TÍMALÖG

Karl Kvaran og Erla Þórarindóttir

12. ágúst – 13. nóvember 2016

„Ég hef aldrei skilið þann hugsunarhátt að mynd þurfi endilega að vera af einhverjum atburði, vegna þess að það skeður það margt í myndinni. Myndin er atburður út af fyrir sig.”¹

Hefðbundið málverk er gjörningur eða athöfn sem felst í því að bera lit á afmarkaðan tvívíðan flöt. Nálgun listamannsins er milliliðalaus og byggist ekki síst á handverki og handbragði listamannsins sem gefur hugmyndum hans líf. Án framkvæmdarinnar að mála verður ekkert málverk til. Pensilfarið er ummerki athafnar og felur bæði í sér huglæg og líkamleg tengsl málverksins og listamannsins. Athöfnin sjálf, að mála, verður hluti af hugmyndafræði og sögu málverksins og verður því ekki aðskilin frá eðli þess. Þannig býr í málverkinu innbyggð frásögn sem pensilfarið vitnar um og myndin á striganum er birtingarmynd hennar og afleiðing athafnar.²

„Málverkið þráir að verða athöfn, og verður atburður“³ segir franski listmálarinn og fræðimaðurinn Georges Mathieu (1921-2012) sem var einn af upphafsmönnum athafnamálverksins sem fram kom á 5. áratug 20. aldar. Að loknu tímabili táknmyndarinnar í málverkinu var athöfnin ein eftir, þar sem skrásetning á umhverfi breyttist í það að vera skrásetning á athöfninni sjálfri. Það kallaði Mathieu „fyrirbærafræðina í athöfninni að mála“.Athöfnin afmarkast af þeim tíma sem varðveittur er í málverkinu í undirliggjandi tímalögum og hrynjandi sem skrásett er með pensilfarinu.

Á sýningunni Tímalög er teflt saman verkum eftir listmálarana Karl Kvaran (1924-1989) frá tímabilinu 1968–1978, og nýjum og eldri málverkum og skúlptúrum eftir Erlu Þórarinsdóttur (1955).

Eitt af einkennum málverksins sem miðils er sýnileiki tækninnar. Karl Kvaran rannsakaði möguleika og þanþol gvasslitarins rækilega og vann nánast óslitið með hann í tæpa tvo áratugi, allt frá árinu 1956. Verk hans frá þessum tíma grundvallast á kröftugri línuteikningu sem síðar leikur mikilvægt hlutverk í olíumálverkum hans á 8. áratugnum. Hann leysir upp agaða lárétta myndbyggingu sem einkennir verk hans frá 6. áratugnum, og bugðóttar grafískar línur leika um myndflötinn í hrynjandi takti líkt og sjá má í verkunum; Fugl næturinnar (1968) og Svartar samlyndar línur (1968). Litaskali verkanna er einfaldur, svart er ríkjandi en það rifar greinilega í blátt undirlagið sem gæðir yfirborðið lífi.

Línan leikur sömuleiðis mikilvægt hlutverk í mál- verkum Erlu Þórarinsdóttur og er undirstaðan í formrænni útfærslu þeirra ásamt litnum. Verkin eru byggð upp af línuteikningu sem sveigir og beygir formin svo þau framkalla sjónræn þrívíddaráhrif. Oft má sjá glitta í undirlög á yfirborðinu sem gera myndflötinn lifandi og kvikan.

Verk Karls eru máluð í mörgum lögum. Við fyrstu sýn virðast þau í fáum litum en við nánari skoðun má greina vinnuferlið og eldri litalög í gegnum yfirborðið. Erla leggur verkin sín oft blaðsilfri sem ýmist þekur ákveðin form eða undirstrikar einstaka þætti þeirra. Á yfirborðinu rifar í undirliggjandi teikningu, liti og strúktúr verksins sem vitnar um vinnuferlið. Teikningin hefur beina líkamlega skírskotun sem tengist handarhreyfingu listamannsins.

Þó að ekki sé hægt að telja Karl og Erlu til athafnamálara í listsögulegum skilningi, til þess eru verk þeirra og vinnubrögð of öguð og meðvituð, þá má greina í verkum þeirra ákveðna þætti sem hafa vísun í aðferða- og hugmyndafræði athafnamálverksins.

