Stöðugt völundarhús

Piotr Zbierski

Salur 4

13. september – 21 desember 2025

Traust völundarhús alls þess sem ósagt er.

Texti eftir Erin Honeycutt.

Tíminn er staður. Tíminn er ást. Hvar er hægt að nema staðar og líta í kringum sig?

Tíminn er staður. Tíminn er ást. Þessi orð eru meira en myndlíking; þau gefa í skyn að tíminn sé ekki aðeins eitthvað sem við förum í gegnum, heldur eitthvað sem við byggjum. Tíminn hefur áferð, andrúmsloft, jafnvel tilfinningu. Í þessu samhengi er minnið ekki endurheimt einhvers sem hefur tapast, heldur sífelldar samningaviðræður við það sem heldur áfram að lifa í bakgrunni skynjunarinnar. Tíminn opnar rými, og ástin fyllir það.

Kjarni verka Piotrs Zbierski byggist á samruna tengsla við mismunandi tímaskref – samfellu blæbrigða fremur en tvíhyggju sem spegla samtímis ljóðrænu og ofbeldi tilverunnar og bjóða okkur að velta því fyrir okkur hvernig sundurleit skynjun, tilfinningar og atburðir rekast saman í líkamanum og geta aðeins verið endurofin í eina heild með listinni. Zbierski – sem vinnur með ljósmyndun, prent, klippimyndir og skjalasöfn – spyr: Hvar endar upplifuð reynsla og hvar hefst frásögnin? Linsa hans rennur eins og eftir á sem ber okkur á milli tveggja bakka: öðrum megin eru fágaðar frásagnir, hinum megin hráar minningar. Útkoman er völundarhús möguleika yfir langan tíma, fram og aftur, djúpt og vítt; í senn bygging og myndlíking, sem vekur upp völundarhús, andatrúarform og jökulminni.

Ég rifja oft upp samtal við Piotr um dagvinnu hans á Íslandi sem sundlaugarvörður í almenningslaug. Það sló mig. Það er einhver djúp tenging á milli sundlaugarvarðar og ljósmyndara. Báðir eru hljóðlátir, athugulir, staðsettir á mörkum. Þeir eru á vakt á brún hins sýnilega, þjálfaðir til að taka eftir því sem aðrir sjá ekki. Að taka ljósmynd eða bjarga manneskju frá drukknun krefst sérstakrar tegundar meðvitundar. Maður þarf að vera tilbúinn að grípa til aðgerða á því augnabliki sem eitthvað hverfur af yfirborðinu. Sundlaugavörðurinn þarf að skynja hættu áður en henni er lýst yfir; ljósmyndarinn þarf að skynja mynd áður en hún birtist að fullu. Báðar greinar snúast um að sjá það sem ekki er alveg sjáanlegt og bregðast við á réttum tíma.

Ég hugsa um myndavélina sem verufræðilega andstæðu byssunnar í War and Cinema eftir Paul Virilio, sem býður upp á áleitna greiningu á „sjónarháttum“ hernaðar og samruna skynjunar og eyðingar í samhliða tækni stríðs og kvikmynda. Hvernig vopnið og brynjan þróast samtímis, hvernig sýnileiki og ósýnileiki byrja að þróast saman og skila að lokum ósýnilegum vopnum sem gera hluti sýnilega. Er hægt að taka þetta verkfæri út úr þessu sögulega valdakerfi og gera það að verkfæri tengsla, verkfæri sem líkist frekar tungumáli? Ég fylgi þessari hugsun og hugsa um sólina og hvort þessi greining virki sem hliðstæða án mannlegrar aðkomu.

Skrásetning getur verið birtingarmynd björgunar – að gera rými fyrir það sem ella myndi hverfa. Ljósmyndunin, sérstaklega í Solid Maze of All That’s Left Untold eftir Piotr, virðist starfa á þessari hljóðlátu tíðni. Þar liggur mjór, varla skynjanlegur þráður í gegnum verkin, sem bindur saman það sem sést og það sem finnst, hið sýnilega og það sem er að hverfa. Ljósmyndirnar eru ekki yfirlýsingar, heldur eitthvað sem líkist vísbendingum. Leifar af nærveru, tilfinningum, minningum sem enn eru ómótaðar.

Í verkunum býr spurning: Getur hið áþreifanlega verið ósagt? Hvað gerist þegar eitthvað sem við álítum fast – steinn, bygging, líkami – reynist gljúpt, hverfult eða tilfinningalega óstöðugt? Í myndum Piotrs gegnir hið fastmótaða oft hlutverki tómarúms, íláts fyrir hið ósegjanlega. Neikvætt rými í ljósmynd er ekki tómt; það er hlaðið möguleikum. Það býður áhorfandanum að ljúka hreyfingu, að ganga inn í myndina ekki aðeins með augum, heldur einnig með hugsun, minni og ímyndun. Þetta er tegund lýsandi listar sem lýsir ekki eingöngu – hún hlustar.

Á einni ljósmynd sjáum við handskrifaðar athugasemdir sem virka eins og jöfnur:

ást + sjálf = (sólartákn)

engin ást + sjálf = (stjörnutákn)

ást + ekkert sjálf = (tungltákn)

sál (strikað út og „andi“ skrifað neðan við) + líkami (strikað út og „sál“ skrifað neðan við) = (teiknuð manneskja)

Þessar táknrænu formúlur gefa til kynna leit að tungumáli sem fer fram úr eða á undan rökhugsun. Þær eru ekki svör, heldur tillögur – kortlagning spennunnar milli nærveru og fjarveru, einingar og sundrungar. Hver jafna endurstillir sambandið milli tilfinningar, sjálfsmyndar og líkamsvitundar. Það er engin föst lausn. Þess í stað kemur fram löngun til að kortleggja tilfinningalegar aðstæður verunnar – hvað breytist þegar ástin er til staðar, þegar sjálfið leysist upp, þegar flokkarnir andi, líkami og sál skarast eða hrynja saman.

Í gegnum seríuna leiðir endurtekinn þráður áhorfandann áfram – ljósið sem bæði bókstaflegur og táknrænn efniviður. Ljósið brýst í gegnum ský, fellur í mjóum geislum á svartan klett, brotnar í glampa af jakka, endurkastast af bogadregnu yfirborði hnattar sem er haldið í hendi. Það finnur sér leið inn í veggjakrot í myrku húsasundi, í skarð tunglsins sem kíkir fram undan steinstólpa. Það birtist aftur í handskrifuðum texta sem lagður er yfir myndirnar – hvítur á svörtu – þar sem tungumálið hermir eftir sjónrænum eiginleikum ljóssins, sem er í senn brothætt og upplýsandi. Ljós verður að þræði sem saumar verkið saman: tengiefni milli heimsins, myndarinnar og huga ljósmyndarans.

Þessi samflétta myndar og texta, efnis og minningar, kallar fram skrif Walters Benjamin um eðli minnisins. „Minnið,“ skrifar hann, „er ekki tæki til að kortleggja fortíðina, heldur leikhús hennar. Það er miðill fyrri reynslu, rétt eins og jörðin er miðillinn sem dauðar borgir hvíla í.“ Að minnast er því ekki einfaldlega að líta til baka, heldur að stíga inn í virkt rými þar sem sagan er sviðsett, leikin og lögð í lög sem grafa þarf upp af nákvæmni og auðmýkt. Benjamin lýsir minni sem fornleifafræðilegu ferli. Maður endurheimtir ekki einfaldlega staðreynd eða augnablik; maður þarf að grafa, varlega, eins og um brothættar rústir væri að ræða.

Í þessu ljósi verður ljósmyndarinn eins konar fornleifafræðingur – en í stað moldar greinir hann andrúmsloft, hreyfingar og ljós. Á sama hátt skynjar sundlaugarvörðurinn smávægilegar breytingar á mynstri eða hita, og fylgist með yfirborðinu eftir frávikum sem gætu bent til neyðar neðan þess. Báðar þessar athafnir byggja á athygli. Þær krefjast kyrrðar, þolinmæði og nærveru. Að ljósmynda er ekki að fanga – heldur að halda. Að gæta. Að segja: Ég sá þetta. Ég var um kyrrt nógu lengi til að taka eftir því.

Það sem Piotr leggur til í verkum sínum er að ljósmyndun snúist síður um að festa tímann og meira um að ganga inn í hann. Síður um minningu sem hlut og frekar um minningu sem miðil – sem rými þar sem merkingin mótast sífellt á ný. Myndir hans útskýra ekki; þær hlusta. Þær opna jaðarsvæði þar sem mynd og mál, minni og tilfinning, hugsun og innsæi byrja að skarast. Og í þeim skörunarpunkti kviknar eitthvað yfirskilvitlegt – eitthvað sem ekki verður nefnt með orðum, en er djúpt skynjað.

Þegar upp er staðið er það ekki aðeins myndin sem eftir situr, heldur augnablikið sjálft. Augnaráðið sem hélt. Andardrátturinn áður en smellt er af. Þögnin milli tveggja sundmanna í laug. Ljós sem fellur milli skýja. Og áhorfandinn, sem dvelur nógu lengi til að skynja það sem myndin segir aldrei með orðum – en geymir alltaf.