Til sjávar og sveita
Gunnlaugur Scheving
9. mars – 2. júní 2013
Listasafn Árnesinga vann þessa sýningu í samstarfi við Listasafn Íslands og Listasafni Hornafjarðar. Markmiðið með sýningunni er að gera myndlist aðgengilega fyrir íbúa í Árnessýslu og Hornfirðinga og þá sérstaklega skólahópa. Starfsmenn Listasafns Íslands hafa unnið fræðsluefni sem fylgir sýningunni og höfðar jafnt til barna og fullorðinna.
Verk Gunnlaugs Scheving eru gott dæmi um þá vinnu sem listamenn leggja oft í undirbúning og rannsóknir áður en lokaverkefnið lýtur dagsins ljós. Gestir fá sjaldan að sjá þetta langa ferli frá hugmynd að málverki en á þessari sýningu má sjá hvernig hugmyndir fæðast á skissubókum, þróast á skissum, vatnslitamyndum og teikningum og fá svo endanlegt form á málverki.
Samstarfsverkefni Listasafns Árnesinga, Listasafns Hornafjarðar og Listasafns Íslndsa hlaut styrk frá Menningarráði Suðurlands árið 2011. Á næsta ári kemur önnur sýning frá Listasafni Íslands og verður sjónum þá beint að samtímalist.
Sýningin Til sjávar og sveita er fyrsta sýningin af þremur sem Listasafn Árnesinga hefur unnið í samstarfi við Listasafn Íslands og Listasafn Hornafjarðar. Sýningunum er ætlað er að kynna ákveðin tímabil eða stefnur í íslenskri myndlist og verkefni fyrir gesti, gjarnan skólahópa, verða einnig aðgengileg til þess að glíma við og hafa gaman af. Á sýningunni Til sjávar og sveita eru verk Gunnlaugs Scheving til skoðunar þar sem hann annars vegar fæst við sjómennskuna og hins vegar mannlífið í sveitinni. Í Hveragerði er sýningin nokkuð stærri þar sem salarkynnin leyfa það að setja hér upp nokkur af stærstu verkum Gunnlaugs í eigu Listasafns Íslands en þaðan koma öll verkin.
Val verka á sýninguna byggist á þeirri hugmynd að verkin endurspegli ákveðinn tíðaranda og hugmyndafræði en ekki einstaka listamenn né þróun þeirra.
Við lifum og hrærumst í síbreytilegum heimi þar sem við erum sífellt að bregðast við þeim upplýsingum og áhrifum sem við verðum fyrir frá umhverfinu og á það ekki síst við um listamenn. Menning og menningararfur er hluti okkar daglega lífs, í sífelldri þróun en sköpun á sér einnig stað.