Slangur (y)
Sara Riel
9. mars – 2. júní 2013
Halla Björk Kristjánsdóttir
SLANGUR (y)
Í gegnum tíðina hafa myndlistarmenn ögrað ríkjandi listastefnum hvers tíma. Líkt og slangur þá er vikið frá viðurkenndu sniði tungumálsins og nýr orðaforði myndaður út frá erlendum orðum og óvenjulegum orðmyndunum. Slangur er oftast tileinkað ákveðnum hópum samfélagsins og þá yngri kynslóðinni. Í upphafi er það skapað sem sameinandi tjáningarmáti en á það til að festa sér sess í almennu talmáli. Á sama hátt hafa nýjar listastefnur orðið til í gegnum söguna.
Verk Söru Riel, sem sjá má á þessari sýningu, eru frá árinu 2006 og eiga rætur sínar að rekja til graffitímenningarinnar. Graffití er það fyrirbæri sem sprettur upp frá andófi ungmenna á áttunda áratugnum og er í dag ein útbreiddasta hreyfing listasögunnar. Innan þessarar hreyfingar starfa fjölmargir listamenn alls staðar að úr heiminum. Menningin í kringum graffitíið er hörð og karllæg og einkennist af samkeppni, agressívri og aktívri framkomu og heiðri. Markmiðið er að tagga og/eða bomba sem stærstu svæðin og skilja sem mest eftir sig en þá er ekki óalgengt að verk annarra graffara séu krossuð eða böffuð. Þeir listamenn sem hafa náð að graffa og tagga stærstu svæðin eru álitnir hetjur og hljóta þann eftirsókna titil að vera „All-City King“. Áskorun og áhætta er nauðsynlegur partur af þessari listsköpun en graffitíverk eru oftast nær sett upp í opinberum rýmum án leyfis yfirvalda. Þau hafa því vafasamt orð á sér og eru oftast meðhöndluð sem skemmdarverk. Frá upphafi var stefna hreyfingarinnar að halda listsköpun sinni frá hvítum veggjum safna og gallería. Þannig töldu listamennirnir sig eiga greiðari leið með að koma skilaboðum og listsköpun sinni til skila til almennings.
Eftir langa veru erlendis og sem virkur meðlimur í alþjóðlegri strætishreyfingu hefur Sara náð að skapa sér nafn innan alþjóðlegs vettvangs graffaranna og strætislistamanna. Eftir að heim kom hélt hún áfram að þróa með sér þessa listastefnu og sótti í náttúru og sveitir landsins eins og fyrirrennarar hennar áttu til að gera eftir nám sitt erlendis. Þar merkti hún sér svæði og náði þannig á sinn kómíska hátt að hasla sér völl á Íslandi sem „All-Country King“. Val hennar á staðsetningu var þó á skjön við þær ákveðnu hugmyndir að graffitíið ætti að vera unnið í opinberum rýmum innan borgarmúranna. Einnig voru þeir staðir sem hún valdi til að graffa á meira og minna í niðurníðslu. Flestir voru í raun aðskotahlutir í náttúrunni og höfðu jafnvel engan tilgang þar lengur. Það sem Sara graffaði á þessa staði voru slanguryrði sem hún valdi með tillit til staðsetningar og merkingu orðanna í stað nafnsins síns (Name-Fame) eins og algengara er þegar svæði eru merkt. Á ferðalögum sínum um heiminn hafði hún tekið eftir ákveðnum orðum sem hún þekkti vel sem slangur í íslensku talmáli. Þessi orð eins og heavy, happy og nicely höfðu einnig verið felld inn í slangur annarra tungumála. Fyrir henni voru slanguryrðin því sameiningartákn frekar en ógn við tungumálið, leið til að skilja aðra og gera sig skiljanlegan. Auk þess að gera tilraunir með leturtýpur og liti við gerð þessara verka þá horfði Sara á inntak orðanna og leitaðist eftir að ná fram þeim tilfinningum sem þau fólu í sér. Oftar en ekki fengu orðin fleiri en eina merkingu. Sem dæmi þá lýsir orðið lousy í samnefndu verki lélegu ástandi hússins en einnig þeirri tilfinningu sem fylgir því að sjá húsið í niðurníðslu. Þrátt fyrir að hafa staðsett verk sín á jafn verðlausa hluti, sem jafnvel lýta umhverfið og náttúruna, þá voru það verkin sjálf sem álitin voru skemmdarverk.
Sjö árum síðar er afrakstur þessarar vinnu sýndur hér. Í formi ljósmynda eru þessi verk orðin hluti af seríu byggðri á slanguryrðum, gröffuð á hin ýmsu svæði í sveitum Íslands. Í þessari framsetningu teljast verkin til konseptlistar og eru langt komin frá hugmyndafræði graffitísins sem þau í upphafi voru unnin út frá. Sá ferill sem þau hafa gengið í gegnum lýsir þeim ferli sem listakonan sjálf hefur gengið í gegnum í listsköpun sinni og snýr að fræðilegri þekkingu og áhuga á klassískri myndlist. Með því að taka verkin „af götunni“ og staðsetja innan veggja safnsins bendir hún okkur á hversu umdeild listaverk geta verið. Þannig leyfir hún sér að efast um fyrirfram ákveðnar hugmyndir um staði, listastefnur og tungumál og gefur þeim nýtt gildi.
Um listamanninn:
Sara Riel (1980) útskrifaðist sem meisterschuler úr Kunsthochschule Berlin-Weißensee í Þýskalandi árið 2006. Hún hefur öðlast töluverða reynslu af sýningargerð og framsetningu verka í hinum ýmsu rýmum auk þess að hafa verið virkur meðlimur innan hinnar alþjóðlegu hreyfingar strætislistarinnar frá árinu 2003. Sara hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hérlendis og erlendis og sýnt verk sín í virtum sýningarsölum, þar á meðal í Hamburger Bahnhof í Berlín, Scion gallery LA, Tokio Wondersite og í Listasafni Reykjavíkur. Einnig má sjá veggverk eftir hana í borgum víðsvegar um heiminn. Í verkum Söru má finna áhrif frá strætislist, hugmyndalist og grafískri hönnun en hún hefur mikla þekkingu á hinum ýmsu miðlum og hefur hún hannað plötuumslög og gert tónlistamyndbönd fyrir Prins Póló, Ólöfu Arnalds og Kiru Kiru. Undanfarið hefur Sara einbeitt sér að gerð stærri veggverka en þau verk sem hún vann í Reykjavík sumarið 2012 eru hluti af einkasýningu hennar, Konungsríkin sex – Náttúrugripasafn, sem haldin verður í Listasafni Íslands í júlí árið 2013.