TOHOKU

MEÐ AUGUM JAPANSKRA LJÓSMYNDARA

1. febrúar – 22. mars 2020

Kotaro Lizawa

Tohoku er norðausturhluti Honshu, stærstu eyjarinnar í japanska eyjaklasanum. Heildarflatarmál svæðisins er um það bil 66.890 ferkílómetrar og fjöldi íbúa nemur 9,2 milljónum. Svæðið samanstendur af sex stjórnsýslueiningum, héraðsumdæmunum Aomori, Akita, Iwate, Miyagi, Yamagata og Fukushima. Loftslagið í héraðinu er frekar kalt, en svo vel vill til að það er búið einstökum og ríkulegum náttúruauðlindum þannig að landbúnaður, fiskveiðar og skógarhögg blómstra þar. Í héraðinu eru þrír þjóðgarðar, Towada Hachimandaira í Aomori-umdæminu, Rikuchu Kaigan í Iwate-umdæminu og Bandai Asahi í Fukushima-umdæminu. Einnig eru skráð hér tvö UNESCO heimsminjasvæði, Shirakami-sanchi, gríðarlega stórt svæði þakið beykiskógi sem teygir sig frá Aomori til Akita og Hiraizumi í Iwate-umdæminu, þar sem finna má leifar af byggingarlist, þar á meðal Chusonji og Motsuji hof frá elleftu og tólftu öld þegar umdæmið var blómstrandi miðstöð stjórnmálavalds.

Þrátt fyrir náttúrugæði sín markast saga Tohoku af röð náttúruhamfara og erfiðleika. Á Jomon-tímabilinu, fyrir 15.000 til 3.000 árum þegar búseta hófst á Japanseyjum, var loftslagið hlýrra en það er nú og mörg fornminjasvæði sem ná aftur til þessa tímabils hafa fundist þar. Stórt mannvirki, 10 x 32 metrar að stærð, sem haldið er uppi af sex sverum 20 metra háum stólpum fannst á Sannai-Maruyama svæðinu í Aomori-umdæminu um mitt Jomon-tímabilið fyrir um það bil 5.000 árum. Álitið er að yfir 500 manns hafi búið í þessari nýlendu á tíma sem spannar 1.000 til 1.400 ár. Leirker sem gerð voru á Jomon-tímabilinu hafa sérstök form sem minna á loga og litlar leirstyttur eru eins og verur utan úr geimi. Þessir hlutir sýna að fólkið á Jomon-tímabilinu hafði djúpa tilfinningu fyrir hinu andlega og gat tjáð hugsanir sínar og tilfinningar beint yfir í efnislegt form.

Kulnandi loftslag á næsta tímabili (Yayoi) leiddi til hnignunar Jomon-menningarinnar. Nýja landbúnaðarmenningin á þessu tímabili, sem byggðist á hrísgrjónarækt, varð til þess að auður safnaðist á færri hendur. Valdhafar settust að við Yamato-hirðina í vesturhluta Japans og Tohoku var nú álitið vanþróað svæði sem auðvelt var að hertaka og ná völdum yfir. Á áttundu og níundu öld sendi Yamato hirðin innrásarheri til Tohoku, en innfæddir íbúar héraðsins, Emishi, tóku harkalega á móti þeim. Með tíð og tíma var Tohoku skipt í tvö fylki, Mutsu og Dewa, undir yfirráðum Yamato-konungdæmisins.

Setur stjórnvalda breyttist nokkrum sinnum á árunum sem á eftir fóru, en valdhafarnir héldu áfram að ríkja yfir og arðræna Tohoku. Náttúruhamfarir á borð við eldgos, jarðskjálfta og flóðbylgjur voru einnig algengar á svæðinu. Uppskera var oft léleg vegna kuldaskeiða og þurrka. Miðhéruð Japans hafa alltaf litið á Tohoku sem útjaðar, fátækt og vanþróað svæði. Þessir lævísu fordómar héldu áfram að ríkja jafnvel eftir að landið varð að nútímaríki eftir Meiji-endurreisnina árið 1868.

Sú staðreynd að Tohoku var jaðarland, aðskilið frá stórnmála- og menningarmiðstöðvum, varð hinsvegar til þess að unnt reyndist að varðveita þá andlegu menningu sem sprettur úr dularfullu afli lífsins. Í dag, þegar nútíma efnisleg menning er komin í ógöngur og hefur tapað lífskrafti sínum, er vaknaður áhugi á andlegu hefðunum í Tohoku, en þær einkennast af tilfinningu fyrir frelsi, æðruleysi og auðmýkt gagnvart náttúrunni og andanum. Tono Monogatari (þjóðsögur frá Tono) eftir Kunio Yanagita, sem markaði upphaf þjóðsagna í Japan þegar bókin var skrifuð árið 1910, er safn þjóðsagna frá Tono-þorpinu í Iwate-umdæminu sem skráðar eru eftir munnmælasögum Kizen Sasaki, heimamanns í héraðinu. Þær lýsa heimi byggðum skrítnum, yfirnáttúrulegum skepnum eins og tengu, kappa og zashikiwarashi sem búa í návígi við mannheima. Höfundar á borð við Kenji Miyazawa sem fæddur er í Hanamaki í Iwata-umdæminu og Shuji Terayama, fæddur í Hirosaki í Aomori umdæminu, tóku upp stíl þessara sagna, sem blanda fantasíu saman við hversdagslífið.

Á vissan hátt voru þessar kannanir á andlegu lífi í Japan leið til að endurheimta Jomon-menninguna sem talið var að hefði tapast. Í Jomon no Shiko (Jomon Thought) sem Chikuna Shobo gaf út árið 2008, heldur fornleifafræðingurinn Tatsuo Kobayashima því fram að Jomon-þorpin hafi verið umkringd hara, eða millistigs ökrum þar sem mannfólkið lifði í takt við náttúruna. Gjöfum náttúrunnar var ekki sóað á Hara-ökrunum eins og gert var á ræktuðum ökrum seinni tíma. Þeir voru svæði gagnkvæmrar samvinnu og samnýtingar manns og náttúru. Á þessum svæðum aflaði mannfólkið sér fæðu og veiddi fugla og önnur dýr, en lifði jafnframt í sambandi og samlyndi við anda skógarins og jarðarinnar. Stundum færðu menn fórnir til að þakka öndunum fyrir gjafir þeirra.

Kobayashi trúði því að þessi gagnvirka eða samhagsmunalega nálgun við náttúruna væri enn þá geymd í hjörtum nútíma Japana. „Japanska afstaðan til náttúrunnar og umgengni við hana var innrætt á Jomon-tímabilinu. Í dag má enn þá sjá þessa afstöðu í hversdagslífinu og í árstíðabundnum vinsælum hátíðum og ritúölum eftir þær bylgjur vestrænnar menningar sem helltust yfir á upplýsingaöldinni og svo aftur eftir Kyrrahafsstríðið og umrótið undanfarin ár í kjölfar alþjóðavæðingar.“ Það er alveg ljóst að Tohoku er staður þar sem „Jomon-hugarfar“ af þessu tagi er ennþá við lýði og þrífst vel.

