Vegferð
Halldór Ásgeirsson
27. september – 14. desember 2014
Æsa Sigurjónsdóttir,
listfræðingur
Myndlistarsköpun Halldórs Ásgeirssonar, og þá sérstaklega sá hluti hennar sem nú er sýndur í Listasafni Árnesinga, er í raun umfangsmikil dagbókarfærsla sem veitir innsýn inn í upplifun hans á náttúrunni og leiðir hans til að útfæra sína eigin heimsmynd. Sýningin er að hluta til yfirlit – og um leið endurlit til þess tíma sem Halldór byrjaði að vinna að myndlist. Hér sést að þráðurinn hefur aldrei slitnað og í yngri jafnt sem eldri verkum má greina ólíkar útfærslur á tilraunum lista- mannsins með sjálfsprottna skrift, gjörninga, og efni náttúrunnar: eld, vatn, og ljós, sem hann tók að vinna með snemma á ferlinum. Í sumum tilvikum dvelur hann lengi með niðurstöðurnar og umbreytir þeim í önnur efni: bræddur hraunmoli verður að skuggamynd, sem verður að teikningu, sem aftur er yfirfærð í nýtt efni og annan lit.
Þegar horft er yfir listferil Halldórs þá kemur í ljós að náttúran hefur frá byrjun verið nokkurskonar yfirsjálf listamannsins. Ekki náttúran sem viðfang – heldur umhverfið sem umlykur manninn. Reynslan og innsæið sem sú upplifun vekur er honum óþrjótandi viðfangsefni og tilefni til fjölbreyttrar úrvinnslu. Fyrstu verk hans voru veggmyndir unnar í anda nýja málverksins sem þá var ofarlega á baugi meðal ungra listamanna, en fyrst og fremst var það þörfin til að setja mark sitt á umhverfið með eigin táknmáli, og löngunin til að nota líkamann sem verkfæri, sem dró hann inn í hringiðu tilraunamennsku og görninga.
Vinnuaðferðirnar sem Halldór tileinkaði sér á námsárunum í Frakklandi eiga sér listsögulegar rætur í því umróti sem varð í evrópskum listheimi um og eftir 1960. Hann lenti í suðupotti listbyltingarinnar í Vincennes-háskólanum rétt fyrir utan París árin 1977 -1980. Halldór fékk inngöngu í tilraunadeild sem var líklega fyrsta listdeild innan háskóla í Evrópu, löngu áður en farið var að umbreyta listaskólum í listaháskóla, eða ræða um rannsóknarmyndlist. Þar kynntist hann nýjum viðhorfum til gjörningalista og notkun véltækni og nýmiðla til listsköpunar, auk þess sem nemendur fengu hugmyndir franska heimspekingsins Gaston Bachelards um ímyndunaraflið og skáldskapinn nánast beint í æð.
Úrvinnsla námstímans birtist fyrst í tilraunum Halldórs með táknmál, líkamsbeitingu, og sjálfsprottna skrift, á fyrstu einkasýningu hans í Gallerí Suðurgötu 7 árið 1981. Þar “málaði hann sig” inn í rýmið og þakti sýningarsalinn táknum sem síðan hafa þróast yfir í persónlegt stafróf og myndmál. Rúmlega áratug síðar tók Halldór aftur að sækja í þann hugmyndaforða sem beið hans frá skólaárunum í París. Franski listamaðurinn Yves Klein var mikilvæg fyrirmynd þeirra ungu listamanna sem byrjuðu að vinna með gjörninga sem listform um 1980. Þegar Halldór tók að þreifa sig áfram með tilraunir með eld og hraunbræðslu, þá sótti hann innblástur til hugmynda Yves Klein um táknmál litanna og dulmagn líkamstjáningarinnar sem átti rætur í launhelgum Rósakrossreglunnar.
Halldóri tókst að endurnýja samband sitt við gjörningalistina með því að hverfa inn í rannsóknarferli á hraungrýtinu. Hann lýsti mögnuðum áhrifum þess í blaðaviðtali árið 1995: “Fyrst og fremst er þetta efni sem kemur úr iðrum jarðar og það sem heillar mig er þessi hráleiki og kraftur sem býr í því.”¹ Hraunbræðsluna mætti túlka sem rannsóknaraðferð í ætt við þá sem gullgerðarmenn miðalda stunduðu í leit að viskusteininum. Halldór hafði áður sótt í táknmál elementana og túlkun sálgreinandans Carl Jungs á forngerðarhugsun miðalda, til að mynda í gjörningnum Metamorphose sem hann framkvæmdi í árið 1981. Kenningar Jungs um tilvist sammannlegrar dulvitundar sem nær aftur til uppruna menningarinnar virðist hafa haft mikil áhrif á Halldór, því hann efnisgerir hugmyndir Jungs um yfirfærslu á sálrænu ferli í hraunverkum sínum og nýtir umbreytingarferli ýmiskonar sem endalausa upprettu sköpunar. Rætur þessarar hugsunar er að finna í gullgerðarlistinni – dulmagnaðri efnafræði miðalda þar sem gullgerðarmennirnir líktu eftir sköpunarferli náttúrunnar og umbreyttu þekkingu sinni í óræð tákn.²
Halldór sýnir hér ljósmyndir, teikningar, innsetningar, texta, endurgerð eldri verka, og dregur fram ýmis gögn sem hann hefur safnað á ferli sínum. Upphafið leynist í persónulegum reynsluheimi hans, en niðurstaðan sem birtist hér á sýningunni, endurspeglar vegferð hans í gegnum mikilvægt tímabil listasögunnar með kenningar Bachelards og Jungs í farteskinu. Ljósmyndirnar eru sá hluti dagbókarinnar sem Halldór hefur sjaldan sýnt. Þær eru persónulegir minnismiðar frekar en verk, hlutverk þeirra er hvorki að sýna landið eða staðina, heldur eru þær hluti af skráningu listamannsins á ferðum hans um Ísland.
Fjöldi listamanna á 7. og 8. áratugn liðinnar aldar, svo sem þeir Richard Long og Hamish Fulton, sneru náttúru-upplifunum af göngu í myndverk og innsetningar sem þeir fóru með inn í sýningarstaðina, söfnin og galleríin. Þeir boðuðu einfaldleikann og hreinsun hugans á göngunni um landið. Í verkum þeirra umbreytist náttúran og sambandið við landið sem farið er um í sameiginleg andlegt verðmæti mannsins utan hins kapítalíska hagkerfis. Náttúruupplifanir Halldórs og úrvinnsla á þeim vísa í sömu gildi. Í huga hans er mikilvægt að geta gengið um land og notið þess án þess að eiga það.
En safnið eða sýningarsalurinn getur aldrei innihaldið náttúru, jafnvel þótt að hún sé sett þar inn. Hraunverk Halldórs minna á þessa staðreynd. Þau fjalla ekki á neinn beinan hátt um náttúruna og eru heldur ekki vísindaleg rannsókn hennar. Hér er náttúran skynjuð á mjög frumstæðan hátt, langt á undan þeirri rómatísku sýn sem oft hefur einkennt samband íslenskra listamanna við landið.
Eldur, loft , vatn, jörð, frumefnin, eða höfuðskepnurnar fjórar, voru álitnar rætur alls efnis. Í gullgerðarlistinni átti hver jurt sinn stað, hver litur sína merkingu, hvert frumefni sitt hlutverk. Eldurinn er tákn umbreytingar og sköpunar, vatnið tilfinninganna og skálskaparins. Halldór lítur svo á að undirstaða heimsins sé orka og í verkum hans birtist tilveran í allri sinni fjölbreyttu mynd sem endurkast þessa skapandi afls. Verkin hér á sýningunni eru áminning um brothætt samband manns og náttúru, þau eru vísbending um það hvernig listamaðurinn hefur reynt að ná tangarhaldi á náttúrinni til að umbreyta henni í útópíska heild þar sem engu verður sundrað. Í mynd- táknunum sést óskin um að sameina öll tungumál í eitt, eða “gá þar að orði sem kynni samt að ná yfir alla veröldina”³ sem var nafn á verki sem hann setti upp í Hafnarhúsinu haustið 2003. Þannig reynir Halldór að skapa heildstæða kosmógrafíu úr sundruðum heimi nútímamannsins. Verk hans þarf ekki að lesa, þau bera einfaldlega í sér ákveðið stefnumót við sjálfið.
1 Þórunn Helgadóttir, “Að vekja upp eldgosið”, Morgunblaðið, 28. maí 1995, B 15.
2 Ólafur Gíslason, “Efnafræði listarinnar”, Vikublaðið, 7. janúar 1994, 5.
3 Úr ljóði Sigfúsar Daðasonar. “Suður yfir Mundía- fjöll”, Hugleiða steina, Reykjavík: Forlagið 1997, 38.
Sýningarstjóri: Inga Jónsdóttir
Halldór Ásgeirsson (1956)
Halldór Ásgeirsson nam myndlist við Parísarháskóla 8 Vincennes – Saint Denis á árunum 1977-80 og 1983- 86. Á fyrstu einkasýningu hans í Gallerí Suðurgötu 7 í reykjavík árið 1981 vöktu athygli verk sem byggðust á höfuðskepnunum fjórum: eldi, vatni, lofti og jörð en þær hafa síðan fylgt listsköpun Halldórs. Við sama tækifæri sýndi Halldór í fyrsta sinn afrakstur tilrauna með eigið táknmál sem hann hefur haldið áfram að þróa.
Tímamót urðu á myndlistarferli Halldórs árið 1993 þegar hann lét eldinn komast í snertingu við hraun. Við það að logsjóða hraunstein við 1200 – 1400 gráðu hita bráðnar hann og ummyndast í svartan glerung, ekki ósvipaðan hrafntinnu. Snögg kólnunin í andrúmsloftinu veldur því að hraunið harðnar á miðri leið ef það er látið drjúpa og þannig skapar Halldór hárfína svarta þræði og glerunga sem líkjast lífrænum fyrirbærum sem verða uppspretta annarra verka eins og blekteikninga á pappír eða innsetninga. Hraun- glerungarnir leiddu Halldór út í tilraunir með vatn í glerílátum og vörpun þess á vegg með ljósi. Þessar aðferðir þróaði hann enn frekar í samvinnu við tónskáldið Snorra Sigfús Birgisson og síðar tónlistarhópinn CAPuT og náðu þær ákveðnu hámarki á Heimssýningunni í Japan árið 2005 þar sem sex íslensk nútímatónverk voru túlkuð í sameiningu.
Halldór hefur sýnt víða um heim, ýmist í listasöfnum, galleríum, listamiðstöðvum, tilraunakenndum listrýmum eða á útilistasýningum og í Shinto hofi í Japan bræddi hann eldfjöllin Heklu og Fuji saman í gjörningi. Halldór hefur unnið að eldfjallaverkum í löndum eins og Frakklandi, Ítalíu, Japan og Kína og framundan eru verkefni á eldfjallaeyjunum Jövu í Indónesíu og Sikiley á Ítalíu.