Nautn

26. nóvember 2016 – 26. mars 2017

Markús Þór Andrésson sjálfstætt starfandi sérfræðingur í myndlist

Samkvæmt aldargamalli kenningu Sigmundar Freuds stjórnast manneskjan, að meira eða minna leyti, af nautn. Þegar líkamlegum, andlegum og kynferðislegum hvötum er sinnt, framfylgjum við því sem sálgreinandinn kallaði „vellíðunarlögmálið.“ Það snýr að þeim drifkrafti sem miðar að því að fullnægja öllum þörfum, löngunum og þrám. Sé þeim ekki svalað getur það valdið kvíða og spennu. Hvatirnar búa þó samkvæmt lögmálinu í öðrum fylgsnum hugans en rökræn hugsun, sem tekur meðal annars mið af siðferðislegum og samfélagslegum gildum, og þarna á milli ríkir stöðug togstreita. Kortlagning hugans af þessu tagi vekur alltaf áhuga manna og sitt sýnist hverjum. Kenningar Freuds hafa verið gagnrýndar í bak og fyrir en eftir sem áður eru viðfangsefnin jafn áleitin.

„Bæla, bæla, bæla meir!“ sungu Gipsy Kings hér um árið (eða svo heyrðist manni) og höfðu konungarnir vísast lög að mæla. Við reynum í sífellu að halda aftur af okkur því það virðist manninum í blóð borið að fara fram úr sér. Við lærum viðmið í æsku þar sem okkur eru innrætt ýmis boð og bönn. Lög og reglur eru sett, til að við nautnasvölun gangi maður ekki á hlut náunga síns og trúarbrögð setja fólki siðferðislegar hömlur. Skilaboðin eru allt um lykjandi en þau eru ákaflega misvísandi og munu einstaklingar og samfélög sjálfsagt aldrei sættast á skýrar línur í þessum efnum. Þrátt fyrir allt rennir ýmislegt stoðum undir þann grun að bæling leiði til þess að útrás brjótist með einhverju móti fram og þá ef til vill á allt öðrum vígstöðvum. Fái maður ekki svalað þörfum sínum á einu sviði leiði það til ofneyslu á öðrum vettvangi.

Saga nautnar er um leið saga neyslusamfélagsins sem keyrt er áfram á uppfærðri útgáfu af vellíðunarlögmálinu. Allt um kring er ofhlæði áreitis, hafsjór upplýsinga og mynda sem talar til okkar og tælir okkur, á götum úti og inni á heimilum. Hversdagslíf okkar er undirlagt af einföldum lausnum sem miða að því að mæta fjölbreytilegum þörfum. Þó rennir mann í grun að búið hafi verið að hanna þörfina löngu áður til þess að geta síðan selt lausnina. Í kaupbæti fylgir samviskubitið; „guilty pleasure“. Þær gömlu grunnþarfir sem Freud vísaði til í sínum rannsóknum hafa tekið breytingum í meðförum samtímans þar sem nýjar þarfir eru linnulaust fundnar upp. Nautnin gengur kaupum og sölum í eins konar hagkerfi þar sem við verðlaunum okkur fyrir allt og ekkert. Þá er nautnaferlið, ef svo mætti að orði komast, á öðrum hraða nú til dags en fyrir hundrað árum. Nú gildir að njóta um leið og löngun til þess vaknar; „instant pleasure“.

Þannig verður spurningin um það hvað sé manninum náttúrulegt, eðlilegt og beinlínis lífsnauðsynlegt, og hvað sé tilbúningur, fals og óþarfi, sífellt áleitnari. Viðfangsefnið hefur átt upp á pallborðið alla tíð síðan Freud kom orðum að því fyrir margt löngu og margt verið ritað, einkum um vaxandi undanlátssemi við óæskilegum nautnum í daglegu lífi. Á seinni hluta síðustu aldar vorum við „að læra af Las Vegas“¹ enda borgarumhverfi nútímamannsins orðið „tilbrigði við skemmtigarð“². Um leið vorum við að „skemmta okkur til óbóta“³ í „samfélagi sjónarspilsins“⁴. Nú á 21. öldinni horfir öðruvísi við eftir að tilvist mannsins hefur að miklu leyti flust yfir á stafrænt form. Á það ekki síst við um langanir og nautnir sem eru bindiefnið í hinum mikla veraldarvef. Kenningasmiðir og heimspeking- ar kasta nú fram hugmyndum um „hvernig við urðum síðmennsk“ þegar upp rann „stefnumót líkama og tækni“? Hjálpar stafrænn veruleiki okkur að fá útrás fyrir óheftar langanir eða espast þær bara upp og heimta að lokum útfærslu í raunveruleikanum?

