Hringrás

Þórdís Erla Zoëga

5. febrúar – 22. maí 2022

Sýningarstjóri: Erin Honeycutt

Á yfirborðinu vinnur Þórdís Erla Zoëga með nánd, samhverfu og jafnvægi. Hinsvegar er eðli þessa „yfirborðs“ margslungið bæði efnislega og myndrænt séð. Þórdís, sem útskrifaðist með BFA-gráðu úr Audio Visual deild Gerrit Rietveld Academie árið 2012, hefur rannsakað myndheim skynjunar og sjónrænnar villu í innsetningum sínum sem eru oft staðsettar milli skúlptúrs og hreyfimyndar, sér í lagi hvað varðar notkun hennar á litbreytifilmu. Filman myndar ljósbrot og sýnir marga mismunandi liti, sem ráðast af því hvernig ljós brýst í gegnum hana þannig að hún endurvarpar sumum litum en hleypir öðrum í gegn.

Verkið er unnið beint inn í rýmið og gerir áhorfandann meðvitaðan um skynjun sína á rýminu og um líðandi stund; hringrásina sem myndar sólarhringinn.

Í fyrri verkum Þórdísar hefur hún nýtt litbreytifilmu til að skoða og kryfja stafræna fagurfræði hversdagsins, leika sér með virkni og notagildi hennar, en einnig til að sýna hversu abstrakt hún er. Á sýningunni Hyber Cyber (Þula, 2020) voru viðmót skjáa skoðuð sem mun stærri hluti lífs okkar en við gerum okkur grein fyrir. Stafrænu partar skjáanna voru einfaldaðir með því að setja þá fram í öðrum efnivið og öll gagnvirkni þeirra fjarlægð svo að það eina sem eftir stóð var kunnuglegt myndmálið án virkninnar. Hugmyndin var að við eyðum flestum okkar stundum fyrir framan skjá af einhverju tagi. Skjáirnir í þessu tilfelli voru gerðir úr akrýlgleri, litbreytifilmu og LED-ljósum. Flöturinn var laserskorinn til að líta út eins og tölvuskjár og LED-ljósin voru leidd í gegnum yfirborðið svo að formin lýstust upp. Sama hversu stafrænt útlitið var á yfirborðinu þá var þetta með öllu ógagnvirkt. Þarna togast á hið stafræna og flaumræna og úr verður afhjúpandi rannsókn á sambandi snertiskyns okkar við ljós.

Einnig mætti líta á notkun Þórdísar á litbreytifilmu sem eins konar rannsókn á eðli myndarinnar; fyrstu skrefin í átt að því að nota mynd sem upphafsreit til að leiðbeina áhorfendanum að öðrum háttum skynjunar. Litbreytifilman er notuð sem skúlptúr og skapar performans myndarinnar sem býr yfir eigin verkunum með því að varpa ljósi á veggina og þvingar áhorfandann til að taka á móti myndinni í samfelldri heild birtingar og hvarfs. Í því rými sem hún hverfur er áhorfendum boðið að taka þátt á mjög ákveðinn kvikmyndalegan hátt. Þessi dýnamíski efnisleiki setur líkamann í samband við tækni sem endurskapar tilfinningu fyrir þeirri fyrirliggjandi munúð að vera til í heiminum.

Í verkinu Hringrás/Routine leikur Þórdís sér með hina hversdagslegu rútínu að draga gardínur fyrir og frá glugga eftir hringrás sólarinnar.

Í miðju rýmisins er stór strimlagardína sem opnast og lokast með hjálp gardínumótors; í miðju gardínunnar er varpað bjöguðu hringformi sem snýst réttsælis um sjálft sig og breytir um liti í snúningnum. Þegar betur er að gáð sést að vörpunin er skúlptúr bak við gardínuna; hringur úr akrýlgleri með litbreytifilmu hangir úr mótor í loftinu og varpar hringrás bjagaðra forma og litbrigða á gardínuna og umlykjandi veggi rýmisins. Kastari lýsir upp hringinn og skapar leik forms og skugga í afkimum rýmisins.

Snúningur hringsins kallast á við snúning jarðar um möndul sinn og fegurð ljósbreytinganna sem fylgja umskiptum dags og nætur. Út um allan hnött er einhver samtímis að draga frá gardínurnar til að hleypa deginum inn og annar að draga fyrir nóttina.

Með því að nota þennan sérstaka efnivið mæta verk Þórdísar yfirborðssýn áhorfenda á rými og leika sér með það, bjóða áhorfendum upp á að verða skynjun sín og skynja skýrt bæði innan rýmis sjónar- og snertiskyns. Takmarkanir herbergisins, í stað þess sem er innan þess, eru í forgrunni, sömuleiðis takmarkanir skynjunar frekar en skynjunin sjálf.

Þórdís Erla Zoëga (1988) útskrifaðist með BFA gráðu úr Audio Visual deild Gerrit Rietveld Academy í Amsterdam árið 2012. Að auki er hún með diplómu í Vefþróun úr Vefskólanum.

Hún hefur sýnt m.a. í Amsterdam, Stokkhólmi, Berlín, Basel, Tékklandi og víðar. Hér á landi hefur hún unnið verk fyrir Listahátíð í Reykjavík, Gerðarsafn, Íslenska dansflokkinn, Konsúlat Hótel, Canopy Hilton hótel og sýnt í D-sal Hafnarhússins. Einnig var hún meðlimur í listahópnum Kunstschlager og hélt uppi víðtækri sýningardagskrá með honum í Kunstschlager stofu Hafnarhússins árið 2015. Nýlegar sýningar eru Embrace (Norrtälje konsthall, Svíþjóð, 2021), Hyper Cyber (Þula, 2020), og Harmony (Geysir Heima Kjallarinn, 2019).

Þórdís vinnur í hina ýmsu miðla og skapar innsetningar, málverk, teikningar, mottur og lágmyndir úr akrýlgleri. Verk hennar snúast jafnan um jafnvægi og nánd sem birtast í andstæðum og samhverfum. Í innsetningum hennar leitast hún við að skapa rými fyrir áhorfandann að uppgötva eitthvað nýtt með einföldum sjónrænum blekkingum. Hringformið er henni hugleikið sem tákn um óendanleikann og himingeiminn. Samhverfur birtast í flestum hennar verkum þar sem hún leitast við að finna jafnvægi á fletinum og í lífinu.

www.thordiserlazoega.is

Erin Honeycutt (1989) er rithöfundur, bóksali og sýningarstjóri sem býr og starfar í Berlín. Hún er með MA-gráðu í listfræði frá Háskóla Íslands auk MA-gráðu í trúarbragðafræðum frá Universiteit van Amsterdam. Hún skrifar ljóð, sýningarrýni og margvíslegan texta í samvinnu við listamenn. Erin var tilnefnd til Broken Dimanche Press verðlaunanna fyrir skrif um list og textar hennar hafa meðal annars verið birtir í SAND Journal, BARAKUNAN og Neptún Magazin. Vefsíða

erinhoneycutt.persona.co

Hér er hægt að hlaða niður sýningarskránni sem pdf: