Tíma – Tal

Rúrí

14. maí – 1. ágúst 2016

Laufey Helgadóttir

listfræðingur

Tíminn er efnið sem ég er gerður úr. Tíminn er fljót sem hrifsar mig með sér, en ég er fljótið; hann er tígrisdýr sem rífur mig í sig en ég er tígrisdýrið; hann er eldur sem eyðir mér, en ég er eldurinn.¹

Á fyrstu einkasýningu Rúríar í Gallerí Lóu í Amsterdam árið 1979 voru fjögur verk sem fjölluðu um tíma. Þar á meðal var verkið Tími I-IV, sem samanstendur af fjórum hringlaga veggklukkum í hvítum römmum sem sýna mismunandi myndlíkingar af tímanum. Engir tölustafir eru á skífum klukknanna og aðeins ein þeirra hefur hefðbundna vísa. Fyrsta klukkan er með gyllta ör á sekúnduvísinum sem snýst réttsælis á dimmbláum bakgrunni, hring eftir hring og sýnir okkur hina eilífu hringrás tímans. Næsta klukka sem hefur einnig dimmbláan bakgrunn er með tvö hnattlaga táknræn form, mynd af sólinni áfastri við klukkustundavísinn og mynd af jörðinni á mínútuvísinum. Þannig sýnir hún okkur bókstaflega gang jarðar í kringum sólina og stærðarhlutföllin á milli þessara tveggja hnatta. Á þriðju klukkunni eru engir vísar, en „andlit“ klukkunnar er þakið dökkblárri skífu nema þar sem sjá má í gegnum þríhyrningslaga gat, mynd af landslagi sem fer í mismunandi búninga fyrir árstíðirnar fjórar þegar skífan snýst einn hring á tólf klukkutímum. Fjórða klukkan hefur einnig skífu í stað vísis, en nú er það stjörnuhiminn norðurhvelsins sem hefur verið málaður á skífuna með pólstjörnuna fyrir miðju og tekur það skífuna tólf klukkutíma að fara hringinn.

Auk þess að standa frammi fyrir öðruvísi skilgreiningu á tíma en þeirri sem við erum vön í okkar daglega lífi fáum við þarna strax í upphafi ferils Rúríar innsýn í áhuga hennar á stjörnufræði, mælingu tímans og hversu mikilvægt það er að skoða hlutina í hinu stóra samhengi, þ.e. í tengslum við alheiminn. Hugleiðingar sem halda áfram að vera einn af meginþáttunum í listsköpun hennar eins og sannast með sýningunni Tíma – Tal sem nú er haldin í Listasafni Árnesinga. Sýningin er haldin í tengslum við uppsetningu útilistaverksins, Sólgátt, sem Rúrí er að vinna fyrir Sólheimaþorpið í Grímsnesi og tengjast flest verkin á sýningunni Suðurlandinu á einn eða annan hátt. Titill sýningarinnar, Tíma – Tal, getur vísað til talningu tímans þ.e.a.s. aðferðar við að skrásetja atburði í tíma, en hann getur líka verið tilvísun í samtal eða umræðu um samtímann með áherslu á pólitíska atburði, eins og Rúrí hefur sjálf undirstrikað.²

Í aldanna rás hafa ýmsar aðferðir verið notaðar við tímamælingar, aðferðir tengdar sólinni, himintunglunum eða árstíðunum. Þannig hafa stjörnufræðin og hreyfing himintungla verið vegvísar manna frá upphafi og þó að viðmið okkar í dag séu klukkur og dagatöl eru stjörnurnar ennþá tryggir leiðarvísar.

Klukkur hafa ekki alltaf verið til og mæling tímans eins og við þekkjum hann nú kom ekki fram á sjónarsviðið fyrr en á tímum iðnbyltingarinnar. En klukkur geta verið skeikular og það er ekki víst þó að við myndum stilla saman tvær klukkur að þær myndu sýna okkur sama tíma eftir sólarhring. Hvor þeirra mælir þá hinn raunverulega tíma? Eru kannski til margir tímar, enginn einn algildur tími?

Þetta fjögurra stafa ósýnilega og ósnertanlega fyrirbæri, tími, sem hefur heillað vísindamenn, listamenn, rithöfunda, sagnfræðinga og heimspekinga í gegnum aldir er þó flestum ráðgáta enn þann dag í dag líkt og rýmið og alheimurinn. Við vitum þó að tíminn hefur með tilfinningar, kenndir og skynjun að gera og að menn skynja hann á mismunandi hátt. Vísindamenn skilgreina tímann í gegnum önnur rannsóknargleraugu en listamenn sem líta gjarnan á tímann sem hluta af sinni daglegu tilveru og hafa þar af leiðandi huglægara og margbreytilegra tímaskyn til viðmiðunar. Tíminn fær þess vegna afar fjölbreytileg birtingarform í listinni. Hann getur verið í senn skapandi og eyðandi, við getum skynjað hann sem afl og hann getur líka verið efniviður til að vinna úr. Rúrí hefur sagt að hún upplifi tímann sem eina af höfuðskepnunum.³

Sumir velta því fyrir sér hvort tíminn sé fýsísk stærð, hvort hann hafi upphaf og endi, hvað hann þýði, hvort hann eigi sér birtingarmynd eða hvort hann sé bókstaflega blekking. Aðrir spyrja sig hvort tíminn líði, hversu hratt og ef hann líði af hverju hann líði frá fortíð til framtíðar, en ekki öfugt? Vangaveltur sem heilagur Ágústínus (354–430) kemur með í bók sinni Játningum þegar hann skrifar: „Hvað er þá tími? Meðan enginn spyr mig um það, þá veit ég það. En ef ég á að útskýra það fyrir þeim sem spyr, þá veit ég það ekki. Ég get engu að síður sagt blygðunarlaust að ég veit, að ef ekkert myndi gerast, þá væri engin fortíð; ef ekkert myndi gerast héðan í frá væri engin framtíð; og ef ekkert væri, þá væri engin nútíð. Hvernig geta þá þessar tvær tegundir af tíma, fortíðin og framtíðin verið til; úr því fortíðin er ekki lengur og framtíðin ekki komin? Og varðandi nútíðina, ef hún væri alltaf nútíð í staðinn fyrir að líða og verða þátíð, þá væri það ekki lengur tími heldur eilífð.“

Spurningar sem eru gildar enn þann dag í dag því við vitum að það er jafn erfitt að komast til botns í þessu umfangsmikla viðfangsefni sem tíminn er og listinni sjálfri. Stundum er talað um að tíminn sé ein tveggja frumvídda í heiminum, vídd breytinga og að hin frumvíddin sé rými. Í afstæðiskenningu Einsteins er rúmi og tíma fléttað saman í eina heild, svonefnt tímarúm.

Þar með fengu orðin tími og rými, aðra og nýja merkingu í huga margra listamanna og þess vegna er ekkert undarlegt að það séu þessi tvö orð sem berist oftast í tal þegar rætt er um list tuttugustu aldarinnar og list dagsins í dag. Við tölum iðulega um að hlutir gerist í tíma og rúmi og ef vel er að gáð má finna skírskotun til tímans í öllum verkum Rúríar, vangaveltur um rýmið og tengslin þar á milli.

Tíminn getur t.d. verið inntak verksins, líftími þess eða hvernig það þróast eins og í verkunum Sunlight II (1977) þar sem það tók vissan tíma fyrir fræin að vaxa, Regnboga I (1983) sem fuðraði upp á nokkrum mínútum eða Regnboga II (1985) sem leystist smám saman upp þar til hann hann eyddist. Tíminn getur skírskotað til fortíðar, jafnvel framtíðar eins og í verkunum Desolation (1984) sem Rúrí gerði fyrir sýninguna Fljúgandi steinsteypa (Flyvende Beton – Experimental Environment) sem haldin var í miðborg Kaupmannahafnar, Tími/Lystiskáli, sem var gert fyrir sýninguna Big Scale –’85 á listahátíð í Malmö í Svíþjóð og Time Concrete sem hún gerði í Helsinki árið 1986 fyrir aðra Experimental – Environment sýningu sem bar titilinn Concrete. Þegar Rúrí gerði verkið Desolati- on hafði hún í huga þorpsrústir sem hún hafði sjálf upplifað og vann út frá þeim húsarústir úr steinsteypu á hinu fjölfarna torgi, Kultorvet í Kaupmannahöfn. Þessar 4 m háu rústir minntu óneitanlega á rústir stríðshrjáðrar borgar og voru í algjörri andstöðu við umhverfið allt í kring. Verkið Tími/Lystiskáli eða Time/ Pavilion tók mið af neóklassíska lystiskálanum Margareta Paviljongen sem stendur í Pildamsparken, einum af skrúðgörðum Malmö-borgar og minnti verkið helst á fornar rústir af grísku hofi. Time Concrete var gert með hliðsjón af byggingu við austurenda götunnar Iso Robertinkatu í Helsinki þar sem verkið var staðsett og notaði Rúrí form úr þeirri byggingu í eigið verk. Þess vegna er húsið sem verkið vísar til og verkið sjálft órjúfanleg heild.