Upphaf sýningarinnar sem hér um ræðir á sér stað í samtölum á milli listamanna um einmitt þessi margslungnu og um margt skemmtilegu hugðarefni. Hvar liggja mörkin á milli þess að leggja eðlilega og manneskjulega rækt við unað og ánægju annars vegar og hins vegar þess að gangast þessum eiginleikum hömlulaust á vald? Hvenær verður eitthvað að blæti? Hver er munurinn á munúð og ofgnótt, erótík og klámi, fegurð og kitsch, löngun og fíkn, metnaði og græðgi, háleitum markmiðum og firru? Hver hefur vald til þess að setja fram þessar skilgreiningar? Greinarmunurinn liggur misjafnlega eftir viðmiðum, tímum, samfélögum og hópum. Körlum og konum eru sem dæmi uppálögð mismunandi viðmið. Þá setja einstaklingar sér mörk sem kunna að vera missveigjanleg manna á milli. Og við hneykslumst hvert í kapp við annað um leið og við stöndum einhvern að því að njóta umfram það sem eðlilegt kann að teljast. Eða sendum viðkomandi nautnasegg í meðferð.

Upp úr samræðum nokkurra listamanna spratt hugmyndin um að setja saman sýningu sem endurspeglaði þessar pælingar. Fundir og ráðagerðir stóðu í rúmt ár þar sem margt bar á góma um nautn, girnd, hvatir og fýsn. Ólíkar birtingarmyndir þessara eiginleika í daglegu lífi voru meginviðfangsefnið en jafnframt hvaða hlutverki þeir gegna í listsköpun. Fullnægir tilurð listaverks djúpstæðum og óheftum hvötum undirmeðvitundar listamannsins? Eða nær hann/hún að hemja ferlið með rökhugsun og lærðum vinnubrögðum? Á sýningunni getur að líta ný verk þar sem sex listamenn leiða saman hesta sína og velta upp spurningum um nautnina, hver frá sínu sjónarhorni og forsendum.

Óhlutbundin verk Eyglóar Harðardóttur bera ekki með sér fullyrðingar um sérstakt umfjöllunarefni í sjálfu sér, hvað þá gildishlaðið hugtak eins og nautn. Eiginleikar verkanna liggja fjarri því að myndgera hugmyndir, þau eru afrakstur glímu við efni og aðferð. Í vinnsluferlinu eru skilgreiningar og rökhugsun látin lönd og leið. Sveigt er hjá auðveldum lausnum og því sem kann að virka vel af því að það vekur með manni stundarhrifningu. Áskorunin felst í að ná einhverju djúpstæðara fram, dvelja með efninu og prófa eitthvað nýtt. Ríghalda ekki í gefin markmið heldur vera vakandi fyrir því sem kann að koma manni upp í hendur af tilviljun, í ferlinu. Skoða rönguna, brottkastið, hið óásjálega. Verkin krefjast einhvers, þau nudda og heimta úrvinnslu þar til þau eru fram komin. Þá er eins og slakni á öllu og ferlið stöðvast. Nautnin felst í þeim drifkrafti sem knýr áfram þetta vandasama ferli.

Það er vandi að gera greinarmun á því hvort verk Eyglóar verða til af ásetningi eða í ósjálfráðu ferli. Sem listamaður er hún sér meðvituð um að það sem hún er með í höndunum hverju sinni verður hugsanlega að listaverki. Þannig blandast nautn augnabliksins í miðju sköpunarferli, eftirvæntingunni um að á einhverjum punkti verði verkið fullklárað. Í verkunum sem hún hefur gert sérstaklega fyrir sýninguna vann hún einkum með japanskan pappír, gifs og neonlit. Fjölmargt annað kom við sögu, hugmyndir eins og þensla og þjöppun, rétta og ranga, að taka sundur og setja saman á ný. Nautnin felst, í hennar tilviki, í lendum hins nýja og ókunnuga, utan fyrirfram kunnra þæginda, að ögra sjálfri sér og uppskera svo að lokum eitthvað bitastætt.

Anna Hallin má segja að sé á áþekkum nótum í afstöðu sinni. Áherslur hennar felast í vinnuferlinu og þeirri ánægju sem það veitir. Hún lýsir því sem svo að hún fari inn á svæði þar sem hún hefur fulla stjórn. Utanaðkomandi áreiti, daglegt amstur eða sveiflur lífsins ná ekki þar inn. Það er ekki þar með sagt að hún viti fyrirfram hvað kunni þar að gerast en það er á hennar forsendum og innan marka sem þó lúta hennar lögmálum. Sú fullvissa hefur Önnu hlotnast eftir áralanga vinnu með þá listmiðla sem hún vinnur með. Á sýningunni eru það teikning og leir, hvort tveggja efni þar sem lítið má út af bregða til þess að allt fari forgörðum. Nautnin felst í því að finna fyrir hæfni sinni með efnið en leita í sífellu leiða til að ögra sér og ná lengra. Verk Önnu eru líkamleg og innblásin af sígildum búkmyndum (torsó) höggmyndasögunnar. Þau eru þó langt í frá fígúratíf, þvert á móti eru þau ósamhverf, en form þeirra eru ávöl og lífræn. Návist líkamans kemur ekki síst fram í því hvernig form verkanna virðast kalla á snertingu og nánd. Fjöl- breytt áferðin er ýmist mött, gróf, slípuð eða glansandi sem dregur fram kitl í fingurgómana. Maður skynjar umbreytingu efnisins við brennsluna, sér hvernig glerungurinn bráðnar og harðnar svo í miðju ferli. Teikningarnar ramba, eins og leirverkin, á mörkum hins stýriláta og ósjálfráða. Markviss lína kallast á við slettur og kám. Önnu er hugleikin sú ánægja sem sprettur úr milliliðalausu handverki, þar sem hugsun og athöfn er beinskeytt og án utanaðkomandi truflunar. Einhvers konar núvituð listsköpun.

Birgir Sigurðsson skoðar nautnahugtakið á mörkum andstæðna eins og hins líkamlega og huglæga, hins jákvæða og neikvæða. Hvar svo sem nautnum er skipað á slíkt róf eru þær frekar á athygli í hinu daglega lífi og heimta að þeim sé sinnt. Listamaðurinn hefur áður sett fram sjálfsævisöguleg verk sem byggjast meðal annars á matarfíkn. Með því að skoða sérstaklega eigin reynslu varpar hann fram opinskáum og áleitnum spurningum um eðli þess sem almennt telst til óhófs. Í verki sínu á sýningunni nú, setur hann fram áframhaldandi vangaveltur um stjórn og óstjórn ásamt einhvers konar hreinsunarferli eða friðþægingu. Birgir hefur valið matargerð og dans sem dæmi um eitthvað sem vekur með honum sérstaka ánægju. Hann setur fram gjörning og innsetningu þar sem þessi atriði liggja til grundvallar. Þá prentar hann ljósmyndir á dúk og hengir upp eins og þvott á þvottasnúrur.

Hugleiðingar um hin óljósu mörk, sem tæpt hefur verið á, koma fram í verkum Helga Hjaltalín Eyjólfssonar. Mörkin sem snúa að því sem samfélagið umber og þeim frávikum sem einstaklingurinn kann að þrá og/eða leyfa sér. Listamaðurinn setur iðulega fram verkfæri eða aðstæður sem ætlað er að framfylgja einhverju sértæku verkefni. Hér setur Helgi fram gráglettna innsetningu sem lýsa mætti sem vinnuborði skiltagerðarmanns sem ekki hefur frétt af pólitískri rétthugsun. Þar fá sleggjudómar og fordómar að dafna óáreitt og eru úrelt slagorð sett í aðlaðandi búning markaðshyggjunnar. Önnur innsetning sýnir fánastöng í þar til gerðum rennibekk sem hannaður er til að renna fánastangir. Meðfram eru tíu vatnslitamyndir af meðlimum samtakanna sem kenna sig við íslamska ríkið, ISIS. Þar má sjá vígasveitir við dagleg störf, vopnum hlaðnar. Tvö ólík myndefni sem líkast til eru sótt í fréttamyndir eða á netið eru máluð endurtekið í fimm skipti hvort, án þess þó að nokkuð verk sé fullklárað. Verk Helga minna á hið markmiðsdrifna samfélag sem við hrærumst í. Mælikvarði á árangur er falinn í því hvort tilsettum markmiðum sé náð, hvort heldur í fyrirtækjarekstri eða einkalífinu. Með því að setja fram í verkum sínum undarleg, lokuð ferli sem virðast skilyrt einum, afmörkuðum tilgangi, dregur Helgi í efa möguleikann á að staldra við og meta þá vegferð sem maður kann að vera á. Þegar allra augu eru á að ná settu marki vill spurningin um raunverulegt gildi ferlisins gleymast.

