Skúlptúr

Rósa Gísladóttir

28. september – 15. desember 2013

Ólafur Gíslason

Hin díalektíska kyrrstöðumynd

Þegar Rósa Gísladóttir sýndi skúlptúra sína í rústum Keisaratorganna í Róm sumarið 2012 skrifaði ég grein í sýningarskrá þar sem ég heimfærði þetta stefnumót verka hennar við rústir fortíðarinnar upp á eftirminnilegan texta, sem Walter Benjamin skrifaði á sínum tíma út frá málverkinu Angelus novus eftir Paul Klee: Engill með útbreidda vængi horfist í augu við rústir sögunnar sem hrannast upp fyrir framan hann; hann vill gjarnan höndla þessar rústir, raða þeim saman og vekja til lífsins, en nær ekki vængjaslættinum vegna þess að sterkur vindur, sem kemur frá Paradís, heldur vængjunum í opinni kyrrstöðu. Þessi vindur er það sem við köllum framfarir, segir Benjamin í þessum texta sínum. (Tesur um heimspeki sögunnar, birt í Illuminations, BNA 1969).

Fyrir Benjamin var málverk Klees það sem hann kallar víða í verkum sínum „hina díalektísku kyrrstöðumynd“, hugtak sem var honum hugleikið í samfelldu andófi hans gegn þeirri hugsun sem lítur á söguna og sagnfræðina sem uppfyllingu staðreynda í tiltekna tímaröð án frekari umhugsunar. Í þessari grein vildi ég heimfæra þetta hugtak, „díalektísk kyrrstöðumynd“ upp á skúlptúra Rósu Gísladóttur.

Fyrir Benjamin var mannkynssagan merkingarleysa nema þegar hún birtist okkur í þeirri „stillimynd sögunnar“ sem kveikir í samtíma söguritarans og áhorfandans og breytir þeirri sviðsmynd sem þeir eru staddir í um leið. Þannig eru öll skrif Benjamins eins og völundarhús mismunandi ósamstæðra myndbrota sem hann gróf upp úr fortíðinni til að bregða ljósi á samtíma sinn. Það eru myndbrot sem stundum missa marks, en inni á milli birtast leifturmyndir sem bregða ljósi yfir mun stærra svið, lýsa upp heiminn og kalla á nýjan heim. Benjamin leit á sjálfan sig sem safnara slíkra mynda og bækur hans eru þannig eins og safnverk, fullar af meira og minna sundurlausum tilvitnunum í ótal höfunda frá ólíkum tímum. Fyrir honum var starf rithöfundarins glíma við að skilja heiminn til að breyta honum um leið.

Það getur verið gagnlegt að skoða verk Rósu Gísladóttur í ljósi þessa lykilhugtaks Benjamins um „díalektískar kyrrstöðumyndir“, vegna þess að það getur skýrt samband þeirra við samtímann og söguna. Hugtak þetta skýrir Benjamin meðal annars með eftirfarandi orðum í hinu ófullgerða stórvirki sínu Das Passagen Werk, sem hann vann að samfleytt á árunum 1927 til dauðadags 1940:

Hugsun felur í sér hvort tveggja, hreyfingu og stöðvun hugans. Þegar hugsunin fer í kyrrstöðu í heildarmynd sem er þrungin spennu, birtist okkur hin díalektíska mynd. Það er rofið í hreyfingu hugans. Staða þess er auðvitað engin tilviljun. Rofið myndast þar sem spennan á milli díalektískra andstæðna nær hámarki. Því er sá hlutur, sem efnishyggjan sýnir okkur söguna í, díalektísk mynd. (The Archades Project, N10a,3, bls.475)

Og á öðrum stað:

Þegar hugsunin nemur skyndilega staðar við heildarmynd sem er þrungin spennu, verður þessi mynd að sjokkáreiti og hún kristallast í frumeind (monad). Sá sem ástundar sögulega efnishyggju nálgast sitt sögulega viðfangsefni einungis þar sem hann finnur það sem frumeind. (Theses on the Philosophy of History, birt í Illuminations, bls 263)