Þessi þrjú „site specifique“ verk sem öll tengjast byggingarlist í almenningsrými eiga það sameiginlegt að fjalla um rústir og „framtíðar fornleifafræði“, eins og Rúrí hefur sjálf bent á. Þau benda okkur á að við getum lært af fortíðinni, en að við eigum líka að sýna ábyrgð gagnvart framtíðinni. Það er ekki bara tímans tönn eða veðrun sem níðist á mannanna verkum heldur á maðurinn sjálfur ef til vill stærstan þátt í niðurrifinu. Þannig vekja rústarverkin okkur til umhugsunar um hverfulleika menningarinnar og það sem gæti gerst í ókominni framtíð. Á sama tíma myndgerir Rúrí með verkunum hugleiðingar sínar um tímann, sem hún lýsir í tengslum við sýninguna í Helsinki þannig:

Tími er konstant.

Hann líður,

hvort sem einhver er

að fylgjast með honum

eður ei,

umbreytir og mótar

umhverfi og verur.

Tími er þó ekki föst stærð,

stundum líður hann hægt,

stundum hratt,

allt eftir kringumstæðum,

umhverfi og hugarástand

skoðandans …

Tíminn getur einnig verið snertanlegur þegar hann er notaður í sinni materíalísku vídd sem mælikvarði þeirra breytinga sem eiga sér stað í heiminum. Skráningar og mælingar koma reglulega fyrir í verkum Rúríar eins og t.d. í afstæðisverkunum sem hún gerði á tíunda áratugnum, þar sem hún gefur hinu ómælanlega mælanlega ásýnd í gegnum margbreytilegar, form- rænar birtingarmyndir af tommustokkum. Hún veltir því fyrir sér hvort fyrirbæri eins og ást, kærleikur og tilfinningar séu í raun mælanleg. Þessar mælingar snúast í raun og veru allar um leit að samræmi og stöðu mannsins í heiminum. Hún gerði sér líka snemma grein fyrir mikilvægi mannslíkamans sem mælikvarða m.a. með því að stúdera hina frægu teikningu Leonardos da Vinci af Vitruvíusar-manninum þar sem líkami karlmanns er teiknaður inn í hring og ferning og naflinn myndar miðjuna. Ef alheimur er ákveðin stærð er maðurinn örmynd þeirrar stærðar, mikrókosmos annars vegar og makrókosmos hins vegar. Í því samhengi hefur hún bent á að höfuðhár karlmannsins í mynd Leonardos myndi fullkominn hring „og að þar sé hann að vísa til sólarinna, greinilega, því lokkarnir liggi eins og logar“.

