Skjálfti 2025

Finnbogi Pétursson

Sýningarstjóri: Paulina Kuhn

Salur 1

13. september – 21 desember 2025

Sýning Finnboga Péturssonar í Listasafni Árnesinga í Hveragerði verður einstök af nokkrum ástæðum. Finnbogi hefur enn ekki haldið einkasýningu hér í safninu áður. Bærinn og nágrenni hans eru honum þó sérstaklega hjartfólgin. Tengsl hans við staðinn eiga rætur að rekja til bernskunnar, en að sögn Finnboga var Hveragerði áningarstaður á ferðalagi með foreldrum hans austur á land. Jafnvel þá örvaðist ímyndunarafl hans sérstaklega af nágrenni bæjarins þar sem goshverir, bullandi keldur og sögur af óhöppum tengdum náttúruöflunum á svæðinu vöktu forvitni hans. Þessi hrifning hélst áfram á fullorðinsár hans. Einstök orka svæðisins, jarðhita- og jarðskjálftavirkni, og lifandi nærvera frumafla náttúrunnar voru oft umfjöllunarefni í samtölum hans við Ragnar Stefánsson, hinn þekkta jarðskjálftafræðing, sem var einnig tengdafaðir hans. Ragnar gegndi lykilhlutverki í þróun viðvörunarkerfa vegna jarðskjálfta og eldgosa. Finnbogi ætlaði að vinna með Ragnari að verki fyrir sýninguna í Hveragerði, byggðu á skjálftamælingum og tækjabúnaði sem Ragnar hafði þróað. Því miður lést Ragnar í júlí í fyrra. Sýningin í Hveragerði og verkið sem Finnbogi hefur sérstaklega unnið fyrir hana er því jafnframt virðingarvottur við Ragnar og hans einstöku ást á Íslandi og jarðfræðilegri sérstöðu landsins.

Finnbogi Pétursson (fæddur 1959) stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og síðar við Jan Van Eyck Akademíuna í Hollandi. Fyrsta sýning hans var haldin árið 1980 í Galleríi Suðurgötu 7, sem var rekið af listafólki og varð miðstöð framúrstefnulistar á Íslandi. Síðan hefur hann tekið þátt í yfir 140 samsýningum og einkasýningum um allan heim, þar á meðal á Feneyjatvíæringnum árið 2001 þar sem hann var fulltrúi Íslands. Frá upphafi hefur hann sameinað hljóð og myndræna tjáningu í innsetningum sínum, og hann hefur fært list sína yfir á svið tónlistar og gjörningalistar. Finnbogi nýtir tækni á frumlegan hátt í verkum sínum, meðal annars með því að umbreyta hljóðbylgjum í ljós sem varpað er á bylgjandi vatnsflöt, og með því að skapa hreyfiskúlptúra sem framleiða hljóð. Verk hans má finna í mörgum einka- og opinberum söfnum, þar á meðal: Malmö-listasafninu í Svíþjóð, TBA21-Thyssen-Bornemisza Art Contemporary Augarten í Austurríki, safni Michaels Krichman og Carmen Cuenca í Bandaríkjunum, og í Listasafni Íslands.