
Umritanir; Innsæi – Útsýni
Guðrún Kristjánsdóttir
Sýningarstjórar: Oddný Eir Ævarsdóttir & Sigrún Kristjánsdóttir
Salur 3
13. september – 23 desember 2025
Sýning Guðrúnar Kristjánsdóttur Umritanir; innsæi – útsýni (Transcriptions; intuition – view) í Listasafni Árnesinga er innsetning þar sem gerð er tilraun til að nálgast skynsvið að baki höfundarverki. Innsetningin byggir á nýjum verkum í samræðu við eldri verk.
Grunntilfinning, tungl
Hér líður tíminn hægar og maður nær meiri nánd við náttúruna…og raunar við allt … hér er fjögurra eða jafnvel fimm metra munur á flóði og fjöru, tvisvar á dag! Þetta eru magnaðir kraftar og hafa örugglega meiri áhrif en mann grunar. Ég er eiginlega að sjá tunglið alveg í nýju ljósi hérna.
Getur verið að það sé einhver djúpstæð grunntilfinning í manni sem litar allt æviverkið þótt maður haldi að haldi að þetta séu ólíkar áskoranir? Hvaða tilfinningalegu eða eins og skynlegu ráðgátur eru það sem maður er alltaf að kljást við?
Surtarbrandur, sól
Hér, á nýjum stað kom surtarbrandurinn til mín með allan sinn tíma, kolaðar jurtir gegnum samþjöppuð jarðlögin. Það er heillandi að handfjatla margra milljón ára gamalt efni og finna hvernig maður tengist því. Ég teikna með honum og er líka að gera tilraunir með að mylja niður surtarbrand og steina sem ég finn hér í kring, búa til liti, vinna verkin mín með þessum gamla tíma, arfleifð náttúrulegs ferlis niðurbrots og nýjabrums.
Sól hefur aldrei verið mitt viðfangsefni en eftir að ég fór að fylgjast með henni snerta línurnar hérna við sjóinn þá er hún búin að stimpla sig inn í myndina.
Mér hefur alltaf þótt tíminn rétt fyrir rökkur umhugsunarverður, tíminn þegar dagurinn er við það að deyja út.
Hringferli, línur
Árstíðirnar renna oft saman í verkum hennar. Eins og miðl¬arnir. Það er eins og hún geri sér far um að rugla mann í rýminu, spyrja sig spurninga. Veita eftirtekt því sem maður tók sem gefið eða tók ekki eftir. Mamma benti okkur á að taka eftir hringferlunum í náttúrunni. Taka eftir breytingunum, hröðum eða ofurhægum. Lesa landið, nema það. Taka eftir muninum, þessum á stundum smávægilega mun sem munar samt öllu. Fylgja hreyfingunni, sjá skilin, sjá línuna. Leyfa land¬inu smám saman að verða að útgangspunkti hugsunar og tilfinninga, leyfa því að verða að svæði innra með okkur.
Villuletur, samhljómur
Hildegaard von Bingen miðaldanunna sem mamma ræddi við í verkinu Sam¬hljómur, heyrði sýnir við rannsókn sína á guðdómnum, og þær sýnir var svo erfitt að umrita að hún varð að þróa sitt eigið tungumál, Lingua ignota eða tungumál óvissunnar. Mamma trúir ekki á sýnir sínar eins og á guð en hún á orðið gott safn af einskonar villuletri í snjóskjalasöfnum sínum. Smám saman verður til stafróf, skynróf, táknróf, myndróf, snjóróf, veðraróf. Það er okkur eins og blindraletur, tilviljana¬kenndar veðramenjar, merkingarlausar hýeróglífur. En kannski við finnum dulmálslykilinn einn góðan veðurdag … Hlutföll sem hýsa sann¬leika. Svo dýnamísk að þau sprengja af sér sjálfsblekkingu.
Gullinsnið, áframhald
Gullinsniðið er afstaða: ósk eftir áframhaldandi tengingu. Tilraunirnar snerust ekki um fullkomnun heldur áframhald. Ég sá starf listakonunnar í öðru ljósi. Það var ekki bara ógnvekjandi. Það gaf lífinu og fjölskyldulífinu tilgang. Ég sá að hún var ekki kvalin af þráhyggju inni á vinnustofu, þótt hún væri skuggalega einbeitt. Hún snerist eins og súfískur dansari í eyðimörkinni. Tengdi formin og þau hringsnerust í takt við duttlunga náttúrunnar, frelsuðu sjálf sig og teiknuðust upp.
Skynsvið, snjóalög
Fylgjast með snjóalögum, umhleypingum, tungli, stjörnum, sól. Taka áhrifin inn, láta þau malla í undirmeðvitundinni … safna í sarpinn áður en hafist er handa. Ég finn til vanmáttar en langar þó til að ná fram í verkunum tilfinningu fyrir einhverju sem er í senn stórbrotið og viðkvæmt. Og þessi samsvörun við manns innri mann, hvernig maður skynjar landið, hvernig landið breytist eftir veðrabrigðunum rétt eins og maður sjálfur.
Hvaða skynsvið er maður að reyna að teikna upp? Hvernig vinnur maður úr þessari flækju af ytri aðstæðum og innra lífi? Hvernig mótast þá eða þróast skynsvið manns í þessum flóknu tengslum, skýrist og einfaldast?
Maður þarf að rifja upp upprunalegu hrifninguna ef eitthvað kemur upp á í nánum tengslum og reyna að komast í snertingu við hana. Í stað þess að einblína á gallann að blása lífi í grunnþrána.
Jaðarástand, leikgleði
Mér fannst það eins og að ganga inn í aðra vídd að koma inná vinnustofu til mömmu. Maður smit¬aðist af ofureinbeitingu og áhuga, líka af leikgleði, tilraunagleði. Í eðlis-¬ og mann¬fræði er talað um jaðarástand (liminality) sem ríkir á tilteknum tíma í ferli umbreyt¬inga, þegar allt er enn óorðið, ófullkomið og mögulegt. Í slíku millibilsástandi ríkir oftast óvissa. Sálgreiningarfræðingarnir Jung og Kristeva hafa hvort á sinn hátt sagt að jafn óhollt væri að upplifa aldrei slíka óvissu einsog að dvelja of lengi í henni. Ég hugsa að listamenn eigi það sameiginlegt að mynda þol gagnvart óvissunni til að geta dvalið sem lengst í jaðarástandinu.
Umritanir, annarleiki
Þegar ég opnaði skúffu með skiss¬unum hennar og sá í tölvunni allar möppurnar með umrit¬unum, þá varð mér hugsað til skrifara miðalda sem störfuðu við að skrifa upp handrit, því sama rit var oft til í mörgum ólíkum uppskriftum. Hugurinn hvarflaði líka til skýrslukenndra veðurdagbóka sem þróuðust smám saman út í persónu¬legar dagbækur. Eins var mér hugsað til þýðenda sem reyna að flytja merkingu móðurmáls yfir á aðrar tungur. Þýðingin leysir úr læðingi nýja merkingu sem er falin á milli línanna. Bætir einu lagi við textann, ósýnilegu, gegnsæju. Umritanir eiga sér stað á mörgum sviðum og kannski eiga tónlistarumrit¬anir mest sameiginlegt með snjóformatil¬raunum mömmu, þegar verk er umritað fyrir annað hljóðfæri, annars konar flutning. Mamma er ekki aðeins að umrita birtingarmyndir náttúrunnar og umhleypinganna. Hún gerir þær smám saman að sínum táknmyndum með því að umrita þær frá einum miðli til annars, frá ljósmynd til málverks, frá málverki til teikningar, frá vídeó¬mynd til málverks, frá teikningu til innsetningar og þannig áfram. Tónskáld, eins og til dæmis Béla Bartók, ferðaðist um sveitir lands og afritaði tónsmíðar og stef sem höfðu aðeins varðveist í munnlegri geymd hummandi mæðra. Hann umritaði og hélt síðan áfram að umrita. Umritanir, eins og þýðingar, kalla á útstjónarsemi og ímyndunarafl jafnvel þótt eða einmitt þegar afritarinn, umritarinn, þýðandinn ætlar að nálgast upprunalegt verk í sinni sönnustu mynd. Og í myndlistinni er farið á milli miðla, hring eftir hring, umritunin er langt í frá upprunaleg, hún er löngu komin út í annarleikann í sannleiksleit sinni.
Innsæi, útsýni
Á ferðalagi um hálendið, ég man ekki á hvaða stórgrýtta hálendisvegi, bað mamma um að fá að fara út úr bílnum til að horfa á fjallshlíð í gegnum þokuna nógu lengi til að sjá eitthvað. Við systkinin mölduðum í móinn, fannst við sjá fjöllin nógu vel út um bílrúðuna. Jú, það er líka gaman, sagði hún en bað okkur um að koma með sér og sjá muninn. Við stóðum og störðum á snjóleifar í svörtum sandi, ólík brot eftir hreyfingu þokunnar. Hvaða saga er þetta? Á hvaða máli? Ég veit það ekki, svaraði hún, sagði okkur að lesa með innri augunum. Það tæki smá tíma að opnast fyrir innsæið. Það tók okkur nokkur ár að finna þessi inn¬augu, ef við höfum þá fundið þau. En við fundum fyrir opnuninni.
Umritanir, innsæi
Með ólíkum aðferðum og miðlum umrita ég form úr náttúrunni eða áhrif þeirra á mig. Er ég þá að umrita útsýnið sem innsæið opnar eða innsæið með útsýninu?
Textarnir eru að mestu úr bókverkinu Bláleiðir sem unnið var á grundvelli ævistarfs Guðrúnar og í samræðu móður og dóttur sem varð kveikjan að endurskoðun á ferli listakonunnar. Í samvinnu við dóttur sína Oddnýju Eir, ritstjóra bókverksins og Sigrúnu Kristjánsdóttur heldur Guðrún hér áfram að skoða hvernig listræn grunnkennd tengir verkin gegnum umritanir í ólíka miðla, gegnum flækju af aðstæðum, í samspili innsæis og útsýnis.
Oddný Eir Ævarsdóttir