Það er ekki fráleitt að halda því fram að skúlptúrar Rósu séu frumeind (monad) í skilningi Benjamins: form sem fundin eru úr botnfalli sögunnar og dregin fram í dagsljósið, ekki til að endurlífga „söguna“, heldur til að bregða ljósi á og umbreyta samtímanum. Í þessum skilningi eru skúlptúrar Rósu „díalektískar kyrrstöðumyndir“ hlaðnar spennu á milli tveggja andstæðna. Form Rósu eru sótt í heim klassíkurinnar. Í tilfelli stóru skúlptúranna eru „fyrirmyndirnar“ sóttar til Keisaratorganna í Róm og til Pompei, 2000 ár aftur í söguna. Þetta eru form sem endurspegla heimsmynd sem er löngu horfin af sjónarsviðinu. Form sem eiga rætur sínar í þeirri flatarmálsfræði sem byggðist á hugmyndum um byggingu alheimsins. Í samtímanum lýsa þessi form í eigin ljóma, en sú óumbreytanlega bygging náttúrunnar er lá þeim til grundvallar, er horfin. Um leið er horfin úr samtíma okkar sú frumspeki er lá til grundvallar heimsmynd fornaldarinnar og hinnar klassísku listhefðar. Það er í þessum andstæðum sem díalektískur sprengikraftur skúlptúra Rósu er fólginn. Hann er líka til staðar í „Kyrralífsmyndinni“ frá 1999, sem verður eins og smækkuð mynd af hinum stóru skúlptúrum Rómartorganna. Þetta eru verk sem fela í sér sprengikraft í kyrrstöðu sinni vegna þess að þau mynda skammhlaup á milli tveggja heima.

Þótt verk Rósu vísi í hina klassísku hefð, þá eru þau engin „nýklassík“ í hefðbundnum listsögulegum skilningi. Nýklassík 18. og 19. aldar sótti vissulega formhugsun sína í grísk-rómverska klassík eins og Rósa, en forsendurnar voru aðrar: nýklassíkin markaði það rof í listasögunni sem einkenndist af iðnbyltingunni, upplýsingunni og frönsku stjórnarbyltingunni, en einnig af tilkomu sérstakrar fræðigreinar um hið fagra, þar sem listin var losuð undan tengslum sínum við trúarbrögðin og það gamla samfélag sem hafði speglað sig í skrautfengi og mælskulist barokk- og rókokkótímans. Iðnbyltingin kallaði á nýja verkaskiptingu, og listin var þar engin undantekning: hún steig sín fyrstu skref sem sjálfstætt verkfæri hinnar nýju borgarastéttar og var búin til þjónustu við hina upplýstu valdastétt, hvort sem um var að ræða lýðveldi, keisaradæmi eða konungsríki.

Verk Rósu eru gjörólík hvað þetta snertir. Þau bjóða sig ekki fram til þjónustu fyrir valdið eða framleiðsluna og framfaratrúna. Þvert á móti fela þau í sér andóf hinnar díalektísku kyrrðarmyndar Benjamins. Þau birta okkur formgerðir úr fortíðinni sem lýsa í eigin ljóma án allrar frumspeki og án allrar vísunar í heildstæða heimsmynd. Þvert á móti verða þau til að vekja okkur til vitundar um brotthvarf allrar heildarsýnar á þau ófrávíkjanlegu lögmál náttúrunnar, sem Grikkir kenndu að væru undirstaða siðlegrar breytni. Rúmfræði þeirra og rýmismótun hafði þannig djúpstæða siðferðilega merkingu, sem samtími okkar hefur gefið frá sér í nafni trúar á framfarir og tækni. Þessi einföldu form Rósu geyma þannig í sér endurskin horfinnar siðfræði sem bregður ljóma yfir samtíma sem í krafti tækninnar stefnir vistkerfi sínu í glötun.

Í bandarískri útgáfu ritgerðarsafnsins Illuminations eftir Bejamin er afar falleg ritgerð eftir Hönnu Arendt um Benjamin, ævi hans og störf. Þessari ritgerð lýkur hún með orðum um „náðargáfu skáldlegrar hugsunar“ sem mér finnst einnig geta átt við um formhugsun Rósu Gísladóttur:

Þessi hugsun sem nærist af samtímanum, vinnur með „hugsanabrot“ sem hún finnur í fortíðinni og raðar í kringum sig. Rétt eins og perlukafari sem kafar niður á sjávarbotninn, ekki til þess að grafa upp botninn og bera upp á yfirborðið, heldur til að losa um það sem er vænlegt eða undarlegt, perlurnar og kóralana í sjávardjúpunum, og að bera þau upp á yfirborðið, þessi hugsun brýtur hyldýpi hins liðna til mergjar – þó ekki til að endurlífga þau til fyrri tilveru eða vinna að endurlífgun útdauðra tíma. Það sem stýrir þessari hugsun er sú sannfæring, að þótt hið lifandi sé undirorpið eyðingu tímans, þá sé hrörnunarferlið jafnframt ferli kristöllunar, að í djúpinu, sem er dvalarstaður þess sem eitt sinn var lifandi, sé að finna hluti sem hafa mátt þola „sjávarumbreytingu“ og hafa lifað af í kristölluðu formi og lögun sem höfuðskepnurnar fá ekki grandað, rétt eins og þessi form hefðu einungis beðið eftir perlukafaranum sem einn góðan veðurdag mundi finna þau á botninum og bera upp til heims lifendanna eins og „hugsanabrot“, eins og eitthvað „auðugt og undarlegt“, og hugsanlega jafnvel sem óbrotgjarnt frumfyrirbæri (Urphaenomene). (Illuminations, bls 58, Inngangur eftir Hönnu Arendt).

Rósa Gísladóttir

Rósa Gísladóttir fæddist í Reykjavík árið 1957 og býr nú í Kópavogi. Hún nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1977-1981 og við Listaakademíuna í München hjá prófessor Eduardo Paolozzi 1981-1986. Hún bjó í Bandaríkjunum 1989-1993 og 1997-1998 og í Bretlandi 1999-2003. Hún lauk meistaragráðu í umhverfislist frá Manchester Metropolitan háskólanum í Englandi árið 2002 og stundaði meistaranám í kennslufræðum við Listaháskóla Íslands 2010-11.

Rósa hefur hlotið ýmsar viðurkenningar og notið starfslauna úr launasjóði myndlistarmanna í nokkur skipti. Árið 2000 var hún þátttakandi í samkeppni á vegum Kirkjugarðasambands Íslands um gerð legsteina og árið 2013 var hún í úrslitum í samkeppni um gerð útilistaverks hjá HP Granda í Reykjavík. Hún á að baki fjölmargar samsýningar og einkasýningar bæði hér á landi sem erlendis svo sem alþjóðlegu samsýninguna Big Scale í Malmö í Svíþjóð 1988, listahátíð í Nordrhein-Westfalen í Þýskalandi 1995, Strandlengjuna 2000 í Reykjavík, Looking at the overlooked í Róm 2009 og Óttann við óvini framtíðarinnar í Gallerí Ágúst 2011. Rósa var ein þeirra sem áttu verk á sýningunni Nautn og notagildi í Listasafni Árnesinga 2012 og sama sumar var ennfremur opnuð stór sýning á verkum hennar, Come l’acqua come l’oro…, í hinu virta safni Mercati di Traiano í Róm þar sem sett hafa verið upp verk ýmissa heimsþekktra listamanna, s.s. Richard Serra og Anthony Caro.

Viðfangsefni Rósu eru hversdagslegir hlutir og umhverfismál. Lengst af hefur hún unnið í leir, gifs, steinsteypu og bylgjupappa en á síðustu árum hefur hún einnig notað plastflöskur, plexígler, vatn, ljós og jesmonite (sem líkist gifsi en er mun sterkara). Verk eftir Rósu er að finna í safneign Listasafns Reykjavíkur og Listasafns Íslands.