Sjálfsprottin list var Karli ekki að skapi enda leit hann svo á að listaverkið ætti uppruna sinn í huga málarans. Listamaðurinn takist á við strigann og verkið verði til í athöfninni, þá verði ævintýrið til og galdurinn.„Þetta vandamál að mála, að byggja upp mynd, það er fyrst og fremst að gæða hana því lífi sem felst í innbyrðis þenslu forma og lita. Hún verður að skapast af tilfinningunni sem málarinn hefur fyrir hlutunum, af dómgreind hans en ekki af tilviljun einni saman.“

Flest verka Erlu byggjast á nákvæmri undirbúningsvinnu þar sem formunum er vandlega komið fyrir á myndfletinum. Hárnákvæmt litaval og blæbrigði litarins gefa formunum smám saman líf og færa þau inn í heim hlutveruleikans um leið og þau vísa í eigin framandleika og innri merkingu. Ólíkt Erlu vann Karl ekki skissur að verkum sínum heldur lét hann myndina skapast jafnóðum: „Það verður allt að koma óvænt, það er jú ævintýrið – að gerast óvænt.“

Greina má vísun í athafnamálverkið í verkinu Form (1974) eftir Karl þar sem hraði og líkamshreyfing listamannsins kemur fram í einfaldri og sveiflukenndri línu sem afmarkar formið sem síðan er fyllt upp í með afgerandi bleikum lit.Í verkinu Orðstír (1974) hefur hringformið opnast og samliggjandi línur bylgjast til hægri út úr myndfletinum. Listamaðurinn leikur sér einnig með hringformið í verkinu Án titils (1974), þar sem svört línuteikningin hringar sig um fagurrauðan flöt sem stilltur er af með bláum borða og gulum flötum sem framkalla hreyfingu á myndfletinum. Formin sveigjast hvert inn í annað og mynda líflega hringiðu.

Tilbrigði við hringformið er líka endurtekið stef í málverkum Erlu þar sem rúnnuð formin ýmist ganga inn í hvert annað, fléttast saman eða standa stök. Í myndröðinni Einlínum (2014) er það samspil handarhreyfingar og línu sem mótar myndina. Flæði línunnar og pensilsins, sem knúið er áfram af krafti handarhreyfingar í ham einbeitingar, myndar óslitna línu. Verkin eru unnin á álplötur sem endurkasta ljósinu og auka þar með mögnun litarins. Einbeiting og hraði stjórna samfelldri línuteikningu í Silfureinlínum (2016) sem unnar eru með silfri á hvítan pappír. Þannig vinnur hún með flæði hreyfingarinnar í líkamanum og yfirfærir á viðkvæm- an pappírinn.

Umbreyting efnisins og virkni þess er undirliggjandi þáttur í listsköpun Erlu. Hún hefur unnið með blaðsilfur í rúm 20 ár og með því að þekja ákveðna hluta myndarinnar silfri koma nýir kraftar við sögu. Hún nýtir möguleika silfursins og leyfir efninu að taka völdin. Oxunarferli silfursins tekur við með aðstoð birtu, tíma og lofts og oxunartíminn er mislangur, stundum lætur hún verkin oxast í ár eða jafnvel lengur. Endanleg útkoma þess er óráðin, allt þar til listamaðurinn tekur af skarið og lakkar yfir myndirnar. Þannig lýkur umbreytingarferlinu.

Á sýningunni eru bæði ný og eldri verk sem sýna vel hvernig Erla hefur þróað meðferð silfursins sem segja má að sé orðið höfundareinkenni listamannsins. Ljósnæmi silfursins og endurkast ljóssins ljær verkunum nýja vídd og rými með vísun í alheimsorkuna.