Tíminn og sólin

I útilistaverkinu Kuopio Observatorium sem Rúrí gerði fyrir umhverfislistasýninguna Experimental Environment í Kuopio í Finnlandi árið 1995 veltir hún fyrir sér mælingu tímans í tengslum við sólarganginn og fékk stjörnufræðing til liðs við sig til að reikna út nákvæmar áttir til sólar. Verkið samanstendur af sex hvítum misbreiðum steinsteypustólpum sem allir eru um 2m á hæð og móta hring 19m í þvermál kringum lítinn ferhyrndan pall sem á eru grafnar höfuðáttirnar fjórar. Steinsúlurnar mynda þrenn pör, sem hvert um sig vísar í þá átt þar sem sjá má frá pallinum sólarupprás og sólsetur á sumarsólstöðum, vetrarsólstöðum og haust- og vorjafndægrum. Hið hringlaga form verksins minnir okkur á sólina sjálfa, sjóndeildarhringinn, og forna steinahringi í fornminjum eins og t.d. Stone- henge á Suður-Englandi. En hringurinn getur líka táknað himinhvolfið, dýrahringinn og hina eilífu hringrás tímans. „Þegar ég kom þangað fyrst í desember síðastliðnum til að kynna mér staðinn var ákaflega dimmt og drungalegt um að litast. Það varð til þess að ég ákvað að vinna með sólina í verki mínu,“ sagði Rúrí í blaðaviðtali þegar hún var spurð út í tilurð verksins.

Þetta var ekki í fyrsta skipti sem Rúrí vann með sólina sem viðfangsefni því á áttunda áratugnum gerði hún verkið Sunlight II (1977) sem var reyndar allt annars eðlis. Þá útbjó hún lítinn trékassa utan um Sunlight- sápustykki, setti mold ofan í kassann, sáði síðan karsafræjum í moldina og stillti kassanum þannig upp að sápan var fest í lokinu. Fyrir ofan kassann kom hún fyrir ljósmyndum sem sýndu þróun ræktunarinnar og áhrif tímans á vaxtartíma verksins. Tveimur árum síðar gerði hún gjörning þar sem hún vann með sex striga á sex trönum. Á einn strigann málaði hún gula sól, bar síðan eld að sólinni þannig að eldurinn læsti sig í sólina, logarnir teygðu sig upp á við og sviðu strigann. Hún nefndi verkið Sólarupprás.

Verkið Obervatorium Polaris sem var tillaga að útilistaverki við Íslandsbrygge í Kaupmannahöfn er annað dæmi um umhverfislistaverk þar sem viðmiðunin er sólkerfið og stjörnufræði. Tillagan sýnir átta 5-10 m há pýramídalaga form með kristalstoppum sem ætlað er að fanga birtuna á daginn og lýsast upp á kvöldin. Sagnir herma að forfeður okkar hafi notað sólsteina til leiðsagnar þegar skýin huldu sólar- og stjörnusýn á siglingarleið þeirra um úthöfin löngu áður en áttavitinn var fundinn upp. Og vilja sérfræðingar meina að þessir sólsteinar hafi verið kristallar, gegnsæir kalsítkristallar, jafnvel íslenskt silfurberg.Þess vegna gætu kristalstoppar verksins verið tilvísun í þessa gömlu sólsteina og þar með vegvísar fyrir skipin sem eiga leið um Íslandsbrygge. Í uppröðun pýramídanna tekur Rúrí mið af Karlsvagninum og afstöðu stjarnanna til Pólstjörnunnar og er skin hennar reiknað út með tilliti til afstöðu áhorfenda.

Fyrir listamann sem er í stöðugri leit að samræmi og jafnvægi, spilar sólin eðlilega mikilvægt hlutverk. Orka sólarinnar fæðir af sér allt líf jarðarinnar og líf, dauði og endurfæðing er táknað með sólarhringrásinni. Þó að sólin sé ekki Guð, eins og margir trúðu áður, er hún hjá mörgum þjóðum birtingarmynd guðdómsins. Egyptar nefndu sólina eftir helsta guði sínum Ra, Grikkir kölluðu hana Helíos, Rómverjar, Sol og æðstur guða Azteka í Mexíkó var sólguðinn Huitzilopochtli. Inkar töldu sig vera afkomendur sólguðsins og Loðvík XIV, gerði sólina að sínu tákni, líkti sér við sólguðinn Appolo og kallaði sig sólkonung. Þannig mætti lengi telja. Táknræna sólarinnar er jafn margbreytileg og hún er auðug af mótsögnum.

