Lífrænar hringrásir

Salur 3 anddyri, í Hveragarðinum, við Varmá og í Hveragerði.

14. september – 22. desember 2024

Anna Líndal (IS), Elísabet Jökulsdóttir & Matthías Rúnar Sigurðsson, (IS), Freyja Þórsdóttir (IS), Heather Barnett (UK), Herwig Turk (AT), Ilana Halperin (UK), Jennifer Helia DeFelice (US/CZ), Magnea Magnúsdóttir (IS), Patrick Bergeron (CA), Pétur Thomsen (IS), Skade Henriksen (NO), Þorgerður Ólafsdóttir (IS)

Á sýningunni Lífrænar hringrásir kemur saman alþjóðlegt listafólk sem birtir áþreifanlega hrifningu sína á náttúrunni í verkum sem tengja saman listir og vísindi. Hér má sjá verk sem endurspegla djúpstæðan og flókinn skilning á náttúrunni, byggð á rannsóknum og fenginni víðtækri reynslu. Þessi þverfaglegu samvinnuverkefni og leiðangrar ýta undir og styðja við raunverulega breytingu á því hvaða augum við lítum landslagið sem við búum í eða höfum umráð yfir.

Oft á tíðum felst kveikjan að því að þoka vísindum og listum áfram í undrunarblandinni hrifningu fólks á því sem finna má í næsta nágrenni þess. Í síbreytilegu rýminu á milli lista og vísinda finnast einstök tækifæri fyrir óhefðbundna og framsækna hugsun. Slík samvinna hvetur til nýstárlegra og óvæntra tenginga og býður upp á nýja möguleika í samböndum vitrænna vera, móttækilegra lífvera, líflauss náttúruumhverfisins og náttúrufyrirbæra. Listræn túlkun hjálpar okkur að skynja og upplifa umheim nútímans og málefni hans í rauntíma, í gegnum linsu sem nær út yfir hið vitræna og hið staðreynda.

Áherslan á þá alltumlykjandi umhverfiskreppu sem nú blasir við gegnsýrir daglegt líf okkar. Stöðugur flaumur mynda og tölulegra staðreynda varpar löngum skugga yfir daglegar, vistfræðilegar venjur okkar og yfir vinnu þeirra sem vinna kerfisbundið að því að ráða í gagnkvæm tengsl lifandi og dauðra hluta, og sem búa yfir dýpri skilningi á algrími náttúrunnar, hringrásum hennar og sjálfslagfæringarferlum hennar og manngerðum endurbótum.

Lífrænar hringrásir kannar hvernig hugsun okkar hefur færst í átt að gagnvirkni – endurnýjuðu bandalagi við náttúruna. Sýningin veitir rými til að velta fyrir okkur hvert samskipti okkar við umhverfið hafa leitt okkur. Listafólkið sem á verk á sýningunni leitar að nýjum samvinnuleiðum og gagnkvæmni með því að skoða hvar við höfum verið og hvaða leiðir séu færar fram á við.

Sýningarstjórar: Kristín Scheving og Jennifer Helia DeFelice, aðstoðarsýningarstjóri: Freyja Þórsdóttir.

—————————————————————————————————————————————————————————————————————–

Ef horft er úr nógu mikilli fjarlægð — sjónarhornið er nægilega vítt — afmást mörk milli lífs og dauða. Í samhengi náttúrunnar er tær dauði tálsýn. Það sem er deyjandi iðar líka af lífi.

Ímyndaðu þér að þú sért ógnarstórt auga sem vomir yfir sköpunarverkinu. Þú meðtekur ekki aðeins augljósari birtingarmyndir lífsins heldur nemurðu það í margbreytileika sínum eins og í gegnum smásjá. Sýn þín takmarkast ekki við mannleg skynfæri og hugsanagang. Þú skynjar víðar og dýpra. Þú sérð handan þess litrófs sem er mannsauganu skynjanlegt og hugurinn hefur losnað úr viðjum mótandi tungumáls. Tilhneigingin til að stilla sumu hærra öðru býr ekki í þér — í skæru ljósinu brotnar stigveldið niður. Rós er ekki fegurri en arfi. Hvert skordýr er álíka stórt og þú og margbrotið mynstur í næfurþunnum vængjum jafn áberandi og fæðingarblettur á húð. Þú sérð að örvera skiptir jafn miklu máli og hver önnur vera. Að stærri lífverur eru gerðar úr minni verum og það stórgerðasta er háð því smágerðasta.

Því dýpra sem þú rýnir því óljósari verða útlínur stakra forma. Þegar þú fylgist með lífsorkunni flæða um formin, leysast upp skil milli einstaklinga. Vefurinn bylgjast í samhljómi og andar sem ein vera í óslitinni umbreytingu. Máttur umbreytingarinnar er að verki hvert sem þú lítur. Venjulegur smásteinn á sér flókna sögu. Fyrir óralöngum tíma hafði hann annars konar áferð og lit og tilheyrði gríðarstóru fjalli. Allt er tengt saman, bæði í tíma og rúmi — og jafnvægið helst aðeins ef hver eining hefur frelsi til að vera það sem hún er.

Þegar nýfallið dýr liggur hreyfingarlaust undir berum himni og ekkert nema náttúruöflin hreyfa skinn þess og feld, virðist það tómt af lífsorku. Lífsform sem hefur dregið síðasta andardráttinn, kólnað og stirðnað, kann að virka jafn líflaust og dúkka sem brosir frosnu brosi — en í reynd iðar það af lífi. Nú, þegar þú, laus úr takmörkuðu sjónarhorni einstaklings, grúfir yfir og sérð í gegnum allar útlínurnar og lögin, er þetta ljóst. Þú fylgist með formi dýrsins brotna niður fyrir tilstilli agnarsmárra örvera. Þær draga í sig lífsorku um leið og þær umbreyta efni í orku. Ef þær splundruðu ekki forminu, myndaðist tregða í vefnum. Uppsöfnun efnis stíflaði flæði hringrásarinnar.

Lífið viðhelst aðeins með því að viðhaldast ekki. Í samhengi lífsvefsins felst dauðinn ekki í rotnun lífsforms heldur í stöðvun orkuflæðis því lífið sem heild treystir á frjálst sköpunarflæði til að þrífast. Dauðinn er bæði afdráttarlaus endalok og fóstrandi leg sem býður velkomið nýtt líf. Hann er endapunktur í einstaklingssögu en ekki í sögu lífríkisins. Hann er opin gátt og opinn vegur sem lífsorkan flæðir um.

Þegar tökum er ekki sleppt af því liðna, þegar það fær ekki að renna sitt skeið, getur það tekið frá því sem er hér nú.

Slokknuðu sólarljósi steinrunnina lífvera er dælt upp úr iðrum jarðar og notað sem eldsneyti. Með því eru smurð hjól vélvirkis sem hraðar náttúrulegum takti og veldur truflunum í hjarta lífsvefsins. En náttúran tengist fortíðinni ævinlega á lífvænlegan hátt. Hún lætur ekki það sem var stela súrefni frá því sem er. Þráhyggjufullt endurlit, yfirdrifin nostalgía, er ekki hluti af hennar hugsun. Hún umbreytir alltaf og býr til pláss fyrir eitthvað nýtt.

Við missum tengsl við eigin visku þegar því sem er hér er ekki mætt. Þegar rótgróinni heimssýn er viðhaldið jafnvel þótt hún liggi eins og hula yfir mikilvægum sannleika og deyfi ljós hans. Jafnvel þótt ónotakennd hríslist um innsæið þegar við hreyfumst eftir sefjandi takti hennar. Eins og húsfluga sem þenur út vængina innan lampaskerms missum við sjónar á víðáttu hins náttúrulega heims. Umlukin manngerðum tjöldum, höldum við að peran sé sól. Við snúumst og snúumst en snúumst um eitthvað annað en lífgjafann.

Að vera í hringrás er að vera í náttúrulegum tíma, hreyfast í stillingu og skynja með líkamanum. Það er að mæta því sem augnablikið geymir á meðan það er hér og virkja sköpunarmáttinn í þágu lífsins. Vera dýr sem vefur án þess að festast í eigin spuna — kónguló sem spinnur sér heimili milli trjágreina. Vera fókuseruð planta ófær um að týnast í dagdraumum. Halda tengingu við uppsprettuna og umbreyta sólarorku í næringu.

Gáttin sem leiðir inn í augnablikið er smágerð. Þetta vita allar lífverur sem ofhugsa ekki og ofneyta ekki heldur gleyma sér í ótruflaðri veru — tegundir sem hafa engan menningarlegan farangur. Þú kemst ekki inn nema þú leyfir þér að smækka. Þú þarft að losna undan þunga minninga, skoðana og hugmynda. Leyfa einhverju öðru en spunanum sem umlykur kjarna þinn, sögunni sem þú segir þér, að rúmast fyrir. Rekja upp fíknimynstur með sjálfsmildi, kasta stolti í eld auðmýktar. Vera húðlaus með óvissuþoku yfir augunum eins og hringaður snákurinn sem er í því ferli að mynda nýjan ham.

Gáttin sem leiðir inn í augnablikið er smágerð. Svo andinn geti rúmast innan þess þarf efnið að brotna niður. Svo orka geti hreyfst um innra rými og ytra, þarfnast hún pláss. Tilfinningar sem fá ekki að halda leiðar sinnar þrengja að brjóstinu og án nægilegs tóms flæddi súrefnið ekki um frumur okkar. Lífið sjálft streymdi ekki í gegnum árþúsundin ef gömul form viku ekki fyrir því nýja. Það sem blasir við í dag er aðeins hér því það fékk að umbreytast. Einstök lífvera, beinagrindin í henni, steinninn sem hún skríður á — allt var þetta eitt sinn eitthvað annað.

Hvernig stekkurðu á nýjan stað — inn í nýja sýn, draum — ef þú ert að sligast undan þunganum sem þú getur ekki sleppt?

Þú veist innst inni að tilvist lífsins og óralöng saga þess er vitnisburður um þess eigin visku. Að sjóðheit húð jarðarinnar endurspeglar ráf okkar frá þeirri visku. Að áttin er röng þegar sporin leiða æ lengra frá hringrás lífsins og sjóndeildarhringurinn víkkar ekki heldur þrengist. Að áttin er röng þegar hugmyndir sem þjóna ekki lífinu fá ekki að brotna niður en heilar tegundir missa í staðinn heimili og líf.

Þú veist að þótt landamæri, fánar og peningaseðlar beri lokkandi áru kunnugleikans, þá endurspegla þau líka takmarkaða sýn. Að línur, kassar, færibönd og skjáir stýra meðvitund þinni í þrengsli sem valda ónotakennd í líkamanum. Þú manst að vetrarbrautin sem geymir plánetu þína er spírall, að erfðaefni þitt er spírall. Að lífið ferðast ekki eftir beinum línum heldur er það er vefur í stöðugum spuna, vaxandi innri saga sem fer í hringi. Snákur sem týnir ekki upphafspunkti sínum en þorir að hafa hamskipti.

Tilfinning segir þér að dyrnar sem leiða inn í augnablikið, inn í hringrásina og hjartað, séu innan seilingar. Þú þurfir aðeins að hægja á þér, draga andann djúpt og leyfa innsæinu að rata með þig á réttan stað.

Þú finnur að þú ert hér og nú, þegar sköpunarþrá yfirtekur þig. Þegar hugmyndir takast á flug í huga þínum og þú fyllist þrá til að fæða þær inn í heiminn. Þú finnur að þú ert í stillingu þegar ókannaðir möguleikar minna þig á eigin frjósemi og biðja þig um að vera mold, vera leg sem leyfir þeim að vaxa. Vera alda sem skolar einhverju nýju á land. Þú ert ekki í fortíðinni eða framtíðinni, heldur í jafnvæginu sem leyfir gyðjunni að plokka í þér strengina og hleypa nýju lífi í gegn. Hjartað þitt slær eins og það sé heilbrigt. Tilfinningin er gleðiríkur sláttur í brjóstinu, innblástur. Þú ert ekki bara efni sem borðar og sefur. Ótti stýrir ekki gangi þínum. Þú finnur lífleikann streyma í gegnum þig því þú hefur gefið honum pláss. Finnur hann hreyfa þig í rétta átt. Sporbaugur þinn umvefur lífgefandi sól, sjóndeildarhringurinn er heill — þú ert í góðum takti.