Málverkið Skel (2016 ) eftir Erlu þar sem kúpt, skeljalaga form, ílagt silfurþynnum, þenur sig yfir fölbleikan grunn kallast á við Form eftir Karl bæði sjónrænt og í líkamlegum drifkrafti handarhreyfingarinnar sem teikningin vitnar um. Formin og táknin í verkum Erlu eiga rætur í áhuga hennar á dulvitund og austrænni heimspeki. Greina má áhrif frá ólíkum menningarheimum í verkum eins og Austur-vestur og Vestur-austur (2016). Þar er annars vegar unnið með símynstur sem liggur undir silfurlögðu yfirborði og hins vegar silfrað mynstur á sterkbláum grunni. Verkin vitna um óendanleika og eilífðarrými og yfir þeim hvílir austrænn blær sem tekur áhorfandann í ferðalag um framandi slóðir.

Hinn huglægi þáttur er eitt af því sem sameinar verk listamannanna á sýningunni þar sem litur, form, lína, áferð og tækni skapa óhlutbundna myndheima. Auk glímunnar við miðilinn sjálfan, tæknina og þá möguleika sem í henni felast. Í málverkum Erlu á sér stað ákveðið íhugunarferli þar sem andleg gildi leiða áhorfandann um duldir hugans og innri hugarheima. Í list sinni leitaði Karl sífellt inn á við og leitin að hinu klára og tæra var drifkrafturinn í list hans. „Þessi list vekur margvíslegar hugrenningar og talar ekki bara til heilans heldur líka til hjartans,“ sagði Thor Vilhjálmsson um list hans.

Tímalög – Undirmeðvitund málverksins

Ferill tímans er einn þeirra sameiginlegu þráða sem greina má í verkum Erlu Þórarinsdóttur og Karls Kvaran. Þessi þráður hverfist um tímann í verkinu sem birtist í tímalögum sem koma fram á ólíkan hátt í verkum listamannanna; það mótar fyrir tímalögum verkanna inni á milli laga pensildrátta. Hjá Karli eru þau mörkuð með ólíkum litalögum olíu og gvass en Erla leggur málverk sín blaðsilfri sem oxast með tímanum og tekur á sig gyllta mynd. Eins þversagnarkennt og það hljómar má halda því fram að tímalögin séu bæði það sem sameinar listamennina og það sem skilur þá að.

Karl vann á stundum lengi að hverri mynd og málaði endurtekið í verk sín svo glitti í eldri ummerki pensilskriftar eða það sem Karl kallaði æviferli verkanna: „Ég er lengi að vinna og oft er ég að mála ofan í, mála yfir aftur og aftur. Öðru vísi vill þetta ekki ganga fyrir mér. En þetta getur gefið myndum aukið gildi – það gerir að þær eignast sinn eigin æviferil sem glittir í gegnum málninguna ef vel er að gætt.“¹⁰ Þessari aðferð hefur verið líkt við palimpsest¹¹, forngríska vaxtöflu eða skinnhandrit á miðöldum sem gengu manna á milli með árituðum skilaboðum sem voru afmáð að lestri loknum og ný rituð í staðinn. Hins vegar tókst ekki að þurrka öll fyrri ummerki út og með tímanum rifar í þau gegnum textalögin. Með öðrum orðum má segja að palimpsest sé marglaga skráning. Breski ritgerðasmiðurinn Thomas De Quincey (1785-1859) var fyrstur manna til að nota palimpsest sem hugtak og tengdi það hinu flókna fyrirbæri huga mannsins og minninu.¹² Í ritgerð sinni, „The Palimpsest of the human brain“, skrifaði De Quincey að palimpsest væri fyrirbæri þar sem víxlverkun ætti sér stað og merking ólíkra texta smitaðist yfir á hvern annan: „Hvað er mannsheilinn annað en náttúrulegt og öflugt palimpsest? Slíkt palimpsest er heili minn, slíkt palimpsest, ó lesandi! er heili þinn. Án afláts leggjast hugmyndir, ímyndir og tilfinningar mjúklega eins og ljós yfir heila þinn. Hvert lag tekur við af öðru og virðist hylja allt sem fyrir var. En í raun og veru hefur ekkert verið afmáð.“¹³

Í fjögurra mánaða vinnustofudvöl Erlu í Kína árið 2005 gafst henni tækifæri til að útfæra form úr málverkum sínum yfir í skúlptúra sem hún vann í eitt harðasta efni jarðar, svart granít. „Þar fékk ég tækifæri til að útfæra verk í stein, raungera form sem ég hef unnið með í málverki; þetta er einskonar færsla í höndlanlegt efni.“¹⁴ Erla sýndi þessi verk árið 2006 á sýningunni Duldir og dældir í Anima galleríi ásamt málverkum og ljósmyndum.

Í verkunum Congenial og Samfella-kynslóðir falla formin nánast alveg hvert ofan í annað en þó með örlitlu bili á milli. Minnið er gleymið, segir Erla, og líkir þessum formum og holum við tilfinningalíkön sem áhorfandinn getur varpað kenndum sínum og merkingum í.¹⁵ Hver kennd og tilfinning hverfur ekki að fullu heldu skilur eftir sig ummerki eða dæld þegar önnur kennd kemur í staðinn líkt og De Quincey hélt fram um palimpsest heilans um miðja 19. öld.

Guðbergur Bergsson segir um málverk Karls að þar sem örli á lit eða formi undir efsta lagi málverksins, sé hann að benda áhorfandanum á ófullkomleika allra hluta, fortíð málverksins. „Hún er hulin en um leið gefin í skyn með því að mála ekki alveg yfir hana, má ekki út sérhverja örðu. Yfir hvað var málað? Var málað yfir annað „strangt“ málverk, aðra leit að fullkomnun? Eða er þetta betrumbót, iðrun eða stefna…“¹⁶ Leynd verksins verður hálf- gagnsæ; það sést í undirmeðvitund verksins. Því verði verk Karls Kvaran einkum lesin milli línanna, segir Guðbergur.¹

Í sama streng tekur eþíópíski listmálarinn Julie Mehretu (1970) sem er þekkt í Bandaríkjunum fyrir lagskipt, óhlutbundin málverk, þegar hún segir um vinnuaðferðir sínar:

„Ýta, krafsa, merkja, klippa, staldra við.

Ummerki, krafs, hljóðið í blýinu á pappírnum, blek sem rennur úr oddinum og trefjar pappírsins sjúga í sig, á yfirborðinu, eins og steinn, eins og skinnhandrit en aldrei hreint blað – tabula rasa, alltaf palimpsest.¹⁸

Í málverkinu eru þar af leiðandi undirliggjandi tímalög, það byggist upp lag fyrir lag, ofan á það sem fyrir er. Þannig varðveitist tíminn í verkinu.

Hjá Erlu sameinast meðferð litarins og efnisins í abstrakt formum. Hún vinnur nákvæmar undirbúningsskissur að verkum sínum en sleppir sér í flæði við sjálfa athöfnina að mála. Hún leggur verkin með silfurþynnum sem merla og mótar fyrir formi, línu og lit í undirlaginu. Listamaðurinn sleppir höndum af verkinu á meðan oxunin á sér stað en tekur svo aftur völdin þegar hún lakkar yfir verkin og stöðvar þannig ferlið sem myndar tímalög verksins.

Þessi greinilegu ummerki um vinnuaðferðir og handbragð listamannanna koma á beinum tengslum milli áhorfandans og listamannsins. Þegar nánar er að gáð nær undirlagið að brjóta sér leið upp á lagskipt yfirborðið, áhorfandinn verður vitni að tímaferli verkanna, vinnslutíma, yfirlegu og á stundum efa listamannsins. Í verkum Erlu getur mismunandi litur og undirlag haft áhrif á oxunar- ferlið en að hennar mati fjalla málverk í raun og veru alltaf um tíma. „Það er ögrandi, en það er líka dálítið þakklátt að tefja tímann á þann hátt sem gert er þegar verið er að mála málverk. Þeim fylgir einhver nærvera sem orkar mjög sterkt á okkur, og það stafar meðal annars af tímanum sem gefinn hefur verið í að vinna þau.“¹⁹

Leiðin að takmarkinu

Margir myndlistarmenn vinna verk sín í myndröðum eða seríum þar sem ákveðinni hugmynd eða aðferð er fylgt eftir, hún endurtekin og reynd til hlítar. Með endurtekningunni gerir listamaðurinn tilraun til þess að fanga hugmyndina og ná tökum á henni.

Í grein sinni „Efi Cezannes“ fjallar franski heimspekingurinn Maurice Merleau-Ponty (1908-1961) um glímu Cezannes við málverkið í leit hans að fullkomnun. Hann var þekktur fyrir að gera margar atlögur að hverri hugmynd til þess að ná utan um hana og efann sem fylgdi hverju pensilfari. Merleau-Ponty veltir því fyrir sér hvers vegna þurfi svo miklar efasemdir, svo mikla vinnu og svo mörg mistök til þess að ná hinum fullkomna árangri að lokum.²⁰ Eins og Halldór Björn Runólfsson hefur bent á hafa áherslur Karls á formrænar rannsóknir leitt til syrpukenndra vinnubragða og endurtekningar, þar sem form og litir eru könnuð í þaula.²¹ Segja má að mikil sjálfsgagnrýni og leit að fullkomnun hafi verið mikilvægur drifkraftur í listsköpun hans.²²

Sjálfur talaði Karl um gildi endurtekningarinnar og sagði: „Í myndlistinni verður maður oft að höggva í sama knérunn, ef maður á að ná góðum árangri.“²³ Gvass myndaraðir hans eru einmitt dæmi um slík samfelld vinnubrögð eða heildir þar sem reynir á samspil lita, flata og línu. Innbyrðis tengsl margra verkanna undirstrika þessa vegferð hans. Marglaga grunnflöturinn er ýmist brotinn upp með flæðandi lífrænni línuteikningu eins og í verkinu Ljóð (1968) eða skarpri og beittri eins og sjá má í tveimur ótímasettum verkum sem tilheyra geometrískri gvassmyndaröð.

„Það hefur alltaf vakað fyrir mér að engu sé ofaukið á myndfletinum. Ég reyni að vera sem strangastur í vali lita og forma. Ég hef örugga vissu um hvert ég stefni, en viðleitni mín setur mig í nýjan og nýjan vanda. Ég sé í huganum, hvernig mynd á að vera. Ég byrja á henni þá kemur kannski í ljós, að formunum fellur ekki hverju við annað. Þau fara að gera kröfur. Þau þræta innbyrðis. Ég bæti öðrum inn, ég breyti litnum, og um það bil, sem mér tekst að sætta þau, hafa vaknað ný vandamál sem verða tilefni næstu mynda.“ ²⁴

Líkt og Karl vinnur Erla verk sín gjarnan í myndröðum. En vinnubrögð hennar einkennast fremur af hugmyndafræðilegu inntaki og tengslum við líkamsorkuna, ferðalög og ólíka staði. Verkin standa stök en mynda þó tengsl í innbyrðis íhugunarferli. Stór málverkin sem byggð eru upp á einföldum abstrakt formum hafa tilvísun í hugleiðslu og vísa jafnframt í ólíka menningarheima. Það reynir á þanþol formanna þar sem þau fylla myndflötinn eða vefjast saman eins og mynstur eða net. Í myndröðunum Silfurlínum, Einlínum og Fake Money paper paintings er leitað heildar þar sem hrynjandi, flæði og sjálf athöfnin að mála stjórnar ferlinu og myndar heild. Hver mynd verður þá eins og stafur í stafrófi eða orð í tungumáli sem einungis verður lesið í samhengi heildarinnar.

Í hverju listaverki býr sú sérstaða sem listamaðurinn hefur komið fyrir í því. Hvert verk er einstakt, það er eins og orkubrunnur sífelldrar sjónrænnar örvunar og skynjunar. Málverkið opnar fyrir skynjun áhorfandans og huglæga reynslu sem ekki verður fönguð á hlutlægan hátt. Þannig fæst myndlistin við það sem orð ná ekki yfir, hún á uppruna sinn í huga listamannsins sem miðlar hugmyndum sínum til áhorfandans með verkum sínum. Tíminn felst í vinnuferlinu sem varðveitist í verkinu og pensilfarið vitnar um. Undirmeðvitund málverksins kemur fram í mismunandi tímalögum og undirstrikar sameiginlega þætti í listsköpun Erlu Þórarinsdóttur og Karls Kvaran sem þau vinna úr hvort um sig á sinn persónulega hátt. En málverkið hlýtur þó alltaf, þrátt fyrir ólík vinnubrögð listamannanna „að eiga uppruna sinn í huga málarans.“²⁵

  • 1  Björn Th. Björnsson, Vaka 2, RUV, 5. nóvember 1971.
  • 2  Jón B.K. Ransú, Málverkið sem slapp út úr rammanum.
    Jón B. K. Ransu, 2014, 85.
  • 3  Georges Mathieu, “Towards a New Convergence of Art,
    Thought and Science“ (1960). Theories and documents
    of contemparary Art, 1996, 698-703, 702.
  • 4  Sama heimild, 701.
  • 5  Ásdís Ólafsdóttir, „Tærleiki línu og litar“, Karl Kvaran.
    Listasafn Íslands, 2010, 15-23, 21.
  • 6  Björn Th. Björnsson, Viðtal við Karl Kvaran, Birtingur, 1.
    hefti 1958, bls. 13-18, 15.
  • 7  Bragi Óskarsson, „Er þetta allt uppúr yður?“ (viðtal), Morgunblaðið, 18. nóvember 1984, 30-31, 31.
  • 8  Ólafur Kvaran (ritstj.) Íslensk listasaga frá síðari hluta 19. aldar til upphafs 21. Aldar, III bindi: Abstraktlist. Forlagið og Listasafn Íslands, 2011, 140.
  • 9  Thor Vilhjálmsson, „Fáein orð um Karl Kvaran“, Morgun- blaðið, 16. nóvember 1971, 11.
  • 10  Bragi Óskarsson, „Er þetta allt uppúr yður?“, 31.
  • 11  Halldór Björn Runólfsson bendir á þetta á bls. 32 í Karl
    Kvaran, 2010. Orðið palimps stos kemur úr latínu en það er samsett úr grísku orðunum palim sem þýðir aftur og ps stos merkir að nudda af.
  • 12  “Palimpsest”. https://lucian.uchicago.edu/blogs/medi- atheory/keywords/palimpsest/, sótt 30. júní 2016.
  • 13  De Quincey, Thomas. “The palimpsest of the human brain.” 1845. Quotidiana. Ritstj. Patrick Madden. 1. desember 2006. hv<http://essays.quotidiana.org/ dequincey/palimpsest_of_the_human_brain/>. Sótt 30. júní 2016.
  • 14  „Nálgun við sköpunarferlið“ (viðtal við Erlu Þórarinsdótt- ur), blaðið, 19. júní 2006, 24.
  • 15  Sama heimild.
  • 16  Guðbergur Bergsson, „Eitt af þessu óskiljanlega er Karl
    Kvaran“, Helgarpósturinn, 6. september 1984, 18.
  • 17  „Upphaf, hafning og hinstu rök Karls Kvaran“, Helgar-
    pósturinn, 26. september 1985, 18.
  • 18  Julie Mehretu, “Notes on Painting”, Painting beyond
    Itself, The Medium in the Post-medium Condition. Graw, Isabelle og Lajer-Burcharth, Ewa (ritstj.). Sternberg Press, 2016, 271-277, 271.
  • 19  Inga María Leifsdóttir, „Hvenær er list list?“, Morgun- blaðið 3. apríl 2004, 32.
  • 20  „Cezannes Doubt” 9-25, 9 , www.scribd.com/ doc/109323131/MerleauPonty-Cezanne-s-Doubt. Sótt 4. júní 2016.
  • 21  Halldór B. Runólfsson, „Konkret list á Íslandi“, Norræn konkretlist 1907-1960, Nordiskt Konstcentrum, Helsinki 1987, 152-172, 157.
  • 22  Ásdís Ólafsdóttir, „Tærleiki línu og litar“, Karl Kvaran. Listasafn Íslands, 2010, 15-23, 21.
  • 23  M. „Stutt viðtal við Karl Kvaran – um stutt viðtal“, Morg- unblaðið 11. september 1956, 6.
  • 24  Inga Huld Hákonardóttir, „Ofar Pósti og síma. Rætt við Karl Kvaran listmálara“, Tíminn, Sunnudagsblað 3. nóvember 1968, 869-870, 870.
  • 25  Björn Th. Björnsson, Viðtal við Karl Kvaran, Birtingur, 1. hefti 1958, bls. 13-18, 18.

