst líka að Picasso æði yfir allt eins og eldibrandur og hoppi úr einu í annað og sé þess vegna ekki traustvekjandi.

Ég hef alltaf efast um að einhver sé fyrstur og bestur og eftir því sem ég sé og les meira um myndlist finnst mér ég fá staðfestingu á því. Listamaður sem vinnur úr hugmynd frumkvöðuls getur náð að gæða hana sjónrænu lífi, upphafið hana í annað veldi, sem frumkvöðlinum tókst ekki. Listpólitík verður stundum til þess að hlutunum er hagrætt, stundum á óvæginn hátt. Það er auðvelt að sjá í list dagsins í dag að svokallaður póstmódernismi notar söguna sem tungumál. Kannski var Picasso þannig. Hann hafi farið yfir eins og stormsveipur og notað allt sem hönd á festi. Það eru undarlegar mótsagnir í þessu. Les Demoiselles d’Avignon var máluð árið 1907 en aðeins nokkrir listamenn og safnarar sáu hana fyrir 1920 þegar hún var fyrst sýnd opinberlega og hún var fyrst sýnd á prenti 1924 að tilhlutan Andre Breton sem valdi Picasso á fjórar fyrstu súrrealistasýningarnar. Þá fengu sum verk Picassos nýja sýn í öðru umhverfi. Ég er þegar þetta er skrifað nýkominn frá Austurríki, Tékklandi og Ungverjalandi og hef séð talsvert af myndverkum eftir Kupka. Mér sýnist hann vera með fyrstu abstrakt-mönnum ef ekki „fyrstur” eins og hann sagði víst sjálfur. Hann málaði myndir um 1900 af hreyfingu samsvarandi Módel að ganga niður stiga eftir Duchamp og þróaði þá myndgerð sem endaði í geómetríu milli 1910 og 1920. Það fer ekki sérlega mikið orð af honum í listasögunni svo ég bjó mér til hugmynd, sem auðvitað er sögð í hálfkæringi, að hann hafi merkt myndirnar í of sveigmynduðum og bogadregnum línum til þess að þær pössuðu í þennan kafla sögunnar.

Þessi útúrdúr er hér settur fram til að skynja tímann í verkunum betur og þessa umræðu í listinni sem gerir hana skemmtilega og spennandi. Íslensku listamennirnir á þessum tíma 1930-1950 virðast flestir hafa unnið út frá svipuðum grunnhugmyndum og þeir fylgjast svo flestir nokkurn veginn að yfir í geómetríuna. Það er trúlega smæð þjóðfélagsins sem veldur því að í stað fjölda jafngildandi ólíkra hópa verður gjarnan til eins og einn myndlistarklasi af sama stofni hér á Íslandi. Þetta gerir margt auðveldara býst ég við, þó að þetta sé trúlega ekki skipulagt á þennan hátt, en getur verið einangrandi bæði innan og utan hópsins fyrir þróun listarinnar. Ég heyri oft talað óvirðulega um þennan hóp milli ´30 og ´50 af seinni tíma listamönnum. Hann er kallaður hópur sporgöngumanna, langt á eftir öllu sem var að gerast í listheiminum. Ég hef heyrt bæði listfræðinga og listáhugamenn segja það. Sé hópurinn hins vegar skoðaður á heiðarlegan hátt stendur hann fyrir sínu. Það er fjöldi listamanna úti um allan heim að vinna á þessum slóðum milli stríða. Einhverntíma á mínum yngri árum var ég að tala við Hörð Ágústsson og impraði á þessu. Svar hans er mér minnisstætt. Hann sagði: Við vorum ekki að reyna að vera frumlegir, það tilheyrði ekki tímanum, heldur vorum við í vitsmunalegri akaemískri samræðu um listina.

Margir erlendir vinir og kunningjar, sem ég álít heiðarlega og góða listamenn með góða þekkingu á list, sem ekki hafa vitað af þessum listamönnum áður, hafa hrifist af verkum þeirra. Auðvitað mismikið en ekki gert mikið úr meintu sporgönguorðspori þeirra, heldur horft á þau í samhengi við það sem þeir eru að fást við. Þannig vil ég reyna að bera þessa sýningu fram, með virðingu fyrir listamönnunum og örlæti þeirra í myndlistinni, því að víst hafa þeir gefið mikið til íslenskrar myndlistarsögu og menningarumræðu. Ég vildi líka kíkja fram yfir 1950 tímann, til að sjá hvort Picasso á Íslandi væri enn til staðar. Ég held að nálgunin hafi ef til vill breyst og Picasso birtist oftar í myndlist dagsins í dag sem eins konar hugmynd. Hugmyndin um Picasso. Þannig dreg ég fram mynd Errós frá því fyrir 1960 sem sýnir byggingarleg áhrif Picassos og eftir 1960 sem mynd um hugmyndina Picasso.

Helgi Þorgils Friðjónsson, apríl 2008.