Lífið viðhelst aðeins með því að viðhaldast ekki. Þú skilur að þú getur ekki brynjað þig fyrir óútreiknanleika tilverunnar án þess að skilja þig frá sköpunarkraftinum sem hún á rót í. Þú snertir aðeins lífleikann ef þú hættir að hlaupa til fullvissunar. Að velja samruna við doðann af ótta við dauðann eru skaðleg þægindi. En beygjan frá því kortlagða, frá kassanum inn í hringinn, leiðir ekki til hinsta dauða heldur til endurnýjaðs lífs.

Fullkomin stjórn er falskt öryggi. Í heimi sem hreyfist rangsælis við lífið og brennir það upp, er hugrekkið til að dreyma eitthvað annað, öruggari kostur. Þú brotnar, þú smækkar — en þegar þú stingur höfðinu upp úr moldinni sérðu alveg upp á nýtt. Og þegar hjartað hefur endurheimt næmni sína og slær í takt við lífið, finnst öryggið alls staðar — líka í óvissunni.

Freyja Þórsdóttir.

Hlustið hér:

Um Listamennina:

Anna Líndal er listakona og kennari sem er þekkt fyrir þverfaglega nálgun sína á list og umhverfismál. Hún gegndi stöðu prófessors við myndlistardeild Listaháskóla Íslands frá árinu 2000-2009. Árið 2011-2012 lauk hún við meistaragráðu í Listrannsóknum hjá St. Lucas University College of Art & Design í Antwerpen. Þar áður eða frá árinu 1987 til 1990 stundaði Anna framhaldsnám við Slade School of Fine art í London. Í verkum sínum beinir hún iðulega sjónum að mannöldinni og loftlagsbreytingum og nýtir þannig aðferðir listarinnar til að auka umhverfisvitund.

Elísabet Jökulsdóttir lauk stúdentsprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík árið 1987. Að því loknu stundaði hún nám í kvikmyndahandritsgerð í höfundasmiðju Leikfélags Reykjavíkur og lauk BA-prófi í sviðslistum frá Listaháskóla Íslands árið 2008. Elísabet hefur unnið sem blaðamaður, baráttukona fyrir umhverfisvernd og forsetaframbjóðandi, og er þá fátt eitt talið. Hún er margverðlaunaður rithöfundur sem skrifar ljóð, smásögur, örsögur, skáldsögur og leikrit, og hefur verið tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Verk Elísabetar og Matthíasar er við Varmá í Hveragerði.

Freyja Þórsdóttir er menntuð í heimspeki og leggur m.a. stund á ritstörf. Að undanförnu hefur hún verið með reglulega pistla hjá útvarpsþættinum Víðsjá á Rás 1. Síðastliðin ár hefur hún sem textasmiður og hugsuður tekið þátt í ýmsum verkefnum sem gjarnan hafa verið á mörkum þess listræna og þess fræðilega. Auk þess hefur hún hlotið viðurkenningu fyrir ljóðagerð.

Heather Barnett er listakona, rannsakandi og kennari sem vinnur með náttúrufyrirbæri og tilkomin kerfi (e. emergent systems). Með hjálp lifandi lífvera, myndunartækni (e. imaging technologies) sem og kennslufræði sem ber með sér leikgleði, varpar starf hennar ljósi á það hvernig við skoðum, höfum áhrif á og skiljum vistkerfi sem samanstanda af fjölda ólíkra tegunda. Nýleg verkefni hennar hverfast um greind annarra lífvera, sameiginlega hegðun (e. collective behaviour) og nýtingu tilraunakenndra kerfa í sameiginlegum rannsóknum, þar sem slímsveppir, maurar og menn eru til skoðunar. Heather starfar hjá Central Saint Martins háskólanum í Bretlandi þar sem hún veitir námsleiðsögn á meistarastigi í listum og vísindum ásamt því sem hún kemur að stjórn rannsóknarstofunnar The Living Systems Lab sem þar er starfrækt. Hún er líka stofnmeðlimur samvinnuhópsins The Slime Mould Collective. Heather býr og starfar í London. Verk Heather eru staðsett í Listasafninu og í Hveragarðinum.

Herwig Turk býr og starfar í Vínarborg. Hann vinnur á mörkum lista, tækni og vísinda. Frá árinu 2016 hefur hann stýrt listrænum rannsóknarverkefnum á Tagliamento ánni í Norður-Ítalíu, Dóná og þeim ám sem tilheyra Bolzano svæðinu. Slík verkefni hefur hann unnið í samstarfi við lista- og vísindafólk. Frá árinu 2021 hefur hann leitt þróun á verkefninu Graben//Landschaft lesen – kopati grapo//brati með Zdravko Haderlap og Þverfaglega rannsóknarhópnum (e. the Interdisciplinary Research Group) í Lepen/Carinthia í Austurríki. Frá 2014-2022 starfaði hann á sviði samfélagshönnunar (e. Social Design) hjá Listiðnaðarháskólanum í Vínarborg.

Ilana Halperin hefur í listsköpun lagt upp úr því að skoða sambandið milli jarðfræðilegra fyrirbæra og þess hversdagslega. í starfi sínu leggur hún höfuðáherslu á að skoða tengsl milli jarðfræðilegs tíma og mannlegs tíma. Hún stýrir vettvangsvinnu með sérfræðingum um allan heim, þar á meðal steindafræðingum, jarðfræðingum, eldfjallafræðingum og fornleifafræðingum. í listsköpun sinni beitir Ilana þeirri aðferð að staðsetja sig og aðra á jarðfræðilega þýðingarmiklum eða virkum stöðum. Við gerð verka sinna styðst hún við ýmis konar miðla. Hún vinnur t.a.m. með texta, gjörningalist, grafíklist, höggmyndalist, teikningu og kvikmyndalist. Ilana býr og starfar í Glasgow á Skotlandi.

Jennifer Helia DeFelice er konsept-listakona sem í listsköpun sinni leggur áherslu á performatífa möguleika þess óyrta, þess sem er upplifað beint, til að umbreyta sýn á hið hversdagslega. Auk þess sem hún vinnur með gjörninga, tjáir hún sig í gegnum myndbandslist, innsetningar, uppákomur, þátttökuverkefni, tónlist og nýja miðla. Verk Jennifer eru ekki bundin við ramma og starfsemi listasafna heldur hættir hún sér út fyrir mörk þess sem talist getur hefðbundin list og list-aðferðir. Hún hefur um langt skeið nýtt listræna næmni sína í kennslu og sýningarstjórn og tekið þátt í hugmyndavinnu fyrir listræna viðburði og stofnanir. Hún leggur upp úr því að mýkja, brjóta upp og víkka út vegi listrænnar iðkunar og reynir að gera það í anda sem er bæði listrænn og gagnrýninn. Jennifer býr og vinnur í Brno í Tékklandi. Verk Jennifer eru staðsett í Listasafninu og í Hveragarðinum.

Magnea Magnúsdóttir er landgræðslufræðingur að mennt og starfar sem umhverfis og landgræðslustjóri hjá Orku náttúrunnar. Magnea hefur sérstakt dálæti og mosa og hefur sérhæft sig í endurheimt á mosaþembum. Í starfi sínu vinnur hún að því að endurheimta náttúruleg gróðurlendi en hún hefur einnig fengist við það að gera verk úr mosa. Með verkum sínum vill hún vekja fólk til umhugsunar um áhrif mannanna á gróður og umhverfi og mikilvægi þess að stöðva ekki flæði náttúrulegra ferla.

Matthías Rúnar Sigurðsson útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2013. Í upphafi ferils síns vann hann að mestu með teikningar en fór fljótt að hafa áhuga á höggmyndalist. Kveikjan að því var bók um elstu listaverk sögunnar sem flest voru unnin með þeim hætti. Matthías leiddi hugann að því ef þetta var hægt fyrir þúsundum ára, hvað væri þá hægt að gera í dag með þeirri tækni og áhöldum sem nútíminn hefur upp á að bjóða. Hann byrjaði að höggva út með hamar og meitil líkt og upprunalegu verkin höfðu verið unnin en það var tímafrek aðferð. Nú vinnur hann með rafmagnsverkfæri líkt og slípirokk og fræsara sem tekur mun styttri tíma.

Verk Matthíasar og Elísabetar er við Varmá í Hveragerði.

Patrick Bergeron útskrifaðist sem verkfræðingur og færði sig síðan yfir í listirnar eftir að hafa starfað fyrir National Film Board of Canada. Síðan þá hefur hann bæði unnið að listrænum ferli sínum sem og starfað við gerð stafrænna tæknibrellna fyrir kvikmyndir og sjónvarpsþætti. Hann hefur til að mynda tekið þátt í kvikmyndaverkefnum á borð við The Lord of the Rings og The Matrix. Innsetningar hans og tilraunakennd myndbandsverk hafa verið til sýnis á alþjóðlegum vettvangi, bæði á listasöfnum og á kvikmyndahátíðum (South by Southwest, ARS Electronica). Í verkum sínum, vinnur hann með og rannsakar fyrirbærin tíma, minni og hreyfingu. Hann er áhugasamur um plönturíkið, hringrásina sem það tilheyrir og gagnvirk tengslin milli þess og náttúruaflanna. Patrick býr og starfar í Montreal.

Pétur Thomsen hefur vakið athygli fyrir ljósmyndir sem fjalla um þá tilfinningu sem kemur yfir þann sem fylgist með því hvernig manneskjan leitast við að umbreyta náttúrunni, sem er svo miklu stærri en hann sjálfur, eftir eigin höfði. Pétur Thomsen “Ég er svakalega pólitískur. Mér finnst að myndir eigi að hafa einhvern tilgang annan en að vera bara til skrauts. Tilgangurinn með ljósmynduninni er að takast á við eitthvað, fjalla um eitthvað sem skiptir máli, og í besta falli fá fólk til að spyrja sig gagnrýninna spurninga.”

Skade Henriksen vinnur með teikningu, ljósmyndun, skúlptúr og innsetningar. Í listrænum rannsóknum sínum leyfir Skade ljóðrænni sýn að taka pláss auk þess sem hún beitir nálgun sem er að hluta til vísindaleg. Hún hefur bakgrunn sem rannsóknartæknir og notast við vísindaleg verkfæri ogvísindalega skrásetningu sem vinnulag og sem viðmiðunarpunkt í verkum sínum. Verkin hennar hverfast um rannsóknir á landslagi þar sem áhersla er lögð á landslagsbreytingar, námuvinnslu og hugmyndir um tíma og gildi.

Þorgerður Ólafsdóttir býr og starfar á íslandi. Í listsköpun sinni veltir hún fyrir sér ýmis konar hlutum og fyrirbærum sem tengjast skilningi okkar og tengslum við hinn náttúrulega heim þar sem hann mætir, skarast við og er túlkaður innan mannlegs umhverfis. Starf Þorgerðar er lagskipt og skiptist í ferli, rannsókn og vettvangsvinnu þar sem hún vinnur með ólíkar hugmyndir um tíma, frásagnir og skala. Hún hefur sömuleiðis verið í samstarfi við listarými, tekið þátt í verkefnum og hátíðum ýmis konar auk þess sem verk eftir hana verið gefin út. Frá 2014-2018 gegndi hún stjórnarstöðu í Nýlistasafninu, listamannareknu safni sem stofnað var árið 1978. Árið 2021 hlaut Þorgerður rannsóknarleyfi sem gerði henni kleift að ferðast til Surtseyjar og ástunda rannsóknir þar. Í síðasta útgefna verki sínu, Island Fiction, vefur Þorgerður saman listaverk og ritgerðir og tekst þannig á við flóknar hliðar tilverunnar, sögu og merkingu Surtseyjar.

(Verk Þorgerðar Spor er í Kömbunum)

Styrkt af:

Uppbyggingarsjóði Suðurlands, Federal Ministry Republic of Austria, Austurríska sendiráðinu í Kaupmannahöfn, House of Arts – Brno, Hveragarðurinn, Hveragerði, Hveragerðisbær, Ölfus, Brno Faculty of Fine Arts, Central Saint Martins (University of the Arts) UK, Norska Sendiráðið á Íslandi.

Þakkir fá Ingunn Snædal og Anna Yates fyrir þýðingu.

Sjá hér bækling vegna sýningarinnar:

Hér er hægt að lesa um