Jóhann Ludwig Torfason setur líkt og Helgi fram kerfi og ferli en í formi myndrænna þrauta. Hann sýnir ólíka leiki sem líkjast borðspilum eða myndagátum. Þegar betur er að gáð leynast vafasamari skilaboð að baki sem samræmast ef til vill ekki þeim siðaboðskap sem almennt er við lýði. Kynferðislegir órar, fordómar og fíkn eru sett fram á sakleysislegan hátt, en í formi keppni eða árangursmiðaðs leiks. Fagurfræði verkanna sækir í myndmál eftirstríðsáranna þegar ákveðið sakleysi og gaman- semi einkenndi alla markaðssetningu. Þannig er minnt á að þau gildi og viðmið sem ríkja í siðferðismálum eru iðulega háð tíðaranda hverju sinni. Ýmist er eitthvað bælt sem síðar þykir eðlilegt að flíka, eða að dregin er upp neikvæð mynd af einhverju sem áður var látið viðgangast. Listsköpun Jóhanns er sett fram undir samheiti ímyndaðs verkstæðis sem hann kallar Pabbakné. Það var fyrst kynnt til sögunnar árið 2005 sem einhverskonar yfirskrift eða fyrirtæki sem gaf listamanninum færi á að setja fram efni í nafni einhvers annars en eigin persónu. Þótt leyndarhyggjan sé leikur einn og öllum ljóst hver stendur á bak við verkin, þá opnar þetta hliðarsjálf möguleikann á annars konar tjáningu. Um leið endurspeglar fyrirkomulagið hversu auðvelt hið kapítalíska samfélag hefur gert einstaklingum að skjóta sér undan persónulegri ábyrgð. Í skjóli markaðskerfisins dafna nautnir, skemmst er að minnast græðgi, sem ella fengist síður útrás fyrir.

Kynferðisleg nautn og líkamleg, kemur við sögu í yfirveguðu og stílfærðu myndmáli Jóhanns. Guðný Kristmannsdóttir fer tjáningarríkari leið að sama efni í flennistórum málverkum sem hún vinnur með ýktri pensilskrift, blæbrigðaríkri áferð og litagleði. Myndefnið sækir hún í náttúruna og gamalgrónar skírskotanir sem tengjast munúð og erótík. Kanínur eru iðulega notaðar í tengslum við kynlífsiðnaðinn og tjá mikla virkni í kynferðismálum. Fiðrildi hafa í samhverfu sinni verið táknmynd kvenskapa, ekki síst kóngafiðrildin sem þrútna út af blóði þegar þau brjótast úr púpum sínum til lífs og bæra vængi sína. Guðný sýnir þessi klisjukenndu viðfangsefni á persónulegan hátt í verkum sínum. Hún ummyndar þau og afmyndar og notar með sjálfstæðum hætti. Hið munúðarfulla og náttúrulega er jafnframt framandgert með vísun í hið hryllilega og mann- gerða án þess þó að í þeirri framsetningu felist stigveldi eða dómur. Guðný fagnar nautninni sam falin er í frjóvgunarferlinu, hvort heldur það á við í kynlífi mannfólksins eða sköpunargleði listamanna. Hún hrífst af hugmyndum súrrealistanna sem höfnuðu ásköpuðum gildum hins borgaralega samfélags og leituðu óheftrar tengingar við undirmeðvitundina þar sem draumar, vonir og þrár fengju útrás í frjálsum leik. Guðný leitar einnig fanga í bókmenntum og hafa einkum tvær skáldsögur verið henni ofarlega í huga við gerð verkanna á sýningunni; Lolita Nabokovs og Hamskipti Kafkas.

Samtöl þeirra sex listamanna sem standa að sýningunni, Nautn / Conspiracy of Pleasure, opnuðu ótal gáttir sem leiða að og frá þessu margslungna hugtaki. Verkin sem borin eru á borð áhorfenda segja hvert sína sögu, persónulega og samfélagslega. Það sem í ljós kemur er að túlkun manna er ærið fjölbreytt enda misjafnt hvað færir hverjum nautn og í hve miklum mæli. Þegar viðfangsefnin ólíku eru lögð til hliðar kemur þó fram skýr samhljómur um að listsköpun heyrir þar undir. Og listin er þeim galdri gædd að eftir að hafa fært listamönnum nautn í sköpunarferlinu margfaldast hún og færir okkur áhorfendum hina skapandi nautn túlkunar.

1 Learning from Las Vegas; Robert Venturi, Denise Scott Brown og Steven Izenour (1972).

2 Variations on a Theme Park; Michael Sorkin (1992).

3 Amusing Ourselves to Death; Neil Postman (1985).

4 Society of the Spectacle; Guy Debord (1967).

5 How We Became Posthuman: Virtual Bodies in Cybernetics, Literature, and Informatics; N. Katherine Hayles (1999).

6 Sæborgin. Stefnumót líkama og tækni í ævintýri og veruleika; Úlfhildur Dagsdóttir (2011).

Sýningarstjórar: Hlynur Hallsson og Inga Jónsdóttir

Nautn

Hugmyndirnar sem liggja til grundvallar þessu verkefni snúast um nautnina; hin ýmsu lögmál hennar og birtingarmyndir sem listamennirnir fjalla um hver frá sínu sjónarhorni og forsendum.

Hverjar eru hringrásir nautnarinnar og girndarinnar? Veruleikinn er þakinn rökréttum götum sem undirmeð- vitundin flæðir í gegnum. Við viljum reyna að þreifa á ímyndunaraflinu í gegnum þverfaglega skörun og skoða fýsnirnar í landslagi langana okkar. Áhugavert er að skoða meðvitaðar, ómeðvitaðar og ósjálfráðar leiðir okkar í leit að nautn.

Í neyslusamfélaginu má víða sjá hugmyndir súrrealistanna í auglýsingum þar sem undirmeðvitundin er oft nýtt til að ná til neytandans. Spilað er á tilfinningar okkar, nautnir og djúpstæðar langanir og hlutir jafnvel blætisgerðir til að höfða til okkar.

Samkvæmt Freud notum við undirmeðvitundina til að kynnast eigin hugarórum. Í gegnum undirmeðvitundina finnum við leiðir til að uppfylla ýmsar hvatir en órar eru grundvöllur þess að við þekkjum langanir okkar.

Hópurinn samanstendur af ólíkum listamönnun og einstaklingum sem með þessu verkefni vilja skapa sameiginlegan vettvang þar sem orðræða um hlutverk nautnarinnar í listum og listsköpun sem og útlínur eða landslag nautnarinnar í víðum skilningi, getur farið fram. Hvort sem fjallað er um þráhyggjukenndar birtingarmyndir neysluhyggju og kynlífs í samtímanum, birtingarmyndir holdsins í sjónlistum, mannslíkamann sem táknrænt fyrirbæri eða innblástur, eða einfaldlega hina frumstæðu nautn sem oft fylgir listsköpun, í glímunni við efni og áferð, efnisblæti, skynjun, lit og rými en einnig dellur, þráhyggju, endurtekningar og áráttu í sköpunarferlinu. Einnig er áhugavert að skoða hvernig listamennirnir skynja hina ólíku miðla sem þeir nota, með tilliti til nautnarinnar.

Markmiðið með þessu samstarfi og sýningarverkefni er að bjóða áhorfandanum þáttöku í umræðu sem á sér stað innan ákveðins ramma sem hverfist í kringum hugmyndir og kenningar um meginlögmál nautnarinnar og hlutverk hennar í lífi okkar.

Anna Hallin og Guðný Kristmannsdóttir

Anna Hallin

Anna Hallin er fædd í Svíþjóð árið 1965 og hefur verið búsett í Reykjavík síðan 2001. Anna hefur meistaragráðu í leirlist frá Háskólanum í Gautaborg og í myndlist frá Mills College, Oakland, Kaliforníu. Hún hefur á ferli sínum tekið þátt í fjölmörgum samsýningum hérlendis og erlendis og haldið einkasýningar hér á landi, í Svíþjóð, Finnlandi og Þýskalandi, svo nokkuð sé nefnt. Verk eftir hana eru m.a. í eigu Listasafns Reykjavikur, Gerðarsafns, Safnasafnsins, Listasafns Reykjanesbæjar og Listasafns Íslands. Anna hefur um árabil unnið að myndlist í samstarfi við myndlistarkonuna Olgu Bergmann. Samstarf þeirra er ekki síst á sviði myndlistar í opinberu rými og sem dæmi má nefna verðlaunatillögu þeirra að listaverkum fyrir nýja fangelsisbyggingu á Hólmsheiði.

www.this.is/ahallin

Birgir Sigurðsson

Birgir (f. 1960) er að mestu sjálfmenntaður í myndlist, en naut um tíma handleiðslu Þorvaldar Þorsteinssonar. Hann hefur haldið 17 einkasýningar og tekið þátt í ótal samstarfsverkefnum. Birgir hefur alltaf leyft sér að vinna allskonar verk; ljósskúlptúra, dansverk, videó, upplestur, póstkort og ljóð, svo eitthvað sé nefnt. En útgangspunkturinn í myndlist Birgis er alltaf hans persónulega reynsla. Árið 2010 stofnaði Birgir 002 Gallerí sem er 63 fm íbúð hans að Þúfubarði í Hafnarfirði. Þar hefur Birgir staðið fyrir 30 sýningum íslenskra samtímalistamanna.

www.002galleri.blogspot.com

Eygló Harðardóttir

Eygló (f. 1964) lauk námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1987 og framhaldsnámi frá AKI – Akademie voor Beeldende Kunst í Enschede Í Hollandi 1990. Árið 2005 lauk hún B.Ed. gráðu frá menntavísindadeild Háskóla Íslands og 2014 lauk hún MA gráðu við listkennsludeild Listaháskóla Íslands. Samhliða listsköpun, sem hún hefur hlotið styrki fyrir og viðurkenningar, hefur Eygló sinnt kennslu bæði í Listaháskóla Íslands og Myndlistaskólanum í Reykjavík að hluta og með hléum. Eygló hefur starfað og sýnt verk sín hér heima og erlendis og verk hennar eru í eigu opinberra safna.

eyglohardardottir.net

Guðný Þórunn Kristmannsdóttir

Guðný (f. 1965) lauk stúdentsprófi af myndlistarbraut Fjölbrautaskólans í Breiðholti 1988. Hún stundaði síðan nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1988-1991 og brautskráðist þaðan úr málaradeild. Skömmu síðar flutti hún til Akureyrar og hefur búið þar og starfað síðan. Fyrstu einkasýningu sína, Teikningar, hélt hún í Gallerí Svartfugli á Akureyri 1998 og var bæjarlistamaður Akureyrar árið 2009. Guðný hefur bæði haldið einkasýningar og tekið þátt í ýmsum samsýningum hér heima og erlendis.

www.gudny.is

Helgi Hjaltalín Eyjólfsson

Helgi (f. 1968) útskrifaðist frá listasviði Fjölbrautaskólans í Breiðholti og sótti síðan nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1988-1991, Kunstakademie Düsseldorf 1991-1992, AKI í Hollandi 1992-1994 og San Francisco Art Institute 1994-1995. Hann hefur verið virkur í sýningarhaldi jafnt hér heima sem erlendis allt frá námsárunum og verk hans er m.a. að finna í safneign Listasafns Íslands og Listasafns Reykjavíkur. Helgi rak sýningarrýmið 20m2 um hríð og hefur sinnt ýmsum störfum tengdum myndlist s. s. stjórnarsetu í Myndhöggvarafélaginu í Reykjavík og Nýlistasafninu, verið í sýningarnefndum og starfað við kennslu. Verk Helga eru oft haganlega unnir smíðagripir sem virðast hafa notagildi en hafa þó ekki. Hann hefur einnig fengist við aðra miðla svo sem ljósmyndir, myndbönd og litaðar teikningar.

Jóhann Ludwig Torfason

Jóhann (f. 1965) stundaði nám við grafíkdeild Myndlista og handíðaskóla Íslands 1985-1989 og við fjöltæknideild sama skóla 1989-1990. Hann hefur haldið 14 einkasýningar og tekið þátt í samsýningum og gjörningum hér heima og erlendis. Verk eftir Jóhann er að finna í opinberum söfnum á Íslandi. Jóhann stofnaði fyrirtækið/verkið Pabbakné árið 2005 og hefur sýnt í nafni þess síðan. Hann er einn stofnmeðlima myndasögublaðsins Gisp og hefur reglulega birt þar sögur og myndasögutengt efni frá 1990. Frá árinu 2006 hefur Jóhann verið umsjónarmaður prent- verkstæðis Listaháskóla Íslands og kennt þar.

www.pabbakne.is

Hér er hægt að hlaða niður sýningarskránni sem pdf.: