
Skjálfti
Finnbogi Pétursson
Sýningarstjóri: Paulina Brzuskiewicz-Kuhn
Salur 1
13. september – 23. desember 2025
Titringur djúpanna
Lífið, hvað er það annað en draumur
Lewis Carroll
Spegillinn, hlutur sem nú má finna á næstum hverju heimili, var áður fyrr talinn hlið inn í annan heim, sem geymdi óteljandi leyndarmál. Alls kyns hjátrú og helgisiðir tengdust honum. Einn slíkur siður, sem enn er við lýði í mörgum menningarheimum og trúarbrögðum, felst í því að hylja spegla við jarðarför eða á meðan syrgt er. Rétt eins og augum hins látna er lokað til að koma í veg fyrir að sál hans snúi aftur í líkamann, eru speglar huldir vegna þeirrar trúar að týnd sál kunni að festast í þessum tilbúna heimi eða dragast inn í ríki illra afla. Hjúpun spegilsins verndar einnig syrgjendur gegn því að sjá spegilmynd hins látna, sem talið er boða ógæfu eða jafnvel annan dauða. Evrópskir andatrúarmenn og afrískir seiðmenn litu á spegla sem gáttir að andaheimum. Hvað gæti gerst næst þegar við horfum djúpt og einbeitt í spegil?
Á sýningunni Skjálfti í Listasafni Árnesinga í Hveragerði býður listamaðurinn Finnbogi Pétursson okkur að skyggnast á bak við slæðuna, að líta inn í heim sem hann hefur skapað, náið ferðalag bæði inn í spegilinn og jafnframt inn í okkur sjálf. Í listsköpun sinni hefur Finnbogi lengi velt fyrir sér líkamleika náttúrulegra fyrirbæra og skapað innsetningar sem tala, í gegnum listformið, við okkur um undraveröld ljóss, hljóðs og orku, fyrirbæra sem gjarnan eru römmuð inn í vísindi raunhyggjunnar. Í Hveragerði notar hann áfram sín sérstöku tjáningarform, en nú virðast vísindalegar og listrænar hliðar verkanna aðeins mynda bakgrunn fyrir þá andlegu vídd sem þar birtist.
Sýningin samanstendur af tveimur innsetningum sem má lesa (eða öllu heldur upplifa) sjálfstætt, en sem eru nátengdar í þessu samhengi. Sú fyrri byggist á áðurnefndum spegli, en listamaðurinn hefur mótað sérstakt efnislegt umhverfi í kringum hann, eins konar tilraunakennda samsetningu af rafsegulbylgjum, fínstilltan orkutitring sem við verðum sjaldnast vör við, en gerir okkur þó kleift að sjá heiminn í kringum okkur. Hljóð og ljós spila saman en til þess að þessi „melódía“ geti orðið til, er nærvera okkar nauðsynleg – sérstaklega linsur augna okkar og spegilflöturinn sjálfur.
Seinni innsetningin snýst um rautt duftker, sem líklegt er að innihaldi leifar látins manns. Hún tengist ekki aðeins táknrænt, heldur líka bókstaflega, grafreit sem er staðsettur mörg hundruð kílómetra frá Hveragerði, í Svarfaðardal nálægt Dalvík. Finnbogi hefur tengt þessa tvo staði með því að setja upp jarðskjálftamæli sem nemur minnsta titring undir legsteininum í Svarfaðardal, mælingar sem varpað er upp í sýningarrýminu í Hveragerði. Þrátt fyrir að legsteinninn og duftkerið með öskunni séu til minningar um hinn látna og vitni um dauða hans og för inn í eilífa kyrrð og tóm, eru báðir þessir manngerðu hlutir á vissan hátt fullir af lífi – náttúran og púlsandi efni hennar slá áfram sinn takt, sem nú birtist okkur í mynd. Jarðskjálftamælirinn verður þannig tæki í höndum listamannsins, hylling lífsins.
Boðskapur verksins, þar sem listamaðurinn notar jarðskjálftaorku til að stefna lífgefandi takti jarðarinnar á móti ösku látins einstaklings, sem fæddist úr mold og sneri aftur til hennar, er algildur, en í þessu tilviki bætast við verkið persónuleg og staðbundin merkingarlög. Í fyrsta lagi skiptir það máli hver hinn látni er. Askan sem duftkerið kann að innihalda er ekki valin af tilviljun. Þetta eru líkamsleifar hins virta jarðskjálftafræðings Ragnars Stefánssonar, sem leiddi þróun jarðvísindarannsókna og viðvörunarkerfa vegna jarðskjálfta og eldgosa. Sýningarrýmið sjálft, þar sem lesa má mælingar jarðskjálftabylgja úr mörg hundruð kílómetra fjarlægð, er einnig sérstaklega viðeigandi. Í Hveragerði finnur maður líkamlega nærveru frumkrafta náttúrunnar í gegnum mikla jarðhita- og skjálftavirkni. Þar að auki hefur þessi staður sérstaka þýðingu fyrir Finnboga, tenging hans við Hveragerði nær aftur til bernsku hans, þegar hann kom þar við ásamt foreldrum sínum á ferðalagi austur á land. Jafnvel þá vakti jarðhiti svæðisins, goshverir og sögur af slysahættu hugmyndaflug barnsins til lífs. Þessi áhugi hans á svæðinu hefur haldist fram á fullorðinsár.
Þegar Finnbogi fékk boð um að setja upp einkasýningu í Listasafni Árnesinga hafði hann hugsað sér að vinna að henni með tengdaföður sínum, Ragnari. Ætlunin var að skapa verk þar sem hann nýtti skjálftamælitæki – m.a. tæki sem Ragnar sjálfur hafði þróað – og að sækja innblástur í jarðfræðilega virkni svæðisins. Því miður lést Ragnar í júlí í fyrra. Sýninguna í Hveragerði má því einnig túlka sem virðingarvott til hans og ástar hans á Íslandi og jarðfræðilegri sérstöðu landsins.
Innsetningarnar tvær tengjast á marga vegu. Þær eru samofnar gegnum notkun á bylgjum – ósýnilegum bylgjum ljóss, hljóðs og orku, þar á meðal skjálftatitrings, sem fylla sýningarrýmið. Finnbogi nýtir eiginleika þeirra til að skapa nýja sjón- og hljóðupplifun, og leiða þannig áhorfendur inn í heim sem við sjáum vanalega ekki, heim utan víddar skynfæranna. Samhliða ljær listamaðurinn báðum verkunum sterka dauðafræðilega vídd: Í duftkersinnsetningunni vísar hann beint til dauðans, en spegilinn opnar á hugleiðingu um hverfulleika – í gegnum gagnverkandi áhrif ljóss og hljóðs á spegilfletinum verður myndin sem við sjáum afar dauf, rétt yfir núllpunkti geislunar, nálægt þeim punkti þar sem lífið hverfur – dauðinn tekur við.
Þannig fellur verk Finnboga inn í sögu listarinnar þar sem speglar eru nýttir – bæði sjónrænt og táknrænt – til að varpa ljósi á hugmyndir um sjálfsmynd, skynjun og hverfulan veruleika. Sú hefð nær þúsundir ára aftur í tímann – til dæmis trúðu Forn-Egyptar því að speglar endurspegluðu kjarna tilverunnar, líkt og sólarhringinn, uppsprettu ljóss og lífs. Speglar og spegilmyndir gegna einnig veigamiklu hlutverki í list samtímans; hjá listamönnum á borð við Bruce Nauman, Michelangelo Pistoletto, Yayoi Kusama, Rebeccu Horn og Cindy Sherman, svo aðeins sé minnst á nokkrar af stærstu stjörnum listheimsins. En notkun spegilsins í verki Finnboga sker sig úr þar sem hér er litið inn á við, með andlegri og persónulegri áherslu. Þetta minnir á meistaraverk gömlu meistaranna sem notuðu spegla til að afhjúpa mikilvægan sannleika. Nefna má málverk Lukasar Furtenagel frá 1529, þar sem hjónin Hans Burgkmair og Anna virðast horfa beint á áhorfandann, en í speglinum birtast ekki andlit þeirra – heldur hauskúpur. Verkið tekur á sig vanitas-form og minnir okkur á dauðleikann sem aldrei er fjarri.
Til að enda ekki á slíkum þunglyndislegum nótum er vert að rifja upp orð Lewis Carroll, ensks rithöfundar, stærðfræðings og ljósmyndara á nítjándu öld, sem var heillaður af speglum. Í sögunni Í gegnum spegilinn lýsti hann því sem beðið getur handan við spegilyfirborðið. Þar leynist heimur drauma og ímyndunar. Við bjóðum þér að stíga inn í hann.
Paulina Brzuskiewicz-Kuhn
Finnbogi Pétursson (fæddur 1959) stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og síðar við Jan Van Eyck Akademíuna í Hollandi. Fyrsta sýning hans var haldin árið 1980 í Galleríi Suðurgötu 7, sem var rekið af listafólki og varð miðstöð framúrstefnulistar á Íslandi. Síðan hefur hann tekið þátt í yfir 140 samsýningum og einkasýningum um allan heim, þar á meðal á Feneyjatvíæringnum árið 2001 þar sem hann var fulltrúi Íslands. Frá upphafi hefur hann sameinað hljóð og myndræna tjáningu í innsetningum sínum, og hann hefur fært list sína yfir á svið tónlistar og gjörningalistar. Finnbogi nýtir tækni á frumlegan hátt í verkum sínum, meðal annars með því að umbreyta hljóðbylgjum í ljós sem varpað er á bylgjandi vatnsflöt, og með því að skapa hreyfiskúlptúra sem framleiða hljóð. Verk hans má finna í mörgum einka- og opinberum söfnum, þar á meðal: Malmö-listasafninu í Svíþjóð, TBA21-Thyssen-Bornemisza Art Contemporary Augarten í Austurríki, safni Michaels Krichman og Carmen Cuenca í Bandaríkjunum, og í Listasafni Íslands.
Listasafn Árnesinga þakkar SASS Uppbyggingarsjóði Suðurlands fyrir stuðninginn.