
Finnbogi Pétursson
Sýningarstjóri: Paulina Kuhn
Salur 1
13. september – 21 desember 2025
Sýning Finnboga Péturssonar í Listasafni Árnesinga í Hveragerði verður einstök af nokkrum ástæðum. Þessi vel þekkti og virti listamaður hefur enn ekki haldið einkasýningu hér áður. Bærinn og nágrenni hans eru honum þó sérstaklega hjartfólgin. Tengsl hans við staðinn eiga rætur að rekja til bernskunnar, en að sögn Finnboga var Hveragerði áningarstaður á ferðalagi með foreldrum hans austur á land. Jafnvel þá örvaðist ímyndunarafl hans sérstaklega af nágrenni bæjarins þar sem goshverir, bullandi keldur og sögur af óhöppum tengdum náttúruöflunum á svæðinu vöktu forvitni hans. Þessi hrifning hélst áfram á fullorðinsár hans. Einstök orka svæðisins, jarðhita- og jarðskjálftavirkni, og lifandi nærvera frumafla náttúrunnar voru oft umfjöllunarefni í samtölum hans við Ragnar Stefánsson, hinn þekkta jarðskjálftafræðing, sem var einnig tengdafaðir hans. Ragnar gegndi lykilhlutverki í þróun viðvörunarkerfa vegna jarðskjálfta og eldgosa. Finnbogi ætlaði að vinna með Ragnari að verki fyrir sýninguna í Hveragerði, byggðu á skjálftamælingum og tækjabúnaði sem Ragnar hafði þróað. Því miður lést Ragnar í júlí í fyrra. Sýningin í Hveragerði og verkið sem Finnbogi hefur sérstaklega unnið fyrir hana er því jafnframt virðingarvottur við Ragnar og hans einstöku ást á Íslandi og jarðfræðilegri sérstöðu landsins.
Finnbogi Pétursson (fæddur 1959) stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og síðar við Jan Van Eyck Akademíuna í Hollandi. Fyrsta sýning hans var haldin árið 1980 í Galleríi Suðurgötu 7, sem var rekið af listafólki og varð miðstöð framúrstefnulistar á Íslandi. Síðan hefur hann tekið þátt í yfir 140 samsýningum og einkasýningum um allan heim, þar á meðal á Feneyjatvíæringnum árið 2001 þar sem hann var fulltrúi Íslands. Frá upphafi hefur hann sameinað hljóð og myndræna tjáningu í innsetningum sínum, og hann hefur fært list sína yfir á svið tónlistar og gjörningalistar. Finnbogi nýtir tækni á frumlegan hátt í verkum sínum, meðal annars með því að umbreyta hljóðbylgjum í ljós sem varpað er á bylgjandi vatnsflöt, og með því að skapa hreyfiskúlptúra sem framleiða hljóð. Verk hans má finna í mörgum einka- og opinberum söfnum, þar á meðal: Malmö-listasafninu í Svíþjóð, TBA21-Thyssen-Bornemisza Art Contemporary Augarten í Austurríki, safni Michaels Krichman og Carmen Cuenca í Bandaríkjunum, og í Listasafni Íslands.