Þessi sýning samanstendur af verkum níu sjálfstæðra ljósmyndara ásamt einum hóp ljósmyndara sem tekið hafa myndir af Tohoku-svæðinu. Aðalkveikjan að uppsetningu þessarar sýningar var jarðskjálftinn mikli í austur Japan sem reið yfir 11. mars 2011 klukkan 14.46 og mældist 9 á Richters kvarðanum. Jarðskjálftinn og flóðbylgjan sem fylgdi í kjölfar hans og var tíu metrar á hæð, ollu skelfilegu tjóni, en allt að 20.000 manns fórust eða var saknað. Strax á eftir varð svo ógurlegt kjarnorkuslys í Fukushima kjarnaofni, númer 1. Sagt var frá þessum atburðum úti um allan heim og staðarnöfn frá Tohoku-svæðinu þar sem tjónið var hvað mest fylltu fréttir, aðallega af borgum meðfram Kyrrahafsströndinni í umdæmunum Aomori, Iwate, Miyagi og Fukushima.

Enda þótt fréttir af þessum ótrúlegu hörmungum, sem líklega verða ekki nema einu sinni á þúsund ára fresti, næðu til fjölda manns, var lítið fjallað um sögulegan og menningarlegan bakgrunn svæðisins. Þessari sýningu er ætlað að bæta upp í þessa eyðu með verkum ljósmyndaranna. Síðan ljósmyndatækni barst til Japans á sjötta tug nítjándu aldar hefur Tohoku laðað að sér fjölda ljósmyndara. Eftir 1930, þegar ódýrar myndavélar sem voru auðveldar í notkun urðu fáanlegar, fóru íbúar Tohoku að taka myndir af sínu eigin héraði. Eftir síðari heimsstyrjöldina jukust fjölbreytni og gæði ljósmynda af landslagi Tohoku, af lífi fólks og vinsælum uppákomum. Á þessari sýningu er úrval slíkra ljósmynda sem eru gott dæmi um þetta.

Við íhuguðum að sjálfsögðu þann kost að bæta við myndum af skaðanum sem jarðskjálftinn olli og endurbyggingunni sem á eftir fór, en við tókum þá ákvörðun að hafa þær myndir ekki með á sýningunni. Margar þessar myndir hafa þegar verið birtar í dagblöðum, tímaritum og á netinu og fjöldi bóka um hamfarirnar hefur einnig verið gefinn út. Við töldum ekki þörf á að setja upp sérstaka sýningu til að sýna þessar myndir og við höfðum meiri áhuga á að nota ljósmyndir til að sýna hvernig Tohoku-héraðið, þar sem skaðinn var svo mikill, hafði þróast áður en jarðskjálftinn reið yfir. Okkur langaði til að sýna þá arfleifð Jomon-menningarinnar sem eftir er í Tohoku og hvernig hún hefur gengið í arf, verið varðveitt og ræktuð. Með það markmið í huga völdum við verk Teisuke Chiba og Ichiro Kojima frá sjötta og sjöunda áratug tuttugustu aldarinnar meðfram verkum ljósmyndara okkar tíma.

Tekið skal fram að þegar skilgreiningin „Tohoku-ljósmyndalist“ er notuð, rýrnar gildi einstakra og sérlega persónulegra einkenna hinna ýmsu ljósmyndara og staða. Sjálfur fæddist ég í borginni Sendai í Miyagi-umdæminu á austurhlið Ou-fjallgarðsins, sem liggur nokkurn veginn frá norðri til suðurs gegnum miðhluta Tohoku. Umdæmið er mjög ólíkt svæðinu meðfram Japanshafi vestan megin hvað snertir náttúruleg fyrirbæri, siðvenjur og umhverfi. Loftslagið er tiltölulega hlýtt við Kyrrahafsströndina austan megin við Ou-fjallgarðinn, einkum í umdæmunum Miyagi og Fukushima. Hvað menningu varðar þá eru þessi umdæmi undir sterkum áhrifum frá Kanto-menningarsvæðinu sem nær yfir Tokyo. Mikil snjókoma er á svæðinu vestan megin við Ou-fjallgarðinn og sá hluti Tohoku er í nánari tengslum við Kansai-héraðið, þar á meðal gömlu höfuðborgina Kyoto, vegna skipa sem hafa viðkomu í höfnum meðfram Japanshafsströndinni. Þessi mismunur á loftslagi og menningu sem og mismunandi túlkanir hinna ýmsu ljósmyndara hafa getið af sér ljósmyndir sem bjóða upp á afar ólík hughrif frá Tohoku-héraðinu.

Þrátt fyrir þennan fyrirvara tel ég að skilgreiningin „Tohoku-ljósmyndun“ sem nær út fyrir einstaklingsbundinn staðarmismun, sögulegan bakgrunn og einstaka ljósmyndara, eigi rétt á sér. Hér að neðan mun ég íhuga hvað gæti falist í þessari skilgreiningu jafnframt því að skoða verk ljósmyndaranna vandlega.

Teisuke Chiba fæddist í Kakunodate í Akita-umdæminu. Hann rak kimono verslun í Yokote þegar hann fór að taka myndir sem frístundaljósmyndari. Myndir hans af bændaþorpunum í Akita fyrir og eftir síðari heimsstyrjöldina unnu verðlaun í ljósmyndakeppnum og voru birtar í þeim hlutum ljósmyndatímarita sem helgaðir voru myndum sem lesendur höfðu sent inn; hann varð smám saman vel þekktur. Ken Domon og Ihei Kimura, fulltrúar hreyfingar raunsæisstefnu í ljósmyndun sem tímaritið Camera hratt af stað, sóttu Akita heim árin 1951 og 1952. Chibe var hrifinn af hugmynd þeirra um raunsæi í ljósmyndun, fyrirmælum um að horfa beint á félagslegan raunveruleika og taka „algerar skyndimyndir sem eru alls ekki settar á svið.“ Árið 1952 setti hann upp Akita-ljósmyndarahópinn og hélt áfram að beina athygli sinni að lífi bænda.

Ef við beinum sjónum að myndum Chiba sjáum við strax að þær sýna ekki einungis áhuga blaðamanns á myndefni sínu. Hann horfir ætíð á náttúrulegt umhverfi Akita og líf íbúa svæðisins með næmum og ástríkum augum. Myndir hans endurspegla nálgun ljósmyndara sem er í nánu sambandi við viðfangsefni sín þegar hann smellir af. Myndirnar afhjúpa innri sýn Akita. „Fram að þessu hef ég grátið og hlegið með bændunum. Héðan af ætla ég að halda áfram að taka myndir sem gefa félagslegar yfirlýsingar og athuga jafnframt hvað kemur bændum til að hlæja og gráta.“ Þessi ummæli sem birt voru í blaðaviðtali árið 1962 eru hnitmiðuð tjáning á hugmyndum Chiba. Verk hans voru svo til gleymd um tíma eftir dauða hans árið 1965 en þau hafa verið endurvakin og birt í fjölda bóka síðan á síðasta áratug tuttugustu aldarinnar.

