Samstíga
Fræðslusýning um abstraktlist
28. september – 15. desember 2013
SAMSTÍGA – abstraktlist
Markmiðið með sýningunni Samstíga er að veita áhorfendum, gjarnan skólahópum, innsýn í þróun abstraktlistar í víðu samhengi. Sjónum er sérstaklega beint að geómetrískri abstraktlist því þar náðu Íslendingar eftirtekt annarra þjóða og voru samstíga öðrum listamönnum í Evrópu. Heiti sýningarinnar vísar líka í þá samþættingu listgreina sem stefnan boðaði þó að nafnið sé ef til vill í andstöðu við þá ólgu sem fylgir rótttækum breytingum.
Listir eru ekki einangrað fyrirbæri í samtímanum heldur endurspegla þær samfélagið og hafa einnig áhrif á það, jafnt hér á landi sem erlendis. Tímabil módernismans, sem miðast við síðari hluta 19. aldar til síðari hluta 20. aldar, felur í sér hrylling tveggja heimsstyrjalda, miklar pólitískar væringar og spennu, ótrúlegar tækniframfarir og ýmsar heimspekilegar pælingar sem allt hefur áhrif á heimsmyndina. Í umróti módernismans eru áberandi ákafar stefnuyfirlýsingar meðal listamanna sem fylgt er eftir með útgáfu tímarita helgaðra listum og menningu. Módernisminn er þannig samheiti yfir ýmsar breytingar og þróun en einnig lýsing á ákveðnu menningarástandi, tíðaranda og afstöðu manna til tíma og framþróunar. Innan módernismans urðu til ýmsar listastefnur sem náðu til myndlistar, hönnunar, byggingarlistar, bókmennta og tónlistar. Þessar listastefnur fengu ýmis heiti en áttu það sammerkt að vera upphaflega framúrstefnur, avant-garde, en svo eru þær stefnur nefndar sem ganga hvað lengst í endurskoðun og afneitun eldri hefða. Framúrstefna höfðar yfirleitt ekki til almennings en með tíð og tíma verður ýmislegt sem hún hefur fram að færa einnig að hefð og er tekið í sátt.
Abstraktlist var framúrstefna í upphafi og orðið abstrakt er fengið úr latneska orðinu abstrahere sem þýðir að leiða af. Einkenni abstraktlistar er samspil lína, lita og forma en ekki endurgerð hins sýnilega heims. Abstraktlistin þróaðist síðan með margvíslegum hætti víða um heim en einkum í tvær áttir, annars vegar í geómetríska abstraktlist sem höfðar fyrst og fremst til agaðrar listrænnar formskynjunar og hins vegar í ljóðræna abstraktlist sem felur í sér meira frelsi fyrir persónulega tjáningu tilfinninga. Með frjálslegri útfærslu á áþreifanlegum fyrirbærum má segja að tvær listastefnur hafi lagt grunninn að abstraklistinni og er þá átt við tjáningarríka litagleði expressjónismans og formkrufningu kúbismans. Upphaf abstraktlistar er þó jafnan rakið til tilrauna Vassily Kandinsky um 1910, er hann tók meðal annars upp á því að snúa hlutbundnu málverki á hvolf til þess að skoða og uppgötvaði þannig hvernig myndefnið varð ekki ráðandi heldur ferskleiki litasamsetningarinnar. Í framhaldinu fór hann að mála myndir án ákveðinnar fyrirmyndar en sótti form og liti í eigin hugarheim í leit að innri fegurð. Kandinsky var einnig tónlistarmaður og tengdi málun við tónsmíðar á fræðilegan hátt. Hann sagðist líka heyra músík þegar hann sá liti. Ljóðræn abstraktlist spratt m.a. út frá tilraunum Kandinsky en var einnig undir áhrifum frá hinu ósjálfráða í listsköpun súrrealistanna. En fleiri voru að umbylta myndlistinni. Árið 1915 kynnti málarinn Kazimir Malevich nýja stefnu, Súprematisma, með málverki sem heitir Svartur ferningur á hvítum grunni. Kjarni hennar var að í skapandi list hefði hinn sjónræni veruleiki enga þýðingu en tærar listrænar skynjanir hefðu yfirburði til sköpunar með einföldum geometrískum formum þar sem bein lína táknaði yfirburði mannsins á óreglu náttúrunnar og ferningurinn var lykilformið því hann finnst ekki í náttúrunni. Í Hollandi varð De Stijl til, listhreyfing sem náði til margra listgreina og hönnunar. Hún var stofnuð af Theo Van Doesburg árið 1917 en leið undir lok 1931 þó að andi hennar hafi lifað lengur innan geómetrískrar abstraktlistar. De Stijl er hollenska og þýðir einfaldlega stíllinn. Markmið hreyfingarinnar var að þróa abstraktlist sem myndi tjá altækan sannleika og stuðla um leið að nýrri þjóðfélagsgerð. Stíllinn einkenndist af geómetrískum formum, lóðréttum og láréttum línum og hreinum litum. Þekktustu fylgismenn þessarar stefnu fyrir utan Van Doesburg voru Piet Mondrian og Gerrit Rietveld. Van Doesburg kom aftur við sögu við stofnun annarrar listhreyfingar, Art Concret, í París 1929, sem ýmist er kölluð konkretlist eða strangflatarlist á íslensku. Þar var boðað að listin ætti að vera laus við ytri skírskotanir og tákn en aðeins fjalla um konkret (raunveruleg) fyrirbæri listarinnar sem væru línur, litir og form. Viðfangsefni málverksins var bara það sjálft. Þannig einkennist konkretlist af strangri myndbyggingu, einföldum formum, hreinum litum og sléttu yfirborði. Á Norðurlöndunum náði konkretlistin nokkurri útbreiðslu og þar er hugtakið almennt notað um geómetríska abstraktlist.