Þegar Rúrí var beðin um að vinna útilistaverk fyrir Sólheimaþorpið í Grímsnesi kom fátt annað til greina en að vinna verk sem væri beintengt við sólina og samtímis staðarnafninu sjálfu. Enda er verkið Sólgátt óður til sólarinnar, himintunglanna og alheimsins. Verkið er 7 m á hæð, 4,20 m lengri hliðin, 2,80 m sú styttri og sneisafullt af táknum og tilvísunum. Það minnir í fljótu bragði á Maya-hof, vörðu eða jafnvel ísklaka þegar horft er á það úr fjarlægð við ákveðin birtuskilyrði, þar sem það markar aðkomu að byggðinni. Strúktúrinn er unninn í hert gler sem er borið uppi af ryðfrírri stálgrind og er upplýstur innan frá með ljósabúnaði sem sér um að breyta styrkleika birtunnar í takt við veðurfarsbreytingar, sólarljós og gang himintungla.

Rými alheimsins og máttur sólarinnar eru efniviður og inntak verksins sem er í senn rýmisverk og leiðar- vísir. Og í björtu, fallegu veðri endurspeglast umhverfið og himinhvolfið í yfirborði verksins. „Það liggja göng í gegnum verkið sem marka línuna milli sólar- upprásar á sumarsólstöðum og sólseturs á vetrarsól- stöðum. Þessi lína liggur í stefnu sem er því sem næst milli norð-norð-austurs og suð-suð-vesturs. Samkvæmt fornri heimspeki markar sú lína árið, sem hugmynda- fræðilega heild, og um leið táknar hún ævi eða lífs- hlaup manna, frá fyrsta andardrætti til hins síðasta.”

Verkið er unnið í samvinnu við verkfræðinga, ljósasérfræðing, stjörnufræðing, forritara, vélsmiði og landslagsarkitekt og hefur listakonan talað um að viðkynni sín af hinni einlægu ást og gleði sem einkennir heimilisfólkið á Sólheimum hafi haft sterk áhrif á sköpun verksins. Líkt og aðrir áhorfendur geta heimamenn orðið þátttakendur í verkinu með því að ganga í gegnum upplýst göngin þar sem þeir upplifa birtu, liti og form eða eignast hlutdeild í því með því að útbúa sjálfir flísar sem verða síðan felldar inn í steinlögnina við setsteinana. Einnig verður hægt að fá sér sæti á setsteinunum umhverfis verkið, horfa upp til himins, virða fyrir sér skýjahnoðrana eða einfaldlega láta hugann reika. Setsteinarnir mynda jafnframt ofanvarp Karlsvagnsins, nærliggjandi stjarna og Pólstjörnunnar.

Tíminn og vatnið

Fátt er yndislegra en að láta sig dreyma við lækjarsprænu úti í náttúrunni, horfa og hlusta á síbreytilegt vatnið seytla og streyma endalaust hjá. Þá leysist ímyndunaraflið úr læðingi og við skynjum huglæg og líkamleg tengsl við náttúruna, sérstaklega vatnið, enda mannslíkaminn að stórum hluta vatn. Sá sem hefur skrifað hvað mest um táknmál og ljóðrænu vatnsins er franski heimspekingurinn Gaston Bachelard (1884- 1962) sem hefur einnig velt fyrir sér spurningunni um virkni og hlutverk ímyndunaraflsins. Hann bendir einmitt á mikilvægi vatnsins í tengslum við hugmyndaflugið í bókinni Vatnið og draumarnir og vitnar í því samhengi í franska rithöfundinn Paul Claudel sem vildi meina „að vatnið væri augnaráð jarðarinnar og tæki hennar til að horfa á tímann”.¹⁰

Upp úr aldamótunum verður vatnið eitt aðalþemað í verkum Rúríar og oftast samtvinnað sterkri náttúruvitund. Vatnið er í senn skapandi og eyðandi eins og tíminn og það er ekki út í hött að segja að vatnið og tíminn séu tveir fletir á sama fyrirbærinu líkt og Steinn Steinarr bendir á í upphafi síns fræga ljóðabálks, Tíminn og vatnið. Vatnið á sér hvorki upphaf né endi, fer í hringi eins og tíminn og er hluti af eilífri hringrás sem sólin knýr áfram og hefur staðið síðan jörðin varð til. Vatnið er ein af höfuðskepnunum í hinni fornu fjórskiptingu á efnum jarðar og draumar okkar tengjast gjarnan þessum fjórum höfuðskepnum, jörð, vatni, lofti og eldi, sem hafa líka verið settar í samhengi við vissar kenndir í mannlegri vitund, þunglyndi, rólyndi, glaðlyndi og bráðræði. Vatnið er upphaf alls lífs og án vatns væri ekkert líf, en það er líka orka sem knýr túrbínur og ein mikilvægasta auðlind jarðar. Það er lífgjafi okkar og ógnvaldur því það getur líka hrifsað með sér og drekkt öllu í kaf.

