Sögur

Opnar 13. júní – 6. september

Í sumar munu starfsmenn Listasafns Árnesinga ásamt sérfræðingum vinna að skráningu og sögusöfnun fyrir safneign safnsins. Skráning safneignar er eitthvað sem þarf að endurskoða reglulega, fylla í eyðurnar og finna ný gögn. Þetta er eitthvað sem við ætlum að gera og verður að einhverju leyti opið fyrir almenning sem og kynnt á samfélagsmiðlum.

Upphaf Listasafns Árnesinga er rakið til gjafar Bjarnveigar Bjarnadóttur og sona á 42 málverkum til Árnesinga sem unnin voru af helstu myndlistarmönnum þess tíma. Gjöfin var afhent 19. október 1963 og var komið fyrir á Selfossi. Þetta var jafnframt fyrsta listasafnið utan Reykjavíkur sem opið var almenningi. Bjarnveig hélt áfram að gefa listaverk í safnið og nokkrum árum síðar bættist önnur stór gjöf við þegar Halldór Einarsson tréskurðarmeistari gaf æviverk sitt og peningagjöf sem var hvati þess að hús yfir þessar tvær stóru gjafir var reist og var það vígt á Selfossi 1974. Smám saman hefur síðan bæst við safneignina og þrjátíu og átta árum eftir að safnið var fyrst aðgengilegt almenningi var sú ákvörðun tekin að flytja Listasafn Árnesinga í Hveragerði í enn stærra hús sem væntingar voru bundnar við að gæti verið sú umgjörð er gæfi safninu fleiri tækifæri til eflingar m.a. með fjölbreyttu sýningarhaldi og menningardagskrá.

Í safneign Listasafns Árnesinga eru varðveitt um það bil 550 listaverk.