Verulegar

Brynhildur Þorgeirsdóttir

Guðrún Tryggvadóttir

23. september – 17. desember 2017

Heiðar Kári Rannversson sjálfstætt starfandi listfræðingur og sýningarstjóri

Á sýningunni Verulegar, Brynhildur Þorgeirsdóttir og Guðrún Tryggvadóttir í Listasafni Árnesinga er sjónum beint að viðamiklum listferli þeirra sem spannar nær fjóra áratugi. Hér eru saman komin verk sem unnin eru á síðustu árum en einnig verk frá upphafi ferils Guðrúnar og Brynhildar, sem héldu sínar fyrstu einkasýningar við upphaf níunda áratugarins. Sýningin gefur áhorfendum innsýn í þá þróun sem orðið hefur á verkum listakvennanna en sýnir um leið hvernig myndlist þeirra hefur einkennst af heilsteyptum myndheimi allt frá byrjun.

Sýningunni má skipta í tvo hluta sem tengjast innbyrðis. Í elstu verkum listakvennanna, sem finna má í sal fjögur, má greina tíðaranda níunda ára­ tugarins þar sem form og inntak birtir viðhorf sem er í andstöðu við hefðbundna myndlist þess tíma. Hugmyndafræðina sem einkennir verk Guðrúnar og Brynhildar frá þessu tímabili má tengja einkennis­ orðum pönksins um að „gera hlutina sjálf/ur“.

En ólíkt pönkinu, sem löngu hefur verið ofurselt tískunni, hafa Guðrún og Brynhildur ávallt verið samkvæmar sjálfum sér. Þetta skynja áhorfendur þegar þeir standa frammi fyrir nýrri verkum í tveimur stærstu sölum, í anddyrinu og framan við safnið en þar sést hvernig viðhorf Guðrúnar og Brynhildar til lífsins og listarinnar hafa gert þeim kleift að skapa afar persónulegt höfundarverk sem er ólíkt nokkuru öðru hér á landi.

Brynhildur og Guðrún hafa báðar persónuleg tengsl við Árnessýslu. Brynhildur er fædd og uppalin á Hrafnkelsstöðum í Hrunamannahreppi en Guðrún hefur ættartengsl í sýsluna og hefur um nokkurra ára skeið verið búsett í Ölfusi og Hveragerði. En það er fleira sem finna má sameiginlegt með listferli þeirra því listakonurnar stunduðu báðar nám við Mynd­lista­ og handíðaskólann á áttunda áratugnum og héldu síðan í langt framhaldsnám erlendis. Guðrún var nemandi við École Nationale Supérieure des Beaux­Arts í París og við Akademie der Bildenden Künste í München, þar sem hún lauk námi í málun og grafík árið 1983 með Debütanten­verðlaunum sem besti útskriftarneminn. Brynhildur var nemandi við Gerrit Rietveld­akademíuna í Amsterdam og seinna við Örrefors­glerlistaskólann í Svíþjóð. Þaðan lá leið hennar vestur um haf þar sem hún stundaði nám við California College of Arts and Crafts og við Pilchuck­glerlistaskólann í Washington, sem hún lauk árið 1982. Brynhildur dvaldi á Íslandi um nokkurra ára skeið eftir nám en flutti þá aftur til Bandaríkjanna og var búsett í New York til ársins 1990. Guðrún átti einnig viðdvöl á Íslandi að loknu námi og eftir eitt ár í Berlín lá leið hennar líka vestur um haf, til Cleveland í Bandaríkjunum, þar sem hún var búsett til ársins 1992. Eftir eins ár dvöl á Íslandi lá leiðin aftur til Þýskalands en Guðrún snéri aftur til Íslands um síðustu aldamót.

Óljós minning um attitjúd

Fyrsta skiptið sem áhorfendur sjá verk Guðrúnar og Brynhildar saman á sýningu er í upphafi ferils þeirra, á sýningunni Gullströndin andar sem haldin er í Jötunshúsinu við Hringbraut í Reykjavík snemma árs 1983. Sýningin fór fram í rými þar sem þær voru með vinnuaðstöðu með hópi listamanna, en Brynhildur hafði haft frumkvæði að því að taka húsnæðið á leigu árið áður. Guðrún bjó og var með vinnustofu þar einn vetur. Sýningin markaði tímamót enda voru þar kynntar helstu áherslur samtímamyndlistar í upphafi níunda áratugarins; á sýningunni voru formgerð og efnistök málverksins og skúlptúrsins tekin til rækilegrar endurskoðunar af nýrri kynslóð listamanna. Hér mætti segja að Guðrún og Bryn­hildur hafi borið upp á fjörur landsins nýjar stefnur í myndlistinni en þær höfðu á svipuðum tíma lokið löngu námi erlendis og sáu báðar um uppsetningu og skipulag sýningarinnar ásamt fleiri listamönnum. En það mætti líka segja að þær hefðu lagt upp í ferð frá Gullströndinni að nema ný lönd, því stuttu seinna fóru þær utaná ný og unnu að myndlist sinni það sem eftir var níunda áratugarins og fram á þann tíunda.

Fyrsta skiptið sem ég sé verk Guðrúnar og Brynhildar er löngu seinna og í sitthvoru lagi. Ég kynnist verkum listakvennanna í gegnum ljósmyndir í sýningarskrám, enda ekki orðinn eins árs þegar þær sýna fyrst saman. Gullströndin er framandi staður sveipaður goðsagnakenndum blæ. Tilhugsunin um myndirnar kveikir á óljósri minningu um „attitjúd“, viðhorfi sem situr eftir löngu eftir að verkin eru horfin úr augsýn.

Kona á steini

Verkið sem ég man eftir að hafa séð fyrst eftir Guðrúnu Tryggvadóttur er ekki málverk, sem hefur verið aðalmiðill listakonunnar um langan tíma, heldur ljósmynd. Upp í hugann kemur svarthvít portrett­mynd af konu á steini. Hún sýnir allsnakinn líkama innan um fjörugrjót, en búkurinn er snúinn og andlitið vísar frá myndavélinni. Frekar ætti að kalla myndina „pósu“, því hér er formgerð alls líkamans myndefnið. Ljósmyndin gæti allt eins verið rammi úr kvikmynd og ég man eftir að hafa ímyndað mér að á næsta augnabliki færi konan á hreyfingu; ýtti við steinum eða klifraði upp eftir grjótinu. Það er attitjúd í verkinu, en hér má skilja orðið sem stellingu eða stöðu listakonunnar á ljósmyndinni, líkamstjáninguna sem felst í sveigju líkamans. Expressjónískt dansspor. En það má líka skilja orðið attitjúd sem afstöðu gagnvart ljós­ myndinni sjálfri, sem gerir líkama listakonununnar að efni og viðfangi myndlistarinnar. Í verkinu fá áhorfendur að sjá listamanninn í nærmynd, í orðsins fyllstu merkingu, sem einmitt einkennir myndlist Guðrúnar eins og sjá má á fleiri verkum á sýn­ ingunni. Annað einkenni á myndlist listakonunnar kemur einnig fram í myndinni sem er næm tilfinning fyrir spennu og kompósísjón á myndfletinum.

Seinna kemst ég að því að ljósmyndin sem um ræðir er tekin við Hudson­ána í Inwood Hill­garðinum í New York þar sem Guðrún bjó sumarið 1982, en birtist í katalóg í tengslum við útskriftarsýningu hennar við Listakademíuna í München ári seinna. Myndin er hluti af stærra verki þar sem listakonan gerði Inwood Hill að sviði fyrir innsetningar og gjörninga, málaði meðal annars á fjörugrjót og dagblöð sem sum voru upplímd eins og málverk. Ljósmyndin er þannig sjálfstætt verk en einnig skrásetning á gjörningi og hverfulli innsetningu.

Í eldri hluta sýningarinnar má sjá brot af þessu marglaga verki Guðrúnar. Í verkunum, sem eru í eigu Listasafns Íslands, er dagblaðið notað sem efnisflötur málverksins en innihald þess verður um leið hluti af myndefninu. Hér má líka sjá tvö eldri ljósmyndaverk þar sem líkami listakonunnar er viðfangsefni. Í einu hefur listakonan verið stöðluð og henni skipt niður í ákveðna DIN­stærð (þ. Deutsche Industrie Normen), alþjóðlegan staðal sem meðal annars liggur til grundvallar pappírsstærðum. Hér fá fæðingarblettir á líkama Guðrúnar óskilgreint vægi en verkið er grandskoðun á listamanninum sjálfum um leið og það er kaldhæðin ádeila á þau kerfi sem setja okkur mörk. Í verkinu DESTRUCTION, sem er af fyrstu einkasýningu Guðrúnar á Íslandi, hefur listakonan skorið titil verksins á handlegg sinn og ljósmyndað, einn staf á hverjum degi. Á myndunum sést hvernig sárin sem birta orðið á líkama hennar gróa þegar líður á ferli verksins og afmá um leið merkingu orðsins „destruction“. Eyðileggingin er einnig andhverfa sín, sköpun, hér sem lífrænt ferli húðarinnar sem græðir sár sín.