Ichiro Kojima fæddist í borginni Aomori í Aomori-umdæminu árið 1924. Faðir hans, Heihachiro Kojima, seldi leikföng og ljósmyndavarning en var líka þekktur sem listljósmyndari. Ichiro, sem orðið hafði fyrir áhrifum frá föður sínum, hafði birt myndir á ljósmyndasýningum fyrir síðari heimsstyrjöldina, en á sjötta áratug tuttugustu aldarinnar fór hann að beina meiri athygli að ljósmyndagerð. Árið 1958 hélt hann sína fyrstu einkasýningu, Tsugaru í Konishiroku-galleríinu í Ginza-hverfinu í Tokyo og uppskar mikið hrós fyrir stórkostlegar landslagsmyndir sínar af Tsugaru-héraðinu í Tohoku og íbúum þess. Árið 1961 flutti hann til Tokyo þrátt fyrir mótmæli þeirra sem í kringum hann voru. Hann hélt aðra einkasýningu sína Ískalt árið 1962. Árið 1963 gaf hann út Tsugaru shi, bun, shashin shu (Tsugaru: Ljóðlist, laust mál og ljósmyndir) í samvinnu við rithöfundinn Yojiro Ishizaka og ljóðskáldið Kyozo Takagi. Framtíðin virtist blasa við honum en framandi stórborgarlífið hafði slæm áhrif á heilsu hans. Hann lést árið 1964 eftir líkamlega erfiða ljósmyndaferð til Hokkaido, aðeins 39 ára að aldri.

Kojima náði fram ótrúlega sterkri tjáningu með prentun mynda sinna, en hann lagði áherslu á andstæður svarta og hvítra flata og með því að einfalda stundum myndirnar svo mjög að þær urðu allt að því abstrakt. Myndir hans túlka á áhrifaríkan hátt hörku umhverfisins í norðlægu landi. Verk hans sem fjalla um vetur í Tsugaru eru sérlega tilkomumikil, en þau tjá óviðjafnanlega einsemd og göfgi. Lát Kojima verður varla harmað um of; vald hans á listinni og hugmyndaauðgi var á hátindi, og hann var rétt búinn að þróa með sér einstakan stíl þegar hann lést. Sterk einkenni mynda hans eru sögð vera dæmigerð fyrir „Tohoku-ljósmyndun“. Yfirlitssýningin, KOJIMA Ichiro: Yfirlitssýning, sem haldin var í nýja héraðslistasafninu í Aomori árið 2009 vakti gífurlega athygli.

Hideo Haga gerðist sjálfstæður ljósmyndari þegar fyrirtækið sem hann vann fyrir var lagt niður árið 1952 og hann varði næstu 60 árunum af lífi sínu eða meir í að ljósmynda efni sem laut að þjóðfræði. Þessi áhugi sem varð að lífsstarfi hans vaknaði eftir að hafa hlustað á fyrirlestur eftir þjóðsagnafræðinginn Shinobu Orikuchi þegar hann stundaði nám við Keio-háskólann. Áhugi hans á þjóðfræði jókst við að kanna hug og hjarta japönsku þjóðarinnar á vinsælum hátíðum og við iðkun helgisiða. Hann öðlaðist frábæran orðstír með ljósmyndabókinni Ta no Kami (Guð hrísgrjónaakranna) sem gefin var út árið 1959 með eftirminnilegum myndum af trúarathöfnum hrísgrjónabændanna.

Haga eyddi miklum tíma í að taka þjóðháttamyndir um allt Japan. Öll hans verk markast af tilfinningu fyrir mikilvægi þess sem hann lýsir í inngangi sínum að Ta no Kami: „Þetta er okkar síðasta tækifæri til að skrá helgiathafnir sem tengjast hrísgrjónarækt.“ Það er staðreynd að hnignun átti sér stað í japönskum landbúnaði, skógrækt og fiskveiðum á tímabilinu þegar hagvöxtur fór að aukast að mun á sjöunda tug tuttugustu aldarinnar og þorpasamfélögin sem stóðu að hátíðum og helgisiðum þjóðtrúarinnar voru óðum að leysast upp. Þjóðlífsmyndir Haga eru því dýrmæt heimildasöfnun þegar kemur að því að rannsaka gjörbreytta lífshætti í Japan.

Verk Haga á þessari sýningu sýna hátíðir og sviðslistir í Tohoku. Þau sýna að Tohoku er heill hafsjór hefðbundinna trúarhátta sem hafa verið iðkaðir um mjög langt skeið. Þó að líta megi á myndir þessar sem eingöngu ítarlega heimildasöfnun yfir hátíðir og iðkun helgisiða, þá tjá þær ólýsanlega tilfinningu fyrir dulúð, eins og verið sé að sýna návist guða sem stíga út úr eigin heimi og inn í þennan heim. Þó að nálgun Haga sé yfirveguð og rökvís er augljóst að hann er afar upprifinn þegar hann er að ljósmynda hátíðirnar í Tohoku.

Masatoshi Naito er annar ljósmyndari sem er heltekinn áhuga á guðunum í Tohoku. Hann nam hagnýta efnafræði við Waseda-háskólann og vann svo í trefjafyrirtæki en sagði upp vinnu árið 1962 og gerðist sjálfstæður ljósmyndari. Hann fékk áhuga á Tohoku sem viðfangsefni eftir ferð til Yudono-fjallsins sem er hluti af Dewa Sanzan (hin þrjú fjöll Dewa) fjallgarðsins í Yamagata-umdæminu árið 1963. Þar varð hann fyrir þeirri óþægilegu reynslu að sjá múmíur Búddamunka sem höfðu dáið meðan þeir föstuðu til að bjarga lífi sveltandi bænda. Meðan hann var að ljósmynda múmíurnar rannsakaði hann heimspekilegan bakgrunn óvenjulegra siða þeirra og heillaðist af þjóðtrú Tohoku, einkum Shugendo (búddískur söfnuður sem var litaður af ólíkum siðum og þekktur fyrir stranga meinlætaiðkun í fjallahéruðunum) í Dewa Sanzan. Auk verka sinna sem ljósmyndari gaf Naito út einstakt rit um þjóðháttarannsóknir.

Ljósmyndabækur Naitos um Tohoku, þar með taldar Baba Tohoku no minkan shinko (Gamla kona: Þjóðtrú Tohoku) útgefin 1979, Dewa Sanzan, útgefin 1980, og Tono Monogatari (Þjóðsögur Tono), útgefin 1983, vekja undarlegar og yfirleitt huldar verur, sem eru um það bil að stíga út úr dökkum bakgrunninum. Með því að nota sterkt leifturljós sem smýgur djúpt inn í myrkrið leitast Naito við að ná fram formum annars heims þar sem guðir og djöflar búa. Verkin á þessari sýningu eru nærmyndir af Búddastyttum sem fundist hafa í hofum og helgidómum Dewa Sanzan. Þau voru áður útgefin árið 1982 í Dewa Sanzan to shugen (Dewa Sanzan og Shugen). Undarleg, lifandi andlitin tjá sterkan átrúnað almúgans í fjallahéruðum staðarins og lífskraft jarðarinnar í Tohoku sem varðveist hefur alla tíð síðan í fornöld.

Ljósmyndabók Hiroshi Oshima sem nefnist Koun no machi (Gæfubærinn) var gefin út árið 1987. Oshima, sem var fæddur í Morioka, í Iwate-umdæminu sótti titilinn í skáldsöguna La Ville de la Chance eftir Elie Wiesel, rithöfund sem fæddur var í Sighet í Konungsríki Ungverjalands (nú hluti af Rúmeníu). Bók Oshima er í þremur hlutum: Gæfubærinn, Sanhei og An Asura að vori. Fyrsti hlutinn Gæfubærinn hefur að geyma ljósmyndir sem Oshima tók á sjötta og sjöunda áratug tuttugustu aldarinnar meðan hann var í grunnskóla og menntaskóla. Annar hlutinn, Sanhei, inniheldur ljósmyndir teknar á áttunda og níunda áratug tuttugustu aldarinnar en kveikjan að þeim er bændauppreisnin sem átti sér stað í Sanhei-héraðinu (sem þá var hluti af Nanbu-svæðinu) í Iwate-umdæminu um miðja nítjándu öld. Þriðji hlutinn An Asura að vori (sem er heiti á ljóðasafni eftir Kenji Miyazawa) hefur að geyma ljósmyndir sem eru aðallega teknar á níunda áratug tuttugustu aldarinnar. Enda þótt hver hluti sé sjálfstæð eining er heildin byggð upp eins og einföld keðja ljóss og skugga. Með því að flakka frjálst á milli fjarlægrar og nýafstaðinnar fortíðar getum við rekið persónulega sögu Oshima og hið náttúrulega og menningarlega umhverfi Iwate þar sem hann fæddist og ólst upp.

Myndirnar í hlutanum sem nefnist Gæfubærinn eru sérlega nýstárlegar og skínandi á að sjá. Kýr með kálfa sína, lítið barn, helgiathöfn þar sem bátur er brenndur úti á á, uppákomur á götum úti (hátíðir, kröfugöngur, skrúðfylking bifreiða til að fagna brúðkaupi krónprinsins), lautarferð á Koiwai-bóndabýlinu – allt þetta ber keim af goðsagnakenndum heimi. Þegar við snúum okkur að öðrum og þriðja hlutanum verða myndir, sem eru fleytifullar af ljósmyndunargleði, smám saman sársaukakenndar og óhugnanlegar. Þrátt fyrir það sýna þær skýrt að „Ihatov“, hið uppdiktaða nafn sem Kenji Miyazawa gaf Iawate-umdæminu, er land þar sem meira en nóg er af vatni, birtu og lofti. Hver sá sem skoðar þessar myndir mun sennilega tengja þær við minningar um landslagið í eigin heimabæ.

Eins og tekið var fram í upphafi er landslag Tohoku-héraðsins ótrúlega fagurt. Kirsuberjablómin á vorin, græn lauf sumarsins, marglit haustlaufin og hvítur vetrarsnjórinn – þessi mismunandi sérkenni árstíðanna færa tilþrifamiklar breytingar og skapa stórkostlegt og hrífandi sjónarspil. Japan má vera stolt af hreinni fegurð fjalla sinna, ánna, úthafanna og skóganna, en náttúrufegurð Tohoku á þó varla sinn líka í landinu. Margir ljósmyndarar hafa að sjálfsögðu tekið frábærar myndir í náttúruumhverfi Tohoku. Einn þeirra, Meiki Lin, hefur vakið mikla athygli á síðustu árum.

Forsaga Lin er fremur óvenjuleg; hann sneri sér að ljósmyndun eftir að hafa stundað læknisnám í háskóla. Frá og með síðasta áratug tuttugustu aldarinnar hefur hann skarað fram úr sem landslagsljósmyndari með stórkostlegri tækni sinni og næmu auga. Gerður var afar góður rómur að ljósmyndabókum hans, þar á meðal Mizu no hotori (Við vatnsbakkann) sem kom út árið 2001, Mori no shunkan (Stund í skóginum) sem kom út 2004 og Shiki no takaramono (Fjársjóðir árstíðanna) sem kom út 2011. Árið 2007 tók hann þátt í þriggja manna sýningu í Tokyo Metropolitan-ljósmyndasafninu, Hugleiðingar um Gaea: Ný sjónarsvið í náttúruljósmyndun, ásamt Tetsuo Kikuchi og Takayuki Maekawa. Hann var talinn einn efnilegasti sérfræðingurinn á þessu sviði ljósmyndunar. Eins og sjá má á verkunum á þessari sýningu, sem sýna fjöllin í Tohoku, þá er stórfengleg, skrautleg fegurð í verkum hans ásamt miklum krafti og áhrifamætti. Landslag Tohoku sameinar óheflaðan, karlmannlegan kraft og tilfinningu fyrir hinu skammlífa, viðkvæma og hverfula. Að mínu mati fá ljósmyndir Lins okkur til að sjá Tohoku í nýju ljósi.

Masaru Tatsuki, fæddur og uppalinn í Toyama-umdæminu, vann sem aðstoðarmaður í leigustúdíói og kenndi jafnframt sjálfum sér ljósmyndun. Frá 1998 til 2007 tók hann myndir af trukkum sem skreyttir voru áberandi myndum og blikkandi ljósum og voru kallaðir deco tora (skreyttir trukkar). Úr þessu varð ljósmyndabók, DECOTORA, sem Little More gaf út árið 2007. Tatsuki fór að ljósmynda Tohoku-héraðið þegar einn af deco tora bílstjórunum sem raunar var frá Tohoku, kynnti hann fyrir manni sem hafði ofan af fyrir sér með dádýraveiðum þar. Þegar hann var að taka portrett myndir af fólkinu sem hann hitti í Tohoku, þar á meðal matagi (atvinnuveiðimönnum), fiskimönnum og húsmæðrum, fékk Tatsuki áhuga á þjóðtrú og hátíðum, rétt eins og Hideo Haga og Masatoshi Naito. Þegar skoðaðar eru myndirnar af seiðkonunum sem kallaðar eru ogamisama í Kesennuma í Miyagi-umdæminu og dönsurunum að dansa Natsuya-dádýradansinn í Miyako í Iwate-umdæminu, er ljóst að sá þróttmikli kraftur sem leynist í myrkustu djúpum Tohoku lifir góðu lífi enn í dag.

Tatsuki ætlaði einmitt að fara að birta þessar ljósmyndir þegar jarðskjálftinn mikli reið yfir Tohoku. Bókin, sem hlaut titilinn Tohoku kom út eftir smá seinkun í júlí 2011 með tveimur viðbótarmyndum sem teknar voru eftir jarðskjálftann. Þjóðsagnafræðingurinn Norio Akasaka lagði til textann í bókina en hann ritar meðal annars: „Fólk, hlutir og landslag eru blóði drifin og anga af holdi. Hvort sem þetta var Tatsuki í huga eða ekki, þá beinir þetta sannarlega augum okkar að hinni dýrslegu hlið Tohoku.“

Tohoku er eins og sært dýr, en þó að því blæði núna, mun það rísa upp aftur fullt af lífskrafti. Ljósmyndir Tatsuki sannfæra okkur um að það gæti vel gerst.

The Sendai Collection (Sendai söfnunin) er röð ljósmynda sem eru frekar óvenjulegar miðað við hinar myndirnar á sýningunni. Þetta er afrakstur ljósmyndaverkefnis sem hópur ljósmyndara sem bjuggu í Sendai í Miyagi-umdæminu stóð að árið 2001 undir forystu Toru Ito. Núverandi meðlimir hópsins eru Toru Ito, Shiro Ouchi, Makoto Kotaki, Wataru Matsutani, Hidekazu Katakura, Hisashi Saito, Ryuji Sasaki og Reiko Anbai. Hópurinn dró línur á kort til að deila héraðinu í aðgreind svæði fyrir hvern og einn til að vinna með. Síðan tóku þeir ljósmyndir af alls kyns mannvirkjum á viðkomandi svæðum, þar á meðal húsum, götum og brúm. Ljósmyndararnir ákváðu sjálfir þær staðsetningar og sjónarhorn sem nota skyldi við töku myndanna en þeir ljósmynduðu allt landslagið sem mannvirkið hafði verið sett í og forðuðust huglæg viðhorf af fremsta megni. Þeir settu sér annað skilyrði, en það var að hafa alla myndina í skýrum fókus. Markmið verkefnisins var „að festa á filmu og skrá nafnlaust landslag sem er óðum að hverfa.“ Í upphafi var markmiðið að koma á safni tíu þúsund ljósmynda. Verkefnið er ennþá í gangi en ljósmyndirnar eru nú þegar orðnar sex þúsund.

Þéttbýlisskipulag sem og niðurrif ónýtra húsa var á mörgum stöðum við það að gerbreyta landslaginu og Ito var að vona að ljósmyndir myndu varðveita minninguna um það fyrir komandi kynslóðir íbúa Sendai. En jarðskjálftinn mikli 11. mars 2011 breytti skyndilega mikilvægi verkefnisins. Mörg mannvirkjanna sem sýnd eru á myndunum hér eyðilögðust eða skemmdust afar illa í jarðskjálftanum. Aðkallandi tilfinning fyrir því að mannvirkið muni brátt fara forgörðum fylgir alltaf þeirri þörf að skrá landslag eins og það er hér og nú. Hús og byggingar eru ílát sem geyma líf fólksins sem býr í þeim. Ef við skoðum þessi hús og götur með nýjum augum, lítum á þau sem vitni um það hvernig íbúar ákveðinnar borgar í Tohoku lifðu lífi sínu á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar, þá sjáum við að þessar „nafnlausu landslagsmyndir“ hafa áríðandi boðskap að færa okkur.

Nao Tsuda ferðaðist um heiminn og notaði ljósmyndir sínar til að varpa fram spurningum um tilgang þess að skoða landslagsmyndir. Hann gerði tilraun til skapa sýndarupplifun á streymi tímans frá fornöld fram á okkar dag og yfir í framtíðina, og á lífskeðjum fólksins sem lifir á þessum tímum. Í ljósmyndabók sinni SMOKE LINE (Línumökkur) um þetta efni rakti hann „straumflæði vindsins“ með myndum af Marokkó, Kína og Mongólíu sem sýndu víðáttu landslagsins. Í næstu bók sinni Storm Last Night (Stormur í gærkvöldi) sem kom út árið 2010, ljósmyndaði hann fornleifasvæði á Írlandi sem í hans augum voru „fornar byggingar sem mannkynið notaði til að aðskilja heiminn að innan og utan.” Það kom mér skemmtilega á óvart að komast að því að hann hafði byrjað að ljósmynda svæðin frá Jomon-tímabilinu í Tohoku-héraðinu á árinu 2010. Ef við íhugum áform hans um að skoða uppruna hugmynda og táknmynda frá sjónarmiði mannfræðingsins, þá kann að virðast eðlilegt að hann skyldi rannsaka „upprunalegt form helgisiða í grundvallarmenningu Japans” á svæðum frá Jomon-tímabilinu.

Ljósmyndir Tsuda á þessari sýningu sýna ekki beinlínis Jomon-svæði eða -muni. Í stað þess sýna þau vettvang þar sem fornir og nýir tímar Tohoku mætast og kallast á. Þegar myndir af Namahage, sem er óvenjuleg siðvenja frá Oga-skaganum í Akita-umdæminu, og eldhátíðinni í Hayama-helgidómnum í Tomioka í Fukushima-umdæminu eru skoðaðar, sést augljóslega hvernig Jomon-andinn hefur síast inn í andlegt umhverfi Tohoku sem „grundvallarmenning.“ Tsuda nálgast ljósmyndun eins og fornleifafræðingur sem grefur niður í djúp lög jarðvegsins og uppgötvar hluti sem Jomon-fólkið kann að hafa séð. Verkin sem hann birtir hér taka á sig form bráðabirgðaskýrslu og við eigum eftir að sjá niðurstöðurnar af áframhaldandi vettvangsrannsóknum hans.

Jarðskjálftinn mikli í Japan reyndist sérlega mikið áfall fyrir Naoya Hatakeyama sem fæddist í Rikuzentakata í Iwate-umdæminu. Rikuzentakata, sem er á Kyrrahafsströndinni, nánast gereyðilagðist í flóðbylgjunni miklu. Hún sópaði heimili Hatakeyama burt og móðir hans lét lífið. Áður hafði hann skrifað: „Himinninn, sjórinn, fjöllin, vatnið, birtan og jafnvel ljósmyndir hafa engan áhuga á mannverum og þetta sem við köllum náttúru, kallar fram gríðarlega vanmáttarkennd.“ (Underground, 2000). Áhugaleysi náttúrunnar á framtakssemi mannsins kom greinilega í ljós í jarðskjálftanum.

Þessi erfiða reynsla hafði sterk áhrif á Hatakeyama og mótaði alla hans tilveru sem ljósmyndari. Hann hélt sýninguna „Natural Stories“ (Náttúrusögur), frá október til desember árið 2011 í Borgarljósmyndasafninu í Tokyo þar sem hann tók saman dæmigerð verk frá fyrri tíð og bætti við tveimur nýjum syrpum ljósmynda. Landlagsmyndir hans eftir hörmungarnar af Rikuzentakata og Kesengawa (Kesen áin) voru settar fram sem „ljósmyndir teknar með allri hugsanlegri nákvæmni og og vandlegri notkun uppbyggingar, lita og ljóss“. Síðarnefnda syrpan er með á þessari sýningu.

Miðað við fyrri verk hans er Kesengawa tilfinningalega agað verkefni; þetta er tilraun til að sýna umfjöllunarefnið kalt og nákvæmlega. Hvað Hatakeyama snerti var þetta fremur óvenjuleg syrpa. Upphaflega ætlaði hann ekki að birta þessa röð ljósmynda, sem sýna einkaviðburði, landslagið við árbakkann rétt hjá heimili fjölskyldu hans og fjölskyldumeðlimi hans, teknar frá 2002-2010. En jarðskjálftinn gaf þeim miklu dýpri merkingu. Flest atriðin sem hér eru sýnd hafa nú tapast. Það sem meira er, ég tel að Kesengawa sé í eðli sínu heillandi syrpa mynda sem sýna hversdagslífið í Tohoku í smáatriðum, sem talar hægt og skýrt til okkar rétt eins og foreldri sem talar við barn. Hatakeyama gaf kassanum sem myndirnar voru geymdar í nafnið Petit Coin du Monde (eitt lítið heimshorn). Þrátt fyrir það tjáir þessi syrpa, sem virðist svo hversdagsleg, afar mikilvæga alheimssýn.

Verk þessara ljósmyndara (níu einstaklinga og eins hóps) varpa ljósi á Tohoku frá ýmsum sjónarhornum. Hvernig viðtökurnar verða er undir hverjum sýningargesti komið og það er ekki nauðsynlegt að benda á hvernig ætti að skoða hana.

Hins vegar má segja að þessi verk gefi okkur góða tilfinningu fyrir „Tohoku-ljósmyndalist“ í fæðingu. Eins og ég hef oft tekið fram heldur Jomon-menningin, sem var mótandi menning fyrir japönsku þjóðina, áfram að hafa sterk áhrif á Tohoku-svæðinu. Fólkið á Jomon- tímabilinu þróaði með sér einstaka heimsmynd á sviði hara, akrinum þar sem mannlegt líf og náttúrulegt umhverfi þar fyrir utan koma saman í samhjálp og gagnvirkni. Ljósmyndararnir sem hér eru nefndir hafa brugðist á næman hátt við stöðum sem samsvara hara, vettvangi þar sem hið hið ytra og hið innra, hið heilaga og hið veraldlega, líf og dauði kallast á.

Ef menn vilja varðveita kraft og lífsþrótt Jomon-andans, kann að vera nauðsynlegt að halda öflum alþjóðavæðingar í nokkurri fjarlægð, en hún gerir hlutina einsleita og setur allt í ósveigjanlegt skipulag. Tohoku er ef til vill í góðri aðstöðu til að fá þessu áorkað vegna þess að svæðið er alltaf í útjaðrinum, á ystu nöf, séð frá valdamiðjunni. Sterk þrá til að halda sig á brúninni liggur að baki „Tohoku-ljósmyndalistarinnar“. Þeir ljósmyndarar sem eiga verk hér á sýningunni hafa notað ljósmyndina til að kanna svæði sem er á fjarlægustu mörkum ósýnilegra landamæra, öðruvísi leið til að skoða hlutina.

Ef til vill mætti líta á Tohoku sem alhliða heildarhugtak frekar en einungis nafnið á einu landsvæði í Japan. Tohoku eða norðaustrið, gæti fyrirfundist hvar sem er. Tohoku Evrópu er Rússland og Tohoku Rússlands er Síbería. Skoða má gildi þess að sjá heiminn upp á nýtt frá útjaðrinum, standandi á brúninni, hvar í heimi sem er. Að mínu mati ætti að skoða „Tohoku-ljósmyndalistina“ sem hér er verið að kynna, út frá þessu sjónarmiði.

Kotaro Lizawa

Ljósmyndagagnrýnandi, höfundur greinarinnar og sýningarinnar. Fæddur í Miyagi-umdæminu árið 1954. Tók doktorsgráðu í listfræði við Tsukuba-háskólann árið 1984. Starfaði sem ritstjóri ljósmyndatímaritsins déjà-vu frá 1990 til 1994. Meðal stærri verka hans eru Shashin bijutsukan e yokoso (Velkomin í ljósmyndasafnið) (Kodansha, 1996), Sengo shashinshi noto (Athugasemdir við sögu ljlósmyndunar eftirstríðsáranna), (Iwanami Shinsho, 2008), Shashinteki shiko (Ljósmyndahugsun) (Kawade Shobo Shinsha, 2009) og Afutamasu shinsaigo no shashin (Eftirköst: Ljósmyndun eftir Skjálftann) (NTT Publishing, 2011).

Um listamennina:

Teisuke Chiba

Fæddur í Kakunodate í Akita-umdæminu árið 1917. Bjó í Yokote í Akita-umdæminu allt sitt líf. Hann var sjálfmenntaður í ljósmyndun. Stuttu eftir seinni heimsstyrjöldina fór hann að vinna verðlaun ljósmyndatímarita sem komu út mánaðarlega og voru helguð verkum lesenda. Þrátt fyrir að vera áhugamaður varð hann mikilsvirtur ljósmyndari í Akita. Flestar myndir hans spegla ást hans á Akita, en hann tók myndir af siðum og lífsháttum bænda í héraðinu sem hann bjó í, sem er afar snjóþungt svæði. Raunsæisstefna í ljósmyndun sem ríkti eftir stríðið og Ken Domon og Ihei Kimura voru í forsvari fyrir, hafði mikil áhrif á Chiba og aðra ljósmyndara í Akita. Metnaðarfull félög ljósmyndara voru sett á fót, svo sem Akita-ljósmyndarahópurinn (stofnaður árið 1952, nafninu var breytt í Hópur Akita árið 1954) en myndir þeirra sameinuðu húmanisma og blákaldan raunveruleika. Heimildaljósmyndir Chiba af bændaþorpum á sjötta og sjöunda áratug tuttugustu aldarinnar voru meðal nýstárlegustu og snjöllustu myndanna sem þessi hópur birti. Magakrabbamein varð Chiba að aldurtila árið 1965, hann var þá 48 ára gamall. Vinir og starfsfélagar settu upp sýningu á ljósmyndum hans að honum látnum í Fuji Photo Salon í Tokyo árið 1966 og gáfu út Teisuke Chiba isaku shu (Samsafn ljósmynda eftir Teisuke Chiba heitinn). Áhugi á verkum hans hefur vaknað á síðustu árum.

Ichiro Kojima

Fæddur í Aomori árið 1924, sonur kaupmanns sem verslaði með leikföng og ljósmyndavörur. Hann útskrifaðist frá Verslunarskólanum í Aomori og var kvaddur í herþjónustu meðan á heimsstyrjöldinni síðari stóð. Mikil óreiða ríkti á tímabili eftir stríðið en árið 1954 hóf hann að starfa af fullum krafti sem ljósmyndari. Myndefni hans var dæmigerðar landslagsmyndir af Tohoku – hlað fyrir utan bóndabæ í Tsugaru eða einmanaleg gata í vetrarnæðingi. Yonosuke Natori, brautryðjandi á sviði blaðaljósmynda, uppgötvaði Kojima og dáðist að hæfni hans til að framleiða myndir sem upphefja hversdagslífið með afbragðs tilfinningu fyrir formum og snilldartækni. Kojima hélt sína fyrstu einkasýningu í Konishiroku-ljósmyndagalleríinu í Tokyo árið 1958. Hann flutti til Tokyo árið 1961 og stefndi á að verða atvinnuljósmyndari. Tímaritið Camera Geijutsu veitti honum verðlaun sem athyglisverðasti nýliðinn árið 1961 fyrir Seas of Úfið haf Akita, ljósmynd sem hafði verið birt þetta sama ár. Ferill Kojima virtist lofa góðu en hann dalaði eftir að hann flutti til Tokyo. Hann fór til Hokkaido árið 1963 í von um að hleypa nýju lífi í verk sín en erfiðar aðstæður þar höfðu skaðleg áhrif á heilsu hans. Eina bókin með myndum eftir hann sem gefin var út meðan hann var enn á lífi, Tsugau shi, bun, shashin shu(Tsugaru: Ljóðlist, laust mál og ljósmyndir) kom út þetta sama ár. Hann dó ungur, aðeins 39 ára gamall árið 1964. Myndir hans hafa verið sýndar á fjölda sýninga síðan hann lést og orðstír hans fer vaxandi.

Hideo Haga

Fæddur í Dairen í Kína, árið 1921. Varð fyrir áhrifum frá Shinobu Orikuchii, sem var þjóðháttafræðingur við hugvísindasvið Keio-háskólans. Hann var stofnmeðlimur Félags atvinnuljósmyndara í Japan sem sett var á fót árið 1952. Hann myndar hátíðir og hefðbundnar sviðslistir í Japan og í öðrum löndum. Hann hefur tekið myndir í öllum héruðum Japans og 101 erlendu landi. Hann var stjórnandi Festival Plaza á Expo 70 heimssýningunni í Osaka og hefur tekið þátt í mörgum öðrum uppákomum og starfsemi af ýmsu tagi. Meðal stærri útgefinna verka hans má telja Ta no kami (Guð hrísgrjónaakranna) (Heibonsha, 1959), Nihon no matsuri(Japanskar hátíðir) (Hoikusha, 1991), og Nihon no minzoku jo, ge (Japönsk alþýða, tvö bindi) (Cleo 1997). Meðal verðlauna má telja Silfur-heiðursorðu Vínarborgar, Austurríki 1988; Purpuraborðann árið 1989 og Orðu hinnar rísandi sólar, fjórða stig árið 1995; svo og Heiðurskross lista og vísinda frá austurríska lýðveldinu árið 2009.

Masatoshi Natio

Fæddur árið 1938 í Tokyo. Gerðist sjálfstætt starfandi ljósmyndari eftir að hafa lokið námi í hagnýtum vísindum frá Waseda-háskólanum og unnið fyrir trefjafyrirtæki. Hann ljósmyndaði múmíur Búddamunka sem höfðu dáið meðan þeir föstuðu til að bjarga sveltandi bændum í Dewa Sanzan og fór að taka myndir sem beindu athyglinni að þjóðtrú og þjóðháttafræði Tohoku. Samtök japanskra ljósmyndagagnrýnenda veittu honum verðlaun sem athyglisverðasti nýliðinn árið 1966. Hann tók þátt í Ný japönsk ljósmyndalist í MOMA, New York árið 1974 og Handan við Japan í Barbican listamiðstöðinni í London árið 1991. Hann hélt einkasýningu MASATOSHI NAITO (ljósmyndun og þjóðsögur) í Listasafni Kichijoji árið 2009. Hann hlaut aðra Domon Ken viðurkenningu fyrir bók sína Dexa Sanzan and Shugen (Kosei útgáfufélagið 1982). Meðal annarra ljósmyndabóka má telja Miira shinko no kenkyu (Athugun á múmíu-trúarbrögðum) sem heyra undir þjóðháttarannsóknir (DaiwaShobo, 1974) og Tohoku no sei to sen (Helgi og vanhelgi Tohoku) (Housei University Press, 2007).

Hiroshi Oshima

Fæddur í Morioka í Iwate-umdæminu árið 1944. Hann vakti atygli með Sanhei-syrpunni 1973-1977, í Tanohata, Iwate/Ohashi Gallerí, Tokyo, en hún fjallaði um stað í heimasveit hans þar sem bændauppreisn braust út á Edo-tímabilinu. Hann hlaut verðlaun Félags ljósmyndara fyrir ljósmyndabókina Koun no machi(Gæfubærinn) árið1987. Hann hlaut 28. verðlaun Ina Nobuo fyrir sýninguna Þúsund andlit, þúsund lönd – Eþíópía árið 2003. Hann stofnaði tímarit um ljósmyndagagnrýni, Shashin sochi (Verkfæri ljósmyndunar) (Gendaishokan, 1980) og var ritstjóri þess. Meðal ljósmyndabóka og skýringarrita má nefna Koun no machi (1987), Shashin genron (Kenning tálsýna í ljósmyndun) (Shobunsha, 1989), Aje no Pari (Misuzu Shobo, 1998); hann ritstýrði Tokyo Metropolitan Museum of Photography Library, Re-recorded Commentary on Photography 1921-1965 (Tankosha, 1999), 101 World Photographers (101 heimsljósmyndarar)(Shinshokan, 1997) og svo framvegis. Kort af bænum Tairajima (PUT, Kagoshima, 1975-80), og dah-dah-sko-dah-dah To Kenji Miyazawa (Petit Musee, Tokyo, 1996) hafa verið sýndar á mörgum ljósmyndasýningum. Í dag er hann meðlimur í dagskrárnefnd Nikon Salon, stjórnarmeðlimur hjá Goethe minningarsafninu í Tókýó, prófessor við Graduate School of Fine Arts, Listfræðasvið Kyushu Sangyo-háskólans og leiðbeinandi við Hönnunarskólann í Kuwasawa.

Meiki Lin

Fæddur í Yokosuka, Kanawaga-umdæminu árið 1969. Hann fór að læra ljósmyndun upp á eigin spýtur, 18 ára gamall. Hann hélt ljósmyndasýningar í sýningarsölum Fuji víðsvegar um Japan, og sýndi meðal annars Mt. Amakazari (1998), frægt fjall sem stendur á milli umdæmanna Niigata og Nagano, Við vatnsbakkann (2001), sem sýnir fegurð vatnsins og hið einstaka landslag sem tengist vötnum í Japan, og Stund í skóginum (2004) sem sýnir skóga Japans. Sýningin Chikyu (hoshi) no tabibito (Hugleiðingar um Gaju: Ný sjónarsvið í náttúruljósmyndun) var sett upp í Tokyo Metropolitan-ljósmyndasafninu 2007 og var síðan flutt í Borgarlistasafnið í Matsumoto. Fukushima borgarljósmyndasafnið stóð fyrir sýningunni Arata naru takami e(Nýjar hæðir). Hann gaf út ljósmyndabókina Fjársjóðir árstíða (Nihon Shashin Kikaku, 2011) þar sem hann kannar landslag vítt og breitt í Japan með stafrænni myndavél og hélt sýningu með sama titli í sýningarsal Canon. Hann sat í ljósmynda dómnefnd fyrir East-West-verðlaunin í London árið 2011. Hann gaf ljósmyndir á leiðtogafund Indlands og Japans um hnattræna samvinnu árið 2011, sem haldinn var í Tadami. Hann heldur áfram að taka myndir sem tjá hárfínan hugblæ og gagnsæi náttúrulandslagsins. Hann er forstjóri Meirin Co hf., leiðbeinandi hjá Club Tourism International Inc. og framkvæmdastjóri Kibo-ljósmyndaskólans.

Masaru Tatsuki

Fæddur í Toyama-umdæminu árið 1974. Gerðist sjálfstæður ljósmyndari sem beindi athygli sinni að listrænt skreyttum trukkum árið 1998. Hann eyddi næstu níu árum í að ljósmynda þá og bílstjóra og birti myndirnar í DECOTORA (Little More, 2007). Hann hélt einkasýningu, DECOTORA í Little More chika í Tokyo og í TAI Galleríinu í Santa Fe, Nýju Mexíkó, BNA. (2008). Hann tók ljósmyndir í Tohoku-héraðinu frá 2006 til 2011 og birti þær í Tohoku (Little More, 2011) og hlaut fyrir þær 37. Kimura Ihei ljósmynda minningarverðlaunin árið 2012. Hann hefur nú gert Tohoku að lífstíðarverkefni og heldur áfram að heimsækja héraðið, spjalla við fólk og taka ljósmyndir sem sýna virðingu fyrir náttúrunni. New Mexico Arts sem er deild út frá menntamálaráðuneyti Nýju-Mexíkó keypti nokkrar mynda hans úr DECOTORA-syrpunni.

Sendai-hópurinn

Toru Ito, Shiro Ouchi, Makoto Kotaki, Wataru Matsutani, Hidekazu Katakura, Hisashi Saito, Ryuji Sasaki, Reiko Anbai.

Sendai-hópurinn samanstendur af hóp ljósmyndara sem búa í Sendai og er rekinn af Toru Ito. Markmið hópsins er að varðveita venjulegt landslag borgarinnar sem er að verða að engu í straumi tímans og mun brátt hverfa á vit gleymskunnar. Þeir byrjuðu að vinna þetta verkefni árið 2001 og stefndu á að taka 10.000 heimildaljósmyndir af landslaginu eins og það er í dag. Þeir settu sér reglur til að ná þessu markmiði ̶ að útmá huglægni og stílbrög úr myndum sínum og forðast að nota linsubrellur eins og t.d. óskerpu eða fjarvíddaráhrif. Hópurinn hefur haldið 15 sýningar í Sendai og gefið úr tvö bindi af bókinni Sendai söfnunin, 1. bindi árið 2005 og 2. bindi árið 2007.

Nao Tsuda

Fæddur í Kobe í Hyogo-umdæminu árið 1976. Hann lauk BA-prófi og framhaldsnámi í ljósmyndun við Osaka-listaháskólann. Hann hefur ferðast víða um heiminn og tekið myndir af landslagi, stöðum og fólki með „ljósmyndastílbragði“ sínu, sem lýsa má þannig að hann hafi sett sér það verkefni að rannsaka „hugmyndir sem ná út yfir tíma og rúm“ og „uppruna hugmynda“. Hann kemur að ljósmyndun sem nútímalist, stíll hans að kafa djúpt ofan í jafnt gömul sem ný þemu, sýnir mann sem leitar sannleikans í listinni. Orðstír kyrrlátra verka hans fer vaxandi í Japan og erlendis og hann hefur haldið einkasýningar í New York, París og Frankfurt á síðustu árum. Í Japan vakti bók hans SMOKE LINE (Línumökkur), sem Shiseido-galleríið kynnti árið 2008, mikla athygli. Hann hlaut verðlaun menntamálaráðherra sem athyglisverðasti nýliðinn á sviði fagurlista árið 2010. Meðal útgefinna verka hans eru Kogi (MONDE Books 2007), SMOKE LINE (AKAAKA, 20080), Coming Closer (AKAAKA+hiromiyoshii, 2009), og Storm Last Night (AKAAKA, 2010).

Naoya Hatakeyama

Fæddur í Rikuzentakata í Iwate-umdæminu árið 1958. Hann lærði hjá Kiyoji Otsuji við Lista- og hönnunarskóla Tsukuba-háskólans. Hann lauk framhaldsnámi við Tsukuba-háskólann árið 1984. Hann stofnaði heimili, fór að vinna í Tokyo og bjó til ljósmyndasyrpu þar sem hann beindi atyglinni að sambandinu milli náttúrunnar, borgarinnar og ljósmynda. Myndir hans af kalknámum, byggingasvæðum og skurðum í Tokyo vöktu athygli. Hann hlaut 22. Kimura Ihei-ljósmyndaverðlaunin og 42. Mainchini-listverðlaunin árið 2001. Hann hefur tekið þátt í mörgum einka- og hópsýningum innan Japans og erlendis. Hann var valinn fulltrúi Japans á Feneyja tvíæringnum árið 2001. Meðal stærri sýninga á síðustu árum má nefna Draftsman‘s Pencil (Blýantur teiknarans) í Nýlistasafni Kamakura árið 2007 og Natural Stories (Náttúrusögur) í Tokyo Metropolitan ljósmyndasafninu árið 2011, Huis Marseille ljósmyndasafninu og Nýlistasafni San Fransisco árið 2012. Meðal stærri ljósmyndabóka hans má nefna LIME WORKS (Synergy hf., 1996, amus arts press, 2002, Seigensha, 2007), Underground (Media Factory hf., 2000), Naoya Hatakeyama (Hatje Cantz, 2002), Ciel Tombé (SUPER LABO, 2011), og Terrils (Light Motiv, 2011). Hann ljósmyndaði eyðileggingu heimabæjar síns sem jarðskjálftinn mikli í Japan olli árið 2011.