Rúrí hefur lýst því í viðtali hversu náið samband hennar er við náttúruna og þörfinni að láta til sín taka á sviði náttúrverndar:

„Þegar ég gerði mér svo grein fyrir því síðar hversu mikið var búið að þrengja að lífríki Þjórsár og annarra stórfljóta á Íslandi og þegar ákvörðun var tekin um að reisa stærstu virkjun Evrópu á Austurlandi blöskraði mér æ meir.

Ég gat ekki horft upp á þetta og varð að taka þátt í umræðunni um framtíð íslenskrar náttúru. En ég vil taka það fram að ég lít ekki á umræðuna sem sér-íslenska heldur anga af alþjóðlegu umræðunni. Ég valdi að vinna með íslenska fossa og tek þá sem dæmi um það sem er að gerast um alla jörð, þar sem gífurlegum náttúrulegum gæðum hefur verið fórnað fyrir tækni- og iðnvæðingu af ýmsum toga og í þvílíkum mæli að það ógnar lífríki jarðar. Í verkunum er samtímis gagnrýni á það sem er að gerast á Íslandi og það sem er að gerast úti um allan heim. Vatnið verður tákngerving fyrir alla náttúruna og þá í þessu tilfelli virkjanir sem tákngerving fyrir alla rányrkju eða framkvæmdir sem setja jafnvægi náttúrunnar úr skorðum og ógna þar af leiðandi lífríki jarðar.”¹¹

Eins og hér kemur skýrt fram gat Rúrí ekki sætt sig við aðför íslenskra ráðamanna að lífríki Þjórsár og annarra stórfljóta á Íslandi. Virkjanaáformin við Eyjabakka urðu til þess að hópur áhugafólks um verndun hálendis með Rúrí og Hörpu Arnardóttur leikkonu í fararbroddi stóðu fyrir gjörningi á svæðinu 4. september 1999. Rúmlega hundrað manns lögðu sextíu og átta stuðlabergssteina á jörðina sem á voru grafin jafnmörg orð úr texta Matthíasar Jochumssonar við þjóðsöng Íslendinga. Ó stendur á fyrsta steininum sem er skammt frá Eyjabakkavaði, síðan er hægt að rekja sig eftir þjóðsögnum á þriggja km svæði í átt að bílastæðinu við rætur Snæfells þar sem síðasta orðið, deyr er að finna skammt þar frá í austurátt. Gjörningurinn og mótmæli almennings í tengslum við Eyjabakka og Fljótsdalsvirkjun höfðu það sterk áhrif að yfirvöld féllu frá áformunum um þá virkjun, en réðust í Kárahnjúkavirkjun í staðinn.

Eftir Eyjabakkagjörninginn fer Rúrí að snúa sér í ríkara mæli að viðfangsefnum sem tengjast umhverfismálum og þá aðallega í tengslum við vatnið og þá fossa sem voru í útrýmingarhættu vegna virkjanaframkvæmda. En þó að hún taki dæmi í verkum sínum frá íslenskum aðstæðum minnir hún fólk reglulega á að þau séu staðbundin dæmi um heimsmálefni.