Hugmyndafræði Bauhaus-skólans, sem var starfræktur í Þýskalandi á árunum 1919 – 1933 er honum var lokað af nasistum, hafði einnig víðtæk áhrif og langt umfram sinn starfstíma, einkum á iðnhönnun. Skólinn var stofnaður af Walter Gropius sem myndlistar- og handíðaskóli og eins konar rannsóknarstofa. Gropius safnaði saman ýmsum framúrstefnu listamönnum, arkitektum og hönnuðum til þess að kenna þar og taka þátt í tilraunum með efni, samþættingu listgreina og um áhrif lista á félagslega þætti. Nemendur lærðu bæði handverk og fagrar listir með áherslu á fjöldaframleiðslu hluta til daglegra nota. Áberandi eru geometrísk form með áherslu á notagildi fremur en skreyti líkt og síðar var meginþema funksjónalisma sem einnig hefur verið nefndur nýtistefna eða funkis á íslensku.
Útbreiðsla abstraktlistar í Evrópu varð töluverð á fjórða áratugnum en náði ekki til Íslands fyrr en nokkru eftir stríð með verkum manna sem numið höfðu og dvalið í París, sem var höfuðvígi geometrískrar abstraktlistar. Áður höfðu þó bæði Baldvin Björnsson og Finnur Jónsson unnið abstraktverk í Þýskalandi og Finnur meira að segja sýnt slík verk á Íslandi árið 1925 sem féll í grýttan jarðveg. Á þeim tíma voru landslagsverk verk verkanna í íslensku samfélagi, en með sýningu Svavars Guðnasonar á Íslandi árið 1945 er jafnan talið að abstraktlist hafi fest sig í sessi hér á landi. Fljótlega náði geometríska abstraktsjónin yfirhöndinni og var það ekki síst fyrir tilstilli sýningaskráa Septembersýninganna og tímaritanna Vaka og Birtings þar sem hugmyndafræði hennar er vel kynnt. Þá er líka vert að benda á sterka stöðu íslenskra kvenna í myndlist á þessum tíma, t.d. þá athygli sem verk Nínu Tryggvadóttur og Gerðar Helgadóttur fengu erlendis.
Þó að hér hafi verið stiklað á stóru í því að kynna mismunandi stefnur innan abstraktlistarinnar þarf að hafa í huga að hugmyndafræði þeirra er margslungnari en hér kemur fram og ein listastefna afsannar ekki aðrar stefnur líkt og vísindakenning heldur hafa þær áhrif hver á aðra og viðhalda meðvitund listamannanna um möguleika listarinnar.
Safnstjóri: Inga Jónsdóttir
Þeir listamenn sem verk eiga á sýningunni Samstíga eru eftirfarandi:
Karl Kvaran (1924–1989)
Nína Tryggvadóttir (1913–1968)
Svavar Guðnason (1909–1988)
Valtýr Pétursson (1919–1988)
Þorvaldur Skúlason (1906-1984)
Eyborg Guðmundsdóttir (1924–1977)
Gerður Helgadóttir (1928–1975)
Guðmunda Andrésdóttir (1922–2002)
Guðmundur Benediktsson (1920–2000)
Hörður Ágústsson (1922–2005)