Listamenn

Erla Þórarinsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1955, hún nam myndlist í Svíþjóð og lauk námi frá Konstfack, lista- og hönnunarháskólanum í Stokkhólmi árið 1981 og var gestanemi við Gerrit Rietweld Akademie í Hollandi sama ár. Erla bjó um árabil í Stokkhólmi og kom þar að rekstri listamannagalleríanna ZON og Barbar, auk þess að starfa við myndlist og hönnun. Hún hefur ferðast víða og hefur m.a. búið og starfað í New York, Kína og Marokkó.Erla hefur haldið fjölmargar einka- og samsýningar hérlendis og erlendis og hefur hlotið viðurkenningar og styrki fyrir fyrir störf sín m.a. úr sjóði Pollock-Krasner Foundation árin, 2000 og 2008. Verk eftir Erlu eru í eigu einkaaðila og helstu safna hérlendis.

Karl Kvaran (1924-1989) fæddist á Borðeyri við Hrútafjörð árið 1924. Hann nam myndlist í einkaskóla Marteins Guðmundssonar og Björns Björnssonar 1939-1940 og við Kvöldskóla Jóhanns Briem og Finns Jónssonar 1941-1942. Eftir nám við Handíða- og myndlistarskólann í Reykjavík frá 1942 til 1945 hélt hann til Danmerkur þar sem hann nam við Konunglega listakademíið í Kaupmannahöfn og í einkaskóla Peters Rostrup Bøyesen frá 1945-1948. Karl hélt reglulega einkasýningar á verkum sínum í Reykjavík frá 1953, m.a. í Bogasal Þjóðminjasafnsins árið 1968, 1969 og 1971. Hann tók þátt í Septembersýningunum í byrjun sjötta áratugarins og sýndi nær árlega með Septem hópnum frá 1974-1983. Árið 2010 var haldin stór yfirlitssýning á verkum hans í Listasafni Íslands.

Sýningarstjórar

Aðalheiður Valgeirsdóttir (f. 1958) er myndlistarmaður og sjálfstætt starfandi listtfræðingur og sýningarstjóri. Hún útskrifaðist úr grafíkdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1982. Hún lauk BA-prófi í listfræði með menningarfræði sem aukagrein frá Háskóla Íslands árið 2011 og MA-prófi í sömu grein árið 2014. Í lokaritgerð sinni til MA-prófs sem ber titilinn Pensill, sprey, lakk og tilfinning. Málverkið á Íslandi á 21. öld, fjallar hún um eðli málverksins, nálgun ís- lenskra samtímalistamanna á því og endurskilgreiningu mál- verksins með tilkomu nýrra miðla. Í upphafi myndlistarferils síns lagði Aðalheiður áherslu á grafík og teikningar en sneri sér síðar að málverki í listsköpun sinni. Hún hefur haldið á þriðja tug einkasýninga og tekið þátt í fjölda samsýninga víða um heim.

Aldís Arnardóttir (f. 1970) er sjálfstætt starfandi listfræðingur og sýningarstjóri. Hún útskrifaðist með MA-gráðu í listfræði við Háskóla Íslands árið 2014 og hafði áður lokið þaðan BA-prófi í listfræði, með menningarfræði sem aukagrein árið 2012. Í meistara ritgerð sinni fjallar hún um norrænu myndlistarsýninguna Experimental Environment II sem haldin var að Korpúlfsstöðum árið 1980 en BA-ritgerðin fjallar um áhrif Henris Bergson á myndmál Kjarvals. Hún hefur sinnt rannsóknarverkefnum tengdum myndlist og gert sýningartexta fyrir listamenn og gallerí. Aldís hélt fyrirlestur við opnun sýningarinnar Fletir í Arion banka árið 2015 og hlaut nýverið styrk til rannsóknar á landlist á Íslandi.