Í nýrri verkum Guðrúnar á sýningunni má einnig greina hugmyndir um lífrænt ferli, hvort sem það er manneskjunnar eða náttúrunnar og möguleg tengsl þar á milli. Í stórum málverkaseríum listakonunnar frá síðustu árum má greina flóknar hugmyndir Guð­rúnar um það sem kalla mætti líftíma, en í seríunni Dalablóð er samband hennar við formæður sínar til að mynda viðfangsefnið. Hér skynja áhorfendur ekki aðeins feril tímans í myndefni og inntaki verkanna, heldur einnig í því hvernig málverkið er unnið á strigann. Í nýjustu málverkum listakonunnar verður þetta ljóst, enda eru þau nær abstrakt expressjónísk. Verkin, Fjórða víddin, Grunnur alls og Allt er eins eru gríðarstór og unnin af miklum krafti sem gerir það að verkum að líkamleg vinna listakonunnar við vinnslu verksins verður nánast áþreifanleg. Hér er hægt að rekja hreyfingu listakonunnar um rými strigans. Eins og sést í nýrri hluta sýningarinnar beitir Guðrún mismunandi tækni í hverju verki sem hún tekur sér fyrir hendur, þar sem hver ný hugmynd kallar á nýja aðferð að mati listakonunnar. Í heildina má samt sem áður greina samræmi milli óreiðu og jafnvægis, viðhorf til myndlistarinnar sem stöðugs ferlis upp á líf og dauða.

Par

Verkið sem ég man eftir að hafa fyrst séð eftir Brynhildi Þorgeirsdóttur er líka ljósmynd en hér er ekki um að ræða eiginlegt ljósmyndaverk eins og í tilviki Guðrúnar, heldur óhefðbundna skrásetningu myndlistar. Upp í hugann kemur svarthvít mynd af pari sem hallar sér upp að vegg í óskilgreindu rými. Parið er eins en þó ekki, annar líkaminn er af manni en hinn er í formi skúlptúrs. Það er eins og þeir hafi hallað sér að veggnum til að „pósa“ fyrir ljósmyndarann og höfundur man eftir að hafa hugsað að parið ætli síðan áfram út undirgöngin, upp á yfirborið og út á götuna. Á myndinni sést hvernig sveigjan í líkama mannsins leikur eftir formi skúlp­túrsins, eða er það skúlptúrinn sem mótaður er eftir stellingu mannsins? Það er óljóst hvort um er að ræða frum­ og eftirmynd en augljóslega eru tengsl milli parsins, skúlptúrinn væri hægt að kalla portrett. Það er attitjúd í verkinu, sem hér má skilja sem stellingu viðfangs­ins, spennuna á milli líkamstjáningar mannsins og forms skúlptúrsins. Pönkuð sviðsetning. En það má líka skilja orðið sem afstöðu gagnvart umhverfinu þar sem myndin er tekin, myndlist í beinu samhengi við rýmið, sem er eitt af einkennum listakonunnar sem lengi hefur unnið verk í opinberu rými. Annað einkenni á verkum Brynhildar kemur líka fram hér, ögrandi formgerð í nákvæmri rýmislegri útfærslu.

Heiti verksins á ljósmyndinni gefur til kynna að myndin sé af nánum vini Brynhildar, Axel (Axel Hallkeli Jóhannessyni), en það er unnið með blandaðri tækni; úr krossviði, svampi, sandi, lakki, gleri, sílikoni, hvalskíði og hrosshári. Ég sá myndina fyrst í katalóg vegna sýningar listakonunnar á Kjarvalsstöðum árið 1990. Hún er tekin rétt hjá Klambratúni, í undirgöngum undir Miklubraut árið 1983, sama ár og hún hélt sína fyrstu einkasýningu hér á landi. Því miður kemst ég að því að verkið er löngu glatað.

Í eldri hluta sýningarinnar má sjá verk sem Bryn­hildur vann á svipuðum tíma og Axel. Tveir skúlpt­úrar úr steinsteypu, gleri og stáli, nafnlaus verk frá fyrstu einkasýningu Brynhildar hér á landi og nú í eigu Nýlistasafnsins, eru af sömu ætt. Verkin má líta á sem par en hér er óljóst hvort um sé að ræða eftirmynd af einhverjum eða einhverri þrátt fyrir mannlega eiginleika skúlptúranna sem hafa fætur, búk og hár. Hins vegar má líta á önnur tvö verk frá svipuðum tíma sem frumyndir af karli og konu, hinu upprunalega pari ef litið er til kristinfræðinnar. Það verður þó að teljast ólíklegt að listakonan hafi leitað í Biblíuna þegar hún vann verkin Typpið og Píkuna. Hér birtast þessi tvö líffæri sem grófgerð lóðrétt og lárétt form, glettin portrett sem einnig fjalla um það að skapa, hvort sem átt er við listræna eða líffræði­ lega sköpun.

Í nýrri verkum Brynhildar á sýningunni má sjá hvernig listakonan hefur haldið áfram að fást við portrett og pör sem viðfangsefni. Hér sjá áhorfendur seríu af lágmyndum á vegg, óræðar myndir sem hafa engu að síður sterkt yfirbragð. Verkin má túlka sem vangaveltur um portrett­formið sjálft, enda einfaldlega titluð Portrett. Þau eru eins og fyrri verk Brynhildar ekki myndir af manneskju eða dýri heldur verur sem spretta upp úr ferli listakonunnar við efnislega og formræna vinnslu verksins. Hér má einnig sjá hvernig Brynhildur tekst á við rými safnsins á beinan hátt. Fyrsta verkið sem tekur á móti áhorfendum sýningarinnar er gríðarstórt fjall fyrir utan aðalinngang Listasafns Árnesinga, fjall sem fengið hefur heitið Árnesingur. Um leið og verkið vísar áhorfendum veginn að safninu og er í tengslum við opinbert rými Hveragerðis, hefur það tengsl við önnur og minni verk í formi fjalla í sjálfum sýningarsalnum. Í heildina er það ekki síst rýmið á milli hlutanna sem skiptir máli, afstaðu til myndlistarinnar sem stöðugs samtals við form og efni.

Staða – afstaða

Þegar áhorfendur standa andspænis verkum Bryn­hildar Þorgeirsdóttur og Guðrúnar Tryggvadóttur á sýningunni Verulegar í Listasafni Árnesinga verður þeim ljóst að listakonurnar hafa frá upphafi verið samkvæmar sjálfum sér í listinni. Eins og titill sýn­ ingarinnar gefur til kynna, og fjallað hefur verið um hér að framan, er ferill þeirra verulegur í mörgum skilningi. Þær eiga ekki aðeins mikið höfundar­ verk að baki heldur eru mörg verkanna veruleg að umfangi eins og glögglega má sjá á sýningunni. Verk listakvennanna eru auðþekkjanleg og persónu­leg. Þar má sjá verur á mörkum hins hins fígúratíva og abstrakta sem spretta úr einstökum myndheimi þeirra en hér birtist einnig vera listakonunnar sjálfrar. Á ferli sínum hafa Guðrún og Brynhildur hvorki staðið né setið eins og þeim hefur verið sagt að gera. Það er þetta attitjúd, að setja sig í stellingar og taka afstöðu, sem gerir myndlist þerra verulega áhugaverða.

Brynhildur Þorgeirsdóttir

Brynhildur stundaði nám við Myndlista­- og handíðaskóla Íslands 1974­-79, Gerrit Rietveld Academie í Amsterdam, Hollandi, 1979-­80, Orrefors Glass School, Svíþjóð, 1980, California College of Arts and Crafts, Oakland, Bandaríkjunum, 1980-­82 og við Pilchuck Glass School, Stanwood, Washington, Bandaríkjunum, 1992, 1998 og 1999.

Frá upphafi ferils síns hefur Brynhildur verið í framvarðarsveit íslenskra myndhöggvara og var einnig formaður Myndhöggvarafélagsins 1992­-95.

Aðalefniviður hennar er steinsteypa og gler, sem hún hefur notað á nýstárlegan hátt og verur, fjöll og landslag hafa verið henni hugleikin síðustu árin. Brynhildur hefur sýnt víða s.s. í Evrópu, Japan og Bandaríkjunum, hlotið ýmsar viðurkenningar og víða má finna verk hennar úti og inni á opinberum stöðum innanlands og utan.

www.brynhildur.com

Guðrún Tryggvadóttir

Guðrún nam myndlist í Akademie der Bild­enden Künste í München 1979­-83, École Nationale Supérieure des Beaux­Arts í París, 1978­-79 og Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1974-­78.

Hún hefur haldið fjölda sýninga, hér heima, í Evrópu og Bandaríkjun og hlotið fjölda viðurkenn­inga, bæði fyrir myndlist sína og fyrir störf sin á sviði nýsköpunar en hún hefur verið frumkvöðull á ýmsum sviðum; stofnaði og rekið myndlistarskóla og listræna hönnunarstofu sem hún rak í Þýskalandi og hér heima um árabil. Guðrún stofnaði einnig og rak umhverfisvefinn Náttúran.is um 10 ára skeið en hún hefur verið í framvarðasveit fyrir umhverfisfræðslu á Íslandi frá því að hún flutti aftur til landsins árið 2000.

Aðalefniviður í myndlist Guðrúnar í dag er olía á striga en málverk hennar byggja á hugmyndafræði­legum grunni, eru mjög persónuleg og snúast um það að myndgera tímann og efnið og tengsl kyn­slóða og alheimsins. Verk eftir Guðrúnu er að finna í opinberum söfnum bæði hérlendis og erlendis.

https://tryggvadottir.com