Í nóvember sama ár setur hún upp innsetningu í Gamla áhaldahúsinu í Vestmannaeyjum sem hún nefndi Þann dag … Sýningin var að hluta til skrásetning á Eyjabakkagjörningnum og mátti þar sjá m.a. ljósmyndir af nokkrum steinanna sem mynduðu þjóðsönginn, ljósmyndir af Sigríði Tómasdóttur í Brattholti þegar hún barðist fyrir því að Gullfoss yrði friðaður, brot úr stuðlabergi, gæsafjaðrir frá Eyjabökkum, kort, hæðarmæli og mælitæki ýmiskonar sem notuð eru þegar land er nýtt undir framkvæmdir. Titill sýningarinnar vísaði til þeirra frægu orða sem Sigríður Tómasdóttir lét eitt sinn falla um það að ef Gullfoss yrði virkjaður: „Þann dag mun ég steypa mér í fossinn.” Orð sem sýna hversu viljasterk og einörð Sigríður var í baráttu sinni fyrir fossinum og sem Rúrí gerir að sínum með því að fylgja í fótspor hennar. Sigríður hefur oft verið nefnd fyrsti umhverfisverndarsinninn á Íslandi. Þannig tengir Rúrí eitt helsta deilumál þjóðarinnar við þennan sögufræga atburð, sem átti sér stað á fyrri hluta tuttugustu aldar og heiðrar um leið minningu þessarar einstöku konu. Einnig gerði hún ljósmyndaverk þremur árum seinna sem hún nefndi Tileinkun – til Sigríðar í Brattholti (2002). Verkið samanstendur af níu ljósmyndaeiningum, framkölluðum á hvítan grunn og límdum upp á plexíglersbak. Myndirnar sýna niðurbútaðan foss og er bútunum raðað saman í eins konar minningabrot.

Afstaða Rúríar til umhverfismála og náttúruverndar kemur skýrt fram á sýningunni í Vestmanneyjum og ljósmyndaverkinu sem hún tileinkar Sigríði og má segja að hér leggi hún drög að þeim verkum sem hún átti eftir að gera seinna og ná hápunkti í hinni gagnvirku fjöltækni innsetningu Archive – endangered waters, þar sem hún tekur fyrir fossa á hálendi Íslands sem eru í bráðri hættu vegna virkjunarframkvæmda og hafa sumir hverjir nú þegar horfið undir lón. Verkið sem var sýnt á Feneyjatvíæringnum árið 2003 vakti mjög mikla athygli, ekki bara í Feneyjum heldur víða um Evrópu og opnaði augu margra fyrir því ofbeldi gagnvart náttúrunni sem virkjanaframkvæmdir höfðu í för með sér.

Á meðan náttúruverndarsinnar á Íslandi fóru í kröfu- göngur og héldu áfram baráttu sinni gegn virkjanaframkvæmdum sýndi Rúrí afstöðu sína í gegnum verk sem hún vann í mismunandi miðla þar sem hún tók enn og aftur vatnsföll í útrýmingarhættu til umfjöllunar eins og t.d. verkið 400 rúmmetrar á sekúndu (2003) sem er fjöltækni innsetning með tveimur tölvulýstum fossaljósmyndum sem voru teknar af tveimur fossum í fossaröðinni Dynk í Þjórsá. Niður fossanna berst úr hátölurum eða fólk getur hlustað á hann í heyrnartólum. Þegar verkið var gert voru uppi áætlanir um að virkja enn meir af Þjórsá sem hefði þá stórlega minnkað vatnsmagnið sem rann um þessa undurfögru fossaröð og breytt ásýnd hennar. Nokkru seinna gerði hún verkið Waterfall – Dynkur, Endangered (2004), einskonar vegginnsetningu þar sem hún bútaði niður ljósmynd af einum fossanna í fossaröð Dynks í 12 aðskildar einingar líkt og um neysluvæna vöru væri að ræða. Um leið og áhorfendur virða verkið fyrir sér geta þeir hlustað á „rödd“ fossins í heyrnartólum. Þessi stórbrotnu náttúruundur sem fossarnir eru, með sinn eilífa, síbreytilega nið verða nú æ fyrirferðarmeiri í listsköpun Rúríar og um leið tákngervingar fyrir flæði tímans.

Hinn áhrifamikli gjörningur Tileinkun sem Rúrí framdi með fjölda aðstoðarmanna í og við Drekkingarhyl á Þingvöllum 5. september árið 2006 hverfist einnig um tíma, minningar og forgengileika. Hún tileinkaði gjörninginn minningu þeirra stúlkna og kvenna sem voru líflátnar þar á 17 og 18 öld fyrir þær sakir að vera þungaðar og ala börn utan hjónabands. Með gjörningnum vísar hún til samfélagsins og undirstrikar hið mikla ranglæti sem þessar konur urðu fyrir og sem konur verða fyrir enn þann dag í dag.

Þegar ferill Rúríar er skoðaður sést að hann er einn samhangandi heimur þar sem heimspekilegar vanga- veltur, tími, afstæði, gildi og afstaða mannsins til alheimsins skiptir meginmáli. Hún tekst á við stóru kerfin, tekur iðulega afgerandi pólitíska afstöðu og er einn af fáum listamönnum á Íslandi sem deila á hverfulleika efnislegra gilda og markaðshyggjuna. Hún brýnir fyrir okkur að sýna ábyrgð gagnvart umhverfinu vera meðvitaðri um hlutskipti okkar á jörðinni og hvernig við tökumst á við framtíðina. Verk hennar eiga erindi til okkar sem aldrei fyrr.

  1. Jorge Luis Borges. „Nueva refutacion del tiempo“, Otras inquisiciones. Obras completas. Buenos Aires: Emecé, 1989-1996. 2. bindi, bls. 146.
  2. Rúrí, tölvupóstur. 19. mars 2016.
  3. Þjóðviljinn, 30. september 1987, ekj: „Tíminn er höfuðskepna“.
  4. Saint Augustin. La Création du monde et le Temps. 1993 Paris, Gallimard. Chapitre XIV, bls 36.
  5. sjá http://www.visindavefur.is/svar.php?id=4984.
  6. Rúrí, Sjónþing, 3. febrúar 2007. Menningarmiðstöðin Gerðuberg 2013 bls. 23.
  7. Morgunblaðið, 28. september 1995, „Sólin í öndvegi“.
  8. sótt á http://www.sciencesetavenir.fr/decryptage/20130312. OBS1589/le-mystere-de-la-pierre-du-soleil.html.
  9. Rúrí – texti um Sólgátt, útilistaverk við Sólheima 2005-2006 – endur- skoðað 2016.
  10. Gaston Bachelard: L ́eau et les rêves. Paris 1942, Librairie José Corté bls. 42.
  11. Art Nord 10/2010/Annuel “L ́eau en temps que symbole” Rúrí, viðtal við Laufeyju Helgadóttur.

Sýningarstjóri: Inga Jónsdóttir
Rúrí
Rúrí er fædd í Reykjavík 1951 og býr þar. Hún nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1971-74, járnsmíði við Iðnskólann í Reykjavík 1974-75 og myndlist við De Vrije Academie í Haag Hollandi 1976-78. Rúrí lét snemma til sín taka og var einn af stofnendum Gallerie Lóa í Hollandi, Nýlistasafnsins á Íslandi og var virkur þátttakandi i stofnun SÍM, Sambands íslenskra myndlistarmanna. Hún hefur verið meðal forvígismanna fjölmargra listviðburða innanlands og utan svo sem Experimental Environment sem haldið var víðs vegar á Norðurlöndunum og hún hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum tengdum myndlist. Sýningarferill Rúríar er umfangsmikill, bæði einka og samsýningar, hér á landi og á alþjóðlegum vettvangi og útilistaverk eftir hana hafa verið sett upp á Íslandi og víðar í Evrópu. Verk hennar hafa vakið athygli og eru að finna í safneignum fjölmargra einka og opinberra safna innanlands sem utan og árið 2011 gaf þýska listabókaforlagið Hatje Cantz út yfirgripsmikla bók um Rúrí. Hún hefur einnig notið ýmissa annarra viðurkenninga, svo sem unnið samkeppnir um gerð útilistaverka og verið fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2003. Verk hennar eru hugmyndafræðilegs eðlis, en eru sett fram með margvíslegri tækni, svo sem skúlptúr, innsetningar, margmiðlunarverk, gjörningar, bókverk, kvikmyndaverk, vídeóverk, ljósmyndaverk, hljóðverk, blönduð tækni, tölvuvædd og gagnvirk verk.

www.ruri.is