Nútímakonur

8. mars – 11. maí 2014

Hrafnhildur Schram

Í Listasafni Árnesinga er að finna þrjú verk eftir listamennina Björgu Þorsteinsdóttur, Ragnheiði Jónsdóttur og Þorbjörgu Höskuldsdóttur. Verkin voru unnin á áttunda áratug síðustu aldar, þeim merka áratug sem oft er skírskotað til sem „kvennaáratugarins“, en nýju kvennahreyfingunni, sem nefnd hefur verið önnur bylgja femínisma, laust niður sem eldingu austan hafs og vestan og fór af stað á fullri ferð. Hér á sýningunni Nútíma­konur gefst gestum tækifæri til að skyggnast inn í myndheim þessara þriggja kvenna, fyrr og nú. Leiðir þeirra lágu fyrst saman þegar þær sem ungar listaspírur, sóttu námskeið í Myndlista­skólanum í Reykjavík, sem þá var til húsa í nú­verandi Listasafni ASÍ við Freyjugötu. Allar eiga þær nú að baki langan og frjóan listferil og hafa ekkert slegið af, eða íhugað að setjast í hinn virðulega „helga stein“. Heiti sýningarinnar Nútímakonur vísar til þess að mótunarár lista­ kvennanna þriggja voru árin eftir heimsstyrjöldina síðari, þegar íslenskt samfélag hafði tekið grund­vallarbreytingum úr hefðbundnu norrænu bænda­þjóðfélagi í nútímavætt borgarsamfélag. Við blasti ný heimsmynd og ungt fólk hleypti heimdraganum eftir einangrun stríðsáranna og hélt utan til náms og starfa og kannski ekki hvað síst, til leitar að sjálfu sér. Árin eftir stríð urðu því uppgangstímar og alþjóðlegir straumar í bókmenntum, myndlist og fatatísku bárust hratt til landsins og settu sterkan svip á þjóðfélag og menningarlíf. Í þessari þróun öðluðust konur stöðugt aukið frelsi, bæði pólitískt, menntunarlega og fjárhags­ og kynferðis­lega. Kynslóðin sem þá óx úr grasi er vafalítið sú kynslóð Íslendinga sem átti meira val um framtíð sína en fyrri kynslóðir, hvað snerti menntun og möguleika til að láta drauma sína rætast. Faglegur metnaður þótti lengi vel ókvenlegur og listakonur áttu langt fram eftir tuttugustu öldinni erfitt upp­ dráttar og voru hreint ekki teknar alvarlega. Það var útbreitt viðhorf að „listræn snilld væri dular­ fullur kraftur sem veittur væri útvöldum karl­ mönnum og aðeins þyrfti að leysa úr læðingi“.¹ Samkvæmt hefðinni voru það karlarnir sem sköpuðu meistaraverkin en konurnar fegruðu heimilin, sem urðu oftar en ekki hlutskipti þeirra listakvenna sem giftust starfsbræðrum sínum. Listakonur sem höfðu tök á að vinna sjálfstætt og völdu að giftast ekki, áttu oft erfitt uppdráttar.

Þær fengu sjaldan opinbera styrki til jafns við karl­menn og bauðst ekki að ganga í samtök lista­manna sem gat auðveldað þeim að koma list sinni á framfæri. Síðustu áratugina hefur áhugi beinst að frumherjum meðal kvenna, sem á sínum tíma nutu hvorki þeirrar athygli né virðingar sem þeim bar, en hafa nú verið dregnar fram í dagsljósið eftir langt rannsóknarferli. Þar má nefna hina sænsku Hilmu af Klint (1862­-1944) en komið hefur í ljós á síðustu áratugum, að hún var byrjuð að mála abstakt myndverk þegar árið 1907, eða 4­5 árum á undan Wassily Kandinsky, sem var einn af brautryðjendum abstraktlistar.² Fransk­bandaríski kvenmynd­höggvarinn, Louise Bourgeois, (1911-­2010) hlaut seint á ferli sínum þá heimsfrægð, sem áður var einungis á valdi karla að öðlast, en þá var hún komin á áttræðisaldur.

Náttúran sem áhrifavaldur.

Manneskjan hefur á öllum tímum mátað sig við náttúruna og er tengd henni órjúfanlegum bönd­ um. Náttúran umlykur allt og alla og það endur­ speglast ekki hvað síst í myndlistinni, hvort sem myndlistarmaðurinn vinnur abstrakt , hugmynda­fræðilega eða á annan hátt. Listasagan er mikilvæg heimild um þessi tengsl en það var þó ekki fyrr en í lok 15. aldar suður í Feneyjum sem náttúran smeygði sér inn í málverkið. Fyrst sem baksvið eða eins konar leikmynd, túlkuð á brotakenndan hátt sem hluti fyrir heildina, „pars pro toto“. Feneyjar­ málararnir voru rómaðir fyrir ljóðræna túlkun sína á sambandi manns og náttúru, litir þeirra voru djúpir og mettaðir og þeir nýttu sér hina nýju tækni sem komin var fram, olíulitina. Oft er því haldið á lofti að Íslendingar hafi fyrst gefið fegurð landsins gaum þegar hún birtist þeim í verkum frumherja íslenskrar landslagslistar, upp úr aldamótunum 1900. Listakonurnar þrjár sem hér sýna hafa allar unnið undir áhrifum frá náttúrunni en á mismunandi forsendum þó. Annað sem er þeim sameiginlegt er skörp og athugul þjóðfélags­rýni sem oft beinist að náttúruvernd, sem var mörgum ungum listamönnum hugleikin og var áberandi í listsköpun áttunda áratugarins.

Björg Þorsteinsdóttir hóf myndlistarnám 1960 hér heima, síðan við Listaháskólann í Stuttgart og lagði mesta áherslu á málverkið næstu árin. en eftir námskeið í ætingu hjá Einari Hákonarsyni við MHÍ 1968-­1969, einbeitti hún sér að grafík og í fram­ haldi af því dró hún saman í fyrstu einkasýningu sína í Unuhúsi, árið 1971 þar sem hún sýndi æt­ingar og akvatintur. Grafíkin náði fljótt mikilli út­breiðslu og grósku á Íslandi og var ákjósanlegur miðill til að koma áleiðis boðskap áratugarins. Hún var einnig lýðræðislegur miðil sem gerði fólki kleift að eignast myndlist á viðráðanlegu verði. Jafnframt því að mála vann Björg að grafík sinni í lengri eða styttri skorpum, allt eftir birtu eða aðsteðjandi verk­ efnum og sýningum. Hún kannaði eiginleika efnisins og vakti athygli fyrir öguð vinnubrögð og hugmyndaauðgi. Árið 1970 hélt Björg til Parísar og stundaði þar nám hjá Bretanum, S.W.Hayter, í vinnustofu hans, Atelier 17, sem skírskotað hefur verið til sem eins konar tilrauna­stofu í málmgrafík, sem hann stofnaði árið 1927. Hayter þróaði einstaka tækni sem kalla má „einnar plötu tækni“ en áður voru margar plötur notaðar fyrir sama lit­ þrykkið. Síðustu stóru grafíkverkin vann Björg um 1987 en sneri sér síðan að málverkinu, eins og margir félagar hennar úr félaginu Íslensk grafík gerðu á þessum tíma. Björg hefur sótt fyrirmyndir sína í nánasta umhverfi og ofur hversdagslega hluti og notað m.a. kvenfatnað; kjóla, hanska og sundboli, sem táknmyndir fyrir konuna, fyrst í grafíkinni en síðar í málverkinu. Margir minnast eflaust málverka hennar af litríkum kjólum sem flögruðu um í óræðu rými en mjúkan fatnaðinn gat hún formað og vöðlað honum saman að vild. Stundum var honum komið fyrir inni í ströngum, geómetrískum grindum sem mynduðu mótvægi við mjúk og frjáls formin. Björg vinnur nú að málverki sínu, sem flokka má undir ljóðræna abstraktsjón, jöfnum höndum með akrýl­ og vatns­litum. Með árunum hefur hún fjarlægst hinn sýni­lega veruleika og litir hennar orðið sterkari og bjartari. Hér sýnir Björg verk þar sem náttúran sjálf hefur orðið henni kveikja að myndefni, m.a. vatnið, litbrigði þess og umhverfi. Hreyfanleiki í pensil­ skriftinni skapar margræða tjáningu á fletinum og höndin leiðir listakonuna áfram að niðurstöðunni til að tjá hughrif og koma þeim í jafnvægi í byggingu og lit. Björg er áhugaljósmyndari og sækist m.a. eftir að taka ljósmyndir af vatni, hafi og speglun­um, en hún notar þó ekki ljósmyndina sem fyrir­ mynd til að mála eftir, þar sem henni finnst að ljós­myndin eigi að vera hún sjálf.

Ragnheiður Jónsdóttir lagði stund á teikninám í Reykjavík og síðar í Kaupmannahöfn og hóf opin­beran sýningarferil sinn sem listmálari með einka­sýningu í Casa Nova, byggingu Menntaskólans í Reykjavík, árið 1968. en eftir grafíknámskeið í MHÍ hjá Einari Hákonarsyni, söðlaði hún um yfir í grafík og tók þátt í fyrstu sýningu hins nýendurreista félags Íslensk grafík árið 1970. Sama ár hélt Ragn­heiður til Parísar, ásamt Björgu Þorsteinsdóttur, þar sem þær unnu að grafík sinni sumarlangt í Atelier 17, hjá meistara Hayter. En hann var einn áhrifa­ mesti grafíklistamaður tuttugustu aldarinnar og vann að útbreiðslu grafíklistar á heimsvísu með öllum fremstu myndlistarmönnum samtímans, þar á meðal Wassily Kandinsky, Pablo Picasso og Joan Miró.

Um miðjan áttunda áratuginn höfðu viðhorf almennings breyst og skilningur á samtímalist aukist, ekki hvað síst í því að gera konur sem unnu að listrænni sköp­un sýnilegri. Fram óx félags­raunsæi sem vísaði í veru­leika þessara umbrotatíma og konur fóru að túlka sjálfar sig og stöðu sína út frá eigin forsendum og skapa list sem endurspeglaði líf þeirra. Hinn títtnefndi „reynsluheimur kvenna“ sem sprottinn var úr sameiginlegri reynslu varð gjaldgengur og sýnilegur sem myndefni, jafn rétthár og hvað annað og bar um leið með sér sameiginlega mannlega merkingu. Kvennafrídagurinn 24. októ­ber, á alþjóðlegu kvennaári Sameinuðu þjóðanna árið 1975, varð Ragnheiði tilefni til grafíkverka sem eru í huga margra táknmyndir þeirrar samstöðu og samkenndar sem einkenndu þennan dag. Á einka­sýningu hennar í Norræna húsinu ári síðar varð ljóst að hún átti erindi við þjóðina. en þar sýndi hún á táknrænan hátt, í yfir fjörutíu grafíkætingum, það sem svo margir höfðu viljað segja og stakk á mörgum samfélagsmeinum af innsæi og hugrekki. ekki hvað síst sinnuleysi og vanvirðingu við náttúruna. Í upphafi tíunda áratugarins hófst nýtt tímabil í list Ragnheiðar, en hún hefur tjáð sig um frelsistilfinninguna sem hún fann fyrir þegar hún lagði grafíkina til hliðar, að mestu, og sneri sér að því að teikna með kolum á pappír. Í óhlutbundnu kolamyndröðunum Storð og Slóð, sem eru efnislega í rökréttu framhaldi af grafíkinni er viðfangsefnið enn sem fyrr sambýli manns og náttúru. Þar birtist sú sýn öllu óvægnari en fyrr en síðustu teikningarnar í röðinni Storð sýna sviðið land, feyskin strá, iðandi ormabæli og að lokum líflaust land.

Þorbjörg Höskuldsdóttir valdi snemma sinn mynd­heim, náttúru Íslands, sem hún hefur haldið tryggð við og túlkað sleitulaust síðustu fjóra áratugina. Það er ljóst að hún ber sterkar tilfinningar til land­sins og tekst að miðla þeim á einkar persónulegan og einlægan hátt. Þótt alheimurinn virðist endalaus er því ekki svo farið með auðlindir náttúrunnar. Eld­ur, vatn og vindar eru ekki lengur ein um að móta landið heldur einnig maðurinn sem umbreytir nátt­úrunni eftir geðþótta sínum. Afleiðingarnar eru oft­ast nær óafturkallanlegar en það er ekki hvað síst samband manns og náttúru sem Þorbjörg ber fyrir brjósti. Fyrsta einkasýning Þorbjargar stóð í Gallerí SUM í reykjavík árið 1972 og þar birtist löndum hennar fyrst sá fjallageimur sem hún átti eftir að halda tryggð við og endurnýja í tímans rás. Á námsárum sínum í listaháskólanum í Kaupmanna­höfn lagði hún sérstaklega fyrir sig fjarvíddar­ teikningu og var um tíma eini nemandinn í þeirri grein innan skólans.

Þorbjörg hefur nýtt sér þessa sérþekkingu sína, því í mörgum verka hennar myndar fjar­ víddarteikning eins konar burðargrind eða kemur inn sem mótvægi við lífræn form náttúr­unnar. oft má sjá minni frá klassíska tímanum í formi rómverskra boga, súlna, flísagólfa eða öðrum brotum af arki­tektúr sem kalla fram óvænt hugmyndatengsl við að sjá gamlan heim tengjast ungri menn­ingu og kunnuglegu landslagi. Án þess að segja of mikið eða pré­dika bregður listakonan oft upp nöturlegri fram­tíðarsýn, þar sem áhorf­andinn skynjar undir­ liggjandi ógn en samt er lúmsk kaldhæðnin aldrei langt undan.

Þorbjörg leitar gjarnan uppi formsterk og gróðursnauð fjöll, á hálendinu eða Reykjanesskaganum. Hún velur af kostgæfni sjónarhornið og rýnir í form, liti, og áferð, dregur fram teikniblokk og rissar upp á blað þau mögnuðu áhrif sem fylgja bæði veðri og vindum. en umfram allt tekur hún fjölda ljósmynda til að fanga hvika birtuna eða þokuslæðing sem líður hjá. Besti tíminn er á haustin þegar loftið er tært og skuggarnir langir en henni hugnast þó ekki að mála í sterku sólskini, þar sem litirnir verða daufari. Litaspjaldið eru jarðlitirnir og blæbrigði blárra lita en græni liturinn lýsir með fjarveru sinni. Við þekkjum fjöllin um leið og við sjáum þau í málverkum Þorbjargar en stundum er það titillinn sem vísar veginn. en eftir það verða þau í huga okkar allt önnur og við sjáum þau með hennar augum sem einstök, dulmögnuð og yfirnáttúrleg fyrirbæri

¹Linda nochlin: Why Have There Been no Great Women Artists? ( Sic) Art news, 1971

²Abstraktið, hið óhlutbundna málverk, varð til nánast samtímis á mismunandi stöðum skömmu fyrir fyrra stríð: hjá Wassily Kandinsky í München, Piet Mondrian í París og Kasimir Malevitsj í Moskvu.

Listamenn

Björg Þorsteinsdóttir

Björg er fædd 1940. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1960 og teiknikennaraprófi frá Handíða­ og myndlistaskóla Íslands árið 1964. Hún stundaði einnig nám í grafík við sama skóla, sótti tíma í teikningu og málun við Myndlistaskólann í Reykjavík í þrjú ár og var við nám við Staatliche Akademie der bildenden Künste í Stuttgart um skeið. Á árunum 1971­-1973 var Björg styrkþegi frönsku ríkisstjórnarinnar og lagði stund á málmgrafík við Atelier 17 hjá S.W. Hayter og steinþrykk við École Nationale Supérieure des Beaux Arts í París.

Í upphafi myndlistarferils síns málaði Björg einkum olíumálverk en á fyrstu einkasýningunni, 1971 sýndi hún þó eingöngu ætingar. Næstu ár á eftir fékkst Björg aðallega við grafík en í seinni tíð hefur hún lagt mesta rækt við málun. Á ferli sínum hefur hún málað, teiknað, unnið í grafík og gert collage­verk. Hún hefur haldið yfir 30 einkasýningar og tekið þátt í fjölda alþjóðlegra samsýninga í flestum löndum Evrópu, nokkrum löndum Asíu og Afríku, í Bandaríkjunum og Ástralíu. Verk Bjargar er að finna í fjölmörgum opinberum söfnum og einkasöfnum hér heima og erlendis, m.a. í Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur, Bibliothèque Nationale, París, Museet for Internasjonal Samtidsgrafikk, Fredriksstad í Noregi, Museo nacional de Grabado Contemperaneo, Madríd á Spáni og víðar. Hún hefur hlotið alþjóðlegar viðurkenningar og fengið starfslaun úr Launasjóði myndlistarmanna.

Björg hefur verið stundakennari við Myndlista-­ og handíðaskóla Íslands og Myndlistaskólann í Reykjavík og var forstöðumaður Safns Ásgríms Jónssonar, 1980­1984. Hún hefur starfað að félagsmálum myndlistarmanna og sat í fulltrúaráði Listasafns Sigurjóns Ólafssonar.

Ragnheiður Jónsdóttir

Ragnheiður er fædd 1933. Myndlistaráhuginn vaknaði snemma en ferill hennar er líka samofinn hlutverki hennar sem móðir fimm sona sem fæddir eru á árunum 1954-­68. Ragnheiður varð stúdent frá Verslunarskóla Íslands 1954. Hún sótti námskeið í Myndlistaskóla Reykjavíkur á árunum 1959-­61 og 1964-­68 og meðal kennara voru Erró og Ragnar Kjartansson, sem í kjölfarið bauð henni vinnu í Glit. Árið 1962 sótti hún einnig teiknitíma í Glyptótekinu í Kaupmannahöfn. Hún nam síðan við Myndlista­ og handíðaskóla Íslands, grafík hjá Einari Hákonarsyni 1968-­70. Ragnheiður dvaldi í París 1970 þar sem hún nam grafík m.a. við Atelier 17 hjá S.W. Hayter.

Árið 1966 var verk eftir Ragnheiði valið á haustsýningu FÍM og 1968 opnaði hún sína fyrstu einkasýningu á málverkum. eftir það snéri hún sér alfarið að grafík, ætingum, og kom sér upp vinnustofu með eigin pressu. Um 1990 tók við ný áskorun þegar hún fór að teikna stóru kolamyndirnar. Hún á að baki tugi einka­ og samsýninga víða um heim sem og hér á landi. Verk hennar er að finna í fjölmörgum opinberum söfnum og einkasöfnum hér heima og erlendis, m.a. í Listasafni Íslands, Listasafni reykjavíkur, Bibliothèque Nationale í París, Museum of Moden Art í Helsinki. Henni hafa hlotnast alþjóðlegar viðurkenningar og hún hefur notið starfslauna úr launasjóði íslenskra myndlistarmanna.

Ragnheiður átti þátt í því að endurreisa félagið Íslensk Grafík 1969 og sat þar í stjórn og sömuleiðis í stjórn Félags íslenskra myndlistarmanna, FÍM um tíma. Hún tók einnig þátt í rekstri Gallerís Grjóts ásamt fleiri listamönnum á árunum 1983 – 1989.

Þorbjörg Höskuldsdóttir

Þorbjörg er fædd árið 1939. Hún stundaði nám við Myndlistaskólann í Reykjavík 1962­-1966 og vann jafnframt við keramíkhönnun hjá Glit undir stjórn Ragnars Kjartanssonar og Hrings Jóhannessonar. Árið 1967 hélt hún til Kaupmannahafnar til að nema við Konunglegu listaakademíuna hjá prófessor Hjort Nielsen og útskrifaðist þaðan 1971. Að loknu námi snéri Þorbjörg aftur heim og hefur átt langan og farsælan feril sem myndlistarmaður. Hún hefur fyrst og fremst fengist við olíumálverk en einnig leikmyndagerð, grafík og teikningar fyrir bækur. Viðfangsefni hennar hefur gjarnan verið íslenskt landslag en með því að fella inn í það byggingarlist með klassískri fjarvíddarteikningu leggur hún áherslu á viðkvæmt samband manns og náttúru.

Fyrstu einkasýninguna hélt Þorbjörg í Gallerí SÚM árið 1972 og síðan hafa fylgt fjölmargar einkasýningar og þátttaka í samsýningum, einkum hér á landi en einnig í Danmörku og verk eftir hana er að finna í öllum helstu listasöfnum landsins. Ásamt fleiri listamönnum tók hún þátt í rekstri Gallerí Grjóts sem starfrækt var 1983–1989 á Skólavörðustígnum. Hún hefur einnig starfað að félagsmálum myndlistarmanna og sat m.a. í stjórn FÍM. Þorbjörg hefur hlotið starfslaun úr Launasjóði íslenskra myndlistarmanna og frá árinu 2006 hefur hún verið handhafi heiðursverðlauna frá Alþingi Íslendinga.

Sýningarstjóri: Hrafnhildur Schram ­

Hrafnhildur Schram lauk licentiatsprófi í listasögu frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð. Hún hefur starfað sem safnstjóri Listasafns Ásgríms Jónssonar, Listasafns Einars Jónssonar og verið deildarstjóri í Listasafni Íslands.

Hrafnhildur hefur kennt listasögu, ritað listgagnrýni og fjölda greina um íslenska myndlist í blöð og tímarit og unnið heimildarmyndir fyrir sjónvarp um íslenska myndlistarmenn. Hún hefur unnið að rannsóknum á íslenskum myndlistar­konum og er höfundur fyrstu sérbókar um íslenska myndlistarkonu, Nínu Tryggvadóttur. Árið 2005 sendi hún frá sér bókina Huldukonur í íslenskri myndlist sem fjallar um fyrstu konurnar sem sigldu til myndlistarnáms í Kaupmannahöfn. Hrafnhildur starfar nú sem sjálfstæður fræðimaður og rit­höfundur auk þess að starfa sem sýningarstjóri. Árið 2008 vann hún sýningu um listmálarann Höskuld Björnsson í Listasafni Árnesinga.

Hér er hægt að hlaða niður sýningarskránni sem pdf.: