Snertipunktar
Anna Eyjólfsdóttir · Birgir Snæbjörn Birgisson · Helgi Hjaltalín Eyjólfsson · Helgi Þorgils Friðjónsson
Ragnhildur Sefánsdóttir · Þórdís Alda Sigurðadóttir · Þuríður Sigurðardóttir
13. júlí – 14. september 2014
Stattu með bakið í keiluna
og hallaðu þér að henni.
Finndu auman punkt við herðablöðin
og þrýstu honum á keiluna
og losaðu um spennuna.
Andaðu rólega inn í sársaukann á meðan.
Snertipunktur eftir Ragnhildi Stefánsdóttur
Margrét Elísabet Ólafsdóttir
Samhengi listarinnar
Félagslegt samhengi íslenskrar samtímalistar fær sjaldan umfjöllun við hæfi. Listfræðingar hafa ekki lagt sig sérstaklega eftir því að skoða myndlist samtímans í félagslegu ljósi og hér hafa ekki heldur verið gerðar félagsfræðilegar rannsóknir á listheiminum. Listfræðin einbeitir sér frekar að ferli einstakra listamanna, einstökum listastefnum og listfræðilegri greiningu. Þetta á við þótt listfræðin geti ekki horft framhjá því að listin er félagslegt fyrirbæri – ekki síður en þjóð(félags)legt. Þetta sést vel í yfirlitsritum um íslenska listasögu, þar sem saga myndlistar í landinu er látin hefjast á síðari hluta 19. aldar. Hörður Ágústsson myndlistarmaður var á sínum tíma harður gagnrýnandi þess að horft væri framhjá listasögu fyrri alda og benti á félagslegar forsendur hennar. Nú hefur Ólafur Rastrick sýnt fram á að menntamenn í upphafi 20. aldar litu svo á að listir og menning hefðu félagslegu hlutverki að gegna í að siðmennta þjóðina og því bæri siðferðileg skylda til að leggja rækt við listir og menningu. Tengsl slíkra hugmynda og viðhorfa Harðar eru áhugaverð. Hörður hélt því fram að ástæðan fyrir því að fræðimenn á Íslandi horfðu framhjá langri sögu sjónmennta í landinu væri sú að yfirstéttin hefði stundað bókmenntir og fræðagrúsk, en lágstétt og smábændur handverk ýmiskonar og myndlist. Þessi túlkun er lituð af söguskoðun fyrri hluta 20. aldar, því nýlegar rannsóknir Þóru Kristjánsdóttur sýna að yfirstéttin fékkst líka við myndlist. Þóra fjallar sérstaklega um þetta í einum kafla bókar sinnar Mynd á þili , en gerir að öðru leyti lítið úr stéttaskiptingunni. Hún telur einnig að erfitt sé að greina á milli „smiðs“ og „listamanns“ , en það er afstaða byggð á viðhorfi samtímans er kýs að horfa framhjá hugmyndasögulegum greinarmun sem á rætur í félagslegri aðgreiningu. Þetta tvennt skín þó í gegn í sögu Hjalta Þorsteinssonar, prests í Vatnsfirði, sem hneigðist snemma til lista, en gerði prestskap að ævistarfi. Það þótti meira viðeigandi fyrir mann af hans stétt.
Það er nánast ómögulegt að átta sig á hvað býr að baki slíkum viðhorfum nema horfa til Evrópu. Þegar Hjalti fæddist árið 1665 voru sautján ár liðin frá stofnun fyrstu listaakademíunnar í Frakklandi. Árið sem hann lést, 1754, tók Konunglega danska listaakademían til starfa í Kaupmannahöfn. Akademíurnar voru afsprengi áhrifa endurreisnartímans á Ítalíu, en þá fóru listamenn að leggja sig eftir fræðilegri þekkingu til viðbótar við verklega kunnáttu. Krafan um fræðilega þekkingu leiddi til stofnunar listakademíunnar í Róm á 16. öld. Akademíunum fjölgaði smám saman en þær drógu úr áhrifum gilda handverksmanna á menntun listamanna og ýttu undir meiri afskipti efri stétta þjóðfélagsins af listum. Um leið færðust listamenn skör ofar í þjóðfélagsstiganum. Listamenn akademíunnar tengdust ekki gildunum en þurftu í staðinn að treysta á stuðning aðalsmanna og kóngafólks, sem litu á sig sem velgjörðarmenn listanna. Eftir frönsku byltinguna tóku stjórnvöld við þessu hlutverki í Frakklandi, þar sem til urðu náin tengsl Fagurlistaakademíunnar í París og hins opinbera. Akademían var skipulögð samkvæmt stífu stigveldi líkt og samfélagið, en þegar byltingin hafði riðlað samfélagsgerðinni tók líka að hrikta í stoðum akademíunnar. Um svipað leyti sáust fyrstu merki hópamyndunar meðal listamanna sem ekki fengu framgang innan ríkjandi kerfis akademíunnar. Þekktasta dæmið um slíka hópamyndun er frönsku impressjónistarnir. Leiðir þeirra lágu saman um það leyti sem nýtt myndlistarumhverfi tók að mótast upp úr miðri 19. öld en þá hafði París fest sig í sessi sem miðstöð evrópskrar myndlistar.
Gallerí og listamannarekin rými
Hlutverk Fagurlistaakademíunnar var að mennta listamenn, en hún hafði einnig áhrif á starfsframa þeirra hjá hinu opinbera. Frami listamanna réðst á árlegum Salónsýningum þar sem dómnefnd skar úr um ágæti verka. Fagurlistaakademían var ekki eina akademían í Frakklandi þar sem fjöldi minni og misáhrifamikilla skóla var stofnaður um allt land á 19. öld. Skólarnir leiddu til fjölgunar listmálara sem ekki áttu möguleika á opinberum stuðningi. Listamenn sem ekki höfðu fengið inngöngu í Fagurlistaakdemíuna, eða vildu frekar læra annars staðar, áttu hins vegar minni möguleika á að fá verk sín sýnd á Salónsýningunum. Þetta var aðdragandinn að frægri sýningu hinna útilokuðu eða Salon des Refusées, sem markar upphafið á ferli impressjónistanna.
Listaverkasalar sáu ný tækifæri í þessari breyttu stöðu. Einn þeirra, Durand-Ruel , hafði selt verk Barbizon-málaranna sem stunduðu landslagsmálun undir berum himni. Landslag var ekki hátt skrifað viðfangsefni innan Fagurlistaakademíunnar, en vinsælt meðal listaverkakaupenda úr röðum almennra borgara. Durand-Ruel sá tækifæri í hópi ungra listamanna sem varð ágætlega til vina og máluðu stundum saman líkt og Barbizon- málararnir. Þessi vinahópur varð þekktur undir nafninu impressjónistarnir eftir að hafa sýnt á ljósmyndastofu Nadars. Eins og frægt er orðið var það neikvæður gagnrýnandi sem gaf hópnum nafn, en það var listaverkasalinn sem nýtti sér nafngiftina til að koma verkum listamannanna á framfæri. Hlutverk listaverkasalans fólst í því að tryggja listamönnunum fjárhagslega afkomu með því að kaupa reglulega af þeim verk. Verkin seldi hann síðan á mun hærra verði en hann hafði upphaflega borgað fyrir þau, en í því lá ávinningur hans. Til að auka verðgildi verka impressjónistanna hélt hann sýningar sem áttu þátt í að aðgreina þá frá fjöldanum sem sýndi á Salónsýningunni. Sýningarnar sjálfar þurftu athygli sem bæði neikvæð og jákvæð skrif gagnrýnenda áttu þátt í að skapa. Gagnrýnendur léku stórt hlutverk í að vekja athygli á listamönnunum og smám saman urðu skoðanir þeirra mikilvægari en viðurkenning frá dómnefndum Salónsýninganna. Sumir gagnrýnendur voru einnig vinir listamanna sem þeir studdu og fullyrtu að væru misskildir. Þannig varð til misræmi sem átti sinn þátt í að ýta undir mýtuna um misskilda snillinginn. Sú skoðun var síðan staðfest af markaðinum þegar listaverk hækkuðu í verði. Það má því segja að hinn frjálsi markaður hafi þurft á misskilda snillingnum að halda. Smám saman varð til nýtt kerfi sem byggðist ekki eingöngu á tengslum akademíunnar og hins opinbera heldur tengslum listaverkasala og gagnrýnenda.
Opinber stuðningur við listir hvarf ekki, heldur breyttist og þróaðist samhliða markaðskerfinu þegar leið á 20. öldina. Hlutdeild markaðarins í velgengni listamanna náði nýjum hæðum í Bandaríkjunum eftir síðari heimsstyrjöldina. Þar áttu listgagnrýnandinn Clement Greenberg og listaverkasalinn Leo Castelli stóran þátt í að koma verkum abstrakt-expressjónistanna á framfæri en það sem réði úrslitum um almennar vinsældir þeirra var birting ljósmynda Hans Namuth af listamanninum Jackson Pollock við vinnu sína. Spádómar Walters Benjamins um áhrif ljósmyndarinnar á frummyndina gengu því eftir en í stað þess að rýra gildi verksins óx ára þess og í framhaldinu verðgildið.
Þetta samspil markaðar og sýnileika listamanna í fjölmiðlum hefur verið ríkjandi síðan en það hefur einnig haft þversagnakenndar afleiðingar. Þegar leið á sjöunda áratuginn kom fram ný kynslóð listamanna í Bandaríkjunum sem var í andstöðu við markaðinn. Þessi kynslóð vildi geta stundað listsköpun og sýnt list án þess að hafa þarfir hans í huga. Þetta var upphaf sögu sjálfstætt rekinna listamannarýma sem ekki reka starfsemi sína í hagnaðarskyni. Rekstur listamannareknu rýmanna byggist á sameiginlegum hagsmunum og vinskap, en er um leið birtingarmynd togstreitu hugmyndarinnar um sjálfstæði listamanns og listar og þörf listamannsins fyrir sýnileik og fjárhagslegan stuðning. Í reynd þurfa listamannreknu rýmin ef þau eiga að lifa af, annaðhvort stuðning frá hinu opinbera eða þau verða að laga sig að markaðskerfinu.
Stofnun listamannarekinna rýma getur einnig átt sér aðrar ástæður sem hafa ekkert með mótmæli gegn markaðsöflunum að gera. Það á til að mynda við á Íslandi þar sem aldrei hefur verið sterkur markaður fyrir samtímalist. Listamenn sem hafa rekið eigið sýningarrými eru því ekki í andstöðu við neitt nema kannski tómlæti. Það er nær að segja að þeir séu að bregðast við ástandi sem íslenskt myndlistarlíf hefur búið við síðustu áratugi. Hér tekur ekkert við listamönnum sem ljúka námi hvorki stofnanir né markaður. Þetta hvetur þá til að taka málin í sínar hendur. Þannig hafa orðið til fjölmörg listamannrekin rými á síðustu fjörutíu árum sem fæst hafa orðið langlíf. Undantekningin er rými sem rekin eru án yfirbyggingar eða af félagasamtökum. Aðeins eitt listamannarekið gallerí á Íslandi hefur stigið skrefið inn á alþjóðlegan listaverkamarkað. Það sama verða íslenskir listamenn að gera ef þeir vilja lifa af list sinni. Listamenn sem eru búsettir hér á landi sinna því flestir öðrum störfum meðfram listsköpun. Það sem hvetur þá áfram er ekki von um fjárhagslega velgengni, frægð og frama heldur þörfin fyrir að skapa verk burt séð frá því hvað umhverfið gerir. Við skulum kalla það innri hvöt þótt þeir séu til sem efast um að slík hvöt sé til.
Endurnýjun
Í þessu umhverfi, sem er vissulega flóknara en hér er svigrúm til að lýsa, hafa einnig orðið til hópar listamanna sem lætur vel að sýna saman. Sýningin Snertipunktar leiðir saman tvo slíka hópa sem samanstanda af sjö listamönnum. Þetta eru Anna Eyjólfsdóttir, Þuríður Sigurðardóttir, Þórdís Alda Sigurðardóttir, Helgi Þorgils Friðjónsson, Ragnhildur Stefánsdóttir, Birgir Snæbjörn Birgisson og Helgi Hjaltalín Eyjólfsson. Listamennirnir eru innbyrðis frábrugðnir og hafa ekki sent frá sér neinar stefnuyfirlýsingar. Samvinna þeirra byggist á vinskap og andlegum skyldleika. Þeir eiga engu að síður ýmislegt sameiginlegt sem ekki tengist verkum þeirra nema óbeint. Þeir eru komnir um og yfir miðjan aldur og hafa stundað nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Sá skóli var stofnaður árið 1939 í þeim tilgangi að efla handíðir en þau áform voru í anda hugmynda um „fagurbætur“ . Skólinn átti í upphafi meira sameiginlegt með List- og handverkshreyfingu Williams Morris en fagurlistaakademíum 18. aldar. Hóparnir sem eiga verk á sýningunni urðu þó ekki til í skólanum. Félagslegu tengslin urðu til síðar og fara eftir kyni. Við getum því skipt hópunum í fjórar konur og þrjá karlmenn. Hvor hópur um sig hefur sett upp þónokkrar sýningar saman á undanförnum árum á ýmsum stöðum, bæði innan lands og utan. Konurnar hafa einngi rekið gallerí í sameiningu.
Það að hóparnir skuli vera kynskiptir gefur tilefni til vangaveltna en hér verður látið nægja að vekja athygli á því að konurnar hafa allar, að Ragnhildi Stefánsdóttur undanskilinni, hafið nám mun síðar á ævinni en karlmennirnir. Yngsti og elsti listamaðurinn, þau Anna Eyjólfsdóttir og Helgi Hjaltalín Eyjólfsson, voru því samtíða í Myndlista- og handíðaskólanum. Þau eiga það einnig sameiginlegt ásamt Þórdísi Öldu og Ragnhildi að hafa stundað nám í myndhöggvaradeild. Hún var ekki til þegar Helgi Þorgils Friðjónsson var við nám í byrjun áttunda áratugarins og var lögð niður líkt og málaradeildin, ári áður en Þuríður Sigurðardóttir útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands. Þuríður er næstelst í hópnum, en um leið „yngsti myndlistarmaðurinn“ og sú eina sem er útskrifuð úr Listaháskólanum. Sjöundi listamaðurinn í hópnum, Birgir Snæbjörn Birgisson, var nemandi í grafíkdeild.
Á þeim þremur áratugum sem liðu frá því Helgi Þorgils hóf myndlistarnám árið 1971 og þar til Þuríður útskrifaðist árið 2001 gekk MHÍ í gegnum miklar breytingar. Í stað þess að leggja áherslu á að útskrifa nemendur með próf sem veitti þeim starfsréttindi, færðist áherslan yfir á það sem kallað var frjáls myndlist. Þessar breytingar tóku mið af kröfunni um aukið frjálsræði sem fylgdi 68 kynslóðinni og þeim hræringum sem fyrst gætti í íslenskum myndlistarheimi á sjöunda áratugnum. Breytingarnar eru gjarnan miðaðar við sýningar SÚM- hópsins og Myndhöggvarafélags Reykjavíkur á Skólavörðuholtinu, en þær má einnig rekja til áhrifa sjónvarps og annarra fjölmiðla.
Róttækasta breytingin fólst í stofnun nýlistadeildar, sem síðar fékk heitið fjöltæknideild. Deildin var ólík öðrum deildum að því leyti að hún lagði meiri áherslu á hugmyndavinnu en verklega útfærslu. Slíkt hefði verið óhugsandi fyrir daga konseptlistarinnar. Fjöltæknideildin byggðist einnig á þverfaglegum grunni sem má rekja til Fluxus og skilgreiningar Dick Higgins á þvermiðlun í listum. Þvermiðlun vísar til þess að mörkin milli miðla og listgreina hvorki eigi né þurfi að vera skýr. Higgins var líkt og fleiri listamenn af hans kynslóð undir miklum áhrifum frá fjölmiðlum og hreifst af kenningum Marshall McLuhans um hlutverk þeirra í menningu samtímans. Fjölmiðlun byggist á tæknilegum miðlum, sem hafa verið kallaðir nýmiðlar. Nýlistadeildinni var ætlað að skapa svigrúm fyrir þessa nýju miðla, en til þeirra töldust ljósmyndir, kvikmyndir, vídeó og rafhljóð. Ýmsir aðrir miðlar og framandi efni sem ekki höfðu verið talin eiga erindi inn í myndlist áður fyrr rötuðu einnig inn í deildina, þar á meðal tilbúnir verksmiðjuframleiddir hlutir. Þótt enginn þeirra listamanna sem eiga verk á sýningunni Snertipunktar hafi stundað nám í fjöltæknideild má sjá áhrif þessara strauma í verkum þeirra enda höfðu þeir áhrif á allar deildir skólans.
Annað sem einkenndi þetta tímabil í sögu samtímalistarinnar var hugmyndin um endalok þess sem kallað hefur verið framúrstefna. Framúrstefnan hefur verið skilgreind sem byltingarkennt afl, sem er ýmist ætlað að bylta listinni eða samfélaginu. Þess konar hugmyndir fela gjarnan í sér neikvæða afstöðu til fortíðarinnar þar sem henni er hafnað sem gamalli og úreltri. Fluxus og konseptlistin fela í sér slíka höfnun, en þessar stefnur virtust einnig vera endastöð. Það varð ekki lengra komist en skapa and-list í anda Fluxus eða hafna sjálfu listaverkinu með því að neita sér um að skapa verk líkt og konseptlistamennirnir gerðu. Hvort sem við viljum líta á þessar hreyfingar sem blindgötu eða aflvaka fyrir endurnýjun eins og varð í málverkinu á níunda áratugnum, þá eru málverk Helga Þorgils Friðjónssonar skýrt dæmi um hvað endurnýjunin fól í sér í málverkinu á Íslandi.
Þegar allt verður leyfilegt
Það sem gerðist í upphafi níunda áratugarins mætti einna helst líkja við innsprengingu. Það var eins og listin sæi ekki lengur möguleika á að þenjast út í þróun fram á við. Hún fann ekki heldur hjá sér hvöt til að ögra fortíðinni. Markmiðið var ekki lengur að kollvarpa eldri viðmiðunum í sama skilningi og Magnús Pálsson gerði þegar hann steypti Bestu stykkin eða hafna hefðinni eins og Dieter Roth þegar hann bjó til bókapylsur úr verkum þýskra heimspekinga. Í staðinn hófst tímabil endurlits þar sem fortíðin og samtíminn runnu saman í endalausri uppspettu viðfangsefna fyrir listamenn. Við sjáum þetta í verki Helga Þorgils, Vinnustofan (módel og blóm) VII. Viðfangsefni málverksins er fyrirsætan, sem Carol Duncan hélt fram að hefði þjónað því hlutverki í verkum framúrstefnumálara í upphafi 20. aldarinnar, að sýna drottnun karlmannsins yfir konunni. Drottnunin var undirstrikuð með erótískum undirtón sem tengist reyndar ekki eingöngu verkum 20. aldarinnar. Helgi er sér meðvitandi um þessa hefð en í stað ögrunar í anda framúrstefnumálaranna er komin angurværð. Listamaðurinn virðist uppteknari af samtalinu við fortíðina en samtímanum þegar hann hagræðir fyrirsætunni í mismunandi stellingum. Stellingarnar skapa hreyfingu og frásögn í huga áhorfandans en yfir sjálfu málverkinu hvílir rósemd sem er undirstrikuð með kyrralífi og flötum af málaðri bakhlið málverkanna. Afskornar liljur sem eitt sinn hefðu táknað skírlífi eru hins vegar orðnar að táknmynd fyrir munúð sem er handan seilingar. Með treganum sem fylgir týndu valdi má einnig greina annan og léttari tón. Þessi tónn er gráglettinn. Hann skilar sér í ankannalegum stellingum fyrirsætunnar en ekki síður í fuglshausnum sem hangir eins og ofvaxinn pungur á milli karlmannsfóta í seríunni Gláp. Þessa hárfína blanda af söknuði og kímni kemur einnig fyrir í verkum Birgis Snæbjörns Birgissonar. Birgir nálgast viðfangsefni sitt engu að síður á örlítið annan hátt þar sem hann sækir sér innblástur í fjölmiðla og fjöldamenningu samtímans.
Konur eru Birgi hugleikið viðfangsefni, sérstaklega ljóshærðar konur. Birgir hefur í samræmi við viðfangsefnið tamið sér mjög ljósa litanotkun. Litirnir gera það að verkum að myndefnið nánast hverfur en það er í hrópandi andstæðu við hávaðann sem einkennir fjölmiðlun samtímans þangað sem listamaðurinn sækir innblástur. Í verkinu Nurse‘s Pride rennur mynd af hvítum nælonsokkum næstum saman við bakgrunninn. Titill verksins dregur nafn sitt af vörumerki fatnaðar fyrir hjúkrunarkonur, en í ljósmyndaseríunni eru einnig myndir af ljósum hárkollum. Hárkolluna má sjá sem hluta af vinnubúningi hjúkrunarkonunnar ef við höfum í huga staðnaða ímynd ljóshærðu hjúkkunnar. Hún getur einnig leitt til túlkunar sem leiðir í átt að blætisdýrkun og dökkri erótík.
Birgir á söfnunaráráttuna sameiginlega með Önnu Eyjólfsdóttur. Anna notar hluti sem hún safnar saman eða raðar upp í mörgum eintökum. Hún skapar þannig klifun sem magnar upp merkingu hlutanna sem hún setur fram. Þetta á við um Hlið við hlið þar sem tylft af hvítum gúmmístígvélum er raðað upp á hillu en undir hillunni hanga jafnmargar hvítar gúmmísvuntur. Fiskverkakonur hafa klæðst og klæðast enn slíkum fatnaði. Verkið býr yfir fortíðarþrá eftir hverfandi vinnuháttum og minningum um samstöðu fiskverkafólks. Verkið er í senn óður og viðbragð við breytingum í samtímanum og vísar aftur fyrir sig en ekki fram. Þórdís Alda horfir einnig til baka en verk hennar Spor á Vetrarbraut er persónulegra í þeim skilningi að hún leitar í nærumhverfi sitt að viðfangsefni. Verkið hvílir ekki á jafn augljósri samfélagslegri skírskotun og verk Birgis og Önnu þar sem það vísar í ferðalag einstaklingsins í gegnum lífið. Um leið minnir fjöldi ólíkra spora á þátt hvers og eins í að móta það sem er sameiginlegt. Hvert fótspor er einstakt en saman mynda þau slóð fyrir þá sem fylgja á eftir. Verkið er samsett úr mörgum einingum sem hanga neðan úr loftinu í gormi. Þessi framsetning býður upp á leik við áhorfendur sem er leyft að toga í. Þannig skapast raunveruleg hreyfing öfugt við táknræna hreyfinguna í verki Helga Þorgils.
Það sem öll verkin eiga sameiginlegt er að þau vísa í líkama. Líkaminn er augljós í verki Helga Þorgils, sem glímir við mannslíkamann sem er hvergi sjáanlegur í hinum verkunum. Þar er það fatnaðurinn, stígvél, sokkar, svuntur og skór sem gefa til kynna manneskju sem er farin eða væntanleg. Nálægð manneskju sem er hvergi sjáanleg fær aðra merkingu í verki Helga Hjaltalín Just one piece of lead. Titillinn er fenginn að láni úr texta lagsins I hung my head eftir Johnny Cash sem lýsir afleiðingum vanhugsaðs riffilskots. Vatnslitamyndir sýna ólíkar byssutegundir sem við nána athugun eru ónothæfar vegna galla eða bilunar. Fyrir ofan þær eru skotmörk, máluð eins og skraut líkt og rendurnar og hnapparnir sem skreyta töskur sem hanga við hlið myndanna. Helgi vinnur gjarnan verk sín eins og smiður og hér hefur hann smíðað töskur sem þrátt fyrir að vera skrautlegar mætti nota sem hulstur utan um byssurnar. Sjálf byssan er tákn karlmennsku og frelsis í heimi kvikmynda og dægurmenningar en hún er einnig banvænt vopn sem hér hefur verið svipt hlutverki sínu. Verk Helga Hjaltalín er bræðingur menningarheima þar sem hann blandar saman vísunum og notar snyrtilega framsetningu til að fjalla um margslungnar merkingar í dægurmenningu samtímans.
Ragnhildur Stefánsdóttir notar einnig viðtekið verklag sem hún sækir í hefð höggmyndalistarinnar. Hún og Helgi Þorgils ásamt Þuríði eiga í þeim skilningi sameiginlegt að byggja á hefð fagurlistanna, málverks og höggmyndar. Fullkomin framsetning mannslíkamans var ein helsta áskorun listamanna endurreisnarinnar og klassíska tímans en í verkum Ragnhildar er hann bútaður niður í einingar, tekinn í sundur eða aðskilinn frá sjálfum sér. Hjarta er í þeim skilningi hefðbundin höggmynd að verkið er gert úr mótum. En í stað mannshjartans eru mót þess steypt hvert ofan í annað, til skiptis úr hvítu gifsi og lituðu gúmmíi. Þau liggja opin og óvarin og kalla fram tilfinningu fyrir einmanaleika og sársauka. Ragnhildur vinnur á annan hátt í innsetningunni Listasafn Árnesinga sem er gerð sérstaklega fyrir safnið. Hér notar hún hitamyndavél sem skynjar líkamlega návist sýningargesta og varpar marglitum útlínum þeirra á tjald. Það má líta á verkið sem „höggmynd“ af líkama í rauntíma sem minnir á hverfulleikann sem listamennirnir eru allir að fást við hver á sinn hátt.
Jafnvel verk Þuríðar Sigurðardóttur fela í sér ákveðna nostalgíu. Hún kemur ekki fram í myndefninu heldur aðferðinni við að mála. Þuríður leitar ekki í listasöguna að myndefni eins og Helgi Þorgils en hún hefur tamið sér vinnuaðferðir sem minna á gamla tíð. Sjálft myndefnið sækir hún hins vegar í áhugamál sitt, hestamennskuna. Hún horfir á hestinn og gengur síðan alla leið að honum þangað til hún er hætt að sjá útlínur hans. Við sjáum því ekki hestinn í heild sinni heldur áferð feldsins og þykkt holdsins á einlitum og tvílitum litaflötum. Þótt hægt sé að finna tengingar milli einstakra verka listamannanna á sýningunni hvað varðar viðfangsefni er hvert þeirra heimur í sjálfum sér, tilbúinn að snerta við áhorfandanum og leiða hann á persónulegt stefnumót. Hvert verk ber áhorfandann með sér í einstakt ferðalag líkt og hesturinn ber knapann á ferð út í óvissuna.
Listamenn
Anna Eyjólfsdóttir
Anna Eyjólfsdóttir er fædd árið 1948. Hún stundaði nám við Myndlistaskóla Reykjavíkur á árunum 1986-88, og síðan við Myndlista- og handíðaskóla Íslands á árunum 1988-91, Listaakademíuna í Düsseldorf í Þýskalandi 1991-93 og Kennaraháskóla Íslands 1993-95. Anna hefur starfað að myndlist síðan og sýnt víða bæði innanlands og utan. Hún vinnur gjarnan stórar innsetningar þar sem hún fæst við ýmis minni sem og vensl lista við daglegt líf og notast þá oft við tilbúnar neysluvörur. Samhliða eigin listsköpun sinnti Anna einnig kennslu um tíma og var deildarstjóri skúlptúrdeildar Myndlista- og handíðaskólans í nokkur ár og síðar Listaháskóla Íslands í eitt ár. Hún hefur verið virk í félagsstörfum og var um tíma formaður Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík. Undir hennar formennsku stóð félagið að nokkrum stórum útisýningum svo sem Strandlengjusýningin 1998 og 2000 og Firma ´99. Anna var einn stofnanda Gallerí StartArt og rak það ásamt fleirum í rúm tvö ár, 2007-9.
Birgir Snæbjörn Birgisson
Birgir Snæbjörn Birgisson er fæddur árið 1966. Hann útskrifaðist sem stúdent af myndlistarbraut Menntaskólans á Akureyri og stundaði síðan nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1986-89. Hann sótti framhaldsnám við fjöltæknideild École des Arts Décoratifs í Strassborg í Frakklandi 1991-93. Birgir var einnig búsettur um tíma í London þar sem hann starfaði að myndlist en býr nú og starfar í Reykjavík. Hann stofnaði ásamt konu sinni Sigrúnu Sigvaldadóttur Gallerí Skilti 2007 sem sýningarvettvang við heimili þeirra að Dugguvogi 3 í Reykajvík. Birgir hefur verið mjög virkur í sýningarhaldi bæði hér heima og erlendis. Hann hefur lengi unnið með staðalímyndir út frá norrænu og ljóshærðu yfirbragði. Dæmi um slík verk eru myndraðirnar Ljóshærðir hjúkrunarfræðingar, Ljóshærðar starfsstéttir, Ljóshærð ungfrú heimur 1951-, Auðmýkt, Ljóshærðir listamenn og Ljóshærðir tónlistarmenn. Í verkum Birgis er að finna samfélagslega og pólitíska skírskotun.
Helgi Hjaltalín Eyjólfsson
Helgi Hjaltalín Eyjólfsson er fæddur árið 1968. Hann útskrifaðist með stúdentspróf frá listasviði Fjölbrautaskólans í Breiðholti og sótti síðan nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1988-91, Kunstakademie Düsseldorf 1991-92, AKI, Academie voor Kunst en Industrie í Enschede í Hollandi 1992-94 og San Francisco Art Institute 1994-95. Hann hefur verið virkur í sýningarhaldi jafnt hér heima sem erlendis síðan á námsárunum. Helgi rak sýningarrýmið 20m2 um hríð og hefur sinnt ýmsum störfum tengdum myndlist svo sem stjórnarsetu í Myndhöggvarafélaginu í Reykjavík og Nýlistasafninu, verið í sýningarnefndum og starfað við kennslu. Verk Helga eru oft haganlega unnir smíðagripir sem virðast hafa notagildi en hafa þó ekki. Hann hefur einnig fengist við aðra miðla svo sem ljósmyndir, vatnslitamyndir og myndbönd. Undir yfirheitinu Kjöraðstæður hefur Helgi unnið nokkrar innsetningar þar sem grunnhugmyndin er sú að allar aðstæður séu kjöraðstæður, ef ekki fyrir þig þá einhvern annan.
Helgi Þorgils Friðjónsson
Helgi Þorgils Friðjónsson er fæddur árið 1953. Hann nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1971-76 og stundaði framhaldsnám í Hollandi við De Vrjie Academie í Haag 1976-77 og Jan van Eyck Akademie í Maastricht 1977-79. Helgi hefur verið starfandi myndlistarmaður frá því hann lauk námi. Hann hefur aðallega fengist við olíumálverk en jafnframt unnið teikningar, grafík, texta, bókverk og skúlptúra. Verkin hans eru fígúratíf og hann hefur sagt að í þeim tefli hann saman sögum mannkyns og lista og að viðfangsefnið sé líka einsemd mannsins. Verk hans hafa verið sýnd víða jafnt innanlands sem erlendis. Helgi hefur átt þátt í stofnun ýmissa sýningarýma og má þar nefna Gallerí Vísi sem var í dagblaðinu Vísi, Nýlistasafnið og Suðurgata 7 í Reykjavík og Gallerí Lóa í Amsterdam. Gangurinn er þekktur sýningarvettvangur á heimili Helga sem hann hefur rekið frá árinu 1980 og er nú að Rekagranda 8 í Reykjavík. Helgi hefur líka sinnt kennslu, setið í stjórnum listastofnanna og verið sýningarstjóri nokkurra sýninga svo sem Picasso á Íslandi sem sett var upp hér í Listasafni Árnesinga 2008.
Ragnhildur Sefánsdóttir
Ragnhildur Stefánsdóttir er fædd árið 1958. Hún var nemandi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1977-80, við Minneapolis College of Art and Craft í Bandaríkjunum 1980-81 og Carnegie Mellon University – College of fine Art 1985-87. Ragnhildur hefur lengst af fengist við fígúratífa höggmyndalist og tilvistarlegar spurningar. Í verkum sínum vinnur hún gjarnan með hið efnislega og huglæga í manninum og leitar þá bæði í austurlensk og vestræn fræði. Hún á að baki tugi einka- og samsýninga innanlands sem utan. Ragnhildur hefur tekið þátt í nokkrum samkeppnum um úti- og innilistaverk, kennt við Listaháskóla Íslands og Pacific Lutheran Háskólann í Tacoma í Bandaríkjunum og hannað leikmyndir. Hún var formaður Myndhöggvrafélagsins um skeið og hefur einnig sinnt félagsstörfum innan Sambandis íslenskra myndlistarmanna. Ragnhildur var einn stofnenda StartArt sem var starfrækt við Laugaveginn í Reykjavík á árunum 2007-2009.
Þórdís Alda Sigurðadóttir
Þórdís Alda Sigurðardóttir er fædd árið 1950. Hún lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1972. Þórdís sótti tíma í Myndlistaskóla Reykjavíkur á árunum 1977-79, nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1980-84 og Akademie der Bildenden Künste í München í Þýskalandi 1985-86. Frá námslokum hefur Þórdís unnið að myndlist og hafa verk hennar verið sýnd víða bæði innanlands sem erlendis. Hún vinnur gjarnan umfangsmiklar innsetningar og sækir efnivið og hugmyndir í „dótakassa samtímans“ þar sem hún skoðar og nýtir sammannlega hluti, þætti og athafnir sem hún tvinnar í nýtt samhengi. Samband manns og náttúru er henni líka hugleikið. Hún hefur sinnt félagsstörfum og sat m.a. í stjórn Myndhöggvarafélagsins. Þórdís tók þátt í stofnun og rekstri Gallerí StartArt sem starfrækt var á Laugavegi 12b í rúm tvö ár, 2007-2009. Hún er líka annar tveggja stofnenda Listasjóðs Dungals sem veitti ungum og upprennandi myndlistarmönnum styrki en leggur nú áherslu á útgáfu listaverkabóka í samvinnu við bókaforlagið Crymogeu.
Þuríður Sigurðardóttir
Þuríður Sigurðardóttir er fædd árið 1949. Hún sótti tíma í Myndlistaskóla Reykjavíkur, nam við listnámsbraut Fjölbrautaskólans í Breiðholti 1996-98. Þuríður var nemandi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1998-2000 og síðan Listaháskóla Íslands þaðan sem hún útskrifaðist með BA-gráðu í myndlist 2001. Hún sótti einnig námskeið í íkonamálun hjá prófessor Yuri Bobrov, professor í íkonafræðum við Listakademíuna í St. Pétursborg. Frá námslokum hefur Þuríður unnið að myndlist og sýnt víða bæði innanlands og utan. Hún fæst fyrst og fremst við olíumálverk og viðfangsefnið er gjarnan náttúran, stundum með þröngt eða óvænt sjónarhorn. Hún hefur kennt við Myndlistaskóla Reykavíkur og á eigin námskeiðum og verið sýningarstjóri m.a. með Markúsi Þór Andréssyni á sýningunni Tívolí, sem sett var upp í Listasafni Árnesinga 2005. Þuríður hefur verið virk í félagsstörfum og m.a. setið í stjórn Sambands íslenskra listamanna og Bandalags íslenskra listamanna. Hún átti þátt í stofnun og rekstri Opna gallerísins sem nýtti sér ýmis rými í 101 Reykjavík 2002-2003 og StartArt Gallerísins við Laugaveg sem starfrækt var 2007-2009. Þuríður var valin bæjarlistamaður Garðabæjar 2004.
Sýningarstjóri: Margrét Elísabet Ólafsdóttir
Margrét Elísabet Ólafsdóttir er fædd árið 1965. Hún er stúdent frá Menntaskólanum að Laugarvatni og stundaði síðan nám við Parísarháskólann Sorbonne-Panthéon. Hún lauk diplómanámi í menningu og boðskiptafræðum árið 1994, sérhæfði sig síðan í fagurfræði og útskrifaðist með framhaldsgráðu árið 1999. Hún lauk doktorsprófi í list- og fagurfræði frá sama skóla árið 2013. Margrét hóf feril sem blaðamaður á Morgunblaðinu árið 1987 og skrifaði fyrir ýmis dagblöð og tímarit á námsárunum, aðallega um listir og menningu. Hún var deildarstjóri listaverka- og sýningardeildar Listasafns Íslands í eitt ár, en frá árinu 2002 hefur hún fengist við rannsóknir á raf- og stafrænum listum með áherslu á sögu þessara lista á Íslandi. Margrét var skipuleggjandi raflistahátíðarinnar Pikslaverk árið 2010 og 2011 og ein af sýningarstjórum sýningarinnar Sjónarmið – á mótum myndlistar og heimspeki í Listasafni Reykjavíkur árið 2011. Árið 2013 skipulagði hún gjörninginn Power Struggle eftir Olgu Kisseleva í Nýlistasafninu og sýninguna Íslensk vídeólist frá 1975-1990 í Listasafn Reykjavíkur sem var byggð á rannsóknum hennar.
Hér er hægt að hlaða niður sýningarskránni sem pdf.: